– hugleiðing um sögur, áheyrendur, lesendur, rithöfunda og sögumenn

eftir Sjón

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2010.

 

Sjón

Ljósmynd: Wiktoria Bosc.

„Einu sinni var …“ Hversu gamalkunnugt sem það verður og þvælt (eða margtuggið líkt og hápunktur týndrar Íslendingasögu á óslítandi pjötlu af kálfskinni sem velkist milli tanna ólæss vinnukarls á hungurtímum) þá megnar ekkert annað orðtak í mannlegum tungum að kalla fram jafn miklar væntingar hjá áheyrendum sínum og það. Í því búa fyrirheit um fyndni, hroll, depurð, hneykslan, sakleysi, fróðleik, réttlæti, orrustur, ástir, grimmd, furður, visku, kjánaskap, refsku, hefndir, íhugun – og hrollvekjandi fróðleik, hneykslandi visku, dapurlegar hefndir, furðulegar ástir, íhugulan kjánaskap, fyndnar orrustur, réttláta bragðarefi, saklausa grimmd og grimmilegt sakleysi …

„Einu sinni var …“ Hvort sem orðin eru þrjú eins og í íslensku, tvö eins og í litháísku „Vieną kartą“, eða eitt eins og í sanskrít „Kadājit“, þá er það í þögninni milli þeirra og næsta orðs sem allar sögur fæðast. Um leið og þau eru mælt af munni fram heyrum við rjálað við vélbúnaðinn sem eftir augnablik mun draga tjöldin frá víðfeðmasta sviðinu; moldargólfinu, fjalagólfinu, marmarastéttinni, malbikaðri hraðbrautinni, steppunum, granítklöppunum, fjallstoppunum, himnunum; þar sem ský er jafn fast undir mennskum fæti og steinn á hafsbotni; staðnum, eða staðleysunni, þar sem röklistin gerist þjónn hins ómögulega og hinu mögulega er beitt í þágu hins órökræna. Og það er á þessu andartaki, í hvíldinni milli upphafsorðanna og söguefnisins sem opinberast að þeim loknum, sem áheyrendur og sögumaður gera með sér einn elsta samning sem þekktur er í mannlegu samfélagi:

Hún/hann er Sögumaðurinn, þeir Áheyrendurnir. Þeirra framlag er að gefa sig sögu og sögumanni á vald. Hans er að flytja söguna frá upphafi til enda af slíkri hind að aldrei leiki vafi á undirgefni áheyrenda við söguþráðinn né tökum hans sjálfs á að greiða úr þræðinum, eða flækja hann, eftir því sem við á þegar fram vindur sögunni.

Þögn þessi getur verið stutt eða löng en hún má þó hvorki vera of löng né of stutt. Sögumaður sem flýtir sér um of getur virst áhugalaus um söguna og áheyrendurna, virst full gráðugur í sögulaunin. (Vei þeim sögumanni sem heldur að hann geti gengið að sögulaunum sínum vísum.) Ef hann bíður of lengi getur okkur áheyrendum sýnst hann hikandi. Og það getur verið enn verra. Því ef okkur virðist hann óöruggur við upphaf sögunnar, hvernig eigum við að geta treyst því að þegar hún er komin á fullt skrið komi hann í heila höfn sjálfum sér, sögunni og áheyrendum? En hvort sem sögumaður æðir af stað, rekur í vörðurnar, eða hittir á hárétta þagnarlengd milli þess að hann segir „Einu sinni var …“ og tiltekur söguefnið, þá er honum vorkunn. Samningsgerð þessi er eina hvíldin sem honum mun bjóðast allt til söguloka. Þegar þögninni sleppir axlar sögumaður byrðar sínar í votta viðurvist …

„Einu sinni var …“ … karl og kerling í koti sínu … kóngur og drottning í ríki sínu … kóngur og drottning í ríki sínu og karl og kerling í koti sínu … Á þessa þrjá vegu hefjast flest ævintýri í íslenskum ævintýrasöfnum. Og yfirleitt hefst sagan annaðhvort í kotinu eða höllinni – stundum (en sjaldnar) eru bæði sviðin kynnt til sögunnar samtímis – en óhjákvæmilega munu þessir heimar hinna lágt og hátt settu skarast í ævintýri þar sem börn karls og kerlingar, þau Kolbítur og Öskubuska, og kóngs og drottningar, þau Prins og Prinsessa, leika aðalhlutverkið og örlög þeirra ráðast farsællega með hjálp góðra vætta og talandi dýra þrátt fyrir hindranir óvætta og illra manna, en foreldrarnir læra sína lexíu.

Líkt og tindurinn hækkar kvíðvænlega fyrir augum fjallgöngumanns þegar hann spennir á sig þungan bakpokann verður reyndum sögumanni vandi sinn ljós um leið og hann sér viðbrögð áheyrendanna við fyrstu orðum sögunnar: Þeirri hugsun lýstur niður í hann að ekki aðeins sé þráður hennar jafn útslitinn og hann sjálfur – já, hann hefur sagt hana hundrað sinnum hundrað sinnum áður – heldur hafi hann nýlega sagt hana þeim sömu áheyrendum og á þessari stundu sitja allt í kringum hann, fullir efasemda um sögumannshæfileika hans ef marka má svipinn á andliti þeirra! Og svei mér ef hann heyrði söguna ekki sjálfur hjá kerlingunni sem situr þarna bakatil í hópnum og geispar ákaflega? Þá er fátt til ráða …

„Einu sinni var …“ Enginn stígur fram undir því kjörorði nema hann hafi á fótum hina heimsfrægu „sjö mílna skó“. Já, hér kemur sér vel fyrir sögumanninn í sjálfheldunni að það er ekki bara í veruleikanum að dyr opnast í þverhnípt bergið að baki manni þegar mikið ríður á. Því eins og áður var nefnt hefur sögumaður samkvæmt samningnum jafn mikið leyfi til að flækja söguþráðinn og honum ber skylda að halda honum til haga. Og nú bregst hann við efagirni áheyrendanna með því að víkja óvænt út af söguþræðinum þar sem Prins hefur villst frá mönnum sínum í skóginum, þar sem Öskubuska flysjar rófur í bakgarðinum, þar sem döpur Prinsessa speglar sig á svölunum, þar sem Kolbítur situr mæddur í vegarbrúninni eftir að hafa verið rasskelltur af bræðrum sínum – og hann segir eins og ekkert sé sjálfsagðara:

„Í klettaskúta þar suður frá býr sér hreiður fuglinn Gullinló …“

Um leið og hann mælir þetta, skotrar hann augum á áheyrendahópinn og sér að hann hefur hitt í mark. Eftirvæntingin í andlitunum segir honum að ekkert þeirra hafi heyrt um þennan furðufugl áður. Og nú gefur sögumaður sér góðan tíma í að telja upp allt sem gerir þennan fugl svo furðulegan; hann er með ljóst mannshár á brjósti, hann verpur gagnsæjum eggjum, hann sækir ungum sínum fæðu í blágulan sólroðann sem bryddar klettana fyrst á morgnana, og hann syngur röddum tveim og þær vindast hver um aðra eins og vafningsjurt um trjástofn, upp kotvegg, upp hallarvegg, um vegarhlið … En þegar hann hefur fangað áheyrendurna svona með útúrdúrnum um sinn nýskapaða Gullinló sendir hann fuglinn fljúgandi inn í söguna sem hann er að segja, og hann lætur hann setjast á brotið vagnhjól í vegarbrúninni, á gullið handrið svalanna, á slútandi þakskeggið í bakgarðinum, á laufgaða grein í skóginum, þar sem hann tístir tvíraddað og léttir lund Prins eða Öskubusku, Kolbíts eða Prinsessu áður en ævintýri þeirra heldur áfram – og þá er sagan orðin sem ný í huga áheyrendanna. Sögumaður hefur sýnt og sannað að það er hún/hann sem hefur alla þræði ævintýrisins í hendi sér, að þræðirnir eru margþættari en nokkurn viðstaddan grunar, að þótt það sé jafn gamalt tungumálinu þá er heimur þess enn ekki að fullu kannaður.

„Einu sinni var …“ Ég efast um að til sé sá sagnahöfundur í nútímanum sem ekki stendur fullur auðmýktar andspænis þessum orðum. Því það er sama hversu klár við verðum í að finna skáldsögum okkar önnur upphafsorð (og það þekkja þeir sem reynt hafa að er ein mesta þrautin sem nokkur höfundur stendur frammi fyrir), þau svífa ósýnileg fyrir augum lesandans í hvert sinn sem hann hefur lestur nýrrar sögu, taka af okkur orðið áður en við komumst að með nýjungina. Eins og segir í tékkneska ævintýrinu sem okkur var flutt fyrir tæpum hundrað árum af þýskumælandi gyðingi frá Prag og hefst í raun og veru svona:

„Einu sinni voru karl og kerling í koti sínu, þau áttu sér son. Einn morgunn þegar Gregor Samsa vaknaði heima í rúmi sínu eftir órólegar
draumfarir …“

„Einu sinni var …“ Ég man hvorki hvar né hvenær ég heyrði það fyrst – ekki frekar en ég man fyrstu kynni mín af tónlistinni og ljóðlistinni, sem ég þó veit að komu inn í líf mitt með vögguvísunni – en með þeim var ég boðinn velkominn í félagsskap sagnamanna þar sem aðeins ein önnur sögubyrjun er möguleg:

„Í upphafi var …“ …

Og þar sem sögunum af sköpunarstarfi Guðanna lýkur tekur við ævintýrið um hið söguglaða mannkyn: „Hómó narrans“. Ævintýrið segjum við okkur sjálf. Það hefst svona:

„Einu sinni var …“ …

 

 

 

Hugleiðing samin fyrir „Assises internationales du roma“, alþjóðlegt málþing um skáldsöguna sem haldið er árlega í Lyon að frumkvæði Villa de Gillet og Le Monde, og flutt í pallborði með A.S. Byatt og Pascal Quignard í maílok 2009.