Boualem Sansal / Francesca Mantovani © Éditions Gallimard

Boualem Sansal / Ljósmynd: Francesca Mantovani © Éditions Gallimard

eftir Boualem Sansal

Friðrik Rafnsson þýddi

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2021.

 

 

 

 

Trúarbrögðin gera að verkum að fólk elskar Guð, en ekkert er öflugra en þau til að fá mann til að fyrirlíta manninn og hata mannkynið.

Það er rétt að lesandinn vari sig á því að halda að þetta sé sönn saga eða að hún byggist á staðreyndum. Nei, allt í henni er uppspuni, persónurnar, atburðirnir og allt hitt er til sannindamerkis um að frásögnin gerist í fjarlægri framtíð og í framandi heimi sem líkist í engu okkar heimi.

Þetta er hreinn skáldskapur, heimur Bigaye sem ég lýsi í þessu verki er ekki til og engin ástæða er til að ætla að hann verði til í framtíðinni, ekki fremur en heimur Big Brother sem meistari Orwell skapaði og lýsti svo dásamlega í bókinni 1984 var til á sínum tíma, er til á okkar tíma og engin ástæða er til að ætla hann verði til í framtíðinni. Sofið rótt, gott fólk, allt er þetta uppspuni og annað er undir ströngu eftirliti.

 

Bók 1

Í henni snýr Ati aftur til heimaborgar sinnar Qosabad, höfuðborgar Abistans, eftir tvö löng ár. Annað árið var hann á heilsuhælinu  í Sin á fjallinu Oua og hitt árið hossaðist hann eftir vegum í hverri vagnlestinni á fætur annarri. Á leiðinni kynntist hann Nas sem vinnur að rannsókn á stjórn skjalasafnsins, helgum bókum og heilögum minningum, en hann var að koma úr leiðangri á slóðir nýfundinna fornminja sem voru eldri en Char, heilaga stríðið mikla, en uppgötvun þeirra olli undarlegu uppnámi innan kerfisins og jafnvel innan  Réttláta bræðralagsins, að því talið er.

 

Ati var hættur að geta sofið. Kvíðinn helltist æ fyrr yfir hann, áður en eldarnir voru slökktir og jafnvel fyrr, þegar rökkrið lagði blæju sína yfir allt og sjúklingarnir, þreyttir eftir að hafa daglangt rápað frá herbergjum út á ganga og frá göngum út á verandir, fóru að tínast aftur upp í rúmin, dragandi fæturna á eftir sér og óskuðu hver öðrum dauflega að reyna að þrauka nóttina eftir bestu getu. Sumir þeirra yrðu ekki þarna næsta dag. Yölah er mikill og réttlátur, hann gefur og tekur eftir eigin geðþótta.

Svo skall nóttin harkalega á fjallinu. Það kólnaði svo hratt og svo mjög að gufa myndaðist við minnsta andardrátt. Úti heyrðist ógnandi hvinurinn í vindinum sem var til alls líklegur.

Honum fannst fremur notalegt að heyra kunnugleg hljóðin á heilsuhælinu, jafnvel þótt þau bæru vitni um þjáningar mannanna og væru eins og ærandi viðvörunarbjöllur eða skammarleg birtingarmynd hins vélræna manns, en þetta nægði ekki til að yfirgnæfa draugalegan dyninn frá fjallinu: fjarlægt bergmál sem hann ímyndaði sér fremur en heyrði barst djúpt neðan úr jörðinni, hlaðið ógn og skelfingu. Og þetta fjall, Oua í jaðri heimsveldisins, var yfirþyrmandi og uppáþrengjandi, bæði vegna þess hve voldugt og yfirgnæfandi það var og vegna þeirra sagna sem gengu um það milli manna í dalnum og bárust upp á heilsuhælið með hópum pílagríma sem fóru um Sin-hérað tvisvar á ári og lögðu lykkju á leið sína til að koma við á sjúkrahúsinu í leit að hlýju og uppörvun áður en þeir héldu ferð sinni áfram. Þeir komu langt að, hvaðanæva úr landinu, fótgangandi, illa til reika og með hitasótt, oft við  hættulegar aðstæður. Óræðar frásagnir þeirra lýstu dásemdum, grimmd og glæpum og voru afar áhrifamiklar vegna þess að þeir töluðu lágum rómi, gerðu hlé á máli sínu við minnstu truflun og litu tortryggnir um öxl. Rétt eins og aðrir voru pílagrímarnir og sjúklingarnir ævinlega varir um sig og óttuðust að lenda í klónum á eftirlitsmönnum, jafnvel hinum hræðilegu V, og vera sakaðir um að vera makouf, áróðursmenn hins Mikla trúvillings, sértrúarsöfnuðar sem hafði margoft verið fordæmdur. Ati kunni vel við að hitta þessa ferðalanga og lagði sig eftir því, enda höfðu þeir safnað slíkum fjölda sagna og fróðleik í pílagrímsferðum sínum. Landið var stórt og svo algerlega ókannað að mann langaði einna helst að týna sér í allri þessari dulúð.

Pílagrímarnir voru einu mennirnir sem ferðuðust um það, ekki að vild heldur samkvæmt nákvæmu dagatali og eftir götum sem þeir máttu ekki fara út af og þeir þurftu að stoppa á afviknum stöðum, eyðilegum hásléttum, víðáttumiklum sléttum, ofan í giljum, sálarlausum stöðum, eða þeir voru taldir og þeim skipt niður í hópa eins og herjum í herferð sem hópuðust umhverfis þúsund varðelda á meðan þeir biðu fyrirmæla um að safnast saman og halda af stað. Stundum urðu þessi hlé svo löng að pílagrímarnir skutu rótum í gríðarmiklum fátækrahverfum og höguðu sér eins og flóttamenn sem allir hefðu gleymt og mundu ekki lengur hvað þá hafði dreymt um daginn áður. Það má læra eitt og annað af bráðabirgðaástandi sem  verður varanlegt: það mikilvæga er þá ekki lengur að stoppa, jafnvel stuttlega, því það býður upp á hvíld og öryggi og þar með sýnir það hversu gáfulegt og hentugt Kerfið er og hversu vænt Fulltrúanum þykir um þjóð sína. Elskulegir hermenn og fulltrúar trúarinnar röðuðu sér, varkárir og kvikir eins og jarðkettir, meðfram vegunum í litlum hópum og fylgdust grannt með pílagrímunum. Menn kipptu sér ekki upp við það þótt einn daginn legði maður á flótta eða væri hundeltur, héldu bara sína leið eins og ekkert væri og drógu ekki lappirnar nema þegar þeir voru orðnir örþreyttir og raðirnar farnar að gisna. Allt var þaulskipulagt og ekkert gat gerst nema með vitund og vilja Kerfisins.

Enginn veit ástæðuna fyrir þessum takmörkunum. Hún er eldgömul. Sannleikurinn er sá að engum hafði nokkurn tíma dottið í hug að velta þessu fyrir sér, allt hafði verið svo slétt og fellt svo lengi að engum fannst ástæða til hafa neinar áhyggjur. Jafnvel veikindi og dauði, sem oft herjuðu á fólk, höfðu engin áhrif á hugarfar fólks. Yölah er mikill og Abi er tryggur Útsendari hans.

Pílagrímsferðir voru eina fullgilda ástæðan til að ferðast um landið fyrir utan nauðsynleg erindi tengd stjórnsýslu og verslun og höfðu fulltrúarnir þá meðferðis skilríki sem þurfti að stimpla í hverjum áfanga ferðarinnar. Þetta eftirlit var endurtekið í sífellu og til að framkvæma það þurfti aragrúa manna sem sáu um að stimpla og gerðu ekkert annað. Þeir voru leifar af löngu gleymdum tíma. Í landinu var stöðugt, sjálfsprottið og dularfullt stríðsástand og víst var að óvinurinn var alls staðar, hann gat látið til skarar skríða fyrir austan eða vestan, norðan eða sunnan, menn voru sífellt á varðbergi því enginn vissi hver hann var eða hvað hann ætlaðist fyrir. Hann var kallaður Óvinurinn með stórum staf, það var nóg. Menn töldu sig muna að einn daginn hefði verið tilkynnt að það væri slæmt að kalla hann eitthvað annað og það var talið rétt og svo augljóst, enda var engin skynsamleg ástæða til að kalla eitthvað sem enginn hafði séð nokkuð annað. Óvinurinn varð mikill og hræðilegur. Og dag einn, án þess að nokkurt merki hefði verið gefið um það, hvarf orðið Óvinur hins vegar úr orðaforða manna. Að eiga óvini er merki um veikleika en fullnaðarsigur er það ekki. Það var rætt um hina Miklu Heiðni, það var talað  um makouf, nýtt orð sem þýddi ósýnilegir trúníðingar sem voru alls staðar nálægir. Innri óvinurinn hafði komið í stað ytri óvinarins, eða öfugt. Síðan rennur upp tími vampýra og ófreskja. Þegar miklar athafnir voru haldnar nefndu menn nafn sem vakti mikinn ótta, Chitan. Það var líka rætt um Chitan og söfnuð hans. Sumum fannst það vera önnur leið til að tala um trúníðinginn og hans menn og það var nokkuð sem fólk skildi fremur vel. Og ekki nóg með það, sá sem nefnir nafn Kölska á að hrækja á jörðina og fara í þrígang með viðeigandi setningu: „Yölah bannfæri þig og fordæmi!“ Seinna, þegar ýmsar aðrar hindranir höfðu verið yfirstignar, var Djöflinum, Kölska, Chitan, Trúníðingnum gefið rétt nafn. Balis, og áhangendur hans, trúníðingarnir, voru kallaðir balissinnar. Þar með virtist allt vera mun skýrara, en þó hélt fólk lengi áfram að velta fyrir sér hvers vegna röng nöfn hefðu verið notuð allan þennan eilífðartíma.

Stríðið stóð lengi og var meira en hryllilegt. Hér og þar, og satt að segja alls staðar (eflaust hafa aðrar hörmungar bæst við stríðið, jarðskjálftar og annars konar óáran), sjást vandlega varðveitt ummerki um það, sett upp eins og gríðarstór innsetning listamanns og höfð hátíðlega til sýnis fyrir almenning: leifar af sundurtættum byggingum, sundurskotnir veggir, heilu hverfin sem höfðu verið lögð í rúst, stundurtætt hræ, risastórir sprengigígar sem hafði verið breytt í rjúkandi ruslahauga eða rotnandi mauk, ógnvænlegt, sundurtætt og bráðið járn sem lesa mátti eitt og annað úr og sums staðar voru víðáttumikil bannsvæði sem eru mörg hundruð kilosiccas eða chabir á kant, umkringd grófum trégirðingum sem sums staðar eru rofnar, auð svæði þar sem ískaldur vindurinn gnauðar stöðugt og þar sem sitthvað hefur gerst sem er svo hræðilegt að enginn getur skilið það, ef til vill hafa hlutar úr sólinni fallið til jarðar, svartigaldur hefur kveikt vítisloga, annað getur það ekki hafa verið því allt, moldin, klettarnir, öll mannanna verk hafa verið brædd djúpt inn og þessi doppótta deigla snarkar svo ógnvænlega að hárin rísa á höfðinu, suða tekur fyrir eyrunum og hjartslátturinn raskast. Fyrirbærið dregur að sér forvitna, fólk flykkist að þessum risavöxnu speglum og skemmtir sér við að sjá hvernig hárin rísa eins og skrúðganga, hörundið roðnar og þrútnar á augabragði og fossblæða tekur úr nefinu. Jafnvel þótt íbúar þessara héraða, menn og dýr, þjáist af ógurlegum sjúkdómum og eignist óskaplega afmynduð afkvæmi og að engar skýringar hafi fengist á því fylltist fólk ekki skelfingu, heldur hélt áfram að þakka Yölah fyrir velgjörðir hans og miskunnsemi og lofa Abi fyrir elskulega milligöngu hans.

Upplýsingaskiltum hafði verið komið upp á réttum stöðum þar sem útskýrt var að eftir stríðið sem kallað var Skriðdrekinn, Mikla helga stríðið, væri eyðileggingin ógurleg og að hinir látnu, nýju píslarvættirnir, væru mörg hundruð milljónir. Árum saman, heilu áratugina, allan tímann sem stríðið stóð yfir og lengi eftir það voru vaskir menn fengnir til að safna saman líkum, flytja þau, hlaða þeim upp, kveikja í þeim, tjarga þau og varpa þeim í endalausar gryfjur, troða þeim ofan í  yfirgefnar námur, djúpa hella sem síðan var lokað með því að sprengja hellismunnann með dínamíti. Tilskipun frá Abi heimilaði í þann tíma sem þurfa þætti að beita þessum aðferðum sem voru gerólíkar þeim jarðarfarasiðum sem þessi trúaða þjóð hafði áður ástundað. Það hafði lengi verið í tísku að tína saman og kveikja í líkum. Allir menn sem voru vöðvastæltir og með gott bak gátu tekið þátt í þessu í fullu starfi eða í íhlaupavinnu milli árstíða, en aðeins hörðustu jaxlarnir entust eitthvað í þessu. Þeir fóru frá einu héraði til annars með lærlinga sína og amboð, líkbörur, kaðla, talíur, luktir og þeir best útbúnu voru með dráttardýr, tóku að sér þuð verk sem þeir réðu við og hófust svo handa. Myndin sem eftir stendur í huga eldri manna er af hörkulegum og þögulum risum sem sáust ganga í fjarska eftir stígum og yfir hæðir með þykka leðursvuntuna bundna um sig miðja og lafandi niður á mið læri, dragandi á eftir sér þunghlaðnar kerrur og á eftir þeim gengu lærlingar þeirra og stundum fjölskyldur. Lyktin sem fylgdi starfi þeirra var aftan við þá, framan við þá, hún smeygði sér um allt, ógeðslegt sambland af rotnuðu holdi, brenndri fitu, heitri tjöru, mengaðri mold og daunillu gasi. Smám saman hurfu þessir vösku menn, landið hafði verið hreinsað og eftir voru aðeins örfáir þögulir og hægfara gamlingjar sem sveimuðu í kringum sjúkrahúsin, hælin og grafreitina. Dapurleg endalok þessara hetjulegu öskukarla dauðans.

Óvinurinn var einnig gersamlega horfinn. Engin ummerki fundust nokkurn tíma um ferðir hans um landið, um vesæla jarðvist hans. Sigurinn sem hafði verið unninn á honum var „algjör, endanlegur og óafturkallanlegur“ að sögn yfirvalda. Yölah hafði kveðið upp sinn dóm, hann veitti þjóð sinni, sem nú var trúaðri en nokkru sinni fyrr, algera yfirburði, þá sem henni hafði verið lofað frá upphafi vega. Ákveðið ártal varð ofaná án þess að ljóst væri hvernig það hefði gerst né hvers vegna, það festist fólki í minni og stóð á minningarskiltunum sem stóðu nærri rústunum: 2084. Tengdist það stríðinu á einhvern hátt? Hugsanlega. Það var ekki tekið fram hvort það tengdist upphafi eða enda eða sérstökum hluta stríðsátakanna. Fólk hugsaði eitt og síðan annað sem var mun fágaðra og tengdist trúarlífi þess. Talnaspekin varð þjóðaríþrótt, fólk lagði saman, dró frá, margfaldaði, gerði allt sem hugsanlegt var að gera með tölurnar 2, 0, 8 og 4. Um tíma var fólk helst á því að 2084 væri einfaldlega fæðingarár Albis eða árið sem hann sá ljósið og baðaðist guðdómlegri birtu um leið og hann varð fimmtugur. Staðreyndin er sú að enginn efaðist hið minnsta um að Guð hefði ætlað honum nýtt og einstakt hlutverk í sögu mannkynsins. Það var á þessum tíma að landið, sem þá var einungis kallað „land hinna trúuðu“, var nefnt Abistan, gullfallegt nafn sem var notað af yfirvöldum, Heiðursmönnum safnaðar hins réttláta bræðralags og starfsmanna Kerfisins. Almúginn hélt sig áfram við heitið „land hinna trúuðu“, og jafnvel þótt það gæti verið hættulegt stytti almenningur heitið enn í samræðum sín á milli og sagði „landið“, „húsið“, „heima hjá okkur“. Afstaða almennings er þannig afar kæruleysisleg og algerlega ófrumleg, hann sér varla lengra en nef hans nær. Ef til vill er þetta einhvers konar háttvísi af hans hálfu. Herrarnir eru annars staðar og það er dónaleg hnýsni, samningsbrot af hálfu almennings, að horfa á þá. Að kalla sig Abistana fannst almenningi óþægilegt og hefði í för með sér leiðindi og þvinganir, jafnvel refsingar, og því talaði fólk heldur um sig sem „fólkið“ og var sannfært um að það nægði því til að bera kennsl hvert á annað.

Á öðrum tíma var ártalið tengt við stofnun Kerfisins og enn áður við Réttláta bræðralagið, samkomu fjörutíu forystumanna sem Abi valdi sjálfur úr hópi öruggustu trúmannanna eftir að hann  hafði verið falið það risavaxna verkefni að stýra hinni guðhræddu þjóð og leiða hana alla yfir í annað líf þar sem hver og einn þyrfti að gera grein fyrir gjörðum sínum frammi fyrir Engli réttlætisins. Þeim var sagt að í því mikla ljósi væri ekki hægt að varpa skugga á neitt, allt yrði upplýst. Það var í þessum hamförum sem gengu yfir aftur og aftur og til að geta svarað einhverjum öðrum en Guði sem fundið var annað nafn, Yölah. Það voru breyttir tímar, samkvæmt Forgangsloforðinu, annar heimur hafði orðið til á hreinsaðri jörðinni, helgaður sannleikanum, undir augliti Guðs og Abi, og nú varð að nefna allt upp á nýtt, skrifa allt upp á nýtt þannig að nýja lífið væri ekki á neinn hátt litað af Sögunni sem var liðin og úrelt þaðan í frá, þurrkuð út eins og hún hefði aldrei verið til. Réttláta bræðralagið gaf Abi hinn hógværa en samt svo merkingarþrungna titil Sendimaður og það ákvað að hann yrði eftirleiðis ávarpaður með einfaldri og hrífandi kveðju og að sagt yrði „Sendimaðurinn Abi, heill sé honum“ og svo kysstu menn hverjir aðra á vinstra handarbakið.

Margar sögur voru kreiki áður en allt slokknaði og komst í röð og reglu. Abi hefur sjálfur endurskrifað Söguna og innsiglað hana. Það af gamla tímanum sem hefði getað orðið eftir í minni þeirra sem reynt hafði verið að hreinsa, slitur, reykur, olli vægu óráði hjá elliærum gamlingjum. Kynslóðir Nýja tímaskeiðsins kærðu sig kollóttar um dagsetningar, dagatal, Söguna, rétt eins og ummerki vindsins á himninum, núið er eilíft, dagurinn í dag er alltaf hér, tíminn er allur í höndum Yölah, hann veit allt, hann ákveður merkingu alls sem er og upplýsir þá sem honum þóknast um það.

Hvað um það, 2084 var grundvallarár fyrir landið, jafnvel þótt enginn hefði hugmynd um hvers vegna það var svo.

 

 

 

 

 

Um höfundinn

eftir Friðrik Rafnsson

Boualem Sansal fæddist þann 15. Október 1949 í Theniet El Had, smáþorpi í Ouarsenis-fjallgarðinum í Alsír. Móðurmál hans er því arabíska en hann skrifar á frönsku. Hann er skáldsagna- og ritgerðahöfundur og hefur löngum verið afar gagnrýninn á yfirvöld í heimalandinu þar sem bækur hans eru bannaðar. Hann gefur bækur sínar því út í öðrum löndum, svo sem Frakklandi og Þýskalandi.

Boualem Sansal er verkfræðingur að mennt og lauk aukinheldur doktorsprófi í hagfræði. Hann vann um skeið sem kennari, ráðgjafi, var forstjóri fyrirtækis og síðar hátt settur í iðnaðarráðuneyti Alsírs. Þaðan var hann rekinn árið 2003 eftir að hann hafði gagnrýnt alsírsk yfirvöld mjög fyrir einstrenginslega þjóðernis- og einangrunarhyggju í menntakerfi landsins.

Alsírski rithöfundurinn Rachid Mimouni (1945–1995) hvatti Sansal til að leggja fyrir sig ritstörf. Enda þótt Boualem Sansal hafi alla tíð verið mikill bókmenntaunnandi var hann hikandi við að leggja út á rithöfundabrautina. Hann byrjaði engu að síður að skrifa árið 1997 þegar borgarastríðið í Alsír stóð sem hæst. Þannig vildi hann reyna að setja sig í spor samlanda sinna sem liðu skelfilegar þjáningar, átta sig á því og útskýra fyrir öðrum hvers vegna allt fór í kaldakol í heimalandi hans og hvernig þjóðfélagið þar varð gróðrarstía öfgasinnaðra íslamista.

Hann stóð á fimmtugu þegar hann sendi frá sér fyrstu skáldsöguna sína, Eið villimannanna, árið 1999 og hlaut fyrir hana frönsku verðlaunin Prix du Premier Roman sem veitt eru fyrir bestu frumraun á skáldsagnasviðinu. Eftir það hefur hann sent frá sér átta skáldsögur, sex ritgerðasöfn, fjölda smásagna og fleira.

Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín og verið heiðraður með ýmsum hætti, hlaut til að mynda Bókmenntaverðlaun þýskra bóksala árið 2011, Riddaraorðu lista og bókmennta í Frakklandi árið 2012 og Bókmenntaverðlaun frönsku akademíunnar árið 2015 fyrir skáldsöguna 2084: endalok heimsins.