Þorvaldur Kristinsson. Helgi: Minningar Helga Tómassonar ballettdansara.

Bjartur, 2017. 282 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2018

Helgi: Minningar Helga Tómassonar ballettdansaraVið Helgi Tómasson dansari, danshöfundur og dansleikhússtjóri, erum nánast jafnaldra og ég hef vitað af honum frá því að ég var unglingur. Ung kona og eldri fylgdist ég af áhuga með fréttum af honum og sigrum hans á danssviðum heimsins án þess þó að ganga svo langt að fara út í heim til að sjá hann á sviði. Þegar hann var væntanlegur með ballettflokkinn sinn hingað á Listahátíð árið 2000 hafði dagblaðið San Francisco Chronicle samband við mig sem menningarblaðamann á DV og bað mig að taka viðtal við hann. Það fannst mér mikill heiður. Blaðið setti aðeins eitt skilyrði: Myndina með viðtalinu yrði að taka fyrir utan Höfða. Það hús þekktu Bandaríkjamenn eftir fund Reagans og Gorbatsjovs og það vildi blaðið hafa með á myndinni! Við Helgi tókum fullt tillit til þessarar óskar, og viðtöl mín við hann birtust bæði í San Francisco Chronicle og DV en Höfði sést mun betur á myndinni í ameríska blaðinu en því íslenska.

Nú hefur Þorvaldur Kristinsson skrifað myndarlega bók um Helga Tómasson, fallega myndskreytta, og ég þekki aftur viðmælanda minn í hæverskri og stilltri fyrstu persónu frásögninni. Því Helgi miklast ekki af velgengni sinni þó að hann líti hana raunsæjum augum. Hann veit hvað hann getur og hvað hann gat, hann kann að lýsa því svo nákvæmlega að lesandi, jafnvel sá sem er ófróður um danslistina, skilji um hvað hann er að tala, þess vegna þarf hann ekki að hreykja sér eða grípa til stórra lýsingarorða. Frásögnin rennur ljúflega áfram, lengst af í réttri tímaröð. Þó tekur Helgi einstaka sinnum atriði út úr tímaröð og gefur þeim sérstakt rúm; þetta eru þættir sem á einhvern hátt eru sérstakir í lífi hans og fara illa með tímalínunni eins og meiðslin sem hann varð fyrir á sviði árið 1976.

Venjulegur Íslendingur sem hefur fylgst með Helga Tómassyni úr fjarlægð undanfarin sextíu ár getur vel litið á hann sem ævintýraprins – óskabarn gæfunnar. Saga hans ber ekki á móti því en þó reynist hún mun dramatískari á köflum en mann hefði grunað. Hann fæddist 8. október 1942, í Reykjavík en ekki í Vestmannaeyjum þar sem þau hjónin Dagmar Helgadóttir og Tómas Snorrason bakari bjuggu. Og Dagmar fór ekki heim með soninn fyrr en næsta vor. Fyrstu minningarnar sem Helgi segir frá eru einhverjar glannalegustu andstæður sem ég man eftir að hafa lesið í bók um landa minn. Annars vegar er minningin dásamlega um það þegar hann var sóttur í hléi á sýningu danskra listdansara í Eyjum af því að móðursystir hans taldi að Helgi litli hefði gaman af að sjá ballett, atburður sem átti eftir að hafa varanleg áhrif á drenginn. Þá var Helgi á fimmta ári.

Sama ár, kannski nokkrum vikum seinna, kemur Tómas drukkinn að rúmi drengsins þar sem hann lá háttaður, kastar kodda yfir andlit hans og þrýstir að. Móðirin slæst við mann sinn, tekst að ýta honum frá rúminu, hrifsar drenginn upp úr rúminu og segir honum að fara strax yfir í næsta hús: „Og ég hleyp út í myrkrið þennan stutta spöl yfir túnið, berfættur og á náttfötunum.“ (11) Svo undursamlega vel er Helgi gerður að þessi seinni atburður virðist ekki hafa fylgt honum nærri því eins fast eftir og sá fyrri. Hann nefnir líka stríðnina sem hann var óspart beittur sem „ballettstrákur“ á skólaárunum í Reykjavík en dvelur ekki við hana. Hann hefur engan tíma fyrir smámenni.

Helgi komst seinna að því að hann væri rangfeðraður og það hefði verið svona hastarlegt afbrýðisemikast sem olli ofbeldisverkinu. Dagmar skildi nokkru seinna við Tómas og þau mæðgin fluttust til Reykjavíkur þar sem Helgi ólst upp umvafinn ástríkri móðurfjölskyldu sem allt vildi fyrir hann gera. Hann var líka sannkallaður prins eins og sjá má á myndum, dökkeygur og dökkhærður eins og móðir hans og óvenju fríður strax sem barn. Maður skynjar að fríðleiki hefur ásamt kurteisu og tilgerðarlausu fasi hans ævinlega greitt honum götu, allt frá því þegar Erik Bidsted, skólastjóri Listdansskóla Þjóðleikhússins, og Lisa Kæregaard ballettdansari, kona hans, tóku hann upp á arma sína og höfðu hann hjá sér tvö sumur í Kaupmannahöfn.

Þegar hann var fimmtán ára bauð Erik Bidsted honum fyrsta starfið við Pantomimeleikhúsið vinsæla í Tívolí sem Erik sá um. Þar dansaði Helgi í fjögur sumur og það er merkilegt að sjá hvernig sú reynsla kom honum að gagni mörgum árum og jafnvel áratugum seinna við að semja söguballetta – en líka hvernig hann tengir dansinn á hallandi sviðinu í Tívolí við bakmeiðsli á fullorðinsárum. Æðsta þrá Helga á þessum árum var að komast að í ballettskóla Konunglega danska ballettflokksins en þangað komst hann ekki vegna þess að hann var ekki Dani. Þjóðernishrokinn var allsráðandi í Evrópu á þessum árum. En í Bandaríkjunum var annar uppi, enda sannkölluð þjóðasúpa þar í landi.

Það er með ólíkindum hvernig tilviljanirnar breyta lífi Helga hvað eftir annað – ef það voru þá tilviljanir. Frumsýningu á söngleiknum My Fair Lady, þar sem Helgi átti að dansa, er frestað í Kaupmannahöfn haustið 1959 og Dagmar býður syni sínum í heimsókn til Íslands í þessu óvænta fríi. Þangað kemur á sama tíma Jerome Robbins með ballettflokkinn Ballets: U.S.A. og fyrir tilstilli Lisu Kæregaard hittust þeir Helgi og Robbins fékk að sjá hann dansa. Árangurinn af þeim fundi var námsstyrkur til Bandaríkjanna. Þangað hélt Helgi haustið 1960, nýorðinn átján ára, og þar með voru örlög hans ráðin. Síðan er sterkur þráður milli þeirra Jerome Robbins alla tíð og Helgi þakkar ekki síst honum, velvilja hans og umhyggjusemi, frama sinn í Bandaríkjunum, að stjórnarstarfinu í San Francisco meðtöldu.

Helgi nemur við School of American Ballet veturinn 1960–1961, lítt mæltur á ensku, einmana og skítblankur í New York. Reyndar rennur manni til rifja hvernig farið var (er?) með dansara í launamálum. Algengt var að þeir fengju bara laun hluta úr ári, þann hluta sem sýningar stóðu yfir, en engin laun yfir æfingatímann. Það hefur þurft metnað og úthald til að þola slíkt árum saman.

Þegar hann ræður sig í dansflokk Roberts Joffrey í desember 1961 þarf hann að fá lán hjá ballettmeistaranum til að geta tórt æfingatímann! „Löngu seinna, þegar ég stóð sjálfur í stöðu stjórnanda, skildi ég hann betur. Það er stundum óbærilega erfitt að starfrækja lítinn ballettflokk og ætla að ná endum saman. En þá stundina sveið mér óbilgirni hans, þetta voru hörð kjör.“ (63) Hvað eftir annað kemur fram að Helgi velur vel bardagana sína. Hann sættir sig við það sem óhjákvæmilegt er að þola en sýnir stolt – eða þrjósku – þegar honum finnst hann beittur rangindum.

Helgi dansaði í The Robert Joffrey Ballet í nokkur ár, fór með honum um Bandaríkin þver og endilöng og í sínar fyrstu heimsreisur sem hann segir afar skemmtilega frá. Flokkurinn var í Kiev í Úkraínu eftir vel heppnaða sýningarferð um Sovétríkin þegar John F. Kennedy var skotinn, forsetinn sem þau höfðu setið veislu hjá og dansað fyrir aðeins fáeinum vikum áður. Það er gott dæmi um hvernig veraldarsagan kemur við sögu Helga Tómassonar. Flokkurinn skipti um nafn 1964, hét eftir það The Harkness Ballet eftir aðalstyrktaraðila hans. Með í flokknum var Marlene Rizzo, gullfalleg bandarísk stúlka af ítölskum ættum, sem Helgi féll fyrir í fyrsta skipti sem hann leit hana augum og í desember þetta ár giftu þau sig. Ein af hliðarsögunum sem rjúfa tímaásinn segir stuttlega frá þeirra farsæla hjónabandi og hvernig þau komust að samkomulagi um skiptingu skylduverka milli heimilis og atvinnu.

Ein skemmtilegasta frásögnin í bókinni er af þátttöku Helga í Alþjóðlegu ballettkeppninni í Moskvu árið 1969. Sú kemur heldur betur við þjóðarstoltið í manni. Helgi keppti fyrir Bandaríkin en lenti í vandræðum vegna þess að vegabréfið hans var íslenskt. Ólíkt okkar tímum var Ísland eiginlega ekki til í heiminum á þessum árum og ekki höfðu umsjónarmenn keppninnar mikla trú á þessum pilti frá engulandi: „Þá var eins og við manninn mælt, upp í mér blossaði þrjóskan, ég skyldi sýna þessum helvítis karli að ég gæti dansað!“ Svo fór að Helgi vann silfrið. Gullið hlaut ungur maður sem líka átti framtíðina fyrir sér, Míkhaíl Baryshníkov, sex árum yngri en Helgi.

Við þennan sigur komst los á Helga og hann sagði samningi sínum lausum við Harknessballettinn án þess að hafa nokkuð öruggt í hendi. Kannski hefur hann alltaf treyst gæfu sinni – enda hefur hún reynst honum trygg. Hann fær umsvifalaust tvö tilboð og annað þeirra frá sjálfum George Balanchine hjá New York City Ballet. Í því húsi starfaði hann í fimmtán ár frá sumrinu 1970, öll þau ár sem hann átti eftir sem dansari. Hann hætti meðan hann var enn virtur og dáður, hann þekkti sín takmörk, hafði horft á aðra dansa of lengi og vissi hvenær var komið nóg. Hann gat vel hugsað sér að kenna en til þess kom ekki. Nú fékk hann tilboð um starf listræns stjórnanda Konunglega danska ballettsins en það freistaði hans ekki. Að kvöldi 27. janúar 1985, þegar hann dansaði sinn síðasta dans hjá New York City Ballet, voru tveir menn úr stjórn San Francisco Ballet Company í salnum og gerðu honum tilboð sem hann hafnaði ekki.

Árin í San Francisco voru ekki eintómur dans á rósum því þar mætti hann megnari andúð og afbrýðisemi en nokkurn tíma áður, svo megnri að heilsa hans var í hættu um skeið. Það er sannarlega lærdómsríkur lestur og áhrifaríkt að fylgjast með því hvernig hann vinnur sig upp úr þeim fúla pytti. Þar tók hann við ballettflokki í meðallagi en kom honum á undraskömmum tíma í fremstu röð. Aðferð sinni lýsir hann af þeirri nákvæmni sem einkennir allan textann og ég giska á að við eigum skrásetjara, Þorvaldi Kristinssyni, að þakka. Það er galdur að spyrja spurninga og halda áfram að spyrja þangað til fullnægjandi svör hafa fengist, því sá sem hefur lifað viðburðina hefur alltaf tilhneigingu til að skauta hraðar yfir en kröfuharður lesandi vill.

Það eina sem mér þykir vanta í þennan lokahluta eru fleiri myndir úr ballettsýningum Helga, til dæmis af rómuðum búningum Jens Jacobs Waarsoe við Svanavatnið og Þyrnirós. Einnig hefði verið gaman og gagnlegt að fá fleiri dæmi úr gagnrýni, bæði um Helga sem dansara og danshöfund. Eina greinin af því tagi er eftir Önnu Kisselgoff úr New York Times frá 1979, efnismikil og skýr grein um list Helga (bls. 140) en hún er eins konar yfirlitsgrein, ekki gagnrýni um splunkunýtt afrek, skrifuð í hita augnabliksins.

En þetta er tittlingaskítur. Mestu skiptir að hér birtist okkur heil manneskja, stór manneskja og sönn, vissulega einkum með kostum sínum en þó breiðir Helgi ekki yfir „galla“ sína – hina rammíslensku þrjósku, viðkvæmni og hlédrægni. Fyrir dansiðkendur og -unnendur er þessi bók fjársjóður og fyrir okkur hin er hún uppörvandi saga um óvænt ris úr engu til stjarnanna.

Silja Aðalsteinsdóttir