Soffía Auður Birgisdóttir. Ég skapa – þess vegna er ég: Um skrif Þórbergs Þórðarsonar.

Ég skapa – þess vegna er ég: Soffía Auður BirgisdóttirOpna, 2015.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2017

Það tekur ekki ýkja langan tíma að lesa allt sem skrifað hefur verið um Þórberg Þórðarson, að meðtöldu öllu því sem hann skrifaði um sjálfan sig. Þó hefur fjölgað allhressilega bókum og greinum um hann og ritverk hans á allra síðustu árum, en á hinn bóginn fjalla þau skrif mestmegnis um æviatriði Þórbergs fremur en að þau takist á við verk hans sem bókmenntir og hann sjálfan sem bókmenntapersónu. [1] Hið sama mætti raunar segja um fleiri íslenska höfunda; það er einfaldlega erfitt í litlu fræðasamfélagi eins og því íslenska að greina verk þeirra allra ofan í kjölinn og því er víða verk að vinna. Það er því alltaf gaman að vera til þegar ný rannsókn kemur til skjalanna, ég tala ekki um þegar það er fyrsta stóra bókmenntafræðilega úttektin á höfundarverki. [2] Þess vegna ber að fagna því að lítillega stytt doktorsritgerð Soffíu Auðar Birgisdóttur sé komin út, og líklegt að fleiri en ég hafi beðið þessarar bókar með óþreyju.

Þegar í inngangi er tónninn fyrir framhaldið sleginn, þegar Soffía Auður segir: „Ástæða er til að árétta að ég skoða skrif Þórbergs fyrst og fremst sem bókmenntatexta og athyglin beinist að fagurfræðilegum eiginleikum þeirra. Ég greini og túlka skrif hans og tengi við íslenskar og erlendar bókmenntir fremur en að túlka þau út frá æviferli hans eins og aðrir hafa gert svo ágætlega áður.“ (17) Sjálfur hef ég haldið því fram, og mun gera áfram, að erfitt sé að greina Þórberg sjálfan frá verkum hans þar sem þau fjalla iðulega um hann sjálfan, [3] en æviatriði hans hafa svo ótt og títt verið lesin úr verkunum að það er löngu kominn tími til að fara aðra leið að þeim. Enda heldur Soffía Auður áfram og segir: „Þó verður ekki hjá því komist að tengja skrif Þórbergs við ýmsa atburði og aðstæður úr lífi hans þar sem efniviður skrifanna er nær undantekningalaust hans eigin ævi, hans eigin reynsla færð í búning skáldskapar. Þá tel ég jafn fráleitt að hafna alfarið tengingum við ævi og reynslu höfunda og það er að einblína á aðra þætti og túlka öll skrif tiltekins höfundar út frá lífi hans og aðstæðum.“ (17–18) Það yrði erfitt að fallast ekki á þessa nálgun.

Í fyrsta kafla bókarinnar ræðst Soffía Auður til atlögu við ýmsar viðteknar hugmyndir eða goðsögur um Þórberg, fyrsta þá að hann hafi fyrst og fremst verið „trúður og sérvitringur,“ og ræðir mögulegan þátt Í kompaníi við allífið eftir Matthías Johannessen í þeirri ímynd, hvort það hafi hreinlega vakað fyrir Ragnari í Smára með útgáfu bókarinnar að hafa Þórberg að fífli til að gera lítið úr honum sem pólitískum andstæðingi. Fyrir þessu eru ýmis rök færð og alveg ljóst að það hefur hentað hægrimönnum ágætlega að geta afskrifað Þórberg sem fáráðling hvort heldur sem er (sjá t.d. bls. 35). Ekki síst er það áhugavert að Matthías virðist sjálfur gefa viðlíka í skyn um hugmyndir Ragnars um bókina, á sama tíma og hann áréttar að sín fyrirætlun með skrifunum hafi verið heiðarleg (26–31), og engin ástæða til að rengja hann um það. Það gefur enda auga leið þegar höfundarverk Þórbergs er skoðað að það er ekki einasta skoplegt. Kaflinn í Ofvitanum þar sem Þórbergur ætlar að fyrirfara sér er einlæglega dramatískur og sömuleiðis þegar hann nærri því verður hungurmorða einn og yfirgefinn í herbergi sem hann skuldar margfalda leigu fyrir. Þá hafa ljóð hans oft verið hyllt sem stólpagrín um nýrómantískan kveðskap, en þó orti Þórbergur fjölda háalvarlegra kvæða líka.

Hjá Soffíu Auði fá slíkar staðalmyndir að víkja fyrir flóknari og margræðari veruleika. Þórbergur er í senn að nokkru leyti sá maður sem hann skapaði í skáldverkum sínum og höfundurinn, sem er allt annar maður. Skáldverk segi ég, kannski meir af þykkju út í bókstaflega túlkun á skrifum Þórbergs en af fræðilegri flokkunargirni, en Soffía Auður færir hér (17), líkt og víðar, [4] fyrir því rök að sjálfsævisöguleg verk Þórbergs séu skáldævisögur. [5] Það er gott og gilt hugtak sem lýsir vel efninu og aðferðinni (sjá einnig umfjöllun um þann „tvískinnung“ sem Kristinn E. Andrésson fann í sjálfsævisögulegum verkum Þórbergs, bls. 78–9). Meginniðurstaða fyrsta kafla bókarinnar er semsagt sú að Þórbergur hafi oft og iðulega að ósekju verið færður inn á hinn og þennan bás þar sem hann átti ekki heima; Þórbergi verði ekki réttilega lýst sem trúði, sérvitringi, spámanni, meistara, galgopa, andrómantíker. Slíkar einfaldanir gera á endanum meira ógagn en gagn; þær smíða mýtu um mann sem standa rannsóknum á verkum hans fyrir þrifum þegar verk hans hafa um árabil verið rangtúlkuð í ljósi mýtunnar.

Næsti kafli bókarinnar er líka visst niðurrif á rótgrónum hugmyndum um Þórberg, um sannleiksást hans og skilyrðislausa þjónustu hans við sannleikann (þá má eins spyrja sig hvað sé sannleikur). „Sú skoðun hefur lengi verið á lofti að sannleiksleitin væri eitt af helstu leiðarhnoðum hans sem og krafa um nákvæmni í stóru sem smáu. Svo mikil áhersla hefur verið lögð á þetta tvennt í skrifum um Þórberg – nákvæmnina og sannleiksleitina – að hægt er að tala um klifun.“ (44) Þórbergur setti sjálfan sig og nákvæmni sína vissulega á svið í verkum sínum, og smásmygli hans á ýmsum sviðum, svo sem um nákvæmar tíma- og veðurmælingar, hefur orðið tilefni til vangaveltna um það hvort hann hafi haft aspergerheilkenni. [6] Nákvæmnisárátta þarf aftur á móti ekki að þýða að Þórbergur hafi endilega talið nauðsynlegt að segja satt og rétt frá öllu enda þótt hann þykist gera það, til að mynda með því að vísa í miðri sögu í eigin dagbækur um tímasetningar og atburði sem lesandinn (meðan Þórbergur lifði, að minnsta kosti) hafði engin tök á að staðfesta. Síðan þegar dagbækurnar eru síðar skoðaðar kemur í ljós að ýmsu er logið í bókum Þórbergs, enda ekki að furða, þær eru skáldverk. [7] Með því að vera nógu nákvæmur á sumum sviðum tekst Þórbergi því að komast aftan að grandalausum lesendum sínum og breyta staðreyndum. [8] Af slíkum hagræðingum Þórbergs tekur Soffía Auður tvö dæmi: Annars vegar af Elskunni hans Þórbergs og hins vegar um fyrstu upplyftingu Þórbergs í kirkjugarðinum.

Elskan mætti segja að sé uppáhaldsdæmið um skáldun Þórbergs enda hafa fjölmargir gert sér mat úr henni eftir að Helgi M. Sigurðsson benti fyrstur á misræmið milli dagbóka Þórbergs og frægrar lýsingar á framhjágöngu hans í Íslenzkum aðli. [9] Elskan kemur sem kunnugt er fyrir sem viðfang pars pro toto (fyrst og fremst er henni lýst sem „drifhvítum höndum“) í Íslenzkum aðli, Ofvitanum og loks í mýflugumynd í Meisturum og lærisveinum, og samsvarar raunverulegri konu sem hét Arndís Jónsdóttir. Þau Þórbergur bjuggu samtímis í Bergshúsi við Skólavörðustíg og eftir sumar Þórbergs í vegavinnu í Hrútafirði (þar sem hann forðaðist að mestu návist við Elskuna sína) og loks í vinnu á Höfnersbryggju á Akureyri, ákveður hann að koma við í Hrútafirði á heimleiðinni og heilsa upp á Elskuna sína, og má segja að allur fyrri hluti verksins sé markvisst byggður aðdragandi að þeim hápunkti.

Í Íslenzkum aðli bregður svo við að hann guggnar á ástarævintýrinu og gengur framhjá, og endar þannig eins og frægur brandari um manninn á punkteraða bílnum sem sannfærir sjálfan sig smátt og smátt á leiðinni á næsta sveitabæ að sér verði illa tekið og endar á að segja bóndanum á bænum að eiga sjálfur sinn helvítis dúnkraft áður en bóndinn hefur fengið tækifæri til að átta sig á erindinu. Þetta er hinn fullkomni endir á mislukkaðri ástarsögu, en reyndin er sú að hvorki var ástarsagan alveg svona misheppnuð né heldur gekk Þórbergur framhjá. [10] Sagan af sveindómsmissi Þórbergs í Suðurgötukirkjugarði er sömuleiðis færð í stílinn til að gera allt skoplegra og staðreyndum hnikað til í þeim tilgangi (51–3) Enn fremur ræðir Soffía Auður nokkuð óléttufrásögn Bréfs til Láru og sýnir fram á margræðni hennar um leið og hún nefnir að Þórbergur hefur diktað upp kafla um þunganir sem hvergi fyrirfinnst í lækningabók Jónassens. Það er einmitt af þessum sökum, segir hún, að vænlegra sé „að meta skrif Þórbergs í ljósi fagurfræði skáldskapar enda er skáldsöguvitund mjög sterkur þáttur í flestum bókum Þórbergs. Þá má einnig velta því fyrir sér hvort Þórbergur sé vísvitandi að senda lesendur á „villigötur“ þegar hann bendir á lækningabókina í óléttufrásögninni og hvort tengsl við aðrar bækur séu ekki nærtækari.“ (69–72) Í fimmta kafla má meira að segja sjá Þórberg dagbókanna minnast sjómannsáranna með hlýju! (143)

Ágæta umfjöllun um bókmenntagreinar, sem Soffía Auður nefnir bókmenntagervi með ágætum rökum, er að finna í þriðja kafla bókarinnar (75–81), sem einna helst fjallar um Bréf til Láru og samblöndun bókmenntagerva í henni, rittengsl við Heine og viðtökur bókarinnar, sem vel eru þekktar og veita umgjörð hinni frásagnarlegu greiningu á verkinu sem mestur fengur er að. „Ég tek undir það að bækur Þórbergs séu opin verk, texti sem leitar og leitast við að smjúga undan skilgreiningum, enda hefur neikvætt formerki gjarnan verið sett á þær; þær eru ekki skáldsögur, ekki hefðbundnar sjálfsævisögur, tilheyra ekki hreinræktaðri tegund og ljóst má vera að þær eru skrifaðar af höfundi sem er í virku andófi gegn íslensku skáldsögunni eins og hún hafði þróast á sínum stutta líftíma“ (80) segir Soffía Auður á einum stað. Að vísu má spyrja sig sömuleiðis hvort nokkrar hreinræktaðar tegundir eða bókmenntagervi séu raunverulega til nema sem frummyndir, það er hvort hver höfundur gæði ekki formið vissu lífi sem hefur það upp yfir það og gerir hvert verk einstakt, og hvort slíkir merkimiðar séu þá ekki ætíð hafðir til einföldunar fremur en til greiningar. Slíkir stimplar eru mjög vinsælir nú um stundir, en þegar skáldsaga er sögð vera neo-noir borgarfantasía með votti af gufupönki og undir áhrifum frá hinni klassísku spæjarasögu í bland við gotneskan litteratúr veltir maður óhjákvæmilega fyrir sér hvort bókmenntastimplar séu ekki komnir út í ofurnákvæmni sem gerir lítið úr því hvað sagan sjálf snýst um, en það er umræða fyrir annan tíma. Þórbergur snýr bókmenntagervum léttilega á haus en kannski merkir það ekki síst að bókmenntagervin voru ekki beysin fyrir, ef þá ekki yfirborðslegar eftirhreytur liðins tíma. Skáldsagan er ennþá ný og við erum enn að berjast við að skilja hana.

Í fjórða kafla sannast enn hvað Þórbergur var slyngur sagnamaður. Fólk átti margt erfitt með að átta sig á því hvers konar bækur Suðursveitarbækurnar væru, ekki síst sakir ofurnákvæmni Þórbergs í lýsingum á húsakynnum á heimabæ sínum að Hala í Suðursveit („langur hali það“), en þessi nákvæmni helst þó í hendur við það að Þórbergur sýtir að fólk fyrri tíma hafi ekki haldið nákvæmar dagbækur um dagleg störf sín, hugðarefni, dægradvalir, lífskjör og allt hvaðeina. Allt eru þetta atriði sem fræðimönnum hefðu orðið til gagns við að greina og skilja horfin samfélög fyrri alda til hlítar, og Þórbergi sveið að þetta væri ekki hægt; þó að Þórbergur hefði reyndar manna best átt að vita hvernig „raunverulegir atburðir“ eiga til að verða í endursögn.

Sjálfur hélt Þórbergur veðurdagbók, ítarlegar dagbækur, frumritaði bréf og geymdi áður en hann hreinritaði og sendi, og svo framvegis. Og fyrir vikið vitum við mun meira um Þórberg en ella – að svo miklu leyti sem hægt er að taka hann trúanlegan, sem er hreint út sagt ómögulegt að meta. Þórbergur bæði iðkaði það sem hann vildi óska sér að allir aðrir hefðu alltaf iðkað, það er nákvæma skrásetningu lífsatriða sinna, og skrifaði skáldverk eins og út frá slíkum heimildum jafnvel þótt hann þyrfti að ljá „veruleika“ þeirra skáldlega hjálparhönd út í eitt. Þar um er frægast dæmið af brúðkaupi foreldra hans sem hann segir frá líkt og hann, ófæddur, hafi verið viðstaddur.

Sjálfum þótti mér vænst um samantekt Soffíu Auðar á kvöldvökum í Suðursveit sem fer langa leið að því marki að skýra sum hugðarefni Þórbergs á síðari árum (129–134). Það er ekki ólíklegt að kvöldvökur af þessu tagi hafi verið ævafornar að sniði, sem undirstrikar aldamótamennsku Þórbergs: öðrum fæti stóð hann í miðaldamenningu, en í hinn fótinn stóð hann sem boðberi nýrra tíma í íslenskum bókmenntum – og vissi það sjálfur, þótt hann stærði sig af því í írónískri fjarlægð. Þá kemur einnig fram sú skoðun að óbeit Þórbergs á kristinni trú í æsku hafi ef til vill skilað sér í því hversu gjörhugull hann var í gagnrýni sinni á kristindóminn í Bréfi til Láru (132–134), en það virðast þó helst hafa verið leiðindi illa skrifaðra vandlætinga sem fóru í taugarnar á honum fremur en að hann hafi endilega fundið sig í andstöðu við hin trúarlegu efni í kjarna þeirra, enda hætti hann aldrei að trúa á æðri máttarvöld þótt ekki væri hann kristinn. [11] Og auðvitað eru lýsingar „ólíkindatólsins“ á sveitinni bullandi rómantískar, eins og Soffía Auður bendir á, en um leið gráglettnar eins og þegar hann segir kindur vera rómantísk skáld hverra sálir eftir hundruð þúsundir eða milljónir ára eigi aðeins eftir að fá bústað í mönnum (137–139).

Soffía Auður færir fyrir því rök að íslenskunám Þórbergs hafi haft áhrif á ritstíl hans í annars stuttum kafla um námsárin 1909–1916. Það er ef til vill smáatriði, sem virðist því stærra sem bókin er annars ítarleg, en þar vísar hún til ritgerðar sem Þórbergur muni hafa skrifað til meistaraprófs við Heimspekideild en hann hafi ekki fengið að útskrifast vegna þess að hann hafði hvorki lokið gagnfræða- né stúdentsprófi (150). Þetta eru skýringar við Snorra-Eddu sem Þórbergur talar um í Meisturum og lærisveinum að hann hafi beðið kennara sinn Björn M. Ólsen um að lesa yfir fyrir sig og fengið hjá honum gagnlegar ábendingar. Skýringarnar ætlaði hann til útgáfu fyrir almenning og skólafólk en loks týndist lokagerð handritsins; drögin að skýringunum eru aftur á móti til. Smáatriðið lýtur að því að ég er ekki alveg viss hvaðan Soffía Auður hefur það að þetta sé námsritgerð fremur en kennslugagn. Þórbergur segir ekki svo frá því í Meisturum og lærisveinum að það sé nauðsynlegt að draga þá ályktun [12] og skýringadrögin sem eru varðveitt eru merkt sem Snorra Edda: Skýringar eftir Þorberg Þórðarson. [13] Ég finn ekkert í handritinu sjálfu sem bendir til að þetta sé hugsað sem meistaraprófsritgerð en vera má að það komi fram annars staðar, í bréfum eða í dagbók.

Hér á eftir fylgir ágætur kafli um ljóðlist Þórbergs þar sem lýst er ástæðum þess að Þórbergur ákvað að gefa út ljóð sín (peningaleysi – sem aftur á móti er helsta ástæða þess að ljóð eru ekki gefin út í dag), efni hennar, formi og hugmyndafræði. Soffía Auður efast um þá „kenningu að Þórbergur komi fram sem framúrstefnuskáld í kvæðum sínum“ (176–185), og það verður að segjast eins og er að nær öll ljóð Þórbergs eru ort undir hefðbundnum bragarháttum og að hann skorti alla hugmyndafræði sem þyrfti til að telja hann til framúrstefnuskálda, og það þótt lokaorð „Fútúrískra kveldstemninga“ séu nær yfirnáttúrlega lík síðustu línu fyrsta hluta í „Eyðilandi“ Eliots eins og Bragi Ólafsson hefur bent á, [14] þótt því verði seint logið upp á Þórberg að hann hafi fengið það að láni enda „Waste Land“ fimm árum yngra en „Fútúrískar kveldstemningar“ (sjá einnig um vörn Þórbergs fyrir hefðbundna bragarhætti á bls. 193–196, sem sýnir svo um munar að þegar kom að kvæðagerð var Þórbergur þrátt fyrir allt íhaldssamur). [15]

Soffía Auður telur að áhrifavalda Þórbergs sé fremur að leita í Æra-Tobba og Heinrich Heine, sem Þórbergur sjálfur vildi þó gera lítið úr, en nokkuð afgerandi samanburð við Heine má finna á bls. 185–191. Jafnvel kvæði sem Þórbergur segir ort til nafngreindrar stúlku í Garðastræti verður í huga Jakobs Jóh. Smára að þýðingu á „Du bist wie eine Blume“ eftir Heine, en Eysteinn Þorvaldsson getur þess ekki í umfjöllun sinni um átta þýðingar á því ljóði yfir á íslensku (190). Sjálf telur Soffía Auður að ekki sé um beina þýðingu að ræða og því er ég hjartanlega sammála, en líkindin eru alveg ljós. Þau eru þó enn meiri á milli „Ich hab’ im Traum geweinet“ og „Munarljóða IX“ (sjá 189). Ekki svo að skilja að þetta gildi um öll kvæði Þórbergs, eins og vel kemur fram í kaflanum. Sem fyrr er ráðist að einföldunum og niðurstaðan sú að ljóð Þórbergs eru af ýmsum toga fremur en að hann hafi verið „andrómantískur grínari“ eða framúrstefnuskáld, hvað þá fútúristi eða dadaisti eins og Halldór Laxness sagði hann vera (177).

Sjöundi kaflinn fæst við sjálfsmyndir eða fjölmyndasafn Þórbergs og tengir þannig í textanum við bókarkápuna sem sýnir eins og á filmu röð af myndum af Þórbergi með hin ýmsu svipbrigði, myndir sem upphaflega birtust í bókinni Bréfin hans Þórbergs til Lillu Heggu og Biddu systur, þar sem hver svipur hafði sitt eigið nafn eins og „galgopinn“ og „ólíkindatólið“. [16] Þar minnist Soffía Auður á hugmyndir Deleuze og Guattari frá 1972 um kleyfgreiningu (e. schizoanalysis) sem ég fæ ekki alveg séð hvernig kemur framhaldinu við nema að því leyti að þeir halda því fram að sjálfið sé ekki fast heldur í stöðugri þróun, sem virkar svo sjálfsagt nú á dögum að mér finnst eins hafa mátt sleppa þeim kumpánum úr umfjölluninni eða rökstyðja nánar af hverju sú hugmynd – fremur en nýlegri kenningar um sjálfið – varð fyrir valinu. Þaðan fer Soffía Auður út í nómadisma Rosi Braidotti út frá óljósum tengslum við tíð ferðalög Þórbergs til útlanda, og heimspekilegar hugmyndir um samband líkama og sálar með samanburði við Bréf til Láru (210–215), en þó finnst mér ekki að annað bæti í raun og veru nokkru við hitt. Ég held að hugmyndir Þórbergs um viðræðu líkama og sálar væri áhugaverðara að lesa í ljósi spíritisma og guðspeki. Það gæti vel verið að eftir einhverju sé að slægjast með þeim samanburði sem Soffía Auður velur, en það nýtur sín í öllu falli ekki í svo knappri lýsingu; greiningin þyrfti að vera mun rækilegri og skýrari. Öllu áhugaverðari þykja mér þeir undirkaflar sjöunda kaflans sem fjalla um frásagnarlega kvengervingu Þórbergs á sjálfum sér (215–219) og aðferðalegur samanburðurinn á honum og Chaplin, eins og þeir sjálfir lýsa aðferðum sínum (225–228). Þar lifna fyrir lesandanum eftirhermur Þórbergs úr kvikmynd Ósvalds Knudsen um hann.

Áttundi kaflinn fjallar svo um stíl Þórbergs og hugmyndir hans um stíl, þá meðal annars gagnrýni hans á Hornstrendingabók sem birtist í „Einum kennt – öðrum bent“. Það sem Þórbergi fannst betur mega fara þar er margt það sama og hann var síðar gagnrýndur fyrir í Suðursveitarbókum sínum, svo sem að öllu ætti að vera lýst eins ítarlega og unnt væri til að auka sem mest þekkingu lesenda (236–241). Sérstaða höfundar Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar er rædd á bls. 243–261 – það er að segja hvort höfundur sé einn en annar hafi skráð, eins og haldið er fram í bókinni, eða hvort þeir séu tveir – og er því lunginn úr kaflanum. Þar segir Soffía Auður, og endurómar á vissan hátt þau vandasömu vinnubrögð sem viðhafa þarf í rannsóknum á varðveislu miðaldabókmennta (sem Þórbergi munu hafa verið kunnug): „Ef við föllumst á að séra Árni sé ekki (lengur) til nema sem texti þá blasir einnig við að höfundur þess texta er Þórbergur Þórðarson.“ (245)

Um sannleiks- og nákvæmniskröfu Þórbergs í orði er í ævisögu séra Árna að finna vissan prófstein, en því miður eru fá vitni þar að lútandi nema Þórbergur sjálfur. Þannig orkar hið bóklega á hið munnlega og forgengilega, tekur það á endanum yfir og verður að átoriteti aldanna. Soffía Auður tortryggir með réttu innskot Þórbergs þar sem hann bregður því sérstaklega við að hann hafi fyllt frásögnina með utanaðkomandi heimildum, enda kunna slíkar afsakanir sem lýsa eiga undantekningum að vera skálkaskjól fyrir vinnubrögð hans almennt (247–248). Sitthvað fleira kræsilegt má finna hér, svo sem samanburð við ævisögu Samuels Johnson eftir Boswell.

Að lokum, í níunda kafla, fjallar Soffía Auður um áhrif Þórbergs, sem sjálfur sagðist vera „eins og menn verða eftir næstu aldamót,“ á rithöfunda hérna megin aldamótanna. Sá kafli nær engri sérstakri dýpt og mér virðist honum ekki ætlað að gera það, heldur eigi hann að vera úrval dæma sem hefði eins getað verið öðruvísi. Því orkar hann ögn munaðarlaus á mig svona í samhengi bókarinnar en er fróðlegur samt og skaðar ekki bókina; hann er meira eins og viðauki og ágætur fyrir sinn hatt.

Sjálfsagt eru þeir til sem spyrja hvaða endalausa upphafning þetta sé á ofvitanum úr Suðursveit, hvort ekki sé löngu búið að fjalla um þetta allt í bak og fyrir, svona eins og þegar sjöþúsundasta bókin um æviatriði Hitlers birtist í Eymundsson í Austurstræti. Stutta svarið er: nei. Á plánetu þar sem heilu þjóðirnar hverfa inn í milljarða manneskja sem lifa og hrærast hér á fleygiferð um geiminn getur verið nánast ótrúlegt að sjá hvað býr í ævi einnar manneskju, í höfundarverki eins rithöfundar; það staðfestir svo rækilega margslunginn veruleika manneskjunnar að ein persóna verður aldrei greind í einni bók og ekki í fimmhundruð bókum. Til þess eru bækur vanmáttugur miðill. Þær geta aftur á móti varðveitt kjarna sem nálgast má manneskjuna um og komast nær skilningi á stöðu hennar í heiminum. Í verkum Þórbergs má finna þessa mannlegu nánd sem er svo skrítin og flókin og fólk hefur síðustu hundrað árin klórað sér í kollinum yfir og afgreitt hann sem ofvita fyrir. Öllum þessum margbreytileika verka Þórbergs kemur Soffía Auður vel til skila í fyrstu bókmenntafræðilegu heildarúttektinni á höfundarverki hans.

Hér er yfirlitsritið um frásagnarlist Þórbergs sem sárvantaði loks komið til okkar. Það bíður framtíðarinnar að færa okkur ekki minni rit um einstök verk Þórbergs. Það mætti skrifa langt mál um ævisöguleg rit Þórbergs hvert fyrir sig, greina hverja Suðursveitarbók ofan í frumeindir, kafa mun dýpra ofan í Bréf til Láru – tilurð þess, forsendur og afleiðingar – en nokkru sinni hefur verið gert; það mætti skrifa bók á stærð við símaskrá, ef símaskrár væru enn til, um kveðskap Þórbergs og fræðilegan áhuga hans á kveðskaparlistinni og þá ekki síst fornkvæðum (hvar í liggur brandarinn um Eddu, „prologus“ og koll-leka hans Snorra Sturluson). Þá liggur „ljóðabókin sem allir vildu gleyma,“ Marsinn til Kreml, að mestu óbætt hjá garði (199–200), [17] en flestum hefur hingað til dugað að lesa svar Hannesar Péturssonar við þeirri sendingu. [18] Það hefur ennþá enginn utan Guðmundur Andri Thorsson, mér vitandi, tekið til greiningar Rauðu hættuna[19] eða gruflað af nokkurri alvöru í andlegum málefnum þeim sem Þórbergur byggði lífsspeki sína á. Um hvort tveggja mætti skrifa langar ritgerðir. Og enn er ýmislegt til í handriti sem varpað getur frekara ljósi á þennan mann og flækt mynd okkar af honum enn fremur en þegar hefur verið gert. Af nógu er enn að taka í Þórbergsfræðum.

Það má ekki skilja mig sem svo að ég vildi að Soffía Auður hefði gert allt þetta í bók sinni. Það væri undarleg krafa. Nógu er ritið ítarlegt til að það hvarfli að lesandanum að gaman væri að sjá upplitið á Þórbergi ef hann væri meðal vor til að lesa það. Það sem ég vildi sagt hafa er það að með Ég skapa – þess vegna er ég hefur Soffía Auður gert okkur enn betur kleift en áður að sjá veginn framundan og hvar hann kvíslast. Við eigum enn eftir að sjá hvar leiðirnar liggja saman að lokum en það er nú einu sinni það sem gerir fræðin þess virði að iðka þau.

Arngrímur Vídalín

Tilvísanir

  1. Sjá t.d. Halldór Guðmundsson, Skáldalíf (Reykjavík: JPV, 2006); Pétur Gunnarsson, ÞÞ í fátæktarlandi, ÞÞ í forheimskunarlandi (Reykjavík: JPV, 2007 & 2009);. Þá ber að nefna rit Helga M. Sigurðssonar, Frumleg hreinskilni: Þórbergur Þórðarson og menningin á mölinni í upphafi aldar (Reykjavík: Árbæjarsafn|Hið íslenska bókmenntafélag, 1993). Ýmsar frumlegar nálganir er þó að finna í Að skilja undraljós í ritstjórn Bergljótar Soffíu Kristjánsdóttur og Hjalta Snæs Ægissonar (Reykjavík: Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands|Háskólaútgáfan, 2010).
  2. Hér er að vísu sitthvað skilið út undan, svo sem skrif Þórbergs um spíritisma, esperantisma og sósíalisma. Að þessu fann Bergljót Soffía Kristjánsdóttir við doktorsvörn Soffíu Auðar og færði fyrir því ágæt rök (sem ég vona að rati á prent eins og andmælaræður stundum gera, svo stórkostlega skemmtileg voru þau) að þessi atriði hefðu aukið enn á skilning okkar á bókmenntaverkum Þórbergs. Á hitt ber að líta að það er ekki alltaf hægt að vinda fram öllum rannsóknarefnum senn og að doktorsritgerðum eru takmörk sett hvað varðar efnistök; þær eiga ekki og geta ekki innihaldið allt.
  3. Arngrímur Vídalín, Að elska er að yrkja fegursta ljóð í víðri veröld: Um viðhorf Þórbergs Þórðarsonar til rómantíkur í íslenskum bókmenntum. Óprentuð grunnprófsritgerð í íslensku við Háskóla Íslands, 2009. Til stendur að endurskoða hana til formlegrar birtingar á næstu misserum.
  4. Sjá t.d. grein hennar „Sannleikur í æðra veldi: Um Íslenzkan aðal eftir Þórberg Þórðarson,“ Heimur skáldsögunnar, ritstj. Ástráður Eysteinsson (Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands 2001), bls. 273–284.
  5. Upphafsmaður hugtaksins er Guðbergur Bergsson í skáldævisögu sinni Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar.
  6. Halldór Guðmundsson, Skáldalíf: Ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á Skriðuklaustri (Reykjavík: JPV 2006).
  7. Það að bók sé skáldverk útilokar þó ekki að margt sé satt í henni, sbr. umfjöllun Soffíu Auðar á bls. 56–8 og 61–3.
  8. Það er því áhugavert að skoða handrit hans, t.a.m. „stóra ævisögulega handritið“ sem nú er útgefið undir titlinum Meistarar og lærisveinar. Það inniheldur ýmis spurningarmerki af hálfu höfundar við tímasetningar, sem gefur til kynna að hann myndi hafa flett upp í dagbókum sínum við hreinritun verksins til að allar dagsetningar og ártöl væru alveg pottþétt. Slík ofurnákvæmni þarf aftur á móti ekki, svo það sé endurtekið, að gefa til kynna að allt sé satt sem á bókina er fært.
  9. Sjá Helga M. Sigurðsson, Frumleg hreinskilni, (Reykjavík: Árbæjarsafn | Bókmenntafélagið 1992), bls 28–33; Soffíu Auði Birgisdóttur, „Sannleikur í æðra veldi,“ bls. 273–284; Halldór Guðmundsson, Skáldalíf; Pétur Gunnarsson, ÞÞ í fátæktarlandi, bls. 107.
  10. Á þetta benti Pétur Gunnarsson í bók sinni ÞÞ í fátæktarlandi með tilvísun í dagbókarfærslu sem útgefin er í sýnisbók Helga M. Sigurðssonar af ýmsu óbirtu efni eftir Þórberg, Mitt rómantíska æði (Reykjavík: Mál og menning, 1987), bls. 31. Þó er Helgi ekki sannfærður, nefnir að vísu ekki bók Péturs, sbr. grein hans „Arndísarsaga“ í Að skilja undraljós, bls. 137–146.
  11. Svipað sjónarmið hefur Guðmundur Andri Thorsson viðrað og leitt að því líkur að Ævisaga Árna prófasts Þórarinssonar sé öðrum þræði tilraun til að kortleggja íslenska sveitakristni, sbr. grein hans „Guðspjallamaðurinn Þórbergur: Um ævisögu séra Árna, lifandi kristindóm og dauðan bókstaf,“ Að skilja undraljós, bls. 209–219.
  12. Sjá Þórberg Þórðarson, Meistarar og lærisveinar: eftir stóra ævisögulega handritinu (Reykjavík: Forlagið 2010), bls. 18–22.
  13. Hér hafði Þórbergur ekki enn tekið upp ó í fornafnið.
  14. Af vef Þórbergsseturs: http://www. thorbergur.is/index.php/is/skaldidhthorbergur/ tilvitnanir/34-bragi-olafssonsegir
  15. Um atómljóð segir Þórbergur: „Þau eru lélegur skáldskapur, og þau eru leiðinlegur skáldskapur, […] Og verst er þó þetta: Maður hefur atómskáldin grunuð um, að þau yrki svona af þeirri ástæðu, að þau geti ekki ort með stuðlum og höfuðstöfum „eins vel og Shakespeare“.“ (195) Eins og sönnum spámanni sæmir lýkur Þórbergur þessari umfjöllun sinni með eftirfarandi orðum: „Guð forði mér frá því að fella dóma með gamals manns sannfæringarkrafti. Efann um að maður hafi alltaf rétt fyrir sér, — þann efa verður maður að varðveita fram á grafarbakkann. Og ég vil gera þá játningu meira að segja, að fæst af því, sem ég hef sagt hér um atómskáldskapinn, mun hljóta staðfestingu næstu kynslóða.“ (196)
  16. Þórbergur Þórðarson. Bréfin hans Þórbergs til Lillu Heggu og Biddu systur. Hjörtur Pálsson sá um útgáfuna og skráði skýringar og viðtöl (Reykjavík: Vaka 1982).
  17. Þar bætti Soffía Auður raunar um betur og skrifaði grein þar sem ekki var rúm í ritgerðinni. Sjá Soffíu Auði Birgisdóttur, „Undarleg ósköp: Um pólitíska atlögu Þórbergs Þórðarsonar að Hannesi Péturssyni í kvæðaformi,“ Skírnir, 190 (vor), bls. 32–52.
  18. Hannes Pétursson, „Draugatrú – kommúnismi,“ Morgunblaðið 49. árg., 285. tbl., 19. des. 1962, bls. 2.
  19. Sjá grein Guðmundar Andra „Þorbergur Þórðarson, ekki neitt“ í greinasafni hans Ég vildi að ég kynni að dansa (Reykjavík: Mál og menning, 1998), bls.133–146.