Elísabet Kristín Jökulsdóttir. Enginn dans við Ufsaklett – Ástin ein taugahrúga.

Viti menn, Reykjavík, 2014.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2015

Enginn dans við UfsaklettEnginn dans við Ufsaklett – Ástin ein taugahrúga eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur var sennilega óvæntasti „hittari“ síðasta jólabókaflóðs. Bókin kom seint út og eins og síðustu bækur Elísabetar var hún gefin út af henni sjálfri og í upphafi nær eingöngu seld af höfundi. Elísabet er að sumu leyti jaðarhöfundur, en með þessari bók hefur hún þokast lengra inn á miðjuna, þótt í henni sé ýmislegt af því sem „hinn almenni lesandi“ (hver sem hann nú er) á oft bágt með að þola. Naktar og hráar tilfinningar, ofbeldi og geðveiki, kynlífslýsingar og gróteskar teikningar af píkum, svo eitthvað sé nefnt af þykkum kryddleginum í Engum dansi við Ufsaklett.

Fyrsta bók Elísabetar Jökulsdóttur, Dans í lokuðu herbergi kom út árið 1989. Hún skapaði sér strax sérstakan sess í íslenskum bókmenntum, frumlegan og næfan, en í Dansi í lokuðu herbergi byrjar hún að fást við ákveðin stef eða þemu sem hafa verið til umfjöllunar hjá henni allar götur síðan og birst ítrekað í verkum hennar.

Elísabet hefur skrifað ljóð, örsögur, leikverk, skáldsögur og æviminningar, en er ef til vill þekktust fyrir örsögur sem birst hafa m.a. í Galdrabók Ellu Stínu (1993), Lúðrasveit Ellu Stínu (1995) og Fótboltasögum (2001). Síðasta verk hennar sem gefið var út hjá einu stóru forlaganna (JPV) var Heilræði lásasmiðsins (2007). Bæði áður og síðan hefur Elísabet gefið út hjá eigin forlagi, sem hún nefnir Viti menn. Útgáfurnar eru oftast ódýrar, í litlu broti og fylgja gjarnan teikningar eftir höfund sjálfan. Bækurnar hafa einkum verið seldar í Melabúðinni, á Internetinu og á förnum vegi, en sjaldan sést í bókabúðum. Þetta eru m.a. Vængjahurðin (2003), Englafriður (2004), Síðan þessi kona varð trúuð hefur hún verið til vandræða í húsinu (2005), Bænahús Ellu Stínu (2009), Heimsóknartíminn – saga úr lokaða herberginu (2010), Kattahirðir í Trékyllisvík (2011) og nú síðast Enginn dans við Ufsaklett – Ástin ein taugahrúga (2014).

Ef mætti tala um stíleinkenni á höfundarverki Elísabetar Jökulsdóttur væri ef til vill hægt að segja að hún dragi upp hversdagslegar myndir og bernskar, hreinskilnin næstum yfirgengileg í sjálfsævisögulegu verkunum, en stundum bregður hún yfir sig furðusagnahamnum og þá er allt mögulegt. Verkin eru tilraunakennd og misjöfn að gæðum, sum virðast hafa verið skrifuð í einu hendingskasti og fleygt í prentsmiðju, meðan önnur eru vandaðri, ákaflega djúp og merkingarþrungin og bera þess merki að hafa verið lengi í smíðum. Jafnvel flest fullorðinsár höfundarins.

Einu sinni var lítið barn sem lokaðist inni …

Snemma byrjar Elísabet að fást við nokkur þemu eða stef sem síðan birtast endurtekið í verkum hennar. Innilokunin er mjög algengt stef. Hún er lokuð inni í herbergjum, lokuð inni í fólki, lokuð inni í sjálfri sér. Í fyrstu bók höfundar, Dansi í lokuðu herbergi, er ljóð um barn sem lokaðist inni, „því litla barnið varð svo óskaplega hrætt“ (10) og það skapast „hrikaleg ringulreið“ þótt litla barnið ætti að heita fullorðið. Síðan þá eru innilokun, lyklar, lásar og það sem því tengist viðloðandi verk Elísabetar.

Í Engum dansi við Ufsaklett er fjallað um ástarsamband. Bókin skiptist í þrjá hluta: Tilhugalíf, Sambúðin og Skilnaðurinn. Hér skal ekki reynt að eltast við orð eins og „ljóðmælandi“, því eins og mjög margar af bókum Elísabetar Jökulsdóttur fjallar þessi bók um hana sjálfa og hún er um hennar ástarsamband, líkt og bókin Heilræði lásasmiðsins, þar sem allir eru nafngreindir, synir hennar, fjölskylda, vinir og ástmaðurinn sjálfur. Í Engum dansi við Ufsaklett er ástmaðurinn raunar ekki nafngreindur, líklega vegna þess að sambandið er litað af ofbeldi, nánast frá fyrsta degi. Innilokunin sem hún hefur upplifað síðan hún var barn verður aftur staðreynd:

Ég lokaðist inní honum
eins og í hverju öðru herbergi.
Ég var lokuð inni í mörgu fólki
og man ekkert síðan hvenær. (57)

Nánast frá fyrsta degi veit hún að hún ætti að forða sér, en gerir það ekki. Elskhuginn kallar hana „alvörukonu“ í fyrsta ljóðinu, en reynir þó að breyta henni eftir sínum eigin geðþótta. Í Ljóði um ástina og gleymskuna (12) rær Elísabet á gamalkunn mið, þar sem hana langar að gleyma sér og týna sér í elskhuganum. „Gleyma gleyma gleyma/öllu nema þér“. Þetta kallast á við bókina Heimsóknartíminn – saga úr lokaða herberginu (2010) þar sem hún glímir einnig við innilokun og óraunveruleikatilfinningu sem gengur svo langt að hún gleymir nafni sínu, því að hún eigi börn og flestu sem hefur komið fyrir hana. Hún horfir á líf sitt eins og því hafi verið lifað af annarri manneskju sem ber sama nafn. Þar ræðir hún við „vörðinn“ sem reynir að koma henni í skilning um sannleikann og fá hana til þess að sætta sig við það sem hefur gerst.

Í þriðja ljóðinu í Engum dansi við Ufsaklett sýnir elskhuginn henni yfirgang og hin þroskaða Elísabet (sú sem skrifar ljóðin nokkrum misserum seinna) furðar sig á því að hún skuli ekki hafa forðað sér.

Ég skil ekki af hverju ég gekk ekki út
en kannski vissi ég ekki
hvar dyrnar voru. (13)

Víðar leitar hún að dyrum, en kemst ekki í burtu þótt skynsemin segi henni að forða sér sem skjótast. Elskhuginn vill ekki halda í höndina á henni þegar þau fara í leikhús eða bíó og hún furðar sig á því að hún skuli ekki standa upp úr sætinu, en „Kannski eru engar dyr á bíósalnum“ (51).

… þú læstir mig inni og hentir lyklinum

Verk Elísabetar Jökulsdóttur litast mjög af þrá hennar eftir föður sem hafnaði henni ungri og lést þegar hún var um tvítugt. Erfiðleika sína í nánum tilfinningasamböndum rekur hún oftar en ekki til föður síns:

… og þá fatta ég að ég er haldin sorg
sem er að mergsjúga líkamann
sorgin er eins og óværa
og ég vil ekki losna við sorgina
því þá ætti ég engan pabba
sorgin er staðgengill pabba míns … (46)

Heilræði lásasmiðsins er ákaflega bersögul bók, sem greinir frá ástarsambandi sem Elísabet lendir í með hattagerðarmanni frá Bandaríkjunum. Þar koma skýrt í ljós erfiðleikar hennar við að setja mörk og hemja sig í tilfinningasamböndum og hvernig hún bókstaflega týnir sér í þeim sem hún elskar. Eins og segir í Lásasmiðnum: „Þetta kvöld varð sársaukinn líkamlegur, ég lagðist í rúmið og fór að gráta yfir dauða föður míns. Ég skal aldrei fyrirgefa þér að hafa dáið, sagði ég, þú læstir mig inni og hentir lyklinum.“ (23) Í sama kafla segir vinkona hennar við hana að hún þurfi að breyta þessari hugsun í „Ég læsti mig inni og gleypti lykilinn“ (29) og það verður henni töluverð opinberun. Í Engum dansi við Ufsaklett er hún beitt ofbeldi af elskhuga sínum, en skýrast er ofbeldið sem hún beitir sjálfa sig, eins og segir í ljóðinu Engill á síðu 58:

Ég hef verið að reyna að leysa gátuna um kærastann
og ég hallast að því að hann hafi verið mér sendur
svo ég þyrfti ekki að sjá um ofbeldið gagnvart mér sjálf.

Dauði föðurins er einn atburður sem birtist aftur og aftur í verkum Elísabetar, en annar atburður hefur einnig haft djúpstæð áhrif á hana og kemur líka oft fyrir í bókunum. Sem ung kona veikist hún af geðsjúkdómi, er svipt sjálfræði og flutt á Klepp. Lokaða herbergið er því ekki bara andlegt ástand, heldur var það eitt sinn raunverulegt. Eins og segir í ljóðinu Nafnlaust í Engum dansi við Ufsaklett þegar hún greinir frá einmanaleikanum sem sker hana sundur þegar elskhuginn fer á sjóinn:

Ég er bara alein inní herbergi
og það er ekkert á veggjunum
og þá man ég loksins hvaða herbergi
þetta er herbergið 17. september
1979 á Kleppsspítala. (57)

Fylgifiskar geðveikinnar, meðvirkni og afneitun, sorg og sjálfsefasemdir renna sem straumhart fljót um höfundarverk Elísabetar Jökulsdóttur. Í ljóðinu Ástin, í Engum dansi við Ufsaklett er hún svo ráðvillt og hefur runnið svo algerlega saman við elskhugann að hún veit ekki hvort hjartað er hennar og hvort er hans. (48) Hún fer aftur og aftur á bráðamóttöku geðdeildar, en þar er henni tjáð að hún hafi orðið fyrir þungbærri reynslu og sé að reyna að eyða sjálfri sér.

Meira bullið þetta um sköpun
og eyðingu alla daga,
kannski er ég að skapa mig
eftir óljósum leiðum
og eyða mér jafnóðum.
Meira ruglið
meira djöfulsins
andskotans ruglið. (63)

Sköpunarþráin helst í hendur við hina ómeðvituðu þrá um að tortíma sjálfinu og flýja inn í heim geðveikinnar.

… bregð á leik og býð honum upp í dans

Enginn dans við Ufsaklett kallast í mörgu á við Dans í lokuðu herbergi. Dansinn er í verkum Elísabetar tjáning sem felur í sér sköpun og kjark og í honum er von. „Aðgangur bannaður nema þeim sem gera það sem þeir vilja. Nema þeim sem þora að dansa á landamærunum.“ (Dans í lokuðu herbergi, 63)

Í Engum dansi við Ufsaklett reiðist elskhuginn þegar konan bregður á leik og býður honum upp í dans (54). Dansinn er óheftur, þegar konan dansar lætur hún hvorki hemja sig né kúga. Elskhuginn segist vera hamingjusamur við klettinn (50) og dans við klettinn hlýtur því að vera dans við hamingjuna, en því miður reynist maðurinn ekki heppilegur dansfélagi. Undir lok bókarinnar, í ástarsorginni, syrgir konan það sem hefði getað orðið:

Svo komu áramótin
og enginn dans við Ufsaklett
það var ekkert tunglskin
engin spor í snjónum
engin ást í loftinu
engin von
í dansinum
engin kona sem kom út úr klettinum
og dansaði í korseletti
í flugeldaregninu
við mann
með sjómannshendur. (78)

Undir lok bókarinnar gerir Elísabet tilraun til þess að sætta sig við það sem á undan er gengið, „bjóða kærleikanum/í hjartað/og kærleikurinn hefur stáltaugar.“ (80) Hún viðurkennir sorgina en uppgötvar „að þetta er allt saman blekking/og kannski var blekkingin/ besta verkfærið.“ (81). Tilfinning fyrir því að sambandið hafi verið eitthvað sem hún átti og þurfti að ganga í gegnum til þess að losa um ákveðnar tilfinningar verður sterkari.

…og þá allt í einu veit ég að mig langar að hlæja að allri þessari alvöru

Í fórnarlambshlutverkinu finnur Elísabet sig aldrei almennilega, þótt hún máti sig við það í sífellu. Húmorinn fylgir henni, enda er Enginn dans við Ufsaklett að sönnu bráðfyndið verk, þótt átakanlegt sé á köflum. Höfundur hefur íróníska fjarlægð á atburðina og getur „verið vitur eftirá“. Ljóðið Sýlindermaðurinn, þar sem misræmið milli þess sem lesendur átta sig á og þess sem Elísabet fortíðarinnar tekur (eða tekur ekki) til bragðs, er grátbroslegt:

Kvöldið áður en hann flytur inn
trúir hann mér fyrir því
að konur hafi oft skipt um sýlinder
til að varna honum inngöngu
og augu hans fyllast af tárum
og ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta
hann hafi dottið í það og þær haldið
að hann ætlaði að berja þær
og skipt um sýlinder með köldu blóði
hann komið að lokuðum dyrum
og tekur af mér loforð að skipta aldrei um sýlinder, aldrei
ef allt hefði verið með felldu
hefði ég átt að rjúka heim og skipta um sýlinder
en ég ætlaði að fá mína sambúð
hvað sem það kostaði
þótt ég yrði læst inni eða úti
bara einhvers staðar. (41)

Í ljóðinu Alvörukona II, sem kallast á við fyrsta ljóðið í bókinni (Alvörukonan) er Elísabet hætt að taka orð karlsins alvarlega og segir: „Hvaða alvörukonukjaftæði er þetta, og þá allt í einu veit ég að mig langar að hlæja að allri þessari alvöru. Já, ég vil fá hláturskast en ekki æðiskast.“ (82) Kannski er blekkingin ekki besta verkfærið þegar allt kemur til alls, heldur hláturinn.

…og dyrnar opnast

Uppgjör Elísabetar Jökulsdóttur við ofbeldissamband er um leið ákveðið uppgjör við ferilinn, föðurinn og fortíðina.

Eftir því sem lesandi fetar sig eftir höfundarverki hennar má sjá hvernig sjálfsskilningurinn dýpkar smátt og smátt. Dans í lokuðu herbergi einkennist af mikilli ringulreið, í Heilræðum lásasmiðsins fær hún í hendur tól til þess að takast á við sjálfa sig, óreiðuna og ástina og í lok Enginn dans við Ufsaklett segir:

Loksins þegar þessi kona er komin heim til sín og er hætt að yrkja og rólegheitin sýna sig þá finnur hún dyrnar, hún verður svo hissa en hún finnur líka lykilinn: Gefðu frá þér stunu, feginsandvarp, … og dyrnar opnast. (87)

Með tjáningunni hefur hún hleypt sjálfri sér út úr lokaða herberginu og öðlast frelsi.

 

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir