eftir Önnu Þorbjörgu Ingólfsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2006

Vísnabókin

Vísnabókin (2020)

Lítill drengur í náttfötum krýpur í rúminu sínu og horfir út um gluggann með hönd undir kinn. Við horfum hugfangin saman til hafs. Það merlar á hafflötinn af skörðum mána undir lítilli duggu. „Svanir fljúga hratt til heiða“ og hvít fiðrildi fljúga og leika sér fyrir utan gluggann.

Þetta er mynd Halldórs Péturssonar með vísu Sveinbjarnar Egilssonar ‚Fljúga hvítu fiðrildin‘ í Vísnabókinni, uppáhaldsmyndin mín í þeirri ástsælu bók og ein af heilsíðu litmyndunum sem prýða bókina. Og nú er Vísnabókin orðin sextug, kom út í fyrsta sinn árið 1946. Vísurnar í bókina valdi Símon Jóh. Ágústsson sálfræðingur (1904–1976) en Halldór Pétursson (1916–1977) gerði myndirnar. Bókin náði strax miklum vinsældum og var endurútgefin tveimur árum síðar. Alls hefur hún nú komið út ellefu sinnum, talsvert aukin og endurbætt frá fyrstu gerð, en í nær óbreyttri mynd síðan 1983 og ekki hefur verið hróflað við vísunum í bókinni síðan 1973. Afmælisins er nú myndarlega minnst með ljósprentaðri útgáfu sem er nákvæm eftirmynd frumútgáfunnar. Ekkert lát virðist á vinsældum bókarinnar og að sögn útgefanda selst hún í um eitt þúsund eintökum á ári. Vísnabókin er mikið keypt til gjafa, meðal annars sængur- og skírnargjafa, og ber vott um að gefendur eigi góðar minningar um bókina og telji hana enn eiga erindi við lítil börn.

Vísnabækur fyrir börn 1930–1946

Engin barnabók þar sem saman fara vinsælar barnagælur, bæði þjóðvísur og kvæði eftir þekkta höfunda og myndskreytt að auki, hafði komið út á Íslandi þegar Vísnabókin leit dagsins ljós. Árið 1942 gaf Einar Ólafur Sveinsson út þjóðkvæði og stef í bókinni Fagrar heyrði ég raddirnar með nokkrum teikningum eftir Gunnlaug Scheving. Efni bókarinnar er fjölbreytt og þótt þar sé að finna kafla með barnagælum er þetta ekki barnabók. Ófeigur J. Ófeigsson læknir gaf út þjóðvísur og þulur fyrir börn í bókinni Raula ég við rokkinn minn með teikningum eftir sjálfan sig árið 1945. En letrið á annars mörgum ágætum vísum og þulum, svo og dökkt yfirbragð myndanna, gerir bókina ekki mjög aðgengilega fyrir börn.

Á árunum 1930–1932 voru gefin út söngvahefti til notkunar í grunnskólum, Skólasöngvar I–III, og má ætla að öll grunnskólabörn hafi haft aðgang að þeim. Þar er að finna blandað efni, íslenskt og þýtt, frá einföldum barnagælum til sálma og ættjarðarsöngva. Allir textarnir eru með nótum og útsettir fyrir þrjár til fjórar raddir, enda ætlaðir til söngs öðru fremur (Aðalsteinn Eiríksson, Friðrik Bjarnason, Páll Ísólfsson og Þórður Kristleifsson). Það vekur athygli hve þyngri kveðskapur á borð við sálma og ættjarðarljóð er fyrirferðarmikill í heftunum, en þar eru þó sígild barnaljóð á borð við ‚Það búa litlir dvergar‘, ‚Hann Tumi fer á fætur‘, ‚Siggi var úti‘ og ‚Ríðum heim til Hóla‘.

En þegar Vísnabókin kom út hafði undanfarinn einn og hálfan áratug verið blómlegt skeið í útgáfu ljóðabóka fyrir börn með frumsömdu efni. Meðal þeirra helstu má nefna ljóðabókina Sólskin (1930) eftir Sigurð Júl. Jóhannesson, þrjár bækur eftir Jóhannes úr Kötlum; Jólin koma (1932), Ömmusögur (1933) og Bakkabræður (1941), einnig þrjár bækur eftir Stefán Jónsson; Sagan af Gutta og sjö önnur ljóð (1938), Hjónin á Hofi (1940) og Það er gaman að syngja (1942), og bók Kára Tryggvasonar Fuglinn fljúgandi (1943). Mörg ljóðanna í þessum bókum, sérstaklega þeirra Jóhannesar og Stefáns, nutu strax mikilla vinsælda og hafa bækur þeirra verið endurútgefnar margsinnis fram á þennan dag.

Vísnabókin 1946

Um tilurð Vísnabókarinnar verður nú ekkert fullyrt með vissu en Baldur Símonarson,[1] sonur Símonar Jóh. Ágústssonar, skrifaði grein um bókina árið 1993 og nefnir þar að hugsanleg kveikja að útgáfu bókarinnar hafi verið The Tall Book of Mother Goose, myndskreytt af Feodor Rojankovsky,[2] sem Hákon bróðir hans hafði heim með sér frá Bandaríkjunum 1943. Baldri finnst líklegt að faðir hans hafi talið þörf á vísnabók með líku sniði handa íslenskum börnum. Annars staðar á Norðurlöndum höfðu um langt skeið verið til vísnabækur fyrir börn með gömlum þjóðvísum. Útgefandi Vísnabókarinnar var vinur og skólabróðir Símonar, Ragnar Jónsson hæstaréttarlögmaður sem rak bókaforlagið Hlaðbúð um tveggja áratuga skeið. Baldur segir Ragnar hafa verið vandlátan og smekkvísan og ber fyrsta útgáfa Vísnabókarinnar þess glöggt vitni að mikið var í hana lagt.

Kápa þessarar fyrstu útgáfu Vísnabókarinnar er ljósdrapplit og bundin í sterkan pappa, en þó mun bókin einnig hafa verið til óbundin (Baldur Símonarson 1993). Framan á bókinni er mynd af móður að lesa fyrir tvö börn, dreng og stúlku sem hjúfra sig upp að henni. Þetta er falleg svarthvít teikning, en með rauðum lit sumstaðar. Svartur bogadreginn grunnur er utan með myndinni. Titill bókarinnar er ritaður með rauðum upphafsstöfum fyrir ofan myndina, einnig bogadreginn. Á bakhlið kápunnar er teikning af litlum dreng með bangsa í fanginu, svarthvít nema drengurinn er í rauðum stuttermabol og rauðum sokkum. Saurblöð eru auð, en á titilsíðu er teikning af dreng sem situr við skriftir.

Úr Vísnabókinni (2020)

Úr Vísnabókinni (2020)

Í bókinni eru 113 ljóð eða titlar; þjóðvísur, þulur, gátur og orðagaman, svo og vísur og kvæði eftir nafngreinda höfunda. Símon Jóh. Ágústsson var áhugasamur um þjóðlegan kveðskap og ekki að efa að hann hefur kunnað sjálfur talsvert af því efni sem hann birtir í bókinni. Margar af barnagælunum voru líka um langan aldur með því fyrsta sem farið var með fyrir börn og þau lærðu, til dæmis ‚Bí, bí og blaka‘ og ‚Klappa saman lófunum‘. Auk þess leitaði Símon fanga í safninu Íslenzkar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur, sem kennt er við Ólaf Davíðsson, og áðurnefndri bók Einars Ólafs, Fagrar heyrði ég raddirnar.

Af kveðskap Vísnabókarinnar er fimmtíu titla að finna í Íslenzkar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur. Mest er úr þulunum, enda eru barnagælur flestar þar. Má þar nefna ‚Gekk ég upp á hólinn‘, ‚Sól skín á fossa‘ og ‚Tunglið, tunglið taktu mig‘. Einnig eru nokkrar gátur eins og ‚Hver er sá veggur víður og hár‘ og orðagaman á borð við ‚Fagur fiskur í sjó‘ og ‚Horfumst við í augu sem grámyglur tvær‘. Sumt er orðrétt en þó fleira með tilbrigðum, enda hefur fólk kunnað vísurnar og þulurnar í misjöfnum búningi. Sum tilbrigðin eru enda neðanmáls hjá Ólafi og má víða sjá þau í vísum Vísnabókarinnar. Ekki er gott að dæma um hvort Símon hefur valið úr tilbrigðunum eftir smekk sínum, eða hvort hann hefur einfaldlega kunnað vísurnar sjálfur í þeirri mynd sem hann birtir þær.

Af þessum umræddu fimmtíu titlum Vísnabókarinnar sem eru í Íslenzkar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur er þrjátíu og sjö þeirra einnig að finna í Fagrar heyrði ég raddirnar. Með því að bera þær vísur saman, sem eru í öllum þremur bókum, má í flestum tilfellum sjá mismunandi orðalag. Óþarfi er að elta ólar við mismunandi tilbrigði vísnanna; þau skipta sjaldnast máli þótt flestir hafi eflaust skoðun á því hvert tilbrigðið þeim hugnast best. Sex titlar að auki eru hinir sömu í Fagrar heyrði ég raddirnar og Vísnabókinni og ber orðalagi í öllum tilfellum saman[3] svo það verður að teljast líklegt að Símon hafi þar stuðst við þá bók.

Tuttugu og þrír tilgreindir höfundar, flestir gengnir þegar bókin kom út, eiga vísur og kvæði í bókinni, eða alls þrjátíu og fjóra titla. Jónas Hallgrímsson á mest einstakra höfunda, alls sjö ljóð, en Sveinbjörn Egilsson og Guðmundur Guðmundsson eiga þrjú ljóð hvor og Þorsteinn Erlingsson tvö. Aðrir höfundar eiga svo eina vísu eða eitt ljóð hver og meðal þeirra eru Páll Ólafsson, Steingrímur Thorsteinsson, Örn Arnarson og Sig. Júl. Jóhannesson. Þegar tekið er tillit til leiðréttinga, sem gerðar voru í næstu útgáfum bókarinnar, mest í annarri og þriðju útgáfu, verða höfundar í þessari fyrstu útgáfu alls 24 og titlar eftir þá 38, þar af eru tvær þýðingar.[4] Í nokkrum tilfellum styttir Símon þulurnar og kvæðin nokkuð. Bókin hefst á fyrsta erindi kvæðisins ‚Sofðu unga ástin mín‘ eftir Jóhann Sigurjónsson og endar á ‚Heilræðum‘ Hallgríms Péturssonar.

Í öllum skrifum sínum um viðfangsefnið börn og bækur leggur Símon ríka áherslu á að það eigi að bjóða börnum sem vandaðast efni frá fyrstu tíð. Í grein í Skírni (1963) segir hann:

Engir lesendur eru þakklátari en börn. Hugur þeirra er gljúpur og næmur. Aldrei á ævinni verðum við fyrir eins djúpum og varanlegum áhrifum frá bókum og í barnæsku, því að þá er innlifunarhæfileiki okkar mestur. (bls. 73)

Þetta sjónarmið hefur hann haft til grundvallar við val á efni í Vísnabókina. En það vekur óneitanlega athygli hve lítið er af nýju eða nýlegu efni í bókinni miðað við hve mikið var þó til á þessum tíma, til dæmis eftir þá Stefán Jónsson og Jóhannes út Kötlum. Í skrifum Símonar um börn og bækur í áðurnefndri grein í Skírni kemur fram að hann hafði vissa vantrú á efni sem sérstaklega er samið fyrir börn, þótt hann taki fram að margt af því hafi vissulega listrænt gildi. Hann varar foreldra beinlínis við því að láta börn búa um of eða eingöngu að slíku efni og telur að það gæti orðið börnunum þroskatálmi og að þau festust í bernskum hugsunarhætti. Um ljóð handa börnum segir hann:

Ég held varla, að nokkrum heilvita manni dytti í hug að glæða ætti ljóðasmekk barna eingöngu eða nær eingöngu á ljóðum, sem ort hafa verið sérstaklega handa börnum. Ekki svo að skilja, að þessi skáldskapargrein eigi ekki fullan rétt á sér, ýmis ljóð, sem ort hafa verið sérstaklega handa börnum, eru prýðileg og hafa listrænt gildi. En börn hafa, ef svo má segja, slegið eign sinni á öll þau ljóð, sem eru við þeirra hæfi, þótt þau væru upphaflega ætluð fullorðnum mönnum eða mönnum yfirleitt. Með þessu móti geta börn notið miklu fjölbreyttari skáldskapargilda en ef þau byggju eingöngu að barnaljóðunum. (Bls. 74)

Í sömu heimild kemur líka fram að Símon telur margt samtímaefni úreldast fljótt og að það taki mannkynið langan tíma að sannreyna gildi góðra bókmennta. Hann leggur því mikla áherslu á sígilt efni fyrir börn, bæði íslenskt og þýtt. Það getur skýrt hve lítið er af nýlegum kveðskap í Vísnabókinni, hann hefur ef til vill viljað láta þetta nýja efni sanna sig áður en það kæmi í úrvali íslenskra barnaljóða. Svo er auðvitað hugsanlegt að Símoni hafi fundist nýlegt kvæðaefni fyrir börn nógu aðgengilegt í útgefnum bókum höfundanna.

Það er óhætt að fullyrða að Símon hefur verið naskur að velja sígilt efni við hæfi barna í Vísnabókina. Það sést vel þegar blaðað er í gegnum safnið Íslenzkar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur og skoðað hvað hann velur úr því. Hann velur tiltölulega auðskiljanlegar gátur með ráðningum á fyrirbærum sem börn þekkja, skemmtilegt orðagaman og nokkrar skrítnar og skemmtilegar vísur, til dæmis eina öfugmælasvísu; ‚Séð hef ég köttinn syngja á bók‘. Efnið í barnagælunum er fyrst og fremst börn og samskipti þeirra við foreldra og dýr. Margar vísurnar eru um dýr, mest fugla, en líka kýr, hesta, lömb, ketti og hunda. Sama á við um ljóð eftir nafngreinda höfunda, börn og dýr eru þar áberandi yrkisefni. Grýla og hennar hyski eiga líka sinn stað í bókinni. Þó fer ekki hjá því að margt efni bókarinnar á uppruna sinn og sækir tilvísanir í gamla sveitasamfélagið og umhverfi þess og myndirnar undirstrika það kirfilega.

Myndirnar

Sofðu unga ástin mín

Úr Vísnabókinni (1946)

Í bókinni eru 45 myndir, ein mynd á hverri opnu bókarinnar. Myndirnar eru allar á vinstri síðu og vísurnar á þeirri hægri. Undantekningar frá þessu er fyrsta síða bókarinnar þar sem mynd og vísa eru á sömu síðu svo og við upphaf lokakvæðis. Um er að ræða sömu myndina og á hún við vísuna ‚Sofðu unga ástin mín‘, teikning sem sýnir móður með barn í fangi og gullastokk í hendi, en úti fyrir grætur regnið á glugganum sem er í bakgrunni. Þessi sama mynd er svo í upphafi ‚Heilræða‘ Hallgríms Péturssonar. Í lok þess kvæðis er mynd af dreng sem krýpur við rúmstokk og biður og við hlið hans er hundur.

Í bókinni eru tólf heilsíðu litmyndir og auka þær gildi bókarinnar til mikilla muna. Á þessum tíma höfðu aðeins örfáar íslenskar barnabækur með litmyndum komið út. Þeirra helst er bókin Dimmalimm eftir Mugg  (Guðmund Thorsteinsson) sem kom fyrst út 1942 og telst til sígildra íslenskra barnabóka. Litmyndirnar í Vísnabókinni eru því nokkurt nýmæli í íslenskri barnabókaútgáfu og lýsa miklum metnaði. Myndirnar, bæði teikningarnar og litmyndirnar, eru dregnar skýrum línum og eru margar fjörlegar. Halldór Pétursson sýnir þarna strax í upphafi ferils síns hve auðvelt hann á með að draga upp myndir af dýrum þó hann ætti eftir að ná enn betri tökum á því síðar. Sterkir litirnir hafa eflaust fangað athygli barnanna. Myndirnar í bókinni hafa þó ekki aðeins gildi í sjálfu sér, því þær lyfta vísunum, gefa þeim nýja vídd og gera þær eftirminnilegri. Er ekki að efa að Vísnabókin á vinsældir sínar að miklu leyti þeim að þakka, svo samofnar sem þær eru ljóðunum.

Grýla

Grýla, Úr Vísnabókinni (1946)

Eflaust eiga allir unnendur Vísnabókarinnar sína uppáhaldsmynd í bókinni. Flestir sem ég hef spurt nefna Grýlumyndina sem eftirminnilegustu mynd bókarinnar, þó hún sé ekki endilega uppáhaldsmyndin, enda er hún frægasta mynd sem nokkurn tíma hefur verið gerð af Grýlu. Margir viðmælendur mínir [5] hafa nefnt að þeir hafi verið hálf hræddir við þessa mynd þegar þeir voru börn og sumir gjarnan flett yfir hana þegar bókin var skoðuð. Í einstaka tilvikum hvarf þessi síða á dularfullan hátt úr bókinni! Það vekur athygli að Grýla er í þessari fyrstu útgáfu bókarinnar á sauðskinnsskóm, en í þulunni sem fylgir myndinni segir: „Grýla reið með garði/gekk með henni Varði/hófar voru á henni/…“ Athugul börn gerðu athugasemd við sauðskinnsskóna og í annarri útgáfu bókarinnar voru komnir hófar á Grýlu. Þessi Grýlumynd Halldórs Péturssonar ásamt Grýlukvæði Jóhannesar úr Kötlum í Jólin koma (1932) hafa átt stærstan þátt í því að ryðja Grýlu braut inn í íslenskar barnabækur og barnamenningu, þar sem hún hefur átt öruggt athvarf til þessa dags (Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir 2004).

Viðtökur og endurútgáfur

Jakob Benediktsson skrifaði umsögn í Tímarit Máls og menningar (1946) þegar bókin kom út og er ánægður með bókina og telur hana líklega til mikilla vinsælda. Hann bendir réttilega á að margir kunni sumar vísurnar á annan veg og sjálfsagt þyki hverjum sín útgáfa best. Hann getur þess einnig að sumar vísurnar í Vísnabókinni séu birtar í annarri gerð í bók Einars Ólafs Sveinssonar Fagrar heyrði ég raddirnar og finnst breytingar í Vísnabókinni sjaldnast til bóta. En Einar Ólafur sem einnig skrifaði um bókina í Skírni (1946) finnur ekki að þessu. Hann er ánægður með bókina og efnisvalið og bendir á að það eigi að gera íslensk börn að þátttakendum í menningararfi þjóðarinnar þegar í barnæsku. Það er helst að Einar Ólafur sé óánægður með að sum kvæðin séu stytt. Hann kallar líka eftir frekari útgáfu á sambærilegu efni fyrir börn á ýmsum aldri.

Báðir eru þeir Jakob og Einar Ólafur ánægðir með myndir Halldórs Péturssonar. Jakobi finnst þó litirnir í sumum myndunum heldur glannalegir og Einar Ólafur nefnir að miðað við efni bókarinnar hefðu myndirnar mátt vera með meiri sveitarbrag.

Til marks um vinsældir Vísnabókarinnar þurfti að endurútgefa hana strax tveimur árum síðar, 1948. Kápa og titilsíða eru eins og í fyrstu útgáfu. Þótt bókin lengdist ekki nema um eina opnu var talsvert fleiri vísum bætt við og síðurnar betur nýttar. Leiðréttingar voru gerðar og höfundum bætt við vísur eða tilgreint hverjum þær væru eignaðar. Á nýju opnunni er gátan ‚Hvernig flutt var yfir á/ úlfur, lamb og heypokinn‘ og fylgdi henni mynd. Eins og þeir sem þekkja gátuna vita mátti ekki flytja nema eitt yfir ána í einu, en á myndinni eru bæði lambið og heypokinn um borð í bátnum með bónda. Ekki voru gerðar stórvægilegar breytingar á myndefni bókarinnar. Þó var myndin af Grýlu lagfærð, settir á hana hófar í stað sauðskinnsskóa til samræmis við texta þulunnar. Skipt var um mynd með upphafi ‚Heilræða‘ séra Hallgríms Péturssonar og er þar nú sama mynd og á titilsíðu, mynd af dreng við skriftir.

Vísnabókin (1955)

Vísnabókin (1955)

Árið 1955 kom þriðja útgáfa Vísnabókarinnar út. Þá höfðu orðið talsverðar breytingar á henni. Nú blasir við ný kápa sem er eins að framan og aftan. Grunnlitur hennar er ljósgrænn. Sama mynd af móður og börnum og á fyrri útgáfum er á kápunni, en örlítið breytt og bakgrunnurinn er rauðbrúnn. Titillinn er bogadreginn fyrir ofan myndina með sama letri og áður en hvítur og skyggður með sama rauðbrúna litnum. Nokkrar litlar myndir sóttar í efni bókarinnar, meðal annars af höfði Grýlu, dýrum og fuglum, eru utan með á allri kápunni. Komin er teikning í einum lit, hér gráum, sem nær yfir innanverða kápuna og saurblað, bæði fremst og aftast. Þar má sjá ýmislegt sem fjallað er um í bókinni. Grýla er þar á harðaspani með fullan poka sinn og Valka litla hlaupandi á eftir henni með skæri, Sigga mjólkar ána sína og Runki þeysir á Sokka, svo eitthvað sé nefnt. Þessi sama mynd er í öllum síðari útgáfum bókarinnar, aðeins er skipt um lit á milli útgáfna. Titilsíða er óbreytt, en aftan á saurblaði, gegnt titilsíðunni, er komin vísan ‚Vertu í tungunni trúr‘ og gegnt lokasíðu bókarinnar er komin vísan ‚Fagurt syngur svanurinn‘. Komið er betra og læsilegra letur á vísurnar og einnig eru ráðningar á gátum nú prentaðar á hvolfi með smærra letri.

Enn bættust við nokkrar vísur og lagfærðar voru upplýsingar um höfunda. Vísur voru fluttar til á síðum eða milli síðna, ekki alltaf til bóta. Myndefni breyttist nokkuð. Ein opna var felld niður og í staðinn kom opna með kvæðinu ‚Sofa urtubörn á útskerjum‘, en kvæðið hafði verið án mynda í tveimur fyrri útgáfum. Skipt var um mynd með ‚Sofðu unga ástin mín‘ og þykir mér nýja myndin heldur síðri og meira gamaldags en sú fyrri. En það er komin ný og mjög eftirminnileg mynd með kvæðinu ‚Krumminn á skjánum‘ og myndin með gátunni ‚Hvernig flutt var yfir á‘ var leiðrétt. Nú er aðeins lambið um borð í bátnum með bónda og er þessi mynd miklu betri en sú fyrri. Ný og betri mynd er einnig með kvæðinu ‚Jólasveinar einn og átta‘.

Sáralitlar breytingar urðu með fjórðu útgáfu bókarinnar árið 1963. Kápan er eins og á þriðju útgáfu og myndirnar allar hinar sömu. Fjórar nýjar vísur bættust við án þess að bókin lengdist, en tvær vísur voru felldar burt. Meðal þess sem bættist við er ‚Blessuð sólin elskar allt‘ eftir Hannes Hafstein og ‚Hér fer Grýla í garð ofan‘. Vísurnar gegnt titilsíðu og lokasíðu hafa verið felldar burt.

Vísnabókin (1973)

Vísnabókin (1973)

Með fimmtu útgáfu Vísnabókarinnar árið 1973 urðu miklar breytingar á bókinni, en þá var Valdimar Jóhannsson í Iðunni tekinn við Hlaðbúð. Kápan er nú gjörbreytt og bókin talsvert aukin að efni. Baldur Símonarson segir í sinni grein (1993) að Ragnar Jónsson hafi verið íhaldssamur um útlit og innihald bókarinnar, en Valdimar hafi verið hlynntur breytingum. Kápan er orðin appelsínugul í grunninn og blár rammi utan með. Móðirin með börnin er horfin. Í staðinn er á neðri hluta framkápu smækkuð mynd af myndinni á innkápu og áður er lýst í tengslum við þriðju útgáfu bókarinnar árið 1955. Efri hluti kápunnar er hvítur og þar er tititllinn með stórum appelsínugulum stöfum og skipt milli lína, en boginn er horfinn. Sama mynd og á framkápu er einnig á efri hluta bakkápu í bláum ramma, en undir henni er mynd af Grýlu, líka í bláum ramma og annar rammi með upplýsingatexta. Þar kemur fram að bókin hafi nú verið prentuð í meira en þrjátíu þúsund eintökum. Titilsíða er óbreytt og vísan gegnt henni er komin aftur og vísan á lokasíðunni einnig, en nú aftan á saurblaði aftast í bókinni. Letrið á þessum vísum er í sama lit og liturinn á myndinni á innkápu og hefur það verið þannig síðan. Pappírinn er hvítari en fyrr.

En mesta breytingin á bókinni er sú að við bættust fleiri vísur og níu nýjar opnur, en örfáar vísur voru felldar burt. Bókin varð nú 110 síður, alls 160 titlar. Viðbæturnar voru mest kvæði eftir þekkt skáld, sum þálifandi. Nú eru í bókinni 68 vísur eða kvæði eftir 43 nafngreinda höfunda. Og þannig hefur það verið allar götur síðan. Dæmi um ný kvæði eru ‚Hann Tumi fer á fætur‘ eftir Freystein Gunnarsson, ‚Fyrr var oft í koti kátt‘ eftir Þorstein Erlingsson og ein af mínum uppáhaldsvísum ‚Göngum, göngum, göngum upp í gilið‘ eftir Þórð Kristleifsson. Með fylgdu nýjar svarthvítar myndir. Ný mynd er komin með gátunni ‚Hver er sá veggur víður og hár‘. Í stað myndarinnar með vísunni ‚Þessar klappir þekkti ég fyrr‘, sem verið hafði í bókinni frá upphafi, er komin mynd með nýrri vísu, ‚Ása gekk um stræti‘. Hundurinn, sem verið hafði við hlið drengsins að biðja í lok Heilræðavísnanna, er nú horfinn. Árin 1976 og 1977 komu út tvær hljómplötur með lögum við texta úr Vísnabókinni, sem báru titlana Einu sinni var og Út um græna grundu. Þar útsetur Gunnar Þórðarson nokkur gömul lög við kvæði bókarinnar, auk frumsaminna laga þeirra Gunnars og Björgvins Halldórssonar. Plöturnar urðu gríðarlega vinsælar og er ekki að efa að þær hafa aukið sölu bókarinnar, enda kom hún út í sjötta sinn árið 1977, aðeins fjórum árum á eftir fimmtu útgáfu.

Framkápa sjöttu útgáfu er eins og á fimmtu útgáfu. Hið sama á við um efri hluta bakkápunnar, en komin er ný mynd af Grýlu í rammann á neðri hlutanum og þar eru nú auglýsingar á áðurnefndum hljómplötum í stað upplýsingatexta. En það sem fyrst fangar augað er að nú hafa verið gerðar miklar breytingar á myndum bókarinnar. Búið er að skipta um margar myndir og breyta litunum á sumum. Litmyndirnar tólf, sem höfðu verið óbreyttar frá fyrstu útgáfu, voru nú ýmist horfnar eða með nýjum lit. Fjórar þeirra hafa vikið fyrir nýjum myndum (með ‚Fljúga hvítu fiðrildin‘, ‚Skugginn‘, ‚Grýla reið með garði‘ og ‚Runki fór í réttirnar‘) og í hinum átta stendur aðeins eftir svarthvít teikning þar sem áður hafði verið litur, þó myndin væri að öðru leyti óbreytt. Skipt var einnig um sex aðrar myndir við vísur. Nokkrar myndirnar eru litaðar eða skyggðar með vaxlit, einn litur í hverri mynd, ósköp dauflegt miðað við fyrri myndir. Róttækasta breytingin er á Grýlu, sem er nú komin með hala og öll herfilegri þó í grunninn sé þetta sama myndin. Aðeins einn litur er í myndinni, rauður, og eykur það á óhugnaðinn og dýrslegt yfirbragðið. Það eru mýkri línur í sumum nýjum myndum Halldórs og meira líf í þeim, sérstaklega dýra- og mannamyndunum. Pabbinn sem bíar og svæfir börnin í ‚Sofa urtubörn á útskerjum‘ er nú kominn með síðara hár í takt við breytta tísku. Og pabbi hans Steina í vísunni ‚Pabbi, pabbi minn/ pabbi segir hann Steini‘ er líka vel hærður, þótt hann sé á sauðskinnsskóm. Þetta er ný mynd í bókinni og sérlega yndisleg, en ekki hafði áður verið mynd með þessari vísu. Hins vegar var tekin út myndin með kvæðinu ‚Nú blánar yfir berjamó‘, enda er það á sömu síðu og vísan um pabba og Steina og ekki pláss fyrir þær báðar.

Engar breytingar voru gerðar á kveðskap bókarinnar, eða uppsetningu vísna á síðum. En opnur voru fluttar til svo röð þeirra breyttist og vandséð hvers vegna það var gert eða hvort það er til bóta. Það er komið efnisyfirlit með upphafsorðum vísna og kvæða í lok bókarinnar sem er til mikils hagræðis og er bókin því orðin 112 síður.

Það er greinilegt að þessi útgáfa frá 1977 átti ekki miklum vinsældum að fagna því sex árum síðar, árið 1983, þegar sjöunda útgáfa Vísnabókarinnar leit dagsins ljós, hafði verið snúið rækilega við blaðinu. Allar litmyndirnar tólf eru nú komnar aftur í upprunalegri gerð og margir hafa eflaust orðið fegnir að fá þar til dæmis gömlu Grýlu sína aftur. Hundurinn við hlið drengsins að biðja birtist líka aftur í lok Heilræðavísnanna. Nú viku líka nokkrar myndir, sem skipt hafði verið um í þriðju útgáfunni, eða hafði verið breytt lítillega, fyrir upphaflegum myndum úr fyrstu útgáfunni. Meðal þeirra má nefna leiðréttu myndina við ‚Hvernig flutt var yfir á‘ og myndina með ‚Krumminn á skjánum‘. Mikill missir er að einstaka myndum sem við þetta hurfu úr bókinni og hafa ekki sést þar síðan.

Vísnabokin (1983)

Vísnabokin (1983)

Enn hefur verið hróflað við röð opnanna í bókinni og er röðin nú líkari fyrri útgáfum þó ekki sé hún nákvæmlega eins og nein þeirra. Nú er komin grá rönd utan með öllum síðum og rauð lína sem rammar inn hverja síðu. Upphafsstafur hverrar vísu er nú stærri en hinir til að afmarka vísurnar betur en áður og stjarnan á milli þeirra er horfin. Þá eru heiti kvæðanna, þegar um það er að ræða, skrifuð með upphafsstöfum og undirstrikuð.

Bókarkápan er gjörbreytt. Grá rönd utan með og rauð lína eins og á síðum bókarinnar ramma inn myndir á forsíðu og baksíðu. Framan á bókarkápu er lítil litmynd á bláum grunni, inni í stærri mynd, sama myndin og var á kápu fyrstu og annarrar útgáfu. Á báðar hliðar við þessa litlu mynd eru svarthvítar teikningar af nokkrum dýrum. Neðri hluti myndarinnar er hvítur og þar er nafn útgáfufyrirtækis með bláu letri, en efri hluti myndarinnar er ljósblár. Þar stendur Vísnabókin með stórum rauðum upphafsstöfum og þrír fljúgandi svanir skreyta þann hluta líka eins og fyrirboði um það frelsi og ókunn lönd sem lestur góðra bóka getur veitt. Tveir litlir fuglsungar sitja uppi í minni myndinni og tvær litlar mýs eru fyrir neðan hana. Á baksíðu er upplýsingatexti og á neðri hluta síðunnar er litmynd af drengnum með bangsann sinn, sama mynd og á baksíðu fyrstu og annarrar útgáfu. Titilsíðan hefur líka breyst. Í stað drengsins sem skrifar og verið hafði á titilsíðunni frá upphafi, sama myndin og með upphafi Heilræðavísnanna, eru komnir fljúgandi svanir. Titillinn er grár og með sama letri og á kápu. Vísnabókin kom út í áttunda sinn nánast óbreytt árið 1992, í níunda sinn árið 1995, í tíunda sinn árið 1999 og í ellefta sinn árið 2004. [6] Frá sjöundu útgáfu bókarinnar árið 1983 hafa aðeins orðið smávægilegar breytingar á útliti hennar. Kápan er óbreytt ef undan er skilið að upplýsingatexti á baksíðu var styttur árið 1992. Við það féll niður nafn Símonar Jóh. Ágústssonar og er það miður. Árið 1999 breyttist titilsíðan, er nú alveg eins og kápumyndin. Ekkert hefur verið hróflað við uppsetningu á síðum eða röð opnanna í bókinni, en pappírinn er nú orðinn hvítari og meira glansandi og rauða línan breiðari í rammanum utan með síðum bókarinnar.

Litirnir í litmyndum bókarinnar hafa tekið ótrúlega miklum breytingum í tímans rás og eru raunar aldrei alveg eins í mismunandi útgáfum bókarinnar. Nú ber til dæmis svo við að í tveimur síðustu útgáfum (1999 og 2004) er allur rauður litur orðinn appelsínugulur og er víða til mikilla lýta. Þetta er líka fremur bagalegt í sumum myndum, til dæmis í myndinni með ‚Afi minn fór á honum Rauð‘. Þetta þarf að laga í næstu útgáfu. Vel hefur hins vegar tekist til með litprentun myndanna í afmælisútgáfunni og er sú bók öll hin glæsilegasta.

Aðrar vísnabækur fyrir börn

Nokkrar góðar vísnabækur hafa komið út á umliðnum árum, bæði bækur með blönduðu efni af þjóðvísum og kvæðum eftir þekkta höfunda og ljóðabækur eftir einstaka höfunda. Og undanfarin fimmtán ár hefur verið nokkur gróska í útgáfu ljóðabóka með frumsömdu efni fyrir börn.

Af bókum hliðstæðum Vísnabókinni eru tvær helstar. Önnur er Ljóðabók barnanna sem kom út árið 1953 og aftur 1965, Guðrún P. Helgadóttir og Valborg Sigurðardóttir völdu ljóðin og Barbara Árnason teiknaði myndirnar. Þar eru fleiri vísur og kvæði en í Vísnabókinni, þulur og þjóðvísur og kvæði eftir fleiri nafngreinda höfunda, en margar vísur eru auðvitað þær sömu og í Vísnabókinni. Nokkur kvæði eru eftir Margréti Jónsdóttur, Stefán Jónsson og Jóhannes úr Kötlum og hentar bókin betur eldri börnum en Vísnabókin. Hin bókin er Vísnabók Iðunnar sem svo var nefnd og kom út árið 1990. Nafnið vekur þá spurningu hvort bókinni hafi verið ætlað að taka við af gömlu Vísnabókinni og efnisvalið styður þann grun. 55 titlar í bókinni eru þeir sömu og í Vísnabókinni, þar á meðal margar þekktustu barnagælurnar og þulurnar. Flestar viðbæturnar eru vinsæl sönglög. Í bókinni eru líka kvæði eftir Stefán Jónsson og Jóhannes úr Kötlum og ýmislegt sem lengi hefur verið vinsælt efni í leikskólum. Líklega eru fleiri textar sem henta til almenns söngs í þessari bók en í Vísnabókinni og hún er betur sniðin að þörfum nútímabarna. Brian Pilkington gerði myndirnar en ekki kemur fram hver valdi ljóðin. Báðar eru þessar bækur Ljóðabók barnanna og Vísnabók Iðunnar góðar og vandaðar bækur og er miður að þær skuli ekki lengur vera fáanlegar, því þær bættu Vísnabókina upp.

Guðrún Hannesdóttir hefur gefið út þrjár vísnabækur fyrir börn á ýmsum aldri. Þær eru Gamlar vísur handa nýjum börnum (1994), Fleiri gamlar vísur handa nýjum börnum (1995) og Eina kann ég vísu: Skrýtinn kveðskapur frá ýmsum tímum (1999), sem eins og titlarnir gefa til kynna geyma gamlan kveðskap, þulur og þjóðvísur af fjölbreyttu tagi og einstaka vísur eftir nafngreinda höfunda. Fátt af því efni er í Vísnabókinni og eru bækurnar því kærkomin viðbót við hana. Þær eru í stóru broti, allar líflega og fallega myndskreyttar af Guðrúnu.

Þórarinn Eldjárn er drýgstur þeirra sem yrkja fyrir börn nú um stundir og hefur hann gefið út fjórar snjallar ljóðabækur sem Sigrún Eldjárn systir hans hefur myndskreytt af mikilli list. Þær eru Óðfluga (1991), Heimskringla (1992), Halastjarna (1997) og Grannmeti og átvextir (2001). Þrjár fyrstnefndu bækurnar voru síðan gefnar út í einni árið 2004 og nefnist hún Óðhalaringla. Við ljóð Þórarins um Grýlu og Leppalúða í Heimskringlu vísar Sigrún af snilld í Grýlumynd Halldórs Pétursonar í Vísnabókinni. Böðvar Guðmundsson hefur líka gefið út bráðskemmtilega ljóðabók fyrir yngri börn Krakkakvæði (2002) með mjög fínum myndum Áslaugar Jónsdóttur. Davíð Þór Jónsson gaf út fyndna ljóðabók fyrir aðeins þroskaðri börn, Ljóð fyrir vonda krakka (2004) með prakkaralegum myndum Lilju Gunnarsdóttur. Ljóð þeirra þremenninganna einkennast af orðaleikjum, fyndni og ærslum og eru þau því alls ólík flestum vísunum í Vísnabókinni.

Áhrif og framtíð Vísnabókarinnar

Víst er að Vísnabókin varðveitir og miðlar hluta af menningararfi íslensku þjóðarinnar og sjálf er hún líka orðin hluti af þeim sama arfi. Það er óumdeilt að kveðskapur, hvort sem er sunginn eða mæltur fram, er góð málörvun fyrir börn (Ragnar Ingi Aðalsteinsson 2005) og ekki má heldur gleyma skemmtigildi bókarinnar sem er talsvert. Gildi Vísnabókarinnar fyrir menntun ungra barna felst meðal annars í öllu þessu. Það er þó ekki auðvelt að meta áhrif bókarinnar á nútímabörn sem alast upp við miklu fjölbreyttari bókakost og ríkara myndefni af margvíslegu tagi en fyrri kynslóðir gerðu. Bókin býr samt enn yfir þeim mætti að sameina kynslóðir. Dótturdóttir mín, sem fædd er árið 1999, deilir í einhverjum mæli upplifun af þessari bók með langömmu sinni, sem er fædd árið 1939. Og það er í sjálfu sér ákveðinn galdur.

Vissulega má setja upp margvísleg gagnrýnigleraugu þegar bókin er skoðuð og metin nú, en það getur verið erfitt með svo elskaða bók. Ekki er þó hægt að horfa fram hjá því að sumar vísurnar og þulurnar höfða að öllum líkindum lítið til nútímabarna og mættu ef til vill missa sín, en um það sýnist sitt hverjum. Líka getur verið erfitt að meta hvað höfðar til barna; börn eru misjöfn og það skiptir máli hvernig farið er með efni og hver fer með það. Við skulum samt minnast þess að vísurnar í bókina voru valdar fyrir sextíu árum og valið síðast endurskoðað árið 1973. Og þótt efnisvalið sé vandað var það mjög íhaldsamt eins og fyrr er rakið. Í því sambandi vekur einnig athygli að aðeins er ein lítil vísa í bókinni eftir konu, Marín Guðmundsdóttur; ‚Magnús raular, músin tístir‘, allt annað nafngreint efni er eftir karlmenn. Voru þó til dæmis komnar út vandaðar ljóðabækur fyrir börn eftir skáldkonurnar Erlu (Guðfinnu Þorsteinsdóttur), Ævintýri dagsins (1958), og Margréti Jónsdóttur, Á léttum vængjum (1961), þegar efnið var endurskoðað síðast. Ljóð eftir þær báðar hefðu sómt sér vel í Vísnabókinni. Við þetta má bæta að fleiri vísur og mun fleiri myndir í bókinni sýna drengi og karlmenn en stúlkur og konur.

Ég þykist þó vita að margir megi ekki til þess hugsa að við bókinni sé hróflað. Viðmælendur mínir eru allir sammála um það að Vísnabókin eigi að fá að vera til áfram í óbreyttri mynd við hlið annarra og nýrri vísnabóka, enda sé ekki ástæða til annars á meðan hún selst eins vel og raun ber vitni og get ég vel tekið undir það. Það blandast heldur engum hugur um að Vísnabókin geymir gott úrval af gömlu efni sem ástæða er til að sé aðgengilegt á öllum tímum. Engu að síður er brýn nauðsyn að fá fleiri hliðstæðar vísnabækur sem höfða meira til nútímabarna og barna á misjöfnum aldri, eins og Einar Ólafur Sveinsson benti raunar á þegar bókin kom fyrst út fyrir sextíu árum. Þar þarf að fara saman vandað úrval af gömlu og nýju efni og víst er að af nógu er að taka. Líka þarf nauðsynlega að gefa reglulega út úrval þýddra barnaljóða frá ýmsum heimshornum.

En í ljósi þess hve Vísnabókin hefur orðið lífseig og hve rík áhersla virðist lögð á að hún sé til á flestum heimilum er óhætt að fullyrða að þeim Símoni Jóh. Ágústssyni og Halldóri Péturssyni hafi tekist að hafa djúp og varanleg áhrif á börn á næmasta innlifunarskeiði, svo gripið sé til fyrrnefndra orða Símonar sjálfs. Lengi lifi Vísnabókin!

 

 

Heimildir

 • Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir. 2004. Er hún gamla Grýla dauð? Ímynd Grýlu í barnabókum. Hrafnaþing 1:7–19.
 • Baldur Símonarson. 1993. Vísnabókin. Orðaforði heyjaður Guðrúnu Kvaran 21. júlí 1993, bls. 18–21.
 • Einar Ól. Sveinsson. 1946. Vísnabókin. Skírnir 120: 233–234. [Ritfregnir]
 • Jakob Benediktsson. 1946. Vísnabókin. Tímarit Máls og menningar 7, 3:320.
 • Ragnar Ingi Aðalsteinsson. 2005. Bragfræði og málþroski. Hrafnaþing 2:53–64.
 • Símon Jóh. Ágústsson. 1963. Börn og bækur. Skírnir 137: 59–82.

Tilvísanir

 1. Ég vil þakka Baldri Símonarsyni fyrir góðar ábendingar og yfirlestur.
 2. Bókin kom út á íslensku árið 1970 með titlinum Vísnabók Æskunnar í þýðingu Kristjáns frá Djúpalæk og aftur 1999 og heitir þá Vísnabók barnanna. Gæsamömmubók, nú endurort af Böðvari Guðmundssyni.
 3. Í vísunni ‚Ló, ló mín Lappa/ sára ber þú tappa/ það veldur því að konurnar/ kunna þér ekki að klappa‘ – endurtekur Símon þó fyrstu hendinguna í lok vísunnar, en það er hvorki gert í Fagrar heyrði ég raddirnar né í þjóðsögunni sem vísan er úr og finna má í safni Jóns Árnasonar Íslenskar þjóðsögur og ævintýri I.
 4. Höfund vantar í þessari fyrstu útgáfu við fimm vísur og tilgreindir eru rangir höfundar við þrjár aðrar vísur.
 5. Ekki er hér um vísindalega könnun að ræða. Viðmælendur mínir, sem ég vísa hér til, eru auk fjölskyldu, vina og vinnufélaga, nemendur mínir til margra ára í námskeiðinu barnabókmenntir á leikskólabraut Kennaraháskóla Íslands.
 6. Þegar taldar eru upp útgáfur bókarinnar innan á titilsíðu í útgáfunum frá 1999 og 2004 hefur fallið niður útgáfan frá 1995 og því aðeins taldar upp tíu útgáfur bókarinnar. Erfitt getur verið að henda reiður á hvað er útgáfa og hvað er prentun þegar bókin er gefin út svona oft og lítið sem ekkert breytt eins og raunin er frá 1983. Afmælisútgáfan verður í þessu samhengi að teljast tólfta útgáfa Vísnabókarinnar.