eftir Þorvald Sigurbjörn Helgason

Smásaga

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2018

 

 

 

Nýja-Reykjavík, 24. desember, 2074

Kæri bróðir,

Ég veit þú munt ekki trúa þessu en í gær snjóaði hjá okkur! Það var um hádegisbilið og við Emma vorum uppi á hlöðu að gera við þakið, skyndilega dró ský fyrir sólu og í kjölfarið byrjuðu litlar hvítar flyksur að falla til jarðar. Emma dreif sig niður að láta fólkið vita en ég varð eftir. Stóð eins og negldur við þakið og horfði upp í himininn á meðan fólkið byrjaði að safnast í kringum hlöðuna, hrópandi og bendandi. Það snjóaði ábyggilega ekki nema í nokkrar mínútur og þegar það hætti braust sólin aftur gegnum skýin öllum til mikilla vonbrigða. Börnin veltu sér skríkjandi um í mjöllinni á meðan fullorðna fólkið skoðaði hana rannsakandi og talaði saman í hálfum hljóðum. Eftir nokkrar mínútur var snjórinn bráðnaður og öllu ævintýrinu lokið jafn skjótt og það byrjaði. Ég ákvað að skrifa þér því það að sjá snjó aftur eftir öll þessi ár vakti upp minningar um síðustu jólin sem við bjuggum í Vættaborgum. Það er skrýtið að hugsa um eitthvað sem gerðist fyrir svo löngu í heimi sem nú er varla til lengur. Heldurðu að það búi ennþá einhver á Íslandi? Ég heyrði um daginn að landið væri orðið gjörsamlega óbyggilegt eftir að golfstraumurinn rofnaði en kannski eru þarna einhverjir enn. Allavega, ég hugsaði með mér að það gæti hresst upp á minnið að skrifa niður atburði þessara síðustu jóla í æskuheimilinu. Þú varst náttúrlega svo lítill að þú manst kannski ekki mikið eftir þeim en manstu eftir henni? Manstu eftir Úlfhildi? Hún hét auðvitað ekki Úlfhildur, það var bara nafnið sem ég gaf henni. Ég hafði verið að reyna að kenna henni nafnið mitt og spurði hana hvað hún héti. Þar sem ég skildi ekki tungumálið sem hún talaði ákvað ég að kalla hana Úlfhildi því það hljómaði líkast því sem hún hafði sagt.

Ég man ekki nákvæmlega hvaða ár það var en í minningunni var það síðasta árið sem snjóaði. Pabbi og mamma voru að rífast í eldhúsinu. Þið Erla sátuð hjá trénu og lékuð ykkur með gjafirnar. Ég stóð fyrir framan húsið og mændi upp í himininn. Stéttin var regnvot en loftið furðu hlýtt. Tvö snjókorn svifu niður úr myrkrinu. Ég greip annað þeirra með tungunni og gretti mig við súrt bragðið. Þegar ég leit niður stóð hún hinum megin götunnar og horfði á mig. Léttklædd og skítug með þvældan bakpoka, rauðbrúnar krullurnar stóðu í allar áttir. Hún brosti og ég leit undan. Ég hafði ekki hugmynd um hver hún var en hún horfði á mig eins og hún þekkti mig. Eins og við værum gamlir vinir. Þannig var Úlfhildur. Maður hafði alltaf á tilfinningunni að hún vissi meira en hún lét uppi. Mér fannst hún eitthvað svo umkomulaus þarna ein úti á götu á sjálfu aðfangadagskvöldi og þrátt fyrir að ég væri feiminn við hana, eins og reyndar við flestar stelpur, þá ákvað ég að bjóða henni inn. Ég spurði hana hvað hún væri að gera og þegar ég áttaði mig á því að hún væri útlensk gaf ég henni bendingu um að fylgja mér. Ég náði að lauma henni niður í herbergið mitt án þess að nokkur sæi til. Síðan færði ég henni smá hangikjöt og uppstúf á diski sem hún skóflaði upp í sig eins og hún hefði ekki borðað neitt í marga daga. Pabbi og mamma voru ekki ánægð þegar þau komust að því að ég hefði boðið ókunnugri stelpu heim og hvað þá útlendingi! Ég man að pabbi tautaði eitthvað um flóttamenn en mamma var örlítið rólegri og reyndi hvað hún gat til að tala við Úlfhildi. Að lokum tók pabbi málin í sínar hendur og hringdi í lögregluna, þau tjáðu honum að þetta væri mál fyrir útlendingastofnun og þau gætu því ekkert gert. Svo fór að mamma og pabbi ákváðu að leyfa henni að gista hjá okkur til morguns og hringja svo í útlendingastofnun, nema hvað að lokað var hjá þeim yfir hátíðarnar og Úlfhildur var því hjá okkur yfir jólin.

Hún fékk að gista á dýnu inni hjá mér. Pabbi og mamma voru mjög varkár yfir þessu öllu saman og tipluðu fyrir utan herbergið mitt löngu eftir að við Úlfhildur fórum í rúmið. Einu fötin sem hún átti voru þau sem hún klæddist, brún og slitin mussa og gráar ullarbrækur, svö gömul og tætt að þau virtust hafa getað komið frá Þjóðminjasafninu. Ég lánaði henni gamlan íþróttabol og stuttbuxur til að sofa í. Hún virtist ekki vera vön því að bursta í sér tennurnar og flissaði óstjórnlega þegar hún reyndi það sjálf eftir að ég hafði látið hana fá auka tannbursta og sýnt henni handtökin. Eftir að við vorum háttuð lágum við vakandi í nokkrar mínútur. Úlfhildur hvíslaði einhverju til mín og ég gerði mitt besta til hlusta eftir kunnuglegum orðum en ég skildi ekki neitt. Tungumálið hennar var furðulegra en nokkuð sem ég hafði heyrt og hljómaði eins og eitthvað aftan úr forneskju.

Ég man að ég vakti lengi þessa fyrstu nótt og virti hana fyrir mér eftir að hún var sofnuð. Hún var dökk yfirlitum og með grófa andlitsdrætti, kinnarnar voru þaktar freknum og rauðbrúnt hárið svo þykkt og krullað að ómögulegt var að hemja það að nokkru leiti. Pabbi hafði orð á því að hún gæti mögulega verið frá Sýrlandi en ég þekkti nokkra Sýrlendinga úr skólanum og Úlfhildur var ekki hið minnsta lík þeim. Eina eign Úlfhildar sem virtist vera einhvers virði var bakpoki sem hún passaði eins og í honum væri allur fjársjóður heimsins. Hún notaði hann sem kodda þegar hún svaf og ég náði bara einu sinni að kíkja ofan í hann. Bakpokinn sjálfur var nokkuð merkilegt handverk; brúnn tausekkur með fíngerðum leðurröndum sem á voru alls kyns tákn og skreytingar sem minntu einna helst á rúnir. Í pokanum voru þrír hlutir; gulnað skjal sem skrifað var á með sömu furðulegu táknunum og skreyttu bakpokann, fjögurra arma kross úr sprekum með ferningi í miðjunni og gamalt, mölétið grátt teppi sem Úlfhildur svaf alltaf með þrátt fyrir að henni væri boðin sæng.

Á jóladag var boð hjá afa og ömmu eins og vanalega en mamma og pabbi kunnu ekki við að taka Úlfhildi með þannig að ég og mamma urðum eftir heima með henni á meðan þið Erla fóruð með pabba í boðið. Ég hafði fengið nýja leikjatölvu í jólagjöf sem ég ákvað að sýna Úlfhildi en hún virtist ekki hafa mikinn skilning á tölvuleikjum og var hálfsmeyk við skotleikinn sem ég sýndi henni. Það var þannig með flest tæki sem ég sýndi Úlfhildi; allt virtist henni á einhvern hátt framandi og skipti ekki máli hvort um var að ræða síma, brauðrist eða uppþvottavél. Við eyddum því mestum okkar tíma saman úti en hún átti ekki í neinum vandræðum með þá útileiki og íþróttir sem ég kenndi henni. Hún reyndi sjálf að kenna mér ýmsa leiki og þótt ég skildi mismikið í þeim þá var hún svo uppátækjasöm að það skipti engu máli.

Þannig leið jólafríið og þó að við Úlfhildur skildum ekki hvort annað urðum við miklir vinir. Þrátt fyrir að mamma og pabbi reyndu að hafa hljótt um Úlfhildi spurðist fljótlega út um veru hennar meðal fjölskyldunnar og frændfólk jafnt sem fjarskyldir ættingjar komu í heimsókn til að líta hana augum. Margir hristu hausinn en mamma var ákveðin í því að Úlfhildur yrði hjá okkur þar til útlendingastofnun myndi opna aftur og hægt væri að fá aðstoð í máli hennar. Einn dag á milli jóla og nýárs heyrði ég mömmu og pabba tala saman í eldhúsinu. Við Úlfhildur höfðum verið í feluleik og ég lá í hnipri í kústaskápnum við hliðina á eldhúsinu. Mamma sagðist hafa hringt í útlendingastofnun og fengið þau svör að þetta væri málefni fyrir barnaverndarnefnd. Ég heyrði pabba slá inn númerið í símann sinn og stuttu seinna hóf hann að útskýra aðstæðurnar fyrir manneskjunni á hinum endanum. Hann lýsti því hvernig Úlfhildur hefði birst á heimili okkar á aðfangadagskvöld en minntist ekkert á mig í því samhengi. Hann jánkaði margoft og skaut inn athugasemdum um útlit og klæðaburð Úlfhildar og hið óskiljanlega tungumál hennar. Þegar hann hafði lagt á beindi hann aftur orðum sínum til mömmu og stór hnútur myndaðist í maga mínum: „Þau koma eftir hálftíma að sækja hana.“

Ég spratt út úr skápnum og skimaði í örvæntingu eftir henni. Ég sá úfinn og rauðan koll nálgast upp stigann, ég greip í hönd Úlfhildar og leiddi hana niður á neðri hæð hússins. Hún var hissa á svip en fylgdi mér eftir án þess að streitast á móti. Á persneska teppinu fyrir neðan stigann láguð þið Erla og lékuð ykkur með Duplo kubba. Erla kallaði upp yfir sig þegar hún sá Úlfhildi: „Úlla!“ Ég reyndi að sussa á hana en það var of seint. Frá efri hæðinni heyrði ég pabba kalla á mig. Hann sagðist þurfa að tala við mig en ég vissi betur. Ég stökk inn í þvottahús með Úlfhildi í eftirdragi og opnaði bakdyrahurðina sem lá út í garð. Við höfðum hvorki tíma til að klæða okkur í skó né útiföt og sokkarnir mínir urðu votir þegar ég hljóp yfir hrímað grasið. Við smeygðum okkur inn í garðskýlið og lögðumst á kalt hellugólfið með bökin upp við klappstólana. Andardráttur okkar varð að gufu sem í dimmunni minnti mig á reykinn úr rafrettunni hennar mömmu. Úlfhildur sagði eitthvað við mig en ég sussaði á hana. Fyrir utan kölluðu pabbi og mamma á okkur. Við Úlfhildur hjúfruðum okkur upp að hvort öðru og reyndum að hlusta ekki á hrópin í foreldrum mínum. Ég var farinn að skjálfa en kuldinn virtist ekki hafa nein áhrif á Úlfhildi, frá henni stafaði hlýju og þegar hún tók utan um mig fann ég að mér hætti að verða kalt. Skyndilega var dyrunum á garðskýlinu hrundið upp og pabbi kom æðandi inn til okkar. Hann greip í Úlfhildi og rykkti henni frá mér. Hún streittist á móti en pabbi var sterkari og dró hana út úr skýlinu. Ég hljóp á eftir þeim, öskraði á hann að hætta og reyndi að toga Úlfhildi til baka en mamma hélt aftur af mér. Hún hvíslaði til mín og reyndi að róa mig niður en ég hélt bara áfram að öskra. Pabbi fór inn með Úlfhildi og mamma varð eftir með mér í garðinum þar til ég róaðist. Hún útskýrði stöðuna fyrir mér, sagði að það væri manneskja frá barnavernd á leiðinni til okkar. Það þyrfti að fara yfir mál Úlfhildar og hjálpa henni að komast aftur til foreldra sinna. Ég var hættur að öskra, tárin láku niðar kinnarnar og lentu á stéttinni ásamt nokkrum fölum snjókornum.

Þegar við mamma komum aftur upp stóð ókunnug kona á stofugólfinu og páraði hratt í svarta möppu. Hún var ákveðin á svip, brúnt hárið bundið í þéttan hnút á hnakkanum, rauðar varirnar kipraðar saman af einbeitingu. Úlfhildur sat niðurlút í stól og pabbi stóð við hlið hennar með krosslagðar hendur. Hann leit hvasst á mig þegar hann sá mig nálgast en mamma gekk til hans og hvíslaði einhverju í eyra hans. Ég hélt mig í hæfilegri fjarlægð og þegar Úlfhildur leit upp brosti ég til hennar og sendi henni uppörvandi augnaráð. Konan hélt áfram að skrifa en eftir nokkur augnablik skellti hún möppunni saman og leit upp. „Eins og staðan er núna er ekkert sem við getum gert fyrir hana. Það þarf að lýsa eftir foreldrum hennar og ef þeir finnast ekki þarf að gera ráðstafanir um fóstur. Auk þess þarf að finna út hvaða mál stelpan talar og útvega viðeigandi túlk.“ Konan spurði mömmu og pabba hvort það væri í lagi að Úlfhildur yrði hjá okkur í nokkrar nætur í viðbót á meðan greitt yrði úr þessu öllu saman. Mamma og pabbi hvísluðu sín á milli og samþykktu að lokum með semingi. Ég var himinlifandi og langaði mest að hlaupa til konunnar og faðma hana að mér. Áður en hún fór tjáði hún okkur að það kæmi tungumálasérfræðingur til okkar daginn eftir til að reyna að finna út úr tungumáli Úlfhildar. Seinna um kvöldið, eftir að við vorum búin að hátta hvíslaði Úlfhildur til mín. Ég hélt að hún væri að segja mér eitthvað á sínu eigin tungumáli og það var ekki fyrr en hún endurtók orðið að ég skildi hvað hún var að segja. „Ekkert að þakka“, hvíslaði ég til baka.

Morguninn eftir vorum við að horfa á sjónvarpið þegar dyrabjöllunni var hringt. Í sjónvarpinu var þáttur um norðurslóðir, horaðir og skjálfandi ísbirnir hírðust á litlum jökum sem ráku yfir kaldranalegt íshafið. Bankað var létt á dyrnar á sjónvarpsherberginu og mamma steig inn, unglegur maður í síðum frakka og með kringlótt gleraugu fylgdi á eftir. Mamma kynnti manninn fyrir mér og Úlfhildi og bauð honum sæti í sófanum. Hún slökkti á sjónvarpinu og maðurinn byrjaði að að tala við Úlfhildi og reyna að fá hana til að segja eitthvað. Hann benti á sjálfan sig og kynnti sig, benti svo á hana og lyfti höndum spyrjandi. Úlfhildur sagði nafnið sitt og maðurinn hallaði sér forvitinn á móti henni. Hann tók upp símann sinn og bað hana að endurtaka nafnið. Maðurinn hélt áfram að spyrja hana spjörunum úr í um það bil klukkutíma, tók upp allt sem hún sagði og punktaði niður hjá sér þar til honum fannst komið nóg. Á leiðinni út spurði mamma hvort hann væri búinn að komast að því hvaða tungumál Úlfhildur talaði en maðurinn hristi bara hausinn og muldraði eitthvað um velsku og finnsk-úgrísk tungumál.

Næstu dagar liðu hratt. Við Úlfhildur lékum okkur saman frá sólarupprás til sólarlags og þrátt fyrir að við skemmtum okkur konunglega vissum við bæði að við hefðum takmarkaðan tíma saman. Fregnin um útlensku stelpuna sem dvaldi hjá okkur hafði spurst út um allt hverfið og stundum komu krakkar úr nærliggjandi húsum til að skoða Úlfhildi. Hún tók öllum vel, brosti og sagði nafnið sitt sem hljómaði svo dularfullt og fornt. Ég gerði ekki mikið í því að bjóða vinum mínum að hitta hana því eins sjálfselskt og það hljómar þá vildi ég ekki þurfa að deila henni með öðrum. En þeir komu engu að síður og þó mörgum þeirra þætti hún furðuleg lékum við öll saman. Einn dag rétt fyrir áramót spiluðum við fótbolta með nokkrum krökkum úr götunni og Úlfhildur skoraði hvert markið á fætur öðru á móti færasta markmanni bekkjarins. Mig minnir að það hafi verið þennan sama dag sem mamma fékk símtal frá tungumálasérfræðingnum. Hún hváði margoft og var mjög hissa í símann og ég heyrði hana útskýra fyrir pabba eftir símtalið að maðurinn vildi fá Úlfhildi í fleiri rannsóknir eftir áramót. Hann sagðist ekki enn hafa fundið út hvaða tungumál hún talaði en það væri sennilega eitthvað sjaldgæft afbrigði af gelísku.

Á gamlárskvöld komu afi og amma í mat til okkar. Mamma gróf upp gamlan sparikjól úr geymslunni sem hún hafði verið að geyma fyrir Erlu og lánaði Úlfhildi. Ég hefði ekki þorað að viðurkenna það fyrir sjálfum mér þá en ég hafði aldrei séð fallegri stelpu áður. Hvítur blúndukjóllinn dró fram rauðbrúnt hárið og freknurnar ljómuðu á rjóðum kinnunum eins og dökkar stjörnur. Amma bretti upp nefið þegar hún sá hana en afi tók henni vel og sýndi henni nokkra af spilagöldrunum sínum sem ég var fyrir löngu orðinn þreyttur á og uppskar hjá henni mikinn fögnuð. Maturinn gekk vel fyrir sig og Úlfhildur borðaði humarinn með bestu lyst en þegar flugeldarnir byrjuðu fór allt í háaloft. Þegar sá fyrsti sprakk fyrir utan gluggann okkar æpti hún upp yfir sig og stökk undir borðið. Amma saup hveljur en pabbi og afi hlógu. Ég skreið undir borðið og reyndi að róa hana og að lokum kom hún undan því og settist aftur með okkur. En þegar næsti flugeldur sprakk endurtók sagan sig og eftir því sem sprengingarnar ágerðust varð Úlfhildur sífellt hræddari. Að lokum þurfti ég að fara með hana inn í sjónvarpsherbergi og setja á teiknimynd með hljóðið í botni til að reyna að yfirgnæfa hávaðann í sprengingunum. Sjónvarpið náði að fanga athygli hennar og hún starði á það eins og dáleidd á meðan leiftur flugeldanna vörpuðu marglitri birtu gegnum rimlagardínurnar. Hún sofnaði áður en myndin kláraðist og ég lá við hlið hennar í nokkrar mínútur þar til ég sofnaði sjálfur upp við öxl hennar. Mamma og pabbi hafa eflaust borið okkur inn í herbergi því morguninn eftir vaknaði ég í mínu eigin rúmi íklæddur náttfötum.

Það fyrsta sem ég tók eftir var að Úlfhildur var ekki í herberginu. Ég þræddi dimmt húsið en fann hana hvergi. Að lokum opnaði ég útidyrnar og við mér blasti sjón sem ég hafði fram til þessa aðeins séð í bíómyndum. Stéttin og gatan voru þakin þykku lagi af nýföllnum snjó sem lá yfir öllu, rétt eins og skýin hefðu ákveðið að fá sér blund í götunni okkar. Snjórinn var óhreyfður fyrir utan par af fótsporum sem lágu frá útidyrahurðinni í átt að garðinum. Ég klæddi mig í skó og úlpu og fylgdi sporunum. Þau lágu í gegnum garðinn, yfir runnana og hraðbrautina, í átt að fjörunni. Það birti til eftir því sem ég nálgaðist sjóinn og ég tók eftir því að í kringum mig var fjöldi fólks á leiðinni í sömu átt og ég. Risastór maður gekk fram hjá mér, grár á hörund með hrjúft andlit eins og grjót og á eftir honum fylgdi hópur stórbeinóttra og ófrýnilegra barna. Við hlið mér gengu nokkrar hávaxnar og ljóshærðar konur, íklæddar kyrtlum sem voru svo hvítir að frá þeim virtist stafa yfirnáttúrulegri birtu. Öll virtust þau vera á leiðinni niður að fjöru en enginn þeirra virti mig viðlits. Þegar ég var komin að klettunum sá ég hvert þau stefndu. Í flæðarmálinu lá stærðarinnar seglskip. Skipsskrokkurinn var úr dökkum viði og framan á skipinu tróndi rautt drekahöfuð með gapandi gin. Fólkið streymdi í skipið og í þvögunni sem hafði myndast fyrir framan það sá ég glitta í rauðan og úfinn koll sem ég kannaðist við. Ég kallaði nafnið hennar og hún sneri sér við. Hún brosti og veifaði til mín og ég var við það að taka á rás á eftir henni þegar ég fann að eitthvað hélt aftur af mér. Skeggjaður maður, klæddur loðfeldi og vopnaður stærðarinnar atgeir ýtti Úlfhildi á undan sér og hún hvarf inn í þvöguna. Mig langaði að hlaupa á eftir henni en ég fann að ef ég myndi gera það yrði ekki aftur snúið. Fólkið hélt áfram að streyma í skipið, þegar allir voru komnir um borð lagði það frá höfn og sigldi hægt út víkina. Það gæti hafa verið ímyndun en mér fannst ég sjá litla hönd veifa mér frá borðstokknum. Ég sat á klettunum og horfði á skipið fjarlægjast þar til það var orðið að pínulitlum bletti á sjóndeildarhringnum.

Þegar ég kom aftur heim voru pabbi og mamma enn sofandi. Ég leit á klukkuna og sá að hún var rétt yfir átta. Ég fór inn í herbergið mitt og sá að það lá eitthvað á dýnunni hennar Úlfhildar. Ég beygði mig niður og tók upp hlutinn. Þetta var krossinn hennar. Ég lagðist í rúmið og handlék hann. Hann var haganlega vafinn úr löngum sprekum, með fjórum jafnlöngum örmum og ferningi í miðjunni. Ég setti krossinn í gluggakistuna og hallaði mér aftur á bak. Leyfði tárunum að flæða þar til ég sofnaði.

Það varð uppi fótur og fit þegar mamma og pabbi fréttu af hvarfi Úlfhildar. Ég sagði þeim frá skipinu en þau virtust ekki trúa mér, hringdu í lögregluna og létu lýsa eftir henni. Um kvöldið kom lögreglumaður og ræddi við mig, þegar ég sagði honum frá skipinu hringdi hann nokkur símtöl og sagði engar skipaferðir hafa verið frá okkar hverfi þennan dag. Fjallað var um mál Úlfhildar í fjölmiðlum en eftir nokkrar vikur virtust flestir vera búnir að gleyma henni. Opinbera skýringin var sú að hún væri flóttamannsbarn sem hefði komið til landsins ólöglega og litlu púðri var eytt í að rannsaka afdrif hennar. Ég hafði engar áhyggjur sjálfur, enda vissi ég að hún hefði komist örugg burt. Ég hef þó oft hugsað um hana síðan og þá sérstaklega á þessum árstíma. Ég velti því stundum fyrir mér hvert hún hafi farið, hvort hún hafi ef til vill farið til Nýja Heimsins eins og við. Stundum hef ég jafnvel velt því fyrir mér hvort þetta hafi yfir höfuð gerst en svo lít ég á krossinn sem hangir yfir rúminu okkar Emmu og minningarnar streyma fram.

Elsku Þröstur, það kemur þér eflaust á óvart að ég skuli vera upptekinn af manneskju sem ég þekkti svo stutt, fyrir jafn mörgum árum. En það er svo skrýtið með suma atburði og sumt fólk, hvernig þau geta greypt sig í minnið eins og kvikmynd í stöðugri endursýningu. Það væri gaman að heyra frá þér, hvort þú átt sjálfur einhverjar minningar frá Úlfhildi og þessum tíma. Að öllu jöfnu þætti mér gaman að fá fréttir af ykkur þarna suðurfrá. Var uppskeran jafn góð og í fyrrahaust? Hafa skepnurnar átt auðvelt uppdráttar? Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og vonandi hittumst við heilir á nýju ári.

 

Þinn bróðir,

Hrafn

 

Þorvaldur S. Helgason

Þorvaldur S. Helgason / Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson