Steinunn G. Helgadóttir

Steinunn G. Helgadóttir / Mynd: Gassi

Eftir Steinunni G. Helgadóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2020.

 

 

Macho er farið að leiðast hér inni og treður nefinu í hálsakotið á mér.

Ertu virkilega að gefa í skyn að við ættum að fara út á hótelveröndina? spyr ég.

Hann kinkar kolli svolítið sorgmæddur.

Þetta hafa verið niðurlægjandi dagar fyrir okkur bæði, en alveg sérstaklega hann sem hefur þurft að láta sig hafa að fara út tvisvar á dag með dyraverðinum og gera þarfir sínar.

Dyravörðurinn reynir ekki einu sinni að leyna óbeitinni því Macho er ekki allra.

Andlitið sem lumar á svo mörgum svipbrigðum er of líkt okkar.

 

Sjálfri brá mér líka fyrst þegar ég sá hann.

Hvers konar hundur er þetta eiginlega? spurði ég konuna í búðinni sem sýndi mér dýrið.

Ég veit það ekki, svaraði hún. Dýralæknirinn segir að hann sé með sjúkdóm sem heitir vitilago, þess vegna séu andlitið og eyrun hárlaus og húðin svona hvít.

En það útskýrir ekki andlitsdrættina, bætti hún við eftir dálitla umhugsun. Alla vega held ég ekki að það verði auðvelt að losna við hann, þessi hundur virkar illa á alla sem koma hingað. Það er samt ekki sanngjarnt því hann er mjög þrifinn og ekki vondur. Karlinn sem átti hann bjó hér í Calle San Vincent og kallaði hundinn Macho. Þeir komu daglega á kaffihúsið hér við hliðina en annars höfðum við lítið af karlinum að segja. Þegar hann svo dó ætluðum við að láta lóga hundinum en fengum það ekki af okkur. Hann er svo óþægilega mennskur í útliti.

 

Eftir að ég kom heim gat ég ekki hætt að hugsa um þennan skrítna hund, eða hvað sem þetta var, og daginn eftir fór ég aftur. Skoðaði hann betur – og hann mig, því það var greinilegt að dýrið mundi eftir mér.

Þegar ég lyfti honum upp kom á óvart hvað hann var laufléttur og þegar Macho þrýsti andlitinu blíðlega að mínu fann ég svalar varirnar við vangann.

Kannski tók ég hann af því að Paco var hættur að elska mig.

 

Það kom í ljós að Macho fylgdi ítarlegur leiðarvísir.

Ekki bjóða honum hundamat. Hann vildi borða með eigandanum og sama mat.

Hann átti silkislopp sem hann vildi gjarnan klæðast þegar hann horfði á sjónvarpsfréttirnar.

Hann var ekki geltur en sýndi tíkum og öðrum hundum engan áhuga.

Hann vildi helst fara daglega í bað eða sturtu.

Honum leiddist að ganga alltaf sömu leiðina þegar farið var út með hann og hann vildi að úrgangurinn væri hirtur og fjarlægður í plastpoka.

Hann var hrifinn af klassískri tónlist en þoldi ekki nútímatónlist og rapp.

 

Þegar Paco flutti út viku eftir að Macho flutti inn tók ég varla eftir því og reyndar fór ansi margt framhjá mér einmitt þá. Ég vann mikið, fór lítið út og umhverfið kallaði ekki á mig, þrátt fyrir áreitið og hávaðann.

En svona ástand varir ekki endalaust, ég var löngu bókuð á fundinn hér í Róm og komst ekki hjá því að leggja land undir fót.

 

Macho hefur rétt fyrir sér, við ættum að skreppa aðeins út úr herberginu.

Ég stend upp, teygi mig og opna gluggann.

Það er skuggsýnt úti en Trevi-brunnurinn er upplýstur og niðurinn í vatninu berst upp til okkar. Macho stendur við hliðina á mér og við horfum á fyrstu stjörnurnar birtast á himninum.

Okkur finnst gaman að skoða stjörnurnar og uppáhaldið okkar er Merkúr, plánetan sem heitir í höfuðið á guðinum sem súmerarnir kölluðu Gud fyrir fimm þúsund árum og hét Nebo í Babylon. Hvaða nafni sem hann kallaðist var hann ritari guðanna, sá sem skrifaði sögurnar.

Þetta var áður en hann gerðist handbendi rómverskra kaupmanna, fékk sitt eigið musteri og árlega vorhátíð í Sirkus Maximus. Ferillinn er glæstur, enda plánetan næst sólinni.

Þarna er 450 stiga hiti, segi ég og bendi á stjörnuna.

Macho hryllir sig.

Ský yfirtaka himininn, draga fyrir stjörnurnar og í myrkrinu bíður lifandi-dauður óvinaherinn sem umkringir okkur, svo smágerður að við sjáum hann ekki.

Við Macho horfumst í augu. Hvort sem okkur líkar betur eða verr erum við fangar hér í þessari dásamlegu gömlu borg, föst á þreytulegu hóteli innan um fólk sem við kærum okkur ekki um að umgangast.

 

Kvöldverðurinn í boði hótelsins er að hefjast og mér finnst ekki taka því að klæða sig upp, en þegar við erum að fara út úr herberginu sest Macho og neitar að hreyfa sig. Ég skil strax hvað hann á við og andvarpandi fer ég inn í þrönga baðherbergið, bursta hárið og mála mig svolítið.

Ertu þá sáttur? spyr ég þegar ég kem fram og Macho kinkar kolli.

 

Matsalurinn er þétt setinn. Það hvarflar að mér að þetta sé varla líklegt til að hefta útbreiðslu veirunnar og við höldum áfram út á veröndina þar sem við finnum laust tveggja manna borð við hliðina á konunum sem einhver sagði að væru frá Íslandi. Sú í rauða kjólnum skoðar þriggja rétta matseðilinn áhugasöm á meðan hin skoðar Macho, án þess að reyna að leyna ógeðinu.

Þetta er gagnkvæmt. Macho kann ekki heldur við hana.

Þegar þjónninn kemur bið ég hann um sama matseðil fyrir Macho og vatnsblandað vín í víðri skál.

Þjónninn, sem er ungur og snar í hreyfingum, flissar og fer.

Þegar hann kemur aftur er hann með tvo forrétti, hvítvínsglas fyrir mig og skál fyrir Macho.

Forrétturinn er hrár fiskur, mjög góður en með honum er paprika og Macho finnst paprika vond svo hann borðar bara þann hluta fisksins sem ekki hefur snert hana.

Á meðan við nærumst gjóum við augunum laumulega á milli borðanna og veltum fyrir okkur hvort einhver sé lystarlaus, hvort einhver svitni, hvort augun gljái. Það er nokkuð víst að einhver hér er smitaður og smitar okkur hin en við reynum að láta sem ekkert sé.

 

Aðalrétturinn er lasagna með villisveppum og þykkum skafli af parmesanosti.

Fyrirgefðu, segi ég við þjóninn. Ég hefði auðvitað átt að segja það fyrr en Macho vill ekki parmesan.

Þjónninn móðgast ekki einu sinni. Hann bara hlær, grípur diskinn með svörtum latexfingrum og kemur strax aftur með nýjan skammt, án ostsins.

Ég er farin að kunna vel við þennan mann.

Flottur þessi þjónn, hvísla ég að Macho en hann stirðnar upp og hættir að borða. Missir áhugann á matnum.

 

Við setjumst öll inn í setustofuna að loknum kvöldverðinum og fólk byrjar að tala varlega saman.

Gömul kona stendur og styður sig við arininn, mjög drukkin. Ég sé og skil að konan sem er með henni skammast sín og hún reynir að fá vinkonuna með sér upp á herbergið. Þetta er niðurlægjandi fyrir þær báðar en að lokum kemur vinur minn þjónninn og þau hjálpast að við að koma henni í burtu.

Ég vinka til hans þegar hann kemur til baka og panta kaffi fyrir mig og vatn fyrir Macho, sem er í fýlu, og þegar þjónninn réttir honum vatnið rekur hann loppuna í skálina sem dettur í marmaragólfið og fer í þúsund mola með hávaða og látum.

Það verður þögn og allir stara á okkur en þjónninn kemur strax og hreinsar þetta upp. Nú skil ég hvernig gömlu konunni með fullu vinkonuna hefur liðið, verð reið, gríp Macho sem reynir að glefsa laust í mig og þramma með hann upp í herbergið, þar sem ég loka hann inni áður en ég fer sjálf aftur niður í setustofuna.

Fyrirgefðu, segi ég við þjóninn og býð honum borgun fyrir ómakið en hann brosir bara og hristir höfuðið.

Það eru lág borð á víð og dreif í setustofunni og sófar og hægindastólar í kringum þau. Ég sé auðan stól hjá ungum manni sem situr einn. Hann er að minnsta kosti tíu árum yngri en ég.

Er þetta laust? spyr ég um leið og ég hlamma mér niður.

Eh, já, segir hann.

Hvaðan ert þú? spyr ég í samræðutón.

Frá Noregi, segir víkingurinn og strýkur sítt hárið frá enninu.

Ertu í fríi?

Nei, ég er tónlistarmaður og var í verkefni hér. En það er búið.

Svo þegjum við bæði.

Mér mislíkar hvað hann virðist hafa lítinn áhuga á því hver ég er.

Ég er þýðandi, segi ég. Er að vinna að nýrri þýðingu á Tídægru fyrir spænskan útgefanda. Hefur þú lesið hana?

Strákurinn hristir höfuðið.

Við sitjum saman í þögn sem ég veit ekki hvernig ég á að túlka, ég les ýmislegt en ekki fólk. Fljótlega gefst ég upp og fer upp í herbergið mitt þar sem Macho er búinn að tæta upp rúmfötin og pissa í hornið við gluggann.

Ég baða hann og klæði í sloppinn sinn en hann er örvinglaður og ég skil hann.

Það er erfitt að geta hvorki skilgreint sig sem hund né mann og það tekur mig allan fyrri helming næturinnar að fá hann til að sættast við mig.

Þegar Macho er sofnaður ligg ég ein og þreifa á hálsinum, finnst hann kannski svolítið aumur og fingurinn kannski nema stækkaðan eitil.

 

Daginn eftir er eldgömlu marmaragólfi veitingahússins skipt upp með teipi sem ætlað er að mynda bása í kringum borðin en byrjar strax að losna á endunum. Okkur í sóttkvínni er líka skipt í tvo hópa sem borða hvor fyrir sig og fá þrjá tíma á dag á veröndinni.

Ég reyni að nýta tímann í vinnu og dagarnir renna saman, taka á sig lit umhverfisins og verða að lokum okkurgulir.

Við Macho erum í hóp með rauð/svörtu íslensku systrunum, norska tónlistarvíkingnum sem aldrei segir neitt, drykkfelldu bresku konunni og vinkonu hennar, eldri Þjóðverja og ungum mexíkóskum vini hans og lögfræðingi frá Norður-Ítalíu sem lítur út eins og kvikmyndaleikari. Hann er hrokafullur og talar við fáa en hinir gestirnir tala því meira um hann, og gamla byttan heldur því meira að segja fram að hann sé með byssu í innri vasa Burberry-frakkans.

Þjónninn, sem ég veit nú að heitir Marco, er alltaf jafn þolinmóður við Macho og Macho er alltaf jafn leiðinlegur við hann.

Stundum daðra ég við Marco, við erum orðin ágætir vinir, þetta styttir mér stundirnar og starfsfólkið er jafn innikróað hér og við hin, svo daðrið ætti bara að vera gott fyrir okkur bæði.

Macho er hættur að pissa í herberginu og tæta upp rúmið en hann sýnir mér nístandi kulda.

Það er erfitt að horfa upp á hann svona óhamingjusaman en Macho á það til að ganga of langt. Hann fer líka í manngreinarálit, eiginlega er það bara ungi Mexíkóinn, Angelo, sem hann sýnir áhuga. Við aðra er Macho dónalegur og afundinn. Ég er því farin að skila honum aftur upp á herbergið eftir matinn og skreppa sjálf niður.

Rétt fyrir miðnætti sný ég svo aftur til hans, full iðrunar, kveiki á sjónvarpinu og við horfum á einmana hetjur bjarga heiminum.

Aftur og aftur.

Ný og ný hetja.

Macho er veikur fyrir svona kvikmyndum og hann getur ekki stillt sig um að kíkja á skjáinn undan silkiermi sloppsins þar sem hann liggur við hliðina á mér. Ekki eins nálægt og venjulega.

 

Við gestirnir höfum fengið aðgang að þvottavél í kjallara hótelsins. Þetta er skuggalegur staður og þegar ég loksins manna mig upp í að fara þangað niður villist ég inn í eldgamla sturtu og hrekk við þegar skuggi af stórum manni birtist á veggnum á móti. Ég verð fegin þegar ég sé að þetta er bara lögfræðingurinn.

Fyrirgefðu, segir hann. Ég ætlaði ekki að hræða þig.

Hann stendur svo nálægt mér að ég finn andardráttinn, þetta er ekki smithræddur maður og lyktin af honum er góð.

Ég ætla ekki að reyna að útskýra það sem gerist næst. Hvort okkar á fyrsta græðgislega kossinn og af hverju við höfum ekki einu sinni hugsun á að einhver gæti komið að okkur, sem gerist blessunarlega ekki.

Það er ekki fyrr en hann er að fara sem ég sé giftingarhringinn og fyrst þá hvarflar að mér að kannski hafi hann ekki ástæðu til að vera smithræddur ef hann er sjálfur smitberinn.

Það er þó of seint að hugsa um þetta og ég laumast í gömlu sturtuna og þvæ mér eftir bestu getu með þvottaefninu sem ég keypti fyrir mislitt tau. Minn sambýlismaður er óhamingjusöm og óhamin sál með gott þefskyn.

 

Eftir atvikið í kjallaranum reynum við að láta sem ekkert sé þegar við hittumst í matsalnum eða á veröndinni en mér finnst eins og allir hljóti að skynja spennuna á milli okkar og það er skrítið að Macho skuli ekki gruna neitt.

Reyndar er hann farinn að vingast við þjóninn Marco af miklu offorsi, stekkur á milli hans og Angelos og flaðrar upp um þá og sleikir til skiptis.

Það gleður mig að Macho skuli vera orðinn svona mannblendinn en það leiðinlega er að hann heldur sig frá mér.

Ég má ekki einu sinni snerta hann og hann sefur ekki lengur hjá mér.

 

Eitt kvöldið þegar við erum ein eftir á veröndinni reynir Marco að kyssa mig og móðgast þegar ég vil ekki þýðast hann.

Ég veit hvað þú ert að hugsa, segir hann sár. Þjónustufólk er líklega varla manneskjur í þínum huga. Ef ég væri gestur hér tækir þú mér öðru vísi.

Hugsanlega.

Ég hugsa oft um lögfræðinginn.

Einu sinni hittumst við tvö ein í lyftunni og hann leggur handlegginn utan um mig, en þá stöðvast lyftan og enska fyllibyttan kemur inn.

Við hrökkvum eins langt frá hvort öðru og plássið leyfir. Sú gamla angar í miðjunni.

 

Það verður uppi fótur og fit þegar við fréttum að Angelo er kominn á sjúkrahús.

Var hann þá smitaður? spyr eldri norsk kona á slæmri ensku.

Já, það lítur út fyrir það, segir svartklædda íslenska konan glaðlega. Ég held að það hlakki í henni af því að hann er hommi.

Það getur þú ekki vitað, segir sú rauðklædda.

Hún er orðin þreytt á systur sinni.

 

Tveimur dögum seinna er þjónninn Marco líka keyrður burt í sjúkrabíl sem er auðvitað leiðinlegt og það er líka leiðinlegt hvað það lengist í sóttkvínni, en dagarnir halda áfram að leysast upp og bráðum fer þessu vonandi að ljúka.

Macho hefur líka verið blíðari við mig eftir að Angelo hinn fagri og Marco fóru. Kannski er hann leiður að missa þessa vini sína.

 

Á kvöldin horfum við saman út um opinn gluggann, hlustum á gusuganginn niðri í Trevi-brunninum og finnum Merkúr uppi á himninum.

Eftir kvöldbaðið fer Macho svo brosandi í sloppinn sinn, við kúrum og ég finn fleiri kvikmyndir og sjónvarpsþætti um fólk sem bjargar heiminum.