Jón Kalman Stefánsson: Himintungl yfir heimsins ystu brún.
Benedikt, 2024.
Ég las fyrir hana það sem komið var og sagði henni frá minni óvissu; af öllu því sem sótti að mér. Að það væru svo margar sögur, jafnvel óteljandi, sem vildu komast að. Og láta mig ekki í friði. Engu líkara en þær vilji þröngva sér inn í mig og taka þar viljann minn yfir. Já, hreinlega breyta mér í einn penna sem færi þær til bókar.(54)
Sviðið
Sögulega skáldsagan lifir góðu lífi á okkar dögum. Í fyrra fannst mér flóðið jafnvel bera þess merki að við værum hreinlega að lifa blómaskeið þessa bókmenntaforms, hvort sem mælt væri í magni, gæðum eða – kannski öðru fremur – fjölbreytni. 2023 var heldur ekkert einstakt tilfelli hvað þetta varðar, eins og sést best á því að það ár var stund milli stríða í tveimur viðamiklum og umtöluðum sagnabálkum á þessu sviði: Segulfjarðarsögum Hallgríms Helgasonar og verki Sigríðar Hagalín Björnsdóttur um Ólöfu ríku og hennar fólk.
Fjölbreytnin í efnistökum og – að svo miklu leyti sem er æskilegt að velta því fyrir sér – ætlun höfunda sem sækja í þennan efnisbrunn og byggja á formi og hefðum sögulegs skáldskapar, er verðugt rannsóknarefni út af fyrir sig. Nærtækt væri til dæmis að lesa saman bækur Einars Más Guðmundssonar og Ófeigs Sigurðssonar um Kambsránið. Eða gera athugun á hvernig ólíkir höfundar vinna með málsnið fortíðarinnar í verkum sínum. Hvernig hljómar íslenska átjándu aldar hjá Bergsveini Birgissyni eða tungutak þeirrar nítjándu í verkum Sölva Björns Sigurðssonar? Hvað gerist þegar minni áhersla er lögð á þennan þátt, eins og í Blóðbergi Þóru Karítasar Árnadóttur, sagnabálkum Vilborgar Davíðsdóttur eða Kambsránsbókum Einars Más?
Einna veigamest í þessari ímynduðu rannsókn á sögulegum skáldskap íslenskum á fyrsta fjórðungi 21. aldarinnar myndi samt líklega vera samspil nútímans, eða ritunartímans réttara sagt, og sögusviðsins. Hvernig brýnustu umhugsunarefni samfélagsins, eins og þau blasa við höfundunum, kalla þá að tilteknum viðfangsefnum, stýra því hvernig þeir móta aðalpersónur sínar og gera þeim kleift að svara hinni áleitnu en yfirborðskenndu spurningu sem þeir fá óhjákvæmilega í kynningarferli bókarinnar: „Hvaða erindi á þessi saga við okkur í dag?“
Eitt af áberandi stefjum sem ég hef heyrt í sögulegum skáldskap, bæði íslenskum og erlendum, undanfarin ár er tilhneiging til að gera söguhetjurnar nútímalegar í meira mæli en oft hefur verið tískan. Að nota aðalpersónurnar sem nokkurs konar fulltrúa lesendanna til að kanna hinn fjarlæga og oft fráhrindandi og óréttláta heim fortíðarinnar. Öfgafullt dæmi um þessa nálgun er Bálviðri eftir Kiran Millwood Hargrave, sem kom út á íslensku vorið 2021, þar sem aðalpersónan virðist hvorki trúa á guð né galdra, þó hvort tveggja sé næsta sjálfgefið í Noregi á sautjándu öld, og hefur áhyggjur af því að hár barnanna hennar sé fitugt og lyktin sem hún fæddist inn í vond.
Jón Kalman Stefánsson gengur að því er virðist meðvitað á hólm við þessar helstu áskoranir sögulegu nútímaskáldsögunnar í sinni nýjustu bók. Séra Ólafur hefur í boði höfundar síns innsýn í hugmyndir og siðvitund beggja tímanna. Það tekur svo sannarlega á, bæði fyrir hann, höfund hans og mögulega lesandann um leið.
Sagan
„Það er gott að skrifa bréf, þú dvelur hjá sjálfum þér á meðan, hugsar máske eitthvað óvænt, æfir þig í að móta þína hugsun í fastar setningar.“ (32)
Að kalla Himintungl yfir heimsins ystu brún sögulega skáldsögu um baskavígin 1615 er í sjálfu sér ekki rangt en segir langt í frá alla söguna. Um leið mætti lýsa formi hennar sem bréfi sem sögumaður verksins og aðalpersóna skrifar dóttur sinni, en aftur er málið öllu flóknara. Séra Pétur á Meyjarhóli byrjar bréfið sitt áður, þegar fyrrnefndur meginatburður er ennþá einungis yfirvofandi, en gerir nokkur hlé á bréfaskriftunum sem marka nokkurn veginn kaflaskil bókarinnar.
Framan af rekur Pétur sögu sína, uppruna og leið sína í prestskap vestur á fjörðum. Daglegt líf á prestsetrinu er alltaf hluti þess sem honum þykir í frásögur færandi, sama hversu dramatískir atburðir eru annars til frásagnar. Enda er heimilisfólk og húsdýr þar vel í frásögur færandi – hin ólæsa en minnuga og fjölvísa húsfreyja Dórótea, villibarnið Guðmundur sem hefur fengið skjól á Meyjarhóli eftir að hafa tilheyrt umrenninga- og þjófagengi, tíkin Saffó og kötturinn Kleópatra.
Pétur elst upp á Hólum í Hjaltadal, í skjóli Guðbrands biskups. Er settur til mennta og kynnist bæði sollinum og bókmenningu samtímans á Kaupmannahafnartíma sínum. Hann sér fyrir sér fræðimannslíf á biskupssetrinu undir handarjaðri Guðbrands og Arngríms lærða að námi loknu, en óstýrilátt hold hans verður til þess að honum er veitt afskekkt brauð til að stía honum frá konum sem ekki eru honum ætlaðar. Ekki þó áður en fyrrnefnd dóttir kemur undir, með Álfdísi, fylgdarkonu Kristínar, dóttur Guðbrands biskups og eiginkonu Ara í Ögri. Fyrst er Pétur í Dölunum en þegar bréfaskriftirnar hefjast er hann kominn að Meyjarhóli á Brúnasandi, á sögusvið Baskavíganna.
Eða hvað? þessi örnefni finnast ekki svo auðveldlega á kortum af Vestfjörðum. Það sama gildir um Vetrarströnd, Sandvík og Kaldavík þar sem ódæðin eiga sér stað í þessari sögu, ólíkt Íslandssögunni. Aðrir staðir eru auðfundnari: Ögur, Hólar, Þingvellir, Kaupmannahöfn. Segja má að eftir því sem horft er lengra frá kjarnaviðburðum skáldsögunnar og nær hinni skjalfestu sögu verði landslagið kunnuglegra.
Sama má segja um fólkið. Ekki er auðvelt að finna ummerki um séra Pétur í nágrenni hins sögulega stórviðburðar. Alla vega ekki með snöggri athugun á skrifum um atburðina. Ýmislegt í ævi hans, eins og henni er lýst í bók Jóns, ber með sér að hann væri umtalaður mjög og af honum sagðar sögur, varðveittar hjá skrásetjurum þjóðlegs fróðleiks.
Á hinn bóginn er fjöldinn allur af persónum sem nefndar eru til sögu og eiga jafnvel leið um hlaðið á Meyjarhóli, ættuð úr raunveruleikanum. Þessi samflétting er vitaskuld viðtekin vinnubrögð í samsetningu sögulegs skáldskapar og tekst ágætlega hér.
Þegar fram í sækir víkur persónusaga Péturs í aðdraganda prestskaparins á Meyjarhóli fyrir stóratburðum Íslandssögunnar. Um leið harðnar sálarstríð hans og baráttan fyrir því að hans mynd af því sem gerðist verði ekki undir í áróðursstríði Ara og liðsmanna hans um hvernig rétt sé að lýsa aðförunum: Voru þetta grimmileg morð eða nauðsynleg landvörn? Hefur séra Pétur styrk til að standast skuggalegar hótanir og kúgunartilburði andstæðinga sinna?
Þar fyrir utan er einkalíf hans vægast sagt flókið og gengur gegn siðferðishugmyndum aldarinnar á afgerandi og vafalaust hættulegan hátt.
Pétur er umburðarlyndur prestur. Þó hann sé rétttrúaður, að sinnar aldar hætti, er sú trú tempruð hans eigin lífsreynslu, og auðvitað öllum ástarskáldskapnum, forna og nýja, sem hann hefur lesið og lifir á. Hann fær ekki af sér að horfa vandlætingaraugum á ungu stúlkurnar í sveitinni sem gera sér ferð upp að heitu lindinni þar sem ensku duggararnir baða sig. Og hann er vissulega á kafi í fornum skáldskap og fræðum íslenskum sem hafa varðveist frá heiðinni tíð og hefur ekki í sér að fordæma þau rit, eins og sumir samtímamanna hans. Honum þykir miður þegar einn liðsmaður Ara í Ögri hefur vafið um legginn blaði úr heilagri ritningu, sér til varnar, þykir þar farið nokkuð nærri galdri, en hann skilur manninn engu að síður vel og aðhefst ekkert.
Er afstaða séra Péturs til málefna ástar og stríðs í umhverfi sínu hugsanleg í ljósi aldarfars og hugmynda um siðferði í Norður-Evrópu í upphafi sautjándu aldar? Eða er eðlilegra að líta á hann sem dæmi um fulltrúa nútímans – eða jafnvel höfundar síns – á vettvangi þar sem allt önnur lögmál ríkja en okkur hér og nú þykja ásættanleg? Þessi spenna á sinn þátt í að skapa áhrif Himintungla yfir heimsins ystu brún.
Ástin
„Eru, elskuleg, þessi skrif mín hér máske söngur míns hjarta, það innra samtal sem aldrei heyrist; er það að skrifa að opna hjartað, breyta því í söng, dimman sem bjartan, fagran sem óþægilegan? Ég veit það ekki.“(223)
Þó vald og ótti sé kveikjan að þeim miklu sögulegu óhæfuverkum sem ríkja yfir atburðum síðari hluta bókarinnar er það ást, og bróðir hennar lostinn, sem ræður för í lífi aðalsöguhetjunnar, allt þar til hann finnur sig knúinn til að taka afstöðu gegn valdinu og vitna um það sem hann sá í aðförinni að basknesku hvalveiðimönnunum, og var sjálfur narraður til að taka óbeinan þátt í.
Ástin og lostinn er oftast í meinum, og stundum hreinlega ekki af þessum heimi, eins og amma hans, Úma Narfadóttir, sem talið er að sé af huldufólkskyni á Ströndum. Ástir hennar og Magnúsar Finnssonar eru í meinum, og þannig er um flest samböndin sem koma við sögu og hverfast um séra Pétur.
Stóra ástin í lífi hans er Helga Snorradóttir, sem hann hittir ungur á Þingvöllum og elskar alla ævi, en fær ekki að eiga. Hún býr á Hofi, í næsta nágrenni Meyjarhóls, með manni sínum Þorvaldi, sem er Pétri bæði líkn og þraut.
En það er ekki eini ástarþríhyrningurinn á Hofi, því Þorvaldur er samkynhneigður og á elskhuga að nafni Sebastian, sem er einn af hvalveiðimönnunum, en hann hefur einnig átt vingott við Einar, einn af sveinum Ara í Ögri.
Enn einn þríhyrningurinn er síðan samband Péturs við aðra nágrannakonu sína, Katrínu á Brekku, en það samband er – ólíkt hinu lengst af platónska sambandi við húsfreyjuna á Hofi – ástríðuþrungið og líkamlegt. Eitt dramatískasta atriði bókarinnar er þegar Pétur og Hákon, bóndi Katrínar, lenda í háska í klettóttri hlíð. Pétur telur víst að Hákon hyggist nota tækifærið og ráða sig af dögum en örlögin grípa í taumana: Hákon hrapar en Pétur nær að bjarga honum.
Þá má nefna einn þríhyrninginn til, en Álfdís, barnsmóðir Péturs er gift kona.
Óhætt er að segja að þetta mikla ástríðunet gangi nokkuð hart gegn tíðarandanum, en ekkert af þessu hefur nein réttarfarsleg eftirmál í bókinni, þó áhrifin á sálarlíf og ákvarðanir persónanna séu afgerandi.
Lesandinn fær síðan örlitla innsýn í harðýðgi aldarinnar í örlögum Þorbjargar, sem lifir í skjóli Brekkuhjóna meðan hún gengur með barn sem hún á með mági sínum og verður drekkt á Þingvöllum um leið og það er fætt. Æðruleysi í boði trúarvissu þessa unga fórnarlambs refsigleðinnar er ekki síður til marks um aldarfarið en grimmdin, nokkuð sem mörgum höfundum sögulegra skáldsagna hefði sést yfir, en ekki Jóni Kalman, sem er skáld fegurðarinnar fyrst og dramatíkurinnar næst.
Orðin
„Drottinn einn veit allt, það verður aldrei of oft sagt. Sverðið heggur, það ógnar, en á endanum er það penninn sem dæmir hér í mannheimum.“ (63)
Ef þríhyrningar einkenna sambönd og afstöðu helstu persóna eru pör ekki síður mikilvæg byggingareining. Og auðvitað eru þríhyrningar af því tagi sem fyrr voru nefndir samansettir af tveimur pörum hver.
En þau eru víðar. Í átökum sögunnar, í glímunni um tvenns konar sannleika í atvikalýsingum víganna. Milli mildrar trúarafstöðu séra Péturs og harðneskju Jóseps kirkjusmiðs og séra Jóns, einkaprests höfðingjans í Ögri. Í arftekinni heimsmyndinni sem kristnin sótti til Forn-Grikkja og gerði að sinni, en hrykktir nú í fyrir tilverknað sjónaukatækninnar og þekkingarþrár Galíleós og annarra vísindamanna. Í biblíuskilningi þar sem refsigleði og mildi takast ævinlega á.
Síðast en ekki síst einkenna andstæðupör einatt sjálfan textann hjá Jóni Kalmani. Hér eru það penninn og sverðið sem snemma í sögunni eru sögumanni hugleikin tákn. Og ekki einber tákn, því sverðin eru svo sannarlega á lofti og Pétur hefur mundað skriffæri sín til að andæfa mætti þeirra. En við sjáum líka fleiri tvenndir í textanum. Myrkur og ljós. Menn og djöfla. Ást og hatur.
Jón Kalman er höfundur með sterk einkenni á málsniði sínu og persónusköpun. Málið er gjarnan ljóðrænt og upphafið, fegurð textans virðist vera eitt af erindum höfundarins. Það þarf ekki að lesa margar síður í þessari nýjustu skáldsögu til að vita hver stýrir penna séra Péturs. Engu að síður endurómar raddblær fortíðarinnar hér líka, í sátt og samlyndi við hinn „Kalmanska“ tón.
Hér hittir Pétur Katrín á Brekku í fyrsta sinn:
Með sitt síða, rauða hár, með sín grænu augu; og undir þeirri yfirvegun og virðuleika sem hún bar svo fallega og fyrirhafnarlaust, þóttist ég skynja óvenjulegt hikleysi, já, og hvatvísi eða örlyndi. Ég sá að hennar neðri vör hvíldi þannig á systur sinni og hugsaði, gat ekki stöðvað mig þar: Þessar varir eru koss. (116)
Orð eins og „hikleysi“ og „örlyndi“ setja fornan blæ á textann og orðaröðin „hennar neðri vör“ færir lesandann kirfilega aftur í aldir. Lokaorðin fjögur eru síðan eins hreinræktaður Jón Kalman og hægt er að óska sér.
Fegurðarnautnin einkennir textann, en er líka gjarnan höfuðeinkenni aðalpersóna Jóns Kalmans. Þær sækja gjarnan styrk sinn og heimsmynd í skáldskap. Eiga athvarf í orðum og annarri list, einkum tónlist, bæði af „æðra“ tagi og úr dægurmenningunni. Hvernig reiðir þessum einkennum af í sögulegum veruleika sautjándu aldarinnar?
Þó engir gulir kafbátar sigli innan um hvalina sem óbeint hleypa meginatburðunum af stað, og aldir séu í það að Elvis fæðist, eru skáld aldarinnar aldrei langt undan hugarheimi séra Péturs. Bæði klassísk á borð við Saffó, Katúllus og Óvíð, en líka síðmiðaldamaðurinn Petrarca og svo sjálfur Shakespeare, sem er nýsestur í helgan stein þegar atburðirnir gerast.
Síðast en ekki síst er það auðvitað heilög ritning sem á huga séra Péturs. Þar er hann í senn barn síns tíma og fulltrúi nútímaviðhorfa. Trúarsannfæring hans er hluti af sjálfgefinni heimsmynd aldarinnar, en um leið sjáum við hann mæta samkynhneigð nágranna sinna og eigin óstýrilátu kenndum með kristilegu umburðarlyndi sem er öllu líkara viðhorfum sem við heyrum frá kristnu kennivaldi í dag, í það minnsta í okkar heimshluta.
Glíma Péturs við að sætta mótsagnirnar milli „siðferðisins í brjóstinu“, sem hann telur guðlegt, og skilur sem slíkt, og stigveldis valdsins, sem sækir réttlætingu sína á endanum til þessa sama Guðs, er kannski mikilvægasta tvenndin í Himintunglum yfir heimsins ystu brún.
Þetta er efnismikil og viðburðarík söguleg skáldsaga, full af ytri og innri átökum, sem einkennist af órólegu og spennuþrungnu samspili fortíðarinnar sem lýst er og nútíðarinnar sem horfir á, túlkar og blandar sér óhjákvæmilega í.
Þorgeir Tryggvason