Hermann Stefánsson. Högg á vatni.

Nýhil, 2009.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2010.

 

Síðustu orð bókar Hermanns Stefánssonar, Högg á vatni, hljóða svo:

Þú sem lest
Hér með
erum við skilin skiptum

Högg á vatniSem er auðvitað alrangt, því þó bókinni sé lokið halda ljóðin áfram að sveima um huga lesandans, uppfullan af vondum fréttum, bensíngufum, smá sólskini og jafnvel draumum. Þetta veit Hermann mætavel enda kunnur bókmenntafræðingur auk þess sem hann hefur á síðari árum getið sér gott orð sem smásagna- og skáldsagnahöfundur, og nú síðast sem ljóðskáld. Högg á vatni er önnur ljóðabók hans en sú fyrri, Borg í þoku, kom út árið 2006. Titlar þessara bóka gefa til kynna hversu ólíkar þær eru, Borg í þoku ber skýran heildarsvip og er frekar ,ljúf‘ bók, ef svo má segja, meðan Högg á vatni er straumharðari og útleitnari. Þetta sést meðal annars í ljóðinu „Fyrsti dagur“, en þar lýsir ljóðmælandi „yfir almennri sakauppgjöf“ og frelsar alla „úr sínum rammgerðu eigin fjötrum“. Síðan „umskipar“ hann „landakortum“, sleppir „skuggunum undan fólkinu“ og kveikir „þrotlausa frelsisþrá / í brjóstunum“. Og þetta er aðeins byrjunin: „veldi mitt og orðanna aðeins á fyrsta degi“. Ljóðmælandi hefur hreinlega tekið sér guðlegt vald, eða gefið ljóðum sínum guðlegt vald, til að umskipa heiminum öllum, jafnt hinu ytra byrði sem innra lífi. Allt fer á skrið, enda felur umskipun landakortanna í sér að þau „séu ekki eins afdráttarlaus / í trú sinni á línur“.

Vissulega er ekki sami slátturinn á ljóðmælanda í öllum ljóðum bókarinnar. Í „Langsetur í herbergi“ hefur ljóðmælandi setið mánuðum saman einn í herbergi sem myrkvast smám saman, en þó gægist lítill geisli inn sem ljóðmælanda gæti reynst „um megn / að slökkva / þrátt fyrir myrkrið í mér“. Þessi hógværa mynd af myrkri og einsemd býr yfir bæði kyrrð og von, en eitt einkenni ljóðanna er einmitt hversu vítt tilfinningasvið þau spanna, jafnvel eitt og sama ljóðið. Sjálfsháð tekst á við flótta í ljóðinu um óskirnar þrjár, en þar hefur ljóðmælandi galdrað skógarguð upp úr flösku. Guðinn gerir stólpagrín að óskum um auðmýkt, einlægt hjarta og grimmd sem veldur því að hann er lokaður aftur ofan í flöskunni. Auðmýktin er hræsni, einlæga hjartað er ómögulegt því það er kalið af skáldskap og ósk um grimmd er svarað með orðunum: „æ, smáskitna mannssál, manngrey / þú veist ekki hvers þú óskar þér / né hvers þú ert megnugur og hvers ekki“. Samt á ljóðmælandi eina ósk eftir í lokin, sem lesandinn veit að er ómögulegt, því ljóðið heitir „Þrjár óskir“ og allir vita að yfirnáttúrulegar verur bjóða aðeins upp á þann fjölda óska.

Og lesandinn er mikilvægur hluti ljóða Hermanns, því eitt einkenni ljóðanna er að þau eru mörg hver skrifuð í annarri persónu, sem ávarp. Gunnþórunn Guðmundsdóttir álítur þetta ávarp aggressíft, sem það vissulega er, og bendir á að það sé ekki alltaf ljóst hver sé ávarpaður, lesandi, ljóðmælandi sjálfur eða tilteknar persónur.1 Í einu ljóðinu er til dæmis talað til Buffalo Bills og nokkur eru ástarljóð, en slík eru einmitt oftlega sett fram í annarri persónu sem ávarp, án þess þó að vera endilega aggressíf. Dæmi um slíkt er ljóðið ævintýralega „Písa“, en þar rifjar ljóðmælandi upp bernskuminningar með ástvinu sinni, sálir þeirra renna saman og ástin hefur ekkert dalað „nú þegar innrásarherir sitja um leikfangalandið“. Líkt og í leikhúsi hefur ávarp til lesandans þau áhrif að rjúfa ,fjórða vegginn‘, bilið sem er milli höfundar og lesanda, eða kannski öllu heldur ljóðmælanda og innbyggðs lesanda. Lesandi verður meðvitaðri um lestur sinn, hann er ekki lengur hlutlaus áhorfandi eða neytandi textans heldur þátttakandi, jafnvel meðsekur, í það minnsta meðvirkur. Það ruglar hann svo enn í ríminu þegar dynja á honum margvísleg ávörpin eða hvað á lesandi að halda þegar hann er ávarpaður í einu ljóði sem Buffalo Bill, í öðru sem ástvina og í enn öðru sem gestur á salerni á Schipholflugvelli? Og þannig má áfram telja.

Lesandi verður þannig óviss um eigin stöðu og finnur í sífellu fyrir höfundi, fær jafnvel á tilfinninguna að þessi höfundur sé að stríða svolítið, leika (bókmenntafræðilega) leiki. En hver er þá höfundurinn? Hermann Stefánsson, bókmenntafræðingur með meiru. Og hver er hann? Hann er meðal annars maður sem hefur skrifað um bókmenntarýni og gert grín að frösum sem bókmenntagagnrýnendur grípa til, ýmist sér til hægðarauka, eða til að falla í kramið. [2] Í greininni „Úr orðabók ríkjandi viðhorfa“ frá 2003 fjallar Hermann meðal annars um fyrirbærið ,maðurinn á bakvið verkið‘ og ýmis vandamál sem höfundinum fylgja: innan bókmenntafræða þykir ófínt að flækja sig of mikið í ævisögulegum atriðum meðan í ,almennri‘ rýni er afar vinsælt að draga höfundinn dáldið inn í málið, eða með orðum Hermanns: „Það er eins og rithöfundurinn sé ævisögulegri en annað fólk, sé meiri manneskja“. [3] Hér er ég augljóslega á leiðinni að falla í flokk hinna ,almennu‘ rýna, með því að skoða bók Hermanns útfrá fyrri skrifum hans, sem ég held að segi okkur eitthvað um hann sem manneskju og skáld og geti aðstoðað við lestur á bókinni Högg á vatni.

Það hefur heilmikið verið skrifað um höfunda, sérstaklega á síðari árum sem kennd hafa verið við póststrúktúralisma eða póstmódernisma. Frægust er líklegast grein Rolands Barthes um dauða höfundarins (1967), en í annarri grein fjallar Hermann einmitt um dauða Barthes, meðal annars útfrá skrifum hans um táknfræði og dauða höfundarins.4 Önnur minna þekkt en ekki síður mikilvæg grein er eftir annan óðan Frakka, Michel Foucault, sem árið 1969 spurði „Hvað er höfundur?“ og svaraði sjálfum sér því að höfundurinn væri fyrst og fremst afkvæmi eigin skrifa.

Það væri auðvitað freistandi að skoða Hermann nánar útfrá kenningum þeirra félaga, og hans eigin hugleiðingum útfrá þeim, en það sem ég hef meiri áhuga á í augnablikinu er lesandinn. Öfugt við höfundinn hefur lesandinn aldrei verið lýstur dauður, né hefur spurningarinnar ,hvað er lesandi?‘ beinlínis verið spurt. Lesandinn hefur þó hlotið aukið vægi í bókmenntafræðum undanfarinna ára, bæði með tilkomu „póstrú“ og „pómó“, auk svokallaðra viðtökufræða, en ekki síður með tilkomu menningarfræða, sem hafa gert lesandanum sérlega hátt undir höfði. Þannig hefur í raun verið nokkur umræða um ,hvað er lesandi?‘ því fræðifólk hefur velt mikið fyrir sér hvað gerist eiginlega við þessa iðju, hvernig lesendur lesa, hvaða merkingu þeir sjái út úr verkum og hvernig þeir túlki eða vinni úr lesefni. Mikið hefur verið fjallað um virkan lestur, sem ekki þarf að jafngilda því að um meðvitaðan lestur sé að ræða; lesendur bæta sinni merkingu inní það sem þeir lesa án þess endilega að gera sér það ljóst.

Og hvar stendur lesandi Höggs á vatni í þessum vangaveltum öllum? Hann er hvað sem öðru líður gerður mjög meðvitaður um lesturinn og þann möguleika að hann sé á einhvern hátt virkur þátttakandi í ljóðunum. Hið ágenga og sífellda ávarp hefur einfaldlega þau áhrif. Lesandinn getur ekki annað en velt stöðu sinni fyrir sér: hver er þessi ég sem verið er að tala til? Á einhvern hátt virðist svo vera að höfundurinn5 sé að reyna að teygja sig í áttina til lesandans, tengjast honum á einhvern hátt. Ljóðið er oft álitið persónulegra og innilegra en önnur form skáldskapar og því er það kannski eðlilegt að lesanda finnist hann upplifa nánd við höfundinn. Þó hlýtur lesanda fljótlega að verða ljóst að slík tengsl eru hæpin. Írónían sem einkennir ljóðin, meira að segja þau viðkvæmnislegustu, hlýtur að varpa skugga á einlægni höfundarins. Írónía eirir engu – allra síst sjálfum höfundinum – eða ljóðmælandanum er líklegast best að segja hér – eins og í ljóðinu „taka tvö“ sem fjallar um tilraun til sjálfsmorðs og hefst með lýsingu á „hnignandi líkama“ og grafskriftin hljóðar uppá: „hefðir getað gert betur“ eða „gast verið verri“. Annað sjálfsávarp er í „Skugga“, en þar hefur ellin sest á andlit ljóðmælanda „eins og gríma“, fegurðin „fölnandi blóm innan um birkihríslur og banaspjót“. Í lokalínuninni hefur ljóðmælandi þurrkað sjálfan sig algerlega út: „Sú kenning er um skugga að þeir séu af einhverjum“. Hér getur lesandi ekki annað en skynjað samsömun með höfundi,
upplifað tengsl.

Meðvirknin verður kannski hvað öflugust í ádeiluljóðunum, en án þess að Högg á vatni sé einhver kreppubók (eins og svo margar bækur síðasta árs voru), þá stingur Hermann reglulega á ýmsum samfélagslegum málefnum í ljóðunum, málefnum sem augljóslega tengjast græðgisvæðingunni og hruninu sem fylgdi. Í fæstum tilvikum er þó hægt að negla niður einhverjar beinar skírskotanir, það er frekar að lesandanum er boðið uppá að velta fyrir sér mögulegum túlkunum eins og í ljóðinu „Einfalt“:

Einfalt, þægilegt, hratt og öruggt, glumdu skilaboðin uns dag einn var svo komið að lífið var svo einfalt að það tók því ekki lengur að lifa því.

Ádeilan er þó snörpust og beinskeyttust í ljóðinu „Högg af vatni“, sem er prósaljóð og jafnframt lengsta ljóð bókarinnar. Ljóðið birtist snemma í bókinni og setur óneitanlega tóninn fyrir það sem á eftir kemur. Og það er hér sem 2. persónu stíllinn verður hvað mest knýjandi, í ávarpi (sem vel getur verið sjálfsávarp) til hins andvaka manns og vangaveltum um hvað það er sem heldur honum vakandi. Ljóðið hefst svo:

Það er ekki lekinn í vaskinum, dripp dripp, sem heldur fyrir þér vöku, ekki rokið sem lætur svona við trén fyrir utan húsið þitt, húsið sem þekkja má á gulum plastpoka sem í þessum töluðum orðum fýkur framhjá með hvissi, vindurinn sem þekkja má á hausthljóðinu.

Nei, það er ekkert af þessu sem heldur vöku fyrir lesandanum, heldur „maður úti við tröppur sem rjátlar við ruslið þitt“. En upptalningin á áhyggjuefnum heldur samt áfram, þú átt ekki heima á þessum tíma sem þú hefur fæðst inní, heimurinn er óréttlátur og það er tómahljóð í tilverunni. Svo má nefna fláræði manna sem falsa undirskriftir til að rjúka í stríð, tvírætt viðhorf til byltingarinnar og galtóma frasa réttlætisriddaranna, sjálfsvorkunnarsífur smákónga og skuldirnar. Ekki má heldur gleyma gjamminu á markaðnum, vonbrigðunum og framtíðinni sem farin er í vaskinn, hróðugum nýskáldum og hatrinu á hungraða fólkinu við hinn enda veraldarinnar. Nei, ekkert af þessu er vandamál, heldur „eitthvað miklu einfaldara eins og maður að rjátla við ruslatunnu til að sækja þangað eitthvað sem hann vanhagar um og er ekki lengur neinum til gagns, engum nema honum“. Og ljóðið endar svo:

Skyldi hann aldrei aldrei aldrei ætla að ljúka sér af og hvað er það sem farið hefur forgörðum og hvað vill hann við húsið sem þekkja má af gulum plastpoka sem í þessum töluðum orðum fýkur framhjá með hvissi?

Fyrir utan að draga fullkomlega upp stemningu andvökunnar, ekki síst það hversu tíminn tæmist í það sem virðist vera endalaust augnablik og ýmiskonar órar hrannast upp, þá kallar ljóðið á margvíslegar vangaveltur um mörk hins persónulega og samfélagslega (einkarými og opinbert rými) sem til dæmis birtist í manninum sem rótar í ruslinu og stendur einmitt á þessum mörkum. Nóttin er svið þarsem skýrar markalínur leysast upp, eins og þetta undarlega ástand á mörkum svefns og vöku sem nefnist andvaka. Hugsanir brjótast óheftar fram og allt rennur saman í eitt, persónuleg vandamál og beiskja, áhyggjur af stöðu heimilisins, samfélagsins og heimshryggð almennt, en ekkert af þessu er þó vandamálið, heldur leitar hugurinn að einhverri haldbærari ástæðu, rjátli við rusl. Maðurinn sem rótar í ruslinu er auðvitað er sá sem hefur tapað leiknum í þjóðfélagi sjálfhverfra smákónga og innantómra réttlætisriddara.

Sem slíkur er hann í raun fulltrúi alls þess sem ásækir hinn andvaka mann, eins og kemur fram í línunni „hvað er það sem farið hefur forgörðum“ og má heimfæra bæði uppá rusl, eitthvað sem er hent, en líka þá tilveru sem við erum stöðugt að eyðileggja fyrir sjálfum okkur á einn eða annan hátt. Því við búum einmitt í samfélagi og heimi sem farið hefur forgörðum, að því er virðist á einu augnabliki – því augnabliki þegar bónuspokinn, þetta tákn neyslumenningar okkar, fauk framhjá okkur með hvissi. En jafnframt er maðurinn í ruslinu frjáls undan oki neyslusamfélagsins, hann er fulltrúi þess sem engu sóar en nýtir allt, sem ekkert á og þarf því ekki að hafa áhyggjur af skuldum, því líf hans miðast aðeins við daginn í dag, eða réttara sagt nóttina í nótt, það augnablik sem plastpoki fýkur hjá – og er gripinn til að vera endurnýttur undir allt það sem farið hefur forgörðum. Þessvegna ert þú andvaka, því þú ert fangi á eigin heimili, í eigin samfélagi og heimi, meðan sá sem ríslar í ruslinu er frjáls, hann þarf ekki að sofa á nóttunni frekar en hann vill og sleppur því við andvökur.

Hér er ég auðvitað komin í samræðu við þetta ljóð, tek upp þráðinn og spinn áfram, alveg eins og góðir siðir segja fyrir um. Því eins og bent var á hér í upphafi er ekki annað hægt en að lenda í samtali við ljóð sem ávarpa lesandann svo ákveðið og krefja hann stöðugt um að velta fyrir sér stöðu sinni. Í síðasta og þriðja hluta bókarinnar eru nokkur löng ljóð sem öll einkennast af slíku samtali við lesanda. „Annað líf“ er þó ekki ætlað lesandanum heldur ljóðmælanda sjálfum sem meðal annars hittir sjálfan sig fyrir „í andrými einverustunda / augnablikum með sjálfum þér“ og það kemur honum á óvart hversu „viðkunnanlegt var að hitta fyrir þennan náunga / á ný“.

Lesandi og ljóðmælandi renna að einhverju leyti saman í „Rödd úr holunni“, en þar hefur ljóðmælandi komið sér fyrir í holu og ávarpar lesanda, sem enn á ný virðist einskonar ,annað líf‘ ljóðmælanda. Sá spyr: „Var ég búinn að segja þér að ég hef hafst við í þessari holu / í tvö þúsund ár? / hef safnað orðið dágóðu skeggi / kem færandi hendi ofan úr fjöllum / með ógn úr / undirdjúpunum / þínum eigin“. Hér er vísað til allmargra átta, helliskenning Platóns er augljós, en svo kemur í ljós að holan á sér op í bæði Snæfellsjökli og Heklu og þar er lesandi skyndilega kominn í aðra heima, ævintýra og þjóðsagna. En holan er líka hyldýpi og hít, ruslakista fyrir nýjustu syndir og syndaaflausnir, þráa sjálfsblindu og hroka, svo ekki sé talað um kergju, „afneitun trúblindu og rökhroka“. Holan er því ekki aðeins eftirmynd veruleikans, heldur flótti frá honum, handhæg leið til að losa sig við það sem er óþægilegt. Sem slík getur hún greinilega ekki lengur gegnt því hlutverki að vera ljóðmælanda skjól, enda boðar hann komu sína með ógn í farteskinu.

Það sem kannski kemur einna best fram í holuljóðinu er sú einsemd sem einkennir velflest ljóðin og þá sérstaklega þau í lokakaflanum. Samtalið við ,lesandann‘ verður því enn meira knýjandi, tilraun til að ná sambandi við einhvern, eða jafnvel ennfrekar von, því miðað við hversu myrk mörg ljóðanna eru þá er sláandi hvað vonin kemur víða við, eins og í fyrrnefndu ljóði „Langsetur í herbergi“ og vonin er einnig til staðar í „Rödd í holu“, en í lokin kemur í ljós að í holunni er hús sem ljóðmælandi býr í og þar berst ljós út um glugga „út í nóttina / henni til höfuðs // Við hann bind ég vonir mínar allar“. Með tilliti til þessa er lokaljóðið „Skilið skiptum“ umhugsunarvert, en þar stígur ljóðmælandi fram og slítur á öll sambönd og samskipti: „Við erum skilin að skiptum,“ / sagði ég við afgreiðslukonuna í / hverfisbúðinni“. „Tímarnir hafa breyst“ og „að skilja að skiptum er tónn dagsins / – já, frelsið – / er vígt af skilanefndum“.

Ljóðmælandi setur dúnmjúka púða „ofan á skynreynsluna“ og dúðar sig í hljóðeinangrun, en gerir sér samt vonir um „að lifa lífið af“. Hann skilur við bensínafgreiðslumanninn og að lokum lesandann, eins og fyrr er sagt. „Mig dreymir um einveru / Ég raða prentuðu máli í hillur / helli upp á kaffi / spila tónlist / einn“, „skiljum að skiptum, öll sem eitt“. Hér virðist einsemdin hafa hverfst í einangrun, sem er, líkt og í holuljóðinu, einskonar tilraun til að dúða sig frá veruleikanum, loka sig úti frá andvökuórum eins og þeim sem einkenna „Högg af vatni“. En jafnframt er ljóðið ástarljóð, „Ástin er illa varðveitt / leyndarmál“ og „Sá sem ekki elskar / – með allri sálinni – / á að vera einn“. Þessi staðreynd virðist koma af stað einangrunarstefnunni og lesandi hlýtur að álykta að þarmeð elski ljóðmælandi ekki með allri sálinni.

Ljóðið kallast því að nokkru leyti á við ljóðið „Skáldsaga“ sem ber undirtitilinn „(til þín)“ og lýsir á einni síðu skáldsögu, kafla fyrir kafla. Í fyrstu vindur öllu eðlilega fram en í nítjánda kafla hefur ljóðmælandi ekki lengur hemil á sér og veltir fyrir sér hvort hann sé „brú eða ástarjátning“. Í lokakaflanum hefur hann alveg misst tökin, „Ég mun ekki ná til þín með þessari skáldsögu. Og þegar öllu er á botninn hvolft vildi ég aðeins ná til þín. Annað vildi ég ekki.“ Hver er þessi ég sem ætlunin er að ná til? Ég sem les bókina eða einhver innbyggður lesandi, eða einfaldlega einhver sem ljóðmælandi elskar? Hver sem þetta nú er þá er það freistandi að sjá ljóðabókina Högg á vatni sem einskonar tilbrigði við þessa ónefndu skáldsögu, sem endar á orðunum „Ertu þarna enn? Hér er skipt um hljóm. / Endir.“

Úlfhildur Dagsdóttir

Tilvísanir

  1. Sjá ritdóm Gunnþórunnar Guðmundsdóttur, „Vertu til er ljóðin kalla á þig“ á bokmenntir.is, síðast skoðað 060810.
  2. Sjá grein Hermanns Stefánssonar, „Úr orðabók ríkjandi viðhorfa“, í Sjónhverfingar: Fjarvistarsannanir fyrir íslenskan veruleika, Reykjavík, Bjartur 2003.
  3. Sama, bls. 90.
  4. „Dauði Barthes: Undanþeginn herskyldu“, í Sjónhverfingar.
  5. Hér vísa ég til höfundar sem margklofinnar veru, að hætti Foucaults: höfundarins sem ber nafnið Hermann Stefánsson, höfundar sem er á póststrúktúralískan hátt afkvæmi eigin verka, og höfundar sem er meiri manneskja, eins og Hermann orðar það sjálfur.