Eftir Svetlönu Alexievitch

Úr Tímariti Máls og menningar 3. hefti 2013

Árni Bergmann þýddi.

Svetlana AlexievichSvetlana Alexievitch, blaðamaður og rithöfundur frá Hvíta-Rússlandi er fædd árið 1948. Bækur hennar fjalla einkum um upplifun venjulegs fólks af sögulegum atburðum eins og seinni heimstyrjöldinni, falli Sovétríkjanna, stríði Sovétmanna í Afganhistan og Chernobyl kjarnorkuslysinu en með efnistökum sínum tekst Alexievich að ljá ólíkum hópum þjóðfélagsins rödd, svo lesendur kynnast áður óþekktri hlið þessara atburða. Það gerir hún meðal annars með því að tala við fólk, hlusta, leyfa röddum þeirra, skoðunum, tilfinningum og sýn þeirra á atburðina að njóta sín. Hún hefur talað við þúsundir manna og hefur skráð sögu heillar þjóðar á 20. öld með þessum efnistökum, frásagnirnar raðast saman svo úr verða margradda textar sem segja magnaðar sögur sem ekki mega gleymast. Meðal þekktustu verk Alexievitch er fyrsta bók hennar, The Unwomanly Face of the War (1985), sem segir frá upplifun kvenhermanna af stríðsrekstri og átökum í seinni heimstyrjöldinni og frá hliðum stríðsins sem aldrei hafði verið sagt frá áður.

Fyrir bókina Voices from Chernobyl sem kom út árið 2005 hlaut Alexievitch National Book Critics Circle Award. Efnissöfnum fór fram á tíu ára tímabili og Alexivitch talaði við meira en 500 manns sem tengdust Chernobyl-slysinu með einhverjum hætti svo úr varð margradda frásögn af hörmulegum atburði sem hefur haft víðtækar afleiðingar. Alexievitch hlaut árið 2013 bókmenntaverðlaun þýskra bóksala, ein virtustu bókmenntaverðlaun Þýskalands. Nýjasta bók hennar, Time Second Hand (2013), kemur út í mörgum löndum í haust og hefur nú þegar verið gefin út á sænsku af Ersatz forlaginu. Þessi kafli er úr þeirri bók.

 

María Vojteshonok, rithöfundur, 57 ára.

Ég fæddist í fjölskyldu pólsks liðsforingja sem sendur hafði verið í útlegð, við vorum osadnikar, en svo voru kallaðir á pólsku nýbýlingar sem var fengið land til búsetu í austurlandamærahéruðunum eftir að stríði Pólverja við Sovétmenn lauk árið 1921. En árið 1939 (samkvæmt leynilegu ákvæði í samningi Molotovs og Ribbentrops) var þessi vesturhluti Hvíta-Rússlands sameinaður Sovétríkjunum og pólskir nýbýlingar þar voru þúsundum saman sendir ásamt fjölskyldum sínum í útlegð til Sibiríu sem „pólitískt hættulegur hópur” (eins og segir í orðsendingu Beria til Stalíns). En þetta er stórsagan, ég á mér aðra sögu … smáa í sniðum.

Ég veit ekki hvaða dag ég er fædd, ekki einu sinni hvaða ár … Ég verð að reiða mig á ágiskanir. Ég hefi ekki fundið neina pappíra um þetta. Ég er til og þó ekki. Ég man ekki neitt og ég man allt. Ég held að mamma hafði farið austur ólétt að mér. Hvers vegna? Pípið frá eimreiðunum kemur mér alltaf í uppnám … og lyktin af járnbrautarteinunum … og fólk að gráta á brautarstöðvunum … Kannski sit ég í góðri og gildri farþegalest en svo heyri ég vörulest skrölta framhjá og ég tárast … Ég get ekki séð vagna fyrir nautgripi eða heyrt dýr öskra og baula án þess að tárfella. Við vorum flutt burt í svona vögnum. Ég var enn ekki til. En ég var samt til. Í draumum mínum eru hvorki andlit né sögur … allt sem ég sé í þeim er gert úr hljóðum og lykt.

Altajhérað. Borgin Zmeínogorsk, áin Zmejovka … Útlögunum var skipað úr vögnunum við stöðuvatn handan við borgina. Þeir fóru að búa niðri í jörðinni. Í jarðhýsum. Ég fæddist neðanjarðar og ólst þar upp. Frá því í bernsku er moldarlykt af heimili mínu. Það rennur úr þakinu, moldarköggull losnar, dettur niður og hleypur til mín. Þetta er froskur. En ég er svo lítil, ég veit ekki enn við hvern ég á að vera hrædd. Ég sef með tveimur litlum geitum, á hlýrri undirbreiðslu úr geitarflóka … Mitt fyrsta orð er „me-me“… þetta eru fyrstu hljóðin sem ég heyri, en ekki „ma“ … „mamma“. Eldri systir mín, Vladja, man hvað ég var hissa á því að geiturnar töluðu ekki eins og við. Ég skildi það ekki. Mér fannst að þær væru jafningjar mínir. Heimurinn var heill og óskiptur. Ég finn heldur ekki núna þennan mun á okkur, á fólki og dýrum. Ég er alltaf að tala við þau … og þau skilja mig … En bjöllur og köngulær … þær voru líka rétt hjá mér … svona líka litprúðar og skrautlegar bjöllur. Þetta voru leikföngin mín. Á vorin komum við okkur saman út í sólskinið, skriðum eftir jörðunni og leituðum að einhverju að éta. Ornuðum okkur. En á veturnar stirðnuðum við upp eins og tré, duttum í dvala af hungri. Ég gekk í minn eigin skóla, það voru ekki bara manneskjur sem kenndu mér. Ég heyri bæði í trjám og grasi. Ég hefi meiri áhuga á dýrum en nokkru öðru í mínu lífi, ég segi ekki sannara orð. Hvernig ætti ég að geta slitið mig frá þeim heimi … frá lyktinni af honum … Það get ég ekki. Þarna kemur sólin loksins! Sumarið er komið! Ég er uppi við … allt í kring er skínandi fegurð og enginn er að matbúa neitt fyrir neinn. Og allt ómar enn, allt er í sterkum litum. Ég smakka á hverju grasi … blaði … blómi … á hverri rót … einu sinni át ég skollarót og var nærri dauð. Minnið geymir heillegar myndir … Ég man fjallið Bláskegg og bláan bjarma yfir því fjalli … Birtan kom einmitt frá vinstri. Að ofan og niður hlíðina … Mikil var sú sjón! Ég er hrædd um að mig bresti gáfur til að koma þessu til skila. Vekja það upp aftur. Orðin eru ekki annað en viðbót við vitundina. Við tilfinningar okkar. Rauðir valmúar, engisprettuliljur, maríurót … Allt breiddi þetta úr sér fyrir augum mínum og undir fótum mínum. Eða þá önnur mynd … ég sit upp við eitthvað hús. Eftir veggnum skríður sólblettur … og hann er marglitur og sífellt að breyta sér. Ég sit á þessum stað lengi-lengi. Ef ekki hefðu verið þessir litir hefði ég líklega dáið. Ég hefði ekki lifað af. Ég man ekki hvað við borðuðum … hvort við fengum einhvern mannamat …

Á kvöldin sá ég svarta menn koma gangandi. Í svörtum fötum með svört andlit. Þetta voru útlagarnir að koma heim úr námunum … allir líktust þeir föður mínum. Ég veit ekki hvort föður mínum þótti vænt um mig. Hvort nokkrum þótti vænt um mig.

Ég á mjög fáar endurminningar… Ég sakna þeirra. Ég leita í myrkrinu og reyni að draga sem mest upp úr því. Sjaldan… örsjaldan rifjast eitthvað skyndilega upp fyrir mér sem ég mundi ekki áður. Mér finnst það sárt en ég er hamingjusöm. Ég er skelfing hamingjusöm þegar þetta gerist.

Ég get ekki munað neitt um veturinn … Á veturna sat ég í jarðhýsinu allan daginn. Dagurinn var eins og kvöld. Allt í rökkri. Hvergi litarblettur … Áttum við einhverja hluti fyrir utan skálar og skeiðar? Ekki neinar flíkur … það litla sem var til var vafið inn í einhverjar tuskur. Hvergi lit að sjá. Skór … Hvað höfðum við á fótunum? Gallosíur … ég man eftir gallosíum … ég átti líka gallosíur, gamlar og stórar eins og mamma átti. Líkast til voru þær af mömmu … Fyrstu kápuna mína fékk ég á barnahælinu, og fyrstu vettlingana. Og húfu. Ég man að í rökkrinu rétt hvítmatar fyrir andliti Vlödju … Hún liggur fyrir dögum saman og hóstar, hún veiktist í námunum, hún er með berkla. Ég er strax þá farin að þekkja þetta orð … Mamma grætur ekki … Ég man ekki til þess að mamma hafi grátið, hún sagði fátt, og síðan hætti hún víst með öllu að tala. Þegar hóstanum linnir kallar Vladja á mig: „Hafðu þetta eftir mér … Þetta er eftir Púshkín“. Og ég endurtek: „Frost og sól á dýrðardegi! En þú dottar vinur kær“. Og ég ímynda mér veturinn eins og hann er hjá Púshkín.

Ég er ambátt orðsins … ég trúi orðinu skilyrðislaust … Ég bíð alltaf eftir því að hver maður fari með orð, og ég býst jafnvel við fleiri orðum frá ókunnugri manneskju. Ég get ennþá bundið vonir við einhvern sem ég ekki þekki. Rétt eins og mig sjálfa langi til að segja eitthvað … og svo ákveð ég að gera það … Ég er tilbúin … Ég byrja þá að segja einhverjum frá en svo finn ég ekkert á þeim stað sem ég var að tala um. Þar er auðn og tóm, minningarnar týndar. Allt í einu er komið gat þar sem þær voru. Og ég verð að bíða lengi eftir því að minningarnar komi aftur. Þess vegna þegi ég. Ég er að vinna úr öllu með sjálfri mér. Gangar, völundarhús, greni …

Tuskurnar … Hvaðan fékk ég þessa pjötlur og búta? Þau eru í mörgum litum, mikið fer fyrir blárauðu. Einhver hefur komið með þetta handa mér. Úr þessum bútum saumaði ég pínulitlar manneskjur, svo klippti ég af mér hár og festi á þær og greiddi þeim. Þetta voru vinkonur mínar … Ég sá aldrei dúkkur, vissi ekkert um þær. Við vorum flutt inn í borgina en við bjuggum ekki í húsi heldur í kjallara. Á honum var einn blindgluggi. En við höfðum fengið heimilisfang, Stalingata númer sautján. Eins og hinir … eins og allir aðrir … áttum við heimilisfang. Þarna var ég að leika ég mér við stelpu … hún var úr húsinu, ekki úr kjallaranum. Hún gekk í kjólum og skóm. En ég í gallosíunum hennar mömmu … Ég kom með bútamennina og sýndi henni og úti á götu sýndust þeir enn fallegri en í kjallaranum. Stelpan fór að biðja mig um þá, hún vildi skipta á einhverju og þessum pjötlum. Ég tók það ekki í mál! Pabbi hennar kom og sagði: „Vertu ekki með þessari betlistelpu“. Ég skildi að ég hafði verið tekin og mér ýtt til hliðar. Ég átti að láta mig hverfa svo lítið bæri á. Auðvitað eru þetta orð fullorðinna, ekki barnamál. En tilfinninguna … tilfinninguna man ég … Þetta er svo sárt að þú móðgast ekki lengur og vorkennir ekki sjálfri þér, allt í einu hefur þú fengið heilmikið frelsi. En þú vorkennir ekki sjálfri þér. Ef sjálfsvorkunnin er þarna enn þá ertu ekki búin að skoða dæmið nógu vel, kafa nógu djúpt, þú ert ekki enn farin burt frá fólkinu. En sértu farin þá þarftu alls ekki á fólki að halda lengur, það nægir þér sem þú finnur í sjálfri þér. Ég fór víst of djúpt á kaf … Það er erfitt að móðga mig. Ég græt sjaldan. Mér finnast venjulegar misgerðir hlægilegar, ergelsi milli kvenna líka … Mér finnst þetta vera svona show … lífsins show … En ef ég heyri barn gráta … og ég geng aldrei framhjá betlara … Ég mun aldrei ganga framhjá þeim. Ég man þessa lykt, lykt ógæfunnar … Það ganga yfir einhverjar bylgjur og ég er enn tengd við þær. Þetta er lykt bernsku minnar. Lyktin af mínum bleyjum.

Ég er á göngu með Vlödju … við höldum á sjali úr geitarull … Fallegum hlut sem ætlaður er einhverjum öðrum heimi. Pöntunin er tilbúin. Vladja kunni að prjóna og á þessum peningum lifðum við. Konan borgaði okkur og segir svo: „Á ég ekki að skera nokkur blóm handa ykkur“. Hvað þá – áttum við að fá blómvönd? Þarna stöndum við, tvær betlistelpur í einhverjum pokadruslum … svangar og kaldar … Og við eigum að fá blóm? Við hugsuðum aldrei um annað en brauð en þessi kona skildi að við gátum hugsað um fleira. Þú varst innilokuð, múruð inni, og svo var opnaður fyrir þig ljóri … gluggi var opnaður upp á gátt … Það kemur í ljós að fyrir utan brauð … fyrir utan mat … er hægt að gefa okkur blómvönd! Það þýðir að við erum ekkert öðruvísi en aðrir. Við … erum alveg eins … Þetta var brot á öllum reglum: „Á ég ekki að skera nokkur blóm handa ykkur“? Ég slít þau ekki upp, ég tíni þau ekki, þau eru afskorin í mínum eigin garði. Frá þessari stundu … Kannski var þetta minn lykill … mér var fenginn einhver lykill … Þetta umturnaði öllu hjá mér … Ég man þennan blómvönd … stærðar lokkablómavönd … Ég set þau niður við sumarbústaðinn minn á hverju vori. (Við sitjum einmitt við sumarbústaðinn hennar. Þar vex ekki annað en blóm og tré). Ég fór til Síbiríu ekki alls fyrir löngu … Borgin Zmeínogorsk … þangað sneri ég aftur … Ég leitaði að götunni okkar … húsinu okkar … kjallaranum okkar … En húsið var þar ekki lengur, búið að rífa það. Ég spurði alla: „En munið þið ekki?“ Einn gamall maður, já hann mundi að falleg stúlka átti heima í kjallaranum, hún var veik. Fólk man betur fegurð heldur en þjáningu. Og blómvöndinn fengum við af því að Vladja var falleg.

Ég fór í kirkjugarðinn … Rétt við hliðið stóð varðskýli með neglt fyrir glugga. Ég barði það utan lengi. Svo kom vörðurinn út, hann var blindur … Hvað á nú þetta að þýða? „Getið þér ekki sagt mér hvar útlagarnir voru grafnir?“ – „Æjá …þaaarna …“ sagði hann og sveiflaði hendinni upp eða niður, hver veit. Einhverjir menn fylgdu mér út í ysta horn garðsins … Þar var ekkert að sjá nema gras … bara gras … Ég svaf ekki um nóttina vegna þess að ég náði varla andanum … Kökkur í hálsi … mér finnst eins og einhver sé að kyrkja mig … Ég hljóp út úr hótelinu og niður á járnbrautarstöð. Hljóp við fót gegnum alla borgina og ekki mann að sjá. Stöðin var lokuð. Ég settist á brautarteinana og beið til morguns. Í brekkunni sátu strákur og stelpa. Þau voru að kyssast. Það birti. Svo kom lest. Auður vagn. Við förum inn, ég og fjórir karlmenn í skinnjökkum, krúnurakaðir, líkastir glæpamönnum. Þeir buðu mér agúrkur og brauð. „Eigum við að taka í spil?“ Ég var ekkert hrædd.

Það er ekki langt síðan eitt rifjaðist upp fyrir mér …. Ég sat í strætisvagni og það rifjaðist upp fyrir mér …. Hvernig Vladja söng: „Ég leitaði að gröf elskunnar minnar / en hana er ekki auðvelt að finna“… Svo kemur það á daginn að þetta var eftirlætissöngur Stalíns … hann grét þegar þetta var sungið … Og ég var ekki lengur neitt hrifinn af þessu lagi. Vinkonur Vlödju komu til hennar og vildu fá hana með sér á ball. Ég man þetta allt … Ég var víst orðin sex eða sjö ára … Ég sá að þær saumuðu vír í nærbuxurnar í staðinn fyrir teygju. Til að ekki væri hægt að slíta þær af þeim … Þarna voru ekki aðrir en útlagar … fangar … Manndráp voru algeng. Ég vissi líka þá þegar hvað ástin var. Til Vlödju kom fallegur strákur þegar hún var veik, lá undir einhverjum druslum og hóstaði. Og hann horfði svona á hana …

Mér finnst það sárt, en þetta er mitt allt saman. Og ég get ekki hlaupið frá því … Ég get ekki sagt að ég hafi samþykkt allt, að ég sé þakklát fyrir sársaukann, hér þarf að nota eitthvað annað orð. Sem ég finn ekki núna. Ég veit að í þessu ástandi er ég langt í burtu frá öllum. Ég er ein. Þetta, að taka þjáninguna í sínar hendur, ná fullum tökum á henni og komast út úr henni og taka eitthvað af henni með sér. Þetta er sigur sem um munar, það er þó einhver meining í þessu. Maður er ekki tómhentur … Til hvers hefði ég annars átt að stíga niður til heljar?

Einhver fer með mig út að glugga: „Sjáðu þarna er farið með hann föður þinn“… Ókunnug kona dró eitthvað á sleða á eftir sér. Einhvern eða eitthvað … vafið í ábreiðu og bundið utan um með snæri … Svo jörðuðum við systurnar hana mömmu. Við vorum einar eftir. Vladja var farin að eiga erfitt með gang, fæturnir sviku hana. Húðin flagnaði af henni eins og pappír. Það var komið með litla flösku til hennar … Ég hélt þetta væri meðal en þetta var einhver sýra. Eitur semsagt. „Vertu ekki hrædd“… sagði hún við mig og fékk mér flöskuna. Hún vildi að við tækjum inn eitur saman … Ég tek svo þessa flösku … hleyp með hana og kasta henni í ofninn. Glerið brotnar … Ofninn var kaldur, langt síðan hafði verið kveikt upp í honum. Vladja fór að gráta: „Þú ert alveg eins og pabbi“… Einhver kom svo að okkur … Kannski voru það vinkonur hennar? Vladja lá þá meðvitundarlaus … Hún var flutt á spítala en ég á barnahæli. Faðir okkar … Mig langar til að muna eftir honum en ég sé ekki fyrir mér andlit hans hvernig sem ég reyni, andlit hans er ekki í mínu minni. Seinna sá ég hann ungan mann á ljósmynd hjá frænku. Það er satt … ég er lík honum… Það er nú allt samband mitt við hann. Pabbi kvæntist fallegri bóndadóttur úr fátækri fjölskyldu. Hann ætlaði að gera fína frú úr henni en mamma var alltaf með skuplu sem hún dró langt niður á enni. Hún var engin hefðarfrú. Faðir minn bjó ekki lengi með okkur í Síbiríu … hann fór til annarrar konu … En ég var þá fædd … Ég var refsing! Og bölvun! Engin hafði krafta til að láta sér þykja vænt um mig. Ekki heldur mamma. Allt þetta varð að forriti í frumum mínum: örvænting hennar, sárindi … og andúð … Alltaf vantar mig ást, meira að segja þegar ég er elskuð trúi ég því ekki, ég þarf stöðugt á sönnunum að halda. Vitnisburði. Ég þarf á þeim að halda á hverjum degi, hverja mínútu. Það er erfitt að elska mig … ég veit það … (Þegir lengi). Mér þykir vænt um minningar mínar … Ég elska þær vegna þess að þar eru allir lifandi. Þar hefi ég allt: mömmu … pabba … Vlödju … Ég verð endilega að sitja við langt borð. Með hvítum dúk á. Ég bý ein en í eldhúsinu er ég með stórt borð. Kannski eru þau öll hjá mér … Ég get gengið um og allt í einu líkt eftir látbragði einhvers. Ekki mínu eigin … kannski einhverju sem Vladja gerði … eða mamma … Mér finnst að hendur okkar snertist …

Ég er á barnahæli. Á barnahælinu voru munaðarlaus börn útlaga alin upp til fjórtán ára aldurs en svo voru þau send í námurnar. Og átján ára fæ ég berkla … eins og Vladja … Þannig eru örlög mín. Valdja var vön að segja að einhversstaðar langt í burtu ættum við hús. En það var mjög langt þangað. Þar varð eftir Marylja frænka, systir mömmu … Ólæs og óskrifandi bóndakona. Hún gekk á milli manna, hún bað um liðsinni. Einhverjir vandalausir skrifuðu fyrir hana bréf. Ég skil það ekki enn hvernig henni tókst þetta. En barnahælinu bárust fyrirmæli um að senda okkur systurnar á tiltekinn stað. Í Hvíta-Rússlandi. Í fyrstu lotu komumst við ekki alla leið til Minsk, við vorum látnar fara úr lestinni í Moskvu. Allt endurtók sig: Vladja var sett á spítala, hún var komin með háan hita, en ég var sett í einangrun. Úr einangrun var ég send á upptökuheimili. Það var í kjallara, þar lyktaði allt af klór. Ókunnugt fólk … Alltaf lendi ég hjá vandalausum… Alla æfi. En frænka mín hélt áfram að skrifa … og skrifa … Eftir hálft ár fann hún mig á þessu upptökuheimili. Aftur heyri ég þessi orð „hús“, „frænka“…. Það er farið með mig í lestina …. Það er dimmt í vagninum, ekkert ljós nema á ganginum. Skuggar af fólki. Með mér er fóstra af heimilinu. Við komum til Minsk og keyptum miða til Postavy … öll þessi heiti þekkti ég … Vladja hafði beðið mig: „Mundu það, að óðalið okkar heitir Sovtsjino“. Frá Postavy förum við fótgangandi til Gridki … í þorpið hennar frænku … Við setjumst niður við brúna til að hvíla okkur. Einhver nágranni var á heimleið af næturvakt á reiðhjóli. Hann spurði hverjar við værum. Við svöruðum að við værum á leiðinni til Marylju frænku. „Já, sagði hann, þið eruð á réttri leið“. Hann hefur víst skilað því til frænku að hann hefði séð okkur … hún kom hlaupandi á móti okkur … Ég sá hana og segi: „Þessi kona er lík mömmu minni“. Það var allt og sumt.

Snoðklippt sit ég á löngum bekk í húsi Stakhs frænda, bróður hennar mömmu. Dyrnar eru opnar og ég sé út um þær að fólk kemur að, hver á fætur öðrum nemur staðar og allir horfa á mig … Þetta var alveg eins og á málverki! Enginn talar við annan. Þarna standa þau og gráta. Algjör þögn. Allt þorpið mætti … Og þau yfirtóku táraflauminn frá mér, hver og einn grét með mér. Allir þekktu föður minn, sumir höfðu unnið hjá honum. Ég heyrði oftar en ekki seinna: „Í samyrkjubúinu eru talin saman prik á okkur en Antek (faðir minn) gerði alltaf upp í peningum.“ Þetta var arfur minn. Húsið okkar hafði verið flutt frá stórbýlinu á miðstöð samyrkjubúsins, og þar er þorpsráðið til húsa enn þann dag í dag. Ég veit allt um fólk, ég veit meira en mig langar til að vita. Sama dag og rauðahersmennirnir settu fjölskyldu okkar upp í vagn og fóru með hana á næstu brautarstöð þá tóku þessar sömu manneskjur … Azhbeta gamla … Juzefa … Matej karlinn … þau hirtu allt lauslegt úr húsi okkar og báru heim í sína kofa. Þau rifu sundur minni útihús og veltu bjálkunum úr þeim heim til sín. Og allt var rifið upp úr garðinum nýja. Öll eplatrén. Frænka kom hlaupandi … og tók með sér blómapott úr glugganum til minja, annað ekki … Ég vil ekki muna þetta. Ég rek það burt úr minninu. En ég man hvernig allt þorpið tók mig að sér, bar mig á höndum sér. „Komdu með okkur. Manetsjka, við vorum að sjóða sveppi …“. „Hérna er mjólkursopi handa þér …“ Ég var rétt nýkomin og strax á eftir var allt andlitið á mér þakið í blöðrum. Mig sveið í augun. Ég gat ekki lyft augnalokunum. Fólk leiddi mig við hönd sér til að þvo mér. Allt var sviðið úr mér, allt var brennt burt, til að ég sæi heiminn með öðrum augum. Þetta voru umskiptin frá því lífi sem var til þessa hér … Nú gekk ég um götuna og allir létu mig stansa og sögðu: „Sjáiði bara stelpuna. Æ, mikið er þetta falleg stelpa!“ Án þessara orða hefðu augun í mér verið eins og í hundi sem hefur verið dreginn upp úr vök. Ég veit ekki hvernig ég hefði litið framan í fólk …

Frænka mín og frændi bjuggu í geymsluskúr. Húskofinn þeirra brann í stríðinu. Þau hrófluðu upp geymslu og héldu að það væri til bráðabirgða, en þar bjuggu þau áfram. Hálmþak, lítill gluggi. Í einu horninu kartöflur, og í öðru horni veinar grís. Engar fjalir í gólfi – yfir moldina er stráð sefgresi og hálmi. Innan skamms var komið hingað með Vlödju systur líka. Hún var með okkur nokkra stund og dó svo. Hún var glöð yfir því að deyja heima. Síðustu orð hennar voru: „Hvað verður um hana Mönju litlu?“

Allt sem ég lærði um ástina fékk ég að vita í skúrnum hennar frænku.

“Litli fuglinn minn, kallaði frænka mig. – … suðarinn minn … býflugan mín … “ … Ég var allltaf að suða og nauða í henni. Ég gat ekki trúað þessu … Þeim þótti vænt um mig! Ég var elskuð! Maður stækkar og aðrir dást að þér – þetta er svo mikill lúxus. Hvert bein í þér réttir úr sér, allir vöðvar. Ég dansaði fyrir hana „rússa“ og „eplið“. Mér voru kenndir þessir dansar í útlegðinni … Ég söng líka: „Um Tsjújskskarð vegurinn liggur / og leið margir eiga um hann“… Eða þennan söng: „Ég dey og verð grafinn í framandi fold / þá fellir hún mamma tár / Eiginkonan fær annan mann / en aldrei fær mamma’ annan son…“ Ég hljóp svo mikið um á hverjum degi að fæturnir urðu allir helbláir – en skó átti ég enga. Þegar ég lagðist fyrir á kvöldin vafði frænka fæturna á mér í faldinn á náttkjólnum sínum og ornaði þeim. Hún vafði mig í reifar. Svona ligg ég rétt við magann á henni … eins og í móðurkviði… Þess vegna man ég ekki það sem gert er á minn hlut … Ég gleymdi öllu illu … ég er búin að fela það einhversstaðar langt í burtu … Á morgnana vaknaði ég við að frænka sagði: „Ég er búin að baka klatta. Borðaðu nú“… „Nei frænka, ég vil sofa lengur“…- „Þú skalt borða og sofa svo“ … Hún skildi að maturinn … þessar blínur … voru eins og meðöl fyrir mig. Blínur og kærleikur. En frændi okkar hann Vitalik var fjárhirðir, hann bar svipu um öxl og langan lúður úr næfrum. Hann gekk í hermannastakki og reiðbuxum. Hann kom með „nesti“ handa okkur úr haganum – þar var ostur og spikbiti – allt sem kerlingarnar stungu að honum. Þetta var heilög fátækt! Hún skipti þau engu máli, særði þau ekki né heldur móðgaði. Allt þetta skiptir svo miklu fyrir mig, það er svo … dýrmætt … Ein vinkona mín er að kvarta: „Við eigum ekki fyrir nýjum bíl“ … Önnur segir: „Mig hefur alla æfi dreymt um minkapels en ég er ekki búin að kaupa hann enn“ … Þetta heyri ég eins og í gegnum gler … Það eina sem ég sé eftir er að ég get ekki lengur verið í stuttu pilsi … (Við hlæjum saman)

Frænka mín hafði sérkennilega rödd … sem titraði eins og hjá Edit Piaf … Henni var boðið í brúðkaup til að syngja. Og ef einhver dó. Ég hljóp alltaf með henni … Það man ég … Þarna stendur hún við opna líkkistu … stendur þar lengi … Svo er eins og hún segi einhvernveginn skilið við alla og hún gengur nær. Hún gengur hægt … hún sér að enginn getur sagt síðustu orðin við þessa manneskju … Fólk vill gera það, en það geta ekki allir. Og svo byrjar hún: „Og hvert ert þú, Anja mín, farin frá okkur … farin frá deginum bjarta og nóttinni … hver mun nú ganga um húsagarðinn þinn … hver ætli kyssi nú börnin þín … hver tekur á móti kúnni á kvöldin …“ Hægt og ofurlágt velur hún orðin … Allt er þetta hvunndagslegt og einfalt en um leið háleitt. Og dapurlegt. Það er einhver hinsti sannleikur í þessum einföldu orðum. Endanlegur sannleikur. Rödd hennar titrar … Og allir fara að gráta með henni. Menn eru búnir að gleyma því að ekki er búið að mjólka kúna og að eiginmaðurinn varð eftir heima blindfullur. Andlitin breytast, hégóminn hverfur, það birtir yfir þeim. Allir gráta. Ég fer hjá mér … og vorkenni frænku minni … Hún kemur svo heim veik manneskja: „Æ, Manja mín, það suðar svo í hausnum á mér“. En hún hafði svona hjartalag hún frænka … Ég kem hlaupandi heim úr skólanum … Lítill gluggi, nál við fingur … Frænka mín er að rimpa saman tuskurnar okkar og syngur: „Með vatni má slökkva eldinn / en ekkert fær ástina kæft…“ Ég er eins og upptendruð af þessum minningum …

Af óðalinu okkar … ekkert stendur eftir af húsinu okkar nema nokkrir steinar. En ég finn hitann frá þeim og þeir draga mig til sín. Ég fer þangað eins og til að heimsækja gröf. Ég get sofið þar úti yfir nótt. Ég geng varlega um, er hrædd við að stíga til jarðar. Þarna er engin manneskja en þarna er líf. Niður frá lífi … allskonar lifandi vera … Ég geng um og er hrædd um að ég skemmi hús einhvers. Sjálf get ég komið mér fyrir hvar sem er eins og maur. Ég trúi á heimkynni. Ég vil að blóm vaxi … að allt sé fallegt … Ég man hvernig farið var með mig á barnahælinu inn í herbergið þar sem ég átti að búa. Hvít rúm … Ég leita með augunum: er rúmið við gluggann upptekið? Fæ ég eigið náttborð? Ég reyni að átta mig á því hvar ég muni eiga heima.

En núna … Hvað erum við búnar að sitja lengi og tala? Á meðan slotaði þrumuveðrinu … nágrannakonan leit við … síminn hringdi … Allt hafði þetta áhrif á mig, ég brást við þessu öllu. En á pappírnum eru bara orðin … Ekkert annað verður þar: grannkonan verður þar ekki, ekki símhringingar … ekki heldur það sem ég ekki sagði en því brá samt fyrir í minninu, það var hérna hjá okkur. Kannski segi ég frá öllu öðruvísi á morgun. Orðin verða eftir en ég stend upp og held áfram. Ég hefi lært að lifa með því. Og kann það. Ég geng og geng.

Hver hefur gefið mér þetta? Allt þetta … Gaf Guð það eða mennirnir? Ef Guð gaf þá vissi hann hverjum gefa skyldi. Þjáningin ól mig upp … Hún er mitt sköpunarverk … Mín bæn. Mikið hefur mig oft langað til að segja einhverjum frá öllu. Ég missti ýmislegt út úr mér. En enginn spurði mig nokkru sinni: „En hvað var svo … hvað?“ En ég var alla æfi að búast við góðu eða vondu fólki, ég veit ekki af hverju en ég var alltaf að bíða eftir fólki. Ég bíð alla æfi eftir því að einhver finni mig. Og ég segi allt við hann … og þá spyr hann: „Já en hvað var svo …“ Núna er farið að segja: þetta er sósíalismanum að kenna … honum Stalín … Rétt eins og Stalín hefði vald eins og Guð. Hver og einn hafði sinn Guð. Af hverju þagði hann? Frænka mín … þorpið okkar … Ég man líka eftir Maríu Petrovnu Aristovu, frábærri kennslukonu sem heimsótti hana Vlödju okkar á sjúkrahúsið í Moskvu. Vandalaus kona … en það var hún sem kom með hana til okkar í þorpið, bar hana inn á höndum sér … Vladja gat alls ekki gengið lengur … Maria Petrovna sendi mér svo blýanta og konfekt. Skrifaði mér bréf. Og svo var það á upptökuheimilinu þar sem verið var að þvo mér og sótthreinsa mig … Ég er uppi á háum bekk … öll í sápufroðu … ég get hrasað og meitt mig á steingólfinu. Ég renn til og klöngrast niður … Þá grípur mig ókunnug kona … einhver fóstra … og þrýstir mér að sér: „Unginn minn litli“, segir hún.

Ég hefi séð Guð.