Men: Vorkvöld í Reykjavíkeftir Sigrúnu Pálsdóttur

Brot úr skáldsögunni Men: Vorkvöld í Reykjavík sem kom út í október. JPV útáfa gefur út.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

II

 

Hann var á vappi fyrir framan bygginguna um stund áður en honum tókst að finna innganginn. En í sömu mund og stór glerhurðin opnaðist inn í íburðarmikið anddyrið var hann ávarpaður, kurteislegum og mjóum rómi. Við hlið hans stóð eldri maður í grárri úlpu og með langa svarta tösku á bakinu.

„Er það ekki Baldvin?“

Hann þekkti manninn strax en nafnið vildi ekki koma til hans. Fagottið. Hávaxið, magurt og þunnhært:

„Ekki býrð þú hér?“

Baldvin heilsaði glaðlega en sagði svo ekki vera. Erindi hans væri vinnutengt. En áður en hann náði að spyrja frétta af þessum gamla lágpípuleikara var sá hinn sami byrjaður að spyrja á ný:

„Nei, auðvitað ekki! Enda býr hér ekki nokkur maður. Eða hvað?“

„Jæja.“

„Jú, eða býr hún ekki einmitt hér, Men?“

Fagott horfði spyrjandi á Baldvin sem kinkaði kolli til samþykkis, og þá skyndilega áttaði maðurinn sig á samhengi hlutanna, hann þakkaði fyrir viðtalið við „okkar mann“, eins og hann kallaði tónskáldið með hendurnar á lofti á forsíðu síðasta helgarblaðs, og fór í framhaldinu að ræða vítt og breitt um tónsmíðar samtímans og einhverja eldgamla uppákomu í hljómsveitinni þar til hann kom aftur að því sem greinilega átti hug hans allan:

„Hún er þá enn á lífi? Men?“

„Ja, við skulum vona það!“

Nú flissuðu þeir báðir þar til Baldvin dæsti og upplýsti þennan starfsbróður sinn um það að konan væri reyndar að verða áttræð eftir viku og því væri hann hér staddur. Það yrði ekki á allt kosið.

„Þú gerir allt vel, ungi maður,“ sagði fagottleikarinn þá, greip um breiðar ólar töskunnar eins og leyniskytta með sundurhlutað vopn sitt á bakinu á leið í verkefni. Tilburðir hans bentu þannig til þess að hann væri um það bil að kveðja, en orð hans til annars:

„Bara ekki gleyma að spyrja hana um vorkvöld eitt í Washington árið 2001!“

Svo veifaði Fagottið grannri hendi sinni, auðsjáanlega viss um hvað myndi gerast næst; að Baldvin myndi stoppa hann og spyrja hvað hann ætti eiginlega við. Og þá stóð auðvitað ekki á svari þótt á því væri svolítill formáli. Hann leit út á höfnina og sagði þessa sögu ekki hafa farið víða. Sjálfur hefði hann hana frá gömlum vini sínum sem hafði á þessum tíma verið sendiráðsritari í Washington:

„Þetta er auðvitað saga íslenskra utanríkismála í hnotskurn. Utanferðir með óljóst og lítið erindi. Ofan á það bættist getuleysið og takmörkuð tungumálakunnátta. Hún var þarna auðvitað nýtekin við embætti, og eitthvað hafði hún víst drukkið þegar þessi uppákoma átti sér stað.“

„Og hvað?“

„Ja, hvað heldurðu!“ Fagott muldraði eitthvað ofan í hálsmálið á ljósgráu úlpunni sinni og var svo farinn að skríkja. Baldvin brosti framan í þennan einkennilega en vinalega mann og hristi höfuðið. Svo leit hann upp eftir byggingunni og því næst skyndilega á úrið sitt. Og þá rankaði félagi hans við sér. Dró andann: „Þú ferð ekki með þetta neitt lengra!“

„Þetta hvað?“ Baldvin horfði á eftir manninum, ætlaði næstum því á eftir honum, ekki bara til að spyrja hvort hann hefði heyrt rétt heldur langaði hann hálfpartinn til að elta hann inn í tónlistarhöllina, hverfa inn í þá veröld sem eitt sinn, en í allt of skamman tíma, var daglegur veruleiki hans – og þar með burt frá því ægilega verkefni sem beið hans, verkefni sem hann hafði í raun meiri áhuga á en hann vildi viðurkenna fyrir sjálfum sér, og hafði eftir undirbúning helgarinnar náð að heltaka hug hans á þann hátt að hann vildi helst losna undan því. En það var engin leið héðan út nema inn í bygginguna því hann var orðinn of seinn. Hann stóð í anddyrinu og leitaði að réttum hnappi. Og til allrar hamingju hafði hann númerið á íbúðinni skrifað á miða því bjöllurnar voru ekki merktar mannsnöfnum. Hann þrýsti létt en örugglega á þá sem merkt var Lævirki ehf.

Um leið og lyftan tók af stað áleiðis upp á efstu hæð rann það upp fyrir honum að líklega myndi hún opnast beint inn í íbúðina. Ósjálfrátt tók hann skref aftur á bak, leit undan og í spegilinn. „Þú gerir allt vel, ungi maður!“ Baldvin horfði á andlit sitt og tautaði: „Nei, ekki Ferneyhough!“ Eitt þeirra tónskálda sem hann hafði valið til að spila á hæfnisprófinu, til að marka sér sérstöðu meðal hinna umsækjendanna, sýna færni sína á þetta minnsta hljóðfæri hljómsveitarinnar með hæstu tónana, pikkolóflautuna, með því að flytja tónverk sem útheimti tækni og lestur á nótnaskrift út fyrir mörk hins mögulega. Og hugsanlega fór það öfugt ofan í dómnefndina – tónarnir létu ekki beinlínis vel í eyrum, og í raun var ógerningur fyrir nokkurn að meta hvernig til hefði tekist, svo flókin og margbrotin var samsetning sköpunarverksins.

Ó, það sem skilur á milli feigs og ófeigs í þessum grimma heimi tónlistar er svo agnarsmátt! Allur hans ferill fram að þessu prófi hafði verið ein samfelld sigurganga, allar götur frá því að hann gekk í hálfgerðri leiðslu niður Laugaveginn á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins árið 1999, aðeins 12 ára gamall. Hann hafði verið kallaður til liðs við lúðrasveitina á síðustu stundu vegna forfalla; hljómsveitarstjóri skólahljómsveitarinnar hafði fengið það verkefni að finna flautuleikara degi fyrir kröfugönguna og auðvitað hafði hann valið þennan efnilega þverflautunema sem gat leikið flest án mikils undirbúnings. Sjá roðann í austri – hann brýtur sér braut. Með kaskeitið ofan í andlitinu og í allt of stórum búningi þrammaði hann niður eftir götunni í íslensku roki og rigningu eins og puti meðal roskinna blásara sveitarinnar, en þegar stór og mikill maður sló málmhlemmunum saman við upphaf Nallans um það bil sem sveitin nálgaðist Bankastræti var eins og hellt væri úr fötu. Baldvini litla fannst hann varla geta hreyft sig í þessum grænu og rennblautu ullarjakkafötum en hann gat spilað sem aldrei fyrr, textinn sem móðir hans hafði lesið fyrir hann kvöldið áður færði honum einhvern ólýsanlegan kraft: en auðmenn ganga gulli skreyttir / og góssi saman raka þeir. Og viti menn, á Ingólfstorgi stóð múgurinn fagnandi, móðir hans þar einhvers staðar í þvögunni með hnefann hikandi á lofti. Faðir hans var líka alveg örugglega með hnefann á lofti, þó ekki væri það þarna á torginu.

En Baldvin var ekkert á leið í Lúðrasveit verkalýðsins; hann var einfaldlega eitt mesta efni sem kennari hans, unga flautustjarnan, hafði rekist á um nokkurt skeið. Hann kom fyrst fram sem einleikari opinberlega 13 ára gamall, gekk í blásarakvintett stuttu síðar og skömmu eftir stúdentspróf hélt hann til Vínarborgar í framhaldsnám. Heimkominn var hann nokkrum sinnum kallaður til liðs við hljómsveitina, og sinnti kennslu en þegar faðir hans lést af voveiflegum orsökum tæmdist honum svolítill arfur – þriðjungur af illa farinni kjallaraholu í Safamýri – sem gerði honum kleift að láta draum sinn rætast og halda til ársdvalar á Ítalíu og stunda þar nám hjá einu af átrúnaðargoðum sínum.

Nokkrir ómblíðir bjölluhljómar og lyftan stöðvaðist. En hún opnaðist ekki. Baldvin strauk þvalt ennið og hagræddi töskunni á öxlinni. Eftir dágóða stund gekk hann að hurðinni en í stað þess að banka á koparflekann stakk hann fingrunum varlega í rifuna og reyndi að spenna hurðina upp. Hann lagði annað augað upp að raufinni en á sama augnabliki opnaðist hurðin, hægt og hljóðlega.

Hann horfði inn í stóra forstofu. Á veggi klædda dökkum viði, stóra rennihurð beint af augum og þrennar dyr á vinstri hönd. Á rennihurðinni var örlítil glufa. Hann steig varlega inn á ljóst ullarteppi, staðnæmdist við gamalt útskorið hringborð fyrir miðju forstofunnar. Á því stóð stytta af manni og konu í faðmlögum. Bronsafsteypa af kossi sem hann átti að þekkja.

Hvert er ég kominn? hugsaði hann, taugaspenntur, og ræskti sig framan í stórt málverk sem hékk á veggnum til hægri handar. Portrett af karlmanni í dökkgráum jakkafötum með eiturgrænt hálsbindi, aðra hönd á stólarminum, hina á breiðu lærinu. Hér hafði listamanninum sannarlega tekist að fanga festu viðfangsefnisins andspænis þeim óróa sem birtist í impressjónískum pensilstrokum í bakgrunni myndarinnar.

Þetta var Friðþjófur. Friðþjófur Guðmundsson. Það fór ekki á milli mála. Ríkisforstjórinn og kaupsýslumaðurinn; sem ungur háskólakennari í reikningshaldi hafði hann fallið fyrir nemanda sínum sem leiddi til þess að hún lauk ekki prófi heldur ól honum tvo sonu, og varð síðar hægri hönd hans í umfangsmiklum og afar farsælum viðskiptum sem uxu og blómguðust uppi á heiði og úti á nesjum, í takt við vaxandi spennu austurs og vesturs. En svo reið áfallið yfir við upphaf tíunda áratugarins: sonarmissir. Sagt var að móðirin hefði lokað sig af á skrifstofunni, grafið sig ofan í bókhaldið og ekki sinnt öðru í langan tíma, eða allt þar til eiginmaðurinn, forstjórinn, áttaði sig á því að eitthvað þyrfti að gera – og það fyrsta, og reyndar það eina, sem honum kom til hugar var breiður faðmur flokkskvenna. Enda tók Landssambandið henni opnum örmum og ekki leið á löngu uns hún var komin í stjórn þess. Upphaf afskipta hennar af stjórnmálum voru því hluti af sorgarferlinu, og smám saman öðlaðist hún styrk, steig í pontu og hóf upp háa raust sína. Og menn spurðu sig: Hvaðan kemur þetta öryggi, þessi stilling? Því styrkur hennar virtist hvorki sprottinn af þekkingu né sannfæringu fyrir því sem hún talaði um, heldur virtist hann eiga rætur í yndi hennar sjálfrar af að hlýða á eigin rödd; flokkurinn hafði fundið sína næstu konu. Enda ekki vanþörf á þegar þær streymdu nú allar inn á þing undir eigin merkjum og annarra flokka.

Þingmannsferill hennar var þó ekki beinlínis litríkur til að byrja með. Konan gat vissulega talað hátt og skýrt en var engu að síður týnd í pólitíkinni; heimur handan eigin reksturs og bókhalds var eitthvað sem hún hafði eiginlega aldrei leitt hugann að. Hún lét því hæfilega lítið fyrir sér fara enda ekki ætlast til annars af henni en að hún rétti upp hönd þegar það átti við.

En svo gerðist hið óvænta. Við skyndilegt fráfall utanríkisráðherra Íslands kom upp flókin staða innan stjórnarinnar sem endaði á því að þessi raddsterki en atkvæðalitli þingmaður var skipuð í embættið. Ákvörðunin kom flestum í opna skjöldu – ekki síst henni sjálfri – en auðvitað höfðu ýmsir á henni skýringar, og allar voru þær löðrandi í sögusögnum og samsæriskenningum um spillingu og jafnvel ólöglegt athæfi sem náðu hámarki þegar gjörðir þær sem að lokum urðu henni að falli höfðu verið afhjúpaðar. Og nú átti að rifja upp þessa stuttu en rammflóknu og viðburðaríku sögu. Með hjálp flautuleikara!

„Gakktu í bæinn,“ sagði ofur lág, víbrandi og eintóna rödd sem barst innan úr stofunni. Eiginlega hljómaði hún ekki eins og mannsrödd, það var meira eins og boðið kæmi úr einhvers konar tæki. Var frúin þá komin með vélmenni í þjónustu sína? Var það kannski þessi aðstoðarmaður sem minnst hafði verið á og átti að taka á móti honum?

„Já, það er Baldvin hér,“ sagði hann glaðlega út í loftið. Og upp í loftið. Horfði á daufa og hlýja birtuna sem streymdi undan stórum fleka uppi við hátt loftið og gerði þessa gluggalausu forstofu að einhvers konar óræðu rými sem virtist geta opnast á alla kanta; gólfinu hæglega kippt undan honum í einni svipan, hann fallið niður í dýflissu þar sem ekkert biði hans annað en að vera yfirheyrður um einhverja óskiljanlega hluti, af svörtum róbótum í þjónustu valdsins sem haldið hafði þessu litla samfélagi í heljargreipum svo lengi sem hann mundi.

Nú opnaðist rennihurðin hægt og rólega. Baldvin kipptist við. Hafði hann einhvern tíma litið þennan pínulitla og samanrekna stjórnmálamann berum augum? Fyrir utan þetta eina skipti í myrkri og slæmu skyggni fyrir um tuttugu árum? Líklega ekki, því sjónin gerði hann stjarfan, honum fannst hann horfa inn í löngu liðinn tíma jafnvel þótt hún hefði elst töluvert frá því hann sá hana síðast á ljósmynd; krullað svart hárið orðið grátt, bundið aftur í hnakkann. Hún klæddist ljósbrúnum silkikjól með mjóu belti um breitt mittið. Kjóllinn virtist þó ekki beinlínis vera samkvæmisfatnaður, frekar var hann einhvers konar morgunkjóll. Enda var hún á inniskóm. Loðnum.

Hún heilsaði með því að kinka til hans kolli og setja upp eins konar bros, og hann svaraði með því að gera slíkt hið sama, eins og honum fyndist ekki við hæfi að opna munninn fyrr en hún hefði gert það sjálf. Og án þess að horfa framan í hann gaf hún honum merki um að setjast við stórt borðstofuborð í miðju stofunnar. Þar hafði verið lagt á borð fyrir tvo: postulínsdiskur, silfurhnífapör og stórt kristalsglas á hvorum enda.

Margt fangaði athygli hans inni í þessari stóru og glæsilegu stofu – málverk upp um alla veggi – en ekkert þó eins og það sem blasti við honum á miðju borðinu; silfurbakki og á honum fjórar stórar brauðsneiðar. Hann settist við annan borðsendann, reyndi að horfa ekki á fatið. Útsýnið yfir höfnina var stórfenglegt. Hvað átti hann til bragðs að taka?

Nú setti hún tvær bjórflöskur á borðið. Á meðan hún hellti ölinu í glösin reyndi hann að gera upp hug sinn: líklega var skinkan skárri kostur því ofan á henni væri þó baunasalatið, tómatur, sveskja og sitthvað fleira úr jurtaríkinu sem hann gæti notað til að breiða yfir svínið eða á einhvern hátt dregið athyglina frá því í lok máltíðar að dýrið hefði ekki farið inn fyrir hans varir. En það fór þó ekki svo að hún rétti honum silfurspaðann til að veiða upp þennan skárri kost heldur tók hún hann sjálf í hendur og smeygði honum örugglega undir hina tegundina. Rúgbrauðið. Hráa nauta-
hakkið. Piparrótina. Kapersið og söxuðu rauðbeðurnar sem vörðu hráa eggjarauðuna falli í brotinni skurn fyrir miðju smurbrauðsins.

Hún rétti fram hönd sína og hann rétti henni diskinn. Hann reyndi að rifja upp orð ritstjórans. Hvað hafði hún sagt? Að hann hefði „þetta eitthvað“? Eitthvað sem gerði það að verkum að hann ætti auðvelt með að nálgast fólk? Hvernig mátti það þá vera að hann sat hér kófsveittur, gjörsamlega stjarfur og algjörlega ómegnugur þess að koma upp orði um ofur einfaldan og sjálfsagðan hlut? Honum var orðið það ljóst að þögn hans stafaði ekki af ótta við hörð viðbrögð gömlu konunnar við lífsstíl hans heldur voru það klaufalegir tilburðir hennar við þessar trakteringar sem gerðu hann á einhvern hátt viðkvæman og varnarlausan gagnvart henni, svo þegar hún var sest og hafði fengið sér sopa af ölinu, farið ofan í brjóstvasann á kjólnum sínum og náð þar í lítið tæki, þrýst því á barkann og sagt með steindauðri og titrandi röddu að brauðið væri ekki aðkeypt, hún hefði útbúið það allt sjálf, samkvæmt danskri hefð, var eins og eitthvað brysti innra með honum, og hann teygði sig í bjórglasið, tæmdi það til hálfs, greip um silfurhnífapörin og skar sér væna sneið af hráu kjöthakki.

 

 

 

Sigrún Pálsdóttir

Sigrún Pálsdóttir