Nátturulögmálineftir Eirík Örn Norðdahl

Tvö brot úr skáldsögunni Náttúrulögmálin sem kom út um miðjan október. Mál og menning gefur út.

 

 

 

 

 

Ísfirðingar voru löngu landsfrægir fyrir þann sið – eða ósið, að flestum þótti – að finna upp á „sniðugum“ uppnefnum, helst þannig nafni að það festist svo rækilega við viðkomandi að hann losnaði aldrei við það. Sumt var sakleysislegt, einsog þegar Sakarías beykir var kallaður Sakarías beykir, af því hann fékkst við tunnugerð, og til aðgreiningar frá Sakaríasi vaktara, sem var vaktari; annað var kvikindislegt einsog þegar Halldór Vébjörnsson í Skálavík, sem hafði neyðst til að lóga sjúkum hundi sínum eftir langa samferð, fékk nafnið Dóri hundaskýtur. Önnur voru nánast tilviljunarkennd, einsog þegar Guðna Rósinkarssyni varð það á í einhverri nepjunni að kalla rokið „tíkargjólu“ – það orð höfðu menn aldrei heyrt áður, það varð fleygt og festist við Guðna sem eftir það var ekki kallaður annað en Guðni tíkargjóla, og stundum bara Gjólan.

Viðurnefni séra Jónasar mannsparts var áreiðanlega í meðallagi kvikindislegt. Í það minnsta kunni hann því illa sjálfur, sem var óvenjulegt því Jónas mannspartur var jafnan ekkert nema óskoruð hamingja, og það vísaði til nokkurs sem hann hafði ekkert yfir að segja. Kannski mátti rekja ólund hans vegna þessa viðurnefnis til orðróms sem gengið hafði um hann í æsku að hann væri umskiptingur – að álfar hefðu numið hinn raunverulega Jónas á brott og skilið eftir einhvern álfa-Jónas. Þessu hélt fólk fram þegar það vildi vorkenna móður hans heitinni að hafa þurft að eiga við hann, ódælan sem hann var, og til útskýringar á því hvers vegna teygðist aldrei almennilega úr honum. Drottinn – eða álfakóngur, ef maður trúði á svoleiðis – hafði nefnilega komið því til leiðar að þótt séra mannspartur væri jafn breiður öðrum mönnum og jafnvel rúmlega það – drumbslegur – þá var hann varla nema tveir þriðju partar úr manni á langveginn. Það var einhvern veginn einsog skaparinn hefði ekki lokið við að teygja úr honum eða orðið uppiskroppa með hráefni í miðjum klíðum; hann var ekki nema partur af gríðarstórum rumi.

Í sjálfu sér var ýmislegt annað sem hefði mátt kalla mannspartinn og það hefur áreiðanlega verið reynt. Jónas var barnslegur í framan, feitlaginn og stóreygur með sírauðar eplakinnar og spékoppa. Hann var líka glaðlegur, músíkalskur og guðrækinn auðvitað. Hann var ættaður af Ingjaldssandi og þótti góður í glímu þegar hann var yngri. En ekkert af þessu varð mönnum tilefni til uppnefnis, að minnsta kosti ekki til jafns við vaxtarlagið, og ekki var hann heldur kenndur við móður sína, Vigdísi, einsog var þó oft gert í þessu plássi þar sem feðurnir voru yfirleitt annað hvort á sjó eða sjávarbotni.

Samt notuðu menn þetta nafn í raun þvert gegn vilja sínum, með mótþróagrettu í andlitinu, því leitun var að þeim manni sem bar illan hug til Jónasar. Það var hins vegar ekkert við þessu að gera; nafnið rímaði við manninn, hljómaði vel og þar við sat.

Það er svo skömm frá því að segja að þótt karlmenn væru oft kenndir við mæður sínar voru viðurnefni kvenna yfirleitt ekki nema framhald af því viðurnefni sem eiginmenn þeirra, og í einhverjum tilvikum feður, höfðu áunnið sér. Að vísu fengu konur mun sjaldnar viðurnefni og það var áfram satt þótt talin væru saman þau fáu sem þær fengu fyrir sína prívat eiginleika og hin sem þær fengu fyrir orð, gjörðir, atferli eða útlit manna sinna. Einhvern veginn virtist manni sem viðurnefnasmiðirnir – sem enginn vissi hverjir voru – væru annað hvort svo fullir heiftar í garð kvenna að þeim dytti ekkert fleygara í hug en „ljóta helvítis hóran“ eða svo fullir meðaumkunar yfir hlutskipti kvenna í þessum táradal að þeir vildu ekki fyrir nokkurn mun gera gys að því.

Það sem við vildum sagt hafa: Frú Sigríður var „hlutaðeigandi“ af því maðurinn hennar var „mannspartur“ og þar við sat.

 

(bls. 95-6)

 

 

+++

 

 

Þrjár kenningar höfum við heyrt um það hvernig Ingiborg Ketilsdóttir – Imba selur – fékk viðurnefni sitt.

Sú fyrsta er einföldust og gengur út á að nafnið vísi til drykkjuskaparins. Væru Ísfirðingar almennt að minnsta kosti þvalir var Imba jafnan gegndrepa og varla nema í mesta lagi að hausinn á henni skytist upp úr brennivínshafinu, augnablik og augnablik í senn.

Síðari tíma rannsóknir á bréfasöfnum í Kaupmannahöfn hafa svo kallað á aðra kenningu. Samkvæmt henni varð danskur faktor að nafni Rasmus Bille óbeint valdandi að tilurð nafnsins. Faktor þessi dvaldi á Ísafirði í rúmt ár, kom með vorskipi 1913 og fór með haustskipi ári síðar. Þetta var vel að merkja áður en áfengisbanni var komið á. Ingiborg, sem hafði verið kölluð Imba frá barnæsku, starfaði hjá Rasmusi faktor sem vinnukona, fyrst og fremst við heimilishald. Sagt var að auk þess að sinna húsverkum hafi Imba verið hjákona faktorsins, sem var ungur og myndarlegur en átti konu og börn úti í Kaupmannahöfn. Hvað um það. Vel má vera að Imba hafi elskast með faktornum, það veit enginn, en vitað er fyrir víst að hún féll kylliflöt fyrir brennivínsflöskunum sem hann otaði að henni og kom aldrei heim úr vinnu þessari ódrukkinn. Halldóra heitin í Öldunni, sem leigði henni lítið risherbergi (sama herbergi og Rósa Maja, Engilráð og Guðný leigja saman á sögutíma okkar), sagði Imbu hafa fullyrt að faktorinn vildi hafa þetta svona, að henni væri beinlínis skylt að setjast niður yfir staupin með honum milli þess sem hún tók til máltíðir og dustaði af. Skrifaði Halldóra þá foreldrum Imbu að Dynjanda í Jökulfjörðum og munu þau í kjölfarið hafa lagt hart að dóttur sinni að segja upp starfinu, Rasmus Bille væri auðsjáanlega ekki sá virðulegi maður sem hann þættist vera. Það vildi Imba alls ekki. Á vormánuðum bar svo til að faktorinn rak Imbu fyrir þennan sama drykkjuskap og hann hafði sjálfur krafist, þegar í ljós kom að drykkjan gerði henni ófært að sinna heimilinu og allt var komið í óreiðu. Þessu tók Imba eðlilega illa og sást gjarnan við faktorshúsið „í ýmsu ástandi,“ einsog það var kallað, berjandi það að utan og gargandi einhver ósköp, og var hún einu sinni færð í varðhald fyrir að hafa ætlað að bera eld að húsinu. Öll skjöl tengd þeim glæp brunnu því miður með Fangahúsinu ári áður en saga okkar gerist. Faktorinn flutti aftur til fjölskyldu sinnar um haustið og skildi Harald Haraldsson eftir sem fulltrúa sinn á svæðinu. En þessar vikur frá því hann rak hana og þar til hann fór, tamdi hann sér að kalla Imbu – við alla sem heyra vildu – „imbecil,“ eða fábjána upp á dönsku. Imbecil Ketilsdotter. Þetta misheyrðu Ísfirðingar og héldu faktorinn hafa kallað hana Imbu sel, sem þeim fannst í sjálfu sér vel til fundið.

Samkvæmt þriðju og síðustu kenningunni var Imba einfaldlega selur – föst á landi vegna bellibragða. Í þjóðsögum úir og grúir af frásögnum um seli sem ganga á land, kasta hami sínum til þess að dansa og skemmta sér um stund á ströndinni – og birtast þá mönnum oftar en ekki sem naktar konur. Heyrir til undantekninga í sögum þessum ef það kemur ekki síðan einhver, oftast einhleypur karl, sem hirðir einn haminn og læsir í kistli og neyðir urtuna til þess að lifa með sér og geta sér börn. Eru þetta oftast ólukkuleg hjónabönd því þótt tekið sé fram að urtur þessar séu ástfúsar og þyki jafnvel vænt um menn sína (sem skilja raunar oft ekki að þeir hafi gert nokkuð af sér), að ekki sé minnst á börnin sem þær hafa eignast með þessum hamstelandi mönnum sínum, þá vilja þær ævinlega snúa aftur til hafs fái þær til þess tækifæri. Þegar saga þessi var sögð um Imbu sel var því jafnan haldið fram að það hafi verið faktorinn sem stal selshami hennar og sögðust sumir vita að hann hefði brennt hann í fjörunni neðan við Norðurtanga en aðrir að hann hefði einfaldlega tekið hann með sér til Kaupmannahafnar og látið sníða úr honum pels, sem Julie kona hans klæddist um vetur, og sem vakið hefði mikla athygli meðal vina hennar – önnur eins flík hefði varla sést í þeirri merku höfuðborg. Var útlegðin frá hafinu þá líka sögð ástæðan fyrir óhóflegri drykkju Ingiborgar Ketilsdóttur, sem varð á endanum svo slæm að Dóra neyddist til þess að varpa henni á dyr – og kallaði Dóra þó ekki allt ömmu sína í þeim efnum sjálf. Sumarlangt var Imba heimilislaus en um haustið varð vinkona hennar, Ragnheiður Baldursdóttir, sem einnig hafði búið í Öldunni, ekkja þegar skip sem maður hennar var á – og raunar 15 ára sonur líka – lenti í árekstri við þýskt tundurdufl. Tók þá Ranka Imbu inn á heimilið, með það fyrir augum að fá einhverja aðstoð sjálf – hafið skuldaði henni og hún var annars ein með tvo litla drengi – eða jafnvel hugsanlega sveitarstyrk Imbu, sem reyndist síðan hvergi skráð í sveit og sannarlega ekki í Jökulfjörðum þar sem enginn kannaðist neitt við hana. Þá var Rönku auk þess fljótlega tjáð að sveitastyrkur væri ekki greiddur „óbreyttum fyllibyttum.“ Um hríð tókst að þurrka Imbu upp og sinntu þær stöllur bæði síld og fiskvaski – á þeim tíma munu hafa tekist ástir með vinkonunum, umfram hinar platónsku – en þegar Imba svo datt í það aftur varð hún slíkur baggi að þau misstu litlu kjallaraíbúðina sína við Sundstræti, hröktust fyrst upp í Hlíðarhús og þaðan í Vallarborg þegar hún var byggð – þessi fyrsta verkamannablokk bæjarins – og úr Vallarborg í kofann þar sem þær bjuggu nú með Láka litla, og þar sem séra Jónas mannspartur hafði rétt í þessu opnað útidyrnar.

(bls. 232-4)

 

Eiríkur Örn Norðdahl

Eiríkur Örn Norðdahl / Mynd: Ágúst Atlason