Eftir Ilya Kaminsky

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2024

Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson þýddi 

 

 

 

Eftirlitsstöðvar

 

Á götunum setja hermennirnir upp heyrnareftirlitsstöðvar og negla tilkynningar á staura og dyr:

 

HEYRNARLEYSI ER SMITANDI SJÚKDÓMUR. YKKUR TIL VARNAR ÞARF AÐ SETJA ALLA ÞEGNA Á MENGUÐUM SVÆÐUM Í SÓTTKVÍ INNAN 24 KLUKKUSTUNDA!

 

Sonja og Alfonso kenna táknmál á torginu í miðbænum. Þegar varðmaður gengur hjá sitja þau á höndum sér. Við sjáum liðþjálfann stöðva konu á leiðinni á markaðinn, en hún heyrir ekki. Hann treður henni inn í flutningabíl. Hann stöðvar aðra. Hún heyrir ekki. Hann treður henni inn í flutningabíl. Sú þriðja bendir á eyru sín.

 

Á þessum breiðstrætum er heyrnarleysið okkar eina götuvígi.

 

 

 

Fyrir stríðið bjuggum við til barn

 

Ég kyssti konu
með freknur sem
eggja nágrannana.

Hún var með fæðingarblett á öxlinni
sem hún bar
einsog orðu fyrir hugrekki.

Titrandi varir hennar
táknuðu komdu í rúmið.
Fossandi hárið í miðjum

samræðum táknaði
komdu í rúmið.
Ég gekk um í mínu fuglabjargi hugsana minna.

Já, ég nam hana á brott og bar í rúmið
á kóngastól minna loðnu arma –
en aðskildar varirnar

þýddu bíttu aðskildar varir mínar.
Við lágum undir svölum
sængurfötum. Sonja!

Það sem við gerðum.

 

 

 

Sprengjuárás klukkan 4 um nótt

 

Líkami minn hleypur eftir Arlemovsk-stræti, fötin mín í koddaveri:
Ég leita að manni sem líkist
einmitt mér, til að gefa honum Sonju mína, nafnið mitt, skyrtuna mína –

Það er byrjað: nágrannar klifra upp í sporvagnana
á fiskmarkaðnum, kljúfa hverja
andrá í tvennt. Vagnarnir tvístrast einsog innyfli í sólskininu –

Pavel hrópar, Ég er svo fjári fallegur að ég stenst það ekki!
Tveir strákar sem halda enn á tómatsamlokum
stökkva inn í birtuna frá vagninum, hermenn miða á andlitin. Eyrun.
Ég finn hvergi konuna mína, hvar er ólétta konan mín?
Ég, líkami, fullorðinn karlmaður, bíð þess
að springa einsog handsprengja.

Það er byrjað: Ég sé bláan kanarífugl lands míns
kroppa brauðmola úr augum sérhvers borgarbúa –
kroppa brauðmola úr hári nágrannans –
snjórinn yfirgefur jörðina og fellur beint upp einsog vera ber –

að eiga land er svo mikilvægt –
að rekast á veggi, á götuljós, á ástvini, einsog vera ber –
Blár kanarífugl lands míns
rekst á veggi, á götuljós, á ástvini –
Blár kanarífugl lands míns
fylgist með fótleggjum þeirra hlaupa og hrasa.

 

 

 

 

Koma

 

Þú kemur um hádegi, dóttir mín litla, vegur aðeins 12 merkur. Sonja setur þig upp á píanóið og leikur vögguvísu sem enginn heyrir. Í barnaherberginu hljóðlátt hviss einsog eldspýtu sé sleppt í vatn.

 

 

 

 

 

Heyrnarlaust lýðveldi er nýstárleg og áhrifarík ljóðabók sem fjallar um lífið í litlum bæ á ímynduðum stað þar sem stríð geisar. Ljóðin dansa á mörkum sögu og leikrits, eru full af tilfinningum og hvergi slegið af þegar lýst er hatrömmum átökum með skelfilegum afleiðingum. Bókin er væntanleg í íslenskri þýðingu Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar.

Skáldið Ilya Kaminsky fæddist 1977 í Ódessa í Úkraínu, sem þá var hluti af Sovétríkjunum, en fluttist til Bandaríkjanna með foreldrum sínum ungur að árum og skrifar á ensku. Verðlaunabók hans Dansað í Ódessa kom út í íslenskri þýðingu Sigurðar Pálssonar og Sölva Björns Sigurðssonar árið 2018.

Viðburður