eftir Ágúst Borgþór Sverrisson

 

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2022.

 

 

 

Vindurinn hamaðist í laufkrónum trjánna fyrir utan stofugluggann. Þetta voru ekki hans tré heldur nágrannagarðurinn beint fyrir neðan en voldugar krónurnar teygðu sig yfir í hans garð. Hann var fyrst að taka eftir því núna að þéttur og hávaxinn trjágróðurinn var búinn að byrgja það útsýni út á sjó sem hafði verið milli húsanna, það var engin sjávarsýn lengur úr stofuglugganum heldur bara þessi „skógur“, þessi laufgræni veggur.

Trjágróðurinn þrengdi að honum, vakti ávæning af innilokunarkennd, en tilfinningin var samt góð því það sem lokar mann inni skýlir manni líka fyrir umheiminum.

 

***

 

Andlit dóttur hans var grátbólgið í eldhúsgættinni. Eiginkonan reis á fætur og leiddi hann burt, bað hann um að skreppa frá. Hann fór burt í klukkustund en þegar hann kom til baka voru þær farnar. Eiginkonan kom heim undir miðnætti og sagði honum söguna. Fyrstu áhrifin voru ólga í maganum. Síðan varð hann allur bara einhvern veginn dofinn af undrun, bæði andlega og líkamlega. Doðinn tæmdi alla hugsun úr kollinum og leiddi út í hverja taug.

Einhvern tíma hafði hann svarið með sjálfum sér að ganga milli bols og höfuðs á hverjum þeim sem gerði dóttur hans mein. En núna fann hann ekki reiðina sem átti að fylla hann, sem átti að sjóða í honum. Það var bara undrun og síðan vanmáttur og vonleysi.

Það var Runólfur sem hafði gert henni mein. Fyrrverandi kærastinn. Hann hafði alltaf álitið hann meinleysingja. Gat ekki varist tilhneigingu til að líka vel við hann þó að hann virtist ekki sérlega mannvænlegur, en það var af hégómaskap, Runólfur hafði nefnilega áhuga á fréttum, horfði á þáttinn hans og hafði hrósað honum fyrir hann.

Dóttirin hafði slitið sambandinu í fyrra, ekki af neinum sérstökum ástæðum öðrum en þeim að ástin hefði kulnað og Runólf skorti markmið í lífinu. Hann vissi ekki betur en sambandsslitin hefðu verið í góðu og þau væru endanlega skilin að skiptum. Hvað var þá þetta? Hvað hafði hann gert henni?

Rólegur, rólegur, sagði eiginkonan og bað hann um að grípa ekki fram í fyrir sér. Smám saman tókst henni að koma allri sögunni út úr sér.

Þau höfðu hist á djamminu um síðustu helgi en það var ekkert á milli þeirra lengur. Hún hafði engu að síður þegið boð hans um gistingu því hann bjó rétt hjá öldurhúsinu, það var kalt, hún var mjög drukkin og nennti ekki leigubílaveseni.

Hún féllst á að deila rúminu hans með honum en bara til að sofa. Auðvitað, sagði hann, bara sofa. Hún var varla háttuð niður í rúmið þegar hún steinsofnaði, enda hafði hún farið illa sofin og vinnuþreytt á djammið og drukkið skarpt. Þegar hún vaknaði eftir hádegið var Runi á bak og burt. Hún var ein í íbúðinni. Hún fann fyrir ólýsanlegri og illskilgreinanlegri vanlíðan. Þetta var eitthvað allt annað og meira en þynnka. Þetta var andlegt, það var eins og sálin í henni hefði verið tröðkuð í mauk. Óræð myndbrot leiftruðu í hugskotinu eins og eldingar á næturhimni. Hún skynjaði að þetta voru ekki draumar heldur eitthvað sem hún hafði upplifað milli svefns og vöku. Þessi óskýru brot voru átakanlega raunveruleg. Þessi ógeðfellda nærvera. Þessi innrás.

Minningin um ósýnilegan hryllinginn varð enn áþreifanlegri þegar hún las skilaboðin sem biðu hennar í símanum: fyrirgefðu mér ég get aldrei fyrirgefið mér þetta sorry.

Hann lokaði augunum í ósjálfráðri tilraun til að skilja þessi ósköp, höndla þennan óbærilega raunveruleika. Þá skaut upp í hugann þessari hræðilega ónærgætnu og ósmekklegu spurningu: Hvers vegna gisti hún hjá honum fyrst þau eru hætt saman?

 

***

 

Hann hafði verið með óþægilega tilfinningu gagnvart stjórnmálafræðingnum eftir síðustu samskipti þeirra sem höfðu endað vandræðalega. Hann hafði gert sig sekan um sjaldgæfan klaufaskap. Hann var að hugsa um að hafa samband við hana, hringja í hana eða senda henni textaskilaboð, en málið var einhvern veginn of lítilfjörlegt til að hafa orð á því. Slík viðleitni gæti endað sem Klaufaskapur II.

Svo sá hann tístið hennar. Hann tengdi það ekki við sig. Þetta vakti bara hjá honum forvitni:

Hvað var ég að sjá í sjónvarpinu mínu? Manninn sem niðurlægði mig og áreitti. Lét mér líða eins og einskis nýtu rusli. Skipti titrandi um stöð. #Viðtaliðneitakk

Myllumerkið tók raunar af allan vafa því þátturinn hans hét Viðtalið en engu að síður var þetta of óraunverulegt til að hann kveikti á perunni. Það breytti engu þó að hann sæi hvern netverjann á eftir öðrum endurtísta þessu. Ekki fyrr enn einn birti skjáskot af honum á sjónvarpsskjánum og yfirskriftina „Viðbjóður“.

Jafnvel eftir að honum var orðið fullkomlega ljóst hvað var í gangi fylltist hann ekki skelfingu. Þetta var enn óraunverulegt, orrahríð sem átti bara heima í þessum rafræna öskurheimi, hann þyrfti bara að leggja símann frá sér og hugsa um eitthvað annað. En það gat hann ekki gert, hann gat ekki haft augun af símanum.

 

***

 

Hann hafði bara hitt þessa konu tvisvar. Í fyrra skiptið hafði hún haldið erindi um stjórnmál og fjölmiðla á pressukvöldi Blaðamannafélagsins. Erindið fjallaði um hvaða mynd stjórnmálamenn vildu draga upp af sér í fjölmiðlum og hvernig þeir reyndu að stýra umfjölluninni um sig. En hann heyrði lítið af því sem hún sagði vegna skyndilegrar þráhyggju sem greip hann, saklausrar þráhyggju sem hann hefði aldrei getað grunað að ætti nokkurn tíma eftir að villast út úr huga hans og taka á sig form í heiminum. Konan var í mjög aðsniðnum grænum kjól sem lá þétt að líkamanum og undirstrikaði mjúkar og frjálslegar línur hans, þéttan barminn. Í marga daga losnaði hann ekki við mynd hennar úr huganum. Í órum hans rann græni kjólinn saman við líkama hennar og hún var græn og nakin í fangi hans.

Hún nálgaðist hann í samsæti sem haldið var eftir erindið og sagði: „Flottir þættir hjá þér.“ Hún horfði beint í augu hans og það var glampi í augum hennar. Þau spjölluðu lítillega saman en hann átti erfitt með að segja eitthvað af viti, átti erfitt með að slíta augun af græna kjólnum, græna barminum. Hún virtist opinská, ófeimin og glaðlynd, lék á als oddi í samkvæminu.

Þremur dögum seinna hitti hann hana óvænt í vinnunni. Hún var að koma úr stuttu viðtali sem átti að sýna í fréttatímanum um kvöldið, þar sem hún greindi fylgissveiflur flokkanna í skoðanakönnun, en nú styttist í haustkosningar. Þátturinn hans var eftir fréttir. Skyndilega sveif þessi kona á hann á kaffistofunni sem var í opnu rými. „Nei,hæ!“ Í fyrstu þekkti hann hana ekki í sjón. Hvaða kona er þetta? hugsaði hann eitt augnablik. En svo bar hann kennsl á glampann í augunum, þennan glampa sem honum virtist tjá hrifningu á honum. Hann fékk hana til að setjast með sér við borð úti í horni. Þar lét hún dæluna ganga um hverjir væru að fara að vinna kosningarnar og hverjir myndu fá miklu minna fylgi en skoðanakannanirnar sýndu, og hvers vegna. Hún ljómaði af lífsorku þess sem brennur fyrir starfi sínu. Hann velti fyrir sér hvers vegna hann hefði ekki borið kennsl á hana, þessa konu sem hann hafði spunnið hugaróra um dögum saman. Skyndilega blasti svarið við honum: Hún var ekki í græna kjólnum. Í dag var hún í víðum og pokalegum fötum. Við tilhugsunina um græna kjólinn gáði hann ekki að sér og hugur hans hvarf á vit óranna, þráhyggjuhugsana um holdugan og barmastóran líkama. Konan sat þarna beint fyrir framan hann, á almannafæri, en hugur hans var horfinn á vit hugsana sem maður á vanalega aðeins í einrúmi. Hann starði á hana, skyndilega heltekinn losta og sagði:

„Af hverju ertu ekki í græna kjólnum sem þú varst í um daginn? Veistu, þú átt alltaf að vera í græna kjólnum.“

Honum snögghitnaði í vöngum og hann varð þurr í hálsinum. Í sömu andrá áttaði hann sig á því að hann hafði farið yfir strikið en datt ekkert í hug að segja til að milda skaðann. Hann þagði bara og gat ekkert sagt.

Leiftrandi bros fraus á andliti konunnar. „Ég þarf að drífa mig,“ tautaði hún, reis á fætur og strunsaði burt. Svipur hennar rétt áður en hún sneri í hann baki brenndi sig inn í vitund hans: hún virtist gjörsamlega miður sín.

 

***

 

Dóttir hans talar ekki við hann lengur. Það er ekki af því að henni sé í nöp við hann, fullvissar eiginkonan hann um. Það er af því að hún getur ekki talað við hann um ofbeldið sem hún var beitt og þessa dagana kemst ekkert annað að í tilveru hennar. Hún er hernumið land, sviðin jörð. Hún getur ekki horft framan í hann og getur ekki hitt hann. Hann verður að sýna henni þolinmæði og biðlund, segir eiginkonan.

Af þeim sökum og líka af því að hann er sjálfur að reyna að átta sig á þessari skriðu sem hefur fallið yfir hann og hvað hún muni kosta hann þá lifir hann sig ekki almennilega inn í áfall dóttur sinnar og hugsar lítið um það. Þetta er eitthvað sem maður hugsar ekki um ef maður mögulega kemst hjá því. En sú staðreynd að hann er ekki friðlaus út af glæpnum sem hefur verið framinn gegn dóttur hans og er miklu uppteknari af eigin vandamálum fyllir hann samviskubiti og sjálfsfyrirlitningu. Vekur honum þá tilfinningu að það sem verið er að skrifa um hann á netinu sé allt rétt. Að ásakanir konunnar séu réttmætar.

 

***

 

Það er afskaplega góð tilhugsun að hverfa bara inn í grænan laufvegginn sem há nágrannatrén mynda fyrir utan stofugluggann. En það getur hann ekki. Hann situr uppi með sjálfan sig, hann situr uppi með líf sitt og það sem hann er. Hann þráir að vera óþekktur, að vinna á bókasafni og að enginn viti hver hann er. Hann er reyndar ekkert „ofboðslega frægur“ en nógu mikið nafn til að hægt sé að varpa því svona á loft, skjóta það niður og traðka á því.

„Þetta var það síðasta sem við þurftum á að halda,“ sagði konan hans þegar hann reyndi að útskýra málið fyrir henni.

Hann sagði að það væri svo skrýtið andrúmsloft í samfélaginu að svona furðulegar ásakanir fengju vængi. „Ég gerði þessari konu ekki neitt. Gleymdi mér bara eitt augnablik.“

„Svona sprettur ekki upp úr engu,“ svaraði konan hans. „Eftir að þú fórst í fjölmiðla hefurðu orðið fjarlægur og uppfullur af sjálfum þér. Hvað veit ég hvern fjandann þú hefur verið að bralla undanfarin ár.“

Á símanum hans eru fjögur ósvöruð símtöl. Hann þekkir ekki númerin en þorir hvorki að fletta þeim upp né hringja til baka. Fréttir um málið hafa verið stuttar og óljósar. Staðfest er að hann hafi verið settur í leyfi. Konan í græna kjólnum hefur neitað að tjá sig frekar og ekki næst í hann „við vinnslu fréttarinnar“.

Á samfélagsmiðlum blómstra dylgjur og kjaftagangur um málið. En það sjá það ekki allir. Fer eftir því í hvaða netheimum fólk er á ferli. Konan hans hefur til dæmis ekki orðið vör við neitt og hann hefði jafnvel getað sparað henni þetta angur ofan í hitt með því að þegja. Núna hefur hann ekki farið út fyrir hússins dyr í þrjá daga og hann veltir fyrir sér hvort hann sé eitthvað betur settur innandyra en úti í bæ. Ofsóknirnar eru á netinu og hann er ekkert síður nettengdur hér heima en annars staðar. Hann hugsar um rútínuna sína niðri í miðbæ, hádegisverðarstaðinn og bókabúðina.

Hann langar til að fara á þessa staði. Hann vill ekki vera hér heima í felum eins og hrætt dýr. Ákvörðunin fyllir hann von og gleði. En um leið og hann opnar útidyrnar, kominn í skó og rykfrakka, fær hann dúndrandi hjartslátt.

 

***

 

Hann fór síðast út úr húsi til að funda um málið á vinnustaðnum. Þá keyrði hann niður í bílastæðahúsið og tók síðan lyftuna beint upp á ritstjórn. Tók síðan lyftuna aftur niður og keyrði beint heim. Núna ætlar hann að leggja í bílastæðahúsinu og rölta síðan um miðbæinn. Hann getur ekki falið sig. Hann verður að þora að horfast í augu við fólk. Vera uppréttur og standa með sjálfum sér.

Þegar hann mætti til fundarins fyrir þremur dögum var hann ekki svona djúpt sokkinn. Þá vonaði hann hálft í hvoru að málið yrði leyst á fundinum. Hann fengi klapp á bakið, það yrði sagt að allt yrði í lagi, konan jafnvel dregin fram svo hann gæti beðið hana afsökunar og þau myndu svo halda áfram með líf sitt.

En allt leit verr út eftir fundinn. Matti yfirritstjóri hélt sig einhvern veginn á hliðarlínunni og treysti á lögboðið ferli. „Þetta kemur allt í ljós,“ var það besta sem hann hafði fram að færa eftir að hann hafði útskýrt stuttlega verkferla fyrirtækisins varðandi kynferðislega áreitni.

„Hvað gerðirðu eiginlega við þessa konu?“ sagði hann síðan og hló gleðisnauðum hlátri.

„Ég gerði henni ekki nokkurn skapaðan hlut,“ svaraði hann.

„Hún er víst ekki alveg sammála því,“ sagði Matti og hló aftur, stutt, hvellt og gleðilaust.

Það þyrmdi yfir hann, þetta kom svo óþægilega á óvart, hann hafði hálfvegis haldið að þeir myndu þétta raðirnar í þessu spjalli, hann og Matti. En skyndilega sá Matti aumur á honum og sagði hughreystandi: „Svona, svona, við skulum ekki fara fram úr okkur, við tökum þetta bara eitt skref í einu. Hún Magga bíður eftir þér og fer betur yfir þetta.“

Þá vaknaði nýr vonarneisti því Magga hafði alltaf verið svo hress við hann. Hafði hlegið að bröndurunum hans. Einu sinni hafði dálítið gerst á milli þeirra á starfsmannaskemmtun en náði þó ekki langt. En það var allt önnur Magga sem mætti honum núna. Hún var köld og formleg. Hún var á svipinn eins og þau þekktust ekki, hún hefði aldrei hlegið að brandara sem hann sagði og því síður hefði eitthvað gerst á milli þeirra.

Hún spurði hvort hann hefði kynnt sér starfsmannahandbók fyrirtækisins, sérstaklega kaflann um einelti og kynferðislega áreitni. Hann yppti öxlum. „Ég bara man það ekki.“

Magga horfði sviplaus á hann. Svo sagði hún: „Ég ætla að biðja þig að endilega kynna þér þetta. Það hefur verið lögð fram kvörtun vegna þín og nú ber fyrirtækinu að rannsaka málið.“ Hún útskýrði að frá og með þessari stundu væri hann kominn í launað leyfi um óákveðinn tíma. Fljótlega yrði konunni gefinn kostur á að segja sína sögu og eftir það yrði hann kallaður til fundar og beðinn um að bregðast við ásökunum hennar.

„Magga, halló, þetta er ég, getum við ekki rætt þetta?“ sagði hann og fórnaði höndum. Hann var enn sjálfsöruggur, fann til sín, var á heimavelli innan veggja fyrirtækisins. Nákvæmlega það var að breytast á þessu augnabliki. Eins og allt annað.

Magga svaraði athugasemd hans með ískaldri þögn. Svo sagði hún: „Ég ætla að biðja þig um að virða það að þetta mál þarf að vinna faglega. Orðspor fyrirtækisins er í húfi. Við förum eftir þeim reglum og ferlum sem eru til staðar.“

„En, Magga, þetta er ég. Hvers vegna ertu svona ópersónuleg? Heldurðu virkilega að ég sé að áreita konur hérna á stassjóninni? Þú þekkir mig! Þú hlýtur að sjá að þetta er bara einhver vitleysa. Manstu okkur tvö?“

Aftur varð löng og köld þögn. Svipurinn á Möggu fylltist pirringi og þegar hún rauf þögnina var eins og hún þyrfti að beita sig aga til að hafa hemil á skapinu, tala stillilega og hækka ekki róminn. „Við skulum algjörlega láta okkar samskipti liggja á milli hluta, hvernig þú varst með óviðeigandi framkomu við mig á starfsmannaskemmtuninni og við fleiri tækifæri. Það er ekki til umfjöllunar hér heldur kvörtun þessarar konu sem var gestur á ritstjórninni. Núna ætla ég enn einu sinni að biðja þig um að vera faglegur í viðmóti og leyfa mér að vinna vinnuna mína.“

Hann lamaðist af undrun. Var Magga að segja að hann hefði áreitt hana? Hvað hafði hann gert rangt? Hann ætlaði að mótmæla, heimta skýringar, en innsæið, sem oft er rödd óttans og miklu skynsamari en rökhugsunin, tók völdin. Hann fann að hvers kyns mótbárur myndu gera illt verra.

Því kinkaði hann kolli í uppgjöf og sagði: „Gott og vel. Hvað gerist núna?“

Við þetta slaknaði á spenntum andlitsdráttum Möggu og um leið slaknaði dálítið á spennunni í loftinu. „Fyrirtækið birtir tilkynningu í dag þar sem kemur fram að þú hafir verið settur í leyfi á meðan rannsókn stendur yfir á kvörtun um meinta ósæmilega hegðun. Á næstu dögum verður konan boðuð hingað til viðtals. Eftir það verður þú kallaður inn til að bregðast við ásökunum hennar og greina frá þinni upplifun af atvikinu. Vitnisburðurinn verður síðan veginn og metinn af mannauðsteymi sem tekur ákvörðun um viðbrögð. Lengra sjáum við ekki eins og er en ég ætla að biðja þig um að koma ekki inn í húsnæði fyrirtækisins fyrr en þú verður kallaður til viðtals. Ég bið þig líka um að sinna ekki störfum fyrir fyrirtækið, hvorki hér á staðnum né heima.“

Á leiðinni út gekk hann framhjá vinnustöðinni sinni. Dyrnar þangað inn voru opnar í hálfa gátt. Fyrir stuttri stundu hefði hann verið tilbúinn að ganga hnarreistur þangað inn og setjast við skrifborðið sitt. Núna var var hann feginn að sleppa óséður út. Núna var takmarkið að komast niður í bílakjallara án þess að mæta augum nokkurs vinnufélaga og án þess að hugsa um augun sem hvíldu hugsanlega á honum, um hugana sem veltu vöngum yfir honum.

 

***

 

Honum er afar heitt í framan þar sem hann sprangar um götur miðbæjarins og lítur ekki upp af jörðinni. Hjartað berst í brjósti hans. En í Austurstræti tekur hann á sig rögg og lítur upp. Staðnæmist, horfir í kringum sig. Það er enginn að horfa á hann. Enginn tekur eftir honum. Það virðast að vísu mestan part vera unglingar og erlendir ferðamenn á ferli en þetta er samt léttir.

Bókabúðin og hádegisverðarstaðurinn. Tvö af þremur helstu kennileitum hvunndagsleika hans í miðbænum. Hús fjölmiðlasamsteypunnar, vinnustaðurinn, er auðvitað aðalkennileitið. Hann hefur hlaðið batteríin í bókabúðinni og á veitingastaðnum, oftast snemma í eftirmiðdaginn, þá er hann búinn að finna viðmælanda dagsins, kynna sér bakgrunn hans og semja spurningar. Þegar ein til tvær klukkustundir eru þangað til viðmælandinn mætir á staðinn er gott að fríska sig upp með því að sópa verkefninu úr huganum. Í bókabúðinni er góð hvíld í því að lesa aftan á bækur eða jafnvel fyrstu tvær þrjár síðurnar í þeim. Til dæmis áhugaverð erlend rit um heimspólitíkina, bækur sem hann gefur sér aldrei tíma til að lesa í gegn. Hann þarf alltaf að vera á yfirborðinu, viða að sér upphrópunum og viðbrögðum við áreiti dagsins því hann þarf að skila af sér efni daglega, helst einhverju sem talar inn í augnablikið og er gleymt daginn eftir.

Stundum skoðar hann reyfara og það eru helst þeir sem hann kaupir og les, tíu síður á kvöldi undir svefninn, sofnar stundum með kiljuna í lúkunum og lesgleraugun hálfsigin niður af andlitinu. Hann tekur upp nýja pappírskilju, norskan reyfara. Fyrstu tvær blaðsíðurnar eru skáletraður inngangskafli. Kona vaknar á ókunnugum stað, bundin á höndum og fótum, og reynir að losa sig. Þegar hún er við það að sleppa lýkur skáletraða kaflanum og fyrsti eiginlegi kafli bókarinnar hefst á því að rannsóknarlögreglumaður er heima hjá sér að drekka morgunkaffið þegar hann fær símtal um að koma strax niður á stöð.

Hann leggur bókina frá sér og horfir í kringum sig. Enginn veitir honum athygli. Hann á ennþá þennan hluta af lífi sínu. Hann getur komið hingað og horfið í heim bókanna og enginn amast við því.

Skyldi það sama vera upp á teningnum á veitingastaðnum hérna við hliðina? Þar hefur honum alltaf verið hlýlega tekið.

 

***

 

Þegar dóttir hans var sjö eða átta ára fengu þau stálpaðan fresskött á heimilið. Til að byrja með lynti honum einkar illa við nágrannakettina. Dóttir hans tók það afar nærri sér. Hún bað hann um að kvarta við hina kattaeigendurna. Hún stappaði niður bleikstígvéluðum fæti til að hrekja ferfættan óvin á flótta. Tvisvar þurftu þau að fara með köttinn til dýralæknis vegna sára sem hlutust af árásum nágrannakattanna. „Þetta er eins og enginn vildi leika við mig í skólanum og allir væru að berja mig,“ sagði dóttir hans með kökkinn í hálsinum.

En smám saman hættu árásirnar. Nágrannakettirnir vöndust aðskotadýrinu sem hægt og rólega varð eitt af þeim. Tíminn vinnur með hinum útskúfaða og tilefni útskúfunarinnar gleymist eða verður óskýrt.

Þessi minning um köttinn sækir á hann inni í bókabúðinni og laðar fram bros á varirnar. Hann ákveður að líta á þetta sem góðan fyrirboða og fer inn á veitingastaðinn við hliðina á bókabúðinni.

 

***

 

„Kæri vinur, gaman að sjá þig,“ segir vaktstjórinn, glaðleg, þéttvaxin kona um þrítugt. Léttir og þakklæti gagntaka hann. Um leið hugsar hann með sér hversu lítið þurfi til að slá mann niður og taka frá honum allt sjálfstraust, jafnvel sjálfsánægða og glaðhlakkalega menn eins og hann. Nokkrar subbulegar færslur á samfélagsmiðlum, eitt stykki leyfi frá störfum og þá fer maður að þakka fyrir að vera ennþá velkominn á fábrotinn veitingastað í miðbænum. Fer strax að þakka fyrir að vera ekki útskúfað úr hverju horni eins og eitruðu meindýri.

Konan færir honum matseðil og spyr: „Er það Víking Gylltur á krana?“ Hann þiggur bjórinn og pantar sér síðan hamborgara. Hann er ekkert sérstaklega svangur en það er tilhlökkunarefni að borða hérna, rétt eins og það var tilhlökkunarefni að fletta bókunum í bókabúðinni og það verður sannkallað fagnaðarefni að mæta aftur í vinnuna eftir nokkrar vikur þegar þessa vitleysa öll verður að baki.

Hann tekur upp símann og lítur á klukkuna. Samkvæmt venju ætti hann eftir sirka klukkutíma núna til að borða og drekka og hvíla sig. Svo þyrfti hann að taka á móti viðmælandanum. En það er enginn viðmælandi og ekkert verkefni svo hann getur setið hérna í allan dag.

Í símanum eru skilaboð frá konunni hans sem spyr: „Hvernig hefur þú það, elskan?“ – Þetta er það ástúðlegasta sem hún hefur sagt við hann lengi. Eins og hún hafi gefið sér andartak frá áhyggjum af dótturinni til að hafa áhyggjur af honum. Það eru líka tvenn skilaboð frá mönnum með ábendingar um umfjöllunarefni. Báðir ganga greinilega út frá því að hann sé enn við störf. Síðan eru þrjár fyrirspurnir frá blaðamönnum þar sem hann er beðinn um að bregðast við ásökunum um áreitni og fréttum um að hann hafi verið sendur í leyfi.

Hann svarar engu. Ekki í bili. Ekki einu sinni konunni sinni. En hann hugleiðir svarið til hennar. Hvernig hefur hann það? Hann leggur símann á borðið, lætur augun reika um veitingasalinn. Enginn veitir honum athygli. Það er fyrir öllu. Hann á þetta augnablik óáreittur og þetta augnablik er brot af tímanum og heiminum.

En svo finnur hann augu hvíla á sér og lítur til hliðar. Það er þjónustustúlkan, vaktstjórinn, hún stendur við afgreiðsluborðið og horfir áhyggjufull á hann. Hún mætir augnaráði hans með brosi og lætur sig síðan hverfa inn í eldhús. Þá rennur upp fyrir honum að hún spurði hann ekki áðan hvað væri að frétta. Þegar hún tekur á móti honum spyr hún oftast hvort hann vilji bjór og hvað sé að frétta. Seinni spurningunni svarar hann oft með örstuttu ágripi af því sem hann er að vinna við þann daginn. Hvetur hana svo til að horfa um kvöldið. Hún virðist ávallt áhugasöm. Það er varla tilviljun að hún spyr ekki núna. Hún hlýtur að vita hvað hefur gerst.

Hann er á þessum stað í lífi sínu, á þessum tímapunkti. Eitthvað slæmt hefur gerst og afleiðingarnar eru ekki ljósar. En hann á þetta augnablik hér og nú sem frjáls maður. Hann ætti að svara konunni sinni, segja henni að hann hafi það ágætt og létta þannig örlítið áhyggjum af henni. Hann ætti líka að hringja í dóttur sína og spyrja hvort hann geti gert eitthvað fyrir hana. En eitthvað er að trufla hann, eitthvað sem tilheyrir ekki þessu friðsæla augnabliki. Hann er að velta fyrir sér orðum Möggu starfsmannastjóra frá því um daginn. Hún gaf í skyn að hann hefði áreitt hana. Hvílík firra. Var heimurinn að ganga af göflunum?

Hann mundi að það hafði farið vel á með þeim á starfsmannaskemmtuninni og kannski höfðu þau farið dálítið yfir strikið. En að hann hafi verið óviðeigandi við hana? Það var fráleitt. Hann mundi að vísu að hún hafði verið þurr á manninn næst þegar þau hittust í vinnunni og reyndar allar götur síðan. En hann tengdi það við eftirsjá, ekki sína eigin framkomu.

Hann reyndi að rifja upp starfsmannaskemmtunina en hann mundi bara hvernig honum hafði liðið. Ekki hvað hafði gerst. Hann mundi að hann hafði verið fullur tilhlökkunar og sjálfstrausts. Að hann hafði gert að gamni sínu, að það hafði verið fiðringur í honum og að honum þótti gott að fara einn út að skemmta sér, án eiginkonunnar. Hann man ekki almennilega hvað hann sagði við Möggu þetta kvöld en hann man núna – og hefur kannski ekki viljað horfast í augu við það áður – að hláturinn hennar hljóðnaði og glampinn hvarf úr augum hennar. Man að hann kippti að sér hendinni og þagnaði. Að hann hafði farið yfir strikið, honum hafði mistekist vegna þess að hann var orðinn of öruggur með sjálfan sig. Þátturinn hans var orðinn of vinsæll og vinnan of auðveld. Lífið var of auðvelt.

Skömmu síðar sagði hann við umbrotskonuna á blaðinu að þau ættu kannski að leigja sér hótelherbergi saman. Þá var hann búinn að skella í sig þremur bjórum í bænum og var kátur. Auðvitað var hann að grínast en bónusinn við svona brandara var sá að maður var svo sem alveg tilbúinn að gera alvöru úr fullyrðingunni ef svo ólíklega vildi til að hún fengi hljómgrunn. Umbrotskonan hafði bara litið undan, starað rjóð í vöngum á tölvuskjáina og engu svarað. Hafði þetta setið í henni?

Það voru víst einhver fleiri atvik og fleiri konur. Í Facebook-hópi hafði einhver deilt fréttinni um að hann væri kominn í leyfi og skrifað: „Það var víst bara tímaspursmál hvenær þessi yrði stoppaður. Búinn að vera að áreita konur í mörg ár.“ Enginn hafði nokkurn tíma sagt við hann að hann væri maður sem áreitti konur. Það hafði aldrei hvarflað að honum að hann væri slíkur maður. Hann hafði alltaf séð sjálfan sig sem vammlausan. Hann gaut augunum á þjónustustúlkuna sem var sjálf niðursokkin í sinn eigin snjallsíma þar sem hún stóð við borðið. Hann hafði einu sinni sent henni skilaboð og lagt til að þau færu saman á deit einhvern tíma. Hún hafði séð skilaboðin en aldrei svarað þeim. Næst þegar hann mætti á veitingastaðinn hafði hún látið eins og ekkert hefði í skorist og sagt bara „Sæll, vinur minn, er það einn Víking Gylltur?“ eins og vanalega. En kannski hafði hún hugsað sitt. Hann skildi reyndar ekkert í sér að senda svona skilaboð því hann hafði engan þess háttar áhuga á þessari stelpu. Þetta var bara eitthvað sem hafði hlaupið í hann, ekki síst af því að hann bjóst alltaf við að fá jákvæð viðbrögð við svona uppástungum. Honum var fyrirmunað að átta sig á því hvaðan sú bjartsýni var komin.

 

***

 

Dagurinn líður hægt þegar maður er ekki í vinnu og hann kemur heim löngu á undan eiginkonunni, búinn að njóta lífsins á veitingastaðnum og þeirra forréttinda að vera þrátt fyrir allt ekki ofsóttur á almannafæri, bara í netheimum. Það hefur birt til á stofuglugganum en laufkrónurnar hristast í gjólunni því vindurinn stendur á garðinn þó að það hafi verið næstum því logn niðri í miðbæ. Hann horfir á gluggann og hugsar um tilfinninguna frá því í morgun, að langa til að hverfa inn í laufþykknið, græna vegginn.

Hann er með tölvuna opna á borðstofuborðinu og skrifar konunni sinni að hann hafi það bara fínt, hann hafi farið niður í bæ og fengið sér að borða og það hafi verið ágætt. Hann er næstum því búinn að bæta við að enginn hafi veitt honum athygli en hann sleppir því. Konan skrifar honum að búið sé að úthluta dóttur þeirra réttargæslumanni og að hún muni hitta hann á morgun. Málið sé í réttum farvegi. Hann skrifar bara „Gott að heyra“ og skynjar að hann er ekki tilbúinn að lifa sig inn í martröð dóttur hans á meðan hans eigin mál eru óleyst og í uppnámi. Hann veltir fyrir sér möguleikunum. Einn er sá að rannsókn Möggu og teymisins hennar hreinsi hann og þá byrjar hann bara að vinna aftur eftir hálfan mánuð eða svo. Skynsemin segir honum að þetta sé eina raunhæfa niðurstaðan en undir niðri er hann samt ekki bjartsýnn á hana.

Hin niðurstaðan er sú að hann verði rekinn. Þá kemur ný tilkynning frá fyrirtækinu sem birtist í 5-6 fréttamiðlum. Umræðan á netinu verður háværari um hríð og svo deyr hún út. Fæstir muni áræða að ræða málið við hann. Þögn mun umlykja hann og svo gleymist þetta. Fyrirtækið verður að borga honum laun í þrjá mánuði. Hann þarf að finna sér nýja vinnu utan sviðsljóssins. Það gæti orðið erfitt því hann er 54 ára gamall. Hann getur unnið á lager. Klætt sig í bláan slopp og raðað skrúfum í hillur. En kannski vill enginn ráða hann. Kannski mun það fylgja honum að hafa verið maðurinn sem sagði konunni að hún ætti að vera í græna kjólnum eða fólk mun bara muna óljóst að hann hafi verið sakaður um einhvern perraskap. Svo að mennirnir sem ráða á lagerinn eða í byggingavöruverslunina eða í önnur sviplaus störf sem hann sækir um hugsa með sér að best sé að fyrirbyggja hugsanleg vandræði og ekkert vera að ráða þennan mann sem hafi verið sakaður um óljósan dónaskap.

Mikið eru kröfurnar til lífsins fljótar að breytast. Það er ekki lengra síðan en í síðustu viku sem hann var ósáttur við framgang sinn, fannst hann eiga að vera ritstjóri, vildi að þátturinn væri enn vinsælli, var ósáttur við að hafa aldrei unnið til verðlauna. En allt stendur og fellur með orðsporinu og þegar það er farið er maður bara feginn að fá að lifa í friði.

 

***

 

„Hefurðu tekið eftir því að trén í garðinum hérna fyrir neðan eru búin að byrgja allt útsýni úr stofuglugganum?“ skrifar hann til konunnar sinnar. Á meðan hann bíður eftir svari horfir hann dáleiddur á laufkrónurnar. Gróðurinn veit ekki að það er komið haust því allt er ennþá iðjagrænt þótt langt sé liðið á september. Konan svarar eftir nokkrar mínútur og segist oft hafa minnst á þetta við hann áður. Loks hafi hún gefist upp á að tala um þetta við hann af því hann hafi ekki sýnt því neinn áhuga.

„Ég held að við ættum að tala við þau og biðja þau um að fella einhver tré eða stytta þau,“ skrifar hann. Konan segir að það sé einmitt það sem hún hafi verið að segja við hann. Hann ákveður að banka upp á hjá nágranna sínum í kvöld og ræða þetta við hann. Það fer síðan eftir viðbrögðunum hvort hann fari með málið lengra, kanni lagalega stöðu.

Hann horfir enn einu sinni inn í laufþykknið og hugsar: „Hvílík ósvífni.“ Þó finnur hann ekki beint til gremju. Miklu fremur að hann sjái þetta sem verkefni sem hann getur höndlað. Tækifæri til að snúa vörn í sókn.

Þegar þau fluttu hingað var þetta íbúð með sjávarsýn. Hann man þegar sjórinn blasti við á milli húsanna. Hann áttar sig ekki á því hvenær ástandið breyttist. Það gerðist smám saman. Núna eru bara nokkrar rifur efst á glugganum óbyrgðar trjágróðri en þar sést ekki í sjóinn heldur himininn. Það sést að það hefur birt til, það hefur stytt upp og bjarmi frá sól á kafi í skýjum sytrar í gegnum laufkrónurnar. Hann horfir lengi í þessa birtu og veltir fyrir sér hvenær hún hverfi. Ef hann sæti nógu lengi sæi hann garðinn og trén hjúpast myrkri.

 

 

 

Ágúst Borgþór Sverrisson

Ágúst Borgþór Sverrisson