Dúndurfréttir: Nýtt sviðslistahús hefur verið stofnsett í Reykjavík, Afturámóti. Það hefur aðsetur í Háskólabíó og þar í sal 2 sá ég tvö stutt leikverk í gærkvöldi. Hið fyrra, Hansel og Gretel eftir Melkorku Gunborgu Briansdóttur hafði ég séð áður á Ungleik í Tjarnarbíó í fyrra, hið síðara var Svar við bréfi Petru eftir Gígju Hilmarsdóttur sem hún stýrir sjálf ásamt Önnu Kristínu.

Mér heyrðist textinn í Hansel og Gretel vera svolítið lengri og fyllri en í fyrra en auðvitað get ég ekkert fullyrt um það. Hitt er víst að þetta er dillandi skemmtilegt súrrealískt verk sem flytur ævintýrið um Hans og Grétu til, bæði í ytri tíma og ævi systkinanna. Þau eru sem sé orðin fullorðin og horfa aftur til bernskuáranna, uppvaxtarins í skóginum og brottrekstrarins að heiman, en þau tala líka með tungutaki samtíma okkar, vísa í rannsóknir og bíómyndir og önnur nútímafyrirbæri. Gretel (Katla Þórudóttir Njálsdóttir) er virkilega skelegg í tali sínu um stjúpuna – sem líklega var þó alls ekki stjúpa, heldur hún, bara mamma þeirra, Grimmsbræður höfðu breytt þessu af því þeir þoldu ekki að móðir gæti verið svona vond. En þegar Hansel (Ingi Þór Þórhallsson) vill tala um gömlu konuna í skóginum og nammihúsið þá er Gretel ekki með, vill ekki muna neitt.

Þetta stórskemmtilega verk sýnir vel hvað það er endalaust líf í þessum gömlu sögum. Katla og Ingi Þór léku systkinin af list og öryggi í skemmtilegum búningum Huldu Kristínar Hauksdóttur.

Í Svari við bréfi Petru er Stella (Hólmfríður Hafliðadóttir) í heimsókn hjá Ólínu vinkonu sinni (Sólbjört Sigurðardóttir) og þær eru að sjóða saman svar við bréfi sem Ólínu hefur borist frá enn einni vinkonunni, Petru. Stella hefur eiginlega hrifsað snjalltækið úr höndum Ólínu og samið bréfið ein, Ólínu til nokkurrar armæðu, enda er Stella ívið orðhvassari (les: dónalegri) en Ólína ætlaði sér. Þetta samtal var meinfyndið en þaðan sem ég sat var því miður stundum erfitt að heyra orðaskil í máli Stellu því að hún sneri sér of mikið að Ólínu en um leið frá mínum hluta salarins. Hljóðvistin í Háskólabíó er ekki miðuð við órafmagnað tal á sviði og það þurfa leikararnir að muna. Þau þurfa ekki hljóðnema, bara muna að snúa frekar að áhorfendum en frá þeim.

Nýr tónn kemur í leikinn með eiginmanni Ólínu, Huga (Hjalti Rúnar Jónsson), sem kemur sveittur heim af fótboltaæfingu. Okkur fer að gruna að meira sé á milli Stellu og Huga en ætti að vera miðað við hamingjusamt hjónaband þeirra Ólínu – eða veit Ólína kannski meira en við mætti búast? Samtölin eru hispurslaus og fyndin, sérstaklega nýstárleg sena á baðherbergi, og allir leikararnir þrír fóru vel með hlutverkin. Lýsing Stellu á uppeldisaðferðum sínum í framtíðinni skar sig þó úr bæði í leik og texta, hún var beinlínis magnþrungin!

Ég hlakka til að fylgjast með því sem gerist í Afturámóti í sumar.