Ragnheiður Harpa Leifsdóttir

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir / Mynd: Saga Sig

Eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur

Úr ljóðabókinni Sítrónur og náttmyrkur sem er væntanleg 21. nóvember. Svikaskáld gefa út.

 

Eyja

Hvar sem ég er í heiminum, hversu týnd eða sorgmædd sem ég er, segir móðir mín mér að ganga niður að sjó og hugsa til allra þeirra sem horfa á sama hafið og sjá öldurnar brotna við bergið. Öfgarnar á eyjunni þenja út skilningarvitin. Endurtekningin í bárunni er stöðug áminning: Þú ert á lífi og þú ert ekki ein.

 

Hvítt

Meðan við sofum
leggur hún nýstraujuð lök
á göturnar

ferðast innundir
augnlokin
flæðir ofan í æðakerfið

ég vissi ekki að við værum svona þyrst
í birtuna

ég drekk mjólk úr glasi
og finn að hún er líka þar

í hendinni sem heldur á vökvanum
borðinu sem stendur á fjórum fótum
röddinni sem hljómar í útvarpinu

 

Sítrónur og náttmyrkur