Árni Snævarr. Maðurinn sem Ísland elskaði: Paul Gaimard og Íslandsferðir hans 1835–1836.

Mál og menning 2019. 497 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2020

 

Maðurinn sem Ísland elskaði: Paul Gaimard og Íslandsferðir hans 1835–1836Leiðangrar Gaimards til Íslands 1835 og 1836 skipa slíkan sess í Íslandssögunni að það var slæm eyða að ekki skyldi fyrir löngu vera búið að semja ýtarlegt fræðirit um þessi miklu ferðalög, aðdraganda þeirra og eftirmál. Upp í þessa eyðu hefur Árni Snævarr nú fyllt með riti sínu Maðurinn sem Ísland elskaði og svo vel að varla verður betur gert, a.m.k. á þessu stigi fræðanna. Verkið byggir á ítarlegum og mjög svo umfangsmiklum rannsóknum frumheimilda, m.a. á dagbókum Gaimards, sem stundum voru skrifaðar á hestbaki og því ekki auðlesnar (skyldi ekki glöggur maður geta ráðið gang hestsins af rithöndinni og dregið af því sínar ályktanir?), dagbókum annarra, bréfum og öðru slíku, svo og prentuðum ritum. Þannig getur hann rakið ferðir Gaimards og manna hans dag frá degi, lýst því hvernig þeim kom landið og fólkið fyrir augu, svo og heimilisbragurinn á hinum ýmsu bæjum. Í leiðinni segir hann frá kynnum þeirra af landsmönnum, sumum þekktum og öðrum gleymdum.

En þetta er ekki allt og sumt, því höfundur tengir þessa leiðangra jafnframt við ástand og atburði í heimalandinu Frakklandi á ýmsum sviðum, þar er hann næmur á að rekja flókna þræði í margar áttir og gera úr þeim myndir. Þræðirnir geta endað á harla óvæntum stöðum. Þegar kona eins leiðangurmanns á norðurslóðir, sem var með í ferðinni og reyndar fyrsta konan sem steig fæti á Svalbarða, tók að halda fram hjá manni sínum eftir heimkomuna til Parísar og eiginmaðurinn sigaði lögreglunni á hana þar sem hún hafði hreiðað um sig með elskhuga sínum í hótelherbergi reyndist ástmaðurinn vera enginn annar en Victor Hugo! Og upp úr þessu fór skáldjöfurinn að semja Vesalingana, „skáldsögu 19. aldarinnar“ eins og stundum hefur verið sagt … En í heild eru myndirnar breiðari en hótelrúmin.

Um lýsingarnar á Mörlendingum er margt að segja, og þótt þær séu endurtekningarsamar á höfundur þakkir skilið fyrir að hafa haldið þeim til haga, ekki síst til að vekja afkomendur þessara voluðu manna til umhugsunar. Það sem blasir við augum og nefi Gaimards er fyrst og fremst sá skelfilegi óþrifnaður sem hvarvetna ríkir, einu staðirnir sem losna undan þeirri plágu eru dönsk heimili á landinu og heimili þeirra Íslendinga sem laga sig að háttum Dana. Þessar lýsingar eru engar ýkjur eins og frásagnir ýmissa annarra ferðalanga sýna, og einnig lýsingar íslenskra rithöfunda á fyrri hluta síðustu aldar, Halldórs Laxness og Þórbergs. Menn virðast aldrei þvo sér og föt þeirra eru yfirmáta skítug, persónulegt hreinlæti þeirra er líka bágborið, þeir snýta sér með fingrum og slefa um leið og þeir spyrja frönsku gestina spjörunum úr (bls. 125). Í sumum bæjum er fýlan svo mikil að leiðangursmenn geta varla farið inn fyrir dyr, og rúmin svo blaut að þeir kjósa að sofa í yfirfrökkum sínum.

Þetta kallast á við undarlegt fyrirbæri í Evrópusögunni. Á endurreisnartímanum hættu Evrópumenn að baða sig. Á miðöldum höfðu menn að því er best verður séð verið hreinlátir – Íslendingar á þeim tímum höfðu fyrir sið að „ríða til lauga“, á bæjum voru „baðstofur“ í bókstaflegri merkingu – og í borgum Evrópu voru baðhús, sem voru að nokkru leyti arfur frá tímum Rómverja. En á 16. öld var farið að loka þeim einu af öðru uns engin voru eftir, og jafnframt lögðust böð að mestu leyti af. Menn þvoðu einungis hendur og skoluðu munn. Um leið var farið að trúa því að böð væru skaðleg fyrir heilsuna, vatnið gæti komist gegnum húðina inn í líkamann og dregið úr mætti líffæra, við það opnaðist húðin einnig svo alls kyns eitraðar gufur – sem menn töldu orsök margra sjúkdóma – ættu greiðari leið að líkamanum innvortis. En ekki er gott að vita hvort þessi undarlega kenning var ástæða eða réttlæting eftir á.

„Hreinlætið“, ef svo má kalla, var þá fólgið í því að hafa hvítar skyrtur næst skinninu og skipta um þær sem oftast, kannske mörgum sinnum á dag. Auk þess settu menn vellyktandi duft í hárið og skyrturnar, og tylltu einnig á sig hárkollum. Aðalatriðið var kannske að tolla sem best í tískunni, hvítu skyrturnar áttu að sjást í hálsmáli og ermum og önnur föt áttu að vera hrein og fín. Orðið popreté, sem nú þýðir „hreinlæti“ á frönsku, þýddi þá að vera klæddur á viðeigandi hátt. En þessi skyrtuskipti komu þó ekki í veg fyrir að menn væru yfirmáta illa þefjandi, og um tvo kónga Frakklands er sagt að þeir „lyktuðu eins og lík“. Sagt er að þegar Evrópumenn stigu á land í Vesturheimi hafi Indíánar kallað þá „hina daunillu“ – en Indíánarnir böðuðu sig daglega (þeir voru sennilega svo frumstæðir að þeir þekktu ekki vísindin um skinnið og vatnið).

Í Evrópu fór þetta ástand að breytast á seinni hluta 18. aldar, og þá hófst hreinlætið aftur til vegs og virðingar. Þá er spurningin þessi: voru Íslendingar einfaldlega á eftir tímanum, höfðu þeir ekki spurnir af þeim siðum sem voru farnir að tíðkast erlendis? Það er í sjálfu sér ekki ólíklegt, um slíkt eru mörg dæmi. En viðbrögð Gaimards kunna að benda í aðra átt. Hann þekkti vel óþrifnað í sínu heimalandi, þar sem hin nýju viðhorf í hreinlætismálum ruddu sér hægt til rúms, og Parísarborg var ennþá harla óþrifaleg á þessum tíma. Ástandið á Íslandi hlaut því að vera með fádæmum slæmt fyrst það sló Fransmennina svo mjög. Freistandi er að tengja það við annan sið Íslendinga sem átti sér varla hliðstæður annars staðar: konur höfðu börn ekki á brjóstum og kölluðu þá yfir sig dæmalausan barnadauða (bls. 146–148). Þó vissu menn þegar sitt af hverju um mikilvægi brjóstagjafar og hún var hvort sem er hentugasta lausnin.

Þá gæti vandamálið snúist um annað, um nokkuð sem sagnfræðingar hafa ekki veitt mikla athygli til þessa og kannske mætti kalla „lífskjark“ þjóða. Um það eru skýr dæmi að gagnvart einhverjum yfirgengilegum hörmungum hafi þjóðir misst allan sinn lífskjark, semsé viljann til að lifa, þær hafi hætt að sinna því sem lífið krefst, hætt að tímgast og farið að farga sér hópum saman. Þetta kom fyrir íbúa Vestur-Indía þegar þangað ruddust spanskir villimenn með byssur, banvæna sjúkdóma og trúna hreina, og urðu þeir aldauða á fáum áratugum. Vitanlega á þetta ekki við um Íslendinga, ekki bókstaflega. En það sem Fjölnismenn höfðu einna mestar áhyggjur af var deyfð og sljóleiki í sveitum landsins, kannske var þetta sinnuleysi Íslendinga gagnvart grundvallaratriðum eins og þrifnaði merki um skort á lífskjarki eftir hörmungar 18. aldar, þegar hluti þjóðarinnar neyddist til að fara á vergang. Og við það má bæta sinnuleysi á fleiri sviðum, t.d. því hvað Íslendingar voru duglausir við að nýta rekavið (bls. 154). Aldrað fólk sem ég talaði við í æsku og mundi gamla þjóðfélagið minntist stundum á bjargarleysi fólks. Kannske mætti sjá í þessu eymdarástandi bakgrunninn fyrir því neyslufylliríi sem Íslendingar duttu svo í þegar þeir fóru að rétta úr kútnum. Hvað sem þessu líður er lífskjarkur eitt af því sem sagnfræðingar ættu að gefa gaum.

En á móti þessu bágborna ástandi í hreinlætismálum kemur svo annað sem vakti ekki síður furðu Fransmannanna, Íslendingar voru yfirleitt læsir – en á það skorti mjög í Frakklandi – og víða var nokkur bókakostur á heimilum, en þetta tvennt, óþrifnaður og bókvísi, rímar ekki sérlega vel. Og menntamenn landsins voru oft og tíðum svo vel að sér að furðu gegndi, sumir þeirra kunnu dönsku, ensku, þýsku, frönsku, latínu og grísku – og skal þetta sagt ómáttugum ættlerum þeirra nú til dags til áminningar. Þessir menn héldu ekki aðeins langar ræður á latínu, þeir voru líka nokkuð vel að sér um það sem fram fór erlendis og ákaflega fróðleiksfúsir í að heyra meira.

Og það er einn meginkosturinn við rit Árna Snævarr að hann tengir saman Íslandsferðirnar og ólgu og strauma erlendis og kemur þá víða við, kannske svo víða að ýmsum kann að þykja nóg um. En þeim skjátlast, sá heimur sem hann lýsir er svo ólíkur þeim sem nú blasir við mönnum að þörf er á að negla hann fast niður, mönnum til umhugsunar. Á þessum tíma var Frakkland enn stórveldi í álfunni, franskan alþjóðatunga, stóratburðir í Frakklandi, svosem uppreisnir og byltingar, bergmáluðu samstundis um alla álfuna, og menn voru alls staðar forvitnir um það sem nýjast var í bókmenntum og heimspeki Frakka, Vesalingarnir eftir Victor Hugo urðu samstundis metsölubók um öll Vesturlönd.

Hörmungar iðnbyltingarinnar voru enn sem komið var sérstakt heimilisböl Englendinga og það sem gerðist meðal þeirra skipti miður máli en margt sem fram fór á meginlandinu. Að vísu „bjó hagfræðin í Englandi,“ eins og Dostojevskí orðar það einhvers staðar, en það er athyglisvert að þegar Arnljótur Ólafsson hófst handa við að skrifa fyrsta hagfræðiritið á íslenska tungu, Auðfræði (1880), tók hann þann kost að fara eftir frönsku riti, Harmonies économiques eftir Fransmanninn Bastiat, en ekki þeim ensku höfundum sem Bastiat styðst að nokkru leyti við (það vekur furðu Gylfa Þ. Gíslasonar sem skrifaði formála fyrir nýja útgáfu verksins 1988).

Þótt saga Frakklands á þessum tíma, atburðasaga og menningarsaga, sé að sjálfsögðu vel kunn er sú mynd sem Árni Snævarr dregur upp að mörgu leyti nýstárleg. Hver vissi t.d. að Lúðvík Filippus, konungur Frakklands 1830–1848, hafði á yngri árum dvalist ár í útlegð í Noregi og var eftir það vel mæltur á norsku, áratugum síðar gat hann enn haldið uppi samræðum á því máli? Og hver vissi um langvarandi áhuga hans á norðurslóðum? Hver vissi um áhuga forsætisráðherrans og sagnfræðingsins Guizot á leiðöngrum Gaimard? Þetta held ég að Frakkar sjálfir þekki ekki, og því ætti bókin líka erindi til þeirra.

Í verki sínu rekur Árni Snævarr allan æviferil Gaimards og segir því einnig frá siglingum hans um suðurhöf áður en hann sneri stefninu í átt til leiðarstjörnunnar. Þar er komið í grennd við einn mesta harmleik síðustu alda, nýlendustefnunni og kúgun og að nokkru leyti útrýmingu þeirra þjóða sem nýlendurnar byggðu. Af því er Gaimard sjálfur að öllu leyti saklaus, eins og fram kemur í frásögn höfundar, hann er mun fyrr á ferðinni. En ég vildi gera smá athugasemd við tvennt sem höfundur segir á einum stað (bls. 49–50) – það eru aukaatriði í bókinni og spilla henni ekki á nokkurn hátt en eru í takt við býsna ámáttleg fyrirbæri samtímans. Hann segir semsé: „… órar vestrænna manna – verðandi nýlenduherra – um tilkippilegar konur Kyrrahafseyja stóðust sjaldan.“

En þetta er ekki rétt. Það kemur gjörla fram í frásögnum fyrstu landkönnuðanna sem sigldu um þessar slóðir að á þessum eyjum var kynlífið ákaflega frjálst og sjómönnunum stóðu fagrar konur gjarnan til boða. „Venus er hér gyðja gestrisninnar, í dýrkun hennar eru ekki neinir leyndardómar, og hver nautn er hátíð fyrir alla þjóðina,“ segir Bougainville í frásögn sinni af dvölinni í Tahiti 1768, löngu fyrir nýlendutímabilið.[1] Og þetta var efni í hugleiðingar fyrir Diderot (Viðbót við ferðasögu Bougainville).

Þessa athugasemd gerir Árni til að skýra blautlega sögu sem sögð er um Gaimard ungan og höfð eftir erkióvini hans:

 

Hinn árvökuli d´Urville tók eftir því þar sem hann horfði til lands í sjónauka, að eitthvert uppnám varð þar sem mannsöfnuður var á ströndinni. Spyr hann sjómann sem hafði rétt í þessu snúið aftur til skips úr landi:

„Hvað er eiginlega á seyði?“
Sjómaðurinn tók ofan og svaraði:
„Foringi, læknirinn … [hér eru klúryrði tónuð niður] … stundar hópkynlíf.“
„Hvað þá!“ segir d´Urvillem. „Coram populo“ (sic: já, ég var viðstaddur) í fjölmenni?!“
„Já, foringi,“ svarar sjómaðurinn.
„Eins og hver annar geithafur?“
„Já, foringi, það var nákvæmlega þannig … innfæddir slógu um hann hring og klöppuðu.“

 

Við þetta má nú gera smáathugasemdir. „Coram populo“ þýðir réttilega „frammi fyrir almenningi“, og mér finnst það ósagnfræðilegt að „tóna klúryrði niður“ í orðréttum tilvitnunum. En kjarni málsins er þó sá að þetta er ekkert óvenjulegt, þetta sama stóð Bougainville til boða í húsi höfðingja í Tahiti, að gera hitt coram populo, með fólk í kringum sig. Munurinn var aðeins sá að í húsi höfðingjans voru til reiðu flautuleikarar og söngvarar til að kyrja gleðisöngva svo þetta gæti allt farið fram undir vængjum tónlistarinnar, en í staðinn létu menn sér nægja að klappa fyrir Gaimard. Bougainville tekur fram að þessa gestrisni hafi hann ekki þegið, en hann vill ekki sverja fyrir að einhverjir af förunautum hans hafi látið freistast af góðgjörningunum, og var það skynsamlegt af honum. Ekkert bendir til þess að stúlkurnar, þessar ægifögru vahine, hafi verið þvingaðar til eins eða neins.

Seinni athugasemdin snertir það sem Árni segir um málarann Gauguin og dvöl hans á Suðurhafseyjum (bls. 50):

Nokkrum áratugum síðar hélt landi hans, málarinn Paul Gauguin, til Tahiti í leit að frjálsum ástum hjá góða villimanninum. Þótt hann málaði myndir af berum lostafullum konum, sem kyntu undir vestrænum kynórum, var raunveruleikinn sem mætti honum allt annar en hann hafði átt von á og konurnar gengu ekki einu sinni um berar. Og þótt Gauguin kvæntist þremur konum telst það tæpast til frjálsra ásta því þær voru vart af barnsaldri, tvær þrettán ára og ein fjórtán, og eftir öðru að hann smitaði þær af sýfilis.

Maður getur svo sem velt því fyrir sér hvaða erindi Paul Gauguin eigi inn í söguna af siglingum Gaimards. En það er aukaatriði. Því allt þetta er meiri háttar rangfærsla. Hjónabönd Gauguins voru gerð með fullu samþykki allra aðila og í samræmi við hjúskaparhætti eyjarskeggja, sem voru svosem ekkert einsdæmi, Júlía var þrettán ára í leikriti Shakespeares; að lýsa ferð málarans á þann hátt að hann hafi verið að leita að „frjálsum ástum hjá góða villimanninum“ og skilgreina málarlist hans með því að hann hafi „málað myndir af berum lostafullum konum, sem kyntu undir vestrænum kynórum“ er gersamlega út í hött og ekki í neinu samræmi við raunveruleikann og leit málarans í list sinni – það ættu menn að geta séð með því einu að skoða málverkin, til dæmis stórvirkið „Hvaðan komum við, hver erum við, hvert förum við?“ Fyrir utan það að Gauguin var harður andstæðingur nýlendustefnunnar og tók málstað eyjarskeggja í hvívetna.

Það er full ástæða til að gagnrýna nýlendustefnuna og þá glæpi gegn mannkyninu sem hún hafði í för með sér, ekki síst nauðganir. En menn eiga ekki að leita logandi ljósi að sökudólgum þar sem enga sökudólga er að finna, og draga þá fyrir sjálfskipaðan rétt, svo og þá sem þeim tengjast, samkvæmt reglunni gömlu „guilt by association“. Þetta er það sem nú er að gerast, einhverjir „feministar“ fara æpandi gegnum söfn og sýningar og heimta að málverk verði tekin niður og þau falin fyrir augum almennings. Þannig hafa þessir ritskoðarar ráðist á verk Gauguins og fleiri, svo og bækur og kvikmyndir. Ef einhver er á öndverðu máli, skrifar kannske eitthvað fallegt um Gauguin, er hann dreginn fyrir sama rétt. Hann á þá á hættu að fá tölvuskeytið „you are cancelled“, en það jafngildir bannfæringu í kaþólskum sið. Gegn þessari andlegu hryðjuverkastarfsemi eiga menn að berjast.

 

 

Einar Már Jónsson

 

[1] Bougainville: Voyage autour du monde, París 1982, bls. 235.