Hólmfríður Hafliðadóttir frumsýndi í gærkvöldi einleik sinn Þegar við erum ein í nýja sviðslistahúsinu Afturámóti í Háskólabíó. Meðhöfundur hennar er Melkorka Gunborg Briansdóttir sem einnig leikstýrir. Magnús Thorlacius er dramatúrg, Iðunn Gígja Kristjánsdóttir gerir leikmyndina sem er einföld en virkar vel og tónskáldið er Iðunn Einarsdóttir. Verkið fjallar um ástarsamband tveggja ungmenna en Hólmfríður leikur þau bæði, eini mótleikari hennar er útstillingargína í fullri líkamsstærð sem Hólmfríður notar eins og hugmyndaríkt barn dúkkuna sína.

Í upphafi sest leikkonan fremst á sviðið fyrir miðju og kvenpersónan hennar segir okkur í viðtali frá kvöldinu þegar parið sleit samvistum og nóttinni á eftir. Hún er skekin og ringluð en frásögnin má ekki skýrari vera. Síðan hverfur hún aftur í tímann og gefur okkur svipmyndir úr uppvexti stúlku sem dreymir um rómantískan elskhuga í ætt við þá sem hún hrífst af í bókum og bíómyndum, og strákurinn sem hún hittir loks í menntaskóla lofar sannarlega góðu. Þá er komið að karlpersónunni sem reynir að koma yfir til okkar í sundurslitnum setningum upplifun sinni á sambandinu við stúlkuna og fíkn sinni í klám, sem stendur sambandinu fyrir þrifum á fleiri en einn veg, enda lofar hann staðfastlega að hætta að horfa á það. Það hrekkur þó skammt eins og kemur fljótlega í ljós, hugmyndir þeirra um ást og kynlíf eru fjarskalega ólíkar og þau ná alls ekki að tala sig saman til gagnkvæms skilnings. Kvöldið örlagaríka þegar þau slíta sambandinu kemur þeim í koll hve fjarri þau eru skilningi hvort á öðru eins og kemur berlega í ljós þegar samsvarandi viðtal er haft við hann og við hana í upphafi verks.

Þegar við erum ein er stutt verk, um 40 mínútur, en það er afar vel samið, byggingin snjöll og efnið tekið föstum tökum. Hólmfríður skapaði persónurnar með fáum, skýrum dráttum; hún bætti á sig fötum fyrir piltinn en þegar hún treysti áhorfendum nógu vel gat hún sleppt því, látbragðið og einföld tákn dugðu. Tungutak persónanna var gerólíkt og talandinn líka, þetta var afar vel gert og ekki að sjá að höfundurinn væri lítt reyndur og leikarinn nýútskrifaður. Salurinn var fullur af ungu fólki í gærkvöldi og óskandi að verkið fái að lifa á sviðinu í Háskólabíó, en það er einfalt í uppsetningu og gráupplagt væri að sýna það í framhaldsskólum og jafnvel efstu bekkjum grunnskóla, þangað á það erindi.

Silja Aðalsteinsdóttir