Jón Yngvi Jóhannsson. Landnám: Ævisaga Gunnars Gunnarssonar.

Mál og menning, 2011.

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2012

Landnám: Ævisaga Gunnars Gunnarssonar„Hver er þá margumtöluð „staða Gunnars Gunnarssonar“ í íslenskum bókmenntum?“ spyr Jón Yngvi Jóhannsson undir lok hinnar ríflega 500 blaðsíðna bókar sinnar um ævi Gunnars og verk hans. Segja má að bók Jóns Yngva sé öðru fremur tilraun til að svara þessari spurningu og það gerir hann með ítarlegri og vandaðri úttekt á æviferli Gunnars og skáldverkum hans. Og hér er ekki aðeins skoðuð staða Gunnars í íslenskum bókmenntum heldur er höfundarferill hans einnig settur í samhengi danskra og norrænna nútímabókmennta.

Það er í stöðugri samfléttun þessa tveggja þátta – ævinnar og skáldskaparins – sem gildi verks Jóns Yngva liggur ekki síst. Auk þess sem hann rekur sig eftir ævi Gunnars með tilvísun til fjölda heimilda og gagna kafar Jón Yngvi dýpra í skáldverk höfundar en venja er í þeim ævisögum íslenskra rithöfunda sem út hafa komið á undanförnum áratugum. Landnám, ævisaga Gunnars Gunnarssonar er því jafnt bókmenntasaga sem ævisaga og fer vel á því í tilviki höfundar sem oft á tíðum hefur lent utangarðs í íslenskri bókmenntaumræðu og danskri bókmenntasöguritun. Umræða um Gunnar Gunnarsson og verk hans á ótvírætt heima í bókmenntasögum beggja heimalanda höfundarins – eins og Jón Yngvi sýnir fram á – og færi vel á því að bók hans kæmi einnig út á dönsku og fyllti þar upp í eyðu í danskri bókmenntasögu.

Þegar Gunnar Gunnarsson sneri heim til Íslands, fimmtugur að aldri árið 1939, vafðist bókmenntaleg staða hans hvorki fyrir Íslendingum né Dönum. Hann var meðal mest lesnu rithöfunda í Danmörku og bækur hans auk þess vinsælar í öðrum löndum Evrópu, einkum í Þýskalandi. Danir héldu honum kveðjuveislur og bókmenntaprófessorinn Hakon Stangerup kveður hann á prenti með þeim orðum að hann yfirgefi Danmörku „frægur, elskaður og dáður“. Hann bætir við að þótt Gunnar sé á förum frá landinu þá „yfirgefur hann ekki danskar bókmenntir“.

Jón Yngvi bendir á að þessi orð Stangerups séu fullkomlega eðlileg á þessum tíma: „Gunnar var svo áberandi í dönsku menningarlífi á öðrum, þriðja og fjórða áratugnum að það var óhugsandi fyrir vellesinn og gagnmenntaðan gagnrýnanda eins og Stengerup að ímynda sér að hann myndi hverfa gersamlega af sviðinu“ (350). Sú varð þó raunin; Gunnar hvarf af sviðinu ásamt öðrum íslenskum höfundum sem höfðu skrifað á dönsku. Það er merkileg þverstæða að þjóðerni höfundar virðist skipta meira máli en tungumálið sem er þó óneitanlega sá efniviður sem bókmenntirnar eru smíðaðar úr.

Íslendingar tóku vel á móti Gunnari við heimkomuna og í þekktri grein eftir Kristin E. Andrésson er honum líkt við víking sem er snúinn aftur heim, sigursæll eftir vel heppnaða utanför. Myndmál um sigursæla víkinga og landnám fylgdi lengi umræðunni um Gunnar og verk hans og átti hann reyndar sjálfur stóran þátt í útmálun þeirrar goðsagnar, eins og Jón Yngvi ræðir (sjá t.d. bls. 371). Segja má að víkingaminnið sé önnur af tveimur goðsögum sem lengst hafa fylgt Gunnari Gunnarssyni. Hin er skýringarsögnin sem bendir á móðurmissi Gunnars sem helsta hvata og drifkraft skáldskapar hans.

Rætur þeirrar skýringar liggja reyndar að mestu leyti í Fjallkirkjunni, skáldverkinu sem Gunnar byggði á bernsku sinni og manndómsárum, en hið sálfræðilega módel sem skýringin byggist á er útfært ítarlegast í bók Sigurjóns Björnssonar sálfræðings Leiðin til skáldskapar, hugleiðingar um upptök og þróun skáldhneigðar Gunnars Gunnarssonar (1964). Jón Yngvi er mjög meðvitaður um þessar tvær goðsagnir um Gunnar og þótt hann kjósi að hafa orðið Landnám að bókartitli þá stýrir hann fagmannlega fram hjá helstu klisjunum sem þeim tengjast og tekst oft að varpa nýju ljósi á staðnaða umræðu, eins og nánar verður komið að.

Landnámsmaður heima og erlendis

Landnám er reyndar vel til fundinn titill á ævisögu Gunnars Gunnarssonar. Jón Yngvi bendir á að titillinn hefur margs konar tilvísanir og auðvelt er að sjá Gunnar sem mann sem nemur lönd í fleiri en einum skilningi. Landnám er líka yfirskriftin sem Gunnar valdi bókaflokknum sem hann skrifaði um sögu Íslands og tilurð íslenskrar þjóðar. Bækur Gunnars sem falla í þann flokk eru fimm, Fóstbræður, Jón Arason, Jörð, Hvítikristur og Grámann, eða sjö, ef Svartfugl og Heiðaharmur eru taldar með. Sjálfur mun hann hafa stefnt að því að hafa bækurnar tólf talsins (288).

Gunnar útskýrði yfirskriftina þannig að „hver kynslóð þyrfti að nema landið upp á nýtt og berjast fyrir sjálfstæði sínu“ (287) og Jón Yngvi bætir við: „Gunnar var sjálfur útlagi í framandi landi, hann þurfti að nema land í Danmörku og í dönskum bókmenntaheimi. Sögulegu skáldsögurnar má sjá sem framhald þessa landnáms, Gunnar vildi flytja Ísland til danskra lesenda […]“ (287). Þá bendir Jón Yngvi einnig á að hugsjón Gunnars Gunnarssonar um sameiningu Norðurlanda megi skilja sem eins konar landnám. Og hugtakið landnám kemur einnig við sögu þegar Gunnar sest að á Skriðuklaustri með þann draum að gerast þar stórbóndi, og nýtt landnám hefst þegar sá draumur bregst og Gunnar sest að í Reykjavík í fyrsta sinn, sextugur að aldri.

Einnig notar Jón Yngvi landnámshugtakið þegar Gunnar tekur á efri árum að þýða eða endursemja þau verka sinna sem hann frumsamdi á dönsku yfir á íslensku: „Þýðingarnar voru honum enn eitt landnámið, tilraun til að rótfesta hann sjálfan og höfundarverkið í íslenskum bókmenntajarðvegi“ (457). En það sem situr eftir í huga lesanda ævisögunnar er þó fyrst og fremst hið einarða landnám sem Gunnar Gunnarsson vann á sviði bókmennta í Danmörku á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar. Það er ævintýri líkast og með ólíkindum hversu hratt vinsældir hans dvínuðu og nafn hans féll í gleymsku í Danmörku þegar líða tók á síðari hluta aldarinnar.

Rannsóknir á ævi Gunnars Gunnarssonar

Nokkrar atrennur hafa verið gerðar að því að skrifa ævisögu Gunnars Gunnarssonar. Í tilefni af sjötugsafmæli Gunnars árið 1959 kom út bók Svíans Stellans Arvidsson, sem nefndist einfaldlega Gunnar Gunnarsson, en Arvidsson var einn allra ötulasti stuðningsmaður Gunnars í gegnum árin og þýddi nokkur verka hans á sænsku. Árið 1964 gaf Sigurjón Björnsson út hina sálgreinandi rannsókn sína á Gunnari og Fjallkirkjunni, eins og áður er getið, og margt í hugmyndum hans um skáldskap Gunnars er samhljóða því sem Arvidsson setti fram í sinni bók. Á það sérstaklega við túlkun þeirra tveggja á hinum sálfræðilega drifkrafti á bak við skriftir Gunnars en Sigurjón útfærir þá túlkun mun ítarlegar enda sálfræðingur og starfandi sálgreinir á ritunartíma bókarinnar.

Fyrir sex árum kom út bók Halldórs Guðmundssonar, Skáldalíf. Ofvitinn úr Suðursveit og skáldið á Skriðuklaustri (2006), þar sem spyrtir voru saman jafnaldrarnir Gunnar Gunnarsson og Þórbergur Þórðarson og fjallað um ýmsa þætti úr lífi þeirra og verkum. Bók Halldórs er að mörgu leyti afar vel heppnuð og samanburðurinn á þessum tveimur gagnólíku skáldum víða bæði fróðlegur og skemmtilegur. Skáldalíf er þó ekki ævisaga af svipuðum toga og bók Halldórs Guðmundssonar um Halldór Laxness, sem hann sendi frá sér ári áður, og kannski má líta á hana sem nokkurs konar framhald að ævisögu Laxness; mynd af helstu mótleikurum Halldórs Laxness á hinu íslenska skáldskaparsviði á fyrri hluta tuttugustu aldar.

Eins og mörgum er kunnugt vann Sveinn Skorri Höskuldsson bókmenntaprófessor lengi að rannsókn á ævi og verkum Gunnars en entist ekki aldur til að ljúka því verki. Jón Yngvi greinir frá því í eftirmála bókar sinnar að hann hafi haft aðgang að gagnasafni Sveins Skorra og handritum og segir það hafa verið sér „mikil stoð við samningu bókarinnar“ (534). En hann hnykkir þó á því að bók sín eigi „lítið sameiginlegt með þeirri ævisögu sem Sveinn Skorri vann að. Til þess eru fræðilegar áherslur okkar og áhugamál of ólík“ (534).

Fræðilegt samhengi

Jón Yngvi skiptir bók sinni niður í níu kafla og velur hverjum kafla að yfirskrift hin mismunandi aðsetur Gunnars Gunnarssonar á æviferli hans. Þannig ber fyrsti kaflinn yfirskriftina „Fljótsdalur – Vesturárdalur“ og vísar til fæðingarstaðar og bernskustöðva Gunnars og síðasti kaflinn ber yfirskriftina „Viðey“ þar sem hann og kona hans eru grafin. Kaflar tvö til sex bera svo heiti hinna ýmsu aðsetra Gunnars í Danmörku en í sjöunda og áttunda kafla er hann kominn aftur til Íslands og dvelur fyrst á Skriðuklaustri og að lokum á Dyngjuvegi í Reykjavík.

Ævisögu Gunnars rekur Jón Yngvi í réttri tímaröð og er augljóst að bókin er byggð á margra ára rannsóknum og gífurlegri heimildavinnu, eins og allar góðar ævisögur. Stíll Jóns Yngva er blátt áfram og læsilegur og hvergi flækjast fræðilegar útlistanir fyrir lesandanum þótt augljóst sé að höfundurinn er bókmenntafræðimenntaður og vel heima í íslenskum og norrænum tuttugustu aldar bókmenntum.

Fræðilegt samhengi er þó vissulega til staðar í skrifum Jóns Yngva og má nefna tvennt sem vakti sérstaklega athygli mína í því samhengi.

Í fyrsta lagi má sjá áhrif kynjafræði í skrifum Jóns Yngva, hann leggur víða áherslu á það hvernig metnaður Gunnars Gunnarssonar beinist að því að falla inn í borgaralegt hlutverk fjölskylduföður og dugandi karlmanns sem býr fjölskyldu sinni öruggt umhverfi og hefur ótvírætt vald yfir aðstæðum sínum (sjá t.d. bls. 111 og áfram). Jón Yngvi greinir þetta ferli meðal annars í Fjallkirkjunni og ályktar: „Smám saman fylla þeir Gunnar og Uggi út í mynd þess borgaralega karlmanns sem er lokatakmark þeirra að verða“ (119). Þá má einnig tengja kynjafræðilegt sjónarhorn við þá ábendingu Jóns Yngva að það sé ekki aðeins móðurmissirinn sem hafi afgerandi áhrif á Gunnar og verk hans, heldur megi einnig sjá að föðurmissir – í óeiginlegum skilningi þó – spili þar ekki síðra hlutverk.

Ef við lesum Fjallkirkjuna sem sjálfsævisögulegan texta Gunnars (og flest rök hníga að því að það sé gert) má sjá að faðirinn bregst syni sínum á ögurstundu. Í Fjallkirkjunni kemur faðirinn ekki sjálfur til að færa Ugga tíðindi af andláti móðurinnar og það fyrsta sem barnið lætur út úr sér er setningin: „Af hverju kom ekki pabbi?“ Jón Yngvi túlkar þessa setningu sem lykilsetningu í Fjallkirkjunni allri og segir hana „lýsa tilfinningum Gunnars til föður síns jafn vel og Ugga“ (30). Þá kann sú staðreynd að faðir Gunnars gifti sig aftur áður en ár var liðið frá andláti móðurinnar að hafa magnað upp tilfinningu sonarins fyrir svikum föðurins.

Jón Yngvi bendir á að feðgasambönd eru í brennidepli í mörgum verka Gunnars og í þeim má finna marga feður sem bregðast og búa yfir eyðingarafli og oftar en einu sinni fléttast „kynlíf, frjósemi og dauði“ saman í þessu sagnaminni (31). Jón Yngvi rekur dæmi um þetta sagnamynstur í skáldverkum Gunnars og eru túlkanir hans gott dæmi um það hvernig nýtt sjónarhorn – í þessu tilviki það kynjafræðilega – getur opnað fyrir nýjan skilning á gömlum textum.

Annað fræðilegt samhengi sem nýtist Jóni Yngva vel í rannsókn hans á Gunnari Gunnarssyni og verkum hans er hin svonefndu síðnýlendufræði (postcolonial studies). Þegar staða nýlenduhöfunda innan bókmenntakerfis herraþjóðarinnar er skoðuð út frá slíku sjónarhorni er kastljósinu til að mynda beint að viðtökum einstakra verka og rýnt í þá orðræðu sem birtist í ritdómum og annarri umfjöllun um þau. Jón Yngvi gerir einmitt þetta, hann greinir viðtökur á verkum Gunnars í Danmörku og dregur margt skoplegt fram í dagsljósið. Hann sýnir fram á að nýlenduhugsunarháttur setji sterkan svip á alla umfjöllun um íslensk-dönsku höfundanna og ritdómar danskra gagnrýnenda um verk Gunnars og annarra Íslendinga séu „gegnsýrðir af hugmyndafræði um þjóðerni og sérkenni þjóða“ (195).

Þetta er mjög athyglisverð umræða og það sama má segja um umræðuna um viðtökur hinna „dönsku“ verka Gunnars á Íslandi. Þar var ekki spurt hvort Gunnar væri góður höfundur heldur hvort hann væri góður Íslendingur og urðu þær pælingar oft á tíðum mjög óvægnar og ósanngjarnar; í augum sumra jafngilti það föðurlandssvikum að skrifa á dönsku (sjá t.d. bls. 182 og áfram). Jón Yngvi telur að nýlenduhugsunarhátturinn eigi líklega mesta sök á því að verk Gunnars féllu í gleymsku í Danmörku:

Í tilfelli dansk-íslensku höfundanna verður þessi lestur algerlega ráðandi og þótt það hafi sjálfsagt komið Gunnari, Jóhanni, Kamban og fleirum til góða, sérstaklega í upphafi ferilsins, að vera álitir spennandi og villtir í krafti þjóðernis síns, þá stóð það Gunnari alveg örugglega fyrir þrifum þegar á leið og er líklega ein meginástæða þess að hann er nú fullkomlega gleymdur í danskri bókmenntasögu. (196)

Skrif Jóns Yngva um viðtökur og orðræðu danskra gagnrýnenda um verk íslensk-dönsku höfundanna er oft skemmtilega írónísk og eiginlega bráðnauðsynlegt að þau komi fyrir augu danskra bókmenntamanna.

Persónulegt líf

Þótt hér hafi verið lögð áhersla á bókmenntasögulegt inntak Landnáms. Ævisögu Gunnars Gunnarssonar og nýja sýn höfundar á skáldverk Gunnars er þáttur hins persónulega lífs skáldsins í bók Jóns Yngva einnig ítarlegri og fyllri en í fyrri bókum um Gunnar, enda um að ræða ítarlegustu rannsókn á þessum höfundi sem á prent hefur komið. Jón Yngvi dregur upp trúverðuga mynd af Gunnari sem vekur oft aðdáun og samúð en er þó ekki alltaf geðfelld. Þrautseigja og úthald Gunnars á þeim árum sem hann er að hefja sinn feril með tvær hendur tómar hlýtur þó að vekja aðdáun flestra.

Metnaður hans er ærinn og snýr að tvennu; að verða virtur rithöfundur og traustur fjölskyldufaðir. Því verður ekki á móti mælt að Gunnar náði takmarki sínu á báðum sviðum og kannski ekki síst vegna þeirra persónueiginleika sem falla manni síst í geð; þrjósku, ráðríki og jafnvel ofmetnaðar. Hér er líka kafað dýpra í persónuleg málefni á borð við ástarsambönd Gunnar bæði fyrir og í hjónabandi og er sambandi hans við Ruth Lange, sem hann eignaðist með son árið 1929, gerð ítarleg skil. Sú saga sýnir Gunnar í nokkuð óvægnu ljósi sem mann sem hefur tilfinningalegt heljartak á ungri konu sem virðist lúta vilja hans í einu og öllu.

Þá er afstaða hans til sonar þeirra, Gríms, síðar á ævinni ekki alltaf geðfelld og sú frásögn vekur upp hugleiðingar um hvort Gunnar sé ekki sjálfur kominn í hlutverk föðurins sem bregst, eins og hann sjálfur lýsir svo oft í sínum eigin skáldverkum og áður er rætt, (sjá frásögn af heimsókn Gríms á Skriðuklaustur 403–405). Gunnar og Franziska, eiginkona hans, eignuðust tvo syni, Gunnar (1914) og Úlf (1919), en árið 1912 eignaðist Gunnar að öllum líkindum son með Anne Marie Pedersen sem hann trúlofaðist fyrsta veturinn sem hann bjó í Danmörku 1907. Upp úr þeirri trúlofun slitnaði um tveimur árum síðar en sonur Annie Marie, Alf Pedersen, fæddist 31. október 1912, rúmum tveimur mánuðum eftir að Gunnar og Franziska giftu sig. Hér er komið „launbarn“ Gunnars og kemst hann þar í flokk með félögunum Halldóri Laxness og Þórbergi sem einnig áttu sín launbörn.

Jón Yngvi fjallar líka ítarlega um þau tvö málefni sem hafa verið nokkuð í kastljósinu undanfarin ár og tengjast Gunnari; annars vegar Nóbelsverðlaunamálið og hins vegar afstöðu Gunnars til Hitlers og Þýskalands á stríðsárunum. Umfjöllun Jóns Yngva um þessi mál er vönduð og án sleggjudóma en þó ekkert dregið undan og í báðum tilvikum tekst honum vel að bæta dráttum við hina áður þekktu mynd.

„Hann var fjarstaddur og missti af fjörinu“

Það er óumdeilanleg staðreynd að hin margumtalaða „staða Gunnars Gunnarssonar“ í íslenskum bókmenntum var staða útlagans, þess höfundar sem átti erfitt uppdráttar vegna fjarveru sinnar frá hinum íslenska menningarvettvangi á umbrotatímum í íslenskri bókmenntasögu. Þótt Gunnar hafi sent frá sér meistaraverk á borð við Fjallkirkjuna og Svartfugl voru landar hans lengi vel furðuáhugalitlir um verk hans og kannski er helsta skýringin á því að vegna fjarveru sinnar tilheyrði hann engri klíku rithöfunda eða menntamanna.

Jón Yngvi ræðir átök í íslenskri menningarumræðu á þriðja áratugnum og skrifar: „Milli menntamannanna og uppreisnarmanna á borð við Þórberg og Halldór Laxness ríkti nokkur spenna en frá sjónarhóli Gunnars skiptir það ekki höfuðmáli. Hann var fjarstaddur og missti af fjörinu“ (218). En spyrja má: Skiptir þetta ekki þvert á móti höfuðmáli? Er þetta ekki einmitt ástæðan fyrir því að Gunnar Gunnarsson lendir utangarðs? Að hann „missir af fjörinu“ og líf (fjör) bóka hans fjaraði út?

Það væri vel ef rit Jóns Yngva Jóhannssonar yrði til þess að endurvekja áhuga á skáldverkum Gunnars Gunnarssonar og helst beggja vegna Atlantsála. Jón Yngvi sýnir að mörg verk Gunnars liggja enn óbætt hjá garði þegar kemur að fræðilegum rannsóknum. Benda má á verk á borð við Vikivaka og Brimhendu sem eru hvort um sig merkilegar tilraunir með form og þau hafa, með örfáum undantekningum, vakið litla athygli fræðimanna. Lestur á Landnámi. Ævisögu Gunnars Gunnarssonar hlýtur að vekja áhuga nýrra lesanda á að kynna sér verk hans og ætti einnig að verða hvati til nýrrar sóknar í rannsóknum á höfundarverki hans.

Soffía Auður Birgisdóttir