Steinar Bragi. Kata.

Mál og menning 2014.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2015

KataÞegar þessi orð eru skrifuð geisar í íslenskum blöðum og á bloggsíðum umræða um nýjar bækur íslenskra karla sem segja frá ofbeldi, andlegu og líkamlegu. Tekist er á um hugtökin sannleika og lygi, staðreyndir og skáldskap, og ýmis vanhugsuð og ófögur orð hafa fallið í hita leiksins. Ljóst er að um leið og umræðan snýr að kynferðislegu ofbeldi er kveikiþráðurinn stuttur og svo virðist sem ‚játningabækur‘ karla mæti nú álíka viðhorfi og slíkar bækur kvenna gerðu fyrir tveimur til þremur áratugum. Í sjónvarpsþætti er rætt við lögmann sem segir „allt of [mikla] umræðu um kynferðisbrot á Íslandi“ og telur jafnframt að „réttarkerfið á Íslandi í kynferðisbrotamálum […] virki mjög vel. Sérstaklega fyrir brotaþola“. [1] Slík staðhæfing er hlægileg, þótt málefnið sé grafalvarlegt, því allar tölur og rannsóknir benda til hins gagnstæða. Steinar Bragi hefur margítrekað að kveikja skáldsögunnar Kötu sé ekki síst fólgin í þessari staðreynd; hversu algengt kynferðisofbeldi sé á Íslandi, ekki síður en erlendis; hversu ófært dómskerfið sé um að taka á málefninu og hversu fátíðir og vægir dómar séu í málaflokknum. Hann nefnir til sögunnar bók Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur, Á mannamáli: ofbeldi á Íslandi, brotin, dómarnir, aðgerðirnar og umræðan (2009), sem hafi haft gríðarleg áhrif á sig og segist hafa skrifað Kötu af „réttlætiskennd“, að hún sé drifkraftur skrifanna. [2] Það er þó ljóst að málefnið hefur brunnið á Steinari Braga lengur því skáldsaga hans Konur (2008) getur einnig talist innlegg í þessa umræðu. Báðar þessar skáldsögur lýsa, hvor á sinn hátt, sálfræðilegu og siðferðislegu hruni, um leið og þær taka með ögrandi og óvægnum hætti á stöðu kvenna í nútímasamfélagi.

Í athyglisverðri grein sem Steinar Bragi birti á vefritinu Nei, 14. nóvember 2008, gerir hann tilraun til að greina vandann sem hann telur hrjá íslenskt samfélag á árdögum fjármálahrunsins og setur fram ögrandi hugmyndir og hvetur til byltingar. Rætur vandans sér hann í þeirri valdníðslu sem sprettur af því sem hann kennir við ‚karlmennsku‘ sem farið hefur úr böndunum:

Vandinn er okkar allra, en uppruni hans virðist að einhverju leyti bundinn við karlmennskuna, þ.e. þá eiginleika harðsækni, þors og viljastyrks sem eru kenndir við karlmennsku (af hættulegri íslenskri þjóðernisást er talað um víkinga) og nánar tiltekið ofvöxt sem hleypur í óhamda karlmennskuna og gerir hana að dragbít á alla framþróun, eða eyðileggingarafli. Það er ekkert hættulegra á jörðinni en hvítur miðaldra karlmaður. Það þarf að hemja þá. [3]

Þessa óhömdu karlmennsku tengir Steinar Bragi við alfa-apa af ætt bavíana, sem eru „með agressífustu dýrum jarðarinnar“ og eru ættflokki sínum hættulegir; berja, nauðga og drepa ef þeir komast upp með það. Líkingin er svakaleg en Steinar Bragi segist sjálfur kannast við þær hvatir sem um er að ræða:

Ég er sjálfur hvítur karlmaður, allt að því miðaldra. Ég finn í mér heiftina. Ég veit ég get verið hættulegur. Eða á máli dýrafræðinganna: ég finn í mér alfa-tilhneigingu, mig langar að upphefja mig á kostnað annarra, vera tilbeðinn, éta og drekka brennivín þar til ég æli, beygja aðra rækilega undir mig og drottna, hvaða nafni sem ég svo kalla það; mig langar oft að láta rækilega til mín taka þegar kemur að hvötunum […] [4]

Steinar Bragi hvetur til þess að brugðist verði hart við þegar slíkar hvatir skjóta upp sínum ljóta kolli, hvort sem er á sviði atvinnulífs eða einkalífs; á því velti velferð samfélagsins. Skáldsögurnar Konur og Kata mega kallast innlegg í baráttuna gegn valdbeitingu alfa-karlapanna; í báðum bókunum eru fulltrúar þeirra á ferli og svífast einskis til að framfylgja vilja sínum. Bækurnar hafa því skýrt pólitískt markmið og kann að vera að einmitt í þeirri staðreynd liggi ástæður þess hversu hörð umræða varð um þær báðar. En Steinar Bragi er snjall höfundur og það væri fráleitt að dæma bækur hans aðeins út frá pólitísku inntaki eða markmiði, án þess að ég vilji gera lítið úr því. Það er til að mynda ekki síður áhugavert að sjá hversu leikinn hann er í því að blanda saman ólíkum gervum bókmennta; hvernig hann nýtir sér eiginleika spennu- og glæpasagna en vefur jafnframt raunsæi og fantasíu samanvið og leyfir textanum að ná ljóðrænum hæðum á köflum.

Viðbrögð lesanda við báðum þessum skáldsögum voru blendin. Einn gagnrýnandinn komst þannig að orði um Konur að bókin væri „samtímahrollvekja sem sprottin væri upp úr íslenska gullæðinu í upphafi 21. aldar“ [5] enda má skilja frásögnina sem ádeilu á menn sem í krafti peninga yfirstíga öll mörk siðferðis. En það eru ekki bara fjárglæframenn sem Steinar Bragi beinir spjótum sínum að; í viðtölum sem tekin voru við hann þegar Konur kom út gagnrýndi hann einnig listamenn sem að hans mati tóku þátt í því spillta lífi sem gróðærið fæddi af sér; listamenn stunduðu sjálfsritskoðun til að þeim yrði ekki hafnað af þeim sem áttu næga peninga til að borga brúsann. Plottið í Konum snýst um „listgjörning“ sem listamaður fjármagnaður af útrásarvíkingum útfærir á djöfullegan hátt og felur beinlínis í sér pyntingar á konum og dráp á barni. Frásögnin af gildrunni sem aðalpersónan, Eva, er leidd í er svo óhugnanleg að margir lesenda vörpuðu bókinni frá sér með viðbjóði og einn gagnrýnandi komst þannig að orði að bókin lýsti listinni „að pína konur“. [6] Steinar Bragi hélt því hins vegar fram að vildi maður stuðla að breytingum á óþolandi ástandi yrði að bregðast við á óvæginn hátt og af krafti. Hinar ögrandi skáldsögur hans Konur og Kata eru hvor um sig liður í viðbragði höfundarins við þessu óþolandi ástandi.

Varla fer hið pólitíska markmið Kötu fram hjá nokkrum lesanda. Frásögnin lýsir sálfræðilegu hruni hjúkrunarkonunnar Kötu í kjölfar hvarfs dóttur hennar, sem síðar kemur í ljós að hefur verið nauðgað af þremur mönnum og í kjölfarið myrt, og síðan hvernig hún rís úr þeim sálarrústum þegar hún hefur fundið sína persónulegu leið til ‚réttlætis‘. Sögð er breið saga af fjölskyldulífi, af hjónabandi sem ekki stenst álagið, af rannsókn lögreglu sem er hæg og þótt glæpurinn upplýsist nær armur laganna ekki til ofbeldismannanna vegna skorts á sönnunargögnum. Lýst er hvernig ásetningur Kötu að taka málin í sínar eigin hendur vex eftir því sem henni verður vangeta kerfisins betur ljós og bókinni lýkur á lýsingu á tilveru hennar í fangelsinu þar sem hún situr af sér dóm fyrir hefndarmorð á nauðgurunum og morðingjunum þremur. Þaðan svarar hún bréfum og sinnir viðtalsbeiðnum sem henni berast „frá innlendum og erlendum fjölmiðlum og fólki sem var að vinna ritgerðir við háskóla“. Og þangað berast henni fréttir af hefndardrápi tveggja norskra húsmæðra „sem þær sögðu innblásið af Kötu“ og „aðgerðahópi kvenna“ á Spáni sem stofnaður hefur verið í hennar nafni. Í viðtali við Nýtt líf hvetur hún til aðgerða gegn kynbundnu ofbeldi því þrátt fyrir tölulegar staðreyndir „er hvorki áhugi né vilji hjá helstu stofnunum samfélagsins til að gera meira en ræða það […] án teljandi árangurs.“ Kata lýsir ástandinu sem kynjastríði:

„Meðan stríðið geisar og hundruð þúsunda okkar falla á hverju ári, hafna ég samræðu um hvort það eigi sér stað eða ekki. Það eina sem við þurfum að ræða eru aðgerðir til að breyta því. Mannréttindi eins og þau eru skilin í dag miða að þörfum og áherslum helmings mannkyns: karla. Þeir tala um frelsi, réttlæti og bræðralag en á þessu veisluborði hugmyndanna njótum við konur bara brauðmolanna sem falla í gólfið. Meðan okkur er nauðgað, við erum drepnar, seldar mansali í milljónatali, barðar og sligaðar af körlum, og niðurlægðar svo aftur með viðbragðaleysi samfélagsins, þá höfnum við þessum karlmiðuðu hugmyndum. Þangað til við sitjum öll við sama borð og réttindunum er jafnt útdeilt setjum við fram okkar eigin áherslur: Vernd, refsingu og systralag.“ (513)

Hið sálfræðilega niðurbrot hefur stuðlað að pólitískri vakningu Kötu og í bókarlok virðist hún sátt. Líf hennar hefur öðlast merkingu fyrir tilverknað hefndarinnar en áður var það rúið tilgangi. Ákveðinn vendipunkt má greina í þróun persónunnar þegar komið er fram yfir miðja bók (kafli 48), þar sem hún veltir fyrir sér lífi sínu og spyr tilvistarlegra spurninga:

Hvaða möguleiki átti kona eins og hún? Á miðjum aldri […] Fyrir hvað lifðu þau í millistéttinni? Á hverju þrifust þau? Leið þeim vel? Voru möguleikar þeirra, og Kötu sjálfrar, samofnar? Sætu þau gúglandi fram í dauðann? Spilandi Crazy bird-tölvuleiki? Hvaða merkingu höfðu þau í hinu stærra samhengi? – Sem neytendur? Starfskraftar? Foreldrar? Sem hagvaxtarhvetjandi fjölgendur? Fyrir hvað lifði hún, Kata, sem hafði ekki þegar reynst rangt og/eða ófullnægjandi? Lifði hún af öðru en vana? – Blindri, ópersónulegri lífslöngun sem hún deildi með dúfum, burknum og músum? Eða hvað – í tilfelli miðaldra konu – endurspeglaði betur stöðu hennar og framtíðarhorfur en stéttin? (353)

Niðurstaða Kötu er að hún geti ekki lengur afborið „venjulegt líf“, hún hafi „engu að tapa“ og verði „að feta veg athafna“ (356–357).

Að öllum líkindum er það þessi þráður bókarinnar sem er hvað mest ögrandi og gefur tilefni til endalausra pælinga um hvort það að taka refsinguna í sínar eigin hendur sé siðferðislega ásættanlegt. Hæpið væri að fullyrða að höfundur sé á sömu skoðun og Kata, þótt hann láti hafa eftir sér í viðtali að óskin eftir að „drepa gerandann“ sé „eðlileg“. [7] Líklega geta flestir foreldrar ungra kvenna fundið þá ósk í eigin brjósti við slíkar aðstæður sem Kötu eru búnar. Hvort þeir myndu hrinda henni í framkvæmd er allt annað mál. Það sem situr helst eftir þegar bókin hefur verið lesin eru þó ekki endilega pælingar um hefndarferlið og hinar hrikalegu lýsingar á ofbeldinu sem þar er á ferðinni. Ásæknari eru myndirnar sem Steinar Bragi dregur upp af hinu „venjulega“ lífi og vanköntum þess; áhugaverðari eru lýsingarnar á vinnu Kötu á krabbameinsdeildinni – sem geta líka kveikt þá hugmynd að ofbeldi gegn konum sé krabbamein á þjóðarlíkamanum – og kaflarnir sem gerast í dúkkuhúsi dótturinnar gefa tilefni til ýmiss konar vangaveltna um speglanir á milli raunsæissviðs og fantasíusviðs frásagnarinnar. Þá vekja athygli meitlaðar náttúrumyndir sem flestar tengjast líðan aðalpersónunnar, eins og eftirfarandi tilvitnanir sýna. Sú fyrri tengist því að hefndarferlið er farið að mótast í huganum á Kötu og sú síðari er lokaorð bókarinnar:

Hún lokaði augunum og slakaði á. Eftir svolitla stund komu til hennar vetrarmyndir úr skógi, og af litlum kofa innan í kúpli sem var hristur til að kalla fram snjó. Allt í kringum hana var hvítt og bak við kofann var botnfrosin tjörn: síli, ormar, pöddur og allt sem lifði hafði grafið sig ofaní botnleðjuna sem var ennþá volg eftir sumarið, hægði á hreyfingum og efnaskiptum, hægði á öndun og hjartslætti og hugsun þar til einungis eitt stóð eftir, bláþráður hugsunar: að lifa. (330)

Á kvöldin sveipaðist fangelsið mistri sem kom utan af hafi. […] Trén sveifluðust án þess að vind hreyfði í skóginum, blómin drúptu höfði svo að krónublöðin námu við jörðu og laufblöðin héngu lóðrétt niður af greinunum. Þykkt ský af frjókornum hékk fyrir skóginum og þegar um hægðist lögðust þau eins og fínlegt ryk yfir húsin, borgina og heiminn allan. (515)

Hvort Kata er reyfari í fagurbókmenntaham eða fagurbókmenntir í reyfaraham skiptir engu máli. Steinari Braga hefur tekist að skrifa kraftmikla, breiða samfélagslýsingu sem heldur lesanda föngnum, vekur til umhugsunar um leið og hún ögrar. Spurt hefur verið hvort höfundur yfirstígi siðferðileg mörk í frásögninni. Ekki ætla ég að svara því en þegar þessi lokaorð eru skrifuð les ég á forsíðu Fréttablaðsins: „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana. Tveir karlar, grunaðir um hrottaleg kynferðisbrot, ganga lausir. Málið er í rannsókn: Samkvæmt áreiðanlegum heimildum blaðsins fann lögregla í íbúðinni ýmis tól og tæki sem mennirnir eiga að hafa notað við nauðganirnar, svo sem svipur, reipi og keðjur. Þá voru hankar í loftinu sem grunur leikur á að mennirnir hafi notað til að hengja upp aðra konuna meðan ráðist var á hana.“ [8] Hafa ekki mörk raunveruleika og skáldskapar máðst út?

Soffía Auður Birgisdóttir

Tilvísanir

  1. Sjá frétt um ummæli lögmannsins Vilhjálms H. Vilhjálmssonar, í sjónvarpsþættinum „Hæpið“ á RUV, 28. okt. 2015. Sótt 29. okt. 2015 á vefsíðu Stundarinnar: https://stundin.is/frett/logmadur-osattur-mikil-umraeda-um-kynferdisbrot-is/
  2. Sjá viðtöl við Steinar Braga: Eiríkur Örn Norðdal. 27. okt. 2014. „Að útdeila réttlæti.“ Sótt 28. okt. 2015 á vefsíðuna Starafugl: http://starafugl.is/2014/ad-utdeila-rettlaeti-vidtal-vid-steinar-braga/ og Friðrika Benonýsdóttir. 11. okt. 2014. „Eðlilegt að vilja drepa gerandann.“ Sótt 28. okt. 2015 á vefsíðu Vísis: https://www.visir.is/g/2014710119983/edlilegt-advilja-drepa-gerandann
  3. Steinar Bragi Guðmundsson. 2008. „Upprisa þjóðarinnar.“ Sótt 25. okt. 2015: á vefritið Nei, http://nei.okeden.com/2008/11/14/upprisa-% C3%BEjo%C3%B0arinnar/
  4. Steinar Bragi Guðmundsson. 2008. „Upprisa þjóðarinnar.“
  5. Kristján Hrafn Guðmundsson. 2008. „Hrollvekja úr íslenska gullæðinu.“ DV 26. des., sótt á vefsíðu DV, 25. okt. 2015: http://www.dv.is/menning/2008/12/26/hrollvekja-urislenska- gullaedinu/
  6. Dagný Kristjánsdóttir. 2009. „Listin að pína konur.“ Tímarit Máls og menningar, 70. ár (4): 109–113.
  7. Friðrika Benonýsdóttir. 11. okt. 2014. „Eðlilegt að vilja drepa gerandann.“
  8. „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana.“ Fréttablaðið 9. nóv. 2015: forsíða.