Loftslagsmál, pólitísk umræða og olíuleit á íslenska landgrunninu

Eftir Guðna Elísson

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2011

Guðni ElíssonÍ frétt sem birtist á vef Morgunblaðsins í september 2011 segir frá því að áður „óþekktar olíulindir, sem fundist hafa í norska landgrunninu í Norðursjó, gætu verið 1168 milljarða norskra króna virði en það svarar til 24 þúsund milljarða íslenskra króna“. [1] Samkvæmt norskum sérfræðingi hjá Nordea Markets hefur fundurinn gríðarleg áhrif á norskan efnahag ef lindirnar eru nýttar og lengir „til muna þann tíma, sem Norðmenn geta vænt [svo] þess að fá tekjur af olíuvinnslu“ Í bloggi um fréttina hugleiðir íslensk kona hvaða áhrif samskonar fundur hefði fyrir efnahag landsmanna: „Mikið rosalega væri það gaman fyrir íslenska þjóð ef það fyndust olíulindir á hafsbotni á svæði sem við eigum. Ég er svosem ekkert að biðja um það fyrir mig, en framtíðinni [svo] mætti vera bjartari fyrir unga fólkið og barnabörnin okkar.“ Konan vonar jafnframt að farið verði að „leita að olíu á markvissan hátt og að það finnist eitthvað“ og spyr hvort nokkuð sé að því að „biðja Norðmenn um hjálp?“ Í athugasemdakerfinu er tekið undir orð konunnar og áréttað að „ef olía finnst á Drekasvæðinu“ sé „glæpur að leggja stein í götu þess að hún verði unnin“. [2]

En er málið svona einfalt? Í pistli um olíu- og gasfundinn í Norðursjónum bendir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á að erfitt geti verið fyrir Norðmenn að nýta þessa auðlind af þeirri einföldu ástæðu að óhreyfðar olíulindir menga ekki og auka þar með ekki á gróðurhúsaáhrifin:

Fyrir loftslagsfund Sþ. í Kaupmannahöfn rétt fyrir jólin 2009 sýndi Potsdamloftslagsstofnunin með Stefan Rahmsdorf í fararbroddi fram á það að til að ná halda sig undir 2°C markinu mætti ekki brenna meira en innan við helming nýtanlegra birgða jarðefnaeldsneytis sem þá voru þekktar. Í raun eru þetta tiltölulega einfaldir útreikningar þar sem menn vita upp á hár hve [svo] hvert tonn af olíu, kolum og jarðgasi gefur af CO2 út í lofthjúpinn við bruna. Í framhaldinu spáðu menn hvernig sú aukning koltvísýrings á breytt geislunarálag lofthjúps hefði áhrif á meðalhitastig jarðar og er sú spá byggð á bestu vitneskju og þekkingu eins sagt er. [3]

Eins og Einar bendir á eru Norðmenn í siðferðislegri kreppu. Þeir vita af skaðanum sem heimsbyggðin verður fyrir sé haldið áfram að nýta jarðefnaeldsneyti með sama hætti og gert hefur verið undanfarna öld, en það gæti leitt til alvarlegra umhverfisáhrifa. Þeir reyna því að friða samviskuna m.a. með því að dæla koltvísýringi aftur niður í berggrunninn neðansjávar og leggja fram háar upphæðir til verndunar regnskógum í Suður-Ameríku.

Nú er nær útilokað að þjóðir heims komi sér saman um aðgerðir sem tryggi að hlýnun jarðar verði undir 2°C markinu. Rahmsdorf, sem Einar nefnir, varaði einnig við þeirri hættu á umræðufundi á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn að stjórnmálamenn litu á 2°C hlýnun sem metnaðarfullt markmið en sættu sig svo bak við tjöldin við 3°C hlýnun. Rahmsdorf bendir líka á það að þótt hlýnunin héldi sig innan 2°C marksins gæti það hæglega leitt til alvarlegra breytinga á lífríki jarðar eins og sjáist glögglega af þeim áhrifum sem 0,7°C aukning hefur þegar valdið: „Af þessum sökum tel ég 2°C hlýnunina ekki örugga. Í morgun dró John Schellnhuber þetta fram með því að spyrja hvort „rússnesk rúlletta væri ekki hættuleg?“ Í rússneskri rúllettu eru líkurnar á því að eitthvað hræðilegt gerist einn á móti sex. Ef við förum upp í 2°C eru líkurnar á mjög alvarlegum afleiðingum líklega meiri.“ [4]

Fræðilegar forsendur 2°C marksins hafa víða verið gagnrýndar. Slíkt gerði t.d. landfræðingurinn og umhverfissérfræðingurinn Joni Seager í fyrirlestri sem hún flutti um femínisma og loftslagsbreytingar, en þar benti hún á að 2°C mörkin hafi nánast verið dregin upp úr hatti, enginn geti gefið ásættanlega skýringu á því hvers vegna þessi mörk voru valin fremur en önnur. Seager færir fyrir því sannfærandi rök að hagfræðilegar fremur en vísindalegar ástæður liggi þar að baki. [5] Að sama skapi gagnrýnir loftslagsvísindamaðurinn heimsþekkti James Hansen harðlega 450 ppm losunarviðmiðið sem hefur um nokkurt skeið verið hin ,metnaðarfulla‘ forsenda alþjóðlegra samningaviðræðna, en Hansensegir nauðsynlegt að ná losuninni aftur niður fyrir 350 ppm markið eigi að vera hægt að forða lífríki jarðar frá alvarlegum afleiðingum loftslagsbreytinga. Í september 2011 var magn koltvísýrings í andrúmsloftinu tæplega 40 einingum yfir þessu marki eða í 389 einingum á milljón. [6]

Áhyggjur Rahmsdorfs eru skiljanlegar. Um það virðist vera almenn sátt meðal vestrænna stefnumótenda að óraunhæft sé að miða við að heildarlosun koltvísýrings haldist innan 450 ppm markanna, þótt slíkt sé nauðsynlegt eigi hlýnunin ekki að fara yfir 2°C. Siðfræðingurinn Clive Hamilton telur að stefnumótendur hafi í raun sæst á þetta svo snemma sem árið 2005. David King, ráðgjafi breskra stjórnvalda, lýsti því yfir í september 2005 að 450 ppm markið væri „pólitískt óraunhæft“. Sama skoðun var sett fram af hagfræðingnum Nicholas Stern sem árið 2006 skrifaði í frægri skýrslu sinni að alþjóðasamfélagið ætti fremur að horfa til 550 ppm sem efri marka. Eins og Hamilton hefur réttilega bent á er nú þegar svo stutt í 450 ppm mörkin að hagsmunaaðilar og kjósendur munu aldrei taka í mál að gangast inn á þær ströngu aðhaldsaðgerðir sem óhjákvæmlega felast í 450 ppm viðmiðinu. [7] Því er nánast útséð um að hægt verði að stemma stigu við hlýnuninni nálægt þeim mörkum jafnvel þótt þau geti engan veginn talist vistfræðilega ásættanleg. Sé ekki farið í róttækar aðgerðir á allra næstu árum verður sífellt erfiðara að snúa af þeirri braut sem þegar hefur verið mörkuð með aðgerðaleysi ráðamanna og almennings.

Loftslagsumræðan er gríðarlega flókin. Þar er í einni bendu ólíkur hugsunarháttur og tjáningarmáti vísinda, stjórnmála og markaðar. Afleiðingin er sú að skilaboðin til almennings verða afskaplega misvísandi. Hér er að finna eina skýringuna á því hvers vegna vísindasamfélaginu hefur gengið svo illa að koma vandanum til skila. Lítið hefur miðað í rétta átt á síðasta áratug og sums staðar beinlínis orðið afturför. Svo dæmi sé tekið hefur þeim Bandaríkjamönnum sem trúa fréttum af hlýnun jarðar fækkað á undanförnum fimm árum, en þeir voru 79% árið 2006 en aðeins 59% á síðasta ári. [8] Ekki bætir úr skák að valdamiklum hagsmunaöflum í viðskiptalífinu er mikið í mun að koma í veg fyrir að farið verði út í aðgerðir sem ógnað geti stöðu þeirra, t.d. á orkumörkuðum heimsins. Umtalsverðum fjármunum hefur verið varið í að draga vísindalegar niðurstöður í efa og eru slíkar aðgerðir dyggilega studdar af einstaklingum yst á hægri kanti stjórnmálanna sem berjast gegn hvers kyns takmarkandi stjórnvaldsaðgerðum á sviði loftslagsmála, þar sem þær myndu líklega leiða til aukinna ríkisafskipta. [9] Almenningur á líka afskaplega erfitt með að gera sér í hugarlund umhverfisvanda sem smám saman safnast upp og hefur fyrst sýnilegar afleiðingar löngu eftir að lífríkinu hefur verið stofnað í hættu með aðgerða- og fyrirhyggjuleysi. Áhættumat samfélaga byggist ekki alltaf á röklegum forsendum eins og ítrekað hefur verið sýnt fram á. [10]

Síðast en ekki síst má ekki gera of lítið úr stundarhagsmunum sem ýta iðulega langtímasjónarmiðum úr vegi. Í samfélagi þar sem orkusóun er til marks um auð og velgengni getur verið erfitt fyrir almenning að horfast í augu við sérhverjar þær kringumstæður sem ógnað geta neyslunni. Í slíku umhverfi vekja kröfur um hófsemi upp tilfinningu um vanefni, en eins og ég hef áður bent á fylgja alls kyns áfellisdómar hugmyndum um niðurskurð eða ,fátæktarbrag‘ í kapítalískum ríkjum. [11]

Neysla sem trúarleg innræting

Vandinn snýst ekki síst um það að hagvaxtarkrafan og neysluhyggjan hafa nánast trúarlegar skírskotanir í huga Vesturlandabúa eftir aldalanga innrætingu. Kristindómurinn hafði mikil áhrif á hugmyndir Adams Smith og kenningar um frjálsa verslun, en hún átti að vera samræmanleg vilja Guðs. [12] Þó að iðulega sé reynt að fela þennan trúarlega þátt, eðaklæða hann í röklegan búning, birtist hann stundum ómengaður eins og sannaðist nýverið hér á landi þegar bók Jays W. Richards, Peningar, græðgi og Guð var gefin út, en þýðingin var kostuð af hópi íslenskra íhalds- og frjálshyggjumanna fyrir tilstilli Skafta Harðarsonar. [13] Í bók sinni setur Richards fram þá skoðun að uppspretta efnislegs auðs sé andleg; auður verði til „með því að veita sköpunarkrafti okkar frelsi til að blómstra innan ramma frjáls markaðar sem byggður er á grunni laga og sterku siðferði“. [14] Af þessum sökum þrjóti hráefni aldrei. Nýjar náttúrulegar auðlindir finnist alltaf vegna þess að tækninni við að ná til þeirra fleygi fram og það sem er mikilvægara: nýir orkugjafar komi í stað gamalla þegar nauðsyn krefji. Þannig hafi hvalaolíu verið skipt út fyrir steinolíu og þaðan farið yfir í jarðolíu, rétt eins og kolanotkun stöðvaði skógareyðingu á Bretlandi á nítjándu öld. Nánast sé útilokað að spá um hvað leysi olíuna af hólmi en Richards efast ekki um að nýir orkugjafar taki smám saman við af gömlum á nýrri öld. [15] „Maðurinn, ekki efnið, er hin sanna auðlind“, segir hann: hann hafi getu til þess að „umbreyta auðlindum og skapa nýjar“. [16]

Það er í þessu samhengi sem tilsvör Ari Fleischer á fréttamannafundi í maí 2001 í Hvíta húsinu verða einvörðungu skilin, en hann lýsti yfir nánast helgum rétti Bandaríkjamanna til þess að nýta auðlindir jarðar án nokkurra ytri takmarkana, annarra en þeirra sem markaðurinn setur. [17] Fleischer, sem var á þessum tíma fréttafulltrúi George W. Bush Bandaríkjaforseta, var spurður á blaðamannafundi um það orkubruðl sem einkenndi bandarískan lífsstíl og hvort ekki væri brýnt fyrir Bandaríkjamenn að breyta hegðun sinni í ljósi þess að hvergi á byggðu bóli væri sóað meiru hlutfallslega en þar í landi. Svar Fleischers gat vart verið skýrara: „Það kemur ekki til greina. Forsetinn lítur svo á að þetta snúist um amerískan lífsstíl og að það eigi að vera markmið stjórnvalda að vernda ameríska lífsstílinn. Ameríski lífstíllinn nýtur blessunar. Við höfum líka nóg af auðlindum í þessu landi“. [18]

Í merkingarkerfi Fleischers og Richards eru allsnægtir „merki um velþóknun Guðs“ og jafnvel „forboðar gæðanna sem við munum njóta í Guðs ríki, landinu sem „flýtur í mjólk og hunangi“, þar sem við munum að líkindum aldrei þurfa að hafa áhyggjur af því að lifa af“. [19] Markaðurinn er kraftbirting guðdómsins í veröldinni. Richards segir:

Adam Smith, hinn mikli hugsuður átjándu aldar, leit á þetta sem hina „ósýnilegu hönd“ markaðarins sem lyfti takmörkuðum manninum á æðra stig, eins og í birtingarmynd af gæsku Guðs og forsjá hans fyrir mannkyninu, vegna þess að hún skapaði meiri og samstilltari reglu en við hefðum mátt vænta. [20]

Dulmagn markaðarins felst í því að hann virkar og það þrátt fyrir að enginn „mannlegur máttur [geti] skipulagt efnahagskerfi“. Richards telur að kristnir menn ættu að greina markaðinn „sem leið Guðs til að stjórna með forsjá sinni athöfnum milljarða frjálsra manna í syndugum heimi“. [21] Í markaðnum sjáum við hönd Guðs, rétt eins og í sólarupprásinni, fjalllendi, lögmálum eðlisfræðinnar og svipmyndum af jörðinni utan úr geimnum.

Breski heimspekingurinn John Gray rekur hvernig síðari tíma hagfræðingar reyndu með takmörkuðum árangri að afneita trúarlegum uppruna hagfræðikenninga Adams Smith. Segir Gray það hafa leitt til kreddufastari túlkunar á pólitísku hagkerfi skoska heimspekingsins, en trúarlegar kenningar um frjálsan markað verði sérlega viðsjárverðar eftir að trúarlegum rótum þeirra hefur verið hafnað. Hin trúfræðilega staðleysa víki fyrir annarri sem færð hefur verið í röklegan búning. [22]

Burtséð frá því hvort horft er til trúfræðilegra skýringa eða ekki er sjálf hagvaxtarhugmyndin sem kapítalískt hagkerfi hverfist um nánast hafin yfir gagnrýni. Rétttrúnaðurinn er slíkur að allir þeir sem vilja svo mikið sem draga lögmálið í efa dæma sig úr leik í pólitískri umræðu og skiptir þá litlu hvort menn kenna sig við vinstristefnu eða hægri.

Stoppum þessa sturluðu stefnu!

Hvað eru raunhæf pólitísk markmið? Í samfélögum þar sem orkusóun er sjálfgefinn réttur þegnanna og hagvöxtur eina ásættanlega viðmiðið eru allar stjórnvaldsaðgerðir pólitískt óraunhæfar sem í alvöru miða að róttækri takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Orsökin er einföld. Nánast er útilokað að fyrirbyggjandi aðgerðir gegn loftslagsbreytingum leiði ekki til efnahagssamdráttar, jafnvel þó að í þeim felist forsendurnar fyrir tækifærum framtíðarkynslóða. Almenningur á Vesturlöndum vill að stjórnmálamenn setji sér ýmiskonar háleit markmið í umhverfisvernd, en slíkar stjórnvaldsákvarðanir mega þó ekki skerða eftirsóknarverðan lífsstílinn sem kjósendur hafa vanist. Þetta vita stjórnmálamennirnir og tala því gjarnan fjálglega en framkvæma lítið. Engin hætta er síðan á því að almenningur mótmæli þegar markmiðunum er ekki náð. Fólk fylkir sér ekki undir merki efnahagssamdráttar og ,meinlæta’. [23]

Pólitískir hagsmunir og ábyrg stefna á sviði loftslagsmála fara því illa saman. Líklega hafa þessi sannindi aldrei komið skýrar fram en í aðdraganda Alþingiskosninganna í apríl 2009. Aðeins þremur dögum fyrir kosningarnar birtust fréttir af því í flestum íslenskum fjölmiðlum að vinstri grænir legðust gegn olíuleit á Drekasvæðinu, en þá biðu margir Íslendingar þess í ofvæni að sjá hvaða olíufélög myndu hugsanlega hefja olíuvinnslu í íslenskri lögsögu á næstu árum. Kvöldið 22. apríl 2009 var sagt frá því í fréttum Stöðvar 2 að Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra hefði kallað Drekaútboðið „óðagotsaðgerð“ í ljósi þess að „olíuvinnsla samrýmist hvorki stefnu um sjálfbæra nýtingu orkulinda né skuldbindingum Íslands á alþjóðavettvangi“. [24] Innan við klukkutími leið frá því að ummæli umhverfisráðherra fóru í loftið þar til komin var yfirlýsing frá þingflokki vinstri grænna þar sem var áréttað að flokkurinn hefði „ekki lagst gegn olíuleit á Drekasvæðinu“. Sama kvöld lýsti Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra því yfir í umræðuþætti á Stöð 2 að enginn ágreiningur væri um olíuleitina í ríkisstjórninni. [25]

En skaðinn var skeður. Aðeins nokkrum mínútum eftir frétt Stöðvar 2 hafði Morgunblaðið vitnað í hana á vef sínum: „Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, sagði í fréttum Stöðvar 2, að Vinstrihreyfingin grænt framboð leggðist [svo] gegn olíuleit á Drekasvæðinu svonefnda enda sé olíuvinnsla í andstöðu við stefnu flokksins.“ [26]

Frétt Morgunblaðsins skapaði talsvert fár í bloggheimum, en alls birtust 18 blogg um fréttina og voru flestir höfundanna afar gagnrýnir á Kolbrúnu. Í þeim anda sagði Haukur Nikulásson: „Ég kýs ekki flokk sem vinnur svo stórkostlega gegn þjóðarhag að vilja ekki olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Það er mér óhugsandi. Hvers konar hálfvitaútspil er þetta hjá Kollu svona rétt fyrir kosningarnar?“ Í athugasemdakerfinu er almennt tekið undir vandlætingarsjónarmið Hauks, en Haukur er minntur á að ekki hugsi allir vinstri grænir á þennan hátt. Sóley Björk Stefánsdóttir segir nýju andlitin „mun sveigjanlegri og ekki jafn „fasísk“ og Kolbrún Halldórs“ og Þór Jóhannesson hvetur menn til þess að hafa ekki „áhyggjur af bulludollunni hún hefur ekkert fyrir sér og sameinumst um að strika hana út“. Ólafur B. Ólafsson segir yfirlýsingu Kolbrúnar vera stærsta fíflaskapinn „korter í kostningar“ [svo] á meðan Gunnar Th. Gunnarsson segir „Þetta fáið þið!“ við pólitíska andstæðinga sína. „Á að fara aftur í fjallagrasafarið?“ spyr Guðmundur Ragnar Björnsson og segir fólk finnast í vinstri grænum sem ekki hafi „neitt jarðsamband“. Björn Indriðason segir flokkinn „[á] móti öllu!“ og „Framtíðarsýn VG [vera] sem sagt að við dönsum úti á túni skít blönk [svo] með blóm í hárinu“. Jóhann Elíasson spyr hvort „fólk í Norðausturkjördæmi [ætli] virkilega að kjósa þetta yfir sig?“, á meðan Jens Sigurðsson segir Kolbrúnu Halldórsdóttur vera veruleikafirrta og einhvern hinn mesta kjána „sem hefur tekið sæti á hinu há [svo] Alþingi“. Rósa Aðalsteinsdóttir tekur undir orð Jens í athugasemdum við færslu hans og segir Íslendinga hafa „leyfi frá almættinu að nýta náttúruna“. [27] Þeir örfáu sem taka upp hanskann fyrir þingkonuna eru umsvifalaust kveðnir í kútinn. Magnús Bergsson, sem bloggar á vefnum Náttúra og hrósar Kolbrúnu fyrir skynsemina, er hvattur til að „hugsa aðeins út fyrir húsvegginn hjá [sér]“ og Kristinn Svanur Jónsson segir „þetta nákvæmlega lýsandi fyrir þá öfgastefnu sem er innan raða vinstri grænna. Drepa atvinnulífið, drepa vonina, drepa metnað fólks til að standa sig og fæla alla skynsama Íslendinga af landinu“. Hann hvetur fólk til þess að stoppa „þessa sturluðu stefnu, kjósum EKKI vinstri græna!“ [28]

Í fréttaskýringu sem birtist á vefritinu vinstrisinnaða Smugunni um málið nokkrum dögum eftir kosningar kallar blaðamaðurinn Elías Jón Guðjónsson málið „Storm í olíutunnu“. [29] Áhugavert er hvernig Elías, sem er fyrrverandi varaformaður ungliðahreyfingar vinstri grænna, víkur sér undan því að taka á meginforsendunum fyrir því að ekki eigi að fara í olíuleit á Drekasvæðinu, þótt hann vísi vissulega til hugmynda um sjálfbærni. Hann leggur fremur áherslu á ýmsa óvissuþætti sem tengjast olíuvinnslu á svæðinu, t.d. það hvort olíu sé þar yfirhöfuð að finna og hvort hægt sé að ná til hennar. Olíuvinnsla verði því ekki „stærsta viðfangsefni íslenskra stjórnmála á næstu árum“.

Svo vandræðaleg var yfirlýsing Kolbrúnar fyrir flokkinn að Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, átti í mesta basli með að snúa sig út úr málinu. Kristján Már Unnarsson fréttamaður Stöðvar 2 þurfti að „ítreka spurningu sex sinnum áður en svar fékkst við því hvort flokkurinn styddi olíuvinnslu á svæðinu og hvort hún samrýmdist hugmyndafræði flokksins.“ Steingrímur var að lokum þvingaður til þess að lýsa því yfir að „eftir því sem verður unnin olía í heiminum, eftir 15–25 ár, þegar mögulega á þetta reynir á Drekasvæðinu, þá útiloki okkar umhverfisstefna ekki það að Ísland verði aðili að olíuvinnslu, frekar en önnur lönd“. [30]

Þessum vandræðagangi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs gerir Gísli Marteinn Baldursson góð skil í bloggfærslu um málið þar sem hann dregur fram mótsagnirnar í viðbrögðum flokkssystkina Kolbrúnar. Eins og Gísli Marteinn bendir réttilega á er ekki hægt að mæla frekari olíuvinnslu og olíuleit bót á sama tíma og varað er við alvarlegum loftslagsbreytingum:

Með öðrum orðum, þeir sem raunverulega telja að jörðin sé að hlýna vegna brennslu olíu, setja sig í mjög einkennilega stöðu með því að berjast fyrir því að Ísland bori eftir meiri olíu til að brenna, og hiti jörðina því enn meira. [31]

Gísla Marteini lætur vel að ræða hræsni íslenskra græningja, en um skeytingarleysi eigin flokkssystkina um þessi mál fer hann ekki mörgum orðum. Ekki lætur hann því heldur svarað hvort hann sjálfur styðji olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Gísli Marteinn, sem er einn af fáum fulltrúum umhverfisverndar á hægri armi íslenskra stjórnmála, veit líklega jafn vel og Steingrímur J. Sigfússon hversu varhugaverðar slíkar yfirlýsingar kunna að reynast ætli menn sér frama í pólitík.

Yfirlýsing Kolbrúnar Halldórsdóttur var byggð á traustum vísindalegum forsendum. Þó kostaði yfirlýsingin hana að öllum líkindum þingsætið þremur dögum seinna. Í ljós kom að enginn þingmaður í Reykjavíkurkjördæmi suður hlaut eins margar útstrikanir og hún. Tæplega fjórðungur kjósenda VG strikaði yfir nafn hennar eða færði niður á atkvæðaseðlinum, eða alls 1.990. [32] Jafnframt var stofnuð Facebook-síða gegn þingkonunni fyrrverandi eftir kosningarnar undir yfirskriftinni: „Nálgunarbann á Kolbrúnu Halldórsdóttur“ og skráðu 305 félagar sig í hópinn. Þar segir:

Í kosningunum 2009 átti sá gleðilegi atburður sér stað að Kolbrún Halldórsdóttir féll af þingi.

Til að hindra það að nokkurntíman [svo] aftur í sögu lýðveldisins Íslands komist hún aftur á þing skorum við á forseta Alþingis að fá á hana sett nálgunarbann svo hún geti ekki komið nær þinghúsinu en 100 metra.

Hér er um hagsmunamál þjóðarinnar allrar að ræða! [33]

Sú staðreynd að kjósendur eindregnasta umhverfisverndarflokks Íslands skyldu refsa þingmanni sínum með svo afgerandi hætti sýnir glögglega hversu vonlaust það er fyrir stjórnmálamann að fylgja eftir ábyrgri stefnuskrá á sviði loftslagsmála. Þetta er öruggasta leiðin til þess að tapa kosningum eins og Steingrímur J. Sigfússon vissi fullvel þegar hann færðist fimm sinnum undan að svara því hvort flokkurinn styddi olíuvinnslu á Drekasvæðinu.

Viðbrögð íslenskra kjósenda sýna einnig hversu flóknir allir pólitískir samningar um losunarheimildir eiga eftir að reynast. Stjórnmálamenn sem ætla sér að bregðast við vandanum á ábyrgan hátt munu að öllum líkindum ekki hafa nauðsynlegt bakland til þess að hrinda slíkum ákvörðunum í framkvæmd. Ef vinstrisinnaðir kjósendur í velmegunarsamfélagi bregðast á ofangreindan hátt við yfirlýsingu um að þeir verði sviptir óvissum framtíðargróða ætti að vera ljóst að ekkert verður gert í samfélögum sem nú þegar eiga beinna hagsmuna að gæta í vinnslu jarðefnaeldsneytis og þar sem efnahagurinn reiðir sig beinlínis á slíkan iðnað. Íslenska dæmið sýnir að líklega er óvinnandi vegur að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda nógu fljótt til þess að forða jörðinni frá alvarlegum veðurfarsbreytingum.

Hversu mörg ppm þarf til að vekja sofandi dreka?

Hversu óraunhæft er 450 ppm markið? Góð leið til þess að átta sig á því er að kynna sér grein Kevins Anderson og Alice Bows, „Reframing the climate change challenge in light of post-2000 emission trends“, en siðfræðingurinn Clive Hamilton hefur kallað hana mikilvægasta texta sem hann hafi lesið um loftslagsmál. Hvergi sé jafn skýrt dreginn fram vandinn sem mannkyn standi frammi fyrir í glímunni við loftslagsvána. [34] Því er jafnframt erfitt að neita eftir lestur greinarinnar að pólitísku viðmiðin sem ráða ferðinni eru ekki byggð á vísindalegum forsendum og það þrátt fyrir að stjórnmálamönnum þyki þau of metnaðarfull til þess að um þau náist nokkur sátt. Í grein sinni skoða Anderson og Bows þær forsendur sem lágu fyrir á loftslagsráðstefnunni á Bali 2007, en nú hafa þau uppfært rannsókn sína í ljósi umræðna á Kaupmannahafnarfundinum 2009. [35]

Í greininni frá 2008 velta Anderson og Bows fyrir sér því heildarmagni gróðurhúsalofttegunda sem losað verði í andrúmsloftið á næstu áratugum og flokka losunina eftir þremur meginþáttum: 1) Losun tengd brennslu jarðefnaeldsneytis í almennri neyslu og iðnaði; 2) losun tengd eyðingu skóglendis; og 3) losun annarra gróðurhúsalofttegunda en koltvísýrings, aðallega metans og níturoxíðs, en þessi losun tengist fyrst og fremst landbúnaði. Eins og komið hefur fram er tiltölulega auðvelt að reikna út hvaða áhrif aukning koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda hefur á meðalhitastig jarðar. Í stuttu máli sagt gáfu Anderson og Bows sér að verulega yrði dregið úr losun sem tengist eyðingu skóglendis og landbúnaði á næstu áratugum og að heildarmagnið sem losnaði út í andrúmsloftið á þessari öld samsvaraði 1100 milljörðum tonna af koltvísýringi (þegar búið er að umreikna í CO2). [36] Hér var komið afskaplega jákvætt spáferlisviðmið sem hægt var að nota til þess að reikna út hver samdrátturinn í brennslu jarðefnaeldsneytis yrði að vera með hliðsjón af því hvenær losunarhámarki (e. emission peak) yrði náð og því hversu hratt yrði dregið úr losuninni þar á eftir. Anderson og Bows gerðu ráð fyrir losunarhámarkinu 2020. Frá þeim tíma yrði dregið úr losun að meðaltali um 3% á ári og iðnvæddu samfélögin tækju á sig 6–7% niðurskurð. Slíkan niðurskurð yrði aldrei hægt að skilgreina öðruvísi en sem neyðarákvörðun en til samanburðar má geta þess að eftir hrun Sovétríkjanna dró úr losun gróðurhúsalofttegunda í ríkjasamsteypunni fyrrverandi um 5,2% á ári í heilan áratug en samdráttinn mátti rekja til þeirrar djúpstæðu kreppu sem einkenndi efnahaginn allan tíunda áratug síðustu aldar. Þetta spáferli rætist aðeins ef heildarviðbótarlosun er haldið innan 3000 milljarða tonna á öldinni sem nú er nýhafin.

Það er fátt sem gefur tilefni til að ætla að alþjóðasamfélagið grípi til jafn róttækra aðgerða og spáferli Andersons og Bows gengur út frá. Hver vill demba efnahagnum í gegnum jafn djúpstæðar þrengingar og almenningur í ,nýfrjálsum‘ löndum Sovétríkjanna mátti þola? En hver yrði árangurinn af svo róttækum aðgerðum? Myndu þær duga til þess að snúa þróuninni við og halda hlýnuninni innan 2°C markanna, undir 450 ppm? Clive Hamilton segir réttilega að útreikningar Andersons og Bows gefi ekki tilefni til bjartsýni. [37] Niðurstaðan af ofangreindu spáferli sem virtist svo ,jákvætt‘ við fyrstu sýn er ekki 450 ppm eða jafnvel 550 ppm, heldur 650 ppm, eða hlýnun um 4°C við lok aldarinnar. [38] Slík hlýnun er langt fyrir ofan ýmsa náttúrulega hvarfpunkta (e. tipping points) og hefði því keðjuverkandi áhrif sem orsakaði enn frekari hlýnun með svo alvarlegum afleiðingum fyrir lífríki jarðar að erfitt er að gera sér þær í hugarlund. [39]

Grein Andersons og Bows frá þessu ári er í samræmi við þá fyrri. Lítill vilji er meðal stjórnmálamanna til að endurskoða viðmiðin og vísindasamfélagið hefur í raun brugðist. [40] Þau ítreka að senn sé nánast útilokað að halda sig innan 2°C markanna og að þau séu langt í frá þau ákjósanlegu viðmiðunarmörk sem menn vilji vera láta – ekki hættuleg heldur stórhættuleg. [41] Tilgangurinn með rannsókn þeirra sé samt sem áður ekki sá að hvetja til uppgjafar heldur fremur að vekja menn til umhugsunar um hversu fáránleg viðmiðin og stefnumörkunin hafi fram að þessu verið. Kominn sé tími til að horfast í augu við raunveruleikann og bregðast við vandanum með ábyrgum hætti. [42]

„Stoppum þessa sturluðu stefnu“ brýndi einn af andstæðingum Kolbrúnar Halldórsdóttur fyrir samlöndum sínum í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga. Sá kýs væntanlega að taka ekkert mark á öllum þeim losunarspáferlum sem nú birtast í virtum vísindatímaritum um allan heim og draga upp mjög myrka framtíðarsýn ef svo fer fram sem horfir. Eða kannski hefur hann einfaldlega ekki kynnt sér niðurstöðurnar fremur en aðrir þeir sem ráku upp ramakvein eftir yfirlýsingu umhverfisráðherra.

Frammi fyrir gögnunum er líklega aðeins tvennt í stöðunni ætli menn að halda áfram á sömu háskabrautinni. Vera hræsnari sem segir eitt og gerir annað. Tala fjálglega um hættur loftslagsbreytinga en breyta svo nákvæmlega eins og afneitararnir, allir þeir sem hafna því að bera nokkra ábyrgð á veðurfarsbreytingunum eða taka ekki mark á niðurstöðum þúsunda loftslagsrannsókna. Jay W. Richards er einmitt einn af afneiturunum, en hann velur að vefengja niðurstöður vísindasamfélagsins með alls kyns óígrunduðum rökum. [43] Hann veit að guðleg forsjárkenning hans fellur um sjálfa sig ef óheft notkun eins orkugjafa hefur svo hrikalegar afleiðingar að framtíðarlausnirnar mega sín lítils andspænis framtíðarvandanum. Hann velur því leið afneitarans og hafnar alvarleika loftslagsbreytinga eftir gamalkunnum leiðum sem allar er búið að hrekja ótal sinnum af sérfræðingum á sviðinu. [44]

Hvar liggja endimörk græðginnar?

Annar og merkilegri trúarheimspekingur en Jay W. Richards var rússneski rithöfundurinn Leo Tolstoj. Hann fjallaði víða um sérkennilegar þversagnir græðginnar en líklega hvergi á eins eftirminnilegan hátt og í smásögunni um bóndann Pákhom sem er aldrei ánægður með hlutskipti sitt og vill alltaf meira ræktarland fyrir sig og sína. Þörf Pákoms fyrir meira pláss leiðir hann sífellt lengra frá upphaflegum heimkynnum sínum. Fyrst heldur hann til Neðri-Volgu þar sem hann eignast strax „þrisvar sinnum eins stórt land og áður“ og „getur eftir því haft margfalt betri afkomu“. [45]Þar unir hann þó ekki lengi. Brátt fer að þrengja að honum og hann kemst að því að í landi Basjkirarana sé hægt að fá mikil landflæmi fyrir tíunda hlutann af því sem jarðir kosta í Neðri-Volgu. Basjkirarnir bjóða Pákhom allt það land sem hann geti gengið umhverfis á einum degi fyrir aðeins eitt þúsund rúblur og Pákhom hugsar sér gott til glóðarinnar. Kaupunum fylgir aðeins eitt skilyrði. Pákom verður að vera kominn aftur á upphafsstaðinn fyrir sólsetur. Lesendur sem þekkja til frásagnarlistar Tolstojs fara nærri um örlög rússneska bóndans. Pákom leggur af stað í gönguna rétt fyrir sólarupprás en græðgin leiðir hann alltaf lengra: „Hann skokkaði ennþá nokkurn spöl beint áfram og sneri sér svo við: Hæðin var nú varla sjáanleg, Basjkirarnir sýndust eins og maurflugur, og á vagnhjólin blikaði naumast nú orðið“. [46] Vitanlega ætlar hann sér um of. Þegar loks rennur upp fyrir honum að hann nái vart að snúa aftur fyrir sólarlag tekur hann á sprett og sprengir sig á hlaupunum. Rétt áður en sólin sest snýr Pákom aftur á hæðina þar sem Basjkirarnir bíða hans og hnígur örendur til jarðar:

Húskarl Pákoms flýtir sér að til þess að hjálpa húsbónda sínum á fæturna. Pákom liggur þarna með blóð fyrir vitunum – dauður.

Svo tók húskarlinn hakann, gróf gröf, nákvæmlega jafnlanga líkama Pákoms – þriggja álna langa, hvorki meira né minna – og jarðaði húsbónda sinn. [47]

Dæmisögu Tolstojs er auðvelt að heimfæra upp á veruleika alþjóðlegra loftslagssáttmála og sinnuleysi almennings. Við sannfærum sjálf okkur um að enn sé tími til stefnu, að enn sé hægt að snúa aftur á upphafsstaðinn þótt við höldum aðeins lengra. Allt verður að lokum í lagi og á meðan ekkert er gert eignumst við enn meira land. Þó verður með hverju árinu sem líður enn erfiðara að ná aftur á hæðina okkar í tíma. Fæst þeirra sem lögðu í gönguna um sólarupprás hafa þó enn svo mikið sem litið um öxl. Þau vilja púla aðeins lengur, hamast aðeins meira, ganga aðeins nær sjálfum sér. Aðeins þannig verður raunverulega reynt á mörkin. Aðeins þannig köstum við ekki því lífi á glæ sem lifa verður til fulls.

Hér er þó einn munur á. Pákom galt fyrir græðgi sína með lífinu. Gröfin sem við gröfum er handa afkomendum okkar.

Tilvísanir

Grein þessi er liður í rannsóknaklasa EDDU – öndvegisseturs í gagnrýnum samtímarannsóknum við Háskóla Íslands.

 1. Sjá „24 þúsund milljarða olíufundur“, mbl.is, 30. september 2011: http://www.mbl.is/vidskipti/ frettir/2011/09/30/24_thusund_milljarda_oliufundur/ [sótt 30. september 2011].
 2. Ásdís Sigurðardóttir: „Eigum við leynda sjóði á hafsbotni?“, 30. september 2011. Sjá einnig athugasemd Axels Jóhanns Hallgrímssonar við bloggfærslu Ásdísar: http://asdisomar.blog.is/blog/asdisomar/entry/1194790/ [sótt 30. september 2011].
 3. Einar Sveinbjörnsson: „Siðferðisleg þversögn í loftslagsmálum“, 10. október 2011: http://esv. blog.is/blog/esv/entry/1196974/ [sótt 11. október 2011].
 4. „Transcription of closing plenary. IARU Climate Congress, Copenhagen, Denmark 12 March,2009“. Fundargerð ritaði Paul Baer: http://sites.google.com/site/mtobis/copenhagenclosingplenary [sótt 19. október 2011]. Rahmsdorf segir: „I’m well aware that scientists and politicians and the general public often use language in a different way, there’s a lot of communication problems sometimes arising from that, and I want to just express a concern that I have that when politicians talk about the ambition of two degrees as you did, that that’s considered an ambition, and in the end, if all goes reasonably well, we actually end up with three degrees of warming. Whereas I think, I want to emphasize that when as scientists we talk about those two degrees, that really is a kind of upper limit that we really should not cross. I personally as a climate scientists, I could not honestly go and tell the public that two degrees warming is safe. We’re already seeing a lot of impacts of the 0.7 degrees warming that we’ve had so far. So I consider two degrees not safe, and John Schellnhuber this morning asked about the question „Is Russian Roulette dangerous?“ and in RR you have a one in six chance of something terrible happening, I think that when we go to two degrees we probably have more than a one in six chance of really bad impacts occurring.“
 5. Joni Seager: „Feminism and Climate Change“, The Scholar & Feminist Conference, 27. febrúar 2010. Seager er auk þess mjög gagnrýnin á hagfræðilegar réttlætingar. Þeim sé fyrst og fremst ætlað að mismuna þjóðum heims. Vesturlönd móti sér stefnu sem sé ætlað að takmarka tjónið heima fyrir, án tillits til þess hvaða afleiðingar stefnumörkunin hafi víða í þriðja heiminum.
  Fyrirlesturinn má finna í heild sinni á netinu: http://vimeo.com/10189134 [sótt 19. október 2011]. Seager flutti fyrirlestur á Íslandi um sama efni 5. nóvember 2011 á vegum RIKK (Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands), en hún var einn af heiðursfyrirlesurum á 20 ára alþjóðlegri afmælisráðstefnu rannsóknastofunnar. Joni Seager: „Death by Degrees: Making Feminist Sense of the 2° Climate Change Target“: https://rikk.hi.is/?p=1448 [sótt 23. október 2011, staðfest 6. nóvember 2011].
 6. Um þróun magns koltvísýrings í andrúmsloftinu má t.d. lesa hér: http://co2now.org/ [sótt 23. október 2011]. Sjá einnig James Hansen o.fl.: „Target Atmospheric CO2: Where Should Humanity Aim?“, The Open Atmospheric Science Journal 2008, 2. hefti, bls. 217–231: http://arxiv.org/abs/0804.1126 [sótt 25. október 2011]. Hansen dregur helstu rökin einnig saman í 8. kafla bókar sinnar, Storms of My Grandchildren: The Truth About the Coming Climate Catastrophe and Our Last Chance to Save Humanity. New York, Berlin og London: Bloomsbury 2009, bls. 140–171.
 7. Clive Hamilton: Requiem for a Species: Why We Resist the Truth About Climate Change, bls. 26–27.
 8. Sjá m.a. grein í The New York Times eftir Elizabeth Rosenthal frá 15. október 2011, „Where Did Global Warming Go?“: http://www.nytimes.com/2011/10/16/sunday-review/whateverhappened-to-global-warming.html [sótt 19. október 2011].
 9. Ég hef m.a. rætt þetta í grein minni „Efahyggja og afneitun: Ábyrg loftslagsumræða í fjölmiðlafári samtímans“, Ritið 2/2008, bls. 77–114, hér bls. 93–94.
 10. Mikið hefur verið skrifað um áhættumat út frá menningarlegum, viðtökufræðilegum og hugrænum forsendum. Hér má nefna frægt rit Mary Douglas og Aarons Wildavsky: Risk and Culture. Berkeley, Los Angeles og London: University of California Press 1983. Einnig má nefna Richard A. Posner: Catastrophe: Risk and Response. Oxford: Oxford University Press 2004; og
  Eliezer Yudkowsky: „Cognitive biases potentially affecting judgement of global risks“, Global Catastrophic Risks, ritstj. Nick Bostrom og Milan M. Cirkovic. Oxford: Oxford University Press
  2008, bls. 85–105.
 11. Guðni Elísson: „Dómsdagsklukkan tifar. Upplýsing og afneitun í umræðu um loftslagsbreytingar“, Ritið 1/2011, bls. 91–136, hér bls. 92–93.
 12. Sjá t.d. Guðni Elísson: „Þegar vissan ein er eftir: Um staðlausa stafi og boðunarfrjálshyggju“, TMM 2010, 4. hefti, bls. 17–25, sérstaklega bls. 20–22.
 13. Jay W. Richards: Peningar, græðgi og Guð, þýð. Elín Guðmundsdóttir. Reykjavík: Bókafélagið Ugla ehf. 2011.
 14. Jay W. Richards: Peningar, græðgi og Guð, bls. 17.
 15. Jay W. Richards: Peningar, græðgi og Guð, bls. 241–248.
 16. Jay W. Richards: Peningar, græðgi og Guð, bls. 264.
 17. Um svör Fleischers er víða fjallað í bókum um loftslagshlýnun, sjá t.d. Clive Hamilton: Requiem for a Species: Why We Resist the Truth About Climate Change, bls. 34; og Peter Singer: „Climate Change as an Ethical Issue“, Climate Change and Social Justice, ritstj. Jeremy Moss. Melbourne University Press: Carlton, Victoria 2009, bls. 46–47.
 18. „Press Briefing by Ari Fleischer“, 7. maí 2001: http://georgewbush-whitehouse.archives.gov/ news/briefings/20010507.htm [sótt 16. október 2011]. „That’s a big no. The President believes
  that it’s an American way of life, and that it should be the goal of policy makers to protect the American way of life. The American way of life is a blessed one. And we have a bounty of
  resources in this country.“
 19. Jay W. Richards: Peningar, græðgi og Guð, bls. 208–209. Ég fjalla um aðrar trúarlegar hliðar loftslagsumræðunnar í grein minni „Þið munuð öll deyja! Lita dómsdagsspár hugmyndir
  manna um loftslagsvísindi?“ Lesbók Morgunblaðsins, 19. apríl 2008, bls. 8–9.
 20. Jay W. Richards: Peningar, græðgi og Guð, bls. 273–274. Richards fer ofan í saumana á hagfræði Hayeks á næstu síðum og ræðir þar sérstaklega hugtök eins og reglu og tilgang. Richards túlkar hugmyndir Hayeks sem „hreina efnishyggju“ (bls. 281) fremur en dulbúna trúfræði, en dregur í lokin fram frumforsendurnar í hugmyndum Hayeks: „Hann gat ekki skírskotað til Guðs, eilífs alheims eða einhvers tilgangs æðri alheiminum og þess vegna valdi hann þann kost sem eftir stóð: Markaðurinn hlaut að vera dæmi um reglu sem spratt úr glundroða“ (bls. 281).
 21. Jay W. Richards: Peningar, græðgi og Guð, bls. 270–271.
 22. John Gray: Black Mass: Apocalyptic Religion and the Death of Utopia, bls. 123. (London: Penguin Books, 2008). Um trúarlegar skírskotanir frjálshyggju má einnig lesa á bls. 116–117,
  122–123, 150–169.
 23. George Monbiot bendir á þessi sannindi í bók sinni Heat: How to Stop the Planet From Burning, Cambridge, Mass.: South End Press 2007, bls. 41–42. Sjá einnig greinar mínar „Nú er úti
  veður vont: Gróðurhúsaáhrif og íslensk umræðuhefð“, Ritið 1/2007, bls. 5–44, hér bls. 42–44; og „Dómsdagsklukkan tifar. Upplýsing og afneitun í umræðu um loftslagsbreytingar“, bls. 128–136.
 24. „Á móti olíuvinnslu á Drekasvæðinu“, 22. apríl 2009: http://www.visir.is/a-moti-oliuvinnslu-adrekasvaedinu/ article/2009908496631 [13. október 2011].
 25. „Iðnaðarráðherra: Ekki ágreiningur um olíuvinnslu í stjórninni“, 22. apríl 2009: http://www. visir.is/idnadarradherra–ekki-agreiningur-um-oliuvinnslu-i-stjorninni/article/
  2009139100484; „VG ekki á móti olíuleit á Drekasvæðinu“, 22. apríl 2009: http://www.visir.is/ vg-ekki-a-moti-oliuleit-a-drekasvaedinu/article/2009219138542 [13. október 2011].
 26. „VG gegn olíuleit á Drekasvæði“, 22. apríl 2009: http://www.mbl.is/frettir/kosning/2009/04/22/ vg_gegn_oliuleit_a_drekasvaedi/ [sótt 14. október 2011].
 27. Rósa bætir því við að mannkyni beri „að halda öllu í jafnvægi“ og sýna „visku“ í auðlindanýtingu, en það virðist ekki eiga við um olíuvinnslu í Drekasvæðinu.
 28. Haukur Nikulásson: „Þar fór hugsanlega atkvæðið mitt á VG“, 22. apríl 2009: http://haukurn. blog.is/blog/haukurn/entry/860755/; Ólafur B. Ólafsson: „Þetta er stærsti fíflaskapurinn korter í kostningar [svo]!!!“, 22. apríl 2009: http://1kaldi.blog.is/blog/1kaldi/entry/861055/; Gunnar Th. Gunnarsson: „Þetta fáið þið!“, 22. apríl 2009: http://gthg.blog.is/blog/gthg/entry/860776/; Guðmundur Ragnar Björnsson: „Á að fara aftur í fjallagrasafarið?“, 22. apríl 2009: http:// gudmbjo.blog.is/blog/gudmbjo/entry/860779/; Björn Indriðason: „Á móti öllu!“, 22. apríl 2009: http://bjorni0.blog.is/blog/bjorni0/entry/860756/; Jóhann Elíasson: „Ætlar fólk í Norðausturkjördæmi virkilega að kjósa þetta yfir sig??????“, 22. apríl 2009: http://johanneliasson.blog.is/ blog/johanneliasson/entry/860810/; Jens Sigurðsson: „Veruleikafyrtur [svo] stjórmálamaður [svo]“, 22. apríl 2009: http://jenni-1001.blog.is/blog/jenni-1001/entry/860827/; Magnús Bergsson: „Gott hjá Kolbrúnu“, 22. apríl 2009: http://mberg.blog.is/blog/mberg/entry/860931/ [sótt 14. október 2011].
 29. Elías Jón Guðjónsson: „Stormur í olíutunnu?“, Smugan. Vefrit um pólitík og mannlíf, 5. maí 2009: http://smugan.is/2009/05/stormur-i-oliutunnu/ [sótt 18. október 2011]. Elías Jón varð
  aðstoðamaður Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra í febrúar 2010.
 30. „Treglega gekk að draga út svar frá Steingrími um olíuvinnslu“, 23. apríl 2009: http://www. visir.is/treglega-gekk-ad-draga-ut-svar-fra-steingrimi-um-oliuvinnslu/article/2009695293528;
  sjá einnig „Ósammála Kolbrúnu um Drekasvæðið“, Ríkisútvarpið vefur, 23. apríl 2011: http:// www.ruv.is/frett/osammala-kolbrunu-um-drekasvaedid [sótt 30. september 2011].
 31. „G-blettur Steingríms J.“, 23. apríl 2009: http://www.gislimarteinn.is/?p=181 [sótt 18. október 2011].
 32. „Guðlaugur Þór niður um sæti“, 29. apríl 2009: http://www.mbl.is/frettir/kosning/2009/04/29/ gudlaugur_thor_nidur_um_saeti/; og „Kolbrún Halldórsdóttir með flestar útstrikanir“, 29.
  apríl 2009: http://www.amx.is/stjornmal/6715/ [sótt 18. október 2011].
 33. „Nálgunarbann á Kolbrúnu Halldórsdóttur“, FACEBOOK http://www.facebook.com/group. php?gid=77008399207 [sótt 18. október 2011].
 34. Clive Hamilton: Requiem for a Species: Why We Resist the Truth About Climate Change, bls. 16; og Kevin Anderson og Alice Bows: „Reframing the climate change challenge in light of post-
  2000 emission trends“, Philosopical Transactions of the Royal Society, Royal Society 2008, 13. nóvember, 366/1882, bls. 3863–3882. Greinina má nálgast á netinu: http://files.uniteddiversity.com/Climate_Change/Reframing_the_climate_change_challenge.pdf [sótt 10. október 2011].
 35. Kevin Anderson og Alice Bows: „Beyond ‚dangerous‘ climate change: emission scenarios for a new world“, Philosopical Transactions of the Royal Society, Royal Society 13. janúar 2011,
  369/1934, bls. 20–44. Greinina má nálgast á netinu: http://rsta.royalsocietypublishing.org/ content/369/1934/20.full.pdf+html?sid=f64a0504-2d45-4e58-a158-d04248acbd5c; sjá einnig
  Andrew Macintosh: „Keeping warming within the 2°C limit after Copenhagen“. Energy Policy 2010, 38, bls. 2964–2975. Greinina má nálgast á netinu: http://www.sciencedirect.com/ science?_ob=MiamiImageURL&_cid=271097&_user=713833&_pii=S0301421510000595&_ check=y&_origin=&_coverDate=30-Jun-2010&view=c&wchp=dGLzVlS-zSkWb&md5=32281
  a7be0cabcc4316b76496aa1d6f8/1-s2.0-S0301421510000595-main.pdf [sótt 24. október 2011].
 36. Hér styðst ég við samantekt Clives Hamilton í Requiem for a Species: Why We Resist the Truth About Climate Change (bls. 18), en hann dregur afbragðsvel fram meginatriði þessarar flóknu
  en merkilegu greinar. Ég bæti þó inn viðbótarupplýsingum þegar þörf þykir.
 37. Clive Hamilton: Requiem for a Species: Why We Resist the Truth About Climate Change, bls. 16.
 38. Hvarfpunktarnir gera jafnframt 550 ppm og 650 ppm mörkin merkingarlaus þar sem sú ákvörðun að fara upp í þau hefur keðjuverkandi áhrif og svo getur farið að styrkur gróðurhúsalofttegunda í lofthjúp endi að lokum í 1000 ppm með tilheyrandi hitaaukningu. Joni Seager lýsir rökvillunni um hitamörkin skemmtilega í fyrirlestri sínum „Feminism and Climate Change“, en eins og hún bendir á getum við ekki stýrt hitastigi jarðar eins og hita í bökunarofni.
 39. Grein V. Ramanathans og Y. Fengs, „On avoiding dangerous anthropogenic interference with the climate system: Formidable challenges ahead“, sýnir hversu erfitt er að ná tökum á loftslagsvandanum. Þar er bent á að losunin sem er orðin að veruleika 2005 leiði óhjákvæmilega til 2,4°C hlýnunar verði ekkert að gert (PNAS, 23. september 2008, 105/38, bls. 14245–14250: http://www.pnas.org/content/105/38/14245.full.pdf+html). Hans Joachim Schellnhuber gagnrýnir þessar niðurstöður í svargreininni „Global warming: Stop worrying, start panicking?“ sem birtist í sama hefti PNAS (bls. 14239–14240: http://www.pnas.org/content/105/38/14239. full.pdf+html). Schellnhuber gerir ráð fyrir að takast muni að helminga losun koltvísýrings fyrir 2050, og færa hana niður fyrir 2005-mörkin. En svo að tryggja megi að jörðin hlýni ekki um a.m.k. 2,4°C verður hámarkslosun að eiga sér stað milli 2015 og 2020 og þróunarlöndin mega ekki koma sér upp jafnöflugum lofthreinsibúnaði og tíðkast á Vesturlöndum því að mengunin vegur upp á móti áhrifum gróðurhúsalofttegundanna í lofthjúpnum. Clive Hamilton dregur fram hætturnar í rökum Schellnhubers í bók sinni Requiem for a Species: Why We Resist the Truth About Climate Change, bls. 28–29.
 40. James Hansen gagnrýnir sérstaklega hversu varfærnir vísindamenn séu í yfirlýsingum í bók sinni Storms of My Grandchildren (bls. 87–89) og bendir á að naumur tími sé til stefnu. Þrátt
  fyrir það kjósi vísindamenn fremur að humma fram af sér allar hættur en tapa trúverðugleika um stundarsakir. Ég kem inn á þennan vanda í grein minni „Dómsdagsklukkan tifar. Upplýsing
  og afneitun í umræðu um loftslagsbreytingar“, bls. 119.
 41. Kevin Anderson og Alice Bows: „Beyond ‚dangerous‘ climate change: emission scenarios for a new world“, bls. 40.
 42. Kevin Anderson og Alice Bows: „Beyond ‚dangerous‘ climate change: emission scenarios for a new world“, bls. 41–42.
 43. Ég flokka niður vísindalegu falsrökin í grein minni „Dómsdagsklukkan tifar. Upplýsing og afneitun í umræðu um loftslagsbreytingar“, bls. 107–119.
 44. Jay W. Richards: Peningar, græðgi og Guð, bls. 252–256.
 45. Leo Tolstoj: „Land, land!“ Húsbóndi og þjónn og fleiri sögur, þýð. Sigurður Arngrímsson. Seyðisfirði: Prentsmiðja Austurlands H/F 1949, bls. 94.
 46. Leo Tolstoj: „Land, land!“, bls. 102.
 47. Leo Tolstoj: „Land, land!“, bls. 105.