eftir Pál Skúlason

Páll Skúlason

Páll Skúlason / Mynd: Golli

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2009

Hér verða reifaðar nokkrar hugmyndir og hugsjónir sem ég tel að við eigum að hafa að leiðarljósi við uppbyggingu íslensks samfélags á næstunni. [1] Hugmyndirnar lúta að því hvernig við skiljum sjálf okkur og samfélagið, en hugsjónirnar tengjast beint þeim gildum sem ég tel brýnt að leggja sérstaka rækt við í samfélagi okkar.

Áður en komið er að einstökum hugmyndum og hugsjónum vil ég nefna það sem ég tel vera meginhlutverk stjórnmála, en það er að sjá til þess (1) að opinber umræða fari fram um sameiginleg mál okkar, (2) að við mótum skynsamlegar leiðir til að taka ákvarðanir í sameiginlegum málum okkar og (3) að við vinnum markvisst að því að skapa samfélag þar sem fjölbreytt mannlíf fær dafnað og sátt ríkir um viss grundvallargildi. Stjórnmálaflokkur er samkvæmt þessum skilningi samtök sem vilja hafa áhrif á það hvernig stjórnmálin eru stunduð, hvernig við ræðum um sameiginleg mál, hvaða leiðir við höfum til að taka ákvarðanir um þau og vinna að eflingu samfélagsins. Þetta er í mínum huga það sem mestu skiptir til skilnings á hlutverki stjórnmála og þeirra sem taka þátt í þeim. Við lifum saman, deilum lífinu, og komumst ekki hjá því að hugsa um og ræða hvað er okkur sem heild fyrir bestu, hverjir séu okkar sameiginlegu hagsmunir, hver sé almannaheill.

Það segir sig sjálft að þetta verkefni verður ekki leyst í eitt skipti fyrir öll. Við verðum sífellt að takast á við það vegna þess að það koma stöðugt upp nýjar aðstæður sem skapa okkur óvænt úrlausnarefni sem við verðum að bregðast við sameiginlega. Þess vegna er nýsköpun hvergi brýnni en í stjórnmálum, þar þurfa menn endalaust að leita nýrra leiða til að móta samlífið, setja niður ágreining, bregðast við atburðum líðandi stundar.

Stjórnmál snúast eðli sínu samkvæmt um það sem á sér stað hér og nú, þau beinast að staðbundnum og tímabundnum aðstæðum eða uppákomum, sem geta þó varðað heimsbyggðina alla, eins og við höfum orðið vitni að á síðustu mánuðum, vegna þess hve samslungin ýmis félagsleg kerfi heimsins eru orðin, svo sem fjármálakerfin. Fjölþjóðlegt samskiptakerfi á borð við internetið kann með hliðstæðum hætti að breiða með hraða ljóssins út vandamál sem varða heimsbyggðina alla, ekki bara fólk á Íslandi, í Kína eða Suður-Afríku. Til lengri tíma litið fjalla stjórnmálin um það hvernig heimsbyggðin ætlar að halda á sínum sameiginlegu málum. Og hér ber að sjálfsögðu hæst umhverfismálin – hvernig mannkynið ætlar að lifa í sátt við öfl náttúrunnar og aðrar lífverur á þessari jörð. Tímabundnir erfiðleikar okkar og margra annarra þjóða vegna fjármálakreppunnar virðast ekki mjög stórvægilegir miðað við þau úrlausnarefni sem þjóðir heimsins munu þurfa að takast á við vegna náttúruhamfara sem átt geta sér stað innan tíðar, meðal annars vegna hlýnunar jarðar.

Þetta breytir engu um það að núna eru það tilteknir erfiðleikar í íslensku þjóðfélagi sem hljóta að eiga mesta athygli á vettvangi íslenskra stjórnmála. Þessa erfiðleika þarf að skilja og skoða í ljósi þeirra hugmynda og þeirrar stefnu sem fylgt hefur verið í þjóðfélaginu að undanförnu. En um leið þurfum við að móta með okkur þær hugmyndir um samfélagið sem að gagni mega koma til að skilja erfiðleikana og finna leiðir til að sigrast á þeim. Til að takast á við þetta verkefni, sem er af andlegum toga, verðum við að taka þá áhættu að spyrja spurninga sem virðast kannski alveg úr tengslum við veruleikaskyn okkar.

Spurningin sem hljómar í titli þessarar greinar er auðvitað afskaplega svífandi og þess vegna alls ekki óþægileg vegna þess að öll þráum við betra samfélag. Og sú þrá er sannarlega raunveruleg. Ég á ekki bara við að við þráum endurreisn samfélagsins eftir hrunið í haust og öll þau vandamál sem dynja á fólki og fjölskyldum síðan þá. Samfélagið íslenska fyrir hrunið var ekki gott samfélag, það var óheilbrigt að mörgu leyti, ekki síst vegna þess að við dönsuðum af ákafa í kringum gullkálfinn í stað þess að sinna þeim andlegu gildum sem meiru skipta fyrir farsælt mannlíf. Þetta vitum við öll og við erum öll samábyrg, hvort sem við tókum þátt í dansinum eða ekki, vegna þess að við erum hluti af þessum hópi sem heitir íslensk þjóð og myndar eina pínulitla pólitíska heild.

Þess vegna kem ég nú að óþægilegu spurningunum sem þægilega spurningin breiðir í rauninni yfir. Þegar spurt er hvers konar samfélag við viljum, þá er gengið að því vísu að við vitum hvers konar fyrirbæri samfélag sé og líka hver við sjálf séum. Ég held að hvorugt sé okkur fyllilega ljóst en að það sé afar mikilvægt fyrir skilning okkar á almannaheill og sameiginlegum hagsmunum okkar að við skýrum fyrir sjálfum okkur hvað um er að ræða eða gerum að minnsta kosti tilraun til þess að átta okkur á því hvað samfélag er og hver við sjálf erum. Ég er ekki viss um að við þurfum að hafa nákvæmlega sömu skoðanir á þessum hlutum, en ég held að við þurfum að deila nokkurn veginn sama skilningi á þeim ef við eigum að geta hugsað og rætt um þá á skynsamlegan hátt og þar með undirbúið ákvarðanir sem leiða til góðs fyrir okkur öll.

En hver erum við öll? Hvert okkar fyrir sig er sjálfsvitandi vera, vera sem skynjar, hugsar og framkvæmir, viðkvæm vera sem finnur til með öðrum, veit að hún deilir lífinu með öðrum. Hvert okkar er sem sagt andleg hugsandi vera sem veit af hverfulum líkama sínum, þörfum hans og veikleikum. Spurningin sem brunnið hefur á heimspekingum og sálfræðingum er sú hvort þessi vera hrærist í eigin hugarheimi án eðlislægra tengsla við aðra eða hvort sjálfsvitund hennar sé í eðli sínu vitund um aðrar manneskjur. Þessi spurning skiptir sköpum fyrir skilning okkar á því hvað samfélag er.

Er samfélagið félagsskapur sem hinar sjálfsvitandi verur stofna til með samningum til að tryggja einstaklingsbundna hagsmuni sína? Eða er samfélagið veruleiki sem tengir hinar sjálfsvitandi verur saman áður en þær greina sig skýrt hver frá annarri? Þetta kann að verka eins og spurning um hvort komi á undan hænan eða eggið, en í raun einkennist saga stjórnmálanna af ólíkum svörum manna við þessari spurningu. Annars vegar eru þeir sem líta svo á að einstaklingarnir myndi samfélag af eigin frumkvæði í því skyni að tryggja sérhagsmuni sína hver fyrir sig; ríki verður þannig til sem ein mikilvægasta stofnun samfélagsins, tæki til að vernda einstaklingana hvern fyrir öðrum, tryggja frið og öryggi í samfélaginu. Hins vegar eru þeir sem líta svo á að samfélagið sé forsenda fyrir lífi og hugsun einstaklinganna og eigi að skapa þeim skilyrði til að þroskast; ríki er þá skilið sem skipulag sem einstaklingarnir hafa til að hugsa og ræða um hagsmuni heildarinnar og leysa ágreining vegna ólíkra sérhagsmuna.

Nú mætti útlista þessi andstæðu viðhorf með kenningum helstu fræðimanna sem fjalla um þær mótsagnir og þau vandamál sem af þessum ólíku viðhorfum spretta. Ég nefni kenningar Platons og Aristótelesar í fornöld, Hobbes og Locke, Rousseau og Kants á síðari öldum, en einnig mætti nefna kenningar ýmissa heimspekinga 20. aldar, svo sem Sartre og Simone de Beauvoir, Rawls, Habermas og Hönnu Arendt. Allir þessir ólíku höfundar glíma við grunntengslin í mannlegu samfélagi, þau samskipti sem öllu skipta til skilnings á þeim ótrúlega flókna veruleika sem mannlegt samfélag er, hvort sem það er fámennt eins og Ísland eða margmennt eins og Kína. Meginviðfangsefni þeirra allra er réttlæti – hvernig við getum deilt gögnum og gæðum á sanngjarnan hátt, án þess að útskúfa neinum, hvernig við getum séð til þess að jafnvægi ríki á milli hinna ólíku afla þjóðfélagsins. „Við“ í þessari síðustu setningu erum við sem hugsandi verur, verur sem skiljum hver aðra eða að minnsta kosti reynum að skilja hver aðra, við sem ræðum saman, deilum um hlutina og umfram allt reynum að hugsa saman um lífið og framtíðina og hvað er til góðs, ekki bara fyrir okkur sjálf, heldur allar lifandi verur á jörðinni. Og spyrjum jafnvel hvað sé gott fyrir guðdóminn sjálfan. Og við sem svona spyrjum og hugsum erum ekki bara flokkur sérviturra heimspekinga sem hugsa um sérhagsmuni sína innan um alla hina sérfræðingana, heldur flokkur allra hugsandi karla og kvenna. Ef einhver niðurstaða af pælingum heimspekinganna frá Platoni til Rawls virðist nánast óumdeilanleg, þá er það sú að það getur enginn orðið sérfræðingur í almannaheill, heldur þurfa allir samfélagsþegnar að hugsa um réttlætið í samfélaginu burtséð frá eigin hagsmunum. Á þeirri forsendu geta fræðimennirnir síðan deilt endalaust í þeirri von að móta betri aðferðir við að greina réttlætið og ranglætið í samfélaginu.

Á vettvangi stjórnmálanna sjálfra verða menn hins vegar að komast að niðurstöðu og taka ákvörðun sem skipta mun sköpum fyrir framtíð samfélagsins. Og þá skiptir höfuðmáli hvernig þeir hugsa sér samfélagið, hvort þeir líta á það sem „hagsmunabandalag sérhagsmunanna“ eða sem „félagsskap hugsandi vera“. Ef fyrra viðhorfið er ríkjandi þá gildir fyrst og fremst að finna sterkan foringja sem stendur vörð um sérhagsmunina og tryggir sanngjarna skiptingu kökunnar. Ef síðara viðhorfið er ráðandi þá gildir fyrst og fremst að leyfa ólíkum sjónarmiðum að takast á í þeirri von að það leiði til farsællar niðurstöðu fyrir heildina.

Sannleikurinn er sá að hér á Vesturlöndum hefur það viðhorf smám saman orðið ríkjandi að samfélagið sé það sem ég leyfði mér að kalla „hagsmunabandalag sérhagsmunanna“. Hobbes og Locke eru vafalaust áhrifamestu hugsuðir þessa sjónarmiðs. Einstaklingarnir mynda ríkið af illri nauðsyn, lýðræði er samkvæmt þessu viðhorfi fyrst og fremst gott stjórnfyrirkomulag til að geta losað sig við vonda valdhafa, það er stjórnvalda sem tryggja ekki frið og öryggi. Hitt viðhorfið sem kenna má við heildarhyggju, því þar eru hagsmunir samfélagsins alls teknir fram yfir sérhagsmuni einstaklinganna, hefur gjarnan verið talið hafa beðið endanlegt skipbrot með falli Sovétríkjanna 1989 en þar hafi heildarhyggja ráðið ríkjum eftir byltinguna 1917. Eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur varð séreignarstefnan allsráðandi á Vesturlöndum og ríki, sem sett höfðu alls kyns fyrirtæki á laggirnar til að tryggja þjóðarhag, töldu nú æskilegt að færa þessi fyrirtæki úr eigu ríkisins yfir til einstaklinga sem myndu reka þau betur af því að þeir hefðu sinna sérhagsmuna að gæta.

Heimskreppan í dag sýnir svo ekki verður um villst hversu vanhugsuð sú þróun var og í litlu samræmi við skynsamlega hugsun. Sú hugmyndafræði sem drottnað hefur í heimi stjórnmálanna síðustu 20 árin og ég hef ásamt mörgum öðrum fræðimönnum kallað „markaðshyggju“ kynti illu heilli undir þessari þróun.

Ég ætla ekki að fara yfir gagnrýni mína á markaðshyggjuna í neinum smáatriðum [2], en minni á örfá einföld grunneinkenni hennar: 1) Öll mannleg samskipti eru viðskipti 2) mestu skiptir að eignast peninga 3) allt á helst að vera í einkaeign 4) samkeppni er ávallt af hinu góða. Þessar staðhæfingar eru ekki aðeins sannanlega rangar, heldur háskalegar þegar þær eru skoðaðar sem almenn sannindi um mannlegt siðferði og samfélag. Þá leiða þær til skeytingarleysis um eiginleg verðmæti, afskiptaleysis um hag náungans og til þess að menn lofsyngja lesti á borð við ófyrirleitni, ósvífni, blygðunarleysi og metorðagirnd.

Talsmaður markaðshyggju, ekki síst ef hann er að auki sannfærður nýfrjálshyggjusinni og lærður í þeim fræðum, mun andmæla mér með því að segja að þessum fjórum staðhæfingum mínum trúi ekki nokkur heilvita maður. Vera má, og ég vona það raunar, að hann hafi rétt fyrir sér. Þetta er engu að síður rétt greining á þeim linnulausa áróðri sem hefur dunið á ungum sem öldnum í íslensku samfélagi síðustu tíu til tuttugu árin; þessi söngur hófst raunar miklu fyrr, en varð allsráðandi eftir að Sjálfstæðisflokkurinn tók völdin í landinu uppúr 1990.

Ég ætla ekki heldur að vera langorður um það hvernig við eigum að bregðast við boðskap markaðshyggjunnar. [3] 1) Við eigum að rækta eftir föngum samskipti sem ekki ráðast af viðskiptahagsmunum einum; 2) við eigum að einbeita okkur að andlegum og siðferðilegum gildum og ekki láta stjórnast af efnahagsgildunum einum; 3) við eigum að hugsa um sameignir okkar, landið og auðlindir þess, tunguna, söguna og stofnanirnar sem bera uppi samfélagið, fjölskylduna, skólana, dómstólana, sjúkrahúsin; 4) við eigum að temja okkur samstarfsanda í stað þess að kynda undir samkeppni eins og mannlífið sé ekki annað en kappleikur.

Í mínum huga er það stærsta verkefni stjórnmálanna í heiminum í dag að móta stjórnmálastefnu í anda þeirra fjögurra grundvallaratriða sem ég var að nefna. Í Evrópu hafa menn rætt þetta um árabil en án þess að hafa enn haft árangur sem erfiði vegna þess að markaðshyggjan hefur haft svo sterk ítök í hugsun manna. Hér á Íslandi er verkefnið að hefjast og ég er sannarlega vongóður um að okkur takist að endurmóta íslensk stjórnmál í anda þeirra hugmynda og gilda sem ég var að nefna.

Meginvandinn er andlegs eðlis. Við þurfum hugarfarsbreytingu, við verðum að viðurkenna sjálf okkur sem hugsandi, sjálfsvitandi verur sem geta einungis lifað í andlegu samfélagi við aðrar sams konar verur. Tilgangur lífs okkar er að skapa andlegan veruleika, list, trú og vísindi, sem vísa okkur veginn um leyndardóma lífsins og tilverunnar. Á þessum grunni eigum við að skipuleggja samlíf okkar og félagskerfi. Þá munu hugsjónir félagshyggjunnar um jafnræði, lýðræði og samvinnu vakna til lífsins og leysa af hólmi stefnuviðmið sérhagsmunahyggjunnar um ójafnræði, fámennisstjórn og samkeppni.

Af hverju varð þessi þróun stjórnmálanna sem við höfum orðið vitni að á undanförnum áratugum? Hvers vegna hefur samfélagið sífellt átt í vök að verjast andspænis markaðnum? Hvers vegna varð félagshyggjan undir í átökum við markaðshyggjuna?

Ég varpa fram einni tilgátu um þetta og sé hún rétt þá er lagður grunnur að heilbrigðum pólitískum hugsunarhætti sem eru allir vegir færir til að takast á við úrlausnarefni líðandi stundar. Tilgátan er sú að í stað samfélagshugmyndarinnar, sem stjórnmálin hvíla á, hafi hugmyndin um markaðinn með sinn sölu- og framleiðsluheim verið lögð til grundvallar skilningi og ákvörðunum á vettvangi stjórnmálanna. Og þar með spilltust stjórnmálin. Villan sem varð ríkjandi í stjórnmálum, og þau Margaret Thatcher og Ronald Reagan áttu hvað stærstan þátt í að breiða út, var með öðrum orðum sú að flytja gildi og hugsunarhátt sem þróaðist á sviði efnahagskerfisins yfir í heim stjórnmála og samfélags. Í huga Thatchers var samfélagið raunar ekki til, það var ímyndun óraunsærra draumóramanna: veruleikinn væri hörð sérhagsmunabarátta einstaklinga sem skeyttu ekki um annað en veraldlegan gróða. Af ríkidæmi þeirra myndu svo hrjóta molar niður til smælingjanna og velferðarkerfið yrði smám saman óþarft. Í huga Reagans var ríkið helsta hindrunin fyrir þróun þjóðfélagsins þar sem allt snerist um sérhagsmuni einstaklinga og fyrirtækja.

Í veruleikanum er þessu allt öðruvísi farið en í hugarheimi þeirra Thatchers og Reagans. Efnahagskerfið er mótað á grunni og innan samfélags hugsandi fólks sem mótar sér opinn pólitískan vettvang til að ræða sameiginleg mál, leiða ágreining til lykta og taka ákvarðanir með hag heildarinnar að leiðarljósi. Skatturinn er gjaldið sem þjóðfélagsþegnarnir greiða til að fá að vera þátttakendur í siðuðu, andlegu samfélagi og til að tryggja viðgang þeirra stofnana sem gæta sameiginlegra hagsmuna þeirra.

Efnahags-, stjórnmála- og andlega sviðið vísa hvert á annað og þarfnast hvert annars. Á efnahagssviðinu snúast málin um hvað hægt er að gera og hvað er ekki hægt, hvað er mögulegt og hvað er ómögulegt. En það er því miður ekkert á þessu sviði sem segir okkur hvort við eigum að gera allt sem við getum gert né hvað við megum og hvað við megum ekki til að skaða ekki samfélagið. Einmitt hér kemur stjórnmálasviðið til sögunnar þar sem sett eru lög og reglur um hvað leyfilegt sé og hvað sé óleyfilegt, réttmætt eða óréttmætt, miðað við meinta hagsmuni þjóðfélagsins í heild en ekki sérhagsmuni tiltekinna hópa. Hér eru það ákveðnar stofnanir sem setja lögin og reglurnar og framfylgja þeim. En engin mannleg stofnun getur samt ákveðið hvað sé gott eða illt, satt eða ósatt, fagurt eða ljótt, rétt og rangt. Hér kemur andinn til sögunnar og hið andlega svið, sem við öll tökum þátt í með hugsunum okkar, tilfinningum og tjáningu. Hið andlega svið takmarkar þannig svið stjórnmálanna, setur þeim mörk og bannar þeim að skipta sér af hinum andlega veruleika, þar sem æðsta gildið hefur frá fornu fari verið talið ástin eða kærleikurinn. Stjórnmálasviðið á svo að takmarka svið efnahagskerfisins, setja því lög og reglur í samræmi við þau siðferðilegu gildi og hugmyndir sem takmarka sjálf stjórnmálin og setja þeim mörk og mið.

Það sem mestu skiptir í efnahagslífi og stjórnmálum er að sett séu markmið sem eru í samræmi við þau gildi sem við skynjum og finnum, sköpum og virðum í andlegu lífi okkar. Ef menn móta efnahagslífið og stjórnmálin án þess að skeyta um lífsgildin sem í húfi eru í hinum andlega veruleika, þá stefna menn samfélagi sínu í voða.

Hinn nýi hugsunarháttur, sem ég er að kalla eftir, byrjar á hinum andlegu lífsgildum, ekki síst hinum siðferðilegu, og skoðar stjórnmálin og efnahagsmálin í ljósi þeirra. Hér skiptir öllu máli að vera raunsæ: Á efnahagssviðinu keppa menn eftir veraldargróða og munu einskis láta ófreistað til að fá hann; efnahagssviðið á sér engar innri hömlur eða siðferðileg aðvörunarljós sem koma vitinu fyrir menn þegar þeir ætla sér um of. Á sviði stjórnmálanna gildir það sama; á meðan við búum við kerfi sem færir örfáum einstaklingum sem stýra stjórnmálaflokkunum gífurleg völd til að taka ákvarðanir í sameiginlegum málum okkar, þá munu þeir gera það og ekki láta einfaldar og skýrar siðareglur um jafnræði, lýðræði og samráð flækjast fyrir sér.

Andleg og siðferðileg sköpun samfélagsins á að vera í höndum þeirra sem leggja sig stöðugt eftir að hugsa og ræða um sameiginleg málefni með almannaheill að leiðarljósi. Og þennan hóp fylla allar hugsandi konur og karlar sem vita að lýðræði, jöfnuður og samvinna eru þær hugsjónir sem vísa okkur veginn til þess samfélags sem við viljum og þráum. Þessi hópur, samsettur bæði af yngri og eldri borgurum, þarf að eiga sér sem flesta staði í sérhverju samfélagi þar sem fólk getur komið saman til að ræða það sem því brennur á hjarta varðandi samfélagið og þar sem siðferðilegar og andlegar línur verða dregnar fyrir efnahagslífið og stjórnmálin sjálf.

Nú skiptir mestu að skerpa og skýra þær hugmyndir og hugsjónir sem íslensk þjóð þarfnast til endurreisa samfélag sitt og öðlast andlegt sjálfstæði.

 

Tilvísanir

1. Grein þessi er að stofni til erindi flutt á landsfundi Samfylkingarinnar 28. mars 2009

2. Sjá „Menning og markaðshyggja“, í Skírni, vor 2008, bls. 5-40.

3. Rétt er að nefna að orðið „markaðshyggja“ má skilja á tvo ólíka vegu. Annars vegar eigi það við þá hugmynd að frjáls viðskipti með vörur á markaði séu best fyrir efnahagskerfi okkar, þar með sé framleitt það sem við þurfum helst og þannig sé efnislegum gæðum best skipt meðal mannfólksins. Hins vegar eigi það við þá skoðun að lögmál markaðarins um framboð og eftirspurn eigi að gilda alls staðar í samfélaginu, öll mannleg samskipti séu eins konar viðskipti, lífið sé bisness og ekkert annað. – Gagnrýni mín beinist fyrst og fremst að markaðshyggju í síðari merkingu orðsins.