Sviðslistahópurinn Common Nonsense tekur þátt í Listahátíð í Reykjavík með verkinu Las Vegan eftir Ilmi Stefánsdóttur sem þau sýndu í portinu í Hafnarhúsi. Þetta mikla leiksvæði lögðu þau undir sig með flygil á öðrum endanum sem Davíð Þór Jónsson leikur á og loftfimleikatæki og tól á hinum endanum sem leikendur og sérstakir fimleikamenn (Justyna Micota og Jón Sigurður Gunnarsson) leika sér í. Þar á milli spilaðist dramatísk og býsna litrík nútíma fjölskyldusaga.

Unglingurinn Díana (Ebba Katrín Finnsdóttir) er í öngum sínum yfir ástandi heimsins og kvíðir heimsendi. Móðir hennar (Margrét Vilhjálmsdóttir) bregst þannig við vanlíðan dótturinnar að hún ákveður að fjölskyldan flytji öll – og amma gamla (Guðrún Gísladóttir) líka – til Las Vegas svo að Díana geti lært látbragðsleik áður en heimurinn ferst. Þetta gera þau og um hríð vegnar þeim ekki illa í óskalandinu. Faðirinn (Valur Freyr Einarsson) fær vinnu sem söngvari á bar og nýtur þess að baða sig í aðdáun kvenkyns áheyrenda. Móðirin fer að æfa loftfimleika, amma eignast vin (Eggert Þorleifsson) og Díana fær vinnu á barnum Las Vegan. Það hallar skyndilega undan fæti þegar Díana verður fyrir einelti á vinnustað og amma ákveður að hefna þess. Þar mætir villta vestrið Íslendingasögunum með stæl!

Þó að sagan gæti verið eins og hver önnur saga af dálítið sérkennilegri en hugdjarfri fjölskyldu er yfir allri sýningunni súrrealískur ævintýrablær eins og við mátti búast af þessum höfundi og hópnum hennar. Búningar Ilmar voru óvæntir og spennandi og gervi Tinnu Ingimarsdóttur senuþjófar. Þótt öll orð í texta væru hversdagsleg og eðlileg varð heildin skemmtilega absúrd með því að samhengið var sífellt slitið sundur – fólk talaði ekki saman heldur talaði hver fyrir sig og enginn hlustaði. Eða ef einhver hlustaði þá var hlustunin svo yfirborðsleg að hún var verri en engin. Þetta var fyndið og ögrandi – og kannski raunsærra en maður vill viðurkenna.

Svo var auðvitað yndi að horfa á þessa frábæru leikara í skartlegu búningunum sínum. Sérstök nautn var að fylgjast með ömmu Guðrúnar Gísladóttur sem fékk meira út úr ferðalaginu til Ameríku en nokkurt hinna.

 

Silja Aðalsteinsdóttir

 

Las Vegan / Mynd: Finnur Árnason