Kletturinneftir Sverri Norland

Tveir kaflar úr skáldsögunni Kletturinn. JPV útgáfa gefur út.

 

 

 

(4)

 

Þegar við komum heim stýrði ég öllu eins og hershöfðingi. Ég lét renna í bað, afklæddi mannskapinn, skolaði Sólu hratt og örugglega og leyfði tvíburunum að leika sér í vatninu á meðan ég sauð pasta handa þrenningunni. En ég átti erfitt með að einbeita mér, var sífellt að ruglast í eldamennskunni og gleyma því sem ég var að gera.

Embla hringdi: „Hvað segirðu, beibs, straujarðu nokkuð fyrir mig gulu silkiskyrtuna? Ég fer alveg að fara að leggja af stað og væri til í að skipta um föt fyrir sjónvarpsþáttinn.“ Ég jánkaði með símann klemmdan milli axlar og eyra, plantaði Sólu í barnastólinn fyrir framan pastaskrúfur í smjörbaði og snaraðist svo inn í svefnherbergi til að strauja þessa blessuðu flík framakonunnar.

Ég hrökk við þegar það small í gylltri dyralúgunni frammi í anddyri. Það var orðið svo sjaldgæft að fá sniglapóst að mér hálfbrá í hvert skipti sem það gerðist.

Ég lagði frá mér straujárnið og arkaði fram til að vitja um póstinn. Í sömu andrá barst ramakvein úr baðherberginu.

„Pabbi, Úlfar er að tosa í hárið á mér!“ Tvíburarnir voru komnir í hár saman með tilheyrandi busli og gusugangi.

En ég stóð bara stjarfur í anddyrinu og góndi á þetta boðskort sem legið hafði á dyramottunni.

Mig svimaði.

Fyrst hafði ég séð Brynjar á göngu við leikvöllinn … Og nú kom þetta inn um lúguna …

Ég starði á fallega parið. Þennan glaðlega texta.

„Pabbi, Geir er að lúberja mér!“

„Strákar, elska friðinn, strjúka kviðinn!“

„Babba! Meiri mjólk, allt í læ?“

„Já, Sóla mín, ég er alveg að koma …“

En ég hreyfði mig ekki.

Kæri Einar, þér og fjölskyldu þinni er boðið til brúðkaupsveislu á sumarsólstöðum þann 21. júní næstkomandi í Paradísarlundi, nýuppgerða frístundabýlinu okkar í Hvalfirði …

Framan á kortinu var glæsileg mynd af þeim brúðhjónum. Þau stóðu einhvers staðar í New York, hátt uppi, með útsýni yfir Hudson-fljótið, hún hélt á freyðandi kampavínsflösku, hann var afmyndaður í framan af hlátri. Fram kom að þau hefðu gifst nokkrum árum fyrr af tæknilegum ástæðum, landvistarleyfi, græna kortið, eitthvað svoleiðis (ég vissi ekkert um líf hans lengur) og nú vildu þau halda „langþráða“ veislu fyrir vini og vandamenn heima á Íslandi og það engan smáræðis gleðskap heldur „veislu aldarinnar“. Brynjar hafði aldrei verið feiminn við stóru orðin. Ég trúði því varla að hann skyldi bjóða mér. Var þetta kannski einhvers konar sáttarbeiðni?

Hvers vegna túlkaði ég þetta þá sem ögrun?

Hafði hann séð mig áðan á leikvellinum? Gat það verið?

Var þetta einhvers konar öfugsnúinn hrekkur? Hafði hann jafnvel sjálfur lætt boðskortinu inn um lúguna rétt í þessu?

Ég gægðist út um dyrnar, leit til hægri og vinstri út götuna. En ég sá engan á ferli nema bognu flöskusöfnunarkonuna sem ýtti þungri innkaupakerru, fullri af dósum og plastflöskum,
á undan sér eftir gangstéttinni.

Nei, ég mátti ekki láta ímyndunaraflið hlaupa með mig í gönur.

 

 

(5)

 

Hálftíma síðar lá Sóla litla steinsofandi í rimlarúminu sínu en tvíburarnir voru komnir í náttföt, gíraðir fyrir sögustund kvöldsins. Báðir voru eldrjóðir í kinnum eftir langan dag; hinn svarthærði Úlfar geispaði nautnalega, tilbúinn að gefa sig svefninum á vald, en glókollurinn Geir starði á mig ábúðarfullur undan Hvolpasveitar-sæng.

„Pabbi?“

„Jamm?“

„Má allt mannfólk giftast?“

„Já.“

„Strákur og stelpa mega giftast og tveir strákar mega giftast og tvær stelpur mega giftast en það þarf enginn að gifta sig ef hann vill ekki?“

„Rétt er það.“

„Og það má ekki giftast hundinum sínum?“

„Það er heldur illa séð.“

„Má ég fá skjaldböku?“

„Nei.“

„En ígúanaeðlu?“

„Alls ekki.“

„Ég held að ég ætli aldrei að gifta mig.“

„Ókei.“

„Allir mega bara gera það sem þeir vilja?“

„Einmitt.“

„Og það má ekki meiða og það er bannað að öskra inni og vera með helvítis hávaða?“

„Já. Og bannað að blóta.“

„Úlfar má ekki kyrkja mig í baði?“

„Nei.“ Ég sneri mér að Úlfari: „Það er alveg bannað að kyrkja, Úlfar minn.“

Úlfar lyfti syfjulegum augnlokum: „Ég veit það, pabbi. Allir eiga bara að gera það sem gerir þá að hamingju saman.“

„Hárrétt.“

„Og það er bannað að drepa, pabbi?“

Ég hrökk við.

„Það má ekki drepa vini sína.“

„Nei …“

„Tóti segist stundum ætla að killa mig. En kennararnir segja að það sé bannað að drepa vini sína.“

„Það er … alveg bannað.“

„Hefur þú séð mann deyja, pabbi?“

Ég horfði á Geir.

En í þeirri andrá heyrðist kunnuglegt hringl í lyklakippu og síðan smellur þegar útidyrunum var lokað og inn gekk nýr heimilismeðlimur.

Umræður um manndráp féllu samstundis niður.

„Mamma, mamma, mamma!“

Tvíburarnir voru í skýjunum yfir að sjá Emblu, hávaxna stormsveipinn með brúna stuttklippta hárið og bláu augun sem voru óvænt útlitseinkenni í annars dökkleitri ásýnd hennar og gátu enn vakið heitan fiðring djúpt inni í mér þegar augu okkar mættust. Dagarnir þegar hún hvarf sjónum barnanna strax og Kellogg’s Special K-skálin hafði verið tæmd og læddist ekki aftur heim fyrr en þau lágu undir sæng, oft steinsofnuð, voru þeim erfiðir. (Sóla litla hafði hvíslað í harmrænni spurn rétt áður en hún sofnaði: „Mamma, allt í læ?“)

Embla þekkti mig best allra í heiminum og skynjaði strax að ég hefði lent í einhverju uppnámi fyrr um daginn. Ég blés á slíkar áhyggjur og skipaði henni að einbeita sér að fyrirliggjandi verkefni: því að brillera á sjónvarpsskjánum. Hún faðmaði drengina sína, gleypti í sig epli (Embla var týpan sem borðaði epli í heilu lagi: stilkinn, kjarnann, allt heila gillimojið) og rauk svo inn á baðherbergi; þvottapoki framan í andlit og upp undir handarkrika; ilmvatnsgusa, splass; og síðan var það nýstraujaða skyrtan og brúnir leðurskór og, kviss bamm búmm, hún hvarf aftur út um dyrnar tímanlega fyrir sminkið í sjónvarpshúsinu. „Au revoir!“ gólaði hún rétt fyrir hurðarskellinn. Við höfðum farið saman á frönskunámskeið í Alliance Française og böbbluðum oft okkar á milli einhverja frönsku þegar enginn heyrði; við höfðum jú orðið ástfangin hvort af öðru úti í París.

„Au revoir,“ sagði ég. „Bon courage!“

Og tvíburarnir bergmáluðu kveðjuna:

„Bú kúrass!“

„Bó kórassje!“

 

Sverrir Norland

Sverrir Norland / Mynd: Gassi (2021)