eftir Sigurjón Bergþór Daðason

 

 

Synesthesia

 

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2024

 

Það er ómögulegt að ímynda sér nýjan lit
utan
eða innan
litrófsins.
En stundum sjá mennirnir lit
þegar þeir heyra hljóð,
eins og tónskáldið Skríabin
sem samdi ljóð fyrir sinfóníuhljómsveit,
eða Rachmaninoff
sem dreymdi
prelúdíu fyrir píanó.

Einn maður heyrir liti,
annar bragðar á hljóði,
sá þriðji þreifar á lykt.

Þá er leðurblakan ekki blind
sem hugsar sér hvellinn
við sköpun alheimsins
þegar hún hangir á hvolfi
í myrkri hellisins
þar sem tilveran virðist undraverð.

Tungumál hennar
hljómar eins og smellir
án merkingar
en tónarnir birta henni veggina í kring,
þakta bylgjóttu veggfóðri,
tónverk sem enginn sér
nema hún
í þessu óviðeigandi samkvæmi
aðskilinna skynfæra.

 

 

 

Sigurjón Bergþór Daðason

Sigurjón Bergþór Daðason

 

 

 

Umbrot (Sæmundur, 2023)

Umbrot (Sæmundur, 2023)

Kafli úr skáldsögunni  Umbrot. Sæmundur gefur út.

 

 

1. kafli

 

 

 

Höndin virðist ekki tilheyra honum. Þannig hugsar hann og hikar. Þessi hér er næstum því tilbúin. Hann heldur áfram með verkið, notar sínar eigin hendur til að smíða nýja útlimi, afrit sem eru gerð eftir fyrirmynd. Gervihöndin liggur á borðinu fyrir framan hann. Einhver er að líkja eftir einhverju. Sambandsleysið líður hjá. Þegar hann vinnur rennur skynjunin saman við verkið svo hann finnur fyrir fullkomnum samruna hugar og handa. Kunnuglegt verkstæðið umlykur hann mjúklega eins og ábreiða, fléttuð saman úr ótal þráðum. Hann þarf ekki að sjá hvar tangirnar og skrúfjárnin liggja. Allar festingar smella saman eins og hann hafði gert ráð fyrir. Nýi líkamshlutinn sem hann smíðar fullkomnast, lið fyrir lið.

Þegar síminn hringir virðist hljóðið berast úr fjarlægð. Athyglin hverfur frá verkinu sem hefur átt athygli hans alla og það rennur upp fyrir honum að síminn er innan seilingar, á borðinu við hliðina. Það stendur Marteinn á skjánum og til þess að svara þrýstir hann á græna táknið sem lítur út eins og gamalt símtól; hann spyr sig hvort merkið verði enn notað þegar allir eru dánir sem mundu fyrir hvað það stóð. Símar með snúrum eru úreltir. Mannkynið er orðið þráðlaust. Hugurinn er enn bundinn við vinnuna svo samtalið fer hægt af stað. Þeir heilsast og Marteinn spyr: „Manstu eftir Ármeyju Jónsdóttur?“

Pétur biður hann að endurtaka nafnið. Í fljótu bragði kannast hann ekki við það.

„Hún er leikkona sem var með okkur í grunnskóla. Ertu viss um að þú munir ekki eftir henni?“

Fyrst Marteinn gerir svona mikið úr þessu hugsar Pétur sig betur um, snýr sér á snúningsstólnum frá skrifborðinu, í átt að glugganum, og athugar hvort minningin skjóti upp kollinum. Hann býr sig undir að einhvers konar mynd byrji að mótast í þokunni þegar hann heyrir þetta nafn úr fortíðinni; að í huganum séu einhver fótspor sem samferðamanneskja þeirra hefur skilið eftir sig. Það gerist ekki neitt. Hann reynir að halda huganum opnum í von um að myndin birtist en gefst loksins upp fyrir tóminu sem mætir honum. Kannski hefði hann átt vera duglegri að varðveita fortíðina, en hún safnast upp því lengur sem hann lifir og það verður alltaf erfiðara að halda utan um það allt. Hann hefur reynt að fylgjast með skólafélögum sínum gegnum samskiptamiðlana, rámar í fólk frá þeim árum, en andlitin hafa máðst út með tímanum. Þetta gæti verið ljóshærð stelpa sem fór oft í handahlaup á skólalóðinni. Hann er ekki viss.

„Hefur hún leikið í einhverju sem maður kannast við?“ spyr Pétur þótt hann fari sjaldan í leikhús.

„Já, ég held það, en ég horfi eiginlega aldrei á sjónvarpið lengur.“

Þessu miðar ekkert áfram. Hann teygir sig eftir tölvunni sem liggur innan um verkfærin á borðinu og leitar á netinu. Það birtist fjöldi mynda. Þessi leikkona. Hún er kunnugleg, hefur náð þeirri stöðu að verða andlit sem fólki finnst notalegt að sjá í margvíslegum hlutverkum á skjánum, nafnlaus vinur sem það þekkir ekki en þykir samt svo vænt um. Hann man ekkert eftir henni úr skóla. Á tímabili sást hún í auglýsingu þar sem hamingjusöm hjón bjuggu í húsi en draugar hentu til innanstokksmunum og brutu þá; samt voru þau áhyggjulaus því tryggingafélagið þeirra hugsaði um fólk. Hún virðist hafa gert það gott.

„Af hverju spyrðu?“

„Ég var að spá hvort þú gætir hjálpað mér,“ segir Marteinn.

Pétur réttir úr bakinu, finnur að hann er stífur í herðunum og færir sig frá borðinu þar sem hann smíðar útlimina, eftirlíkingar úr málmi, plasti og sílíkoni fyrir þau sem þurfa. Sólargeislar endurkastast af ryðfríu stáli á borðplötunum við gluggann. Hann pírir augun, óviss um úr hvaða átt skær birtan berst. Í kringum hann liggja fætur, hendur, eyru og nef til þess að fylla upp í eyður svo ókunnugt fólk geti samlagast betur hugmyndinni um venjulega manneskju.

Þeir hafa ekki heyrst í nokkrar vikur. Eftir að Marteinn eignaðist börn hefur mestallur tími hans farið í fjölskyldulífið, eða það sem er í daglegu tali kallað rekstur heimilisins. Af einhverri ástæðu finnst Pétri undarlegt að Marteinn biðji svona um aðstoð upp úr þurru. Hann reynir oftast að bjarga sér sjálfur.

„Það er svolítið erfitt ástand heima núna,“ segir Marteinn. Þetta hljómar ekki vel. Þeir berast burt frá umræðuefninu, einmitt þegar Pétur átti von á því að Marteinn segði hvað hann vildi þessari leikkonu.

Marteinn er ekki viss um hvort hann eigi að fara út í þetta. „Þegar álagið er mikið er eins og hún fari í lás og geri ekki neitt. Hún þolir ekki draslið og óreiðuna, missir stjórn á sér þegar ég skil eftir kaffibolla á borðinu, en gerir ekkert sjálf.“ Marteinn er ekki að tala um leikkonuna heldur Telmu, eiginkonu sína til margra ára. Pétur hefur alltaf kunnað vel við hana. Áður en þau tóku saman var Telma vinkona systur hans, en það var fyrir löngu síðan. Það er eins og það hafi gerst í öðru lífi. Telma og Stefanía hlógu saman út af einhverju sem þær sögðust ekki geta útskýrt fyrir honum. Fyrst varð Telma kærastan hans Marteins, svo sambýliskona, loks konan hans, og hefur verið í mörg ár. Hann hefur ekki hugmynd um hvar Stefanía er í dag. Hún er einhvers staðar úti í heimi á endalausu ferðalagi.

„Af hverju líður henni svona illa?“

„Það er mikið að gera hjá henni í vinnunni,“ segir Marteinn. „Ef einhver býður okkur eitthvað treystir hún ekki neinum fyrir börnunum. Henni leiðist samt að fara aldrei neitt.“

Þetta er örugglega ekki í fyrsta skipti sem það er álag á heimilinu, en Marteinn segir yfirleitt ekki svona mikið. Pétur treystir sér ekki til að leggja neitt til málanna.

„Hún gerir sér ekki grein fyrir því að ég hef fært miklar fórnir. Ég hef sagt nei við tækifærum til þess að geta verið til staðar fyrir fjölskylduna. Hún sér það bara ekki.“

Marteinn hefur alltaf haft sterka þörf fyrir að hafa konu sér við hlið og virðist ekki geta lifað einn. Það getur það auðvitað enginn, en menn finna samt út úr því, breytast í furðulegar verur, eins og dýr í glerbúrum dýragarðsins. Líf margs fólks, jafnvel alls fólks, er endalaust stríð við að virðast ekki furðulegt í augum annarra. Telma kom inn í líf Marteins á námsárunum, stuttu eftir að hann hafði orðið fyrir vonbrigðum í ástamálum, eftir að annað samband gekk ekki upp, næstum því eins og hann hefði skipt einni stelpu út fyrir aðra. Miðað við það sem gengur á hjá fólki í lífinu þá voru þessi sambandsslit ekki nein hrikaleg vandræði. Marteinn sagði að hann hefði aldrei áður getað rætt málin við kærustur sínar. Hann vildi gefa í skyn að þetta væri lykillinn að farsælu hjónabandi. Núna hefur greinilega eitthvað gerst.

Marteinn hefur farið beinu brautina, eins framarlega og mögulegt er. Hann hafði brennandi áhuga á tölvum og málvísindum í skóla, en sérhæfði sig í þýðingarforritum. Þetta átti augljóslega vel við hann. Hann lýsti því eins og lífi sínu væri skipt upp í tvær samhliða akbrautir og einhvern veginn væri hann staddur samtímis á þeim báðum. Á annarri væri hversdagslífið, það sem hann fékkst við dagsdaglega, en samhliða því væri í vitund hans linnulaus straumur af fallbeygingum, málhljóðum og setningafræði. Hann var alltaf að velta því fyrir sér hvernig við skynjum setningar; þær væru samsettar úr orðum sem mætti búta niður í málhljóð. Tækninni fleygði fram og hann var sannfærður um að alls staðar yrðu talandi tölvur í framtíðinni. Marteinn komst á mikið á flug í náminu, hlaut athygli fyrir rannsóknir sínar á tungumálinu; hvernig er best að kljúfa óendanlegan fjölbreytileika og blæbrigði þess niður í smæstu einingar sem merking hlutanna veltur á, þótt endanlegur leyndardómur tungunnar virðist alltaf sleppa undan tilraunum mannkynsins til að afhjúpa hann.

Pétur vildi óska þess að hann ætti áhugasvið sem gripi hann jafn ákaflega, eitthvað sem hann gæti nefnt köllun sína á svipaðan hátt og Marteinn. Honum hefur fundist þægilegt að leita í vinnuna. Einhvern veginn þarf hann að borga fyrir það hvernig hann lifir, en nútímamaðurinn þarf líka að drepa tímann og þannig hefur vinnan bjargað mörgum, allavega þeim sem geta fundið raunverulegt heimili sitt á flótta. Pétur getur ekki sagt hvað er svona skelfilegt við það að sitja aðgerðalaus. Það hljómar ekki svo illa þegar hann hugsar út í það, en samt þolir hann það ekki.

Ólíkt vini sínum þá tók það Pétur svolítinn tíma að finna rétta hillu. Eftir menntaskóla vildi hann ekki fara í frekara nám. Hann vann um tíma í matvöruverslun, síðan í næturvinnu í prentsmiðju. Það breyttist allt þegar hann hleypti stálinu inn í líf sitt. Það var sérstök fegurð í málminum sem hafði heillað hann þegar hann starfaði í prentsmiðjunni; sexhyrndir boltar, stangir og hjól; öll þessi form sem eru steypt í varanlegt mót. Taktfastur hrynur vélarinnar leiddi huga hans að ráðgátunni um eilífðina. Hann lærði stálsmíði, en entist ekki nema einn vetur. Hann hafði þörf fyrir að kljást við nákvæmari verkefni, meiri yfirlegu, án þess að vita alveg hvað hann vildi. Hann skráði sig í verkfræði í háskólanum. Þetta þótti skynsamlegt og bauð upp á fjölbreytta kosti á vinnumarkaði. Hann getur ekki sagt fyrir víst hvers vegna verkfræðin varð fyrir valinu, á þessum tíma gat hann hugsað sér svo margt. Þegar hann lítur til baka skilur hann ekki lengur sjálfan sig í fortíðinni, rúmlega tvítugan piltinn sem tók þessa stefnu. Hlutirnir breytast. Eftir grunnnámið hafði hann fengið nóg af háskólanum.

Það reyndist erfitt að fá vinnu, sérstaklega þar sem hann hafði ekki lokið framhaldsnámi. Þetta var stuttu eftir efnahagshrunið. Það var offramboð á nýútskrifuðum verkfræðingum. Í dagblaðinu (á þeim tíma skoðaði fólk blaðið í leit að atvinnu) var auglýsing frá stoðtækjaframleiðanda. Fyrirtækið hafði nýlega gert stóran samning við varnarmálaráðuneyti Serbíu um framleiðslu á gervilimum fyrir bæklaða hermenn, þúsundum útlima. Þetta kallaði á gríðarlega aukningu á starfseminni. Hann sótti um þótt hann hefði ekki rétta menntun. Stoðtækjafræði var ekki kennd í háskólum á Íslandi, en hann gat talið fram reynslu sína af stálsmíði. Hann var boðaður í viðtal, kom vel fyrir og var ráðinn sem aðstoðarmaður á verkstæði.

Síðan þá hefur hann fengist við fjölbreytt viðfangsefni, hendur, fætur, fingur, nef og eyru. Hann vinnur eftir mælingum frá stoðtækjafræðingum. Hann hittir sjaldnast fólkið sem notar vöruna. Oftast hefur hann ekkert nema tölur á blaði um stærð og hlutföll. Fyrst fannst honum gott að starfið skipti máli, hjálpaði einhverjum. Það hrjáði hann stundum áður fyrr að honum fannst hann ekki gera neitt gagn í heiminum. En það gerist á hverjum degi að fólk missir útlimi. Hann getur smíðað það sem vantar á líkamann. Kannski er það viðeigandi að einhver sem stendur sig svona vel í því að vera venjulegur, eins og hann, geri öðrum kleift að gera það sama, falla í mótið. En er alveg víst að þetta muni gera gagn? Stundum veltir hann því fyrir sér hvernig manneskja það sé sem muni ganga á þessum fótleggjum sem hann smíðar eða beiti höndunum. Hvað ef þessir nýju útlimir verða notaðir til þess að fremja glæpi eða beita ofbeldi? Þetta getur hann ekki vitað.

Spjallið hjá þeim Marteini dregst á langinn því það er langt síðan þeir hafa heyrst, þessir gömlu vinir sem fást við að smíða eftirlíkingar; gervilimi og talandi tölvur.

„Ég frétti að systir þín sé komin aftur,“ segir Marteinn.

„Ég hef ekkert heyrt af því. Hvernig veist þú það?“

„Telma hitti hana um daginn.“ Marteinn getur ekki sagt honum meira en það.

Það verður örstutt hlé á talinu meðan þeir hugsa til baka, en skynsamir menn hafa ekki tóm til að dvelja lengi við minningar. Ef vinnan verður athvarf þitt verður stöðugt að halda áfram, eins og maður sem hleypur niður brekku og getur ekki stoppað án þess að detta fram fyrir sig í brattanum. Marteinn er fyrri til að rjúfa þögnina.

„Við vorum að tala um Ármeyju Jónsdóttur,“ segir Marteinn.

Leikkonan. Pétur var búinn að gleyma henni. „Hvernig kemur hún inn í þetta?“

„Hún ætlar að lesa upp fyrir mig. Gætir þú verið með mér þegar við tökum upp?“

„Lesa upp?“

„Fyrir talgervilinn.“

„Auðvitað,“ segir Pétur. Marteinn er að hanna íslenskan talgervil, forrit að erlendri fyrirmynd sem talar óaðfinnanlega íslensku. Með nýrri nálgun á þessa tækni mun röddin hljóma svo eðlilega að ekki verður hægt að greina hvort viðmælandinn sé manneskja eða vél. En Pétri finnst grunsamlegt að Marteinn ræði um dularfulla leikkonu sem var með þeim í skóla á sama tíma og það eru vandamál í hjónabandinu. Hann spyr sig hvort það stefni í einhver vandræði því Marteinn virðist ekki eins og hann á að sér að vera.

„Af hverju viltu að ég sé með þér?“

„Það er þægilegra að einhver sé þarna. Þú þarft ekki að gera neitt flókið. Ég sýni þér þetta þegar þú kemur. Þú situr bara við tölvuna og lætur eins og þú sért að fylgjast með.“

Það er eitthvað bogið við þetta. Ef hann þarf ekki að gera neitt sérstakt þá þarf hann ekki að vera þarna. Hann þykist gá í dagbókina meðan hann hugsar sig um. Það er lítið eftir af verkefnum, aðallega af því að hann er búinn að vinna fram eftir alla daga. Hann getur hlaupið frá og hefði reyndar ekkert á móti því að skyggnast betur inn í heim tungumálsins, þar sem Marteinn dvelur löngum stundum. Það er gott að finna sér eitthvað nýtt af og til, þótt ekki sé nema litla bugðu á leið sinni til þess að halda kvöldkvíðanum í skefjum. Hann hefur verið í vandræðum síðustu vikur. Þegar hann leitar að bíómyndum finnur hann ekki neitt grípandi á efnisveitunum. Bókastaflinn sem hann tekur með sér heim af bókasafninu liggur nánast óhreyfður þegar komið er að skiladegi. Hann virðir fyrir sér andlitið á Ármeyju á tölvuskjánum og veltir fyrir sér hvort hann gæti fengið áhuga á leikhúsi.