Eftir Joachim B. Schmidt

Úr Tímariti Máls og menningar 2. hefti 2022*

Arthúr Björgvin Bollason þýddi

*birtist fyrst á þýsku í: Christine Stemmermann (ed.), Durchtanzte Nächte. Diogenes Verlag AG Zürich, 2022.
Joachim B. Schmidt

Joachim B. Schmidt / Mynd: Eva Schram 2022

 

Snjókornin stigu dans í bjarmanum frá götuljósinu, stakar vindhviður feyktu þeim inn í sortann, sífellt bættust ný við. Samt var enn ekki nema október. Halldór setti undir sig höfuðið og bretti upp kragann á blazer-jakkanum. „Bölvaður kuldi,“ muldraði hann.

Það voru fáir á ferli á Laugaveginum, þar sem næturlífið ætti eftir að taka við sér um miðnættið. Halldór var snemma á ferðinni, enda þótt hann vissi að Óli vinur hans væri alltaf of seinn og myndi að lokum birtast þegar síst varði. En honum var alveg sama. Hann þurfti að fá drykk, og helst vel sterkan. Bjórarnir þrír sem hann drakk með kvöldmatnum höfðu með öllu gufað upp á leiðinni í bæinn.

Fyrir flesta eyjarskeggja var 2007 mikill uppgangstími. Reykjavík var eitt samfellt byggingarsvæði, niðri við höfnina var verið að byggja risastórt tónlistarhús, meðfram göngustígnum við Sæbrautina var að rísa samfelld húsaþyrping, með hálfköruðum lúxusíbúðum, „skylinið“, í litla fjármálahverfinu teygði sig nýbyggður glerturn upp í stjörnuhimininn. Rándýrir bílar voru fluttir til landsins, bankarnir útdeildu lánum í allar áttir, og fjármálaspekingar lofuðu hagvöxtinn.

Fyrir Halldór hafði árið verið ein samfelld martröð. Seinni konan hans hafði líka skilið við hann; það hafði verið langt og dýrt ferli, alveg burtséð frá meðlagsgreiðslunum. Tilraun hans til að koma á laggirnar fjármálaráðgjafarfyrirtæki hafði farið út um þúfur, peningarnir voru orðnir naumir, hann gæti ekki haldið upp á 55. afmælisdaginn sinn eins og hann hafði alltaf ætlað sér; með fjölda vina á lítilli leigðri snekkju, með hljómsveit og nægum áfengisbirgðum. Halldór hafði með öðrum orðum gilda ástæðu til að hlusta á gömlu plöturnar sínar, Bítlana, Bob Dylan og Fleetwood Mac, setjast við eldhúsborðið, reykja sígarettur og skella í sig nokkrum bjórum. Þessar litlu ánægjustundir gat enginn tekið frá honum.

Dyravörðurinn á Boston kinkaði til hans kolli og opnaði dyrnar. Halldór klifraði upp þröngan stigann og gekk inn á staðinn, sem var uppi á lofti í bárujárnsklæddu timburhúsi, en virkaði engu að síður íburðarmikill og einhvern veginn flippaður. Ljósaseríurnar, speglarnir, gömlu húsgögnin; þetta var flottur klúbbur fyrir fólk sem var komið yfir þrítugt og hagaði sér eins og menntskælingar. Halldór dustaði nokkur snjókorn af öxlunum, hristi úr sér hrollinn og leit í kringum sig. Þegar voru þónokkuð margir mættir á staðinn, það var setið við næstum öll borð, en þetta var þó ekkert í líkingu við ástandið sem ætti eftir að ríkja hér eftir einn eða tvo klukkutíma. Hann festi augun á barnum.

„Hvert þó í …“

Á einum barstólnum sat lágvaxin, svartklædd kona, í svörtum leðurjakka, svörtum aðskornum síðbuxum, með svartan Panamahatt og risastór sólgleraugu. Prýdd skrautlegum, gylltum armböndum. Halldór hafði aldrei hitt hana í eigin persónu, aldrei séð hana sem manneskju af holdi og blóði, en vissi hins vegar strax hver hún var. Það hafði líka komið fram í fjölmiðlum að hún væri stödd á eyjunni, til að vera viðstödd vígslu á nýju innsetningarverki. Þetta var alveg magnað verk, þessi Imagine Peace Tower, á litlu eyjunni Viðey, sem var í Kollafirði, nokkur hundruð metra frá höfuðborginni. Það átti að kveikja á þessum vita, eða öllu heldur ljóssúlu, seinna þetta sama kvöld, á afmælisdegi Johns Lennon. Þrátt fyrir það hefði Halldór ekki órað fyrir því að hann ætti eftir að hitta Yoko Ono, þessa lifandi goðsögn, á Boston.

„You are Yoko Ono!“ sagði hann stundarhátt, um leið og hann settist á lausan barstól við hliðina á henni.

Hún kipptist aðeins við og leit niður, gerði sig enn minni en hún var. Halldór bölvaði því í hljóði að hafa verið svona frakkur, en honum létti þegar hann tók eftir því að bros færðist yfir andlit Yoko Ono. Þess vegna hélt hann óhikað áfram í sama dúr og brá fyrir sig eins góðri ensku og hann gat.

„Þetta ert virkilega þú!“

„Maybe,“ sagði hún. „En við þurfum ekki endilega að básúna það strax!“

Halldór lagði vísifingurinn á varirnar og setti upp samsærisglott. Síðan benti hann Siggu, sem var á bak við barborðið eins og alltaf á laugardagskvöldum, að koma til sín.

„Komdu með annan drykk handa þessari ljúfu konu, sama hvað hún vill, og láttu mig hafa einn í leiðinni!“

„Screwdriver?“ spurði Sigga hissa.

Halldór kyngdi munnvatni.

„Já, fyrir konuna! Láttu mig hafa tvöfaldan gin og tónik, takk.“

„Bombay?“

„Beefeater. Og ekkert grænmeti, takk.“

Halldór sneri sér aftur að Yoko Ono, sem nú sat í þungum þönkum og sneri hálftómum screwdriver á milli handanna.

„Hvað ert þú að gera á Boston?“

Yoko Ono horfði á hann.

„Boston?“

„Ég meina, þessi staður heitir sko Boston!“

„Jahá, ég skil.“ Yoko Ono hló. „Ég atti hér stefnumót, en er aðeins of snemma á ferðinni.“

„Sama hér. Getur verið að þú hafir ætlað að hitta Óla?“ Halldór deplaði öðru auganu, svo að það væri alveg ljóst að hann væri að grínast.

„You are a funny guy!“ sagði Yoko Ono.

„Mín fyrrverandi er nú ekki sammála því,“ tautaði Halldór, glotti, tók við drykkjunum tveimur sem Sigga hafði blandað og reiddi fram greiðslukortið sitt. „It´s on me.“

Þau skáluðu og fengu sér sopa.

„Ég er að bíða eftir Ringo Starr,“ sagði Yoko Ono.

Halldóri svelgdist á, hann kæfði niður hósta, barði með krepptum hnefa á brjóstið og roðnaði í framan.

„Ringo Starr?“ dæsti hann. „Ætlar Ringo að koma á Boston?“

Yoko Ono herpti saman varirnar. Halldór reyndi að stilla sig.

„Ég elska Bítlana! Hef alltaf elskað þá!“

Yoko Ono ýtti sólgleraugunum ofar á nefið.

„Það elska allir Bítlana.“

„Kom Ringo til Íslands þín vegna, út af listaverkinu þínu? Og hvað er með Paul?“

„Paul kemst því miður ekki.“

„Vá.“ Halldór varð allt í einu hugsi. „Öll þessi ár. Öll þessi tónlist, þessar mörgu stundir. Og allt í einu hitti ég þig. Og bráðum er von á Ringo. Ég get varla trúað þessu.“

„That´s life,“ var það eina sem Yoko sagði.

Hún var mjög þyrst, bar glasið aftur og aftur að vörunum, eins og hún væri senn á förum. Halldór átti fullt í fangi með að halda í við hana.

„Veistu hvað?“ sagði hann. „Úr því að örlögin leiddu okkur svona saman af tilviljun ætti ég að játa svolítið fyrir þér.“

„Nefnilega?“

„Ég hef aldrei fyrirgefið þér að hafa tekið John frá Bítlunum.“

„Æ, ert þú einn af þeim!“

Halldór hristi höfuðið ákaft.

„Nei, nei, alls ekki! Reyndar hélt ég alltaf að þú værir algjör norn. Þú ert hins vegar mjög elskuleg! Virkilega!“

„Hm,“ sagði Yoko Ono og fékk sér sopa.

„Ekki misskilja mig! Ég hef líka mína fordóma, eins og allir aðrir. Við erum nú einu sinni þannig. Alltaf að dæma fólk sem við ekki þekkjum.“

„Þarf ég kannski að vera þér þakklát?“

„Hvaða vitleysa, auðvitað ekki! Það er ég sem þarf að biðja þig afsökunar! Þú hefur áreiðanlega oft fengið að kenna á þessu hatri hjá fólki …“

„Ég er nú hrædd um það! Í bráðum fjörtíu ár hef ég verið gerð ábyrg fyrir því að Bítlarnir hættu saman. Það er eins og að verða fyrir stöðugum hnífsstungum.“

„Skelfilegt. Mér þykir það leitt.“

„Þér þarf ekki að þykja það leitt. Þessar hnífsstungur eru eiginlega, ja hvernig á ég að orða það, eins konar nálastungur, skilurðu mig?“

„Nálastungur?“

„Ég er að tala um kínversku lækningaraðferðina.“

„Ég veit alveg hvað nálastungur eru,“ sagði Halldór í varnartóni. „En hvers vegna líkirðu hnífsstungum við nálarstungur?“

„Þessi neikvæða orka, hún er þrátt fyrir allt orka, og ég hef einfaldlega gert mér far um að breyta henni í jákvæða orku.“

Yoko Ono brosti til hans, sposk á svip. Eða var þetta ekki bros, var hún kannski að búast við einhverju?

„En, ef ég má spyrja þig, hafðir þú ekki alla vega einhver áhrif á það að Bítlarnir hættu saman?“ Yoko Ono andvarpaði þreytulega. „Ég meina, eftir að þú fórst að vera með John fór að halla undan fæti. Það var þín vegna sem John missti áhugann á Bítlunum.“

„Þú heldur sem sagt að tilvist mín ein og sér hafi haft þessar afleiðingar? Finnst þér að það hefði verið best ef ég hefði alls ekki verið til? Viltu kannski líka kenna mér um dauða hans?“ „Auðvitað ekki, alls ekki!“ Halldór lauk úr glasinu sínu og gaf Siggu merki um að koma með meira, með því að veifa greiðslukortinu. „Ég er bara að spyrja.“

„Þú ert hrifinn af John Lennon, er það ekki?“ spurði Yoko Ono. „Heldurðu ekki að hann hafi haft sjálfstæðan vilja?“

„Ég veit nákvæmlega hvað þú ert að fara. Auðvitað hafði hann sjálfstæðan vilja. En þú leiddir hann inn í nýjan heim, sem hann hefði annars alls ekki kynnst.“

„Ertu að meina listaheiminn?“

Halldór kinkaði ákaft kolli.

„Já, ég er að tala um þetta abstrakt bull, og þennan lífsstíl. John var í rauninni tónlistarmaður og skáld en ekki neinn arty-farty bóhem, með síðan trefil.“

Yoko Ono flissaði, tók við nýja drykknum sínum og fékk sér vænan slurk.

„John var svo miklu meira en það.“ Hún lagði glasið frá sér. „Og hann hafði alltaf mikinn áhuga á listum. Annars hefðum við heldur aldrei kynnst á sínum tíma, í galleríinu í London.“

„En sagði hann ekki sjálfur frá því í viðtali að þú hefðir hjálpað honum að segja skilið við Bítlana?“

„Bítlarnir þróuðust einfaldlega hver í sína áttina, það ættir þú að þekkja sjálfur!“

„Já, en …“

„Reyndu að setja þig í þessi spor. Ef konan þín fer frá þér vegna annars manns, hver á þá sökina? Hinn maðurinn? Konan þín? Þú sjálfur?“

Halldór kinkaði hægt kolli.

„Nú, ja …“

„Svaraðu!“

„Sennilega eiga allir einhverja sök.“

„Rétt!“

Honum fannst Yoko Ono hafa mjög heillandi bros. Allt í einu óskaði hann sér þess að hún tæki af sér sólgleraugun, svo að hann gæti loksins séð augun hennar. Hún lagði höndina á handlegginn á honum.

„Þú elskar hann þó, þennan stórkostlega John Lennon, er það ekki?“

Halldór kinkaði vandræðalega kolli.

„Ja sko, tónlistin hans …“

„Ég elskaði hann líka. Mig langaði til að John væri hamingjusamur. Skilurðu það?“

Halldóri leið eins og litlum strák sem verið er að fræða um heiminn. Allt í einu fór hann að velta því fyrir sér hvað Yoko Ono væri eiginlega gömul. Var hún ekki töluvert eldri en John Lennon? Og hefði Lennon ekki orðið 67 ára í dag?

„Þú ætlaðir að skilja við hann á sínum tíma, er það ekki rétt?“ Halldór fór aftur að yfirheyra hana.

„Hélst þú ekki framhjá honum?“

Yoko Ono tók höndina af handlegg hans.

„Það lenda öll hjón einhvern tíma í kreppu,“ sagði hún. „Við áttum bæði í öðrum samböndum, en það var ekkert framhjáhald. Skelfilegt orð. Þetta voru náin vinatengsl!“

„Og var John sáttur við það?“

Yoko Ono yppti öxlum og seig um leið örlítið saman.

„Það var svo margt sem John vildi. Kannski var hann ekki alltaf hamingjusamur með mér. En hann var heldur ekki hamingjusamur sem einn af Bítlunum, því hefurðu áreiðanlega líka tekið eftir. Við eldumst öll. Við breytumst. Það er alveg eðlilegt. Eða ert þú enn sá sami og þú varst fyrir þrjátíu árum?“

Halldór hristi höfuðið annars hugar og velti fyrir sér hvort nú væri rétta augnablikið til að spyrja Yoko Ono hvað hún væri gömul en ákvað að láta það eiga sig.

Yoko Ono tæmdi úr glasinu sínu, sagði: „Hafðu mig afsakaða“ og brá sér á salernið.

Halldór andaði frá sér með samanbitnar varir og hristi höfuðið svo lítið bar á.

„Allt í góðu?“ spurði Sigga og glotti til hans.

„Á maður að trúa þessu?“ spurði hann á móti en Sigga hló aðeins við.

Yoko Ono kom til baka, gekk í gegnum staðinn án þess að nokkur yrði þess var, líkt og geimvera sem kann þá list að dulbúast. Það tók ekki nokkur maður eftir henni, því staðurinn var orðinn fullur, sumpart af konum sem reyndu að vekja á sér athygli með alls kyns glingri, hlátrum og kossaflangsi.

„Ætlar deitið þitt ekki að mæta?“ spurði Yoko Ono um leið og hún settist aftur á barstólinn við hliðina á Halldóri.

„Óli mætir alltaf of seint. En hvað með Ringo? Sagðist þú ekki vera að bíða eftir honum?“

„Ringo …“

Yoko Ono bandaði frá sér með hendinni og varð allt í einu döpur til augnanna. Hún skimaði eftir Siggu og brá tveimur fingrum á loft. Halldór borgaði þessa umferð líka.

„Getum við talað um eitthvað annað?“ sagði Yoko Ono og rauf þögnina.

„Ekki málið!“ sagði Halldór og hló við. „How do you like Iceland?“

Yoko Ono brosti sínu óræða brosi og skálaði við hann.

„Fyrir friðsamasta landi í heimi,“ sagði hún.

„Peace!“ sagði Halldór og var nokkuð ánægður með að hafa komist svona vel að orði.

Yoko Ono virti hann fyrir sér.

„Hvað heitir þú annars?“

„Halldór. Ertu alltaf með sólgleraugu?“

„Alltaf.“ Hún kipraði aftur saman varirnar. „Viltu dansa?“

Halldóri svelgdist næstum á og varð litið út á dansgólfið. DJ-Sóley var að vísu mætt við mixerinn en litla dansgólfið var ennþá tómt.

„Núna?“

„Auðvitað núna!“ Hún greip í höndina á honum og dró hann út á dansgólfið, Halldór skjögraði á eftir henni.

„Bíddu,“ kallaði hann og flýtti sér aftur að barnum, þreif drykkinn sinn og tæmdi glasið.

Nú var Yoko Ono búin að lyfta höndunum upp fyrir höfuð og hreyfði líkamann í takt við tónlistina. Hún minnti Halldór á magadansmær. Hann byrjaði slakur að dansa við hana, kinkaði kolli til DJ-Sóleyjar, eins og þau þekktust, og smellti með fingrunum. Yoko Ono dinglaði handleggjunum og sveiflaði höfðinu til og frá. Hatturinn hennar sat eins og límdur á höfðinu. Úr hátölurunum ómaði íslenskt dægurlag og Halldór var ánægður með að hafa fundið nýtt umræðuefni, enda fór ekki framhjá honum að fólk var að fylgjast með þeim. Þeir sem þekktu hann vissu að venjulega sást hann ekki á dansgólfinu. Hann beygði sig niður að Yoko Ono og kallaði: „Þetta er íslenskt popplag með Páli Óskari!“

„Ha?“

„Lagið. Íslenskt. Með Páli Óskari!“

Yoko Ono hlustaði og þagði. Hún hreyfði handleggina sífellt lengra niður, í áttina að gólfinu, beygði sig jafnvel, eins og hún væri að ýfa feld á ímynduðum hundi, færði síðan hendurnar upp, hærra og hærra, og sveiflaði þeim fyrir framan eldrautt andlit Halldórs, eins og hún væri að reyna að dáleiða hann. Nú voru þau ekki lengur ein á dansgólfinu. Það var kominn slæðingur af fólki út á gólfið, aðallega konur, og Halldóri fannst hann allt í einu vera orðinn algjört kvennagull. Hann varð enn afslappaðri, tók nokkur djörf dansspor og klappaði saman höndunum.

Þegar DJ-Sóley skellti næsta lagi undir geislann lagði Yoko Ono handlegginn um hálsinn á Halldóri og dró hann niður til sín.

„With every heartbeat!“

„Ha?“

„Lagið! Með Robyn. Þekkirðu hana ekki? Hún er frábær!“

„Já, flott lag!“

Halldór setti þumalfingurinn upp. Honum fannst Robyn hafa töfrandi rödd. Hann lokaði augunum og hreyfði höfuðið til og frá þangað til hann fór að svima.

And – it – hurts – with – every – heartbeat.

Honum fannst eins og lagið gerði hann að betri dansara. Eins og töfrar! Takturinn, hljóðblöndunin; þetta tvennt smokraði sér inn í vöðvana og tók við stjórninni. Um leið fannst honum að lagið snerti ákveðna taug í honum sjálfum, eins og Robyn væri að syngja nákvæmlega um þá innri vanlíðan sem hann hafði reynt að skola niður með drykknum við barinn. Hann opnaði augun og tók eftir því að Yoko Ono virtist líða alveg eins. Hún var mjög afslöppuð í dansinum, líkt og hún svifi í loftinu, snerist í hringi – og stóð síðan kyrr. Hún leit á úrið og greip um úlnliðinn á Halldóri.

„Við verðum að fara!“ kallaði hún.

„Núna? En af hverju?“

„Ekki spyrja. Komdu bara!“ Hún togaði hann út af dansgólfinu og í gegnum staðinn, í átt að útganginum.

Í stiganum rákust þau á Óla.

„Halldór? Ertu að flýta þér?“

„Óli? Af hverju ertu svona seinn?“

„Ég … Bíddu nú við, er þetta …“

„Ég má ekki vera að þessu, við sjáumst á eftir. Vertu hérna og bíddu eftir Ringo Starr!“

Óli horfði á eftir þeim tveimur og var á svipinn eins og maður sem fær að vita að hann eigi að bíða eftir Ringo Starr.

Um leið og þau klöngruðust út úr húsinu fór Halldór að hlæja.

„Bíddu aðeins við, hvert ertu eiginlega að fara?“

Yoko Ono sneri sér að honum.

„Sérðu þetta ekki? Það er búið að snjóa!“

Halldór var löngu búinn að taka eftir snjónum en það gerði hann ekkert uppnuminn. Yoko Ono horfði upp í svartan himininn.

„Sjást norðurljósin?“

Halldór leit líka upp.

„Það er of mikil ljósmengun,“ sagði hann.

„Gleðispillir!“

Yoko Ono vatt sér út á götuna og stöðvaði leigubíl sem nálgaðist á litlum hraða.

„Hvert ertu eiginlega að fara, fjandinn hafi það!“

„Við þurfum að komast upp á hæð.“

„Þá getum við bara labbað upp að Hallgrímskirkju. Og við þurfum engan leigubíl þangað.“

„Nei, hærra!“

Leigubílstjórinn hafði verið að hlusta. „I can drive you to the Pearl,“ lagði hann til.

Halldór andvarpaði en varð þó að viðurkenna að þetta var ekki slæm hugmynd. Hann settist aftur í bílinn, Yoko Ono sat hins vegar frammí, við hliðina á bílstjóranum.

„Ert þú ekkja Johns Lennon?“ spurði leigubílstjórinn eftir smástund en Yoko Ono svaraði engu.

Halldór kom henni til hjálpar.

„Mér finnst að þú eigir ekki að vera að þreyta frægt fólk með óþörfum spurningum.“

„Maður má nú spyrja,“ svaraði leigubílstjórinn móðgaður.

„Mér finnst það ruddaskapur.“

Þegar þau komu upp að heitavatnstönkunum fimm með glerkúplinum sem trónaði yfir borginni líkt og kóróna á kollinum á risa hoppaði Yoko Ono út úr bílnum, kvik á fæti. Halldór beygði sig fram og sagði við bílstjórann: „Geturðu beðið smástund?“

„Norðurljós!“ hrópaði Yoko Ono.

Það var ekki um að villast. Yfir flóanum sveif mjög dauf, grænleit rönd. Snjórinn endurkastaði tunglbirtunni, landslag næturinnar var baðað í ljósi.

„Venjulega eru norðurljósin miklu sterkari, þú ættir bara að sjá þegar þau byrja að dansa. Þetta er enn ekki neitt, neitt.“

„Þú ert vonlaus!“ hrópaði Yoko Ono, beygði sig niður, hnoðaði snjóbolta og fleygði honum í Halldór. Þvínæst hljóp hún með útbreiddan faðm yfir snævi þakið bílastæðið og bjó til pírúettur, eins og ballettdansmær í vímu.

Halldór hristi höfuðið, andvarpaði og hljóp á eftir henni með uppgjafarsvip. Skuggarnir af risavöxnum heitavatnstönkunum gleyptu þau beinlínis í sig.

„Bíddu!“ kallaði Halldór.

Þegar hann náði henni loks lá hún í snjónum og horfði upp í stjörnuhimininn. Hún hafði tekið af sér sólgleraugun og brosti. Honum fannst andlit hennar mjög fallegt í þessum skugga frá tunglinu. Hún leit næstum því út eins og unglingur. Hann strauk á sér varirnar. Ætti hann að krjúpa niður og kyssa hana? Ætti hann að kyssa Yoko Ono?

„Stattu ekki þarna eins og þvara, sestu niður, sýningin fer alveg að byrja.“ Yoko Ono reis upp við dogg, snjórinn hríslaðist af leðurjakkanum hennar, tækifærið var glatað.

Halldór hlýddi og settist í snjóinn við hliðina á henni. Honum varð fljótlega kalt á rassinum. „Sjáðu … núna.“

Skyndilega skaust ljóssúla upp í næturhimininn, einungis fáeinum kílómetrum frá þeim, nokkurn veginn þar sem Sundahöfnin var.

„The Imagine Peace Tower,“ hvíslaði Halldór lotningarfullur.

„Tadaa!“ sagði Yoko Ono. „Do you like it?“

Ljóssúlan var svo öflug að það var engu líkara en að hún sendi geisla sína langt út í himingeiminn.

„Hvað dregur geislinn langt?“ spurði Halldór furðu lostinn.

„Lýsingin nær óendanlega langt, hún verður hins vegar daufari þegar ljósið dreifir sér.“

Halldór leit á hana og hrukkaði ennið.

„Segðu mér, hvers vegna ert þú eiginlega hérna uppi og ekki þarna niðri? Ættir þú ekki, ég meina, að vera viðstödd?“

Yoko Ono svaraði engu. Hún virtist vera svolítið döpur og hafði ekki augun af listaverkinu sínu.

„Heldurðu að hann sé að horfa?“ spurði hún lágum rómi út í nóttina.

Halldór varð vandræðalegur. Var hún að meina John Lennon? Syrgði hún hann enn? Honum datt ekkert betra í hug en að hafa yfir nokkrar línur úr lagi, mjög lágt, hann hvíslaði nánast:

„Woman, hold me close to your heart. However distant, don´t keep us apart. After all, it is written in the stars.“

Yoko Ono lagði höfuðið á öxlina á honum.

„Takk,“ sagði hún.

Leigubílstjórinn hafði beðið þolinmóður á meðan gjaldmælirinn hélt áfram að tifa. Þau þögðu á leiðinni til baka í bæinn. Yoko Ono, sem var aftur búin að setja upp sólgleraugun, hafnaði tillögu Halldórs um að þau færu aftur á Boston. Hún sagðist vera uppgefin og ætla að koma sér í háttinn. Hún vildi að leigubílstjórinn skilaði Halldóri aftur á krána og keyrði sig síðan á hótelið. Hún vildi borga bílinn, tók ekki annað í mál. Halldór stóð svolítið ráðvilltur á milli leigubílsins og kráarinnar, beygði sig niður til að biðja þessa furðulegu konu í síðasta sinn að koma með sér inn á staðinn. Hann notaði þau rök að kannski væri Ringo Starr nú mættur, en Yoko Ono bandaði þreytulega frá sér með hendinni.

„Good bye, Halldór.“

Yoko, má ég spyrja þig að einu? Ert þetta, ég meina, ert þetta raunverulega þú?“

Hún stundi.

„You decide,“ sagði hún og brosti þreytulega.

Þegar Halldór horfði á eftir leigubílnum, sem þokaðist hægt í gegnum þvögu af drukknu fólki sem leiddist og slangraði eftir snævi þakinni götunni, hrasaði og rann til, ungar konur sem þrátt fyrir snjóinn voru í hælaskóm og stuttum pilsum, þá spurði hann sjálfan sig hvort hann hefði raunverulega eytt kvöldinu með Yoko Ono, eða hvort þetta væri allt saman ímyndun. Þegar hann var aftur kominn inn á Boston fannst honum vera runnið af sér, þó að hann væri ennþá ringlaður. Óli gat ekki hætt að hlæja.

„Sú stutta? Yoko Ono? Var þetta yfirleitt kona frá Asíu?“

Halldór fór bráðlega heim og lagðist til svefns. Þegar hann vaknaði aftur gat hann ekki stillt sig um að brosa að sjálfum sér.

„You decide,“ muldraði hann.

Eftir þetta notaði hann hvert tækifæri sem gafst til að segja frá því að hann hefði hitt Yoko Ono og dansað við hana. Það trúði honum enginn, heldur ekki núna, fimmtán árum seinna. Halldór er hættur að fara út að dansa. Boston lifði Córóna-faraldurinn ekki af og Yoko Ono er 88 ára gömul. Imagine Peace Tower heldur hins vegar áfram að senda ljósmerkið sitt út í hinar óendanlegu víðáttur alheimsins, í þeirri von að einhver gefi því gaum.