Gyrðir Elíasson. Milli trjánna og Nokkur almenn orð um kulnun sólar.

Uppheimar, 2009.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2010.

Milli trjánna

Milli trjánna (2009)

Milli trjánna er áttunda smásagnasafn Gyrðis Elíassonar og kemur í framhaldi af smásagnasafninu Steintré (2005), sem meðal annars hlaut tilnefningu til hinna virtu Frank O’Connor bókmenntaverðlauna vorið 2009. Nokkur almenn orð um kulnun sólar er hins vegar þrettánda ljóðabók Gyrðis, og undirstrikar þær miklu breytingar sem ljóðlist Gyrðis Elíassonar hefur tekið frá fyrstu bókum. Sú þróun hefur þó ekki orðið með neinum stökkum, og því hefur umfjöllun um verk Gyrðis – hvortheldur ljóðabækur hans, smásögur eða skáldsögur – smám saman tekið að einkennast af fyrirframgefnum niðurstöðum, dregnum mestanpart af lestri fyrstu bókanna. Og þær niðurstöður lúta nær ófrávíkjanlega að ytri þáttum; að rómuðum stíl höfundar, myndvísi og þokka verka hans, en minna sagt um sjálft innihaldið.

Í greinasafni Morgunblaðsins má finna ritdóm Jóhanns Hjálmarssonar skálds um nóvelluna Svefnhjólið eftir Gyrði Elíasson, „Lykill að skuggalegu lífi“, sem ber ýmis merki þeirra vönduðu bókaumfjallana sem birtust áður í blöðum og tímaritum. Ritdómari hefur til dæmis skýra heildarmynd af höfundarverki Gyrðis fram að þeirri bók sem um ræðir, setur hana í samhengi við fyrri bækur („[n]ærvera skrímsla og móra ágerist í sagnaheimi Gyrðis“) og nálgast tungutak og merkingarsköpun verksins með eigin hætti og hugsun:

Hlutveruleikanum miðlar Gyrðir með smámunasemi sem þó er ekki utan marka sögunnar. Sögumaður er með Kolibri ritvél, mótorhjólið hans er Suzuki TS 400, ryksugan er Nílfiskur. […] Í síðustu köflunum þar sem m.a. er lýst ferð með duggu þar sem kuflklædd vera er við stjórnvöl minnir á aldalokamystík í anda málarans Arnolds Böcklins.

Þess háttar umfjöllun hefur hins vegar tekið ákveðnum breytingum. Í stað metnaðarfullrar og upplýsandi greiningar, sem er bókmenntum okkar svo nauðsynleg, birtast oftar en ekki hreinir og klárir dómar, í krafti stjörnugjafa, í blöðum og sjónvarpi. En ætla má að slíkt muni koma niður á bókmenntum okkar og lestrarhæfni, og hefur ef til vill þegar átt sinn þátt í breyttu sölumynstri. Sífellt meira ber til að mynda á „bestsellerisma“ í bóksölu fyrir jólin þar sem bilið milli söluhæstu og meðalstórra sölutitla hefur aukist mjög. Og þar eiga fjölmiðlar stóran hlut að máli, enda taka þeir þátt í leitinni að bestu skáldsögunni (ekki bestu ljóðabókinni eða besta smásagnasafninu) fyrir hver jól, og birta mun síður ritdóma um illseljanlegar bækur. Hvers vegna var til dæmis ekki fjallað um ljóðabók Ísaks Harðarsonar Rennur upp um nótt í Kiljunni og Fréttablaðinu, tveimur stærstu miðlunum, fyrir jólin síðustu; einhverja almerkustu ljóðabók undangenginna ára?

Ef marka má dóma fyrir síðustu jól voru Milli trjánna og Nokkur almenn orð meðal helstu tíðinda nýliðinnar vertíðar, enda hlotnuðust þessum bókum Gyrðis heilu stjörnuþokurnar í bókadómum fjölmiðla. Eins og oft áður var þó minna sagt um innihald bókanna en efni stendur til. Þá var smásagnasafnið afgreitt í einum Kilju-þætti vetrarins á þá leið, að Gyrðir Elíasson væri einfaldlega höfundur „sem alltaf sendir frá sér góðar bækur“, og látið þar við sitja. En slíkt er vitaskuld til merkis um þá dóma-menningu sem minnst hefur verið á hér að framan, sem hefur verið mjög á kostnað upplýsandi og nauðsynlegrar greiningar.

Spurningin sem vaknar – því henni hefur ekki verið svarað á fullnægjandi hátt í gegnum árin, og sífellt verr eftir því sem klisjurnar um fyrri bækur Gyrðis hafa náð víðar en verkin breyst – er því hreinlega hvers konar höfundur Gyrðir Elíasson sé í seinni tíð og hvers konar bækur hann skrifi, með hvaða hætti, í hvaða tilgangi og út frá hvaða sjónarmiðum.

Hér á eftir mun reynt að nálgast slíkar spurningar og aðrar, út frá síðustu tveimur bókum höfundar.

*

Ef til vill mætti, með allnokkurri einföldun, skipta rithöfundum í tvo flokka: þá sem líta út á við og þá sem líta inn á við. Með öðrum orðum í pólitíska (í sem víðustum skilningi þess orðs) og ópólitíska höfunda; þá sem láta sig samtíð sína og samfélag varða og þá sem vinna á hinn bóginn fremur með sjálfa sig og eigið sálarlíf. Gyrðir fellur í síðari flokkinn. En hann er einnig á meðal þeirra sjaldgæfu og dýrmætu rithöfunda sem sömuleiðis miðla okkur einna nákvæmustu sannleiksskýrslunum um veröld okkar og samfélag í krafti einstaklingsmiðaðra bókmenntaverka á borð við Sandárbókina; nóvella Gyrðis frá 2007 sem má með réttu kallast fyrsta hrunbókin, svo glögg sem gagnrýni hennar er á það samfélag sem við byggðum.

Og vissulega má einnig lesa nýju bækurnar tvær á samfélagslegum forsendum, enda birtist í þeim, og þá aðallega í sagnasafninu, skýrari utanaðkomandi áhrif samtímans en oft áður í verkum Gyrðis. Milli trjánna inniheldur þjóðfélagslegar skírskotanir til viðburða í nútíma okkar; til uppgangs, til hruns, til látlausra frétta af bankamönnum – síður til nýhorfinnar eða hverfandi fortíðar eins og fyrri skáldsögur á borð við Hótelsumar (2003) eða smásagnasafnið Gula húsið (2000) gera. En Gyrðir er enginn umvöndunarsinni, og því er gagnrýni hans, svo það orð sé notað – þótt ef til vill væri nær lagi að tala um nostalgíu eða ákveðna nútímahryggð – oftar en ekki sett fram með góðlátlegri kímni:

Við gengum inn um hringdyrnar. Það er ekkert gaman að hringdyrum lengur, þær eru allar tölvustýrðar og jafnvel Chaplin gæti ekki gert neitt skemmtilegt með þær. (9)

Tilvitnunin er fengin úr afar vel heppnaðri upphafssögu safnsins, „Infernó“, sem lýsir á spaugilegan en jafnframt hryggilegan hátt stólaleiðangri ósamrýndra hjóna í IKEA – með því hnyttna en jafnframt dapra lagi sem ef til vill Chaplin einum myndi fært. Og raunar er víðar í safninu æði stutt á milli þess spaugilega og sorglega; til að mynda í kostulegri sögu, „Hússkiptin“, sem segir frá eins konar makaskiptum tveggja einhleypra og langþreyttra vina á heimilum sínum – langþreyttir hvor á öðrum, en fyrst og fremst á hlutskipti sínu og aðstæðum, sem höfundur kemur afar fínlega til skila í glettinni en jafnframt harmrænni sögu.

Þá er gagnrýni ljóðabókarinnar á það sem miður hefur farið í samfélagi okkar oft beitt, og áþreifanlegri en hinar lúmsku aðfinnslur smásagnasafnsins:

Hugarorka

Í kvöldsólinni sést flugvél
sveima yfir Snæfelli. Það
glampar á hana líkt og
forsögulegan fugl. Svo
tekur hún stefnu að
stíflunni

Hún er orðin að
sprengjuflugvél
(18)

Slík ljóð gefa fyllsta tilefni til að álykta, eins og Þröstur Helgason gerði í Víðsjárdómi um bókina fyrir jólin, að í þessum ljóðum Gyrðis felist „lýsing á staðnum sem við öll viljum komast úr en sitjum föst í eins og flugur í vef kóngulóar“ og að bókin sé „svört skýrsla um það hvernig okkur hefur farnast eftir að frægðarsólin hné til viðar. Það er fátt að orna sér við og svartur himinn hangir yfir ljóðmælanda, lífið er þungur draumur“, segir Þröstur, og vísar til eftirfarandi ljóðs:

Svartnætti í Langadal

Myrkur yfir heiðinni,
engin ljós í kvöld

Engin ljós í kvöld
eða önnur kvöld

Engin önnur
(23)

Þá er afar nærtækt að vitna til eftirfarandi ljóðs, eins ó-gyrðislegt og það raunar er, ef færa skal rök fyrir auknum samfélagslegum áherslum í þessari ljóðabók Gyrðis, og skáldskap hans yfir höfuð:

Samfélagslegt ljóð

Fyrir Dag Sigurðarson

Frelsi lýðræðisríkjanna
er eftirfarandi í reynd:

„Lögregla beitti táragasi
gegn mótmælendum“
(75)

En þrátt fyrir hinn samfélagslega tón bókarinnar veigra ég mér við því að lesa hana um of á slíkum forsendum. Því sá „þungi draumur“ sem Þröstur vísar til í umfjöllun sinni er fyrst og fremst persónulegur og einstaklingsbundinn bókina í gegn, og birtist með eftirfarandi hætti í ljóðinu „Við Öskjuvatn í september 2005“:

Vatnið svo kaldgrátt, svo djúpgrátt
að mann svimar uppi á snæviþöktum
bakkanum. Það hefur haustað snemma.
Sá sem vill vera einmana ætti að koma
hingað. Hann verður ekki fyrir vonbrigðum

Í tjaldi við Drekagil
vakna ég um miðja nótt
af þungum draumi
inn í annan enn þyngri
(sem er lífið sjálft)
(14)

Og eins og áður segir um hina sjaldgæfu en dýrmætu glugga einstaklingsmiðaðra bókmenntaverka inn í samfélag okkar (sem Sandárbókin er svo gott dæmi um), þá vísar orðið „lífsbarátta“ í eftirfarandi ljóði – hinu næstsíðasta í bókinni – bæði til heims hins einmana, þungsinna ég sem skýtur svo víða upp kollinum í þessari ljóðabók Gyrðis sem og til heims okkar hinna, til samfélagsins og þeirra breytinga sem við höfum öll mátt reyna:

Fagnaðarefni fyrir ritstjóra orðabóka

Orðið lífsbarátta
hefur aftur
fengið merkingu
(98)

Þannig er depurð Gyrðis og lífsbarátta ljóðmælenda hans aldrei fullkomlega einkaleg, heldur opin og býður faðminn þeim sem á annað borð kjósa að leita huggunar í skáldskap. Því höfundur orðar hinn sameiginlega harm, hver sem hann er.

*

Stundum hlerar maður á skotspónum að Gyrðir Elíasson sé ofmetinn rithöfundur. Ekkert má heita fjær sanni, því Gyrðir er sannarlega vanmetinn höfundur. Hann er Kafka, Borges og Heinesen í einum manni – til dæmis. Óumflýjanleg angistin og einsemdin í verkum Kafka, ólíkindin og nákvæmnin í sögum Borgesar, andrúmsloftið og náttúrulýríkin í bókum Heinesens; allt saman birtist það með skýrum og persónulegum hætti í sagnaskáldskap Gyrðis. Og eflaust væri Gyrðir Elíasson stór og mikilvægur evrópskur höfundur ef tungumál hans væri annað en íslenska. Þó hlerar maður vissulega hér og þar að of mikið sé látið með Gyrði; í það minnsta hefur Gyrðir ekki notið lýðhylli, ekki fyrr en með því smásagnasafni sem hér um ræðir. Og líklegast drögum við þá leiðu ályktun – eins kaupmiðað og samfélag okkar hefur verið – að slæm sala þýði slæmur höfundur.

En hvers vegna hefur Gyrðir ekki ratað til fleiri í gegnum tíðina? Kannski sökum þess að við erum illa læs á sögur á borð við þær sem Gyrðir skrifar. Nefnilega látlausar. Sem kannski má klína á hamaganginn í Íslendingasögunum og á lestraruppeldi okkar; og jafnvel á hamaganginn í okkur sjálfum síðustu áratugi.

Nokkur almenn orð um kulnun sólar

Nokkur almenn orð um kulnun sólar (2009)

Margar smásagnanna í nýjasta smásagnasafni Gyrðis eru þar að auki ekki eiginlegar sögur, eins og hin einhæfa krafa hér á landi um flækju, úrlausn og dramatík hljómar, heldur fremur „skissur“ eða „sketsar“. Sem einnig gæti verið ástæða þess að bækur Gyrðis hafa ekki notið lýðhylli í samræmi við erindi þeirra. Við eigum með öðrum orðum erfitt með að lesa „sögur“ sem eru ekki eiginlegar „sögur“, hvorki að innihaldi né forminu til samkvæmt hinum þrönga skilningi okkar á eðli smásögunnar; skilningur sem sækir talsvert til væntinga okkar gagnvart skáldsagnagerð (flækja, dramatík, lausn) með þeim afleiðingum að smásagan sem listform á sér tæpast eiginlega fagurfræði lengur. Alþjóðlega orðið saga er nú einusinni íslenska og táknar frásögn, sem sagt dramatík. Því hljótum við að fara fram á slíkt í sagnaskáldskap okkar. En frásagnir Gyrðis í Milli trjánna eru sjaldnast margbrotnar eða dramatískar í krafti flókinnar framvindu, heldur eru þær ísmeygilegar skissur, glettnar, sorglegar, drungalegar, einmanalegar, furðulegar, lýrískar; mettaðar því dramatíska andrúmslofti sem höfundur velur sögu sinni hverju sinni. Slíkar frásagnir kunnum við hins vegar illa að lesa. Þar að auki held ég að okkur þyki skissuformið ekki ýkja-virðingarvert, að slíkt skuli fremur flokkast til stílæfinga en fullburða frásagna.

Þá hef ég sömuleiðis grun um að lengd skipti hér nokkru máli, að einhverjum kunni að þykja höfundur sem sjaldnast rýfur 200 blaðsíðna múrinn léttvægur. Og þá er kannski skýringin á velgengni þess smásagnasafns sem hér um ræðir fundin. Bókin er nefnilega heilar 270 blaðsíður. En sögurnar 47 sem hún inniheldur eru flestar í styttri kantinum. Og reyndar fá langhundar sinn skerf af gamansamri gagnrýni, nokkuð sem Gyrðir má heita sérlega útsmoginn við og bregður víða fyrir sig í verkum sínum. Eftirfarandi tilvitnun er úr sögunni „Síðusár“, þar sem segir af kostulegum samskiptum vina og þeim óleik annars að rífa blaðsíður úr bókasafni hins á laun:

Hann virtist hafa langmestan áhuga á Dostovjeskí; ég komst að því að hann hafði rifið síður úr öllum bókum sem ég átti eftir hann. Mér var tiltölulega sama um það með flestar bækurnar eftir hann, þær eru hvort sem er alltof langar. En mér þótti þó slæmt að hann skyldi taka einmitt þá síðu úr Glæp og refsingu þegar Raskolnikov drepur gömlu konuna. (249)

Sama mætti svo ef til vill segja um nóvelluna og skissuna; við samþykkjum hana eiginlega með semingi, okkur finnst hún í raun aðeins hálfgildings skáldsaga. Og fyrir slíkt líða höfundar á borð við Gyrði Elíasson, sem skrifar nóvellur upp á rúmar 100 blaðsíður og smásögur sem teygja sig allajafna yfir 5 til 6 blaðsíður. Og vont ef margar síður eru rifnar úr slíkum bókum.

*

Nokkur almenn orð um kulnun sólar er ekki trúarleg bók, nema síður sé. Þó er hún allt að því biblíuleg í visku sinni, sannfæringarmætti og þróttmiklu (en aldrei uppskrúfuðu) tungutaki gagnvart sínum helstu umfjöllunarefnum – nefnilega dauða og ótta. Og eitthvert alsterkasta ljóð bókarinnar minnir í raun talsvert á Davíðssálminn kunna um hirðinn og huggunarríka nærveru Drottins. Sams konar nærvera og huggun henni tengd liggur þessu stórbrotna ljóði Gyrðis til grundvallar, nema huggunin er veraldleg. Sjálf ástin:

Rúmsjór

Þegar þú komst, og rödd þín barst mér
gegnum svefninn, hélt ég að dauðinn væri
kominn, og þetta væri sefandi rödd hans
að leiða mig yfir á lendur sem enginn sér
nema einusinni

En þetta reyndist vera lífið, dulbúið
þínum milda rómi, að kalla mig upp
úr myrkri, upp úr ótímabærum
dauða

Mér fannst ég vera á skipi,
á langsiglingu inn í þungan
draum, og ég vaknaði með
niðurbældu ópi líkt og allt
væri búið,
þú værir ekki
(30)

Annar helsti þráður bókarinnar er úr nokkuð annarri átt, því ýmislegt í þessari bók Gyrðis (og öðrum) sækir til austurlenskrar ljóðlistar og þeirrar klassísku heimspekihefðar sem japönsk og forn-kínversk ljóðlist spratt úr á sínum tíma.

„Nútímamaðurinn“ heitir eitt ljóða bókarinnar og er tileinkað Yang Wan-Li, kínversku skáldi sem uppi var á 12. öld e.Kr.:

Ég gæti þegið
leiðbeiningar
í hugleiðslutækni
hrossaflugunnar
(80)

En þótt Yang Wan-Li sé einn nafngreindur, þá sýnist mér annað skáld og önnur bók en sú sem hugsanlega kenndi hugleiðslutækni hrossaflugunnar fara hugsun og tónfalli allnokkurra ljóða Gyrðis samhliða – hinum tærustu, en um leið þyngstu að lífspeki. Og það er bókin Brjálsemiskækir á fjöllum eftir skáldbróður og landa Wan-Li, 8. aldar skáldið Po Chü-i, sem út kom í íslenskri þýðingu Vésteins Lúðvíkssonar árið 2005. Sameiginlegt með ljóðskáldinu Gyrði og Po Chü-i er hið ofurfína handbragð og viðkvæmur einfaldleikinn, einkum þegar þyngstu áhyggjuefni tilveru okkar eru þungamiðja skáldskaparins:

Nokkrar misjafnlega
almennar hugmyndir
um dauðann

[…]

VI
Vantar handbremsu
á tímann, svo hann
hætti að renna svona
niður brekkuna
að svarta vatninu

[…]

IX
Gluggakistur –
líkkistur með gluggum
svo maður geti litið út
ef maður skyldi rumska
á leið í garðinn
(37–38)

Sams konar viska, æðruleysi, glettni en um leið ákveðinn dapurleiki einkenna mörg kvæða Po Chü-i. En áhrifin eru ekki bein, og ljóð Gyrðis ætíð hans, tónninn hans og tungutakið eins og við þekkjum úr fyrri bókum, þó enn sé aukið á nákvæmni, tærleika og mínimalisma þessara ljóða.

En það er einmitt glettnin og dapurleikinn sem ganga í eina sæng í báðum þessum bókum Gyrðis Elíassonar, rétt eins og í ljóðabók Po Chü-i. Melankólía, einsemd, rótleysi (persónur Gyrðis eru ætíð á flótta undan sjálfum sér og hlutskipti sínu) og ótti hvers konar liggur mörgum sögunum til grundvallar, sem og þeim ljóðum sem hér hefur verið vitnað til og öðrum í bók Gyrðis. Og þótt ekki sé um nein bein tengsl milli verkanna að ræða – þau eiga ekki sameiginlegar persónur, sameiginlega atburðarás, sameiginlegt ákveðið umhverfi – þá er engu að síður ljóst að þetta eru systrabækur sem sækja í sömu brunna. Tónninn er sá sami: gamansamur, en undir niðri er þung undiralda ótta, vonbrigða og dapurleika. Líkt og hjá Chaplin, en Gyrðir er ekki eins ærslafullur. Hann er látlaus, og við þurfum að læra að lesa slíka höfunda; lesa í skilaboð þeirra, tjáningarmáta og mikilvægi.

*

Milli trjánna og Nokkur almenn orð um kulnun sólar eru nýir áfangar á rithöfundarferli Gyrðis. Bækurnar eru lítil skref höfundar sem er aldrei sá sami frá bók til bókar, en þó alltaf samur. Sagnaskáldskapur Gyrðis er „nútímalegri“ en oft áður, og ljóðin tærari. Svo einföld og eðlileg að orðfæri eru þau að tæknin, lesturinn, þjáningin og hugsunin sem býr þeim að baki íþyngir þessum ljóðum aldrei, gildra sem minni skáld eiga erfitt með að forðast. Þau fjalla oftar en ekki um þung efni – dauðann, óttann, gráan hversdagsleika – en ljóðin eru létt fyrir því. En aldrei léttvæg, sem er hættan.

Né eru skissur smásagnasafnsins léttvægar þrátt fyrir að bjóða ekki upp á margfalda snúninga í framvindu sinni, eins og hin takmarkandi krafa okkar um form og aðferð smásögunnar hljómar. Og raunar býður Gyrðir upp á alla þá dramatík, ástir, ástleysi, hjónaskilnaði, dauða, sturlun, vinslit og óhugnað sem lesandi getur á annað borð krafist í skáldskap; með fjölbreytileika sagna sinna, sem spanna allt frá ferðalýsingum til gotneskra hryllingssagna, frá nostalgískum endurminningum til framtíðarleiftra á borð við draumavélina sem lýst er í sögunni „Draumatækið“, og lýsir í raun vel þeim hæfileikum Gyrðis sem höfundar að nálgast hið óáþreifanlega í vitund okkar, með einfaldleika sínum og hugkvæmni:

Hann var búinn að kaupa þetta nýja tæki sem var að ryðja sér til rúms, og tók upp drauma fólks. Síðan var það tengt við sjónvarp eða tölvu og þá var hægt að horfa á drauma næturinnar. […] Að horfa á draumana gegnum þetta tæki minnti dálítið á fyrstu kvöld sjónvarpsins; svarthvítar myndir á gleri líkt og í Grundig og Blaupunkt sjónvörpum fortíðarinnar. En það hlaut að vera stutt í að liturinn kæmi. Þangað til var þetta samt sem áður krafaverk, að geta séð drauma sína, ekki síst drauma sem maður hafði gleymt um leið og maður vaknaði, vissi að mann hafði dreymt eitthvað merkilegt, en gat með engu móti munað hvað það var. (170)

Gyrðir og sögur hans eru slík tæki, og með þeim sjáum við eitt og annað sem myndi okkur hulið ef slíks höfundar nyti ekki við.

 

 

Magnús Sigurðsson