Valur Gunnarsson. Örninn og Fálkinn. Skáldsaga.

Mál og menning, 2017. 438 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2018

Örninn og FálkinnEinfaldað sagt má halda því fram að sagnfræði fjalli um það sem gerðist, skáldskapur um það sem gerðist ekki. Á mörkum þessara sviða þrífst andveruleg söguritun, sagan um það sem hefði gerst ef eitthvað eitt og sérstakt hefði farið öðruvísi en það gerði. Þetta er kallað counterfactual/kontrafaktisk saga á grannmálum okkar. Fræðimenn segja að upphaf hugsunar af þessu tagi megi rekja allt til rómverska sagnaritarans Tacitusar á fyrstu og annarri öld eftir Krist því að hann hafi stutt keppanda um keisarastöðu með því að ræða hvernig tilveran hefði getað þróast undir stjórn hans. Sem tímamótaverk á þessu sviði er líka talin frönsk bók frá 1836 þar sem lýst er leið Napoleons Bonaparte til heimsyfirráða hefði hann ekki beðið úrslitaósigur í orustu árið 1815. En blómaskeið þessarar gerðar sagnaritunar kom þó ekki fyrr en eftir síðari heimsstyrjöld, fyrst í enskumælandi heiminum.

Sum andveruleg saga telst ótvírætt til sagnfræði, enda stendur hún í rauninni á bak við alla orsakagreiningu á því fræðasviði; þegar við segjum að a sé orsök b erum við að halda því fram að ekkert b hefði orðið ef a hefði ekki farið á undan. Í sumum ritum af þessu tagi er farið svo fjarri raunveruleikanum að þau flokkast ótvírætt sem skáldskapur. Sem tímamótaverk af því tagi er nefnd skáldsagan Fatherland eftir Englendinginn Robert Harris sem gerist í höfuðborg Stór-Germaníu þegar leiðtoginn Adolf Hitler er að búa sig undir hyllingu í tilefni af 75 ára afmæli sínu. Svo má líka losa sig við hinn sagnfræðilega veruleika með öllu og stilla saman tveimur skálduðum atburðarásum. Sem verk af því tagi hefur verið nefnd kvikmyndin Sliding Doors frá 1998 sem fjallar um afleiðingar þess að kona, leikin af Gwyneth Paltrow, rétt sleppur inn um dyr á vagni í neðanjarðarlest í einum skálduðum veruleika en missir af lestinni í öðrum.

Nálægt aldamótunum síðustu gekk dálítil bylgja af andverulegri sögu yfir sagnfræði Norðurlanda. Ég á til dæmis danska bók frá 2001 sem heitir En anden historie. Ni alternative Danmarkshistorier. Fyrir utan fróðlegan eftirmála (sem ég er búinn að nota sem heimild hér að framan) eru þar níu sögur eftir danska sagnfræðinga af atburðum sem hefðu getað gerst en aldrei gerðust. Sú fyrsta segir frá því þegar her Mongóla lagði Danmörku undir sig árið 1241 í stað þess að draga sig óvænt til baka eftir hernaðarsigur við Liegnitz í Þýskalandi. Þeir héldu svo áfram allt til Vínlands. Af því leiddi meðal annars að heimurinn varð samstæðari en ella í fjölþjóðaríki Mongóla og sameinaðist um almenna tæknivæðingu strax á 15. öld.

Einhver áform voru á þessum árum um að gefa út bók með andverulegum Íslandssögum. Þau náðu ekki á leiðarenda en að minnsta kosti ein grein hefur birst sem átti að fara í þess konar bók, „Hvað ef Íslendingar hefðu verið fluttir á Jótlandsheiðar í Móðuharðindunum?“ eftir Helga Skúla Kjartansson í Skírni, í haustheftinu 2017.

Það hæfir vel að Valur Gunnarsson velji sér andverulegan rithátt því að hann er bæði sagnfræðingur að mennt og reyndur skáldsagnahöfundur. Efnisval hans virðist líka býsna upplagt og þó djarflega valið, í bók hans, Örninn og Fálkinn. Fyrsti kafli bókarinnar (á eftir Inngangi sem ég kem að síðar) byrjar á því að útlent herlið ræðst inn í Reykjavík að morgni 10. maí 1940, ekki breskt herlið eins og í veruleikanum, heldur þýskt. Síðan eru raktir, hver innan um annan, þrír söguþræðir sem mynda þó eina sögu að því leyti að sögumaður og aðalpersóna þeirra er sá sami, auk fleiri persóna, og atburðarásirnar samrýmast hver annarri innbyrðis. Þessi sögumaður er íslenskur karlmaður á þrítugsaldri sem hefur komist fremur illa áfram í lífinu og vinnur við það dæmigerða kvennastarf að afgreiða símtöl á símstöðinni í Reykjavík. Söguþræðirnir eru aðgreindir á þann einfalda hátt að sagt er í fyrirsögn hvers kafla hvar og hvenær hann gerist – nema raunar í þriðja og síðasta hluta bókarinnar, en hann gerist í einni tímaframvindu (ef ég hef skilið rétt) og þarf því ekki slíkra fyrirsagna með.

Ef raðað er í tímaröð er fyrsta atburðarásin frá árunum fyrir stríð og innrás, frá desember 1938 til hausts 1939, og þjónar meðal annars því hlutverki að kynna aðalpersónur, unga manninn Sigurð og stúlkuna Áslaugu, sem hann fær áhuga á, leiða þær saman og setja þær niður á sinn stað. Um leið verður til dálítil lýsing á mannlífinu í Reykjavík.

Önnur atburðarásin hefst með innrás Þjóðverja 10. maí 1940 og nær fram í október árið eftir þegar hópur fólks úr fjölþjóðlegri andspyrnuhreyfingu, þeirra á meðal Áslaug, rænir Sigurði, þar sem hann er á flótta úr fangelsi Þjóðverja, og taka hann í flokk sinn.

Þriðja atburðarásin fer fram nokkurn veginn í framhaldi af annarri en getur ekki talist til hennar af því að búið er að segja frá henni í mánuð áður en frásögn af annarri rásinni lýkur. En hér segir frá næsta ævintýralegri ferð 13 manna andspyrnuhóps upp á miðhálendi landsins – ég geri ráð fyrir að svokallaður Inngangur bókarinnar, sem gerist uppi á Hveravöllum á Kili, tilheyri þessari atburðarás. Síðan heldur hópurinn norður og austur fyrir Hofsjökul, sunnan Tungnafellsjökuls og norðan Vatnajökuls uns hann kemur að Kárahnjúkum, þar sem reynast vera fangabúðir Þjóðverja. Eftir viðburðaríka viðdvöl þar liggur leiðin til Vopnafjarðar og svo með kafbáti til Grænlands.

Eftir að þangað er komið er aðeins eftir bókarhluti sem kallast Endalok og inniheldur einn kafla, einkenndan þannig að hann gerist á Seyðisfirði haustið 1962. Þó að málalokin skipti varla eins miklu máli hér og lesandi ætlast til ætla ég ekki að brjóta þá góðu reglu að leyfa lesendum að lesa ekki sögulokin fyrr en í bókinni sjálfri.

Ekki geri ég mér grein fyrir því hvort það þjónar einhverjum góðum og gagnlegum tilgangi að hræra atburðarásunum saman í stað þess að segja frá í einni samfelldri tímaröð. En það veldur að minnsta kosti engum erfiðleikum vegna þess að kaflarnir eru stað- og tímasettir svo ótvírætt og nákvæmlega.

Margt er bráðskemmtilega gert í þessari bók, sérstaklega, finnst mér, þar sem notað er efni úr raunveruleikanum og aðeins snúið upp á það til þess að það geti staðist í andveruleikanum. Stundum þarf ekki að breyta miklu. Kvæði Steins Steinars, Imperium Britannicum, stenst til dæmis fullkomlega, og batnar verulega finnst okkur líklega flestum, við það eitt að Britannicum er breytt í Germanicum, Goethe kemur í stað Shakespeares og kvæðið er lagt í munn Áslaugu (bls. 148–49). Aðferð andveruleikans finnst mér heppnast langbest í frásögninni af komu Þjóðverja til Reykjavíkur og fyrstu dögum hernámsins. Þar er margt líkt raunverulegu hernámi Breta og þó með ólíkum blæ sem við könnumst við að hafi verið á ríki Hitlers í Þýskalandi og Churchills í Bretlandi. Þjóðverjar beittu meiri viðhöfn og meiri hörku þegar þeim fannst það eiga við; ég held að það standist ágætlega.

Stundum minnir frásögnin af gerðum hernámsliðsins óþægilega á verk Breta í veruleikanum (bls. 212): „En flestum fannst fulllangt gengið þegar marsérað var með alþingismanninn Einar Olgeirsson og báða blaðamenn Þjóðviljans út í skip þaðan sem þeir yrðu fluttir til Sachsenhausen-fangabúðanna.“ Í rauninni voru þeir fluttir í alræmt fangelsi í London, en ekki skal ég efa að þeirra hefði beðið verri vist í Sachsenhausen. Viðbrögðum Íslendinga við hernáminu er lýst djarflega af nokkuð afdráttarlausri hörku (bls. 159): „Og skyndilega voru allir orðnir nasistar. Loftvarnavirkið í Öskjuhlíð var fullbyggt, og ekki laust við að menn væru dálítið stoltir yfir því að hægt væri að reisa slíkt mannvirki á Íslandi.“ Fyrsta atburðarásin, frá árunum 1938–39, er fremur hversdagsleg raunsæissaga en prýðilega skrifuð. Dregnar eru upp skýrar myndir af persónum, og upprennandi ástarsaga þeirra Sigurðar og Áslaugur gefur kannski fyrirheit sem bókin á ekki eftir að standa alls kostar við.

En þegar kemur að þriðju atburðarásinni er eins og skáldfákur höfundar láti ekki hemja sig innan þeirrar raunsæisreglu sem andveruleg saga krefst. Mér finnst líklegt að margir lesendur bókarinnar séu því fegnir og vilji fremur þeysa með höfundi út í ævintýralandið. Ég hélt í fyrstu að höfundur væri að koma upp um fákunnáttu sína þegar hann klæðir hest í ullarsokk af manni í staðinn fyrir skeifu sem hann hefur misst (bls. 53). Slík fásinna er að það gæti komið hesti að gagni á miðhálendi Íslands, hvort sem er á jökli eða grjóti. Enginn Íslendingur með snert af kunnugleika mundi heldur gera það sem hér er gert, að skjóta hestana í óveðri og skýla sér undir skrokkum þeirra (bls. 81). Hins vegar má vel hugsa sér að menn bjargist með því að híma skjólmegin við lifandi hesta. En svo kemur smám saman í ljós að þessi ferð er ekki farin í heimi þess veruleika sem andveruleikinn krefst. Um skeið minnir ferðasagan einna helst á ferðir Jules Verne niður í iður Snæfellsjökuls, og síðar spretta upp mannfjandsamleg mannvirki við Kárahnjúka, rétt eins og sagan væri innlegg í nýlega deilu um virkjun þar eystra.

Ef við höldum okkur samt sem áður um skeið við kröfur af andverulegu tagi má finna að því að skrifað er eins og Norðmenn hafi gefist upp fyrir Þjóðverjum á tveimur dögum vorið 1940 (bls. 42 og 301–02), þar sem þeir veittu raunar mótspyrnu í eina tvo mánuði. Ég sé ekki að þessi breyting þjóni neinum tilgangi, og meginreglan í andverulegri sögu er að breyta engu öðru en því sem leiðir af eina stóra stökkinu út í andveruleikann. Það er líka hluti af íþróttinni að setja ekki inn í söguna neitt sem var ekki orðið til á sögutímanum. Valur flaskar ekki á mörgu af þessu tagi, og má þó benda á nokkur smáatriði. Ég vel að nefna það að hann gerir ráð fyrir að fullvaxnar íslenskar stúlkur hafi gengið í sokkabuxum, úr gervisilki, árið 1941 (bls. 184 og 256). En allir sem voru komnir með áhuga á buxnabúnaði stúlkna fyrir 1960 vita að sokkabuxur voru óþekktar flíkur á fullorðnum. Í fyrstu útgáfunni af Íslenzkri orðabók, 1963, eru sokkabuxur að vísu uppflettiorð, en það er skýrt þannig að þær séu „buxur og sokkar í einni flík (alg. klæðnaður barna).“

Valur nýtur þess að skáldskapur lýtur engum algildum reglum. Því verður honum endanlega ekki legið á hálsi þótt bók hans sé unnin með býsna blandaðri aðferð. Hann leikur sér víða skemmtilega með andveruleika en stekkur svo allt of langt frá veruleikanum til að rúmast innan þeirrar greinar. En texti hans er jafnan skemmtilegur aflestrar, og sumt sem hann lætur gerast er tilvalið efni í ágreining og umræður meðal lesenda. Ef ég væri ennþá háskólakennari í sagnfræði og ætti að kenna sögu 20. aldar mundi ég nota sem umræðuefni spurninguna um hvort það sé rétt að nánast allir Íslendingar hefðu orðið nasistar ef Þjóðverjar hefðu hernumið landið.

Gunnar Karlsson