Merking (2021)

Merking (2021). Listaverk á kápu: Kristín Helga Ríkharðsdóttir og Kristín Karólína Helgadóttir. Uppstilling kápu: Alexandra Buhl / Forlagið

eftir Fríðu Ísberg

Úr skáldsögunni Merking sem er væntanleg 12. október. Mál og menning gefur út.

 

Frá því að hann var unglingur vissi hann að þau gætu gert betur. Hann horfði á vini sína kreppa hnefana og lemja í veggi. Hann sá kjálkavöðvana á þeim hnyklast þegar þeir reyndu að hafa stjórn á skapi sínu. Hann vissi hvernig þeim leið. Sama bræði átti til að magnast upp í honum. Brjóstkassinn gat hækkað eins og land á flekaskilum. Hann skildi þessa tilfinningu – að líða eins og brjóstið rúmaði ekki reiðina. Stundum beit hann á jaxlinn og herpti varirnar svo að það sem var innra með honum myndi ekki sleppa út, af því að hann vissi að það væri stjórnlaust. Að það væri ekki hægt að taka það aftur.

Hann fylgdist með föður sínum rökræða móður hans í kaf. Hann horfði á móður sína þegja og hrista höfuðið þegar hún varð uppiskroppa með svör. Hann sagði pabba sínum að tala ekki svona við mömmu hans og þá sagði pabbi hans Tala hvernig? Við erum bara að ræða málin. Faðir hans kreppti ekki hnefa og skellti ekki hurðum. En hann greip fram í fyrir fólki, hristi höfuðið þreytulega og fullyrti að eitthvað væri ekki rétt – hlutirnir virkuðu ekki Þannig, því miður, eitthvað var einfaldlega Svona. Hann staðhæfði þegar hann var að giska. Hann útskýrði þegar hann var að fylla upp í eyður. Hann var ákveðinn þegar hann var óviss.

Í lýðræðislegu þjóðfélagi er bylting ekki risastór líkami sem snýr sér af bakinu yfir á hliðina. Bylting í lýðræðislegu þjóðfélagi kemur í bylgjum og kemur utan frá, seitlar frá almenningi inn á þing eins og regnvatn í gegnum þakið. Aðalatriðið er ekki regnvatnið, heldur þakið. Þak lekur ekki nema það þurfi að skipta um það: Gamla þakið var míglekt. Önnina sem Óli byrjaði í menntaskóla urðu kaflaskil í þjóðfélaginu þegar ríkisstjórnin innlimaði sálfræðiþjónustu í geðheilbrigðiskerfið. Óli fékk úthlutað vikulegum sálfræðitíma á þriðjudögum milli frönsku og líffræði og þar lærði hann að greina ólguna. Sálfræðingurinn gaf honum verkfæri til að ræða við föður sinn og útskýra fyrir honum hvernig yfirgangurinn léti fjölskyldunni líða. Þegar þú talar svona þá líður okkur svona. Þegar þú notar þennan tón þá förum við í vörn.

Hann fylgdist með föður sínum fussa og sveia yfir öllu þessu tilfinningavæli. Systir hans sussaði á föður þeirra og sagði honum að vera ekki með þessa aggressjón, að ef hann ætlaði að taka þátt í samræðum þá þyrfti hann að haga sér eins og siðmenntuð manneskja. Þetta væri ekki reiptog eða keppni. Hann fylgdist með föður sínum hreyta út úr sér að þeim væri velkomið að iðka nærgætni og virðingu eða hvað sem þau vildu kalla þessar bergmálsrökræður, þessar Ég skil þig en ég er ósammála feldstrokur, en það myndi hann aldrei gera. Hann tryði á málfrelsi og hann tryði á heilbrigð átök.

Óli lærði að lesa stjórnmálamenn á sama hátt og hann las föður sinn. Hann lærði að vera kurteis og yfirvegaður. Hann fór út í háskólapólitíkina og betrumbætti setningu föður síns. Þetta er einfaldlega ekki rétt hjá þér varð Já, ég skil hvað þú meinar, en gæti þetta verið svona? Hann gekk til liðs við ungliðahreyfingu SÁL sem barðist fyrir því að innlifun – að setja sig í spor annarra – yrði kennd í grunnskólum frá sex ára aldri. Á þeim tíma var samkenndarprófið einungis í boði fyrir mjög afmarkaðan hóp samfélagsins; geðheilbrigðiskerfið notaði það til þess að mæla árangur dæmdra afbrotamanna eða annarra sjúklinga sem glímdu við siðferðisröskun.

En síðan kom stóri gagnalekinn. Óli var 22 ára, nýástfanginn af Sólveigu. Þau fengu að fara fyrr úr tímum til að standa með þúsundum öðrum á Austurvelli og krefjast uppsagna, dag eftir dag. Hann man kalda nóvemberdaga, heiðskíra og þungskýjaða á víxl. Hann man eftir því að hafa slegið um sig með orðum eins og narratíva, krítería og póststrúktúralismi, og man brosið á Sólveigu þegar hún sá í gegnum hann. Hann man eftir því að hafa staðið í mannþrönginni og hugsað að ef mannkynssagan hefði hjarta væru þau núna í högginu. Þar sem pendúllinn staðnæmist í loftinu í andartak áður en hann snýr við, úr einni átt í aðra.

Sögum ber ekki saman um hvaðan hugmyndin kom. Sumir segja að pólitíkus sem kom hvað verst út úr lekanum hafi stungið upp á þessu, að fara í samkenndarprófið til að afsanna klíníska siðblindu í tilraun til að rétta ímynd sína af. Sumir segja að hugmyndin hafi komið frá almenningi. Í öllu falli vatt hún upp á sig. Ein stjórnmálakona fór í blöðin með niðurstöður prófsins og svo önnur. Einn stjórnmálaflokkur lýsti því yfir að allir flokksfélagar yrðu sendir í prófið, og svo annar. Þremur vikum síðar samþykkti meirihluti Alþingis prófskyldu þingfólks, í von um að endurheimta traust almennings til stofnunarinnar. Óli upplifði sama létti og restin af þjóðinni þegar þessar sjö manneskjur neyddust til að segja af sér. Blað var brotið í sögu landsins þegar þingfólkið flúði úr byggingunni, daginn sem niðurstöðurnar komu í ljós.

Næstu ár fóru í að styrkja innviði geðheilbrigðiskerfisins. Nýja ríkisstjórnin byrjaði á að fylgja fordæmi nágrannalanda, bauð almenningi að taka prófið endurgjaldslaust, og lagði grunn að meðferðarúrræðum fyrir einstaklinga sem mældust undir viðmiði. „Við erum að fjárfesta í geðheilsu,“ sagði heilbrigðisráðherrann, 63 ára hjúkrunarfræðingur sem hafði starfað á Landspítalanum í þrjá og hálfan áratug. „Þetta mun margborga sig fyrir þjóðarbúið.“ Hún hafði sagt samstarfsfólki sínu frá niðurstöðum sínum í hálfkæringi við vaktaskipti. Niðurstöðurnar kvisuðust út og í kjölfarið var henni boðinn ráðherrastóll utan þings.

Ríkisstjórnin brást við kröfu almennings um prófskyldu löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdarvalds. Stuttu seinna ákvað borgin að fólk í umönnunarstörfum þyrfti að sýna fram á vottun úr prófinu líka, og að sá hæfileiki yrði metinn að verðleikum. Eftir eitt og hálft kjörtímabil fór krafan um opinberan kladda að krauma í samfélaginu, sem einstaklingar gætu skráð sig sjálfviljugir í að prófi loknu. Falsaðar vottanir spruttu upp eins og arfi, yfirleitt þegar fólk sótti um störf eða leiguíbúðir. Fólk byrjaði ekki að tala um merkingu, eða að merkja sig fyrr en SÁL gerði Kladdann aðgengilegan almenningi fyrir fjórum árum. Þá fór fólk að geta flett hvert öðru upp og sjá hverjir höfðu raunverulega náð prófinu.

Óli fylgdist með föður sínum verða þögulli fyrir utan veggi heimilisins. Fyrst státaði hann sig af því að vera ómerktur, svo hætti hann að státa sig af því að vera ómerktur. Af og til kom hann að föður sínum í símanum að tala um ástandið við vini sína í hálfum hljóðum. Hvað ástandið væri orðið skelfilegt. Skelfilegt alveg.

Svo skelfilegt að núna birtast fréttir á hverjum degi í fjölmiðlum um það hvernig merkingin hafi bjargað venjulegu fólki frá brotnu fólki og hvernig brotna fólkið hafi annaðhvort flutt úr landi eða farið í meðferð og bætt sig. Í hvert skipti upplifir Óli sama léttinn; að greitt hafi verið úr enn einni lítilli flækju í gríðarmiklum makka samfélagsins.