Um sögu Albaníu og Frjáls eftir Leu Ypi

eftir Illuga Jökulsson

Úr Tímariti Máls og menningar 2 hefti, 2023.

 

Illugi Jökulsson

Illugi Jökulsson

Munið þið eftir sögum um evrópsku landakortin frá miðöldum? Sums staðar voru auð svæði þangað sem hvorki landkönnuðir né kaupmenn höfðu ennþá komið og þá skrifuðu kortagerðarmennirnir á þessi svæði frekar en ekki neitt: Hér eru drekar.

Ég er fæddur árið 1960 og þegar ég var að alast upp var heimsmyndin dálítið í þessa áttina. Eystri helmingur Evrópu var vissulega ekki alveg auður á landakortunum, við gátum teiknað farvegi Dónár og Don með trélitunum okkar inn á útlínukort í landafræðitímum og merkt inn dularfullar borgir eins og Bratislava og Búkarest en myndin sem við náðum að gera okkur af hinu víðáttumikla svæði bak við járntjaldið (sem við teiknuðum inn á kortið með þykkum svörtum lit), sú mynd var þó bæði eyðileg og svarthvít öll. En einn blettur Evrópukortsins var hins vegar svo auður og tómur og allslaus að þar gátum við eins trúað því að já, þar væru drekar.

Við vissum hreinlega ekkert hvað leyndist á þessum bletti. Jú, höfuðborgin þarna hét Tírana, það var fastur liður í spurningakeppnum í barnaafmælum að spyrja um það, en annars vissum við bókstaflega ekkert um auða blettinn á kortinu.

Albaníu.

Þetta litla land var svo fjarlægt að það hefði eins getað verið á tunglinu. Var þar einu sinni fólk eins og við? Voru litir í þessu landi? Kunni fólkið að lesa og skrifa og hlæja? Eða sat það einlægt í þungum þönkum og gráleitt á hörund og hugsaði um væntanlegan sigur alheimskommúnismans sem þar réð ríkjum?

Og sæjum við nöfn á fólki sem þarna bjó gerðu þau ekki annað en staðfesta grun okkar um að þarna byggju mjög framandlegar verur því nöfnin virtust ekki fylgja neinum skiljanlegum lögmálum. Mikið af x-um og q-um og stuttum skrýtnum samsetningum bókstafanna.

Löngu seinna hrundi alheimskommúnisminn og hin mikla einangrun Albaníu rofnaði í kjölfarið. Samt hefur landið áfram verið dularfullt og skrýtið. Frjáls, bók stjórnmálafræðingsins Leu Ypi, er sérstaklega mikils virði til að hjálpa okkur að skilja þetta land þar sem einu sinni voru drekar í vitund okkar og við vissum varla hvort fólkið kunni að hlæja en þar sem nú eru eintómir glæpamenn og flóttafólk – segir orðrómurinn.

Ypi fæddist í Tírana árið 1979 þegar einangrun og kúgun kommúnistastjórnarinnar stóðu sem hæst. Lýsingar hennar á hversdagslífi fjölskyldu hennar við hinar furðulegu aðstæður eru stórkostlegar, í senn neyðarlega fyndnar og hrollvekjandi. Það dugir að nefna stöðugar umræður sem hún barnið varð vitni að þegar fullorðna fólkið ræddi einlægt um hverjir hefðu útskrifast úr hvaða háskóla, hver hefði lært hvaða fag og hverjir hefðu haft stranga kennara. En þegar hún vildi taka þátt í umræðunum og spyrja nánar um allt þetta námsfólk þá þögnuðu umræðurnar um leið.

Löngu seinna rann upp fyrir Ypi hvað þau hefðu verið að tala um í raun og veru.

En þannig var Albanía þeirra tíma. Svo margt var tóm blekking.

Einangrun landsins var bein afleiðing kommúnistastjórnar Envers Hoxha frá 1944 þegar segja má – enda orðar Ypi það svo – að þjóðin hafi öll verið hneppt í fangelsi. En einangrun Albaníu öll þessi ár á sér þó lengri sögu og þegar við tökum nú á móti Leu Ypi á bókmenntahátíð og spyrjum hana spjörunum úr um hina merkilegu bók hennar um uppvaxtarárin í fangelsinu og svo hikandi skrefin út í frelsið, þá er gott að þekkja ögn þá sögu.

Því einsemd og einangrun hafa verið hlutskipti Albana miklu lengur en frá þeirri stund þegar Hoxha skellti dyrunum í lás og tók sér fyrir hendur að þurrka Albaníu nánast út af landabréfum okkar í vestrinu.

 

Saga Albaníu

Balkanskaginn vestanverður er fjöllóttur og hrjóstrugur víðast, fjöllin eru ekkert sérlega há en þau eru nokkuð brött og farartálmar víða svo sumir fjalladalirnir eru afskekktir og bjóða ekki endilega upp á mikil mök við nágrannana. Á öldunum fyrir Krists burð bjuggu þarna Illyríar og töluðu eigið tungumál sem þó er lítt þekkt, enda áletranir og örnefni það eina sem hefur varðveist af því máli.

Seint á 3. öld f.Kr. háðu Rómverjar stríð við illyríska þjóð sem þá bjó þar sem Albanía er nú. Til tíðinda er talið að Illyríumenn þessir lutu þá stjórn drottningar sem Teuta hét og stýrði öflugum flota sjóræningja. Ekki var algengt að Rómverjar þyrftu að glíma við konur og munu þeir hafa kunnað því illa en náðu þó að kveða hana í kútinn að lokum. Erjur þeirra við Illyríumenn héldu þó áfram, aðallega ögn norðar í fjalladölunum þar sem heita nú Króatía, Bosnía og Serbía. Um þær mundir voru illyrískar tungur farnar að láta verulega undan síga á Balkanskaga. Lauk svo að Illyríumenn virtust horfnir af sjónarsviðinu en afkomendur þeirra töluðu latneskar mállýskur.

Og um slóðir hinna týndu Illyríumanna fóru nú margar langtað komnar þjóðir, Gotar, Húnar, Alanar – og á 6. öld mætti nýtt fólk, Slavar, til leiks sem settist að við strönd Adríahafsins og í fjöllunum.

Slavar, sem voru sennilega upprunnir á mótum Póllands, Belarús og Úkraínu, urðu brátt yfirgnæfandi á mestöllum Balkanskaga norðan Grikklands. Þjóðir eins og Króatar, Serbar, Slóvenar og fleiri urðu til þegar heimamenn tóku upp tungu aðkomumanna. Þessar nýju slavnesku þjóðir gerðu sig æ meir gildandi og öttu gjarnan kappi við austurrómverska ríkið (Býsans) sem réð mestöllum Balkanskaganum fram undir 1200. Þá höfðu Ungverjar sótt inn á skagann úr austri en afdrifaríkast varð að á 13. öld komu Tyrkir úr suðaustri. Þeir herjuðu svo ákaflega að tæpum tveim öldum síðar voru þeir orðnir herrar á öllum Balkanskaga og sátu yfir hlut hinna mörgu þjóða þar.

 

Nýr þjóðflokkur

En meðal þjóðanna sem bjuggu upp af Adríahafsströndinni, á skaganum vestanverðum, var nú allt í einu komið fram nýtt fólk sem enginn hafði heyrt minnst á fyrr en á 11. öld. Enginn vissi hvaðan það kom og það talaði tungu sem enginn botnaði í og virtist ekki skyld neinum öðrum tungumálum.

Mikið af x-um og q-um.

Þetta voru Albanir.

Allra fyrst mættu Albanir til leiks eins og í framhjáhlaupi í frásöguriti eftir grískan sagnaritara í Miklagarði sem út kom 1079. Sá var að fjalla um víðkunnan býsanskan herforingja sem kallast í Morkinskinnu Gyrgir og etur meðal annars kappi við væringjann Harald harðráða. Á einni hergöngu Gyrgis gegn Miklagarði þrammar með honum flokkur „Albanoi“ sem virðist líkt og nýsloppinn út fyrir járntjald Rómverja og síðan Slava, eða var þetta fólk nýkomið af einhverjum ókunnum slóðum?

Næstu áratugina og aldirnar er svo æ oftar minnst á þessa áður óþekktu þjóð og árið 1190 var stofnað fyrsta albanska ríkið sem við þekkjum, Arbanon. Alltaf voru Albanir í minnihluta innan um öfluga nágranna en náðu stöku sinnum næstu aldirnar að halda úti nokkrum mis-sjálfstæðum furstadæmum.

 

Skanderbeg og sjálfstæðistilraunir Albana

Árið 1443 gerði ættarlaukur í einu albanska smáríkinu uppreisn gegn Tyrkjum og náði að halda velli í aldarfjórðung. Skanderbeg hét hann og er enn í dag ein helsta þjóðhetja Albana. Reyndar þurfti hann ekki síður að glíma við aðra albanska fursta og smákónga en Tyrki. Sundurþykkja hefur ævinlega einkennt Albani og gerir enn, eins og lesa má um í bók Ypi. Þar segir á einum stað frá því að erjur í landinu á síðasta áratug 20. aldar – eftir fall Hoxha-stjórnarinnar – hafi verið raktar „til langvarandi illdeilna milli mismunandi þjóðernishópa eins og Gheg-fólks í norðri og Tosk-fólks í suðri. Ég trúði þessari skýringu þrátt fyrir að hún væri fáránleg og að ég hefði ekki hugmynd um hvaða þjóðarbroti ég sjálf tilheyrði, báðum þessum eða hvorugu. Ég trúði henni þó að mamma væri Gheg og pabbi væri Tosk …“ (295)

Eftir að Skanderbeg dó og uppreisnin koðnaði niður hurfu Albanir bak við nýtt „járntjald“ Tyrkjaveldis og fréttist fátt af þeim næstu 450 árin.

En hverjir voru Albanir sem birtust allt í einu uppi í fjalladölunum á 11. öld, svo óskyldir öllum nágrönnum sínum sem tunga þeirra virðist gefa til kynna?

Gegnum tíðina hafa verið settar fram ýmsar kenningar um hvaðan Albanir komu. Frá Kákasusfjöllum, frá Mið-Asíu, frá Anatolíu. Engin þeirra hefur reynst haldbær. Engin leið Albana inn á Balkanskaga hefur fundist.

Einfaldasta skýringin er því vitaskuld sú að þeir hafi verið þarna allan tímann. Albanir séu einfaldlega afkomendur Illyría þeirra sem Rómverjar undirokuðu á sínum tíma og hurfu svo sporlaust þegar vesturströnd Balkanskaga varð fyrst latnesk og síðan slavnesk. Þangað til þeir komu niður úr fjalladölunum á 11. öld. Þessi kenning um uppruna Albana er satt að segja svo einföld að hún hlýtur eiginlega að vera rétt.

Og Albanir sjálfir munu vera vera sáttir við hana og hafa til dæmis Teutu drottningu í hávegum sem forna ættmóður sína.

Eitt af ráðum Tyrkja til að sporna gegn uppreisnum Albana næstu aldirnar var að beita sér mjög fyrir trúskiptum þeirra frá kristindómi til íslams. Svo fór að Albanir tóku trú hinnar tyrknesku herraþjóðar í miklu ríkari mæli en nokkur önnur þjóð eða þjóðarbrot á Balkanskaganum, nema þá helst tiltölulega afmarkaður hópur í miðri Bosníu. Ástæðurnar fyrir því að stór meirihluti Albana (en vel að merkja ekki alveg allir) köstuðu kristni eru ekki allar ljósar en svo mikið er víst að fæstir Albanir nutu þess í veraldlegum skilningi að undirgangast íslam. Yfirstéttin sem þjónaði Tyrkjum hafði það vissulega ágætt og furðu margir af stórvesírum (forsætisráðherrum) Tyrkjaveldis næstu aldir voru reyndar albanskrar ættar. Margar frægustu konurnar í kvennabúrum soldánsins líka. En meirihluti Albana var fastur í fátæktargildrum fjalladalanna þar sem samfélagið gerðist staðnað og afturhaldssamt.

 

Upplausn Ottómanaveldisins

Í byrjun 19. aldar var Ottómanaveldi Tyrkja farið að hnigna og þjóðernisstefna breiddist út á Balkanskaga. Grikkir slitu sig fyrst lausa undan Tyrkjum og þá Serbar, síðan Rúmenar. Sennilega tafði það Albani á braut þjóðernishyggjunnar að þeir voru (langflestir) sömu trúar og herraþjóðin. Þá óttuðust Albanir að öflugir nágrannar þeirra myndu skipta löndum þeirra milli sín ef þeir nytu ekki verndar Tyrkja.

Undir aldamótin 1900 var þó orðið löngu ljóst að ekkert hald var lengur í Tyrkjum. Þjóðernishyggja Albana sjálfra var þá og komin vel á legg. Átök brutust reglulega út og í kjölfar fyrra Balkanstríðs Grikkja, Serba, Svartfellinga og Búlgara gegn Tyrkjum 1912 lýstu Albanir yfir sjálfstæði. Hin allsráðandi evrópsku stórveldi samþykktu ráðahaginn en landamærin voru dregin eftir hentugleikum hinna öflugri þjóða. Þar voru Albanir sviptir nærri helmingi ríkisins því stórveldin eftirlétu Serbum héraðið Kósóvó sem var þó að yfirgnæfandi meirihluta byggt Albönum. Afleiðingin nú hundrað árum síðar eru tvö albönsk ríki, ekki eitt.

Á árum heimsstyrjaldarinnar fyrri var hin veikburða Albanía leiksoppur öflugra nágrannaríkja svo eftir stríðið hugðust stórveldin leggja þetta vandræðaland niður og skipta því milli Grikklands, hinnar nýju Júgóslavíu og Ítalíu. Áttu nú Rómverjar aftur að eignast hluta Illyríu? Því mótmæltu Albanir ákaft og sögðust fyrr mundu allir dauðir liggja en fallast á að landið þeirra nýja hyrfi svo skjótt. Að lokum viðurkenndu stórveldin þó sjálfstæði þeirrar Albaníu sem reist hafði verið 1912.

Um þetta leyti má segja að Albanía hafi svolítið komist í tísku hjá Evrópubúum. Þetta fámenna og furðulega ríki sem virtist svo staffírugt taldi sig komið til nútímans en gat þó illa slitið sig frá fortíðinni. „[Albanir] eru algjörlega staðráðnir í að varðveita alla gamla siðu,“ skrifaði þýski blaðamaðurinn Joseph Roth sem heimsótti landið, „og leggja ekki einungis þyngri áherslu á að þeir séu Albanir en manneskjur, heldur rækta þeir líka ættbálkaríg sinn af þvílíkri samviskusemi að það stendur í sjálfu sér þjóðinni fyrir þrifum.“ Rétt eins og Lea Ypi nefnir líka í bók sinni.

 

Hin endurreista Albanía

Lea Ypi / Teikning: Ynja Blaer

Lea Ypi / Teikning: Ynja Blaer

Þetta endaði allt með ósköpum. Tilraunir Albana til að mynda nútímaríki strönduðu á að alla raunverulega innviði skorti og stórir hlutar samfélagsins voru enn í greipum miðalda. Lénsherrar ráðskuðust með og arðrændu fátæka menntunarsnauða alþýðu. Miðaldasiðir eins og grimmilegar blóðhefndir gátu viðgengist í áratugi.

Inn á sviðið óð hinn ótrúlegi konungur Zog I, lifði af 55 banatilræði og lenti oft í skotbardaga við tilræðismenn, þar á meðal í albanska þinginu, og var sagður eiga yfir höfði sér 600 blóðhefndir, enda svakamaður mesti og litríkur vel. Þótt Zog gerði vissulega ýmsar tilraunir til að mjaka Albaníu nær nútímanum voru þær flestallar fyrst og fremst miðaðar við hagsmuni þeirrar landeigendastéttar sem kóngur tilheyrði sjálfur. Og 1938 var öllu lokið.

Skólastúlkan Lea Ypi lærði sögu landsins:

Valdatíð Zogs og allt sem fylgdi í kjölfarið markaði endalokin á viðleitni Albaníu til að verða fullvalda og frjálst samfélag. […] Daginn sem Ítalir gerðu innrás í Albaníu, þann 7. apríl 1939, börðust margir hermenn og almennir borgarar gegn ítölsku herskipunum, stóðu illa vopnum búnir andspænis stórskotaliði innrásarhersins þar til þeir féllu í valinn. Aðrir Albanir, landstjórarnir, landeigendurnir og ríkustu kaupsýslumennirnir, þeir sem áður höfðu þjónað hinum blóðþyrsta konungi sem arðrændi þjóðina – flykktust nú til að fagna innrásarliðinu, æstir í að taka við valdastöðum í hinni nýju nýlendustjórn. Sumir, þar á meðal forsætisráðherrann fyrrverandi, þökkuðu meira að segja ítölskum yfirvöldum fyrir að frelsa landið undan harðstjórn Zogs konungs. Fáeinum mánuðum síðar var þessi fyrrum forsætisráðherra drepinn í loftárás. Líf hans sem svikari sem hafði unnið með konunginum og dauði hans sem fasisti og illmenni voru efni sögutímans í dag. (28–29)

Og það er ein þungamiðjan í meistaralegri og þó svo átakanlegri frásögn Ypi af uppeldi sínu í Albaníu kommúnismans að svo vill til að þessi fallni forsætisráðherra, svikarinn mikli, hann heitir líka Ypi. Hver er hann? Má spyrja? Fást einhver svör?

 

Að alast upp í skugga Enver Hoxha

Á stríðsárunum síðari börðust þrjár andspyrnuhreyfingar gegn hernámsliði Ítala og síðar Þjóðverja. Í nóvember 1944 tókst einni þeirra að reka síðustu Þjóðverjana burt og taka völdin í landinu: það voru kommúnistar sem ekki höfðu reyndar mikið látið að sér kveða í Albaníu fram að því. Undir forystu hins einstrengingslega kennara Envers Hoxha brutu kommúnistar alla andstöðu á bak aftur og tóku sér alræðisvöld. Fyrst með stuðningi Stalíns og Titos í Júgóslavíu en fljótt kastaðist í kekki með leiðtoga Júgóslava og Hoxha. Áfram stóð Hoxha dyggur og traustur með sínum góða vini Stalín. Og Albanía hvarf bak við nýtt járntjald sem nú var dregið yfir Evrópu miðja.

Eftir að Stalín dó 1953 snerust arftakar einræðisherrans í Sovétríkjunum gegn minningu hans en slíkt taldi Hoxha helgispjöll. Stalín var allt til enda valdatíðar kommúnista sannur vinur albanskrar alþýðu og Lea Ypi segir frá því í fyrsta kafla bókar sinnar hvernig kennari hennar í barnaskóla kennir börnunum að mæra stórt sem smátt í fari Stalíns:

Stalín liti beint á mann og ef honum þóknaðist það sem hann sæi, ef maður hagaði sér vel, brosti hann með augunum. [Kennarinn] bætti því við að hann klæddist alltaf látlausum frakka og tilgerðarlausum, brúnum skóm og hann styngi oft hægri hendinni inn undir frakkabrjóstið vinstra megin eins og hann héldi um hjarta sitt. (11-12)

Eftir að stjórn Hoxha sagði skilið við Sovétríkin vegna afstöðunnar til Stalíns batt hún í staðinn trúss sitt við kommúnistastjórn Maós í Kína. Þá varð til meðal kommúnista orðatiltækið „að skamma Albaníu þegar maður meinar Kína“.

Svo fór Maó að verða of vingjarnlegur í fasi við hin kapítalísku Vesturlönd og þyngdist þá brún Hoxha. Eftir að Maó dó 1976 sleit hann öll tengsl við Kínverja og eftir það voru Albanir einir í heiminum, aleinir, höfðu varla viðskipti við neinn, voru nánast alveg sjálfbær þjóð.

Einangruð og vinalaus bak við sitt eigið járntjald.

Og þá varð til á Vesturlöndum, líka hér á Íslandi, fámennur en eldmóðugur hópur svonefndra Albaníukomma sem kepptust við að halda árunni hreinni og lifðu fyrir að komast í ferðalög til fyrirheitna landsins. Lea Ypi varð vör við þá á sínum uppvaxtarárum:

Þeir voru aðallega frá Norðurlöndunum og voru ævareiðir yfir félagslega stórslysinu sem kallaðist félagshyggja. Þeir komu með sælgæti til þess að bjóða innfæddum sem þáðu það yfirleitt ekki. Þeir dýrkuðu landið okkar sem þeir töldu það eina í veröldinni sem hefði tekist að byggja upp samfélag sem grundvallaðist á sósíalisma án málamiðlana. Þeir dáðust að öllu sem við gerðum: Skýrleika slagorðanna, skipulaginu í verksmiðjunum, sakleysi barnanna, hlýðni hestanna sem drógu vagnana og sannfæringu bændanna sem sátu í þeim. Jafnvel moskítóflugurnar sugu blóð á einstakan og hetjulegan máta og hlífðu engum, heldur ekki ferðamönnunum sjálfum. Þessir ferðamannahópar voru félagar okkar í hinum stóra heimi. Þeir brutu heilann um það hvernig hægt væri að taka okkar samfélagsgerð upp annars staðar. (99)

En það varð nú ekki, sem betur fer. Reyndar er rétt að segja hverja sögu eins og hún er:

Frjáls e. Leu Ypi

Frjáls: Æska í skugga járntjaldsins e. Leu Ypi (2022). Eyrún Edda Hjörleifsdóttir þýddi.

Gífurlegar framfarir á nær öllum sviðum urðu í Albaníu undir stjórn kommúnista. Heilsugæsla varð aðgengileg öllum og ókeypis. Langlífi jókst og barnadauði varð nærri úr sögunni. Fáir höfðu kunnað að lesa og skrifa, nú lærðu það allir. Rótgróið feðraveldið, svo forstokkað að konur voru þar nálega einskis virði, fór að láta á sjá og þess vegna fékk Lea Ypi að ganga í skóla. Hundrað árum fyrr, já, bara fimmtíu árum fyrr, hefði það ekki komið til mála. Þegnar Hoxha lifðu ekki í neinum vellystingum – nema náttúrlega forkólfar Flokksins! – en hinni algeru og sáru fátækt var þó að mestu útrýmt. Hungurvofan kvaddi Albaníu.

Þá má spyrja: Andspænis öllum þeim framförum sem áðan var lýst, er þá ekki hægt að fyrirgefa Hoxha og félögum svolitla skoðanakúgun? Var Hoxha ekki bara „sterki maðurinn“ sem Albanir þurftu á að halda til að draga þá út úr miðaldamyrkrinu og neyða þá til að leggja af sína frumstæðu háttu?

En að breyttu breytanda má auðvitað segja að framfarirnar í Albaníu kommúnismans, þó miklar hafi verið, séu í rauninni bara ósköp svipaðar framförum og nútímavæðingu í nálægum löndum sem urðu án þess að gripið væri til kúgunar, ofsókna og ofbeldis.

Því yfirráð kommúnista þurfti albanska þjóðin að borga dýru verði. Kúgunin var mikil og þrúgandi. Margir voru fangelsaðir sem ekki vildu ganga í takt. Allmargir voru teknir af lífi fyrir mótþróa og andspyrnu. Þetta var það sem fólkið hennar Ypi var í rauninni að tala um þegar það þóttist vera að spjalla um hverjir hefðu „útskrifast“. Að „hætta námi“ af sjálfsdáðum var að fremja sjálfsmorð af örvæntingu. En samt reyndi fólk að lifa sínu lífi svo vel og fallega sem hægt var. Lesið um kókdósina í bók Leu Ypi og tárist.

En þegar líður á bókina kemur í ljós að heiti hennar, Frjáls, er margræðara en lesandi átti von á. Í miðri bók fellur kommúnistastjórnin og Albanía kemur enn fram í dagsljós frelsisins, undan járntjaldinu, blikkandi og feimin, svolítið völt á fótunum en staðráðin í að láta það nú ganga. Og þessi seinni hluti bókarinnar er á sinn hátt jafnvel sorglegri en sá fyrri. Er jafnmikil blekking enn fólgin í frelsi Albana?

Veröld mín er jafn ófrjáls og veröldin sem foreldrar mínir reyndu að sleppa úr. Hvorug nær að uppfylla hugsjónina um frelsi. En ósigurinn tekur á sig mismunandi myndir og ef við skiljum það ekki munum við alltaf skipa okkur í andstæðar fylkingar. Ég skrifaði sögu mína til þess að auka skilning, til þess að sætta og til þess að halda baráttunni áfram. (305)

 

Lea Ypi