Leikhópurinn Lotta er sestur að í Ævintýraskóginum í Elliðaárdal – nema hvað nú heitir hann Hundraðekruskógurinn og titilpersóna nýja söngleiksins er enginn annar en sjálfur Bangsímon. Höfundur og leikstjóri er Anna Bergljót Thorarensen sem líka semur ágæta söngtexta ásamt Baldri Ragnarssyni en höfundar fjörugra laga eru Baldur RagnarssonRósa Ásgeirsdóttir og Þórður Gunnar Þorvaldsson. Danshöfundur er Sif Elíasdóttir Bachmann og fjölmarga skemmtilega búninga hannaði Eva Lind Rútsdóttir. Enginn er sérstaklega skrifaður fyrir leiksviðinu sem að venju er ákaflega þénugt og sniðuglega gert.

Þegar gestir koma að virðist hópurinn ætla að leika í tómum skáp sem framhliðina vantar á en það er bara partur af rammanum um söguna; hann gerist á spítala. Þar liggur mamma hans Jakobs Kristófers (Sumarliði V. Snæland Ingimarsson) en hann fær ekki að fara inn til hennar og verður að bíða frammi á þessari leiðinlegu, litlausu biðstofu. En Jakob er með bangsann sinn með sér, hann Bangsímon (Sigsteinn Sigurbergsson), og ekki líður á löngu áður en þeir fara nota biðina til að búa til sögur. Þá lifnar aldeilis yfir sviðinu. Ljóti „skápurinn“ lokast og þegar hann opnast aftur sýnir hann nýjan heim og þetta gerir hann hvað eftir annað. Við kíkjum í heimsókn til Kaniku (Sumarliði Snæland) með Bangsímon, við förum líka heim til Bangsímons sjálfs, við klifrum með Bangsímon og Gríslingi (Stefán Benedikt Vilhelmsson) upp í tré í heimsókn til Uglunnar (Þórunn Lárusdóttir) og finnum hjá henni halann sem Eyrnaslapi (Andrea Ösp Karlsdóttir) týndi og við kynnumst Kengu (Þórunn) sem kemur alla leið frá Ástralíu með litla kengúrubarnið sitt, hana Gúru (Andrea).

Þessi sýning hópsins er að því leyti ólík flestum fyrri sýningum að hún blandar ekki saman ólíkum ævintýrum heldur notar Anna Bergljót hér einfaldlega þekktustu sögurnar um Bangsímon sem lifna við á einstaklega skemmtilegan hátt í sýningunni – í leik, söng og dansi. Leikararnir lifðu sig fallega inn í hlutverkin, Andrea var ósköp raunalegur Eyrnaslapi, Stefán kotroskinn Gríslingur, Sumarliði dásamlega taugaveikluð Kanika og fjallhress Jakob og Þórunn bjó til algerlega andstæðar týpur úr Uglunni og Kengu. Bestur var svo Sigsteinn sem þurfti ekkert að hafa fyrir því að breyta sér í Bangsímon – bara gulur galli og stutt, rauð peysa og gervið var fullkomið!

Mér er minnistætt hvað ég hélt mikið upp á sögurnar um Bangsímon sem Hulda Valtýsdóttir þýddi og Helga systir hennar las í barnatíma útvarpsins þegar ég var stelpa. Í gær horfði ég á langömmubarnið mitt heillast af þessum sömu persónum og frásögnum og sýningin sagði mér (ef það þurfti að segja mér það) að þessar sögur A.A. Milne sem senn verða hundrað ára séu tímalaus klassík.

 

Silja Aðalsteinsdóttir