Eftir Guðberg Bergsson

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2024.

 

Guðmundur Andri Thorsson þýddi

 

Nokkrum vikum eða ef til vill nokkrum mánuðum fyrir andlát sitt lét Thor Vilhjálmsson gamlan draum sinn rætast: að fara frá Íslandi að vorlagi og halda í pílagrímsferð og ganga Jakobsveginn í fótspor dýrlingsins heilags Jakobs. Í anda langrar trúarhefðar, og nú orðið einnig að hætti leikmanna og ævintýramanna, gekk hann af stað með fornan förustaf í hendi.

Svo virðist sem hann hafi tekið þessa ákvörðun til að styrkja líkama sinn, eða einfaldlega sanna fyrir sjálfum sér og öðrum að líkami hans væri, þrátt fyrir aldurinn, enn fær um slíkt erfiði, að ganga heiðar og fara um djúpa dali og vaða gegnum skógarþykkni.

Það sem knúði hann áfram var löngunin til að hitta á nokkrum afskekktum krám á grænum grundum, eftir að hafa brotist gegnum þokuna á lyngheiðum, ókunna ferðalanga af öllum þjóðernum, pílagríma eins og hann sjálfan vegna náttúru sinnar eða leyndardóma, fólk úr öllum heiminum: hann langaði til að hitta á ferð sinni eftir stígnum sem lá til heilags Jakobs hið eilífa mannlega ljóð.

Allt var þetta í anda skaphafnar hans, hugmyndaflugs og persónuleika sem skáldsagnahöfundar og gert til að fagna áttatíu og fimm ára afmæli hans. Thor var maður sem alltaf var í leit að ævintýrum, gáfaður maður, mannblendinn, alúðlegur í fasi og mikill kunnáttumaður í erlendum tungumálum sem hann elskaði og elskaði líka svolítið að guma af. Hann kom frá fjarlægri eyju, sem staðsett var „á hjara veraldar“, undarlegri eyju, þar sem mjög fáir búa og mjög lítið er vitað um annað en hið latneska nafn Ultima Thule, eða hið svolítið nútímalegra Munnur helvítis, út af tíðum og óvæntum eldgosum þar.

Löngun hans til að taka þátt í pílagrímsferðinni eftir Jakobsveginum á sér tæplega trúarlegar ástæður. Sú eina trú sem Thor var bundinn var óháð stofnanatrú. Trú hans var af öðrum toga, veraldleg trú, persónuleg og djúp trú á list og náttúru sem byggðist á fegurð alheimsins.

Thor fór í fylgd vinar síns sem var kvikmyndagerðarmaður. Sá var sendur af íslenskri sjónvarpsstöð og vildi sýna af trúmennsku samband rithöfundarins og landslagsins sjálfs, filma fundi hans við fólk meðan á ferðalaginu stóð, sem gekk nokkurn veginn áfallalaust. Aðeins einu sinni veiktist rithöfundurinn og þurfti að hvílast í nokkra daga. En það hafði engin eftirköst. Hann komst á fætur og hélt áfram göngu sinni.

Eftir þetta urðu engin frekari vandræði vegna þreytu. Thor naut einstaklega góðrar heilsu, ef til vill vegna þess hversu agaður hann var. Hann hafði lengi lagt stund á júdó og þær austrænu listir sem gefa andanum frelsi og veita iðkendum sínum fyrirheit um ef ekki eilíft líf, þá að minnsta kosti mikið langlífi. Ævilöng ást hans á þessari íþrótt var ánægjulegur vitnisburður um það. Hann lét ekkert fram hjá sér fara. Hann mætti ævinlega á alla listviðburði, opinbera sem aðra. Hann missti aldrei af nokkrum listviðburði né nokkurri sýningaropnun. Þá notaði hann tækifærið til að spjalla við alla, veifa höndunum og reka upp hlátra. Hann hafði til að bera mikla útgeislun. Hár hans varð ekki hamið með nokkrum bursta: hann var með hár sem sómt hefði sér vel á miklum skáldsagnahöfundi á 19. öld. Hann var framúrskarandi fótógenískur. Hann drakk í sig myndavélar sjónvarpsins, og náði að heilla fjölmarga með persónutöfrum sínum. Hann var einfaldur maður, á óreiðukenndan hátt, stundum fullur af gáska. Landar hans kunnu ekki að meta þetta við hann. Hann var of ítalskur fyrir þá. Allt var þetta snar þáttur af dýnamík hans, lífskraftinum í list hans, hvernig listamaður hann var. Sjálfhverfur skáldsagnahöfundur sem hvorki var metinn að verðleikum af kollegum sínum í rithöfundastétt né af íslensku samfélagi. Hann var hinn fullkomni rithöfundur, og skapaði þess háttar snilldarverk sem mjög fáir lesa og mjög fáir skilja, en þjóna sem leiðarvísir og vörður gegn framrás hinnar auðkeyptu meðalmennsku. Vegna þessa taldi margt fólk hann vera leikara og of ítalskan fyrir hinn norður-evrópska anda.

Febrúar 1989. Thor Vilhjálmsson með Guðbergi Bergssyni. / Ljósmynd: Gunnar V. Andrésson (gva) © Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Ég veit ekki hvort Thor Vilhjálmsson var dæmigerður ítalskur karakter, því að mér hefur sýnst að ítalskar nútímabókmenntir séu fullar af sorgmæddu og einmana fólki. Svo sannarlega var hann öðruvísi, í kjarna sínum mjög íslenskur: maður sem hafði unun af samræðum, mjög opinn en jafnframt einkennilega þrjóskur. Honum stóð ef til vill ögn fyrir þrifum viss ofsóknarkennd, sem átti rætur í uppruna hans – hann kom úr fjölskyldu sem hafði eitt sinn verið ein sú ríkasta og valdamesta í landinu, en sem rithöfundur hafði hann aldrei náð hylli fjöldans. Það hjálpaði heldur ekki til að í viðtölum í sjónvarpi eða á menningarviðburðum átti hann til að koma fólki fyrir sjónir sem maður með ruglingslegar hugmyndir og þessi hluti af persónuleika hans ruglaði fólk í ríminu svo mjög að stundum skildi hreinlega enginn hugljómanir hans. Thor skrifaði fantasíur sínar sem áttu ekki uppruna sinn í ítölskum smekk hans fyrir því leikræna heldur voru þvert á móti afurð lands álfanna, Íslands.

Í þröngu samfélagi eins og því íslenska öfunduðum við hann af yfirgripsmikilli þekkingu sinni á tungumálum og bókmenntum Evrópu, Bandaríkjanna og latnesku Ameríku. Thor gerði heldur ekkert til að breiða yfir yfirburði sína en sýndi þá án nokkurrar miskunnar. Þessi skortur á hófstillingu kom honum oft í mikil vandræði. Hegðun hans breyttist með árunum og varð eins og skopmynd af gamlingjanum sem heltekinn er af hinni ólmu ástríðu til að halda í eilífa æsku. Oftast nær er þetta viðhorf ekkert annað en tjáning á stórri einsemd sem verður að fylla tómið með vægðarlausu innra eintali. Þannig var því einnig háttað um Thor: hann átti í samræðu við alheimssköpunina sem á sér ekkert föðurland, föðurland hennar er alls staðar.

Og nú er komið að eftirmála sögunnar: óvæntu dauðsfalli, en þó í samræmi við lífsmáta hins íslenska skáldsagnahöfundar.

Daginn sem hann dó hafði Thor Vilhjálmsson farið til útgefanda síns að til að ræða endurútgáfu á bókum hans sem höfðu – með einni undan- tekningu – verið útgáfulegt kvalræði og efnahagslegt núll. Útgefandinn mun nokkrum árum fyrr hafa tekist á hendur ferðalag til Pýrenneafjallanna. Gangan og heilnæmt fjallaloftið átti að hjálpa líkama hans að halda í æsku sína. Hann langaði að snúa aftur til vinnu heilbrigður og í góðu formi. Báðir mennirnir áttu þannig eitthvað sameiginlegt.

Eftir langar og innilegar samræður við skáldsagnahöfundinn um hið ánægjulega umræðuefni, heilsusamlegt líferni, virðist sem útgefandinn hafi af óvæntu veglyndi ákveðið að gefa út heildarsafn verka hans í kiljum. Thor Vilhjálmsson var í sjöunda himni. Hann var ekki söluvænlegur höfundur. Bækur hans voru aldrei endurprentaðar. En núna, kominn á þennan aldur, og með þá athygli sem Jakobsganga hans fékk í sjónvarpi og áttatíu og fimm ára afmælið sem nálgaðist … allt spilaðist nú með honum … þetta var rétti tíminn til að endurlífga verk hans á markaðnum. Svo virðist sem þeir tveir hafi, fullir eldmóðs og áhuga, spjallað saman í nokkra klukkutíma. Það var liðið fram á kvöld. Birtan dofnaði og húmið sem fylgir ljósaskiptunum lagðist yfir Reykjavík með litum sínum. Thor, sem var himinlifandi yfir hinum góðu fréttum, ákvað að kveðja útgefanda sinn og gekk út að höfuðstöðvum World Class sem er við stærstu sundlaug borgarinnar. Þetta er besta líkamsræktarstöðin til að styrkja vöðvana og halda æsku og styrk, hinn fullkomni staður til að ljúka degi þegar óskir manns hafa verið uppfylltar. Ekki er vitað hversu lengi Thor Vilhjálmsson stundaði æfingarnar en á einhverjum tímapunkti hefur hann ákveðið að fara í sauna, hann hefur fundið þörf fyrir að hreinsa líkama og sál áður en hann færi að sofa, til að búa sig í draumum sínum undir nýjan og frjósaman vinnudag.

Þá var það sem hann mætti dauða sínum.

Þetta kvöld vildi svo einkennilega til að líkamsræktarstöðinni var lokað án þess að gengið væri úr skugga um það hvort allt væri með felldu og að öll herbergi væru tóm.

Reglurnar kveða á um það: við þurfum að vera sérstaklega á varðbergi í saunanu eða hitinn getur orðið hættulegur.

Enginn hafði athugað þetta.

Annað einkennilegt: Svo virðist sem að heima hjá honum hafi enginn veitt athygli fjarveru hans.

Í bítið morguninn eftir, þegar World Class opnaði, kom ræstingafólk inn í karlaklefann og tók eftir því að föt héngu á snaga: buxur, skyrta, jakki og á gólfinu skór. Nóttina áður höfðu hvorki hjúkrunarkonur né „heilsulæknar“ séð nokkurn drukkinn mann eða nakinn flýja stöðina. Þau opnuðu því dyrnar að saununni. Og þar, liggjandi á bekk, upp- götvuðu þau lífvana líkama Thors Vilhjálmssonar, hins aðdáunarverða skáldsagnahöfundar sem á sínum tíma hafði veitt nýjum safa í hinar trénuðu íslenskar bókmenntir.

 

 

Eftirmáli þýðanda

Þegar ég les þessa grein finnst mér næstum eins og faðir minn sé persóna í skáldsögu eftir Marquez, og yfir frásögninni allri er skáldlegur andi sem hæfir efninu vel. Ég sá greinina fyrst þegar kunningi minn sem fylgist vel með í frönskum bókmenntaheimi sendi mér franska gerð hennar sem birtist í tímaritinu L’Atelier du Roman. Mér skildist að Guðbergur hefði skrifað greinina skömmu eftir andlát föður míns árið 2011, í spænsk og frönsk tímarit. Ég snaraði greininni, mest til heimabrúks, og nefndi hana lauslega í bók sem ég skrifaði um pabba á sínum tíma en gleymdi henni síðan. Ég rakst svo nýlega á hana í einhverju tölvusnuðri og renndi yfir hana. Áður hafði ég sem aðstandandi látið fara í taugarnar á mér ýmsar missagnir sem þarna er að finna en nú átta ég mig á því að við sjáum hér að verki hina skáldævisögulegu aðferð Guðbergs, sem hikar ekki við að þjappa saman, spinna samtöl og skálda atburði.

Reyndar hafði faðir minn gengið Jakobsveginn áttræður að aldri en ekki áttatíu og fimm ára eins og hér stendur; hann átti vissulega leið á Forlagið daginn sem hann dó, en það var til að hitta Silju Aðalsteinsdóttur út af nýjum eftirmála við endurútgáfu á bók hans um Kjarval en ekki held ég að til tals hafi komið að gefa út heildarsafn verka hans í kilju; ég er ekki einu sinni viss um að þeir Jóhann Páll hafi hist þennan dag og hvað þá ræðst við klukkustundum saman um heilsutengd málefni og gildi heilbrigðra lífshátta. Bækur pabba seldust ekki í bílförmum frekar en bækur flestra höfunda, en ofmælt er að þær hafi verið „útgáfulegt kvalræði“; þær höfðu verið endurútgefnar, sumar með reglulegu millibili, og voru margar fáanlegar á markaði.

Síðasta kvöldið sitt fór faðir minn í Bæjarbíó í Hafnarfirði, að mig minnir til að horfa á Tarkovskí-mynd, og fékk sér svo kaffibolla á Súfistanum þar í bæ áður en hann ákvað að skella sér í World Class þar sem hann var á sérsamningi og mátti koma og fara að vild, enda auglýsti hann þá líkamsræktarstöð og var þar andlit og ímynd eilífrar hreysti. Annað er rétt: Thor lést úr hjartaáfalli í saununni í World Class og lá þar alla nóttina í hitanum án þess að nokkur hefði rænu á að líta þangað inn eða slökkva á saununni áður en starfsfólk yfirgaf staðinn. Guðbergur telur það ráðgátu að enginn á heimili Thors hafi tekið að undrast um hann en því er til að svara að móðir mín gekk snemma til náða þetta kvöld – og var svo sem ekki vön að vaka eftir Thor sem yfirleitt skilaði sér – og ég vakti hana svo í bítið morguninn eftir með fregninni af dauða hans. Sitthvað í grein Guðbergs er þannig skáldfært en lýsing hans á pabba er um margt skörp og djúp, bæði hvað varðar opinbera framgöngu hans og innra líf.

Þeir Guðbergur og Thor tróðu hvor öðrum ekki um tær mér vitanlega; einhver bréf eru til sem fóru á milli þeirra og samskiptin einkenndust af gagnkvæmri virðingu og kannski vissu óþoli – og þoli. Þeir voru afar ólíkir menn en báðir höfðu þeir brotist út úr fyrirframgefnum og margskrifuðum söguþræði; ásköpuðu hlutskipti í smáu og þröngsýnu samfélagi. Báðir hlýddu þeir guðsröddinni í brjósti sér, og báðir fundu innblástur á suðlægum slóðum til að endurnýja bókmenntir sem svo sannarlega voru orðnar „trénaðar“ þegar þeir hófust handa.