Snorri Kristjánsson. Swords of Good Men, Blood Will Follow og Path of Gods.

Jo Fletcher, 2013–2015.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2015

Örlaganornin Skuld spinnur flókinn vef í fyrstu Valhallar-sögu Snorra Kristjánssonar, Swords of Good Men. The Valhalla Saga er þríleikur og í annarri bók, Blood Will Follow leikur Óðinn lykilhlutverk, hann er enn til staðar í þriðju bókinni, Path of Gods, en þar lætur Loki einnig til sín taka. Sagan gerist í Noregi árið 996 og lýsir átökum sem spretta vegna trúboðs Ólafs Tryggvasonar Noregskonungs, en ekki eru allir á eitt sáttir um að kasta hinum gömlu goðum fyrir róða.

Swords of good menEin aðalsöguhetjan er ungur Svíi, Úlfar Þormóðsson að nafni, en hann er á ferð (hálfnauðugur) með frænda sínum, sem er höfðingjasonur, sendur út til að sýna sig og sjá aðra. Síðasti viðkomustaðurinn er Steinvík við vesturströnd Noregs, en þar hefur verið reist heilmikil virkisborg. Steinvík er einnig áfangastaður Ólafs konungs, sem fer yfir Noreg og kristnar með góðu og illu, en til höfuðs honum hefur Skuld safnað saman óvígum her sem stefnir á Steinvík, sem er undir stjórn Sigurðar Ægissonar, yfirlýsts stuðningsmanns Ólafs – sem þó hefur gætt þess að binda sig hvíta Kristi ekki um of. Allt endar þetta með ægilegum bardaga sem hefur gjörtæk áhrif á tilveru Úlfars og nýs vinar hans, járnsmiðsins Auðuns sem á sér erfiða fortíð. Í næstu bók kemur í ljós að það geisa ekki aðeins átök milli heiðni og kristni. Innan norrænu trúarinnar eru einnig átök, á milli þeirra fóstbræðra Óðins og Loka. Innstu myrkur norðursins geyma grimmd og galdur sem freistar þeirra sem þrá völd. Jafnframt hafa konungar Svía og Dana safnað saman her til að fara gegn Ólafi Tryggvasyni. Sú herferð er viðfangsefni þriðju bókarinnar. Jafnframt eykst illska norðursins og Úlfar og Auðunn í félagi við Sigurð Ægisson og hóp hans stefna þangað.

Höfundurinn, Snorri Kristjánsson, er Íslendingur sem velur að skrifa á ensku. Áður en lengra er haldið langar mig að velta aðeins fyrir mér ástæðum þess. Augljósa skýringin er sú að með því að skrifa á ensku hefur höfundur möguleika á að ná til mun stærri markaðar en hins íslenska. [1] Fantasíur – eða furðusögur, og þá sérstaklega grimmúðlegar dramatískar fantasíur með norrænu ívafi, – hafa notið mikilla vinsælda á undanförnum árum, og nægir að benda á kvikmyndanir á verkum Tolkiens og sjónvarpsþætti byggða á Krúnuleikum Georges R.R. Martin sem dæmi. Hluti þessara furðusagna er ætlaður yngri lesendum en stór hluti er fyrir eldri lesendur og þannig er um bók Snorra. En af einhverjum ástæðum hefur ekki tekist að skapa efni af þessu tagi kjörlendi á Íslandi. Fram hafa komið nokkrar íslenskar fantasíur, en þær eru aðallega ætlaðar yngri lesendum (sjá úttekt í Spássíunni haust/vetur 2013). Hluti af þessu er gefinn út af forlögum en hluti eru sjálfsútgáfur, eða útgáfur hjá litlum forlögum. Án þess að ætla að vera neikvæð, hvorki út í þá góðu vinnu sem bókaútgefendur hafa þó unnið, né í garð þeirra sem gefa út sjálfir, þá er ljóst að þetta skapar nokkuð furðulegt vægi. Svo virðist sem skilaboð stærri forlaga séu þau að furðusögur tilheyri börnum og unglingum, sem er alrangt, fantasían er mun víðfeðmari en það, eins og lauslegt yfirlit yfir heimsbókmenntasöguna (eða bara íslenska bókmenntasögu frá miðöldum) sýnir glöggt. Sjálfsútgáfurnar (og minni útgáfurnar) eru einmitt til marks um það hversu áhuginn er mikill. Hér er hópur fólks sem leggur verulega mikið á sig til að búa til nýjan bókmenntaheim. Ég hef ekki náð að skoða allt þetta efni en það er ljóst að heilmikið er að gerast, margar sögurnar eru áhugaverðar – en líða mjög fyrir skort á yfirlestri, bæði ritstjórn og prófarkalestri. Þetta gerir því miður lítið til að auka á vægi þessa efnis innan íslensku bókmenntastofnunarinnar. Það er því kannski eðlilegt að höfundur sem er með góða hugmynd að blóðugri epískri fantasíu hiki við að fara inn á þennan markað, ekki síst ef annað og betra býðst. [2]

Líkt og svo margar fantasíur af þessu tagi vísar The Valhalla Saga til Hringadróttinssögu og einnig má sjá ummerki Krúnuleikanna. Það eru þó helst Íslendingasögurnar sem koma upp í hugann, meðal annars heitir ein persóna fyrstu bókarinnar Egill, kallaður Egill Jötunn, og fer fyrir flokki berserkja. Fjölmörg önnur nöfn eru sótt til Íslendingasagna, sem og persónueinkenni. Skáldsagan er því ekki aðeins norræn miðaldafantasía heldur einnig dæmi um vel heppnaða tilfærslu menningararfs, frá fornbókmenntum yfir í bókmenntaform sem nýtur mikilla vinsælda í nútímanum. Fantasían birtist fyrst og fremst í nærveru goðanna, en kemur einnig fram í galdri og þá sérstaklega rúnagaldri og ákvæðavísum.

Það er reyndar gaman að bera sögu Snorra saman við Hér liggur skáld (2012) eftir Þórarin Eldjárn, en þar var einnig á ferðinni afar ánægjuleg uppfærsla á íslendingasagnaarfinum. Nálgunin er þó gerólík, því þrátt fyrir að innhalda galdur og hasar, alveg eins og Swords of Good Men, þá er Hér liggur skáld verk sem er vandlega rammað inn af þjóðmenningunni, sviðsett á Þingvöllum, en sagan er einskonar endurskrifun á íslendingaþætti. Það breytir ekki því að aðdáendur fantasía ættu algerlega að geta notið hennar.

Eitt af því sem gerir fantasíu Snorra svo áhugaverða er að honum tekst að sigla framhjá hefðbundnum og einföldum andstæðum sem iðulega eru taldar fylgja fantasíum (og öðrum afþreyingarverkum). Eins og fram hefur komið gengur söguþráðurinn að hluta til út á átök milli trúarbragða. [3] Nánar tiltekið norrænu goðatrúarinnar og kristni. Í fyrstu bókinni setur Snorri þetta upp sem samspil hins forna og nýja, kristninni fylgir ekki bara trú heldur ber hún með sér nútímann. Seinna bendir Óðinn á að vald hans sé að dofna, því fólki finnist það ekki þarfnast hans lengur.

Þó er það engan veginn svo að Snorri upphefji annað á kostnað hins, né fer hann þá leið að stilla þessu upp sem einföldum átökum góðs og ills. Þó ljóst sé að öllu vafasamara lið fylgi fornum sið, þá er Ólafur langtífrá alfullkominn, eins og kemur ljóslega fram þegar líður á þríleikinn. Trúarbrögðin eru ekki einfalt mál, þeim er beitt í valdabaráttu og hvor fylking um sig er margklofin af svikum og græðgi – eða hagsmunaárekstrum eins og það er kallað í dag. Hugsjónir eru því takmarkaðar, en þó leynist gott og heiðarlegt fólk inni á milli.

Með því að fylgja eftir völdum persónum eru ákveðnar áherslur lagðar. Þannig er Úlfar, önnur aðalpersónan, í raun ekki hluti af þessum átökum, það bara vill svo til að hann er staddur í Steinvík þegar árásin er gerð og berst því með þeim. Sömuleiðis er fóstbróðir hans, Auðunn (sem ekki er allur þar sem hann er séður), ekkert endilega að berjast gegn neinu sérstöku, hann er frekar að berjast fyrir því að fá að vera í friði. Þegar á líður söguna flækjast þeir á milli fylkinga, en standa umfram allt gegn því að hin myrku öfl taki völdin.

Í herbúðum þeirra sem ráðast gegn Steinvík eru skipstjórarnir dæmigerðir víkingar, sem hugsa aðeins um það að ræna og rupla og valda sem mestum usla, en þar er líka að finna öflugustu kvenpersónu sögunnar, Þóru – sem mögulega er þeirra grimmust. Önnur kona er kynnt til sögunnar í miðbókinni, bóndakonan Helga sem á í útistöðum við stórbónda sem girnist bæði hana og jörð hennar. Þar kemur Auðunn til hjálpar. Leiðir þeirra liggja svo aftur saman í þriðju bókinni, en þar kemur í ljós að Helga er engin venjuleg kona og ekki síður slyng í rúnagaldri en Egill Skallagrímsson. Vissulega eru karlarnir fyrirferðarmeiri – og fleiri – en kvenpersónurnar, en þessum tveimur ólíku konum eru þó gefin lykilhlutverk, auk þess sem nokkur áhersla er lögð á að fordæma meðferð víkinganna á konum.

Nornin Skuld, fulltrúi framtíðarinnar, er svo gott dæmi um hina kvenlegu fláráðu fegurð, en í ljós kemur að hennar markmið eru heldur ekki öll sem þau sýnast – og virtist mér þar glitta í tilvísun í fantasíu Neils Gaiman, American Gods (2001), en þar koma norræn goðmögn einnig nokkuð við sögu. Reyndar er heilmikið um tilvísanir í bókmenntir og menningu af öllu tagi. Óðinn skiptir reglulega um gervi og fer um í félagi við tvo stóra hunda (sem standa fyrir úlfabræðurna Gera og Freka) og fráneyga hrafna. Og líkt og í goðafræðinni er Óðinn heilmikill bragðarefur, rétt eins og Loki. Sjálfur er Loki græneygður og sléttrakaður og eftir því sem á líður eykst illska hans. Það er ljóst að ímyndir þeirra eins og þær birtast í bókunum sækja einnig nokkuð til bandarísku myndasagnanna (og kvikmyndanna) um Þór.

Reyndar er það eitt af því sem gerir þríleikinn svo ánægjulegan, hvernig Snorri leikur sér með viðfangsefnið og nýtir sér jafnt sögu, goðsögu og nútímaútgáfur. Þannig er hinn sögulegi bakgrunnur sem lýtur að trúboði Ólafs Tryggvasonar og herferð Sveins tjúguskeggs Danakonungs í félagi við hinn unga Ólaf konung úr Svíþjóð og Eirík, son Hákonar hlaðajarls, byggður á heimildum. Norrænu goðin fylgja sömuleiðis sínum hlutverkum að mestu – Óðinn er eineygður og nefnir sig iðulega Fjölni og Loki vill drífa í Ragnarökum, en þó með fyrrnefndum tilvísunum til nútímalegri útgáfa. Á sama hátt er stíllinn blanda af nútímalegum hryssingi og fornlegu myndmáli sem sótt er í heim norðursins: trén standa í þéttum röðum sem minna á virkisvegg, skýin eru í laginu eins og úlfar og fara hratt yfir himininn (POG, 45). Sömuleiðis koma úlfar, birnir og hrafnar reglulega við sögu. Loks má ekki gleyma því að það vetrar hægt og rólega í gegnum þríleikinn, með tilheyrandi snjókomu, kulda og myrkri.

Bygging bókanna er með hefðbundnum hætti, en hvort sem það er áhrifum kvikmynda að kenna eða ekki (ég held að svo sé) þá virðast þær fantasíur sem mestra vinsælda njóta í dag þurfa að ganga að stórum parti út á langa lokaorrustu. Þannig er fyrri hluti Swords of Good Men (lokaorrusta ætti svo sem ekki að koma á óvart með svona yfirskrift) í raun bara undirbygging fyrir bardagann, eftir nokkrar vísbendingar um átök hittir lesandi fljótlega fyrir ‚dreka‘, víkingaskip með útskornu drekahöfði sem staðfestir að orrusta sé framundan. Áður var litið við í herbúðum Ólafs, þar sem hann fer um, brennir goð og safnar að sér liði. Bardaginn byrjar svo um rétt rúmlega hálfnaða bók og tekur yfir það sem eftir er. Þrátt fyrir að vera enginn sérstakur aðdáandi langvarandi stríða þá get ég ekki annað sagt en að Snorra hafi tekist vel upp í því að tefla fram sínum ólíku sveitum og leika sér með ýmsar útgáfur og útfærslur: með því að skipta ört á milli sjónarhorna (annað kvikmyndatrikk) verður lýsingin aldrei beint langdregin og hetjuskapur hetjanna ekki of þreytandi.

Það sama er svo endurtekið í síðustu bókinni, en þar fer fram tveimur bardögum. Klisjurnar eru vissulega víðsvegar, en því má ekki gleyma að fantasíur af þessu tagi eru bundnar í strangar hefðir (eins og reyndar allar bókmenntagreinar, tilraunabókmenntir eru jafnbundnar sínum uppbrotum á frásögn og frásagnarbókmenntir eru háðar línulegri framvindu) og það sem lesendur þeirra leita að er hæfileg blanda hins kunnuglega í bland við eitthvað nýstárlegt. Snorri heldur þessu jafnvægi með ágætum, þekking hans á Íslendingasögum og konungasögum kemur honum að góðum notum og leikurinn með persónur sem reynast ekki allar þar sem þær eru séðar virkar vel – án þess þó að koma brjálæðislega á óvart.

The Valhalla Saga er gott dæmi um vandaða víkinga-fantasíu, skrifuð af höfundi sem gerþekkir formið og kann að vinna með það. Bækurnar vaxa eftir því sem líður á, atburðarásin er hröð, skemmtileg og tilgerðarlaus og umfram allt laus undan þeirri áþján að bera táknræna byrði. Það kemur þó ekki í veg fyrir að finna megi pólitískar tilvísanir til nútíma í sögu Snorra, bara það að leggja trúarbragðadeilur til grundvallar gefur tilefni til vangaveltna um þær átakalínur sem víða má sjá í samtímanum. Slíkt verður þó aldrei yfirþyrmandi, hér er það skemmtigildið sem er í fyrirrúmi.

Úlfhildur Dagsdóttir

Tilvísanir

  1. Ritstjóri minnti réttilega á að það er löng og virðuleg hefð fyrir því að íslenskir rithöfundar skrifi fyrir erlenda markaði, enda sá innlendi afskaplega smár. Íslenskir skrifarar framleiddu handrit fyrir norskan markað á miðöldum og nokkru síðar völdu sumir íslenskir rithöfundar að skrifa á dönsku til að stækka markaðssvæði sitt. Einnig benti GAT á að það að skrifa á ensku losar Snorra undan fargi sagnastíls menningararfsins að einhverju leyti, erlent tungumál býður upp á meira svigrúm. Á hinn bóginn mætti líka segja að með því að skrifa á ensku sitji hann uppi með annan farangur, þann sem fylgir (miðalda)fantasíu-skrifum á því máli. Í öllu falli hefði verið spennandi að sjá hann takast á við að velja sögum sínum íslenskt málsnið.
  2. Þessi má geta að aðrir furðusagnahöfundar hafa valið að skrifa á ensku, m.a. höfundar bóka byggðra á gagnvirka netleiknum Eve Online, einnig má nefna Gunnhildi Magnúsdóttur og Nönnu Árnadóttur sem sendi frá sér Zombie Iceland árið 2011 (sjá ritdóm úd á Bókmenntavef Borgarbókasafnsins: https://bokmenntaborgin.is/umfjollun/zombie-iceland).
  3. Enda hafði trúarbragðafræðingurinn faðir minn mjög gaman af fyrstu bókinni.