Leifur Reynissoneftir Leif Reynisson

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2023

 

 

 

 

 

 

Ég þakka þér, sem auðsins magn mér gefur
þá náð, að blessað stríðið stendur enn.
Ég þakka þér það afl, sem auður hefur,
það vald mér veitist yfir snauða menn.[1]

 

Stríð hefur einhvern veginn fjarlægan hljóm í íslenskri tungu. Við höfum einlægt verið fjarri vígaslóð og þekkjum hörmungar styrjalda fyrst og fremst af afspurn. Með stríðinu í Úkraínu hefur sá veruleiki þó færst nær þrátt fyrir að atburðirnir séu á hinum enda Evrópu. Um nokkurt skeið hafa okkur borist daglegar fréttir af hörmungum fólks þar sem vald hins ófyrirleitna ræður ríkjum. Stundum er því haldið fram að mannkynið læri aldrei af sögunni. Átti fyrri heimsstyrjöldin ekki að setja lokapunktinn við allan stríðsrekstur? Allir vita hvernig það fór. En um leið má geta þess að almannavilji stendur trauðla til stríðs. Það er fámennisvaldið sem býður hættunni heim, í þessum efnum sem öðrum. Það er þekkt að mikill vill meira en almúganum er efst í huga að njóta góðs af starfi sínu og lifa í friði. Evrópa hefur dregið dýrkeyptan lærdóm af tveimur heimsstyrjöldum og má í því sambandi benda á margvíslega samvinnu meðal þjóða álfunnar sem byggir á lýðræðislegum grunni.

Gera má ráð fyrir að íbúar meginlandsins geri sér almennt grein fyrir mikilvægi friðsamlegrar sambúðar þar sem samstarf er sem mest á flestum sviðum mannlífsins. Okkur Íslendingum er væntanlega svipað farið þó iðulega heyrist raddir sem vísa til meintrar sérstöðu þjóðarinnar og er þá gjarnan bent á sérstæða legu og sögu landsins. Umræðan um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu er áhugaverð í því sambandi. Leiða má líkum að því að Íslendingar séu ekki eins uppteknir af þeirri friðarsýn sem þjóðir meginlandsins sjá fyrir sér sem einn megintilgang Evrópusamrunans. Hörmungar heimsstyrjaldanna tveggja eru lifandi þáttur í þjóðarvitund flestra Evrópubúa en hér er lenska að tala um „blessað stríðið“.

Það hlýtur að teljast í meira lagi vafasamt að tefla þessum tveimur orðum saman enda geta andstæðurnar vart verið meiri. Gildir einu þó talað sé í hálfkæringi. En jafnframt minnir orðalagið á þá sérkennilegu stöðu sem Ísland stóð í um hálfrar aldar skeið eða svo og er þá vísað til seinni heimsstyrjaldar, kalda stríðsins og þorskastríðanna. Það er alkunna að Íslendingar högnuðust mjög á heimsstyrjöldinni síðari og áframhaldandi viðveru bandarísks herliðs í kalda stríðinu. Er því oft haldið fram að þá hafi landsmenn komist inn í nútímann með ógnarhraða eftir að hafa verið eftirbátar annarra vestrænna þjóða frá upphafi iðnbyltingar. Mestur er þó ljóminn í kringum baráttuna um fiskimiðin. Þar voru Íslendingar sjálfir í forsvari og sýndu mátt sinn og megin með því að bera sigurorð af breska sjóveldinu. Hið unga lýðveldi sem varð til í hildarleik seinni heimsstyrjaldar og tók út skjótan þroska næstu hálfa öldina hafði því úr nægu að moða til að skapa sérstæðar goðsagnir sem enn lifa góðu lífi.

Það er sérstaklega forvitnilegt að skoða orðatvennunna „blessað stríðið“ en það kann að koma á óvart að slóð yrðingarinnar rekur sig áratugi fyrir seinna stríð og var þá hugsuð með öðrum hætti en síðar varð. Er það meginefni greinarinnar að grennslast fyrir um uppruna máltækisins og þeim breytingum sem urðu á merkingu þess. Raunar má segja að því hafi verið beitt með margvíslegum hætti í gegnum tíðina. Meginheimildin að frásögninni eru dagblöð sem finna má á Timarit.is og er elsta vísunin rúmlega aldar gömul.

Goðsögnin um „blessað stríðið“ hafði fest sig vel í sessi hálfri öld eftir hernám Breta 10. maí 1940. Til marks um það má hafa eftirfarandi frásögn sem birtist í Dagblaðinu Vísi þar sem fram kemur að eitt helsta sögusafn landsins sá ástæðu til að vísa til hennar í titli sýningar þar sem tímamótanna er minnst:

Vegna þessara tímamóta hefur Árbæjarsafn efnt til sýningarinnar „Og svo kom blessað stríðið“ um mannlíf í Reykjavík á stríðsárunum en þar er greint frá þeim áhrifum sem stríðið hafði í Reykjavík fyrir og eftir stríð. Á sýningunni eru munir og myndir frá þessu tímabili Reykjavíkursögunnar. Þótt landsmenn hafi ekki farið varhluta af hörmungum stríðsins var þetta í margra augum tími framfara og ævintýra. Hernámið markaði upphafið að mestu þjóðlífsbyltingu Íslandssögunnar og á þessum 50 árum, sem liðin eru, hefur Reykjavík breyst úr sveitaþorpi í stórborg.[2]

Því er vissulega haldið til haga að Íslendingar hafi kynnst hörmungum stríðsins en annað í textanum hlýtur að teljast sérstætt fyrir Ísland svo sem að margir hafi litið svo á að stríðsárin hafi verið „tími framfara og ævintýra“. Það er varla hægt að sjá fyrir sér samskonar sögusýn meðal annarra þjóða Evrópu. Það er því hætt við að það komi útlendingum ankannalega fyrir sjónir, að rekast á bók um stríðið undir titlinum Iceland in World War II – A Blessed War[3] en hún kom á markað fyrir fáeinum árum síðan. Ofangreind sögusýn þar sem stríðið er blessað hlýtur hins vegar að teljast rótgróin hérlendis og má því til frekari staðfestingar geta þess að árið 2017 kom út á vegum Menntamálastofnunar bókin Blessað stríðið[4] en hún er þemahefti um stríðsárin fyrir unglingastig grunnskóla. Það er því óhætt að segja að búið sé að „kanonísera“ ofangreint orðasamband.

 

 

Saumnálar á okurverði

En þá er tímabært að grennslast fyrir um hvenær títtnefnt orðatiltæki komst á kreik. Þegar litið er til stríðsáranna ber mig fyrst niður í leiðara Þjóðviljans þann 26. september 1939 en þar segir meðal annars: „Hún er alkunn sagan um verzlunarkonuna, sem var að selja saumnálar og var spurð hversvegna þær væru svona dýrar; hún svaraði: „Það gerir nú þetta blessaða stríð.““[5] Það vekur athygli að hér er talað um „blessað stríðið“ aðeins nokkrum vikum eftir að það braust út.[6] Á þeim tíma gat engan órað fyrir þeirri velmegun sem beið landsmanna með hernámi Breta vorið eftir. En hvað gekk Þjóðviljanum til með þessari sögu? Lykilinn er að finna í yfirskrift leiðarans sem er: „Afleiðingar stríðsins og afleiðingar innlendrar óstjórnar“. Stríðið hafði í för með sér miklar verðhækkanir á erlendum vörum auk þess sem erfiðara var að koma þeim til landsins. Ófriðarþjóðirnar reyndu að einangra andstæðinga sína með því að koma í veg fyrir að þeir gætu átt í erlendum viðskiptum. Þannig urðu hlutlausar þjóðir fyrir barðinu á stríðinu en staðan var sérstaklega slæm fyrir Íslendinga sem byggðu afkomu sína í ríkum mæli á utanríkisverslun. Áhyggjur landsmanna koma berlega fram í helstu dagblöðum fyrstu vikur stríðsins. Til marks um það má hafa eftirfarandi frásögn úr leiðara Morgunblaðsins: „Enginn veit hve lengi við getum siglt um höfin og flutt inn matvæli og aðrar nauðsynjar frá útlöndum. Enginn veit heldur, hvort okkur verði kleift að kaupa erlendu vörurnar, enda þótt siglingaleiðirnar haldist opnar. Alt er þetta í óvissu, en svo mikið vitum við, að erlendar nauðsynjavörur hafa þegar stórhækkað í verði.“[7] Ekki hljómar þessi lýsing gæfulega fyrir íslenska þjóð og vandséð að ástæða hafi verið til að blessa stríðið af þessari ástæðu. En Þjóðviljinn vísaði ekki einungis til afleiðinga stríðsins í fyrrnefndum leiðara. Hann fjallar að mestu um meinta innlenda óstjórn og það er í því sambandi sem gripið er til orðalagsins „blessað stríðið“ og það oftar en einu sinni. Því er haldið fram að stjórnin notfæri sér stríðið sem skálkaskjól fyrir óstjórn í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar sem hefði í raun leitt hana að falli. Eða eins og segir í leiðaranum:

En þá kom „blessað stríðið“. Síðan er þjóðinni talin trú um að allt sé ómögulegt vegna stríðsins, nú verði hún að vera væn og góð, og þola hvað sem að höndum ber, vegna þess að vondir menn úti í heimi eru að berjast. Það er að vísu satt að margháttaðir erfiðleikar hljóta að steðja að okkur vegna stríðsins. En það er einnig staðreynd að mest af þeim erfiðleikum, sem við eigum við að búa eru bein afleiðing af óstjórn […] Sá vöruskortur sem nú er í landinu er ekki afleiðing af stríðinu, heldur er hann afleiðing af gjaldeyrisskorti en gjaldeyrisskorturinn á aftur rætur sínar að rekja til frábærilega lélegrar stjórnar á fjármálum þjóðarinnar. Það er þessi staðreynd, er stjórnin vill dylja í skugga stríðsins. Hún vill geta selt sínar nálar við okurverði, og í skjóli „blessaðs stríðsins“.[8]

Ég mun síðar víkja aftur að konunni sem sögð var afsaka hátt vöruverð með því að vísa í „blessað stríðið“. Orðatiltækið skaut fáeinum sinnum upp kollinum í dagblöðum næstu mánuðina og voru það einkum blöð sósíalista sem drógu það fram í ádeiluskyni. Auk Þjóðviljans má nefna Verkamanninn, blað sósíalista á Akureyri, í því sambandi en þar birtist hörð ádrepa á kaupmenn í leiðara undir árslok 1939. Sagði þar meðal annars:

Framan af þessu ári, og allt fram á haust, var verslunarjöfnuðurinn við útlönd Íslandi óhagstæður um miljónir króna. En svo kom „blessað stríðið“ — útflutningsvörurnar stórhækkuðu í verði — og nú mun verslunarjöfnuðurinn vera orðinn hagstæður um alt að 15 milj. króna. Um hagstæðan verslunarjöfnuð er náttúrlega, út af fyrir sig, gott eitt að segja. En sagan er ekki þar með öll. Hverjir njóta þessa stórfelda hagnaðar? Er það íslenska alþýðan — íslenska þjóðin? Nei, það eru, fyrst og fremst, nokkrir braskarar, sem hrifsað hafa til sín veltufé þjóðarinnar — og ríkisfyrirtæki, sem eru í klónum á andstæðingum alþýðunnar.[9]

Orðasambandið „blessað stríðið“ kom því ekki til af góðu þegar það skaut upp kolli í styrjaldarbyrjun. Orðatiltækið hafði ekkert með velsæld almennings að gera, þvert á móti var það dregið fram í háðungarskyni gagnvart kaupmönnum og valdhöfum sem sagðir voru skara eld að eigin köku á kostnað vinnandi fólks í skjóli aðstæðna sem sköpuðust með styrjöldinni.

Sé „blessað stríðið“ sem orðasamband leitað uppi í blöðum á Timarit.is má sjá að það hefur ekki verið fyrirferðarmikið í þeim prentmiðlum sem þar er að finna og er þó um auðugan garð að gresja. Það kemur þrettán sinnum upp í íslenskum dagblöðum, fjórum sinnum í tímaritum og einu sinni í Íslendingablaðinu Lögbergi í Kanada á stríðsárunum. Greinilegt er að það hefur ekki þótt geðfellt að taka þannig til orða sé mið tekið af ofangreindum birtingum og gildir þá einu hvar fólk stóð í stjórnmálum. Orðatiltækið vísar til hagsældar í stríði og slíkt hlýtur ævinlega að teljast óviðfeldið. Með velmegun hernámsins fékk það þó almennari skírskotun þar sem hagnaðurinn einskorðaðist ekki lengur við hina ráðsettu. Er áhugavert að skoða umfjöllun Morgunblaðsins í þessu sambandi þegar hagsældin var í hámarki árið 1942 en þá höfðu Bandaríkjamenn tekið við af hernámsliði Breta. Sjónarmið blaðsins birtust í Reykjavíkurbréfi sem er eins og kunnugt er ritstjórnarsíða blaðsins.

Eftir því sem styrjaldarástandið helst lengur, peningaflóðið verður meira í landinu, verður sjerstaða okkar Íslendinga meira áberandi, og óviðfeldnari í margra augum. Að vísu hefir íslenska þjóðin, fram að síðustu tímum, farið varhluta af ýmsum veraldlegum gæðum; og má segja að sjaldan hafi hnífur hennar komið í feitt. En skelfing er sú efnalega velgengni ógiftusamleg, sem runnin er frá heimsböli hinna stórfeldu manndrápa. Í heimsstyrjöldinni fyrri barst okkur snöggvast nokkur velgengni í afurðasölu. Var oft tilfærð og haft að orðtæki, sem hámark ómenningar nýríkidæmis, er kona ein átti að hafa sagt af vangá að „blessað stríðið“ hefði fært manni hennar björg.[10]

Ofangreind sjónarmið birtust ítrekað á síðum dagblaðanna á árum seinni heimsstyrjaldar. Það var farið varlega í að fagna þeim umskiptum sem orðið höfðu í athafnalífi þjóðarinnar þar sem velmegun leysti kreppuna af hólmi. Þegar hið nýja ástand kom til umfjöllunar í blöðunum var ævinlega bent á hversu óeðlilegt það væri að hagnast í stríði þar sem fjöldi fólks átti um sárt að binda víða um heim. Allt tal um „blessað stríðið“ þótti í hæsta máta ósmekklegt og því ekki að ófyrirsynju að Morgunblaðið segi það „hámark ómenningar nýríkidæmis“. Er eftirtekarvert að sjá þá orðanotkun í blaði sem studdi frjálst framtak kaupsýslumanna enda var málgagnið síður en svo andsnúið fjárhagslegum hagnaði og ríkidæmi.

Það vekur jafnframt athygli að blaðið hefur konu nokkra fyrir orðatiltækinu og því er jafnframt haldið fram að það tengist tímabundinni velgengni sem varð í afurðasölu í fyrra stríði. Skyldi hér vera komin sú sama kona og Þjóðviljinn gat um í upphafi stríðs og vísað var til hér að ofan? Til að grennslast frekar fyrir um uppruna orðatvennunnar er rétt að hverfa aftur til fyrri heimsstyrjaldar.

 

 

Kerling blessar stríðið

Heimsstyrjöldin fyrri stóð yfir á árunum 1914–1918 og var iðulega nefnd Norðurálfuófriðurinn mikli í samtímablöðum. Við uppslátt á orðasambandinu „blessað stríðið“ í Timarit.is kemur það fyrst fyrir í Dagblaðinu í skopsagnarbúningi sem háðsádeila á kaupmennsku. Blaðið kom út á Akureyri veturinn 1914–1915 og birtist frásögnin síðla árs 1914 undir titlinum „Bréf frá Bessa í Básum“. Þar segir frá Gunnu sem er send í verslunina Bræðraborg á Akureyri til að kaupa fimm pund af sykri. Nokkru síðar kemur hún til baka með „kynstur af pinklum og búðarskrani“ með þá skýringu að sykur sé ekki seldur „nema það sje keypt sitt af hverju með“. Ástæðan var sú að kaupmenn áttu minna af sykri en öðrum vörum og því seldu þeir ekki sykur „sjer á parti“. Bessi sætti sig ekki við þessa verslunarhætti og setti sig í samband við kaupmanninn sem svaraði með eftirfarandi orðum: „Við erum ekkert upp á fólkið komnir, jeg vil bara láta yður vita það. Það er nú nógu lengi búið að ganga, að fólk veður inn í búðirnar og heimtar bara það sem því sýnist sjálfu, en spyr ekkert um það hvað kaupmanninum kemur best að selja. Þetta hefir gengið svona, áður en blessað stríðið byrjaði, en nú segjum við stopp.“[11]

Þess má geta að sykurbirgðir höfðu minnkað ískyggilega þegar hér var komið sögu enda vandræði með utanríkisviðskipti og millilandasiglingar vegna styrjaldarinnar[12] líkt og var síðar raunin í seinni heimsstyrjöldinni. Í sögunni er sneitt að kaupmönnum fyrir valdmennsku þar sem innkaup eru á þeirra forsendum en ekki viðskiptavinarins. Blaðið bætir um betur daginn eftir með annarri skopsögu. Þar segir að ýmsar sögur gangi um „orsakir sykurleysis í bænum“. Í kjölfarið kemur frásögn af unglingspilti sem biður um sykur í verslun en fær þau svör að hann sé ekki til. Sonur kaupmannsins kom þá upp um föður sinn með því að segja í sakleysi sínu að nægur sykur sé til í vörugeymslunni. Að endingu er því bætt við að það „sje engin meining í því, að selja sykur svona ódýrt, eins og gert sje, á þessum ófriðar og stríðs tímum … „Blessað stríðið,“ sagði kellingin, þegar vörurnar hækkuðu í verði í sumar.“[13] Má ljóst vera að sagan ber með sér þann boðskap að kaupmenn voru vísir til að liggja með vöru í trausti þess að hún myndi hækka í verði.

Hér birtist stef sem átti eftir að hljóma tvær heimsstyrjaldir á enda og gott betur. „Blessað stríðið“ kemur fram sem háðsádeila á tækifærissinnaða kaupmennsku þar sem vöruverð er skrúfað óeðlilega hátt upp í skjóli styrjaldarinnar. Og hér virðist kerling fyrst skjóta upp kolli, sú sem höfð var fyrir orðatiltækinu á árum seinni heimsstyrjaldar. Hér má merkja upphaf goðsagnarinnar um kerlinguna sem blessaði stríðið en hún átti eftir að lifa góðu lífi langt fram á kaldastríðsárin.

Skopstælingin um blessað stríðið hélt áfram á síðum Dagblaðsins næstu vikur og mánuði. Blaðið gengur hreint til verks í pistli sem birtist snemma árs 1915 sem ber einfaldlega heitið „Blessað stríðið“ en þar kemur eftirfarandi fram:

Þó að ég sje heimskur eins og allir verkamenn hljóta að vera, þá er jeg samt svo greindur, að jeg sje hversu mikil og blessunarrík áhrif stríðið hefur haft á þenna bæ. […] Jeg er svo sem ekki að álasa kaupmönnum fyrir það þó þeir væru fljótir til að hækka verð á vöru sinni undir þessum afbragðs skilyrðum, sem fyrir hendi voru, jeg tel alveg sjálfsagt að grípa gæsina þegar hún gefst og … þá er það ekki nema sjálfsögð kaupmenska þegar svona stóð á og að selja nú á 45 kr. tonnið af kolum, sem í haust kostuðu helmingi minna, þá hefir það náttúrlega engar aðrar afleiðingar en þær, að fólkið lærir af þessu að spara, en sparsemin er undirstaða auðs og velmegunar. Þess vegna verður því ekki með rökum mótmælt, að blessað stríðið er sú mesta hamingja, sem komið hefir fyrir okkur Akureyringa í seinni tíð. Já, blessað stríðið!“[14]

Hér er tönnlast á „blessuðu stríðinu“ og kaupmenn fá rækilega á baukinn og má raunar segja að vegið sé að sjálfum kapítalismanum.

Blessað stríðið

„Blessað stríðið“, Dagblaðið 22. febrúar 1915

Ekki er annað að sjá en háðsyrðingin eigi uppruna sinn á Akureyri en það er ekki fyrr en síðla sumars árið 1915 sem hún skýtur upp kollinum annars staðar og þá í Reykjavík ef marka má Timarit.is. Blaðið Dagsbrún birti krassandi lýsingu sem rímar vel við frásagnirnar í Dagblaðinu en það var gefið út af nokkrum iðnaðar- og verkamannafélögum undir ritstjórn Ólafs Friðrikssonar sem þekktur var sem frammámaður í Alþýðuflokknum.[15] Frásögnin er sett fram sem samtal en textinn er sagður vera sjónleikur í einum þætti. Þar er teflt saman embættismanni, kaupmanni og stór-stór-kaupmanni og er samtal þeirra hið skoplegasta. Kaupmaður heldur því fram að það dugi „skú ekki að vera að setja sig lengur upp á móti því að Ísland verði kúltúrland, og í öllum kúltúrlöndum græða kaupmenn á stríðum, en almenningur skaðast.“ Embættismaðurinn er fljótur að taka undir þau orð og bætir við: „Hvað væri Ísland annað en veiðistöð, ef ekki værum við sem kallaðir erum heldri mennirnir? […] Þess vegna er betra að gróðinn lendi til fárra manna, en að hann dreifist út á meðal fjöldans.“ Kaupmaður klykkir svo út með eftirfarandi orðum: „En hvað sem öðru líður, þá segi ég sem kaupmaður „blessað stríðið“, alveg eins og kerlingin sagði fyrir norðan; hún átti tvo syni, sem báðir voru kaupmenn.“[16] Orðspor kerlingar hafði greinilega borist suður yfir heiði. Hún var oft og tíðum höfð sem tákngervingur ummæla sem þóttu til marks um gróðafíkn þar sem annarlegar ástæður voru hafðar til réttlætingar.

Það má að sönnu gera ráð fyrir að orðatiltækið sem hér um ræðir hafi ratað á varir margra. Í Vísi birtist grein þann 10. október 1916 þar sem deilt er á gróðafíkn manna og meðal annars vísað í bóndann „fyrir norðan, sem óskaði að „blessað stríðið stæði sem lengst“.“[17] Löngu eftir seinna stríð birtist frásögn gamals manns þar sem hann segir meðal annars frá minningum sínum úr fyrra stríði. Kemur hann inn á „vaxandi dýrtíð“ þessara ára þegar vörur stigu í verði og bætir svo við: „Silfurkrónurnar skoppuðu þá milli manna hraðar en nokkru sinni áður, og haft var eftir bóndagarmi nokkrum: „Ég vildi að blessað stríðið stæði sem lengst.““[18]

Kerlingin var að sönnu fyrirferðamest þegar einhver var hafður fyrir háðsyrðingunni en sagan gat þó deilst á fleiri eins og jafnan er um flökkusagnir. Það voru ekki einungis stjórnvöld og kaupmenn sem mættu tortryggni fyrir að notfæra sér stríðið sér til framdráttar. Bændur gátu einnig eygt gróðavon þar sem afurðir þeirra hækkuðu í verði.[19]

Auðvelt er að hugsa sér að yrðingin hafi einnig hrotið af vörum manna í hugsunarleysi. Orðræða trúarinnar hefur eflaust staðið fólki nær á þessum árum en síðar varð. Það hefur ugglaust verið algengara að tala um blessað veðrið, blessað barnið, blessaða skepnuna o.s.frv. án þess að því fylgdi endilega sterk sannfæring. Svo er að sjá sem fólk hafi einnig talað um „blessað stríðið“ án þess að í því fælist sérstök afstaða. Slíka orðanotkun má sjá annað slagið á síðum blaðanna allt frá Norðurálfuófriðnum mikla. Dæmi um það er frásögn í fréttablaðinu Norðurland haustið 1915 þar sem greint er frá því að Gagnfræðaskólinn á Akureyri hafi verið settur en þar segir meðal annars: „Eftir því mun tala pilta þenna vetur ekki ná 100 og er langt síðan að svo fáir hafi verið á skólanum. Í raun réttri gegnir furðu að aðsóknin skuli vera svona góð þrátt fyrir „blessað stríðið“. Það hefði mátt halda að margur bóndinn vildi heldur fæða syni sína heima heldur enn kaupa þeim fæði hér í kaupstaðnum í vetur.“[20] Af frásögninni að dæma má gera ráð fyrir að orðatiltækið hafi verið fólki tamt og að það hafi ekki endilega falið í sér gildismat. Til marks um það má einnig hafa viðtal sem tekið var við Júlíus Havsteen upp úr miðri síðustu öld en hann leit þar yfir farinn veg. Hafði hann verið lögreglustjóri á Siglufirði á árum fyrri heimsstyrjaldar og hélt hann því fram að „blessað stríðið“ hafi verið í „flimtingum haft“ á þeim árum.[21]

Á millistríðsárunum var einstaka sinnum vísað til „blessað stríðsins“ og þá iðulega í pólitísku skyni þar sem deilt var á auðvaldið fyrir að safna auði á kostnað almennings. Í dagblaðinu Skutli, sem gefið var út af Alþýðuflokknum á Ísafirði, birtist grein árið 1935 um svonefnt „mjólkurstríð“ í Reykavík. Baráttan stóð um hvort kaupsýslumenn hefðu rétt til að standa í mjólkursölu eða hvort kaupfélögin ættu að sjá um hana. Blaðið hafði horn í síðu auðvaldsins og vísar óspart í tungutak hernaðarins í umfjöllun sinni sem hefst með eftirfarandi orðum: „Mjólkurstríðið geysar í fullum algleymingi í Reykjavík.“ Eftir að stríðsaðilar hafa verið kynntir til leiks kemur kunnugleg vísun: „„Blessað stríðið“, mættu þeir segja, eins og kerlingin á Akureyri forðum.“[22] Rétt er að geta þess að títtnefnd yrðing kemur sárasjaldan fyrir í blöðum millistríðsáranna en hún var þó greinilega í minni manna og blessuð kerlingin var ekki gleymd.

 

 

Bæn stríðsgróðamannsins

Áður hefur verið vikið að umfjöllun Morgunblaðsins um vafasaman uppruna hægsældar Íslendinga á árum seinni heimsstyrjaldar þar sem orð kerlingar voru höfð til marks um „hámark ómenningar ríkidæmis“. Blaðið dregur raunar úr ábyrgð hennar með því að halda því fram að hún hafi sagt þau af „vangá“. Það má vitaskuld velta fyrir sér hversu heiðarlegir menn voru í orðum sínum. Alþýðublaðið sá í öllu falli ástæðu til að efast um heiðarleika Morgunblaðsmanna. Blaðið vitnar beint í frásögn Morgunblaðsins og hnýtir því við að blaðið og flokkur þess hafi staðið gegn því að „taka svolítið meira „úr umferð“ af stríðsgróðanum“.[23] Er hér greinilega vísað til þess hvort skattleggja ætti þá sem bæru mest úr býtum. En hvað sem segja má um frómleika fólks virðist ljóst að það þótti ekki við hæfi að mæra stríðsgróðann um of og allra síst á prenti. Hún er því fágæt frásögn mannsins sem kallaði sig Jeremías á síðum dagblaðsins Storms síðla sumars árið 1940, þegar velmegunin fór fyrst að gera vart við sig af alvöru: „Mikið streymir nú inn af peningum og sjálfsagt getur margur sagt með innilegri sannfæringu: Blessað stríðið. Er auðvitað ekki nema gott við því að segja að menn græði.“[24] Rétt er að taka fram að greinilegt er á samhengi textans að hér er hvorki talað í hálfkæringi né háði.

Það vantaði hins vegar ekkert upp á skopið þar sem Spegillinn átti í hlut, því tímariti var fátt heilagt enda gekkst það upp í að spauga með samtímann. Í ársbyrjun 1941 birtist kátbrosleg frásögn af málefnum líðandi stundar þar sem vikið er að öðru stríðsárafyrirbrigði sem nefnt hefur verið „ástandið“ og er þá vitaskuld átt við samdrátt íslenskra kvenna og hermanna. Við grípum niður í skrif Spegilsins þar sem lesandi verður vitni að tveggja manna tali:

— O, éld þeir eigi ekki betur skilið. Þeim hefði verið nær að stunda þær dálítið betur meðan tækifærið var til. Þér munið nú eftir honum Steina, sem þóttist vera trúlofaður henni Sigurpútu yðar. Ekki var hann sérlega hupplegur við hana, áður en blessað stríðið kom.

— Nei, enda var hún ekki lengi að bregða honum upp, þegar Djonn kom til sögunnar. Og nú getur hann nagað handarbökin í næði fyrir henni, sem líka jafn gott er, þessi bölvaður durtur.“[25]

Spegillinn kom hér við kviku þjóðarsálarinnar en undirtitill ritsins var „samviskubit þjóðarinnar“.[26] Frásögnin er vitnisburður um það mikla umrót sem varð í samfélaginu samfara hernáminu. „Ástandsmálið“ var líklega viðkvæmasti þáttur hernámsins en þar ófust saman sterk þjóðerniskennd, sæmdarhugmyndir og afbrýðisemi. Hið félagslega taumhald var mjög sterkt og konur sem áttu vingott við hermenn fengu iðulega óorð á sig og voru jafnvel úthrópaðar. En jafnframt var því haldið fram að íslenskir karlmenn væru oft og tíðum durtar sem kynnu lítið fyrir sér í kurteisi. Hafði kvenfólk stundum á orði að erlendu dátarnir væru upp til hópa háttvísari og því mun álitlegri félagsskapur en íslenskur karlpeningur.[27]

„Blessað stríðið“ tók greinilega á sig ýmsar myndir og má ætla að það hafi verið haft að viðkvæði við ýmis tækifæri þegar hinn sérstæði veruleiki hernámsins var annars vegar. Á prenti var það hins vegar helst að finna meðal vinstrimanna sem notuðu það sem vopn í baráttu sinni. Stundum kom ádeilan fram í bundnu máli og var háðið þá iðulega í fyrirrúmi eins og sjá má í sex erinda ljóði sem birtist í dagblaðinu Mjölni sem gefið var út af Sósíalistafélagi Siglufjarðar. Það nefnist „Bæn stríðsgróðamannsins“ og tel ég rétt að birta það í heild sinni en þar kemur fram sterk þjóðfélagsgagnrýni sem ekki varð misskilin.

 

Faðir auðs, til þín ég huga vendi
í von um, að þú heyrir bænakvak.
Eg vona, að þú haldir þinni hendi
um hjarta mitt og gerir breitt mitt bak.

Bæn stríðsgróðamannsinsEg þakka þér, sem auðsins magn mér gefur
þá náð, að blessað stríðið stendur enn.
Eg þakka þér það afl, sem auður hefur,
það vald mér veitist yfir snauða menn.

Gef þú, faðir, að stríðið standi ennþá
um stundu langa og breiðist yfir lönd,
og hungur þjaki þjáða menn og börn smá —
þú, faðir minn, átt hjarta mitt og hönd.

Blessa þú öll mín blómleg fyrirtæki
svo bætist margar milljónir enn við
auðinn minn. — Á þræla þá ég hræki,
sem þrálátt biðja um fylli í sinn kvið.

Börn mín ég el við yndi og eftirlæti,
öll þau njóta góðs af mínum auð,
ger þau rík og sæl í mínu sæti
selji þau öðrum dýrt og stórskemmt brauð.

Eg veit þú, faðir, heyrir enn mitt mál,
því mildur gef ég kirkju þinni enn
tíu krónur. — Mín trú er ekkert tál
tryggur við auðinn segi ég: Amen.[28]

 

Þegar sósíalistar deildu á gróðahyggju beindist ádeilan að auðsöfnun hinna fáu sem höfðu líf alls fjöldans í hendi sér. En einstaka peningamenn voru þó ekki meginvandinn að þeirra áliti heldur sjálft þjóðskipulagið. Því var oft haldið fram í blöðum sósíalista að atvinnuleysi sé óhjákvæmilegur fylgifiskur kapítalismans. Eftirfarandi frásögn sem birtist í Þjóðviljanum á stríðsárunum er dæmigerð í því sambandi:

Í okkar þjóðfélagsfyrirkomulagi er aðeins eitt sem getur útrýmt atvinnuleysinu, og það er stríð. Sú lýsing á skipulagi flestra þjóða er ófögur, en sönn. „Blessað“ stríðið hefur nú gert það að verkum, að hér á okkar landi hefur atvinnuleysi ekki þekkzt undanfarin stríðsár. Einungis vegna þess arna hefur ýmsum, jafnvel láglaunamönnum, tekizt að afla tekna um fram brýnustu þarfir og sumir sparað saman dálitlar fjárhæðir. Draumurinn um að eignast þak yfir höfuðið, hefur og hvatt menn til að leggja fyrir einhverjar krónur. Þeir menn hafa neitað sér um kaup á ýmsu ónauðsynlegu og jafnvel gagnlegu líka.[29]

Blöð sósíalista voru ötulust við að vísa til „blessað stríðsins“ á hernámsárunum og var Þjóðviljinn þar í fyrirrúmi. Með yrðingunni voru blöðin fyrst og fremst að deila á ríkjandi þjóðskipulag sem sagt var þjóna hinum fáu á kostnað hinna mörgu. Með háðsádeilunni skyldi dreginn fram sjúkleiki kapítalismans sem bjó almenningi svo þrönga kosti að það þurfti stríð til að skapa öllum atvinnu. Því var ekki við öðru að búast en allt færi aftur í fyrra kreppufar að stríði loknu nema þjóðskipulaginu yrði umbylt og teknir upp sósíalískir stjórnarhættir þar sem ríkisvaldið stæði fyrir atvinnusköpun. Eftirfarandi frásögn um hvað væri framundan yrði ekkert að gert er dæmigerð en hún birtist í Þjóðviljanum skömmu eftir stríðslok:

„Þá er nú blessað stríðið búið“, varð einum náunga að orði þegar hinar sameinuðu þjóðir fögnuðu sigri í þeim hildarleik, sem nú er afstaðinn. Ekki er vitað hvað margir taka undir þetta, en í því felst þó skoðun smáborgarans, sem hlotið hefur bætt lífskjör á stríðsárunum, en býst svo við að friðurinn færi honum aftur skortinn, neyðina og atvinnuleysið sem hann bjó við fyrir stríð.[30]

Það kom fram hér að ofan að vegna „blessaðs stríðsins“ hafi „jafnvel láglaunamönnum tekizt að afla tekna umfram brýnustu þarfir og sumir sparað saman dálitlar fjárhæðir.“ Hin mikla atvinna sem stóð til boða gerði fólki almennt betur kleift að sjá sér farborða en þar með er vitaskuld ekki sagt að ríkidæmi almennings hafi verið upp á marga fiska. Staðreyndin er sú að þorri manna þurfti að hafa töluvert fyrir lífinu því vinnudagurinn var langur. Vöruverð hækkaði mjög á stríðsárunum og það kostaði mikla baráttu að fá laun hækkuð. Stríðsgróðanum var því mjög misskipt, sérstaklega í upphafi stríðs.[31]

 

 

Vesalings fólkið

Sú ádeila sem fólst í yrðingunni „blessað stríðið“ tók smám saman á sig aðra og einfaldari mynd en hér hefur verið dregin upp. Varla er ofdirfska að ætla að þegar Árbæjarsafn minntist þess að 50 ár væru liðin frá hernámi með sýningu sem bar heitið „Blessað stríðið“ hafi flestir skilið það sem svo að þar væri vísað með jákvæðum hætti í velmegun þess tíma. Hernámsárin höfðu tekið á sig goðsagnarkenndan ljóma sem birtist hvað best í yrðingunni alræmdu. Sem dæmi um þau sjónarmið má vísa til viðtals sem tekið var við Svein Þórðarson aðalféhirði í Búnaðarbanka Íslands nokkru eftir stríð en hann var á miðjum aldri þegar það stóð yfir. Kemst hann svo að orði: „En svo kom „blessað stríðið“. Allir urðu ríkir og átu yfir sig og við erum ekki enn búnir að ná okkur eftir ofátið. Hin efnalega velgengni hefir því miður leitt okkur á alltof mörgum sviðum út í óhemjulegt bruðl og brutl.“[32]

Það virðist hafa verið fljótlega eftir miðja síðustu öld sem „blessað stríðið“ tók á sig mun almennari merkingu en áður hafði verið. Það hættir að mestu að vísa til fámenns hóps gróðamanna, nú er það almenningur sem á hlut að máli. Yfirleitt er lagður jákvæður skilningur í yrðinguna sem þótti til marks um að Íslendingar hefðu loks komist inn í nútímann. Væri það notað með gagnrýnum hætti var helst að deilt væri á lífsgæðakapphlaupið sem fylgdi í kjölfar hernámsins. Þar gekk ´68-kynslóðin hvað harðast fram með gagnrýni sinni á söfnun veraldlegra gæða. Sú ádeila einskorðaðist ekki við auðvaldið heldur beindist hún ekki hvað síst gegn eftirsókn þeirra sem eldri voru eftir veraldlegum gæðum. Nú var deilt á heila kynslóð fólks sem komst til vits og ára um og upp úr hernámsárunum. Slík viðhorf komu rækilega fram í kjallaragrein í Dagblaðinu árið 1977:

Nú er að komast til valda á Íslandi sú kynslóð sem fyrst af öllu fékk nóg að éta […] Þessi kynslóð ólst upp við lestur á Tarzan og Basil fursta og er nú tekin til við að safna máfastelli í gríð og erg. „Blessað stríðið“ varð til þess að brjála dómgreind þessa fólks en á stríðsárunum urðu tómthúsmenn að þeim fyrirbrigðum sem kallast íslenzkir smáborgarar nú á dögum. […] Markmið þessarar kynslóðar er að ná þeirri hámarkshagsæld í landinu sem felst í því að skorta allt nema fé. Nú þegar flestar menningarþjóðir eru að fá sig fullsaddar af lífsgæðunum og fylgikvillum þeirra erum við enn að hamstra hagvöxtinn með erlendum lánum.[33]

„Blessað stríðið“ hefur lifað með þjóðinni í rúmlega öld og tekið á sig margar myndir eins og hér hefur verið rakið. Yrðingin er gott dæmi um hvernig merking orða er breytingum undirorpin, hún var lengi vel höfð sem háðsyrði en hefur á síðari tímum fengið á sig jákvæðan blæ. Horfin er sú ádeila sem birtist í upphafi þegar hún var notuð sem vopn í baráttu gegn auðsöfnun fárra á kostnað fjöldans. En það skal ítrekað að heldur hlýtur það að teljast vafasamt að flíka orðtæki sem þessu þegar vísað er til stríðsáranna og ætti ekki að þurfa að hafa mörg orð um það. Læt ég að endingu duga að draga fram stutta sögu sem höfð var eftir skáldinu Geirlaugi Magnússyni en hún er á þessa leið: „Eitt sinn þegar ég bjó í Póllandi hitti ég gamla konu og sagði henni að jafnaldrar hennar á Íslandi töluðu um „blessað stríðið“. Konan horfði þá á mig lengi og sagði síðan: „Vesalings fólkið.““[34]

 

 

 

 

 

 

Tilvísanir

 

[1] „Bæn stríðsgróðamannsins“, Mjölnir 5. apríl 1944, bls. 2.

[2] „Árbæjarsafn: Jasshátíð“, Dagblaðið Vísir – DV um helgina, 6. júlí 1990, bls. 20. Þess má geta að Árbæjarsafn setti aftur upp sýningu um hernámsárin árið 2010 þar sem einnig var vísað til „blessað stríðsins“ í titli: https://borgarsogusafn.is/arbaejarsafn/syningar/blessad-stridid, sótt 21. júní 2023.

[3] Gísli Jökull Gíslason, Iceland in World War II – A Blessed War, Sæmundur, Selfoss: 2019. Ný og aukin útgáfa kom út árið 2021.

[4] Bókina má nálgast rafrænt á heimasíðu Menntamálastofnunar: https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/blessad_stridid/#36, sótt 15. febrúar 2023.

[5] „Afleiðingar stríðsins og afleiðingar innlendrar óstjórnar“, Þjóðviljinn, 26. september 1939, bls. 2.

[6] Venja er að miða upphaf seinni heimsstyrjaldar við innrás Þjóðverja í Pólland 1. september 1939.

[7] „Verkefnin framundan“, Morgunblaðið, 20. september 1939, bls. 5.

[8] „Afleiðingar stríðsins og afleiðingar innlendrar óstjórnar“, Þjóðviljinn, 26. september 1939, bls. 2.

[9] „Stríðsgróði – dýrtíð“, Verkamaðurinn, 23. desember 1939, bls. 3.

[10] „Reykjavíkurbrjef“, Morgunblaðið, 19. júlí 1942, bls. 6.

[11] Fr. B. Arngrímsson, „Bréf til Bessa í Básum.“, Dagblaðið 23. nóvember 1914, bls. 36.

[12] Gott yfirlit um áhrif fyrri heimsstyrjaldar má meðal annars finna í bók Gunnar Þórs Bjarnasonar, Þegar siðmenningin fór fjandans til. Íslendingar og stríðið mikla 1914–1918. Mál og menning: Reykjavík, 2015.

[13] „Smásaga“, Dagblaðið 24. nóvember 1914, bls. 38.

[14] „Blessað stríðið“, Dagblaðið 22. febrúar 1915, bls. 196.

[15] Sjá Timarit.is: https://timarit.is/page/2261511#page/n0/mode/2up, sótt 15. febrúar 2023.

[16] „Gamli seigur eða alt á sömu bókina“, Dagsbrún 22. ágúst 1915, bls. 27–28.

[17] Th. F., „Þýsk menning og ensk frá íslensku sjónarmiði“, Vísir 10. október 1916, bls. 3.

[18] Ásgeir Bjarnþórsson, „Hún Reykjavík var tindilfætt fyrir hálfri öld“, Tíminn 23. apríl 1964, bls. 10.

[19] Gunnar Þór Bjarnason, Þegar siðmenningin fór fjandans til, bls. 195. Þar kemur jafnframt fram að þegar á stríðið leið hækkuðu innfluttar vörur umfram þær útfluttu. Það var því einkum í upphafi stríðs sem framleiðendur, svo sem bændur og útvegsmenn, græddu. Þeir sem báru kostnaðinn af stríðinu voru fyrst og fremst launamenn.

[20] „Akureyri“, Norðurland 11. október 1915, bls. 116.

[21] Júlíus Havsteen, „Norðurferðin með björgunar- og varðskipinu Albert“, Sjómannablaðið Víkingur 1. desember 1957, bls. 228.

[22] „Mjólkurverkfallið í höfuðborginni“, Skutull 8. mars 1935, bls. 2.

[23] „Hvað segja hin blöðin?“, Alþýðublaðið 21. júlí 1942, bls. 4.

[24] „Jeremíasarbréf“, Stormur 26. ágúst 1940, bls. 1.

[25] „Kol og verkfall“, Spegillinn 10. janúar 1941, bls. 6.

[26] Sjá titilblað Spegilsins 10. janúar 1941.

[27] Herdís Helgadóttir, Úr fjötrum. Íslenskar konur og erlendur her. Reykjavík 2001, t.d. bls. 182–183.

[28] Gr. Au, „Bæn stríðsgróðamannsins“, Mjölnir 5. apríl 1944, bls. 2.

[29] Á., „Húsnæðishugleiðingar“, Þjóðviljinn 3. desember 1943, bls. 2.

[30] „Útrýming atvinnuleysisins“, Þjóðviljinn 30. júní 1945, bls. 4.

[31] Helgi Skúli Kjartansson, Ísland á 20. öld, Reykjavík 2003, bls. 235–239.

[32] Sib, „„Mátti ekki vera að því að syrgja““, Morgunblaðið 22. ágúst 1958, bls. 14.

[33] Leó M. Jónsson, „Eðlisávísanir og aðrir gúmítékkar“, Dagblaðið 23. júní 1977, bls. 10.

[34] „Endir og upphaf“, Morgunblaðið B – Bækur 30. nóvember 1999, bls. 7.