Serótónínendurupptökuhemlareftir Friðgeir Einarsson

Brot úr skáldsögunni Serótónínendurupptökuhemlar sem er væntanleg í byrjun nóvember. Benedikt bókaútgáfa gefur út.

 

 

 

 

 

Í sömu byggingu og heilsugæslan var apótek. Á meðan Reynir beið eftir að lyfseðillinn væri afgreiddur skoðaði hann lyfjabox úr plasti sem til voru í þónokkru úrvali. Hann ákvað að festa kaup á einu slíku með sjö hólfum, lok hvers hólfs merkt með upphafsstaf vikudaganna. Honum fannst vissara að hafa skipulag á þessu, þó að ekki stæði til að hann tæki önnur lyf en læknirinn hafði rétt í þessu skrifað upp á, og það yrði bara ein pilla í hverju hólfi. Hann vildi síður að lyfjatakan færi í handaskolum.

Reynir hafði uppi á bíl pabba síns á bílastæðinu, sansgráum jeppa. Þegar hann mætti í tímann fyrr um morguninn var himinninn olíusvartur, en nú var byrjað að birta, útlit fyrir að sólin skriði fram hvað úr hverju. Hann stökk upp í bílinn, skellti á eftir sér og brotnaði saman. Ekkasogin djúp og hávær, en þar sem hann taldi litlar líkur á að neinn heyrði í honum – þetta var býsna vel hljóðeinangraður bíll – fannst honum engin ástæða til að halda aftur af sér.

Reynir var ekki vissi hvort hann gréti af létti eða sorg. Kannski eftirsjá? Af hverju hafði hann ekki gert þetta fyrr? Fyrir löngu. Var þetta allt og sumt sem hann þyrfti að gera og segja til að verða almennilegur? Hversu mörg ár höfðu farið í súginn? Að láta allt þetta út úr sér við ókunnuga manneskju – hvað var hann að hugsa?

Hún hafði ekkert kippt sér upp við það sem hann sagði, ekki þrýst á rauðan hnapp undir skrifborðinu eða skipað öryggisvörðum að bera hann út í spennitreyju. Hann gekk enn frjáls. Eða myndi einhver elta hann út á bílastæðið?

Hann leit ósjálfrátt til beggja hliða og í baksýnisspegilinn en varð einskis var. Allt var með kyrrum kjörum.

Hann þurrkaði vangana, ræsti bílinn og bakkaði út úr stæðinu.

Um leið og Reynir kom inn úr dyrunum heima hjá sér fór hann inn á bað, tók bréfpokann úr apótekinu upp úr úlpuvasanum, las fullt nafn sitt og heimilisfang af litlum miða,

reif sig í gegnum pokann og umbúðir merktar lyfjaheiti og framleiðanda, og hélt að lokum á lítilli plastöskju sem hringlaði í þegar hann hristi, sem og samanbrotnum bréfmiða sem – útbreiddur – var í laginu eins og vélritunarörk sem hafði verið klippt upp eftir miðju og límd aftur saman. Þetta var heilmikill texti, letrið smátt og liturinn það daufur að Reynir sá sig knúinn til að setja upp gleraugu. Þetta var eins og að rýna í frumstætt bókarform, stranga eða rollu, hugsaði hann með sér. Færi ekki betur á því að einhvers lags fræðimaður réði í þessi torræðu tákn áður en innsiglið yrði rofið?

Lesningin reyndist hins vegar fullkomlega óspennandi, þurr og tilþrifalaus. Því var lýst hvernig virka efnið í lyfinu yki þéttni þeirra boðefna í heilanum sem yllu gleði, og tilheyrði lyfið þess vegna flokki lyfja sem kölluð væru „sértækir serótónínendurupptökuhemlar.“ Þá voru taldar upp mögulegar aukaverkanir: Ógleði, höfuðverkur, stíflað nef, minnkuð matarlyst, eirðarleysi, óeðlilegir draumar, erfiðleikar við að festa svefn, syfja, svimi, geispi, skjálfti, náladofi, niðurgangur, hægðatregða, uppköst, munnþurrkur, aukin svitamyndun, verkir í vöðvum og liðamótum, tanngnístan, æsingur, taugaveiklun, felmturköst, truflanir á bragðskyni, yfirlið, sjóntruflanir, hárlos, þyngdartap, hraður hjartsláttur, þroti í handleggjum eða fótleggjum, blóðnasir, árásargirni, sjálfhvarf – hugtak sem hann hafði aldrei heyrt áður og vissi ekki hvað þýddi – ofskynjanir, breytingar á hjartslætti, oflæti, aukin hætta á beinbrotum, óvenjulegar blæðingar frá meltingarfærum og fleiri líffærum, þroti í húð, tungu, vörum, koki eða andliti, ofsakláði, erfiðleikar með að anda eða kyngja, skyndilegir vöðvakippir, erfiðleikar við þvaglát, hárlos, truflanir á kynlífi,

þar á meðal seinkun á sáðláti, stinningarerfiðleikar, minnkuð kynlífslöngun og sársaukafull standpína, gulur litur á húð og hvítu augna, hraður og óreglulegur hjartsláttur, aðsvif, útvíkkað ljósop, sjóntruflanir og eyrnasuð var meðal þess sem maður gat búist við að verða var við í kjölfar inntöku.

Sem og þungbærari sjálfsmorðshugsanir og kvíði.

Þetta síðasta fannst Reyni skjóta skökku við. Voru þess háttar hugsanir ekki nákvæmlega það sem lyfinu var ætlað að ráða bót á?

Seinna í textanum kom fram að flestar aukaverkana væru óalgengar og sumar líklegar til að dvína aftur þegar líkaminn hefði aðlagast meðalinu og hugurinn væri farinn að starfa eðlilega. En út af þessu síðasta, þessu með sjálfsmorðshugsanirnar, var mælst til þess að náinn aðstandandi læsi fylgiseðilinn og væri settur inn í málin – til öryggis, ef allt færi á versta veg.

Þung byrði að leggja á Gerði, hugsaði Reynir og andvarpaði. – Þung byrði fyrir hvern sem er. Hann þyrfti að hugsa vandlega hvernig hann bryddaði upp á þessu umræðuefni, finna heppilegan tíma.

Hann fiskaði eina töflu upp úr öskjunni og virti hana fyrir sér. Sporöskjulaga, beinhvít eins og pínulítil tönn. Öðru megin upphafsstafur lyfjaheitisins, lítið e, grafið í flötinn; í miðjunni hinum megin lítil rauf til að gera það auðveldara að brjóta hana í tvennt.

Læknirinn mæltist til þess að hann tæki hálfa töflu daglega fyrstu vikuna, en hækkaði skammtinn upp í heila töflu þaðan í frá. Þetta var spurning um aðlögun fyrir kerfi líkamans, sagði hún. Reynir lagði töfluna sem hann hafði tekið úr öskjunni á neðstu hillu baðskápsins, þrýsti vísifingrunum á hvorn enda svo hún brotnaði í tvennt, svo gott sem án áreynslu, án erfiðis.

Hálf tafla á dag í eina viku, sjö daga? Sjö er oddatala. Ef hann færi eftir uppleggi læknisins sæti hann uppi með hálfa töflu að vikunni liðinni. Hvað ætti hann að gera með hana? Fara með hana í apótekið og láta farga henni? Eða geyma hana þangað til hann hætti að taka lyfið, hvenær sem það yrði, mögulega eftir einhver ár? Mögulega fyrr? Læknirinn hafði ekkert sagt um hvenær lyfjameðferð yrði hætt – hann hafði ekki spurt – en kannski yrði honum ráðlagt að trappa sig niður með því að taka hálfan skammt yfir eitthvert tímabil, eina viku til dæmis.

Reynir gerði sér grein fyrir að hann var að ofhugsa. Það var það sem Gerður kallaði það þegar henni fannst framtaksleysi hans keyra um þverbak, þegar hún hafði hann grunaðan um að hafa bollalagt allar mögulegar lausnir við tilteknu vandamáli en ekki getað valið neina – með þeim afleiðingum að vandamálið stóð eftir óleyst.

Varla var þetta svo nojið. Ef hann tæki hálfa töflu til og með næsta þriðjudegi, tæki hann alls átta sinnum hálfa töflu en færi samt eftir fyrirmælum læknisins. Ókei, já. Auðvitað.

Hann horfði á þann helming sem hafði ekki farið aftur ofan í plastöskjuna í lófa sínum. Átti þessi litli, hvíti klumpur þá að leysa allt? Að fremja dularfullan seið með boðefnunum í heilanum og reisa hann upp úr eymdinni, glæða anda hans fjöri, gefa lífinu tilgang?

Slökum aðeins á, karlinn minn, hugsaði Reynir með sér. Markmiðið fyrst um sinn var bara að honum liði aðeins betur.

Að allt yrði aðeins léttara. Tilgangurinn, viðreisnin, hamingjan – það voru stærri verkefni. Þetta var ekki eins og þrýsta á rofa – „nú er myrkur, nú er ljós.“ Allt þyrfti að fá að hafa sinn gang. Engin ástæða til að fara fram úr sér í væntingum.

En hvað hefði orðið úr lífi hans ef þessi viðburður hefði átt sér stað fyrr? Fyrir tíu árum? Tuttugu? Hvað væri hann að gera? Hvar ætti hann heima? Byggi hann kannski með einhverri annarri en Gerði? Ætti hann önnur börn? Hafði hann sóað ævinni í leit að hugarró sem hann var eftir allt saman ófær um að búa yfir? Hafði hann sóað ævinni í að brynja sig fyrir áföllum sem ekki var hægt að forðast? Skapað persónuleika sem var of þögull og flókinn til að hægt væri að finna höggstað á honum? Of ábyrgur og fyrirsjáanlegur til að hægt væri að gagnrýna hann? Hafði hann sóað ævinni í að líða eins og hann hefði sóað ævinni? Sóað ævinni í að líða eins og hann ætti að vera að gera eitthvað annað en akkúrat það sem hann var að gera? Eins og hann væri að missa af einhverju? Eins og allt hefði orðið betra ef hann hefði gert eitthvað öðruvísi?

Hann sá fyrir sér að hann gæti ferðast aftur í tímann og hitt sjálfan sig fyrir sem ungling eða ungan mann, uppburðarlítinn og hjárænulegan. Hann langaði til að segja þessu ungmenni eitthvað – en hvað? Hvernig myndi hann ráða sjálfum sér heilt? Gerðu eitthvað strax! Myndi hann segja það? Ekki bíða.

Ævin fram til þessarar stundar – hann hugsaði um hana, slakaði á í kjálkunum og stakk töfluhelmingnum upp í sig.

 

 

Friðgeir Einarsson