Matthías Johannessen. Vegur minn til þín.

Ástráður Eysteinsson annaðist útgáfuna og ritaði eftirmála. Háskólaútgáfan, 2009.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2010.

Matthías Johannessen

Matthías Johannessen

Nýjasta ljóðabók Matthíasar Johannessen, Vegur minn til þín, er falleg bók, í óvenjulegu en smekklegu broti og með listrænum ljósmyndum eftir Önnu Jóa myndlistarkonu á kaflaskilum og á kápu. Þetta er líka mikil bók að vöxtum; við erum ekki vön ljóðabók (sem ekki er safn úr fleiri bókum) upp á 250 síður, og hugsanlega hefði hún orðið sterkari styttri, en ekki hefði verið auðvelt að skera hana niður. Á eftir ljóðunum er birt ritgerð eftir Ástráð Eysteinsson, ritstjóra bókarinnar, ítarleg úttekt á efni bókarinnar á 15 blaðsíðum.

Það krefst nýrra vinnubragða að skrifa um bók sem hefur að segja má innbyggðan ritdóm, og það fór að sækja á mig við lestur ljóðanna að einbeita mér að erindi þeirra. Eins og kunnugt er var Matthías geysilega valdamikill maður í íslensku samfélagi um nærri hálfrar aldar skeið sem ritstjóri áhrifamikils fjölmiðils. Hann hætti í því starfi þegar hann varð sjötugur fyrir áratug en hefur síðan iðulega látið í sér heyra, til dæmis á síðum þessa tímarits en þó fyrst og fremst á netinu og í sínum gamla miðli, Morgunblaðinu. Við höfum fengið skýr skilaboð frá honum um ógeð hans á þróun íslensks samfélags, græðgissvæðingunni, frekjunni, tillitsleysinu í þeim nýríku. En hvaða skilaboð vill hann að ný ljóð sín beri til gamalla og nýrra lesenda?

Komið er haust

Fyrst verða fyrir lesanda skilaboð um að skáldið sé orðið gamalt. Mörg ljóð fjalla um ellina að einhverju eða öllu leyti. Eitt hið sterkasta stendur fyrst í Bók I og er nafnlaust eins og mörg áhrifamestu ljóð bókarinnar:

Komið er haust í hjarta mitt
senn hættir það að slá,

bregður fyrir bliki
af brýndum ljá,

einhver heldur á
vopninu sem vofir yfir mér.

Veit samt ekki hver.

Þó að ellin sé algengt yrkisefni fylgir þessi angistartónn því ekki alltaf. Matthías hefur um of margt að hugsa; hugur hans er hreinlega alltof lifandi og virkur til að festast í möskvum efans þó að þeir slæði stundum eftir honum. Strax næsta ljóð, „Eftir uppskurð“, er mun bjartsýnna. Það þarf ekki að kvíða dauðanum því ferðinni er heitið „á fund þeirra vængja / sem flögra við laufsólarþakið“ (10). Síðar í bókinni nýtur hann fylgdar hans sem hann trúir fyrir framtíð sinni („Fylg þú mér“, 31) og „felur anda sinn þeim sem sólina / skóp, jörð og upphimin“ („Nýtt landnám“, 66). En þó að Matthías gefi oftast í skyn að hann mæti dauðanum (og guði sínum) af stillingu er hann ekki sammála Kristjáni Fjallaskáldi sem „ákallar / aldurtilann sem lækni sárin“ (65):

Nei, að njóta
þeirra naumu sárlöngu stunda
og fáeinu geisla sem gefast,

það græðir sárasta uppgjör sem annars
væri aðeins tilbúið líf
og trú til að efast.

Matthías gerir sitt ýtrasta til að auka lesendum sínum skilning á þeirri tilfinningu að verða gamall. „Höfuð mitt er kastali, byggður / úr tilhoggnum steinum / gamalla minninga“ segir í ljóðinu „Minningar“ (17). Ennþá betur orðar hann sömu hugsun í upphafi ljóðsins „Til Hadesar heimkynnis““ (heitið er innan tvöfaldra gæsalappa hér af því það er tilvitnun í Odysseifskviðu og innan gæsalappa í bókinni):

Þegar við eldumst breytist hugurinn
í gamalt safn með mörgum herbergjum,

við göngum úr einu í annað
og skoðum það sem við skildum eftir
þegar allt var með öðrum brag
og einskis að sakna …
(142)

Um herbergi þessa gamla safns gengur Matthías í mörgum ljóðanna, minnist fólks sem er horfið, föður síns, vina og kunningja, átrúnaðargoða, án þess þó að þreyta lesandann á upptalningum. Af þessum ljóðum – sem frekar eru íhuganir en dæmigerð erfiljóð – staldraði ég lengst við „Síðbúið samtal við Freud“ þar sem Matthías álasar Freud fyrir að vera of einfaldur, of vélrænn í hugsun. Honum finnst vanta hið dularfulla í kenningar hans, „hið ókunna, óvissuna / annan / heim, myndtákn guðanna, / vantar / reynslu nafnlausra kynslóða, / óttann …“ Og hann lýkur ljóðinu á þessari óvæntu niðurstöðu (53):

nei, Freud
það vantar Lómagnúp í umhverfi þitt.

Endurminning um arfasátu

Og hér kemur að öðru meginerindi þessara ljóða, áminningunni um arfleifðina. Matthías hefur verið óþreytandi í starfi sínu og ljóðagerð að hamra á því hvað fortíðin skipti miklu máli í nútíð okkar. Kannski er eini tilgangurinn með tilvist okkar Íslendinga að muna Njálu, ef ég hef skilið ljóðið „Brennumenn“ rétt (93):

Mig dreymdi um að taka dauðann í nefið
og drepa tímann um leið,

það var undarleg reynsla og engu líkara
en ég ætti heiminn um skeið.

En dauðinn lét sig það litlu varða
hvernig lífið flöktir við kveik,

því við erum aðeins endurminning
um arfasátu og reyk.

Við erum ekki nema hálfmenni ef við glötum arfi liðinna kynslóða sem fólginn er í bókmenntum og listum. Um þetta vitna kannski öll ljóð þessarar nýju bókar á einn eða annan hátt, en ljóðið sem situr fastast í minninu að lestri loknum er „Þél höggr stórt fyr stáli“ (105). Línan er úr dróttkvæðri vísu eftir Egil Skallagrímsson (sem skýtur upp kollinum oftar í bókinni) en hana orti hann þegar hann hafði reist Eiríki konungi og Gunnhildi drottningu níðstöng „svo að landvættir færu villar vega, meðan þau stjórnuðu Noregi“. Og Matthías óskar þess að hann kynni skil á rúnum eins og Egill því hann „hefði viljað beita þeim gegn auðvaldinu og landvættum þess, / sýktu samfélagi …“ En ekki aðeins erum við án rúnagaldurs, við eigum ekki einu sinni í önnur hús að venda „þegar éla meitill og hafþjölin mikla sverfa óþyrmilega um stefni þjóðarskútunnar, svo að vitnað sé í klisjukennda myndlíkingu stjórnmálamanna“.

Þessi strengur minnir á „Hrunadansinn“, harðsnúinn ljóðabálk um feigðarflan peningamanna og ráðamanna sem Matthías birti í Morgunblaðinu árið 2006 en er nú kominn út á bók ásamt lestri Gunnars Eyjólfssonar á diski.

Sögur Gamla testamentisins eru honum nærri þegar hann fylgist með hörmungum í Líbanon („Högl af himni“, 106), en þegar jörð skelfur í Pakistan er það Völuspá sem hann grípur til (150). Hann minnir á Samuel Beckett, Ezra Pound, T.S. Eliot, Solzhenítsyn, Kristján Fjallaskáld, vin sinn Stein Steinarr, Zweig og Balzac, Jónas, Grím og Feuerbach og Magnús á Hrauni og ótalmarga aðra, þekkta og lítt þekkta. En þetta eru áreynslulausar vísanir, Matthías gerir ekki kröfu til lesandans um að hann þekki þetta allt, bara að hann taki á móti opnum huga; fari kannski á netið og gái hver í ósköpunum þetta sé. Hann er heldur ekki að segja okkur að mæta þessum gengnu snillingum með andakt. Við eigum að virða þá, vissulega, en við eigum líka að vera gagnrýnin, velta verkum þeirra fyrir okkur, tala við þá gegnum tíma og rúm.

Sérðu tunglið?

Þriðja erindi þessara ljóða er að brýna fyrir lesendum að njóta náttúrunnar, horfa á hana á hverjum degi, fylgjast með því sem gerist frá degi til dags, jafnvel í borginni má heyra í fuglum, horfa á trén laufgast á vorin og missa laufið á haustin, fylgjast með litbrigðum Esjunnar. Dýrindis dæmi um þennan þátt er „Ágústveður í Laugardal“ (124). Meira að segja skordýrin fá sínar línur, ekki síst eftirlætisskordýr Matthíasar: „… og kónguló gengur við vef sinn að verki / og visnaðri bráð“ („Morgunljóð í gróandanum“, 127). Í ljóðabálknum fremst í Bók III, „Við eyjar blár“, býr hann til flókna myndhverfingu af ástinni með því að láta kónguló spinna „vírsterkan vef“ utan um tvo vængjaða einstaklinga: „tvær hugmyndir guðs / að einni hugmynd / um ást“ (162).

Fjórða meginerindi þessarar bókar varðar einmitt ástina.

Þegar þessi bók var í vinnslu stóð Matthías enn á tímamótum. Í apríl 2009 lést eiginkona hans og lífsförunautur eftir stutta sjúkralegu. Það er kannski óviðeigandi að segja frá því en þegar ég hugsaði um Matthías og Hönnu kom mér í hug atriði úr bresku bíómyndinni Notting Hill. Aðalpersónur myndar innar, bóksalinn William Thacker og kvikmyndastjarnan Anna Scott, hafa klifrað inn í lokaðan einkagarð seint um kvöld og koma þar að bekk merktum hjónum sem gjarnan sátu þar saman meðan bæði lifðu („For June who loved this garden. From Joseph who always sat beside her.“). Og ofurstjarnan (leikin af Juliu Roberts) les áletrunina og segir svo – og má merkja í senn undrun, öfund og þrá í rómnum: „Some people do spend their whole lives together.“ (Sem mætti útleggja svo að til sé í dæminu að fólk sé saman alla ævi.) Þetta er auðvitað orðið fátítt í samfélagi okkar. Fólk giftist og skilur og engum finnst það merkilegt – sem betur fer. En það er líka mikil upplifun og fögur að lesa ástarljóð áttræðs manns til elskunnar sinnar eftir nær sextíu ára samband:

Án súrefnis ekkert líf
á jörðinni

án þín engin jörð
í súrefnislausu
myrkri.

Svo segir í fyrrnefndum bálki, „Við eyjar blár“, og mörg dæmi önnur má nefna, ekki síst í síðasta hlutanum, Bók III, enda heitir hann „Andartak þitt“. Það snertir mann djúpt að lesa ljóðið „Undir kvöldstjörnu“ (190) af því þar má skilja að Matthías sé handviss um að hann fari á undan henni; það er jú algengara en hitt að konur lifi menn sína. Svo flissar lesandi að ljóðinu „Bjartsýni“ skömmu seinna, það gefur svo skondna mynd af þeim saman. Sama með „Heimsfrægð“ og fleiri ljóð, í hversdagslegum tóni sínum minna þau á ljóðin í Mörg eru dags augu (frá 1972), jafnfyndin en ljúfsárari. Skemmtileg atvik gefa snögga innsýn í samband þeirra, eins og þegar hann hringir til hennar og hún spyr hvort hann sjái tunglið. Hann sér það en ekki á sama stað og hún; hann sér það yfir Öskjuhlíðinni, hún segir að það sé yfir Hallgrímskirkju. En þó að þau sjái ekki tunglið af sama sjónarhóli slær hjarta hans í brjósti hennar. Skemmtileg er líka svipmyndin af henni sem leitar að pilsum í litlum númerum í búð í Edinborg og meðan hann bíður les hann bók um hvernig eigi að yrkja ljóð.

Þetta eru einlæg og hlý ljóð sem bera þau boð frá öldnu skáldi að það sé ómaksins vert að halda í ástina, hugsa um hana, rækta hana. Ef við segjum við okkur sjálf að það sem við höfum sé betra en nokkuð annað þá er viðbúið að það launi okkur tryggðina og haldi áfram að vera best.

Mig langar að hverfa
langar að gleymast
langar að deyja

langar þó mest
að lifa

með fiskum í ánum
fuglum á trjánum

en þó mest af öllu með þér.
(„Veðramót“, 204)

Bókinni lýkur á bókarauka, ljóðinu „Tvö ein“ sem ort var eftir lát Hönnu. Það nístir vissulega brjóstið, en þó getur maður ekki annað en glaðst við þá hamingju sem það er að hafa átt svo langa samleið með ástvini. Þau eru öfundsverð, þau tvö.

Vegi mínum til þín var óvenjuvel fagnað af ljóðabók að vera þegar hún kom út. Hrifningin stafaði ekki síst af því hvað skáldið talar tæpitungulaust við lesendur sína í þessum ljóðum um það sem máli skiptir: Um tímann og hvernig hann líður. Um að við megum ekki gleyma því sem liðið er, hugsunum og afrekum þeirra sem fóru á undan okkur. Um að við eigum að vera vakandi fyrir umhverfi okkar og njóta fegurðar í stóru og smáu; ekki síst smáu. Og um það sem við megum ekki vanrækja: ástina sem er best af öllu.

 

Silja Aðalsteinsdóttir