Ewa Marcinek

Ewa Marcinek / Mynd: Patrik Ontkovic

eftir Ewu Marcinek

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2021

<<<ENGLISH BELOW>>>

 

„Svo þið viljið verða fræg á Íslandi?“ spyr íslenskur rithöfundur okkur, tvo höfunda af erlendum uppruna, og sýnir með því meistaratakta í orðaskylmingum. Ég reyni að lesa í brosið á vörum hans: ekki háðslegt glott, ekki uppörvandi, en bendir heldur ekki til þess að hann sé að grínast. Í skylmingum er uppgerðarárás af þessu tagi kölluð feint. Hún er notuð til að fá viðbrögð og lesa í andstæðinginn. Ekki furða að hann sé svona góður rithöfundur. Hann veit nákvæmlega hvar orð hans finna veikan blett.

Ég var spennt að taka í höndina á honum, nudda mér upp við hæfileika hans. Ég var upp með mér við það eitt að fá að hitta höfundinn. Nú er ég rjóð og hljóð. Hann stóð mig að verki, étandi nammi sem sett var fram fyrir aðra – ekki fyrir fólk eins og mig. Ég finn enn sætubragðið í munninum, varir mínar eru litaðar, fingurnir klístraðir. Já, herra minn. Ég er sek. Ég er pólsk og skrifa á ensku, og með takmarkaða íslenskukunnáttu mína er ég að reyna að verða rithöfundur.

Elías Knörr, skáldbróðir minn og félagi af erlendum uppruna, situr við hlið mér. Hann er augnablik að hrista af sér undrunina og réttir svo fram höndina, býður honum birginn. Þetta er varnarbragð. Elías er vel máli farinn og veit hvernig á að standa á sínu en þó virðist hann sjálfa innra með sér, eða er það bara ég?

Þetta er einvígi. Tveir karlar að skylmast. Konurnar hérna inni setur hljóðar, þar með talið mig. Við sitjum kyrrar, með óþægindatilfinningu. Lítill kynningarfundur er að breytast í umræðu um stöðu útlendinga á Íslandi. Af hverju erum við svona mörg hér? spyr höfundurinn. Svo kvartar hann yfir íslenskum konum sem taka með sér erlendu punt-eiginmenn sína til Íslands.

 

Þetta gerist. Það gerist á bestu bæjum. Fólk fer öfugum megin fram úr. Sumir taka ruglupillu í stað D-vítamínsins og ráðast svo á fólk sem þeir ætluðu sér að heilsa. Við Elías sitjum sár eftir fundinn. Skurður sverðsoddsins nær frá hægra munnviki hans að hægra auga mínu. Þetta breytti okkur. Talsmáti hans breyttist og ég sé heiminn með öðrum hætti. Við erum merkt sama markinu. Þegar við göngum hlið við hlið erum við eins og fylking, tveir erlendir hermenn.

„Af hverju skrifar þú á ensku ef þú ert að birta texta á íslensku?“ spyr Elías mig í einum af göngutúrum okkar. Stundum held ég að við séum enn á þessum fundi. Við höldum honum á lífi með síendurteknum umræðum um skrif og innflytjendur.

„Af hverju skrifar þú ekki á pólsku ef það á hvort eð er eftir að þýða textann á íslensku?“

„Af því að það er auðveldara fyrir alla,“ byrja ég. Einfalt en óljóst svar gefur mér tíma til að hugsa um hvernig ég geti útskýrt þetta betur.

Ég byrjaði að skrifa á ensku ári eftir að ég kom til Íslands, einfaldlega af því að ég vildi að fleiri gætu skilið það sem ég skrifaði. Tveimur árum síðar voru skrif mín gefin út á íslensku. Ég hef haldið áfram að skrifa á ensku af því að það er auðveldara að deila því og fyrir útgefendur að þýða það.

„Það yrði ekki auðvelt að finna þýðanda,“ útskýri ég. Ég var búin að rannsaka málið. „Það voru Geirlaugur Magnússon og Þrándur Thoroddsen, en þeir eru látnir. Svo eru nokkrir Pólverjar sem gætu kannski gert það: Olga Hołownia, sem býr í Bretlandi, hún þýddi ljóð Ewu Lipska. Jacek Godek, sem býr í Póllandi, en hann þýðir aðallega íslenskar bókmenntir á pólsku. Að lokum eru tvö ung pólsk skáld í Reykjavík sem skrifa á íslensku, Mao Alheimsdóttir og Jakub Stachowiak, en þau þýða ekki bókmenntatexta, að minnsta kosti ekki ennþá. Fram að þessu hafa örfáar þýðingar verið gerðar á pólskum bókmenntum yfir á íslensku.“

„En eruð þið Pólverjar ekki stærsti minnihlutahópurinn hérna?“ spyr Elías, og ég finn fyrir holrúmi undir fingrunum. Eyðu. Ef íslensk menning er peysa er lykkjufall hér. Gat. Lykkjufallið hleypur alla leið niður.

„Kannski eftir tíu eða tuttugu ár, þegar öll pólsku börnin sem fæddust á Íslandi eru orðin stór, munu sum þeirra verða þýðendur eða tvítyngd skáld? Kannski er þetta bara tímaspursmál?“ Af okkur tveimur er ég sú jákvæða, stundum hreinlega glær.

„Heldurðu virkilega að innflytjendakrakkarnir séu hvattir til þess að skrifa?“ spyr Elías fullur efasemda. Önnur eyða. Við vitum bæði að svo er ekki. Það sama gildir um íslenska krakka af blönduðum uppruna, börn sem bera það utan á sér að vera ó-íslensk og eru stöðugt spurð hvaðan þau séu, spurð vegna framandi nafns eða húðlitar síns. Það getur fengið þau til að vilja öskra, en munu þau nota bókmenntir til að tjá tilfinningar sínar? Ekki ef dregið er úr þeim. Ekki ef þeim finnst þau ekki vera hluti af tungumálinu. Ekki ef þau eru aldrei talin nægilega íslensk. Alvarlegur galli í fallegri lopapeysu.

 

„Menningin er eins og textíll,“ segir Juan Camilo mér, íslenskur vinur minn og skáld, fæddur í Kólumbíu en búsettur í Reykjavík. Við hittumst á kaffihúsi í miðbænum til að ræða starf hans með jaðarsettum hópum. Juan Camilo er uppeldis- og meðferðarráðgjafi hjá félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar, hann vinnur að verkefni sem miðar að því að ýta undir persónulegan og félagslegan þroska ungs fólks með takmörkuð tækifæri í lífinu, og meðal þeirra eru innflytjendaunglingar. Juan Camilo hefur góðan skilning á samfélagsvefnaðinum.

„Fyrst þurfum við að gagnrýna og finna hvar götin og eyðurnar eru sem við getum gert við. Þú hefur engan rétt á að gagnrýna ef þú ert ekki tilbúin til þess að taka ábyrgð, að leggja þitt af mörkum og hrinda hlutum í framkvæmd.“

Ég læt orð Juans gerjast í mér. Menningarviðgerðir. Peysa sem búin er til úr þúsundum einstakra lykkja sem þarf að tengja saman af mikilli nákvæmni. Mannleg tengsl. Þetta er litrík peysa, vatns- og vindheld, sem ver okkur og heldur á okkur hita.

Stærsta áskorunin virðist vera að búa til öruggt rými fyrir alla. Þar sem fólk getur verið trútt sjálfu sér en um leið tengst hefðum og menningunni sem fyrir er. Þar sem allir geta lagt sitt af mörkum og fengið staðfestingu á eigin gildi. List hefur alltaf verið meðferðarúrræði sem hjálpar samfélaginu að vaxa.

„Örugg rými snúast ekki um varnir,“ heldur Juan áfram, „þau snúast um tengsl. Tengslamyndun er mikilvægari en menntun því að við verðum að byrja á því sem okkur skortir. Okkur skortir raunveruleg tengsl milli fólks.“

Þess vegna skrifa ég. Ég er Pólverji sem býr á Íslandi, og snemma í ævintýri mínu komst ég að því að það er ekki alltaf auðvelt. Ekki að það sé svo erfitt heldur, það reyndist bara flókið, kæfandi og kom á óvart. Fyndið og sorglegt. Sláandi. Þegar ég kom til landsins uppgötvaði ég að það að vera Pólverji á Íslandi var að vera flokkur, ekki einstaklingur. Hugmynd, ekki manneskja. Ég skrifa um það til að persónugera sjálfa mig og reynslu mína, að mótmæla stimplinum, að brjóta hann, að komast út úr dilknum og, ef hægt er, að frelsa aðra sem eru eins og ég. Ef orðin geta miðlað þessu vil ég að þið vitið hvernig tilfinning það er.

Þið Íslendingar og við innflytjendur erum eitt. Við erum ekki eins en erum eitt. Við erum eitt, ekki af því að við borgum öll skatta eða af því að kennitalan staðfestir búsetu okkar hérna, heldur af því að við búum saman á þessari eyju.

 

Ég hitti Juan rétt fyrir ljóðagönguna hans. Hann hefur þýtt ljóð íslenskra skálda yfir á spænsku til að geta leitt spænskumælandi ferðamenn eftir götum borgarinnar, svo að þeir geti notið ljóðmál staðarins á eigin tungu.

„Það felst fegurð í því þegar við leyfum okkur að nálgast hið óþekkta og lærum að meta hljóð annarra, önnur tungumál, önnur orð,“ segir Juan „Við verðum að elska og varðveita þau. Sérstaklega í heimi þar sem við stöndum frammi fyrir fjöldaútrýmingu lifandi vera. Það er á okkar ábyrgð að vera bjargvættirnir. Núna er Ísland fjársjóðurinn minn.“

Er Ísland fjarsjóður minn líka? Enginn hefur hvatt mig meira til að hlúa að íslenskunni en Juan, erlenda skáldið.

„Það hvílir ekki aðeins á herðum Íslendinga sem fæddir eru hér, núna er það einnig á minni ábyrgð að varðveita þetta ótrúlega tungumál. Til dæmis var ég að læra nýtt orð … “

Þegar Juan segir að híma velti ég fyrir mér hvort það sé merki.

Að híma, að bíða í óþægilegri stöðu.

 

Það eru liðin átta ár. Óþægindin hafa minnkað með tímanum. Á síðustu mánuðum hefur bið mín loks virst á enda. Breyting. Ég get séð og heyrt orðin skýrt, fundið fyrir tungumálinu. Loksins.

Þegar ég flutti til Íslands fékk ég áfall. Ég var ófær, ónæm, ómóttækileg, heyrnarlaus. Í fyrsta sinn á ævinni festust orð ekki við mig. Blind gagnvart stöfum, atkvæðum og samsetningum gat ég ekki einu sinni borið fram auðveld orð eins og Laugavegur. Ég mundi ekki heimilisfangið mitt. Þarna var v og s og g og tvö t, einhverjir sérhljóðar inn á milli, en ég sá ekki orðið í heild sinni: Vesturgata. Ég vissi ekki hvar ég átti heima.

Mirek, pólskur vinur minn sem hefur búið svo lengi á Íslandi að ég kalla hann fyrsta Pólverjann sem kom til Reykjavíkur, sagði mér að vera þolinmóð. „Þetta kemur. Eftir fimm eða sex ár muntu tala íslensku.“ Hann var að reyna að hughreysta mig en það hljómaði meira eins og afplánun eða sjúkdómshorfur. Fimm til sex ár. Hálfur áratugur af því að þegja, skilja ekki, misskilja, vera með sífelldar afsakanir og sífellt að treysta því að aðrir töluðu ensku.

Tíminn leið. Ég lærði og vann. Nýja tungumálið kom mjög hægt og mér leið ekki eins og það tilheyrði mér. Þrátt fyrir að ég færi í tungumálaskóla, færi á listnámskeið, ynni á veitingastöðum og frístundaheimili blómstraði íslenskan mín ekki.

Var ástæða þess sú að ég gat ekki ákveðið mig hvort ég vildi dvelja hér til langframa? Að eilífu er langur tími. Ef tungumálið var öngull, vildi ég þá ekki kasta akkeri hér? Eða þýddi það að læra tungumálið að ég yrði ný útgáfa af sjálfri mér: íslenskt sjálf? Var ég hrædd um að verða þessi nýja manneskja? Valdi ég málleysið til að vinna mér inn smá tíma áður en sú umbreyting úr pólskri lirfu í íslenskt fiðrildi var fullkomnuð? Eða var Ísland kannski of mikið, of gestrisið, of vinalegt, með svakalegri náttúru sinni, friði, sundlaugum, góðum launum, blómstrandi listalífi og almennri kaffi- og kleinustemmningu? Gætu jákvæðar afleiðingar þess að verða fullgildur meðlimur í slíku samfélagi orðið of stór skammtur fyrir lágt sjálfsálit mitt? Fannst mér ég ekki eiga það skilið?

 

Á átta árum á Íslandi hef ég velt fyrir mér vangetu minni til að læra íslensku, öll merki og einkenni. Hefur hræðslan haldið aftur af mér? Það gæti virst eins og lúxus, ég gat tekið mér tíma. Mér fannst ég ekki tilbúin. Ég var í felum. Á hafði áhyggjur af því að þó að ég myndi læra fullkomna íslensku myndi ég samt vera útlendingur hérna. Ég myndi ekki hafa neitt um það að segja. Á meðan ég tala brotna íslensku liggur ábyrgðin hjá mér. Stjórn er stundum eina haldreipið í vonlausum aðstæðum.

 

Undir lok áttunda árs míns á Íslandi þori ég að skrifa á íslensku. Smásögu. Málfræðin er ekki fullkomin, orðaforðinn er takmarkaður, svo að eini lesandinn verður vinur minn, íslenskukennari. Afbakaða íslenskan mín gæti þó komið að notum því þetta er saga af makedónskri skúringakonu, sem er fíngerð og grá eins og hárið á henni, svo ég lána henni rödd mína og málfræðivillur. Áður en ég lýk við fyrstu blaðsíðuna, áður en ég sendi kennaranum textann, fæ ég óvænt skilaboð.

Þau eru frá Andrzej, pólskum manni sem hefur búið á Íslandi síðustu fimmtán árin. Við höfum aldrei hist en hann skrifar mér án þess að kynna sig eða bjóða upp á neinn félagslegan forleik, beint að efninu:

„Af hverju skrifar þú ekki á pólsku?“ spyr hann ákafur. „Ertu svo íslensk að þú hefur gleymt pólskunni þinni? Finnst þér það ekki mikilvægt?“

Nokkrar línur frá ókunnugum manni. Lesanda. Jafnvel aðdáanda? Ég reyni að hressa mig við, því kannski er ég þrátt fyrir allt orðin fræg á Íslandi. Undirtónn skilaboðanna er langt í frá vinalegur. Ég set mig í stellingar til að móðgast, og þó, Andrzej hefur lög að mæla. Hann er einhver sem lætur sér þetta varða, sem spyr sig af hverju pólskur höfundur skrifar ekki á pólsku á Íslandi. Hann er Pólverji og vill vita af hverju ég nota erlent mál til að tjá mig og mína pólsku reynslu.

Ég hef haft efasemdir um sjálfa mig síðan. Af hverju missti ég niður pólsku bókmenntarödd mína? Lét ég hana róa í tilraunum mínum til að verða hluti af nýju samfélagi? Er það nauðsynlegur fórnarkostnaður? Óumflýjanleg hliðarverkun þess að búa í nýju landi? Það er mikil fórn.

Ef bókmenntaraddir mínar væru börnin mín væri íslenskan þurfandi smábarnið, sem krefst athygli, skemmir allt sem hún snertir með klaufalegum litlum fingrum. Enskan væri hávær unglingur sem væri stöðugt að sýna sig án þess að vita í raun um hvað hún er að tala, sem væri mikið í mun að tilheyra. Pólska bókmenntaröddin væri fullorðna, afskipta barnið, sem myndi útmá sjálfa sig til að gefa systrum sínum meira pláss. Hún yrði fórnarlamb foreldris sem gerir upp á milli barna sinna. Ég vil elska börnin mín jafnt og ég vildi að þau hefðu jöfn tækifæri þar sem við búum.

Það eru forréttindi að búa á Íslandi. Ég hef verið afskaplega heppin að fá að vinna hérna, að skrifa hérna. Að birta textana mína. Að kenna. Að þýða og kynnast höfundum frá öllum heimshornum sem búa í Reykjavík.

 

„Útlendingahersveitin!“ Sjón heilsar okkur með breiðu brosi eftir bókmenntaviðburð sem við tókum þátt í, lítill hópur höfunda af erlendum uppruna. Við hlæjum öll. Já, við erum útlendingahersveit: sjálfboðaliðar, vel þjálfuð, hæfileikarík og mikið í mun að sanna okkur. Til þjónustu reiðubúin, Ísland!

Við skiptumst á kveðjum og nokkrum orðum. Sjón er einn þeirra íslensku rithöfunda sem heldur sér í andlegu formi án þess að veifa neinum sverðum eða beina beittum oddum orða sinna að ókunnugum. Þessu er öfugt farið að hans mati: „Ástæða þess að íslenskar bókmenntir standa svo sterkum fótum, og að þeim hefur verið haldið á lífi, er það hversu auðvelt við eigum með að tileinka okkur erlend áhrif. Öll stór augnablik íslenskrar bókmenntasögu markast af miklum samskiptum við erlendar bókmenntir eða erlenda menningu.“

Hann sagði einu sinni í viðtali að „tungumálið sem er talað ætti ekki að hafa úrslitaáhrif. … Tungumál eru í stöðugri hreyfingu, og taka sífelldum breytingum, en við ættum að halda okkur við hugmyndirnar, og tala um þær á hverju því máli sem er okkur tamt.“ Ég tók þessi orð Sjóns til mín með von í hjarta, og fannst eins og verið væri að bjóða mig velkomna alveg eins og ég er, þangað til einhver annar spurði:

„Svo þið viljið verða fræg á Íslandi?“

 

Við, erlendu höfundarnir, erum ekki aðeins hluti af peysu heldur líka af landi, menningu, samfélagi. Við erum ekki hermenn en við tökum starf okkar alvarlega, erum staðföst og trú. Við erum ekki lirfur en Ísland breytir okkur og mótar í sinni mynd. Og ef við berum von í brjósti snýst hún ekki um sætu frægðarinnar, heldur um alvöru mat eins og ritlaun og borguð verkefni, eða að minnsta kosti vinalegt bros.

 

Elín Edda Pálsdóttir þýddi. 

 

 

The Foreign Legion

“So you want to be famous in Iceland?” an Icelandic writer asks us, two foreign-born authors, demonstrating mastery of social swordplay. I try to read the smile on his face: not a mean smirk, not an encouragement, nor is it a joke. In fencing, a fake attack like this one is called a feint. One uses it to provoke a reaction and read the opponent. No wonder, he is such a good writer. He knows exactly where his words will strike.

I was excited to shake hands with him, rub myself against his talent. I felt flattered solely by the opportunity to meet the writer. Now, I’m flushed and quiet. He caught me red-handed, eating candy laid out here for others—not for people like me. My mouth still tastes sweet, my lips are coloured, my fingers sticky. Yes, sir. I’m guilty. I’m Polish, writing in English, and with my mediocre Icelandic, I’m pursuing the career of a writer.

Elías Knörr, my fellow poet, fellow foreigner, is sitting by my side. He takes a moment to shake off the surprise, then he extends his arm, threatening our opponent’s position. It’s a defensive action. Elías is good with words and knows how to hold his ground, yet he seems to be trembling inside, or is it me?

It’s a duel. Two men are fencing. The women in the room, including me, fall silent. We sit quiet, uncomfortable. A small introductory meeting turned into a discussion about foreigners’ status in Iceland. Why are there so many of us here, the writer asks. Then he complains about Icelandic women bring their foreign trophy-husbands to Iceland.

 

It happens. It happens to the best. People get up on the wrong side of the bed. Some take a crazy pill instead of vitamin D, and then they attack people they were planning to greet. Elías and I, we were scarred during that meeting. A sword-cut runs from the right corner of his mouth to my right eye. It changed us. His speech altered, I see different. We share the mark. When we walk side by side, we look like an army unit, two foreign soldiers.

“Why do you write in English if you publish in Icelandic?” Elías asks me during one of our strolls. Sometimes, I think we’ve never left that meeting. We’ve kept it alive, an ongoing dispute about writing and immigrants.

“Why don’t you write in Polish if later it gets translated to Icelandic?”

“Because it’s easier for everyone,” I start. A simple but vague answer gives me time to think, how to explain it better.

I started first writing in English a year after coming to Iceland, only because I wished more people could understand it. Two years later, my writing got published in Icelandic. I’ve kept writing in English because it’s easier to share it and for the publishers to translate it.

“It wouldn’t be easy to find a translator,” I explain. I made my research: “There were Geirlaugur Magnússon and Þrándur Thoroddsen, but they passed away. Then there are a few Poles, who could maybe do it: Olga Hołownia, who lives in the UK, she translated Ewa Lipska’s poetry. Jacek Godek, who lives in Poland, yet he translates mostly Icelandic literature to Polish. Finally, in Reykjavík, there are two young Polish poets who write in Icelandic, Mao Alheimsdóttir and Jakub Stachowiak, but they don’t translate literature, at least not yet. Altogether, there has been no to very few translations of Polish literature into Icelandic.”

“Aren’t you, Poles, the biggest minority here?” Elías asks, and I can feel a hole under my fingers. It’s a gap. If the Icelandic culture is a jumper, then there is a dropped stitch here. A hole. The run continues down to the bottom.

“Maybe in ten, twenty years when the Polish kids born in Iceland will grow up, some will become translators or bilingual poets? Maybe it’s just a matter of time?” Of the two of us, I’m the optimist, sometimes a positive ignorant.

“Do you really think the immigrant kids are being encouraged to write?” Elías doubts. Another gap. We both know they aren’t. The same happens to the Icelandic kids of mixed race, children who are marked as non-Icelandic and continuously asked where they are from, questioned because of exotic names or the shade of their skin. It can make them want to scream, but will they use literature to express their feelings? Not, if they are disheartened. Not, if they feel that they don’t belong to this language. Not, if they are not enough Icelandic. A serious defect on a pretty lopapeysa.

 

“The culture is like a fabric,” told me once Juan Camilo, my Icelandic friend, a poet born in Colombia and living in Reykjavík. We met in a café downtown to talk about his work with marginalized communities. Juan Camilo is also a pedagogic therapist and counsellor in the Youth Centres of Reykjavík City, a program that contributes to the personal and social development of young people with fewer opportunities, including teenage immigrants. Juan Camilo knows much about social tapestry:

“First, we need to criticize and look at where the holes and the gaps are that we can repair. You have no right to criticize as long as you are not ready to assume the responsibility, to contribute something and put it into play.”

Juan’s words sink deep in me. Culture repair. A jumper made up of thousands of tiny unique stitches which each have to be joined perfectly together. Human connection. It’s a colourful sweater, wind- and rainproof, keeping us warm and safe.

The biggest challenge seems to be to create a safe space for everyone. Where people can be their true selves in a relationship with the tradition and existing culture. Where everyone can contribute and be recognized for who they are. Art has always been a therapeutic tool, helping society to grow.

“A safe space is not about protection,” continues Juan, “It’s about connection. How you create a connection is more important than education because we need to begin with what we lack. We lack a real connection between people.”

That’s why I write. I’m a Pole living in Iceland, and early in my adventure, I learned that it’s not that simple. Not that it’s hard, either. It was just complicated, suffocating, and surprising. Funny and sad. Striking. Upon my arrival, I discovered that being a Pole in Iceland was to be a category, instead of an individual. A concept instead of a human. I write about it to humanize myself and my experience, to oppose the label, to break it, to escape my pigeonhole, and, if there is a chance, to free others like me. If the words can show, I would like you to know how it feels.

You, Icelanders, and we, immigrants, are one. We are not the same, but we are one. We are one, not because we all pay taxes, or because the kennitala number confirms our residency here, but because we live together on this island.

 

I meet Juan, just before his poetry walk. He translated words of Icelandic poets into Spanish to guide the Spanish-speaking crowd through the streets of Reykjavík, so they can savour the poetics of the place in their own language.

“It’s beautiful when we have the disposition to approach the other and to value the sounds of the other, the languages, the words,” says Juan. “We have to love and preserve them. Especially in a world where we are facing mass extinction of living things. It is up to us to be the saviours. Now, Icelandic is my treasure.”

Is Icelandic my treasure as well? No one encouraged me better to take care of my Icelandic than Juan, the foreign-born poet:

“It’s not only the responsibility of native Icelanders, now it’s also my responsibility to preserve this amazing language. For example, I just learn a new word…”

When Juan says að híma I’m wondering if it’s a sign.

Að híma, to wait in a very uncomfortable situation.

 

It’s been eight years. The discomfort has decreased with time. In the last few months, there has been a breakthrough in my waiting. A change. I can see and hear the words clearly, feel the language. Finally.

When I moved to Iceland, it was a shock. I was incapable, resistant, non-absorbent, deaf. First time in my life, words didn’t stick with me. Blind to letters, syllables, and compounds, I couldn’t even pronounce simple names like Laugavegur. I couldn’t remember my address. There was the v, the s, the g, and two t’s, some vowels in-between, but I didn’t see the word as a whole: Vesturgata. I didn’t know where my home was.

Mirek, my Polish friend, who has been living in Iceland for so long, that I refer to him as the first Pole who came to Reykjavík, told me to be patient. “It will come. After five to six years you will speak Icelandic,” He tried to cheer me up, but it sounded more like a prison sentence or a medical diagnosis. Five to six years. A half of a decade of being mute, dumb, confused, always excuse myself and rely on others speaking English.

Time passed. I learned and worked. The new language came very slow, and it didn’t feel like mine. Although I went to Icelandic language school, did some art courses, worked in restaurants, and in an after-school program with kids, my Icelandic didn’t flourish.

Was it caused by my indecision about staying in Iceland, for good? Forever is a big word. If the language was a hook, wasn’t I ready to anchor here? Or maybe, acquiring the language equalled becoming a new version of myself: an Icelandic one. Was I scared to be that new person? Did I choose the linguistic disability to gain some time before that transformation from a Polish caterpillar to an Icelandic butterfly was complete? Or maybe, Iceland was too much, too generous, and too kind, with its staggering nature, peace, swimming pools, good salaries, ubiquitous art, and the kaffi-og-kleinur mood? Could the benefits of being a fully articulated resident in a place like this be an overdose for my low self-esteem? Did I feel that I didn’t deserve it?

Eight years in Iceland, I’ve been pondering about my limited ability to learn Icelandic, all the signs and symptoms. Has the fear been holding me back? What might seem like a luxury, I was taking my time. I didn’t feel ready. I was in hiding. Worried, that even if I were to be perfectly fluent in Icelandic, I would still be a stranger here. I would have no say in it. Until my language is broken, it’s on me. Control can be sometimes the only comfort in a hopeless situation.

 

At the end of my eighth year in Iceland, I dare to write in Icelandic. A short story. My grammar isn’t perfect, my vocabulary is limited, so the only reader will be my friend, an Icelandic language teacher. My butchered Icelandic may be useful because it’s a story of a Macedonian cleaning lady, thin and grey like her hair, so I lend her my voice and my grammar problems. Before I finish the first page, before I send it to my teacher, I get an unexpected message.

It’s from Andrzej, a Polish gentleman who has been living in Iceland for the last fifteen years. We’ve never met, but he addresses me without an introduction or social foreplay, straight to the point:

“Why don’t you write in Polish?” he urges me. “Are you so Icelandic that you forgot your Polish? Don’t you think it is important?”

A few lines from a stranger. A reader. A fan maybe? I cheer myself up, because perhaps, in the end, I’m famous in Iceland. The undertone of the message is far from friendly. I’m ready to get offended, yet, Andrzej has a point. He is a person who cares, who wonders why a Polish writer doesn’t write in Polish in Iceland. He is a Pole, and he would like to know why I would use a foreign language to express myself and my Polish experience.

I’ve been doubting myself since. When did I lose my Polish literary voice? Did I abandon it, in my pursuit of belonging here? Is it a price one needs to pay? An unavoidable side effect of living in a new country? It’s a high price.

If my literary voices were my kids, Icelandic would be a needy toddler, demanding attention, ruining everything she touches with her little clumsy fingers. My English, a loud teenager, constantly showing off without knowing much, desperate to socialize. My Polish literary voice would be a neglected adult child, forgetting about herself and making space for her sisters. She would be a victim of parental favouritism. I want to love my kids equally, and I wish there would have equal opportunities in the place we live.

It’s a privilege to be an Icelandic resident. I’ve been extremely lucky to work here, to write here. To publish. To teach. To translate and be friends with authors from all over the world who live in Reykjavík.

 

“A foreign legion!” Sjón, the Icelandic writer, greets us with a big smile after a literary event that we attend in a small group of foreign-born writers. We all laugh. Yes, we are a foreign legion: volunteers, highly trained, talented, and eager. At your service, Iceland!

We exchange greetings and a few words. Sjón is one of the Icelandic writers who keep mental agility without waving their swords around or pointing the sharp edge of their words at strangers. The opposite, in his view: “The reason Icelandic literature is strong, and it has been kept alive, is our ease with absorbing foreign influence. All the great moments in Icelandic literature are marked by a strong dialogue with foreign literature or foreign culture.”

He said once in an interview that “the language that is spoken should not be a defining factor. (…) Languages are moving on, and they are changing all the time, but we should stick to the ideas, and talk about them in whatever language is available to us.” I clung to Sjón’s words with hope, with a sense of being welcomed as I am, until someone else asked:

“So you want to be famous in Iceland?”

 

We, the immigrant writers, we are not part of a jumper but a country, culture, society. We are not soldiers, but we are as serious about our work, as committed and loyal. We are not caterpillars, but Iceland transforms us, shapes us in its own image. And if we have hopes, it’s not for candies like fame, but for the real food like writing grants and writing commissions, or at least a friendly smile.