eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur

 

Brot úr Vandamál vina minnaVandamál vina minna. Bjartur-Veröld gefur út.

 

 

 

Vandamál vina minna

Bakpokinn minn
er keyptur notaður
í öllum hólfum leitaði ég einhvers
frá fyrri eiganda

en þau voru tóm.

Steypti strax innihaldi
gömlu töskunnar
í hann
smeygði handleggjum
í ólar
byrjaði að
safna.

Enn ber ég hann
á bakinu
úttroðinn
slitinn
margsamanragaðan.

Fullan af
framhjáhöldum og jökulbráð
aukakílóum
andvana börnum
ættarkvillum og ærumeiðingum
bókasafnssektum og einhverju sem hann átti
en getur ekki skilað

ósögðum orðum
mannorðsmorðum
staðnum milli tannanna, þar sem alltaf situr eitthvað fast
og lygum
sem erfast í beinan kvenlegg.

Í fremra hólfinu er óþurrkasumar
sem sandfokið sverfur
milli varanlegrar ástarsorgar
og of mikillar kvenhylli.

Á botninum liggja blóðböndin
flækt í samlíðan
sektarkennd
sorg

ótrúverðugan
sannleika

ykkar.

Þið eruð vandamál
vinir mínir
en líka netið
sem ég fell í
þegar lífið skreppur
undan fæti.

 

 

 

Myrkurmóðir

 

Að baki hverri
ljósmóður
stendur svartklædd systir
sem kennd er
við dimmuna

Þegar búið er
að lauga barnið
strjúka burt blóð
bakvið eyrun

Kemur hún
klappar því á kollinn
hvíslar:
ég er til
þegar þú ert það

 

 

Skæri

 

Loftið
umhverfis mig
er fullt
af vængjum.

En ég veit ekki
hvort þeir tilheyra
verndarenglum
eða ránfuglum.

Það hvín í eyrum
augu myrkvast.

Frelsisbúrið
barmafullt.

Svo ég klippi
og klippi
út í loftið.

Vængstýfi allt
til öryggis.

 

 

Félagsskapur í fámenni

 

í glugganum gegnt eldhúsborðinu
býr ókunnug fjölskylda
sem kemur bara í ljós
í myrkri
en situr til borðs með okkur
á hverju kvöldi

þar er stelpa
jafngömul mér
með skugga
yfir augunum
en ef ég brosi til hennar
brosir hún
á móti

 

 

 

 

Harpa Rún Kristjánsdóttir