Far heimur, far sælleftir Ófeig Sigurðsson

Brot úr skáldsögunni Far heimur, far sæll. Mál og menning gefur út.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

HÉR ERU ENGIR jöklar og engin fjöll. Hér eru engir dalir og hvorki holt né hæðir. Hér er enginn skógur. Höfðar eru hér hvergi eða múlar. Hvorki finnast hér eyjar eða eldhraun. Ekkert grjót er hér eða merkilegir steinar.

Hér eru engin kennileiti.

Landið er vaxið stör og allskonar stráum, nálum og elftingum og standa þúfur þétt saman, vítt og breitt, svo langt sem augað eygir.

Hér er mýri og hér eru flæður, foröð og dý.

Fátt þornar hér um slóðir og er vatnið ýmist fúlt, salt, súrt eða mengað rauða.

Frammi við sjóinn gerir útfiri með álum og lónum, sundum og flúðum, en sker og klappir klæðast þangi og sölvum. Utan við liggur brimgarður hvar aldan brotnar með dyn. Á landi ofan við sjávarkambinn eru hinsvegar svæður, flóð og dælar. Keldur finnast víða hvar börn grandast tíðum sem og í opnum mógröfum þá ís brestur að vorum.

Sjaldan er heiðríkja en skývörp stór með bólstrum og birtubrigðum. Yfir hafinu hrannar loftið sér í hrauka og hellur og boðar það landnyrðing. Klakkar og steðjar á himni vita aftur á móti á útsynning. Þokuslæður fylgja ljósaskiptum eða móska með dumbungsrökkri, nefnt skítur í daglegu tali. Þá er skítur í lofti, segja menn, skítur, skítur, skítur.

Vatnsveður og él ganga úr öllum áttum árið um kring með þrumum og eldingum.

Þéttbýlla er hér en annarsstaðar í þessari fjarlægu og afskiptu annexíu konungsveldisins. Mest fátæklingar og aumingjar. Auður og jarðir hafa safnast á fárra hendur en örbirgð sækir restina heim. Örnefni vilja brjálast og glata merkingu sinni og uppruna rétt eins og mannfólkið. Landamerki flytjast búferlum að næturlagi meðan jarðeigendur sofa.

Ólæsi allsherjar, menntun engin.

Kýr sjaldséðar. Féð fátt. Hundar öngvir.

Keldusvínið vakir hér með vofuhríni í náttfögnuði. Fátt um fiðurfé núorðið, bæði fugla og engla.

Menn ganga erinda sinna á aurþrúgum.

Kvenmenn margir sæfarandi.

Hringlandaháttur í ástamálum. Óekta börn. Skilnaðir tíðir.

Refum er útrýmt með því að setja nálar í kjötbollur en skinnið selt farmönnum á fimmtán fiska. Ýmislegt annað drepst af kjötbolluáti þessu þótt skinnið af því sé ekki selt, svo sem börn og fávitar.

Af þeim 15 til 20 börnum sem venjuleg kona eignast lifa aðeins tvö til þrjú í góðu árferði. Þá eru útburðir og öll þau sem andvana fæðast ekki meðtalin.

Landfarsóttir höggva skörð í vonir fólksins hér sem annarsstaðar.

Jarðskjálftar tíðir. Ég kom á bæ þar sem kona fæddi barn sitt úti á hlaði, hún hafði hlaupið úr húsum. Konan lagði barnið við skemmuna og þar dó það.

Börnin eru best geymd hjá Guði, segir máltækið, ekki foreldrum sínum.

Enginn læknir er hér eða ljósmóðir. Doktor Húbert Lazarus var sendur hingað af amtmanni konungsins og ferjaður yfir ósinn til okkar. Hann rannsakar hið háa hlutfall barnadauða sem þykir meiri hér en í öðrum útnárum heimsveldisins.

Afturgöngur eiga sök alla.

Morbus gallicus, sem lærðir menn kalla fransósu og þykir víst enn verri en hollenska sósan, veldur helst andvanafæðingum, segir physicus Húbert Lazarus neðanmáls í grein sinni um endurkomu barnsfararsóttarinnar (febris puerperalis) sem veldur dauða sængurkvenna og leggst helst á þær mæður sem varpa afkvæmum sínum í mógrafir. Annars deyja börn nú til dags með ýmsu móti eins og úr ginklofa, kíghósta og blóðkreppu til dæmis. Móðurmjólkin uppspretta alls ills sem endranær og er aðeins gefin í neyð, þá úr sem allra fjarlægastri túttu. Kúamjólkin reynist þokkalega en kaplamjólkin betur og sauðamjólkin enn betur og geitamjólkin þeim mun betur en gyltumjólkin best og þá heit, gerjuð, staðin og kekkjuð, blönduð vínsteinsdufti eða því sem áður hét svefnvaki, svokölluð mikkamjólk, eftir þeim atburðum sem áttu sér stað í borginni Chicago í eina tíð þá íslenskur þjónn að nafni Mikki Finnson var þar og eitraði fyrir fólk; en rændi menn sofandi og sarð konur þeirra án samþykkis.

Hvað sem því öllu líður eru hér svo fáar skepnur að draumamjólkin gefst sjaldan. Sumir hafa gefið börnum sínum volga tíkarmjólk í dropateljara og reynist vel svo sem forðum í Borg eilífðarinnar, sem Rómverjakeisari hefur náðarsamlegast endurinnlimað í sitt launhelga Alveldi, þótt því kunni að fylgja blóðsúthellingar þegar fram líða stundir.

Drepsótt er í hundum um þessar mundir og þeir eru jafnvel orðnir dýrari en smjör.

Hér er ávallt vöruskortur en aldrei hörgull á ógæfunni.

Doktor Húbert Lazarus hefur biðlað til fólksins að hætta að hossa börnum. Hann segir að mörg andlát megi rekja til þessháttar hristings. Læknirinn krufði eitt ungbarn hér við morgunverðarborðið í Stoxeyrarstofunni á dögunum og sagði í skýrslunni sem prentuð er í tímaritinu List & lækningar fyrir sunnan að brjóstbeinið hafi verið bogið sem hnakkur og að fingraför fóstrunnar hafi verið vel greinanleg á síðubeinum.

Veðramót eiga hér sinn átthaga. Hornriði heitir hafaustanvatnsveður og hrakviðri en fjallsperringur landnorðan-þræsingur, þurr og kaldur. Þessir vindar mætast á sléttunni og krossast þá hvað gegn öðru, vindar og regn yfir landinu, aldan og skipið á hafinu, ljósið og myrkrið í húsunum, andinn og efnið í manninum.

Árstíðir villa á sér heimildir.

Umhleypingar umtalsverðir.

Sú mikla hljómsveit sem nefnd er norðurljós er veigamest á vetrum yfir ströndinni og leikur þögla útfararsálma fyrir týndar sálir vetrarbrautarinnar.

Skáld heyra snarka í þessu.

Í grábliku fer gíll oft fyrir sólu en úlfur rennur á eftir með regnbogalitum rosabaugi allt um kring glóandi yfir flóanum. Loftsjónir ýmiskonar ekki óvanalegar að vetrum svo sem snæljós, mánabaugar, vígahnettir og allskonar brandar, jafnvel hjálmabönd. Hrævareldar sjást logandi á kirkjum uppi, stöngum eða vindskeiðum, en mýraljós brenna í mógröfum niðri. Loft verður stundum svo rafmagnað að rasshár skjóta gneistum.

Á vetrum hleypur þýfð jörðin í jökul og gerist örðug yfirferðar hvort sem er á broddum, þrúgum, skíðum eða skautum. Þúfurnar þiðna á víxl með sulli og sora og eru vegir víðast hvar engir eða hafa máðst úr minnum gamalla manna og aðeins legið í gröf þeirra. Engar vörður eru hér nema sokknar í mýrina, sumir meina að þær hafi tekist á loft og flogið út í geim til að heimsækja frændur sína á öðrum hnöttum. Ferja gengur yfir ósinn milli flóðs og fjöru þegar straumar útfallsins kyrrast.

Mór og ruddi er hér hafður til eldiviðar, einnig skán, tað, skarn, saur, bæði dýra og manna, og hafa eldhús og náðhús sumsstaðar runnið saman í eitt, og er það menning. Þang er brennt í húsum við sjávarsíðuna og fæst af því hár hiti skamma stund og svælir reykurinn vofur úr húsakynnum upp um túður og vindaugu en grauturinn er saltaður með öskunni.

Fífl eru þeir kallaðir sem hér búa.

 

 

~ † ~

SÍÐASTA FORNALDARHETJA NORÐURLANDA

 

Það er verið að binda mann á hest. Hendur hans hafa verið reyrðar fastar á bak aftur en mennirnir bisa við að tjóðra saman fætur hans undir kviðinn á hestinum. Þrisvar sinnum hefur hann mölvað járnhlekki af höndum og fótum sér og flúið út í nóttina. Nú á hann ekki að sleppa aftur til þess að leggjast út á fjöllum með þeim tröllum sem hann kallar vini sína.

Maðurinn hefur verið brennimerktur í andlitinu með bókstafnum A. Fætur bókstafsins á enninu nema hvor við sína augabrún en oddbogann ber að hársrótum og gengur lykkjan í flútti við hægra kollvik út á gagnaugað yfir þrútna æð eins og hlaðinn vegur með blóði drifna steinbogabrú yfir blátt fljót angistarinnar í fjarlægu landi innra með honum.

Svaðan á markinu upphleypt og dökk.

Fimm menn eiga að flytja fangann yfir heiðina til Reykjavíkur og koma honum þar í skip til Kaupmannahafnar, eða Sjoppenhán eins og sumir segja, þar sem hann á að raspa rauðavið fram í rauðan dauðann. Í lýsingu sem sýslumaðurinn hefur sett saman um A–, svo verðirnir ytra geti borið kennsl á hann, ef einhverjir fleiri eru með sama brennimerkið, það er að segja A á enninu, segir að A– sé 31 árs gamall og yfir meðalmanni á hæð og vel vaxinn og sá vöxtur sé í góðum hlutföllum eða líkaminn samsvari sér vel. Hendur séu litlar, fætur smáir og leggir þunnir. Augun séu blá, hár jarpt, nokkuð sveipótt, jarpar augabrúnir og skeggið þunnt en krullað á hökunni, munnur lítill, há kinnbein, A– sé magur og fölur í framan, augnaráðið nokkuð myrkt og ófrítt en hvorki óstöðugt né flóttalegt. Hann sé oftast í fúlu skapi en geti þó verið kátur og málgefinn. Hann noti enga gerð af tóbaki og drekki heldur ekki mikið brennivín, en þegar hann drekkur það æsir það hann ekki upp heldur róar. Svo það sé ráð að hella því upp í hann ef hann er með einhvern derring.

Menn segja að A– sé það sem í fornsögunum er kallað hermannlegur en ég hef aldrei gerst svo frægur að lesa fornsögu. Kannski sjá sumir bara skítugan og skepnulegan mann sendan til móts við sín maklegu málagjöld en A– hefur samt sína fínlegu drætti. Hendur hans eru næsta kvenlegar, hreyfingar mjúkar og öruggar, sterklegar, óvæntar, eins og þeirra karlmanna sem hafa helgað líf sitt dansi. Ég hef heyrt hann kallaðan Síðustu fornaldarhetju Norðurlanda og veit ekki hvort sú þversögn er meint sem skaup eða grín eða hvað þetta eigi að fyrirstilla. Hér sit ég, bara einn lítill skítur á þúfukolli við gamlan höggstokk rjóðan af blóði aldanna í morgunsólinni, og veit ekki neitt nema ég horfi á mennina hnýta brennimerkta manninn fastan á hestinn og hef bara gaman af því.

 

 

 

~ † ~

HÁTÍÐLEG HÚÐSTRÝKING

 

Auk brennimerkingar böðulsins var A– dæmdur til kaghýðingar 3×27 svipuhögg við staur, sumir segja 9×9 húðstrýkingum eftir fornum útreikningi og bera fyrir sig fingrarím og tunglstöður og allskonar rúnaletur en allt kemur fyrir ekki því dómararnir beggja vegna Atlantsála þessa heims og annars eru sammála um að honum skuli veita samtals 81 högg á beran bossann.

Annars fæ ég bara höfuðverk af svona útreikningum. Því enda þótt ég kunni ekki skil á allri þessari talnaspeki á bak við vandarhöggin er ég samt ekki svo tornæmur að ég kunni ekki að telja. Ég veit að nú hefur A– þegar verið hýddur þrisvar sinnum níu höggum eða samtals tuttugu og sjö höggum. Einum þriðja. Strokurnar taldi ég sjálfur og sá húð hans hlaupa í strimla undan svipu böðulsins og flugu flygsurnar um loftin blá eins og leðurblökur í tunglsljósi yfir þökum höfuðborgarinnar. Margir voru viðstaddir enda hátíðleg stund í réttarfarslegum skilningi þegar blóðugum ræmunum rign- ir yfir almenning. Fólkið ljómaði af hrifningu. Léttúðugar drósir fórnuðu höndum og skríktu þegar þær reyndu að grípa með sér strimil, sem þær gætu síðan neglt á veggþilið ofan við rúmið hjá sér og fundið stafa frá lufsunni hlýjum ástarbríma og öryggi á viðkvæmri gelgjunni.

Hrottinn var sjarmör.

Þær langaði að éta hann. Og ef til vill átu þær hann þegar pjatlan vindþurrkaðist í súg og gegnumtrekki og heitir það ýmist kúrekasnakk, víkinganammi eða djörkí.

A– á til góða 54 högg þegar hann kemur í þrælabúðir fílariddarans í Sjoppenhán. Það er þannig hugsað að þá skuli allt rifið upp sem gróið er og hann þannig táknrænt boðinn velkominn til erfiðis ævina á enda í hlekkjum.

En huggunin felst í því að enginn endist í Rasphúsinu lengur en þrjú ár.

Nú í millitíðinni hefur bakið gróið saman við nærskyrtuna og er hart sem skjöldur. Öðru hverju fettir hann sig og grettir og brýtur upp blóðstorkið hrúðrið eins og hvalur sem liggur við köfnun undir hafís í þröngum firði. Ég sé þetta líka sem glóandi eldrásir að opnast á bakinu eins og undan hálfstorknuðu hrauni við eldborg. Ég sé blóðið leka undan blárri úlpunni niður lendar hestsins, niður um fætur skepnunnar sem hann situr á, yfir hófana sem hafa flutt manninn gegnum eld og reyk tímans, og renna ofan í mýrina, blandast þar rauðanum sem síðar verður hamrað járn.

Hamrað járn til varnar mönnum eins og honum.

 

 

 

 

Ófeigur Sigurðsson

Ófeigur Sigurðsson / Mynd: Gassi