Dufteftir Bergþóru Snæbörnsdóttur

Úr skáldsögunni Duft – Söfnuður fallega fólksins. Benedikt bókaútgáfa gefur út.

 

 

 

Höfrungur sem brosir ekki

 

Marokkó 2024

Prins var enn einu sinni farinn yfir í næsta líf og skildi ekkert eftir sig nema skelina. Nú lá hann innpakkaður í grænt flísteppi með tyggigúmmíbleikan varalit og ljósan augnskugga í kringum innfallin augun. Glitrandi glimmer í kinnunum. Stjörnustrákur, þú ert orðinn fallegur aftur, muldraði ég og virti fyrir mér höfundarverk mitt.

Nokkrum klukkustundum áður hafði ég læðst inn í loftlaust herbergið með kaffibolla fyrir Prins, eins og ég gerði alla morgna. Svart með einum sykurmola í gömlum og skörðóttum bolla með mynd af rúmenskum kastala og miðaldalegu letri þar sem á stóð: I’m not yelling. I’m Romanian.

Einhver ætti að rannsaka ferðalag kaffibolla um heiminn, hugsaði ég með sjálfri mér þegar ég hellti svörtu kaffinu í bollann. Við vorum ekki í Rúmeníu heldur Marokkó, fyrir utan Ouarzazate, stóra borg milli Sahara eyðimerkurinnar og Atlasfjallanna. Ég gekk að rúminu og lagði bollann frá mér en hann hafði rétt snert dökkbrúnt yfirborð náttborðsins þegar það rann upp fyrir mér að Prins lægi ekki vakandi í rúminu að horfa á mig í þögn heldur væri hann dáinn. Steindauður. Ég lagði höndina yfir varir hans, enginn hiti, enginn andardráttur.

Það var eins og skerptist á öllum skilningarvitum, eins og ég hefði stigið í gegnum ósýnilega himnu og inn í nýja vídd þar sem allt flæddi og rann saman en var að sama skapi einhvern veginn meira. Prins var grár í framan og líflaus en með opin augu sem virtust elta mig um herbergið. Örlítil froða í munnvikunum, andlitið teygt og afskræmt í síðasta andardrættinum, örlaði ekki fyrir brosi, móða yfir augunum. Hafði hann æpt? Hafði hann verið hræddur? Hann hafði gert þetta áður. Aftur og aftur og aftur. Nú var hann kominn yfir í enn eitt lífið. Hvers vegna brosti hann ekki?

Ég fann fyrir lyktinni í herberginu með öllum líkamanum. Hún var þung og súr og kitlaði nefið á mér og kokið. Gæsahúð spratt upp á sólbrúnum upphandleggjum mínum, bringunni, fótleggjunum. Ljós dúnninn á framhandleggjunum stóð upp í loftið. Svona loðnir handleggir þýða að þú verður rík, ómaði rödd gamla grunnskólakennarans míns í höfðinu á mér. Hún þurfti nú ekki að sjá loðnu handleggina á mér til að geta giskað á það – í ljósi þess að ég tilheyrði einni ríkustu fjölskyldu landsins.

Innan úr eldhúsinu frammi heyrðist hávær og hvell rödd Destiny og lágværari rödd Jill sem ávítaði Destiny fyrir að hafa aftur gleymt að vaska upp eftir morgunmatinn. Fjörug danstónlist barst líka að utan úr litla hátalaranum sem við slökktum aldrei á. Önnur skóreimin á svörtu hlaupaskónum mínum var laus. Ég fór á hnén og reimaði skóinn. Hjartað í mér sló hægt en taktfast.

Þegar ég stóð aftur upp gekk ég hægt en ákveðið að glugganum og dró frá þykk kremlituð myrkvunartjöldin sem ég hafði hengt upp til að halda herberginu svölu og dimmu. Sólin skall á Prins eins og kastljós. Húðin slöpp og lafandi yfir höfuðkúpunni svo kinnbeinin og stórt nefið stóðu upp í loftið. Hann minnti á gljáandi, gráan höfrung sem hafði rekið á land. Með hendurnar spenntar utan um nánast tóman vodkapela úr plasti uppi við bringuna. Eina verkjalyfið sem virkar, fannst mér ég heyra hann segja, djúpri syngjandi röddu. Ég þurfti að spenna fingur hans í sundur til að ná pelanum af honum.

Svo lagðist ég við hlið hans og tók varlega utan um horaðan líkamann sem var eins og hamur snáks, eins og hann myndi leysast upp ef ég kreisti hann of fast. Ég hjúfraði mig að Prins, boraði nefinu ofan í öxlina á þykkri hettupeysunni sem hann hafði verið í öllum stundum þó svo að úti væri yfir þrjátíu stiga hiti og engin loftkæling í herberginu nema gömul vifta með viðarspöðum sem sveifluðust með háværu klikk, klikk, klikk hljóði í loftinu.

Þar sem ég lá með svalan líkama Prins í fanginu fann ég fyrir djúpstæðri löngun til að deyja líka en þessi dauðalöngun var ólík þeirri sem ég hafði upplifað áður. Algjörlega áreynslulaus, hvorki full af örvæntingu né létti. Bara ískaldri kyrrð. Eins og það að deyja væri varla ákvörðun en frekar viðbragð, líkt og að liggja í baði og láta sig renna aftur á bak á kaf í volgt vatnið. Ég svipaðist um í leit að einhverju beittu sem ég gæti skorið mig með en sá ekkert nema tómar vínflöskur og einu verkjalyfin sem voru innan seilingar var paracetamol sem myndi tæpast geta drepið mig.

Þegar ég hafði legið með Prins í fanginu í nokkra stund fann ég eitthvað blautt. Raki var byrjaður að smjúga í gegnum bleiku leggingsbuxurnar mínar. Ég stökk á fætur og fletti sænginni af Prins og þá gaus upp svo hræðileg lykt að ég kúgaðist og hélt niðri í mér andanum. Á klofinu á gráu, þykku joggingbuxunum var stór, dökkur blettur. Hann lá ofan í polli af þvagi og svörtum, blóðugum skít.

Prins hafði tæmt sig þegar hann umbreyttist.

Allt þetta haust hafði Prins legið undir teppi og sæng í myrkvuðu svefnherberginu og sofið. Hann var orðinn gulur í augunum og gulur um andlitið og hárið á honum varð stökkt og þunnt. Hann var klæddur í þykkar peysur undir sænginni en skalf samt af kulda.

Hann hafði verið með nánast stöðugan niðurgang og blæddi í hvert einasta sinn sem hann fór á klósettið. Djöfulli blæðir úr rassgatinu á mér, sagði hann í fyrstu eins og það væri fyndið en eftir því sem mánuðirnir liðu lak smám saman úr honum allur raki svo líkami hans varð þurr og stökkur eins og púpa skordýrs. Hann fékk sár í munnvikin og húðin, sem vanalega var svo dökk og gljáandi og þykk, varð náföl og alsett rauðum þurrkublettum.

Prins varð svo brothættur að eitt sinn handleggsbrotnaði hann við það eitt að detta af klósettinu þegar liðið hafði yfir hann. Helvítis motherfuckers, drullusokkar og aumingjar, ekki dirfast að óhlýðnast mér, öskraði hann ef einhver minntist á lækni. Við bjuggum um brotið eftir bestu getu með spelku úr tálguðum spýtum og þykku sjali.

Smám saman hætti Prins að geta gengið hjálparlaust svo við þurftum að vera stöðugt vakandi fyrir kveinum hans til að hjálpa honum á klósettið og aftur til baka upp í rúm. Hann neitaði að borða, drakk bara svart kaffi og hreinan vodka til að deyfa sársaukann og át svolítið saltkex inn á milli ef hann fann fyrir hungri. Hann reykti hverja jónuna á fætur annarri þegar kvalirnar voru sem mestar.

Ef ég reyndi að setja slappan og þurran tittlinginn á honum upp í munninn á mér var það eins og að ætla að blása lífi í dauðan hýðisorm en samt varð hann reiður þegar ég gafst upp. Hóra, umlaði hann hálfsofandi. Ætlarðu að gefast upp? Fokking hóran þín, getur ekki einu sinni tottað tittling.

Með hverjum deginum varð andardráttur hans grynnri. Skrapp líkami hans meira saman. Mig langar ekki að deyja, ég get enn orðið að gagni, grét hann í fanginu á mér og ég minnti hann á að hann væri ódauðlegur. Ég sagði honum söguna aftur og aftur:

Sál þín er tíu þúsund ára gömul. Þú ert með þrjú hjörtu í bringunni af því að eitt er ekki lengur nóg. Þú hefur starað í eldstungur á sléttunni og hlaupið á eftir villtum dýrum.

Þú hefur lifað óendanlega mörg líf. Þú dóst á krossinum. Þú dóst undir tré á Indlandi. Nú deyrð þú í eyðimörkinni, umkringdur þeim sem elska þig. Tilgangur þinn er að forða okkur frá því að tortíma okkur. Aftur og aftur og aftur og aftur og aftur og aftur.

Ég þoli ekki öskur aðdáenda minna, ég nenni þessu ekki lengur, sagði Prins þvoglumæltur og horfði hatursfullt í augun á mér áður en hann fálmaði eftir vodkapelanum.

Nú var hann farinn. Hann dó einn en ekki til einskis.

Og það var ég sem stóð yfir útskitnum líkama hans. Prins var vissulega farinn úr hylkinu en við höfðum ekkert annað til minningar um hann og síðasta minningin mátti ekki vera af honum svona. Ég yrði að gera hann fallegan aftur.

Ég fór úr blettóttum leggingsbuxunum og henti þeim út í horn á herberginu. Svo fór ég úr stuttermabolnum og batt hann um andlitið á mér til að kæfa lyktina áður en ég hófst handa við að klæða Prins úr fötunum. Hann var ótrúlega þungur miðað við hversu visinn líkami hans var orðinn. Ég tók lakið af rúminu og vafði svo sokkunum og fötunum hans og öllu inn í lakið og setti í hrúgu á gólfið. Ég þvoði nakinn líkama hans með barnaþurrkum sem við notuðum til að strjúka af honum eftir að hann hætti að komast í sturtu. Þurrku eftir þurrku þar til ég kláraði pakkann. Reifaði hann svo inn í grænt flísteppi eins og nýfætt barn, strauk froðuna úr munnvikunum, dró fram snyrtibudduna mína og byrjaði að gera hann fallegan upp á nýtt.

Extreme makeover baby, baby, baby boy, raulaði ég með sjálfri mér og nuddaði þykku, frönsku rakakremi inn í kinnarnar, ennið, hökuna.

 

Bergþóra Snæbjörnsdóttir

Bergþóra Snæbjörnsdóttir