Fyrir ári hóf Birnir Jón Sigurðsson leikárið í Tjarnarbíó með sínu bráðskemmtilega verki Sund sem raunar fær framhaldslíf í Þjóðleikhúsinu á þessu leikári. Og í gærkvöldi hófst nýtt leikár í Borgarleikhúsinu með nýju verki eftir hann, Sýslumanni Dauðans sem sýnt er á Nýja sviði. Leikstjóri er Stefán Jónsson. Mirek Kaczmarek hannar dularfullt og lengst af drungalegt sviðið og hugkvæma búninga; hann sér líka, ásamt Jóhanni Friðriki Ágústssyni, um lýsinguna sem oft skapaði sína eigin merkingu, en myndböndin sem gátu gerbreytt öllu yfirbragði sviðsins á augabragði eiga Birnir Jón og Elmar Þórarinsson. Leikgervi leika mikilvægt hlutverk í sýningunni, þau eru hönnuð af Elínu S. Gísladóttur. Hljóðmyndina á Ísidór Jökull Bjarnason en Ásgeir Trausti á óvænta (og afar fallega) innkomu undir lok sýningar.
Verkið hefst í raunsæislegum raunheimum. Úti í hægra horni á myrku sviði húkir Birkir gamli Ævarsson (Pálmi Gestsson) í eldhúsinu sínu og er að pára eitthvað á blað, reykjandi. Þá kemur sonur hans inn eins og stormsveipur, tónlistarmaðurinn landsþekkti Ævar (Haraldur Ari Stefánsson); hann er í skylduheimsókn til pabba gamla, óskaplega önnum kafinn, hefur alls ekki tíma til að drolla þarna og hlusta á það sem pabbi vill endilega lesa fyrir hann og rýkur á dyr aftur án þess. Ætlar að hlusta á það næst.
En eins og verða vill er ekkert næst. Seinna sama dag fær Ævar þær fréttir að pabbi hans sé dáinn. Honum verður mikið um og smám saman skekkist veröld verksins, gengur meira og meira úr lagi; Sigurlaug og Sævar (Birna Pétursdóttir, Hákon Jóhannesson) hjá Útfararstofu Orfeusar (sem er „með þér frá a til ö“) eru svolítið undarleg, er það ekki? Samtölin við þau eru fáránlega hlægileg í ofurraunsæi sínu, og skrautlegi satýrinn (Sólveig Arnarsdóttir) sem sýnir töfrabrögð þegar starfsfólkið sér ekki til virðist alls ekki vera af þessum heimi. Hjá henni fréttir Ævar að það sé hugsanlegt að endurheimta föðurinn, hann þurfi bara að leysa þrjár þrautir, að því loknu geti hann sótt um lengingu lífs hjá sýslumanni Dauðans. Og eins og Orfeus lagði forðum á sig langa ferð til að endurheimta sína Evridísi leggur Ævar af stað til Undirheima til að sækja pabba sinn og fer á þeirri leið í gegnum ólík stig sorgarferlisins.
Sýslumaður Dauðans er frumlegt verk, ferskt og frjótt þrátt fyrir sínar fornu rætur, afar vel samið og skemmtilega skrifað með meinfýsnum vísunum í stofnanamál og fjölmiðlasnakk, fullt af sniðugum orðaleikjum og annarri málsnilld. Það er harkalega gagnrýnið á innantóman hraða samtímans, endalausa endurtekningu hans á engu, þar sem aldrei er hlustað af nærfærni en allt gengur út á að stökkva úr einu í annað svo að öruggt sé að engum leiðist. Verkið lýsir af innsæi martraðarkenndri eftirsjá eftir nánd og upphefur af djúpum mannskilningi gildi hversdagsins í lífi okkar. Gildi þess til dæmis að sitja saman í kaffi, spjalla um eitthvað praktískt og borða ristað brauð. Birnir Jón lætur af aðdáunarverðri hugkvæmni skiptast á kaldhæðnar svipmyndir af samskiptum fólks og samúðarfullar myndir af manni sem harmar föður sinn – meira og sárar en hann hefði getað ímyndað sér. Fallegt, harmrænt, fyndið, beitt.
Stefán Jónsson sýnir hér enn hvað hann er hugmyndaríkur og snjall leikstjóri. Það dýpkar verkið og vinnu hans að hér stýrir hann syni sínum í verki um feðga, og Haraldur Ari blómstrar undir þeirri stjórn; er pirraður, harmþrunginn, ráðvilltur, reiður, ofbeldisfullur, ýtinn, angurvær, munklökkur, vonglaður – í þessari röð. Það var upplifun að fylgjast með ferð hans um innri hugarheima sína. Sólveig Arnarsdóttir fékk búning og hlutverk við sitt hæfi í satýrnum, töframaður sem hún er. Birna og Hákon léku alla bjúrókratana, hvort sem var í heimi hinna lifandi eða dauðu, og voru alveg frábær. Einkum gerði Birna afspyrnu skemmtilegan mun á persónum Sigurlaugar og Dauðans.
Síðastur en ekki sístur er Pálmi sem túlkaði Birki af einstakri innlifun, hlýju og húmor, á ólíkum og óvæntum stigum lífs og dauða.
Sýslumaður Dauðans er merkilegt listaverk um mikilvægt efni. Ég spái því langlífi.
Silja Aðalsteinsdóttir