Berglind ÓskEftir Berglindi Ósk

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2022.

 

Við erum þrjú eftir á vökunni í einbýlishúsi í Árbænum. Ég, Svavar og Rebekka. Allir hinir farnir samviskusamlega heim. Við Svavar sitjum hlið við hlið í drapplituðum sófa. Á móti okkur situr Rebekka með tómlegt augnaráð bak við gleraugu sem gera ekkert fyrir hana nema margfalda auðnina fyrir innan. Ég held að ég hafi aldrei heyrt hana segja neitt af viti. Hún brosir alltaf bara heimskulega. Hlær inn á milli. Starir þessum ýsuaugum. Strákarnir fíla hana allir. Samt er hún ekki einu sinni það sæt.

Ég þoli hana ekki.

Mig langar að fara heim með Svavari en hann er ekki tilbúinn til að ljúka djamminu. Vill sleikja upp síðustu dropana af stemmingunni á þessum súra sunnudagseftirmiðdegi. Klára bútinn.

Rebekka stendur reglulega upp með skelfingarsvip og fer inn á baðherbergi.

Mér finnst eins og ég sé búin að pissa á mig, endurtekur hún lágt í hvert einasta skipti. Mér finnst hún viðbjóðsleg en Svavar lætur bara eins og ekkert sé eðlilegra en að manneskja sé ekki viss um hvort hún sé búin að pissa á sig eða ekki. Hvað er að þessu liði?

Ég gæti örugglega reddað mér einhvern veginn heim en geri það ekki. Þótt mig langi ekkert heitara í veröldinni en að fara. Er búin að ákveða að fara heim með Svavari. Langar að kúra með honum í litla herberginu hjá mömmu hans í Breiðholti. Á blettóttu svörtu laki undir sængurfötum sem hafa ekki séð þvottavél lengi. Ég nýt þess alltaf að fara með honum heim en fyrirlít sjálfa mig í dagsljósinu. Líður bara svo vel ein með honum. Reyni að hugga mig við að ég fái allavega að reykja á meðan ég er hér. Ég á hvorki stuð né pening.

Foreldrar Rebekku eru einhvers staðar í útlöndum. Minnir mig. Allavega er hún ein heima alla helgina. Partýið byrjaði á föstudaginn. Ef partý skyldi kalla. Sama liðið og vanalega að sukka saman: Baldur, Dagný, Palli, Hjördís, ég og Rebekka. Svavar var að vinna á föstudagskvöldið en kom á laugardag. Þessa helgi vantaði bara Erlu vinkonu mína. Það var hún sem kynnti mig fyrir þessu fólki en hún var nýfarin upp á Kárahnjúka að vinna. Erla er límið í vinahópnum. Hún er þessi týpa sem á auðvelt með að tala við alla og það er alltaf stuð í kringum hana. Reyndar líka alltaf drama, sem getur verið óþolandi, en fjörið vegur upp á móti. Ég er eins og vængbrotinn fugl án hennar. Þarf helst að fá mér í nefið eða poppa til að líða vel með öðrum. Allavega reykja. Það dugir samt ekki einu sinni alltaf til. Ég þarf þess meira að segja til að líða alveg eðlilega með Svavari þótt við séum búin að vera bólfélagar í einhvern tíma. En með Erlu er ég heilsteyptari. Hún hefur alltaf eitthvað til að tala um og hugmyndir um eitthvað til að gera. Með henni er eins og ég sé á spíttbát. Ein er ég áralaus, föst úti á miðju vatni. Kannski er hún bara enn eitt dópið?

Fyrir tuttugu og fjórum tímum hafði ég endað ein í þessu alltof stóra einbýlishúsi. Ein með Rebekku eftir að allir fóru heim að hvíla sig fyrir kvöldið. Þetta var í fyrsta skipti sem við vorum bara tvær saman. Ég var alltof víruð til að fara að sofa en þurfti að fara heim til að skipta um föt og hressa upp á málninguna. Ég er ekki með bílpróf en Rebekka var á bíl. Hún bauðst til að skutla mér heim og bíða á meðan ég tæki mig til. Ég hef alltaf átt auðveldara með að tengjast strákum og leið mjög óþægilega að vera ein með henni. Hún hefur satt að segja alltaf farið í taugarnar á mér. Ég hef aldrei skilið hana. Hef alveg reynt að tala við hana en hún segir aldrei neitt gáfulegt. Bullar bara eða flissar. Ég hef velt fyrir mér hvort hún sé eitthvað eftir á en ekki þorað að spyrja strákana. Stækkunargleraugun gefa henni smá Downs-heilkennisblæ. En þetta far hentaði mér vel svo ég þáði boðið. Þannig gat ég líka frestað því um sinn að feisa lífið ein.

Það er alltaf jafn hræðileg tilfinning að koma út í birtu á vökunni. Eins og sólin margfaldi eymdina innra með manni og gegnumlýsi mann svo allir sjái hana. Ég hraðaði mér út í bíl og bað til Guðs að frænka mín sem bjó í sömu götu sæi mig ekki. Vissi ekki hvernig ég ætti að útskýra að ég þekkti þessa grátlegu stelpu öðruvísi en af djamminu. Hún var ekki í menntaskóla heldur að vinna á einhverjum skyndibitastað. Það var í sjálfu sér allt í lagi nema henni fannst ekkert sjálfsagðara. Hristi bara hausinn þegar ég spurði hvort hún ætlaði ekkert í skóla, eða allavega fá sér einhverja aðra vinnu.

Ég bullaði með henni á leiðinni í bílnum. Gerði tilraun til að lifa mig inn í samtalið og tókst það á köflum. Við reyndum að taka okkur saman í andlitinu áður en við fórum inn til mín. Pabbi var nefnilega heima. Ég kynnti Rebekku sem vinkonu mína og vonaði að pabbi myndi ekki spyrja meira út í það. Sem hann gerði ekki þrátt fyrir að ég væri vökuglær og Rebekka liti út eins og fimmtán ára vandræðaunglingur. Hún var samt að nálgast tvítugt. Ég vandaði mig við hvert einasta skref inn í herbergi. Að standa upprétt. Ekki vera skökk. Annars gæti ég misst jafnvægið. Eða andlitið. Var ég virkilega farin að hanga með þessari ómerkilegu manneskju sem ég þekkti varla neitt til að geta teygt á djamminu?

Þegar við komum aftur heim til hennar fengum við okkur að reykja. Sögðum voða lítið en þögnin var óvenju þægileg. Síðan byrjaði fólkið að tínast aftur inn og við endurtókum sama leikinn og daginn áður. Hraði upp í nef, kúlur ofan í munn. Stuð inn á milli til að poppa okkur upp. Sígó, drykkir og innantómt blaður. Svavar kom og við fórum í poppaðan sleik. Ég var mjög skotin í honum en þorði ekki að segja honum hvernig mér leið. Fannst öruggara að þykjast vera alveg sama. Þau Erla höfðu verið að sofa saman áður en ég kynntist honum. Hún fékk leiða á honum á endanum. Eins og öllum góðum gaurum. Ég var hrædd um að vera bara betri en ekki neitt. Leifarnar frá Erlu. Það væri ekki í fyrsta skipti.

Á endanum fjaraði gleðin út. Það sem fer upp kemur aftur niður. Ég varð flöt. Hol að innan. Með götóttan heila eftir tveggja daga vöku. Allir voru farnir nema við þrjú, ég, Svavar og Rebekka. Mig langar ekkert meira en að skríða undir sæng með honum. Langar ekki einu sinni að ríða. Bara kúra og njóta nærveru hans. Eða réttara sagt þeirrar útgáfu hans sem lifir í hausnum á mér. Ég er alls ekki viss um að ég þekki hann í raun og veru. Af hverju vill hann ekki koma heim? Mig langar að gráta en tárakirtlarnir eru stíflaðir.

Skelfingarsvipurinn kemur enn einu sinni á Rebekku. Ætli hún sé í alvöru búin að pissa á sig? Ég get ekki ímyndað mér sorglegri manneskju en hana. Við sitjum og hlustum á tónlist. Skuggar af sjálfum okkur. Stundum reynir eitthvert okkar að tala en hin skilja ekki. Algjört sambandsleysi. Hvað er ég eiginlega að gera hérna? Ég hrekk við þegar ég sé útúrsjúskaða stelpu speglast í gleraugunum hennar Rebekku og geri mér grein fyrir því að það er ég.

 

 

Breytt ástand