eftir Aðalstein Emil Aðalsteinsson

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2019.

 

Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson

Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson

Í upphafi vors, þegar snjóskaflar voru teknir að bráðna í vegarköntum og kunnugleg tónlist hljómaði úr trjákrónum, vaknaði ég óvenju snemma einn sunnudagsmorgun, leit út um gluggann sem veit að Fossvogsdalnum og Esjunni, og sá þá hvar megnið af Reykjavík var horfin undir vatn.

Íbúðin mín er í gamalli blokk í norðurhluta Kópavogs, á þriðju hæð, en vatnið gjálfraði rétt undir stóra stofuglugganum. Aðeins toppar hæstu trjánna gægðust upp úr silfruðum vatnsfletinum einsog ferskvatnsgróður í logni.

Sólin var enn ekki komin upp, náttsvartur himinn með tungli og stjörnum speglaðist í vatninu. Sumstaðar grillti í húsþök sem minntu á ísjaka í miðju djúpinu; á öðrum stöðum höfðu bárujárnsplötur og annað brotajárn losnað af húsum og bílum, og sigldi hljóðlega inn á milli stjarnanna.

Nú hugsa eflaust einhverjir að hér sé um að ræða enn eina heimsendasöguna, en það er ekki ætlunin; ég er kannski enginn annálaður bjartsýnismaður en þó hef ég óbeit á samfélagslegum hysteríum í listaverkum.

Ég vissi að ég gæti ekki sofnað aftur svo ég fór fram í eldhús, ætlaði að kveikja á kaffivélinni en rafmagnið hafði vitanlega slegið út. Þá sótti ég gamla prímusinn í geymsluna, lagaði alltof sterkt kaffi og settist með bollann í stólinn undir stofuglugganum, horfði út yfir borgina. Skömmu síðar kom sólin upp yfir fjallgörðunum og sló roða yfir vatnsflötinn.

Einmitt þá sá ég bregða fyrir fáeinum árabátum á dýpinu þar sem áður var dalur. Þeir bærðust í golunni, árarnar á hægri hreyfingu einsog armar á skordýri.

Ég fór út á svalir, kveikti mér í sígarettu og skyggðist um. Allir virtust ískyggilega æðrulausir, engu líkara en vatnsflaumurinn hefði verið þarna frá ómunatíð. Undir turni spítalans í vestri þóttist ég sjá feneyska gondólu. Ræðarinn stóð við stefnið með svarta húfu. Síðan hvarf hann bakvið sígrænan furutopp.

Daginn, sagði nágranni minn á svölunum við hliðina. Hann stóð með veiðistöng og horfði yfir vatnsborgina, með vindling í munnvikinu, dorgandi yfir svalahandriðið.

Ég reyndi að fela undrun mína, bauð honum góðan daginn og spurði hvernig fiskaðist.

Það fæst aldrei mikið í þessum hyl, sagði hann. Þetta er meira svona uppá stemninguna.

Nágranni minn er eldri maður, nokkur ár síðan hann fór á eftirlaun. Ég hafði aldrei talað við hann fyrr en nú, ef frá eru taldar kurteisiskveðjur í stigaganginum, en ég veit að á síðustu árum hefur hann fengist við bókaskrif og þýðingar. Ég sá mynd af honum á bakhlið mjósleginnar skáldsögu í hitteðfyrra og nafn hans prýddi nýja þýðingu af gamalli ljóðabók eftir amerískt skáld. Það voru fínar bækur. Ég sagði honum aldrei að ég hefði keypt þær og lesið.

Ég fór aftur inn. Sandra var vöknuð og byrjuð að útbúa morgunmat. Ilm af pönnukökum, jarðarberjum og nýlöguðu kaffi lagði um íbúðina og minnti á hamingjuríka sunnudaga bernskunnar. Hún var berleggjuð, klædd rósrauðum náttkjól, ljóst hárið lá niður á axlir.

Hvernig gastu bakað pönnukökur? sagði ég, það er rafmagnslaust.

Sandra leit á mig brosandi, stutt í hláturinn.

Við erum með gaseldavél, sagði hún og hélt áfram að skera ávexti.

Þegar hún lagði morgunverðarbakkann á borðið kyssti hún mig og spurði hvort við ættum ekki að nýta þennan fagra sunnudag og róa uppí Heiðmörk.

Eigum við bát? hugsaði ég.

En ég sagði: Jú, það hljómar vel, ástin mín.

 

*

 

Rautt þakið á gamla Vífilsstaðaspítalanum bar við sólríkan himin, kjarrivaxnar hæðirnar og trjálundirnir spegluðust á lygnum vatnsfletinum. Hlýjum raka stafaði frá sólvermdu vatninu. Það var engu líkara en landið hefði brotnað einsog púsluspil og breyst í ótal minni eylönd.

Ég sat á framþóftunni og reri aftur á bak milli hólmanna, Sandra á móti mér með hárið flaksandi í hlýrri golunni. Árablöðin gáruðu vatnsflötinn með ljúfu gutli og komu hreyfingu á grasið, trjágreinarnar, laufið og barrnálarnar sem lónuðu kringum bátinn. Tveir svanir syntu álengdar, svartbakur í svifflugi þar sem vatnið brotnar á landi. Klappirnar ofar voru orðnar að varplandi sjófugla.

Þegar ég reri fyrir einn hólmann blasti útsýnið við í vesturátt. Þunnar skýjaslæður rákuðu himininn við sjónarrönd en heiðríkja yfir landi. Nú var mér ljóst að vatnið sem steypti borginni í kaf var sjór; ströndin var horfin, úthafið hafði bólgnað upp, víkur og vogar flætt yfir bakkana, loftið saltmettað.

Áður en við tókum land á einni eyjunni sá ég bregða fyrir risastórum skugga undir bátnum. Þessu fylgdi öldurót; skektan lét illa í smástund; skugginn þokaðist lengra út og allt varð kyrrt á ný.

Við höfðum mætt fjölda báta af ýmsum gerðum á leiðinni, aðallega milli Kópavogs og Garðabæjar þar sem helsta umferðaræðin lá þegar þar var aðeins akvegur. Enn undraði ég mig á hvað allir virtust vel í stakk búnir fyrir þetta mikla flóð. En síðan varð mér hugsað til nágranna míns, skáldsins, sem stóð á svölunum og dorgaði, „það fiskast sjaldnast vel í þessum hyl,“ hafði hann sagt, líkt og hann hefði kastað öngli þarna út oft áður.

Ég leit yfir víðáttu vatnsins og drifhvíta birtuna sem lá yfir öllu, á einhvern hátt sorgmæddur en þó ekki alveg friðlaus. Sandra hallaði sér aftur í skutnum, syngjandi eitthvert lag. Farfuglar svifu í oddaflugi hátt yfir litla bátnum.

Kannski hafði þetta alltaf verið svona.

Og ég rétt að vakna.