sem var í forsvari fyrir þorrablótsnefnd, sem þó var ekki eiginleg nefnd því starfsmannafélagið átti í raun að sjá um alla viðburði, í fyrirtæki sem samanstendur af húsgagna- og íþróttaverslun

Eftir Kristján Hrafn Guðmundsson

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2019.

Kristján Hrafn Guðmundsson

Kristján Hrafn Guðmundsson / Mynd: Tryggvi Már

Ég svitnaði aðeins þennan fyrsta dag í vinnunni þótt fötin hyldu það vel. Þau voru það dökk að engin ummerki sáust, en að öðru leyti var ég ekki skínandi glaður með þá garma sem örlögin höguðu svo að ég klæddist á þessari stundu. Meira um vert er þó sú staðreynd að fyrsti vinnudagurinn var ágætur. En minn næsti yfirmaður, lagerstjórinn, hefur þægilegri fjarveru en nærveru.

Ég hitti lagerstjórann fyrst á föstudaginn þegar framkvæmdastjórinn kynnti mig fyrir honum. Þá virkaði hann þokkalega á mig, enda reyndi hann að koma vel fyrir á meðan framkvæmdastjórinn var viðstaddur. Í dag var hann ekki jafn upplitsdjarfur, ég heyrði hann segja við annan lagermann að þetta hefðu orðið aðeins fleiri en tveir kaldir á laugardagskvöldið.

„Hvað heitirðu aftur?“ spurði hann fljótlega eftir tíukaffið. Hann hafði ekki yrt á mig fram að því. „Ég á frekar erfitt með að muna nöfn.“

„Magnús Skúli,“ svaraði ég.

„Úff, ég á aldrei eftir að muna það. Heyrðu Newman, þú þarft að ná í þessa pöntun hérna. Sjónvarpsskápur. 212-týpan í beyki.“

Ég ætlaði að fara að segja að hann þyrfti ekki að segja bæði nöfnin, svona til að auðvelda honum að muna. Magnús væri alveg nóg. En um leið og hann hafði slengt í lófann á mér blaði með staðfestingu á kaupum viðskiptavinar á sjónvarpsskáp var hann rokinn. Ég mundi nafnið hans: Einar.

Ég horfði á blaðið, númer á hillu og hólfi var ofarlega vinstra megin, ég mundi nokkurn veginn hvar á lagernum þetta var frá því í sýnitúrnum á föstudaginn. Ég var með góða rýmisgreind, þó að ég segi sjálfur frá.

Enginn skápur með þessu tegundarnúmeri var þó á þessum stað. Ég kíkti í nærliggjandi hólf og hillur. Þar voru bara annars konar vörur. Sjónvarpsskápar af annarri týpu eða annarri viðartegund; eik, kirsuberjaviði, mahóní.

Það fer nánast ekkert af mahóní lengur, sagði Einar lagerstjóri við mig og framkvæmdastjórann á föstudaginn. Hljómaði eins og hann væri með allt á hreinu. Framkvæmdastjórinn var fljótur að samsinna því. Svo helltu þeir einhverjum meiri fróðleik um húsgögn inn í eyrun á mér – auknar og dvínandi vinsældir á hinu og þessu síðustu ár, hvernig unnt er að greina á milli gegnheils viðar og spónaplötu með filmu, gæði versus verð og fleira. Það var eins og þeir væru í einhvers konar keppni; einvígi um hvor vissi meira, hvor væri betur inni í öllu sem snýr að húsgagnabransanum. Stundum fannst mér ég ekki staddur þarna lengur andlega, eins og líkami minn liðaðist stjórnlaust á eftir þessum tveimur masandi mönnum.

Eftir að hafa skoðað í krók og kima við skráða staðsetningu sjónvarpsskápsins fór ég aftur fram í lagermóttökuna. Þar beið karl í kringum fertugt með blað í hendi. Hann bauð mér góðan daginn að fyrra bragði, sagðist vera að ná í sjónvarpsskáp. Í beyki. Ég kvaðst einmitt vera að leita að honum, hann hafi ekki verið á staðnum þar sem hann átti að vera.

„Ekki á staðnum? Hvað, skrapp skápurinn bara frá?“ heyrðist allt í einu til hliðar við mig. Og svo hlátur. Einar kom askvaðandi, hrifsaði af mér blaðið.

„Kallinn minn, varstu ekkert að fylgjast með hérna um daginn?“ sagði hann í hæðnistóni. Leit svo á kúnnann og sagði honum að ég væri glænýr. „Þegar atvinnuleysi er lítið í þjóðfélaginu geta hvaða pappakassar sem er fengið vinnu,“ bætti hann við og hló hlátri sem gaf til kynna góð afköst í reykingum síðustu áratugi.

Einar sagði mér að elta sig og arkaði af stað inn á lagerinn. Ég var í alltof stórri peysu merktri húsgagnaversluninni, þeir áttu bara þessa stærð og svo aðra sem var alltof lítil, ég hefði kannski betur valið þá þröngu því mér fannst ég skyndilega minnka allur á meðan ég reyndi að halda í við Einar. Buxurnar mínar voru líka í víðari kantinum og ég hafði gleymt að setja á mig belti áður en ég fór að heiman. Ég sem átti mjög flott belti sem ég fékk frá vini mínum í 25 ára afmælisgjöf um daginn.

„Newman, manstu ekki hvað ég sagði á föstudaginn? Verslunin er bara hér í næsta húsi þannig að kúnnarnir eru alltaf komnir stuttu eftir að þeir kaupa hlutinn inni í búð. Skilurðu? Og það þýðir að við þurfum að vera röskir að ná í draslið, skilurðu? Um leið og meldingin kemur á skjáinn hjá okkur þá er það bara gó! Eða ef þú sérð fyrst blaðið prumpast út úr prentaranum, áður en þú sérð staðfestinguna á skjánum, þá gildir það sama. Við hrifsum blaðið úr draslinu og rjúkum í málið! Það er bara þannig. Ókei?“

Ég játti því um leið og við tókum allt í einu hægri beygju, svo aðra snögga til vinstri. Skýrði svo mál mitt með því að sjónvarpsskápurinn hefði ekki verið á þeim stað sem stóð á blaðinu. Einar snarstoppaði fyrir framan hillu A-169, benti á flatan kassa með sama tegundarnafni og –númeri og var á blaðinu, gerði svo selbita á hillunúmerið á blaðinu. „Hérna! Hvað var vandamálið?!“ spurði hann hvasst.

Ég leit á blaðið, svo á hilluna.

„Já, er þetta 1 þarna fremst? Ég las þetta sem 7. Sorrí, maður.“ Ég saug upp í nefið, hafði verið með eitthvert nefrennsli undanfarið.

„Við vælum ekkert yfir þessu eins og einhverjar kellingar. En passaðu bara upp á þetta.“

„Yes, geri það.“

Allt í einu fór Einar svo að tala um þorrablót fyrirtækisins sem halda átti föstudaginn í næstu viku. Sagði að það yrði geggjað, ég yrði að mæta. Ég gerði mér upp áhuga, spurði hvar það yrði haldið, svona til að sýnast áhugasamur. Einar sagði þá smá maus vera í kringum það.

„Ég er sko formaður þorrablótsnefndarinnar, sé svona að mestu um þetta,“ fræddi hann mig um. „En gaurinn með salinn er eitthvað að klikka.“

 

* * *

 

Húsgagnaverslunin var önnur af tveimur verslunum fyrirtækisins. Hin var íþróttaverslun í sömu byggingu. Í auglýsingu sem hékk á tilkynningatöflu við sameiginlega kaffistofu starfsmanna stóð að þorrablótið væri fyrir báðar verslanir. Ég rak augun í auglýsinguna þegar ég fór í kaffi á degi tvö. Þar kom einnig fram að húllumhæið yrði í sal í Síðumúla, makar velkomnir, verð fyrir starfsmann tvö þúsund krónur, fyrir maka fimm þúsund, mátti koma með eigið áfengi.

Auglýsingin var á hvítu A4-blaði. Á miða fyrir neðan auglýsinguna stóð:

Fundur í dag um þorrablótið. Mikilvægt!!!
Á kaffistofunni kl. 18:15 allir að mæta!
Nefndin

Ég ætlaði að mæta á þorrablótsfundinn, fannst ég ekki geta annað en sýnt smá áhuga, að minnsta kosti látið eins og ég vildi leggja mig fram við að hristast saman við hópinn. Magga systir hafði líka ráðlagt mér þetta þegar ég heyrði í henni í gærkvöldi og þorrablótið barst í tal. Hún sagði að maður fari að tala um aðra hluti við samstarfsfólkið á svona uppákomum, hluti sem færi mann nær því, og þá verði vinnudagarnir almennt ánægjulegri.

Klukkan var rétt rúmlega sex þegar ég var kominn á kaffistofuna. Annar lagermaður, Árni, var samferða mér. Einar hafði ekki sést mikið í dag, en hafði rekið inn nefið seinni partinn. Þá lagði hann mikla áherslu á að við lagermennirnir mættum á fundinn.

Ellefu manns voru mættir, að mér meðtöldum. Af þeim sem ég vissi deili á voru hinir þrír lagerstarfsmennirnir, þrír sölumenn í húsgagnaversluninni og svo framkvæmdastjórinn. Sem þýddi að hinir voru sennilega starfsmenn íþróttaverslunarinnar, þar af ein stelpa. Þegar ég fékk kynninguna á föstudaginn var mér sagt að samtals ynnu hátt í tuttugu og fimm manns í fyrirtækinu, ef helgarfólkið í íþróttabúðinni er talið með. Sem er aðallega krakkar í kringum tvítugt, ýmist í framhaldsskólanámi, háskólanámi eða vissu ekki hvaða leið þau vildu feta í lífinu.

Þegar fimm mínútur voru liðnar síðan fundurinn átti að hefjast samkvæmt tilkynningunni strunsaði Einar inn:

„Jæja, við getum ekki verið að bíða lengur,“ sagði hann á meðan hann gekk innst í kaffistofuna. Þar sneri hann sér við og hélt áfram. „Hjá sumum er bara enginn heima þótt ljósin séu kveikt. Það er bara þannig. En sko, málið er annars vegar að það hafa helvíti fáir skráð sig á þorrablótið. Og það eru ekki margir mættir hér á fundinn þannig að þið verðið að hjálpa mér að ýta á eftir liðinu. Ha? Þið vitið, pressa á það að skrá sig og mæta í geimið. Hitt málið sem ég ætla að ræða hérna er að gaurinn sem hefur alltaf leigt okkur salinn í Síðumúla er að skíta upp á bak. Hann tvíbókaði salinn þetta kvöld.“

Þegar Einar var spurður hvenær hann fékk að vita þetta svaraði hann í dag. Sem passaði ekki, hann sagði mér þetta í gær.

„Og gaurinn segist ekki geta kansellað hinu dæminu. Það var búið að greiða inn á fyrir því geimi. Þannig að málið er að við þurfum að finna nýjan sal.“ Aðspurður hvort nefndin sjái ekki bara um það samþykkti Einar það, bætti svo við að hann gæti reddað sal á Funahöfða. Og að þetta væri þá greiði sem hann væri að taka út sem hann ætti inni hjá vini sínum.

„Er einhver á móti því? Má ég sjá, rétti upp hönd þeir sem eru á móti því. (Ein sekúnda leið.) Enginn? Flott, ég græja þetta þá bara. En munið, þið þurfið að hjálpa mér að pressa á liðið að skrá sig. Það er bara þannig.“

Ég skráði mig á listann, fór út í strætóskýli, furðaði mig á því að svona menn fengju mannaforráð.

 

* * *

 

Daginn eftir lenti ég á spjalli við Brynju í bókhaldinu í tíukaffinu. Ég hafði rétt séð Einari bregða fyrir þarna um morguninn, en svo var hann horfinn. Hann fór mikið í reykpásur fyrir aftan húsið, ýmist með hinum lagermönnunum eða tveimur sölumönnum. Ég reyki ekki. Bara á djamminu og kaffihúsum. Og í útlöndum.

Brynja var viðkunnanleg, var á aldur við foreldra mína en miklu hressari. Við vorum bæði með ristaða brauðsneið með rifsberjasultu og osti og kaffibolla. Brynja spurði hvernig mér litist á nýja starfið (tvær sekúndur liðu), „nokkuð vel,“ sagði ég, í sama mund tók ég eftir sultuklessu á annarri ermi lagerpeysunnar. Ég sleikti klessuna af, sá eftir því strax, sagði „sorrí með subbuskapinn“. Brynja brosti móðurlega, mér heyrðist hún segja „ekkert mál“, borhljóð frammi í búð olli efanum. Hún spurði mig út í fyrri störf, ég svaraði samviskusamlega, ég spurði hvað hún hefði unnið þarna lengi (átta ár, níu mánuði, einn dag) – við hlógum.

Samtalið leiddist út í fleira, eins og þorrablótið. Brynja sagði Einar ekki þann vinsælasta í fyrirtækinu. Hefði svolítið oft verið með leiðindi við aðra starfsmenn, nuddað þeim upp úr einhverjum mismælum og smámunum, svo dæmi séu tekin. Og á jólahlaðborðinu fyrir nokkrum vikum hefði hann verið með afar óviðeigandi athugasemdir við tvær stelpur í íþróttabúðinni. Á meðan Brynja talaði sagði ég „ókei“ nokkrum sinnum, stundum „já, er það“, eitt skiptið sagði ég „sæll“ með undrunartón. Þá er æ-ið langt.

Önnur kona af skrifstofunni kom að borðinu með kaffi og kex. Hún var mjög brún, ef hún var ekki nýkomin af sólarströnd stundaði hún sjálfsagt einhverja sólbaðstofu, eins og sumir vina minna. Ég fer ekki oft í ljós, nema þegar eitthvað stendur til: ball á framhaldsskólaárunum, árshátíð, gamlárskvöld. Konan var eldri en ég en sennilega yngri en Brynja. Hún kynnti sig og rétti fram hægri hönd. Ég gerði eins, konan kvaðst heita Sísí. Ég var næstum búinn að segja að það mætti örugglega ekki, í léttum dúr með vísan til mannanafnanefndar. Fannst það síðan ekki sterkur leikur svona stuttu eftir peysusultusleikinn.

 

* * *

 

Skömmu eftir kaffið var ég staddur inni á lager með Árna, ég hafði afgreitt eina pöntun, kona hafði náð í innskotsborð úr kirsuberjaviði. Mig grunaði reyndar að þetta væri ekki gegnheill viður, einungis spónaplata í kirsuberjalit, með filmu. Ég sagði konunni frá þessum vangaveltum mínum. Hún brosti, sagðist gera sér grein fyrir því, þá sagði ég henni að borðið væri líka til í mahóní en sú týpa væri á útleið. „Fáir kaupa mahóní nú til dags,“ bætti ég við. Þennan fróðleiksmola mátti ég þakka Einari.

Árni var sterklega vaxinn, mun herðabreiðari og nokkru hærri en ég. Hann var að segja mér frá vaxtarræktarkeppni sem hann hefði einu sinni tekið þátt í þegar Einar gekk inn.

„Jæja, hvað segið þið? Eruð þið ekki búnir að ýta á eftir einhverjum með að skrá sig á þorrablótið?“ Ég vissi ekki hvað ég átti að segja, var auðvitað ekki búinn að kynnast neinum þannig í fyrirtækinu að eðlilegt gæti talist að ég færi að pressa á fólk að gera eitt eða neitt. Árni sagðist hafa verið búinn að gleyma þessu með dræma skráningu. Hann lofaði bót og betrun.

„Heyrðu, voruð þið búnir að heyra þetta með strípistaðina í fréttum?“ sagði Einar allt í einu.

Árni spurði á móti hvort hann meinti fyrirhugað bann við einkadansi. Jú jú – það var heldur betur það sem Einar átti við. Hann lýsti yfir einskærri furðu sinni á slíkum boðum og bönnum. Að konur megi ekki ráða því hvort þær dilli líkama sínum í námunda við nokkra karla og fá greitt fyrir. Þegar við Árni höfðum tekið undir undrun Einars hækkaði hann róminn.

„Ég meina, er þetta ekki bara list? Það er nú þvílíkt og annað eins bull sem einhverjir atvinnuleysingjar í hundrað og einum skíta á blað eða eitthvað álíka, og kalla það list án þess að nokkur mótmæli því! Og svoleiðis kjaftæði gleður ekki nokkurn mann, á meðan fáklædd kona með flottan kropp getur heldur betur glatt fullt af karlmönnum með smá dansi. Og svo fara þeir heim og ríða eiginkonunni og allir eru glaðir! Ha?!“

Árni samsinnti, sagði að þetta væri algjört rugl. Ég kinkaði kolli til að halda Einari góðum, og sá fyrir mér þessi þrjú skipti sem við félagarnir höfðum farið inn á sóðabúllur við Grensásveg og í iðnaðarhverfi í Kópavogi. Ég fékk ekki mikið út úr því, hafði prófað einkadans en fannst það hálfvandræðalegt. Strákarnir höfðu splæst á mig á afmælisdegi fyrir tveimur árum. Þegar daman var hætt að skaka sér á mér þarna í kompunni þakkaði ég henni kurteislega fyrir og fór aftur fram í sal. Laug að félögum mínum að þetta hefði verið „geðveikt“.

Pöntun prentaðist út, Einar hrifsaði hana úr prentaranum, pírði litlu augun sín á blaðið og sagðist sjá um þetta. Rauk svo af stað. Ég settist á stól við hliðina á prentaranum, tók upp símann, fór í snake.

 

* * *

 

Í hádegismatnum daginn eftir lenti ég á spjalli við stelpu sem afgreiðir í íþróttabúðinni. Þær voru ansi margar sem unnu þar, sumar svolítið sætar, það voru alla vega tvær sem mér fannst sætari en þessi. Samt varð ég frekar stressaður þegar hún settist við borðið þar sem ég sat, ég var svo sem ekkert sá getnaðarlegasti í alltof stóru lagerpeysunni. Hún var á aldur við mig, á hinum tveimur borðunum voru starfsmenn í húsgagnabúðinni og af skrifstofunni, öll nokkru eldri en við.

Hún var mjög kurteis, sagðist heita Rebekka, ég umlaði mitt nafn, hún spurði svo hvort ég væri ekki nýbyrjaður á lagernum. Hún var í rauðum bol merktum íþróttabúðinni eins og öll sem þar unnu.

„Jú, þetta er … svona eiginlega fjórði dagurinn minn. Þannig séð,“ svaraði ég, með föstudaginn í huga sem var ekki beint vinnudagur. Úff, gat ég ekki komið þessu svari betur frá mér.

Rebekka sagðist núna í vor hafa unnið þarna í ár, hætti í lögfræði í háskólanum eftir fyrsta árið. „Skraufþurrt dæmi, þótt þetta sé auðvitað praktískt. En ég held að ég hafi farið í lögfræðina svolítið til að þóknast pabba,“ sagði hún og bætti við að hann væri hæstaréttarlögmaður. Núna væri hún bara að vinna þangað til hún fyndi innra með sér hvað hún vildi í raun læra.

Tíminn flaug, það var gaman að spjalla við Rebekku, hún var með mikla samskiptagreind. Það er víst ein af greindartegundunum átta, hafði ég lært í sálfræði í menntó. Sumir segja að greindartegundirnar séu enn fleiri.

Þegar stutt var eftir af matartímanum ákvað ég að spyrja Rebekku út í Einar, þetta sem Brynja sagði mér í gær. Ég talaði mjög lágt, Rebekka ranghvolfdi í sér augunum.

„Þú ert sem sagt búinn að heyra af því hvernig þessi gaur er,“ sagði hún jafnlágt, og bætti við að Brynja vissi nú ekki nærri því allt. Hún var nánast byrjuð að hvísla. „Ekki fara með þetta neitt lengra, en það er ein stelpa í íþróttabúðinni búin að kæra hann.“

Rebekka þagnaði. Mér fannst ég verða að vita hvað minn næsti yfirmaður hefði verið kærður fyrir, áræddi því að spyrja og Rebekka kinkaði löturhægt kolli á meðan hún horfði djúpt í augun á mér. Þá tók ég eftir hvað hún er með flott augu, kannski væri hægt að segja að hún sé með mikla augnagreind.

„Hún kærði hann fyrir það sem gerðist á jólahlaðborðinu. Hann reyndi að nauðga stelpunni inni á fatlaðraklósettinu. En hún náði að ýta honum af sér.“

Einar kom stormandi inn á kaffistofuna. Við Rebekka sátum ekki nálægt innganginum og höfðum talað lágt svo litlar líkur voru á að Einar hafi greint orðaskil. „Jæja, Newman, ert þú hér bara til að drekka kaffi og kjafta við stelpurnar? Það er verið að bíða eftir Lazyboy-stól niðri á lager!“ Hann skellti útprenti á borðið fyrir framan mig.

 

* * *

 

Miði um annan fund vegna þorrablótsins var kominn á töfluna daginn eftir, föstudag. Aftur átti hann að vera eftir vinnu. Það hafði verið svolítið skrítið að vera í vinnunni frá því Rebekka sagði mér um atvikið á jólahlaðborðinu. En Einar hegðaði sér eins og áður; hávær, kvikur í hreyfingum, gaf reglulega í skyn að ég væri að drolla í vinnunni. Hann var aðeins skárri við hina lagerstarfsmennina, nema kannski Árna. Við Árni áttum það sameiginlegt að reykja ekki. Ég íhugaði hvort maður ætti að byrja á því, þá yrði Einar kannski aðeins viðkunnanlegri við mann. Ekki að ég vildi verða vinur þessa manns, hvað þá eftir það sem Rebekka sagði mér. Þetta var bara svona pæling. En ég ætlaði alla vega að mæta á fundinn.

Enn færri voru á kaffistofunni en á síðasta fundi, sjö manns, allt andlit sem voru líka síðast. Einar kom nokkrum mínútum eftir að fundurinn átti að hefjast og byrjaði strax að agnúast út í að það stefndi í „ömurlega mætingu á þorrablótið“, skráning hefði aldrei verið verri þessi ár sem hann hefði „séð um blótið“. Spurði svo fundarmenn hvort þeir væru ekkert að hvetja aðra til að skrá sig.

„Þetta gerist ekkert af sjálfu sér, skiljiði? Ha? Við þurfum að standa saman í þessu. Það er bara þannig.“ Piltur úr íþróttabúðinni sagði einn félaga sinn vera að pæla í að skrá sig, Einar svaraði að það væri ekki nóg að pæla, menn þyrftu að framkvæma.

„Eitt að lokum,“ bætti Einar við. „Ég heyrði orðróm um að það yrði að vera eitthvað annað en bara þorramatur. Mér finnst það náttúrlega algjört rugl, en get svo sem pantað nokkur kjúklingaspjót fyrir þessa sem eru ekki alvöru Íslendingar. Fundi slitið.“

 

* * *

 

Mér fannst helgin búin áður en hún hófst. Ég datt í það með tveimur félögum á föstudagskvöldinu, ætluðum bara að fá okkur nokkra bjóra heima hjá öðrum þeirra, kannski horfa á boxbardaga sem átti að vera í sjónvarpinu. Enduðum með að fara niður í bæ, ég var heilsulítill á laugardeginum.

Á mánudeginum var ég svolítið aumur á sumum stöðum í húðinni því ég og félagi minn fórum í ljós kvöldið áður. Ég hafði farið í túrbótíma af því að það var á tilboði. Ég hefði betur farið í hefðbundinn tíma. Auk eymsla í skrokknum var andlitið ansi rautt og freknurnar á nefinu sýnilegri en venjulega.

Í hádegisverðinum lenti ég á borði með Brynju úr bókhaldinu, Rebekku og strák og stelpu úr íþróttabúðinni. Í hljóðkerfi fyrirtækisins, sem meðal annars ómaði á kaffistofunni, var alltaf stillt á sömu útvarpsstöð. Mér heyrðist sömu tuttugu lögin vera spiluð þar í lúppu. Framkvæmdastjórinn vildi ekki að skipt væri um rás, hafði Rebekka sagt mér. Tónlistin á stöðinni væri ídeal fyrir viðskiptavini, létt og þægileg lög, ekki of ágeng fyrir kúnnann. Nú var lag að hefjast sem ég hafði sennilega heyrt þrisvar í gær. Söngkonan opnaði á orðunum From this moment, life has begun.

Við spjölluðum mikið í matartímanum, eða aðallega Brynja, Rebekka og hin tvö úr íþróttabúðinni. Mér fannst samt gaman að hlusta bara á samstarfsfólk mitt. Ég ætlaði einu sinni að koma með smá innlegg, viðbragð við svolitlu sem Rebekka hafði sagt, sem ég held að hefði hljómað fyndið. En ég var of seinn, gaurinn úr íþróttabúðinni var á undan og allir við borðið hlógu. Það sem hann sagði var keimlíkt því sem ég hafði ætlað að segja. Þegar ég hugsaði um þetta augnablik síðar um daginn inni á lager, og aftur í strætisvagninum eftir vinnu, var ég viss um að mitt innlegg hefði þótt fyndnara.

Það sem var hins vegar ekki fyndið við þennan hádegisverð voru síðustu mínúturnar. Brynja hafði sagt hversu óþolandi væri að búa í þessu veðravíti á Íslandi og stelpan úr íþróttabúðinni tók þann bolta og spurði hvort ég hefði skotist á sólarströnd eftir vinnu í gær. Mér fannst svitadropar myndast við hársrótina og í handarkrikum, leit á grilluðu samlokuna mína á disknum, setti upp vandræðalegt bros. Sagðist svo hafa aðeins kíkt í ljós, félagi minn hefði platað mig með sér. Ég fann svitadropa leka niður hægri handarkrika. En mér leið líkt og þungu fargi hefði verið af mér létt þegar Rebekka sagðist einmitt eiga pantaðan ljósatíma í kvöld. Það var þó skammgóður vermir því ég fann hvöt til að rökstyðja ásókn mína í dekkra hörund með því að segjast hafa verið að „hressa mig aðeins við fyrir þorrablótið“.

Skrítinn svipur kom á sessunauta mína.

„Ætlarðu í alvöru á þetta þorrablót?“ spurði Rebekka, spurning sem mér sýndist öll hin hafa verið að hugsa.

Í útvarpinu var nýbyrjað lag; Þúsundir bíla þjóta hjá, þegar tilveran er grá. Allt var á útopnu í hausnum á mér í leit að orðum. Svari. Á sama tíma hugsaði ég að kannski væri skiljanlegt að þau ætluðu ekki að mæta á djamm sem skipulagt var af Einari, þau sem þekktu þessa stelpu sem hann reyndi að nauðga. En ég þekkti hana ekkert, vissi rétt svo hvernig hún leit út eftir að Rebekka benti mér á hana um daginn. Og orð Möggu systur höfðu hljómað mjög skynsamlega, þetta með að nauðsynlegt sé að mæta á uppákomur utan vinnutíma því þar tali fólk um aðra hluti við samstarfsfólkið. Hluti sem færi mann nær því.

„Æi, ég veit það ekki, var svona að pæla í því. Eða, þú veist … það er náttúrlega ekkert gaman ef fáir mæta.“ Við borðið var þrúgandi þögn. Í óðagoti hélt ég áfram.

„Það eru ekki beint margir starfsmenn … eða, þú veist … ekki margar manneskjur í fyrirtækinu búnar að skrá sig. Ég veit ekki, ætli þetta verði þá nokkuð haldið? En einhverjir á lagernum ætla alla vega að mæta sko …“

Gat gæti hafa myndast í gollurhúsinu í mér, hjartað hamaðist það kröftuglega. Ég heyrði mig sjúga upp í nefið. Samt var ég ekki lengur með nefrennsli.

„Ég ætla alla vega ekki,“ sagði Rebekka. Hin tóku undir. Framkvæmdastjórinn kom inn á kaffistofuna, náði sér í tvær kexkökur sem voru á eldhúsbekknum, sagði ekki orð og gekk út. Öll við borðið og næsta borð stóðu upp.

„Honum finnst við hafa verið nógu lengi í mat,“ sagði Rebekka mér þegar allir, í einfaldri röð, gengu frá leirtaui inn í uppþvottavél fyrirtækisins. „Hann beitir stundum svona þagnarinnliti, það þýðir að við eigum að fara að vinna.“

Að Rebekka skyldi yrða á mig eftir umræðuna um þorrablótið lét mér líða eins og sjómanni sem fallið hefur útbyrðis en sér björgunarþyrlu nálgast. Þegar við marseruðum svo í einfaldri röð út um dyr kaffistofunnar klappaði Brynja á herðablaðið á mér, ég sneri höfðinu, hún var hughreystandi á svipinn. Svo fann ég verk. Djöfulsins túrbótíminn.

 

* * *

 

Tveimur dögum síðar var enn kominn miði á tilkynningatöfluna. Fundur um þorrablótið var boðaður á kaffistofunni í lok dags, sem yrði sá þriðji á rúmri viku. Ég ætlaði ekki að mæta einu sinni enn, var hvort eð er hættur við að fara á þorrablótið eftir samræðurnar á kaffistofunni.

Stimpilklukkan var á ganginum við kaffistofuna. Þegar ég nálgaðist hana til að stimpla mig út heyrði ég að fundurinn var byrjaður. Ég sá fjóra hnakka og andlitið á Einari. Heyrði ekki alveg orðaskil en greip orðin „rugl“, „kjaftæði“, „kansella“.

Daginn eftir voru auglýsingin og skráningarlistinn fyrir þorrablótið farin af töflunni. Einar sagði okkur lagermönnunum frá því hversu mikið „búllsjitt“ væri í gangi í þessu fyrirtæki, ég hafði misst af byrjun frásagnarinnar því ég var að ná í vöru fyrir kúnna. En kjarninn í frásögn hans var að þorrablótið yrði ekki haldið, þegar ég spurði hvers vegna sagði Einar að ég yrði bara að drullast til að mæta á fundi sem boðað væri til í fyrirtækinu. Svo hló hann, kallaði síðan þegar hann var á leið út í smók með tveimur lagermönnum: „Newman, ætli vinkonur þínar í sportbúðinni geti ekki sagt þér alla lygasöguna sem eyðilagði þorrablótið?!“ Svo umlaði hann „fáviti“ og eitthvað fleira við lagermennina sem voru á leið með honum í smókinn.

Stelpan sem kærði Einar mætti ekki framar í vinnuna. Ég vann fram á vorið, fékk þá starf í byggingavinnu. Vikurnar fram að því voru ekki bestu vikur ævi minnar, en kaffi- og matartímar voru fínir. Seinna heyrði ég að kærunni hefði verið vísað frá. Og að Einar hefði unnið á lagernum í þrjú ár í viðbót, eða þar til hann sagði upp til að taka við mun stærri lager hjá skipafyrirtæki.

 

* * *

 

Nokkuð mörgum árum eftir þessa atburði, kannski fimmtán, rakst ég á Einar. Hann var að koma út af skemmtistað sem var beint á móti Landsbankahúsinu í Austurstræti. Gekk niður tröppur fyrir utan staðinn, rauðþrútinn í framan, meira að segja í fjarlægð sást hve skítugt hárið var. Hann datt næstum í götuna þegar hann steig niður síðasta þrepið, slapp með skrekkinn. Þegar hann ýtti efri búknum upp með því að styðja báðum höndum á læri vorum við hjónin komin alveg upp að honum.

Ég heilsaði honum með nafni. Einar leit á mig, pírði litlu augun, hann var með nokkurra daga skegg og óhreinindi í munnvikum.

„Þekki ég þig?“ spurði hann hranalega.

„Ja, við unnum saman einu sinni. Manstu ekkert eftir mér?“

Hann hnussaði. „Ég hef vunnið … unnið með svo mörgum drýslum í lí… lí… lífinu,“ sagði hann drafandi um leið og hann fiskaði sígarettupakka upp úr vasanum á dökkbláu prímaloftúlpunni sinni. Mér sýndist standa Manderlay á pakkanum.

„Ég heiti Magnús Skúli. Þú kallaðir mig reyndar bara Newman.“

Hann greip í öxlina á mér. „Þú já. Píkurnar dý… dý… dýrkuðu þig. Þú varst svona … svona einn af stelpunum. Haha!“
Þetta „haha“ var líkt og blanda af hlátri, hósta og eins konar fagnaðarhljómi, eins og hann væri ánægður með hversu vel honum hefði ratast á orð.

„Einn af stelpunum …“ endurtók hann á meðan hann setti upp í sig sígarettu og kveikti í. „Hommatittur,“ bætti hann við og blés reyk.

„Hann er reyndar eiginmaður minn,“ sagði Begga og brosti í átt að Einari. Hann kipptist við og leit á hana. Eins og hann hefði ekki tekið eftir því að hún stæði þarna við hlið mér fyrr en nú. Hann grandskoðaði andlitið á henni, setti í brýnnar, hallaði höfðinu til hliðar.

„Þ… þ… þú ert nú ekkert ægilega ljót. En ertu ekki soooldið feit?“ sagði Einar og leit niður eftir líkama Beggu.

„Ert þú ekki soooldið ókurteis?“ spurði Begga á móti, sallaróleg. Einar hnussaði, hristi hausinn, og hóf að ganga í burt frá okkur. Eftir tvö skjálfandi skref féll hann í gangstéttina. Við hjálpuðum honum á fætur, studdum hann inn í næsta leigubíl, hann var sem betur fer fús til að gefa strax upp heimilisfang sitt. Í bílnum blótaði hann aðeins, datt út þess á milli.

Við fylgdum honum inn í íbúðina litlu í Kóngsbakka. Það tók Einar óratíma að finna húslykilinn, hann tók ekki í mál að fá aðstoð.

„Égséummigsjálfur“ kom í einni bunu út úr honum.

Þegar hann var loksins búinn að opna dyrnar eigraði hann inn í myrkvaða íbúðina, ég hitti á ljósrofann í fyrstu tilraun og fylgdi á eftir þessum sikksakkandi líkama, auðnaðist ekki að grípa hann þegar jafnvægið brást inni í reykþefjandi stofunni. En honum tókst að setja hendurnar fyrir sig, lendingin á plastparketinu því ekki jafn harkaleg og í stefndi. Það munaði litlu að hann lenti á sófaborðinu. Á því stóðu tvö glös með einhverju sulli í, diskur með storknaðri eggjarauðu, hnífapör, stútfullur öskubakki.

„Hommatittur,“ sagði lagerstjórinn þar sem hann lá á maganum við hlið sófaborðsins. Ég sagði að það væri ekki kurteisi að setja minnihlutahóp í svona neikvætt samhengi. Mér heyrðist hann muldra að það mætti ekkert lengur. Ég kvaddi hann, sneri mér við og gekk út úr stofunni.

Heyrði svo skarkala, brambolt, skell, brothljóð.

Ég leit inn í stofuna. Einar lá á hliðinni, hafði líklega reynt að standa á fætur með því að styðja sig við sófaborðið. Það lá á hliðinni andspænis honum. Hlutirnir sem verið höfðu á borðinu lágu nú á víð og dreif um stofuna, annað glasið brotið. Eitt augnablik minnti borðið mig á dýr og engu líkara en það teygði fætur sína í átt að verunni sem lá við hlið þess, svolítið eins og það vildi faðma hana, þennan aumkunarverða líkama. Augljóst var að Einar var á leið í djúpan áfengissvefn, hann lá nánast grafkyrr en svo lyftist vinstri handleggur hans hægt upp. Orkuna þvarr nánast samstundis, handleggurinn féll og lenti á einum borðfætinum. Væri borðið ferfætlingur hvíldi hönd Einars á hægri framfæti þess, rétt fyrir neðan liðamótin þar sem fótur mætir búk. Borðið var úr mahóní, greinilega ekki gegnheilt.