Saga Tímarits Máls og menningar

Við lifum á öld hinnar fullkomnu tækni. Það er orðið léttara en nokkru sinni áður að vinna auðinn úr skauti náttúrunnar. Löndin eru orðin ríkari, hönd mannsins og hugvit slyngari að knýja náttúruna til óþrjótandi gjafa. Tæknin hefur skapað nýja atvinnuhætti og ný menningarskilyrði. Einmitt nú eiga sér stað í heiminum stórkostlegri framfarir en nokkur dæmi þekkjast til áður úr sögu mannkynsins.

Nú er svo langt komið þroska og hæfni mannsins, að hver einstaklingur ætti að hafa möguleika til að lifa ríkulegu og menntandi lífi. Nú eru ekki tímar til bölsýni eða úrræðaleysis, heldur bjartsýni og viturlegrar notkunar á valdi tækninnar í þjónustu mannfélagsheildarinnar. Nú eru tímar til aukinnar þróunar, en ekki tortímingar á lífi og menningu þjóðanna.

Þetta eru upphafsorðin í ritstjórnargrein lítils heftis sem kom út í mars árið 1938 á vegum bókaútgáfunnar Heimskringlu í Reykjavík sem rak bókmenntafélag – eins konar bókaklúbb – undir heitinu Mál og menning. Þetta fyrsta rit ber einfaldlega nafnið Mál og menning en strax næsta hefti, sem kom út í september 1938, heitir Tímarit Máls og menningar.

Heimskringla hafði gefið út ársritið Rauða penna frá 1935 með sögum, ljóðum og greinum, en Kristinn E. Andrésson útgáfustjóri boðar í inngangsorðum sínum að litla heftinu að það eigi að kynna útgáfubækur Máls og menningar og Heimskringlu og verði látið fylgja ókeypis til félagsmanna. Svo var gert um tveggja ára skeið. Alls komu út átta hefti á árunum 1938–9 með fréttum af útgáfunni og starfsemi bókmenntafélagsins, greinum um ýmis mál sem á döfinni voru í samfélaginu og umsögnum um nýjar bækur. Til dæmis eru í þessu allra fyrsta smáriti stuttar greinar um byggingu Þjóðleikhúss, menningarmál sveitanna, nýju háskólabygginguna, Tónlistarfélagið, ungmennafélögin, inntökuskilyrðin í Menntaskólann í Reykjavík, flugmálin og væntanlega þátttöku Íslendinga í Heimssýningunni í New York 1939. Einnig er þar viðtal við Þórberg Þórðarson um nýja bók sem hann er með í smíðum og umsagnir um fáeinar bækur félagsins.

Ekki varð Kristni að ósk sinni um lát á tortímingu manns á manni því 1939 hófst hrikalegasti hildarleikur í sögu Evrópu sem stóð í sex ár. Þrátt fyrir það var ákveðið árið 1940 að sameina Rauða penna og litla tímaritið undir heiti þess síðarnefnda, Tímarit Máls og menningar. Mun það „flytja sögur, kvæði, ritdóma og greinar um hvers konar menningar- og þjóðfélagsmál,“ segir í inngangi fyrsta heftisins og „er ætlað að koma út þrisvar á ári, alls 15 arkir á stærð“. Fyrstu tíu árin er hvert hefti aðeins merkt mánuði og ári, en frá og með 1950 eru heftin merkt árgangi og er þá talið frá 1940, litlu heftin ekki talin með. Þess vegna er árgangurinn 2019 sá 80. þó að nafnið Tímarit Máls og menningar megi rekja aftur til ársins 1938.

Allar götur síðan hefur saga TMM verið óslitin. Mörg árin komu vissulega út aðeins tvö hefti en aldrei færri en það, flest árin komu þrjú eða fjögur hefti og allt upp í fimm. Með því að fletta í gegnum árgangana má fá glögga mynd af menningarlífi þjóðarinnar og skoða verk ótal rithöfunda og skálda sem sum voru virt og vinsæl en önnur að stíga sín fyrstu skref á listabrautinni. Stundum urðu þau skref ekki fleiri en fleiri voru þó sem héldu áfram og unnu sig upp í virðuleg sæti. Þrisvar hefur verið gefið út ítarlegt efnisyfirlit TMM, fyrst árið 1978 yfir árin 1940–1976, næst 1987 yfir árin 1977–1986 og loks 1997 yfir árin 1987–1996. Auk þess er yfirlit yfir árganginn í síðasta hefti hvers árs.

Ritstjórar Tímarits Máls og menningar

Kristinn E. Andrésson (1940–1970), Jakob Benediktsson (1946–1975), Sigfús Daðason (1960–1976) Þorleifur Hauksson (1977–1982), Silja Aðalsteinsdóttir (1982–1987), Vésteinn Ólason (1983–1985), Guðmundur Andri Thorsson (1987–1989), Árni Sigurjónsson (1990–1993), Friðrik Rafnsson (1993–2000), Ingibjörg Haraldsdóttir (1993–2000), Brynhildur Þórarinsdóttir (2001–2003), Silja Aðalsteinsdóttir (2004–2008), Guðmundur Andri Thorsson (2009–2017), Silja Aðalsteinsdóttir (2018), Elín Edda Pálsdóttir og Sigþrúður Gunnarsdóttir (2018–)