Eftir Karl Ágúst Úlfsson

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2018

 

Karl Ágúst Úlfsson

Ég varð að fyrirgefa sjálfum mér. Annars yrði þetta óbærilegt alla tíð. Og það gerði ég. Mér tókst líka að fyrirgefa Þorvaldi. Ég á ekkert sökótt við þann mann lengur. Blessuð sé minning hans. En mér gengur seint að fyrirgefa Bing og Grøndahl. Nú hef ég skrifað þeim háu herrum í kóngsins Kaupmannahöfn fjögur bréf – eitt á ári, og aldrei hafa þeir ansað mér. Og engan árangur sé ég af þessum bréfaskriftum mínum. Svo ég reyni einu sinni enn.

„Kære herre directør,“ byrja ég. Ég nota ekki eiginnafn, því mér skilst að oft verði mannaskipti í æðstu stöðum hjá stórum fyrirtækjum og ég vil ekki að fólk haldi að ég sé að skrifa skökkum manni. Og svo reyni ég að segja söguna eins og hún lítur út frá mínum sjónarhóli. Ég reyni að vera ekki ásakandi heldur eins hlutlaus og ég get.

Við Guðríður systir mín fermdumst árið 1896 í Efra-Núpskirkju í Miðfirði. Ekki tíðkaðist í þann tíma að gefa miklar eða dýrar fermingargjafir eins og seinna komst í sið, en þó var þar ein gjöf sem í frásögu er færandi. Það var jólaplatti frá Bing og Grøndahl, sá fyrsti sem postulínsfabrikkan sendi frá sér og sumir segja sá fyrsti í veröldinni. Dýrfinna föðursystir okkar var þá nýsigld heim frá Kaupmannahöfn og færði með sér þennan dýrgrip. Þetta var plattinn frá því árinu áður og bar nafnið „Bag den frosne rude“. Þennan platta áttum við Guðríður að eiga saman og skyldi hann vera tákn um þau órjúfanlegu bönd sem æ skyldu tengja okkur tvíburasystkinin. Við vorum líka jólabörn, fædd sitt hvorum megin við miðnætti aðfangadags og jóladags. Dýrfinna var komin heim í Dalina til að líta sumarlangt til með systur sinni, Hjördísi, sem lá þungt haldin af brjóstveiki í Geirshlíð, þar sem hún var í húsmennsku, en hún andaðist snemma sumars, blessuð sé minning hennar. Dýrfinna staldraði því ekki lengi við, en hélt utan aftur.

Faðir okkar, Sigtryggur, hafði burtkallast ári fyrir þetta fermingarvor, orðið úti á milli bæja í vonskuhreti. Blessuð sé minning hans. Þá vorum við ennþá þrjú á lífi, systkinin. Tvíburarnir Guðmundur og Guðfinna komust aldrei á legg. Hallgrímur bróðir okkar drukknaði í fyrsta róðri sínum frá Bolungarvík og Valgerður systir, sú elsta í hópnum, lenti niður um ís á Haukadalsvatni á leið að sinna sængurkonu á Saurstöðum skömmu áður en við fæddumst. Blessuð sé minning hennar. Bróðir okkar Vilbergur var drykkjumaður á Akureyri og þrátt fyrir ungan aldur var hann orðinn landsþekktur fyrir kostuleg tilsvör og stefndi í að verða þjóðsagnapersóna.

Dýrfinna frænka var gift dönskum rakara sem hún hafði kynnst í Stykkishólmi. Hann hafði ætlað sér að setjast að á Íslandi, en honum tæmdist arfur og því fluttist hann aftur til Kaupmannahafnar og tók við rakarastofu föður síns og Dýrfinna flutti með. Kasper hét þessi maður og var af fjórðu kynslóð rakara. Hún kenndi okkur að syngja Barn Jesus i en krybbe lå, skønt Himlen var hans eje. Og hún tók ekki annað í mál en að jólaplattinn yrði látinn hanga á nagla á þilinu í baðstofunni þar sem við deildum rúmi. Mér þótti ekki mikið til um svona prjál, en Guðríður systir mín virtist hafa nokkra gleði af plattanum svo ég fetti ekki fingur út í hann.

Um haustið andaðist móðir okkar. Hún hafði þá legið með hósta og innantökur frá því um sumarmál. Þær jarðnesku eigur sem hún átti í fórum sínum hrukku ekki fyrir jarðarför, en Guðmundur húsbóndi okkar hljóp undir bagga, svo ekki var hún grafin á kostnað hreppsins. Blessuð sé minning hennar. Það varð svo úr að við systkinin fluttum að Breiðabólstað og réðum okkur þar bæði í vinnumennsku.

Lítið bar til tíðinda þennan vetur, en um vorið barst okkur sending með landpósti. Það var annar jólaplatti frá Bing og Grøndahl sem Dýrfinna frænka hafði margpakkað inn í dönsk dagblöð og síðan saumað utan um þykkt lérefti. Á þessum platta var mynd af snjóþöktum trjám og hálfum mána. Á miða aftan á honum stóð „Nymåne over de snedækkede graner“. Í bögglinum var líka bréf frá Dýrfinnu frænku. Hún kvaðst hafa frétt af fráfalli móður okkar og taldi það mikinn skaða. Þá sagði hún að nú ættum við aðeins hvort annað að. Hún væri fjarri, en það skyldum við vita að hugur hennar væri hjá okkur gjarnan og því til staðfestingar sendi hún okkur þennan platta. Nú skyldi hann hanga við hlið hins og vera okkur ætíð áminning um okkar sterku tengsl, systkinanna, sem aldrei mættu rofna.

Þetta sumar var rigningasamt og illa gekk að koma heyi í hús. Hróbjartur bóndi á Breiðabólstað hafði þann sið að senda vinnumenn sína á vertíð í Stykkishólm og þetta árið varð það úr að allir verkfærir karlmenn færu þangað en kvenfólkið yrði heima og biði eftir þurrki. Guðríður systir mín vildi að ég tæki annan jólaplattann, þann seinni, með í verið, en mér þótti það fráleitt og bað hana gæta þeirra beggja meðan ég væri fjarri. Þetta féllst hún á, með semingi þó.

Það fiskaðist allvel á Breiðafirði þessa sumarvertíð og heima á Breiðabólstað komust menn og skepnur allvel af þegar af leið haustið og veturinn. Þorrinn varð harður og gott var að eiga rikling að maula þegar fennti fyrir alla glugga. Um miðja góu barst svo nýr böggull frá Dýrfinnu. Þessi platti hét Spurvenes julemåltid og sýndi þrjá spörfugla sem gæddu sér á korni af bundum sem einhver dýravinur hafði fært þeim mitt í hvítum vetri. Við systkinin horfðum lengi þegjandi á þessa glansandi fegurð áður en við skiptum á milli okkar þurrum magál sem við áttum í aski frá því viku fyrr.

Þegar hér var komið sögu þótti Friðmey húsmóður okkar ekki lengur við hæfi að við Guðríður svæfum í sömu rekkju, þar eð við værum komin svo vel á legg að af kynnu að hljótast slys. Mér var því skipað í rúm með Runólfi, föður Hróbjarts, en Guðríður deildi sæng með Sveinbjörgu vinnukonu. Guðríður átti áfram rekkju við þilið, svo þar máttu plattarnir okkar áfram hanga. Ég átti aftur á móti hvílu í baðstofunni miðri. Guðríði fannst að ég ætti fyrir alla muni að hafa að minnsta kosti einn jólaplatta hangandi við rúmið mitt og þó að mér þætti það hreinn hégómi linnti hún ekki látum fyrr en kominn var nagli í sperruna fyrir ofan rúmið okkar Runólfs og þar hékk Nymåne over snedækkede graner.

Juleaften 1916Runólfur lét illa í svefni. Við sváfum andfætis og oft fékk ég frá honum spörk, ýmist undir höku, í brjóstið eða í hreðjar. Ekki var það þægilegt, það geta þeir allir vottað sem reynt hafa, en þó var ég furðu fljótur að venjast þeim pústrum sem gamli maðurinn veitti mér á meðan við deildum rekkju. Þó gat það gerst að draumfarir Runólfs yrðu svo magnaðar að fæturnir leituðu út undan sænginni og upp um rjáfrin. Það urðu mínar verstu nætur. Ég sá hann skella hælum í þekjuna svo moldin sáldraðist yfir okkur og um leið sá ég í anda hvernig hann myndi sparka jólaplattanum ofan og mölva hann í smátt. Því gerðist það æ ofan í æ að ég spratt upp og hrifsaði plattann af naglanum, stakk honum inn á mig undir nærskyrtuna og krosslagði arma á brjóstinu svo ég gæti aftur sofnað.

Þau urðu tuttugu og eitt, árin okkar Guðríðar í Dölunum. Eftir að Friðmey húsmóðir okkar andaðist fluttum við að Fellsmúla, síðan í Hundadal og víðar og ein fjögur ár vorum við í Ljárskógum. Eitt og annað dreif á daga okkar og víst mætti færa af því margt og misjafnt í frásögu, en þó var eitt sem aldrei brást: Á hverju ári barst okkur gjöf frá Dýrfinnu frænku.

Við áttum orðið Julestjærner og juleroser, Kragerne hygger sig, Det kimer nu til julefest, og alla aðra platta sem Bing og Grøndahl hafði dottið í hug að framleiða á þessu árabili. Þetta voru einu veraldlegu verðmætin sem við systkinin áttum í okkar fórum. Það var allur gangur á því hvernig húsbændur okkar tóku þeirri áráttu Guðríðar að vilja ævinlega hengja plattana upp um alla veggi hvar sem við vorum í húsmennsku. Húsmóðurinni Láru í Kvennabrekku þótti prýði að þessu, en Hallsteinn á Skarði vildi hvergi sjá danskt postulín á sínum þiljum.

Ég var látinn róa út vítt og breitt um landið vestanvert, ýmist af Snæfellsnesi eða úr Borgarfirði og eina vetrarvertíð úr Króksfjarðarnesi. Guðríður systir mín var ævinlega hrædd um að ég skilaði mér ekki heill heim. Bréfin frá Dýrfinnu frænku höfðu með einhverju móti sett í hana beyg og nú fór hún að leggja hart að mér að taka með mér jólaplatta í verið svo að tengslin á milli okkar rofnuðu ekki. Eitthvað í þá veru sagði hún, en ég verð að játa að aldrei skildi ég hana til fullnustu. Samt lét ég tilleiðast. Skipsfélögum mínum þótti það kostulegt, en ég flutti með mér í verið helminginn af jólaplöttunum frá Bing og Grøndahl sem okkur Guðríði höfðu áskotnast og yfir bálknum mínum í verbúðinni hengdi ég þá alla, bláhvíta og glansandi. Undrun félaganna, sem smátt og smátt breyttist í hvískur, þá í hlátra og svo í háð og spott – allt þetta vandist furðu fljótt. Ég vissi allt frá upphafi að ég var mun betri sjómaður en flestir þeir sem vildu hæða mig. Grettir Glúmsson henti oft og einatt gaman að jólaplöttunum mínum, en vorið 1904 féll hann fyrir borð undan Rifi og hefði ég ekki kunnað sundtökin og náð taki á stakknum hans hefði hann aldrei dregið andann eftir það. Uppfrá því vorum við fóstbræður.

Þegar ég kom vestur lá Guðríður systir mín fyrir dauðanum. Brjóstveikin hafði búið um sig í henni misserin á undan og nú átti hún ekki meiri þrótt. Hún lá í bálknum sínum við þilið í baðstofunni á Núpi. Andlitið var teygt og blágult, seigt af veikindum, svarbláir baugar niður undir kinnbein. Við brjóst sér hélt hún á jólaplatta frá Kaupmannahöfn. Það var sending frá Dýrfinnu frænku sem hafði borist á meðan ég var í burtu, Børnenes forventning. Þegar ég beygði mig yfir hana til að kyssa hana stöðvaði hún mig, en rétti mér þess í stað plattann.

Eftir jarðarförina afhenti Þórður bóndi á Núpi mér áþreifanlegar eigur Guðríðar. Bréfin frá Dýrfinnu voru öll saman í poka. Lítinn kistil hafði Guðríður eignast og í honum voru plattarnir allir sem í hennar vörslu voru. Blessuð sé minning hennar.

Það var svo þremur árum seinna sem mér bárust fréttir af að Íslendingar væru að eignast nýjan togara, þann stærsta er sést hefði hér varð ljóst að þær fréttir ættu við rök að styðjast varð það mín staðföst ætlan að ráða mig í pláss á Jón forseta.

Stærsta stund lífs míns rann upp í janúar 1907 þegar ég gekk um borð í þennan þjóðarsóma við Reykjavíkurhöfn, einn af 25 manna áhöfn sem þá hafði verið ráðin. Með mér bar ég sjópoka með helstu nauðsynjum og tólf jólaplöttum frá Bing og Grøndahl. Togarinn var allur úr járni og því fann ég enga leið til að hengja upp platta yfir kojunni minni, en þess í stað raðaði ég þeim milli þils og dýnu fyrir innan mig.

Okkur sem höfðum róið á skútum þótti mikil viðbrigði að komast í togarapláss. Fannst sumum okkar líkt og við hefðum komist í rólegt innistarf þegar borin var saman vosbúðin sem við áður höfðum reynt og svo snyrtilegar káetur, lúkar og aðrar vistarverur Jóns forseta. Hitt verður þó að segjast eins og er að skipið lét ekkert alltof vel í sjó og það bitnaði nokkuð á safni mínu af jólaplöttum. Í austanþræsingi undan Reykjanesi brotnaði St. Petri Kirke frá 1908 og á leið heim frá Cuxhaven eitt vorið gerði norðan garð sem kostaði mig bæði Amalienborg frá 1914 og Udenfor det oplyste vindue frá 1919.

Undir stjórn Guðlaugs skipstjóra stóðum við langar vaktir þegar fiskað var í ís. Oft var ekki sofið nema í mesta lagi í klukkustund í senn og eftir viku túra höfðu sumir okkar ekki sofið nema 7–8 stundir samanlagt. Þetta tók vitanlega á, og ekki bætti hitt úr skák að þegar ókyrrt var í sjóinn hafði ég stöðugar áhyggjur af plöttunum mínum, jafnt í svefni og vöku. Þessar áhyggjur ágerðust eftir því sem safnið stækkaði.

Þorvaldur réð sig á Forsetann eftir að vökulögin voru sett. Okkur varð fljótlega vel til vina, enda kom það fljótt á daginn að hann var eini skipsfélagi minn sem sýndi jólaplöttunum einhvern áhuga. Aldrei sá ég hæðnisglott í augum hans, né varð ég var við augnagotur og ræskingar, sem gjarnan gengu á milli manna í lúkarnum þegar ég tók plattana fram til að fægja þá. Þvert á móti sýndi hann þeim áhuga og fékk oft að handleika þá, ævinlega af mikilli nærgætni og virðingu. Þorvaldur var líka allgóður dönskumaður og gat útskýrt fyrir mér sitthvað sem ég ekki hafði skilið til þessa. Hann sagði mér til dæmis að lænkehund þýddi ekki læknishundur, heldur að hundurinn væri hlekkjaður. Hann spurði líka oft út í Dýrfinnu frænku og Guðríði systur mína. Í raun var hann fyrsti maðurinn sem sýndi því skilning hvað jólaplattarnir skiptu mig miklu máli.

Juleaften 1919

Þegar Halaveðrið skall á var ég niðri í lúkar. Allt gerðist þetta mjög snöggt og ég hafði ekki fyrr áttað mig á að komið var vonskuveður en skipið reis upp á endann. Allt lauslegt sveif eitt andartak í lausu lofti. Ég náði taki á kojugaflinum og gat varist því að skella sjálfur í þilið. Það næsta sem ég vissi var að Þorvaldur kom holdvotur og hattlaus niður um gatið. Skipið var ekki fyrr komið á réttan kjöl en það tók að halla ískyggilega á bakborðshliðina. Þorvaldur skipaði mér að hafa hraðar hendur og ég hugðist steypa yfir mig stakknum, en þá stöðvaði hann mig og sagði að ég hefði ekkert upp á dekk að gera – nú yrðum við að hafa hraðar hendur við að bjarga plöttunum.

Mér varð það ljóst síðar að líklega hefur hann verið búinn að hugsa þetta ráð. Að minnsta kosti var hann undarlega skjótráður. Eftir fyrirmælum hans lögðum við plattana, alla tuttugu og sjö, flata á dýnuna mína, lögðum síðan dýnuna úr koju Þorvaldar ofan á og bundum utan um með snæri. Skipið valt og skoppaði eins og korktappi og áður en okkur tókst að ljúka þessum björgunaraðgerðum höfðu fjórir plattar splundrast ýmist á gólfi eða vegg. Það voru Forventning til den kommende julenat, Spurvenes andakt, Interiør fra en gotisk kirke og Den gamle organist. Eftir þetta héldum við báðir upp á dekk til að berja ísingu af vírum og stögum uns við náðum inn á Ísafjarðardjúp og gátum lagst í var.

Ef til vill tengdi þessi atburður okkur Þorvald nánari böndum en áður hafði verið. Það kemur þó ekki við þessa sögu og því óþarft að velta vöngum yfir því.

Þorvaldur hvatti mig til að skrifa Dýrfinnu frænku minni og þakka henni hugulsemina að senda mér ævinlega jólaplatta Bing og Grøndahl, láta hana vita hve kært þetta safn væri orðið mér, einkum vegna þess hve það tengdist minningu Guðríðar systur minnar. Jafnframt vildi Þorvaldur að ég léti vita af þeim afföllum sem orðið hefðu og að ég tilgreindi hvaða plattar hefðu glatast á undangengnum árum.

Vorið 1927 barst mér böggull frá Kaupmannahöfn, stærri en ég átti að venjast. Í honum voru allir plattarnir sem nú vantaði í safn mitt og taldist það því heilt og óskert, alls þrjátíu og þrír plattar. Kasper rakari var þá látinn, blessuð sé minning hans, og Dýrfinna frænka orðin ekkjufrú Tyffing. Í bréfi hennar lagði hún áfram hart að mér að heiðra minningu foreldra minna og systkina og gæta vel þeirra verðmæta sem hún hefði nú um árabil fengið mér til varðveislu.

Jón forseti lá við bryggju í Reykjavík þegar sendingin barst og við Þorvaldur stilltum öllu safninu upp á kojur okkar og skipsfélaga okkar í réttri tímaröð, fægðum hvert stykki og virtum fyrir okkur lengi kvölds. Okkur þótti sem við værum enn að taka eftir smáatriðum á einstökum plöttum sem við hefðum aldrei veitt athygli áður.

Nú er ekki svo að skilja að í bréfum mínum til Bing og Grøndahl tíni ég til allt það sem hér fer á undan. Þvert á móti reyni ég að halda mig við aðalatriði sögunnar og segja hana með þeim hætti að alvaran í erindi mínu sé þeim ljós sem bréfin lesa. Nú sný ég mér að þeim hörmulegu atburðum sem hafa alla tíð síðan valdið mér svo skelfilegu angri að á engan mann er leggjandi.

Þann 27. febrúar 1928 strandaði Jón forseti út af Stafnesi. Haugasjór var á og þó að önnur skip væru á sjó í grenndinni voru þeim jafnt og okkur allar bjargir bannaðar. Okkur varð það fljótt ljóst að skipið myndi ekki rífa sig laust af skerinu og jafnskjótt sá það hver maður í hendi sér að nú þyrfti guðs forsjón að koma til og allt það mannlega hugvit og áræði sem tiltækt væri.

Juleaften 1927Sem við stóðum þarna við mastrið og brimið barði okkur sínum óvægnu hrömmum var þrifið fast í öxlina á mér og Þorvaldur öskraði á mig í gegnum gnauðið að koma með sér niður í lúkar. Þegar þangað kom reif hann sig úr stakknum og skipaði mér hvössum rómi að hjálpa sér. Við tókum síðan til við að stinga jólaplöttunum inn undir föt hans, ofan í buxur, undir treyju, bæði í bak og fyrir og vefja hann síðan í brekán. Eftir einn vafning utan um skrokkinn stakk hann fleiri plöttum í fellingar á brekáninu og þannig koll af kolli. Ég steypti svo yfir hann sjóstakknum, sem orðinn var býsna þröngur, því ummál Þorvaldar hafði tvöfaldast við þessa aðgerð. Sjálfur reyndi ég aftur og aftur að fá hann til að hætta við þessa áætlun sína, en hann hvessti sig í hvert skipti og þegar hann leit á mig fannst mér brenna úr augum hans æði sem ég skelfdist og þorði ekki annað en gera eins og hann bauð.

Þegar við komum aftur út á dekk var stýrishúsið horfið, en nokkrum skipsfélögum okkar hafði tekist að binda sig fasta við mastrið. Ekki veit ég hvernig það gerðist, en með einhverju móti hafði tekist að koma kaðli úr landi út í skipið. Menn æptu upp í óveðrið, bentu og pötuðu út í loftið og vafalaust voru uppi einhverjar hugmyndir um hvernig mætti bjarga sem flestum af áhöfninni í land. Ég reyndi sjálfur að hlusta og hrópa á móti, en áður en ég vissi af hafði Þorvaldur kastað sér á kaðalinn og var farinn að lesa sig eftir honum í átt til lands. Við skipsfélagar hans stóðum stjarfir og horfðum á hann hverfa inn í hafrótið helmingi sverari en hann átti að sér. Við sáum strengjast og slakna á kaðlinum, strengjast og slakna og á því gekk góða stund. Nema auðvitað var sú stund ekki góð – hún var hryllileg í alla staði. Og hversu löng sem hún var, þá lauk henni loks á því að slitinn endi kaðalsins slengdist inn fyrir lunninguna og flaksaði í vindinum við fætur okkar. Þorvaldur hafði reynst alltof þungur.

Fimmtán skipsfélagar mínir létu lífið þennan dag við Stafnes. Blessuð sé minning þeirra. Þó að seint og um síðir tækist að koma öðrum kaðli út í Jón forseta veit enginn hvað hefði gerst ef Bing og Grøndahl hefðu ekki verið um borð þennan örlagaríka dag. Og ef Þorvaldur hefði ekki verið sá skilningsríki skipsfélagi sem hann reyndist mér þau ár sem við áttum saman á sjónum.

Þess vegna skrifa ég enn eitt bréfið til þeirra háu herra í kóngsins Kaupmannahöfn og legg til ennþá einu sinni að jólaplatti ársins 1935 beri mynd af togara í haugasjó og titilinn Trawleren Præsident Jon kommer endelig hjem – vonast til að þeir átti sig loks á því hver ábyrgð þeirra er og að samviska þeirra bjóði þeim að gera eins og ég legg til.

Þess vegna sit ég hér einu sinni enn og pára á blaðið: „Kære herre direktør.“