eftir Böðvar Guðmundsson

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2020.

Erindi flutt á fræðslufundi Þjóðræknisfélags Íslands 21. nóvember 2019

 

Böðvar GuðmundssonÉg fæddist árið 1939 og man því lengra en mörg ykkar grunar. Þá voru ekki nema rúmlega 20 ár frá því vesturferðum lauk, en með vesturferðum er ég að tala um fjöldaútflutning til Kanada og Bandaríkjanna. Þar hafa sagnfræðingar sett mörkin við upphaf fyrri heimstyrjaldarinnar. Eitt sem ég nam af umtali fullorðins fólks þegar ég var krakki var heiti staðanna sem vesturfararnir byggðu, ég lærði nöfn eins og Manitoba og Pembina án þess að vita neitt meira um þá staði. Ömmubróðir minn hafði reynt að búa á þessum slóðum en þá voru góð lönd undir bú öll búin svo hann kom aftur til Íslands, þó ekki alveg tómhentur. Hann kom í gærujakka sem ekki átti sinn líka í Borgarfirði. Í honum kom hann á Hestamannamótið og Íþróttamótið og bar sig hermannlega og átti auk þess barðastóran hatt sem hann setti upp á logndögum.

Auðvitað lauk vesturferðum ekki algerlega árið 1914 og er ekki lokið enn, Íslendingar hafa lengi verið frjósamari en landið ber. Það sýna skýrslur á ótvíræðan hátt. Til dæmis fluttu til útlanda, Ástralíu, Norðurlanda og Ameríku, að jafnaði um 800 manns ár hvert frá 1970 til 1980. Það lætur nærri að vera íbúatala Borgarness á þeim árum. Og fyrir nokkrum árum lét sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn telja þá Íslendinga sem höfðu fasta búsetu í Danmörku, það reyndust vera um 10.000 manns.

En við skulum ekki eyða tímanum í skýrslur; eins og hver maður veit ljúga þær alltaf um það sem gerðist og komast síðan að rangri niðurstöðu. Hitt er kannski svolítið gaman að athuga hvernig rithöfundur býr til nýjan heim. Margir halda að rithöfundar séu svo óskaplega frjóir í andanum að þeir geti soðið saman heim úr engu, og vissulega eru til slíkir súpersköpuðir. Það má til dæmis benda á Lewis Caroll sem slíkan höfund. Fæstir láta sér detta Í hug að hann hafi nokkurn tíma reynt eitthvað svipað og persónurnar sem hann skapaði í sögunni um Lísu í Undralandi. En til eru þeir sem benda á að allt er þar gamalkunnugt nema atburðirnir sjálfir. Viðbrögð Lísu og annarra persóna sem fram koma í sögunni eru vel kunn, reiði, undrun, hræðsla, hofmóður, slóttugheit og fyrirgefning, svo eitthvað sé nefnt.

Og ég er ekki slíkur hugsuður, slíkt andans ofurmenni, að ég geti búið til heim úr engu. Mínar sögupersónur eiga sér flestar, ef ekki allar, fyrirmynd. Nú er ég svo heppinn að hafa átt mikinn sögumann að föður. Faðir minn sagði sögur af liðnum heimi, sögur af nágrönnum, sögur af strákum og stelpum. Þótt ansi margar af sögum hans væru af fólki sem hafði verið til lagaði hann atburðina kannski svolítið, og hann átti sér föður sem einnig sagði sögur. „Hann Guðmundur getur ekki farið rétt með nokkurn skapaðan hlut,“ var sagt um föður minn. Aðrir sáu aðra möguleika í sögunum hans, eða eins og Magnús Sigurðsson á Gilsbakka orðaði það: hann lét ekki söguna gjalda sannleikans.

Mér hefur alltaf þótt gaman að þessum ummælum Magnúsar og met þau mikils. Það er nefnilega hárrétt að lítilfjörlegur atburður getur risið sem mikill ef sannleikurinn er settur ögn til hliðar. Hvort heldur er heimur Lewis Caroll, sem var London og Oxford og fólkið þar, sem var ósköp hversdagslegt fólk, eða Hálsasveit, Hvítársíða og Reykholtsdalur Guðmundar á Kirkjubóli þar sem fólkið var einnig ósköp venjulegt, báðir heimar eru svo hversdagslegir að það er engin leið að láta söguna gjalda sannleikans, ef maður ætlar á annað borð að segja skemmtilega sögu. Láta hana gjalda þess að ekkert skeður að öllu jöfnu sem er í frásögur færandi. Nákvæmlega sömu sögu er að segja frá þeim kanadíska heimi þar sem stór hluti frásagnarinnar sem hér um ræðir gerist. Og það er kannski ekki alveg út í hött að ég byrji á því að segja ykkur frá því sem leiddi til þess að ég fór að skipta mér af íslenskum vesturförum – að ég byrji á byrjuninni, mundu kannski einhverjir segja.

Ágætur maður, Ríkarður Beck að nafni, var fæddur að Svínaskálastekk í Reyðarfirði árið 1897. Hann braust áfram af eigin rammleik, tók stúdentspróf frá Menntaskólanum í Reykjavík 1920 og flutti til Vesturheims sama ár. Þar innritaðist hann í Cornell-háskólann í enskum og norrænum fræðum og lauk þar doktorsprófi 1926. Hann varð prófessor í norrænum fræðum við háskólann í Grand Forks í Norður-Dakota 1929 og gegndi því starfi til 1967. Hann flutti til Victoríu á Vancouvereyju, sem er höfuðborg Bresku-Kolumbíu í Kanada, og naut sinnar elli þar. Nú hagar því svo til að þar var mjög stór Íslendingabyggð og hann ánafnaði háskólanum í Victoríu húseign sinni að sér látnum og skyldi rentum af henni varið til að styrkja fræðasamband við Ísland.

Þetta var vel gert af Ríkarði Beck, þó svo að framámönnum í menningarmálum á Íslandi þætti lítið til hans koma og stöguðust heldur á vísu annars íslensks útflytjanda, Jóns Helgasonar, sem orti á ljóðabók sína, Úr landssuðri, til vinar síns:

Er opna ég þetta yrkingakver
með andfælum við ég hrekk,
hvort er þetta heldur ort af mér
ellegar Ríkarði Beck?

Ríkarður Beck gaf nefnilega út tvær ljóðabækur með eigin ljóðum og Jón Helgason var víst enginn aðdáandi hans.

Maður heitir James Thucker og var prófessor við Victoríuháskóla þar til hann lét af störfum fyrir nokkru sökum aldurs. Hann var um skeið m.a. formaður Richard Beck-sjóðsins í Victoríu og hann hafði samband við mig árið 1991 og spurði hvort ég vildi kenna námskeið í íslenskum bókmenntum á sumarháskóla árið eftir. Ég hafði þá að vísu verið sendikennari við háskólann í Bergen í Noregi nokkrum árum fyrr en var sestur að í Danmörku og byrjaður á þeim skammarlega ósið að skrifa bækur. En þar sem þetta voru ekki nema tæpir tveir mánuðir sló ég til.

Eiginlega hafði ég aldrei hugsað um vesturferðir og Vestur-Íslendinga öðruvísi en flestir hugsuðu. Sá í mínum hofmóði dálítið hlálega manngerð fólks sem talaði íslensku með amerískum hreim og var logandi hrætt við róttæklinga og kallaði alla vinstrisinna kommúnista. En fyrir vikið fór ég samt að hugsa svolítið öðruvísi, ég mundi allt í einu eftir því að ég átti langafa sem flutti til Kanada og afasystkini sem faðir minn hélt mikið upp á og skrifaðist á við.

Kannski var það einn smáatburður þarna í Victoríu sem olli meiru en aðrir. Við vorum eitt kvöldið að koma frá kennslu, það var orðið áliðið kvölds og talsverður slæðingur fólks á götum. Við náðum þó í leigubíl um síðir og töluðum hátt um vonsku heimsins þegar leigubílstjórinn sneri sér hálfur við og spurði hvort það væri íslenska sem við töluðum. Við spurðum hvers vegna hann héldi það og hann svaraði því til að „my amma was Icelandic“.

Hann vissi ekkert meira um ömmu sína og enn minna um langafana og langömmurnar, en hann kallaði hana „ömmu“. Hann var dæmigerður nútímamaður sem hefur ekki hugmynd um að hann á tvær ömmur og fjórar langömmur og 16 langalangforeldra!

Annar atburður þetta sumar hrærði enn upp í mér. Svoleiðis var að þá var nýorðin prófessor í íslensku við Manitoba-háskólann vinkona mín dönsk, Kirsten Wolf. Kennslu minni skyldi ljúka með fyrirlestri um íslenskar bókmenntir og ég var nógu borubrattur til að skrifa henni og segja frá því að ég ætti fyrirlestur sem bara hefði verið fluttur einu sinni – að vísu er langt frá Victoríu til Winnipeg en vildi hún nú ekki fá mig líka? Kirsten svaraði samstundis að flugmiðinn væri á leiðinni, svo ég flaug frá vesturströndinni inn að miðju Kanada, sem er um 3000 km. Kanada er nefnilega svo ógnarstórt að maður trúir því varla. Og þar hitti ég fullt af fólki sem talaði íslensku, gamla íslensku og var dálítið flámælt eins og flestir Íslendingar voru á síðari helmingi 19. aldar. Mál þess var auk þess ögn dönskuskotið, nákvæmlega eins og mál fólks á Íslandi var þangað til skólastarf varð almennt.

Þetta leiddi til þess að á heimleið kom ég við hjá bróður mínum á Íslandi og tók með mér öll Ameríkubréfin sem faðir minn hafði átt og skilið eftir í skrifborðsskúffu þegar hann lést. Ég var þá nýkominn með tölvu og ég æfði mig á hana með því að skrifa upp Ameríkubréf ættingja minna vestanhafs á hana.

Eiginlega eru sögurnar legíó sem liggja til grundvallar Vesturfarabókunum mínum, þær eru óteljandi, og yrði því býsna tímafrekt að benda á fyrirmyndir að hverjum einstökum atburði. Ég vel því að taka sem dæmi einstöku sögur sem mér sjálfum finnast skemmtilegar.

Fyrirmynd Ólafs fíólíns stendur mér nærri og hann er líka meginpersóna Híbýla vindanna. Fyrirmynd hans er einn langafi minn, – við eigum öll fjóra langafa eins og áður gat svo það er af nógu að taka. Ég get getið þess til gamans að þrír langafar mínir hétu Jón, það var einhver skortur á nöfnum, tveir voru meira að segja Jónssynir. Þessi hét líka Jón, var Jónsson og hagur á járn og tré og auk þess músíkalskur, hann var forsöngvari við Gilsbakkakirkju og kallaður Jón söngur: Jón söngur > Ólafur fíólín. Hann fór ungur norður í land og náði sér þar í konu: Sigurbjörg Steingrímsdóttir > Sæunn Hjálmarsdóttir.

Þau Jón og Sigurbjörg áttu þrjú börn meðan þau voru Miðfirðingar en tvö þeirra dóu og jarðneskir fjársjóðir voru þeim lokuð bók. Vorið 1868 áttu þau eitt barn á lífi og Sigurbjörg var að því komin að fara í rúmið, sem kallað var, það er hún var langt gengin með. Miðfirðingar sáu sér lítinn hag í þess háttar fólki og það var ákveðið að senda bæði á fæðingarhrepp hans, sem var Hvítársíða í Borgarfirði. Þá var Sigurbjörg komin nær því að fæða fjórða barnið svo Miðfirðingar sáu þann kost vænstan að senda yfirsetukonu með. Þau komust klakklaust yfir heiðina og í Fljótstungu fæddist að kvöldi komudagsins stúlka sem var látin heita Sigríður. Henni segist svo frá í bréfi til föður míns sem er skrifað í Leslie í Saskatchwan 1938:

Hefur þér nokkuð verið sagt um afa þinn sáluga, hvað móðir hans hét eða nokkuð? Þú veist sjálfsagt að hann var Jónsson og Margrét hét móðir hans og hún var ættuð af Vesturlandi og var Þorleifsdóttir og það er nú allt sem ég veit um hana. Jón og Margrét bjuggu í Fljótstungu og hann var af þessari Fljótstunguætt sem kölluð er, það er mjög líklegt að þér hafi aldrei verið sagt frá því hvað mikill listamaður afi þinn var. Hann var smiður á tré og járn og hann var þénari og smíðaði alla hluti sem til bús þurfti á þeim tímum, en nú er því mest hætt heima því nú eru allir hlutir keyptir, en þá voru öll verkfæri og allt heimatilbúið, en hitt er sjálfsagt mikið betra og fullkomnara. Mig langar til að segja þér ofurlítið atvik úr ævisögu ömmu þinnar, það er sýnishorn af erfiðleikunum. Afi þinn fór norður í Miðfjörð og var þar í tíu ár, þar kynntust þau amma þín og hann, svo voru þau of fátæk til þess að geta verið þar og af því að afi þinn var fæddur fyrir sunnan þá var sjálfsagt að flytja þau það sem kallað var á þeim dögum fátækraflutningi, það var að senda fólkið frá hreppstjóra til hreppstjóra. En afi þinn afsagði að fara svoleiðis, því hann sagði það yrði svo mikill kostnaður. Amma þín var rétt komin að því að þurfa að fara í rúmið, svo heldur en að láta flytja sig eins og þeir vildu tók hann það ráð að fara með hana yfir Tvídægru. Þetta var í júní og eins og þú veist að nóttin er eins björt og dagurinn. Þau lögðu af stað á laugardagskvöld og yfirsetukona með þeim og hann átti að ganga yfir heiðina, en rétt þegar þau voru að fara á stað kemur góður vinur hans, sem líka var uppeldisbróðir mömmu, og lánar honum hest og á sunnudagsmorguninn komu þau að Fljótstungu. Þetta var sunnudagsmorguninn í tíundu viku sumars [28. júní 1868] og það sama kvöld kom ég í heiminn. Ég rétt slapp við að vera kölluð „Heiðar-Sigga“. En hvað heldur þú um svona ferðalag? Ég held það hafi verið með erfiðustu sporunum hennar að koma allslaus til allra ókunnugra eins og var tekið vanalega á móti fólki sem einhvers þurfti við á þessum árum, hún að minnsta kosti hafði ekki góðan stað það sumar. Það veit enginn hvað hún þurfti mikið að líða um ævina því það var mikið og margt áður en ég fór að hafa vit á að taka eftir. Þau komu með ársgamla stúlku sem dó um sumarið, auðvitað tekin frá þeim og látin til ókunnugra. Hún átti ellefu börn og mest af þeim tíma var hún vinnukona hjá öðrum og oft í misjöfnum plássum sem á þeim dögum var nóg af.
(Bréf Vestur-Íslendinga III, 623–624, óprentað handrit)

Kristleifur Þorsteinsson, fræðaþulurinn góðkunni, hefur í þætti sem hann kallar „Arnarvatnsheiði“ sagt eftirfarandi sögu:

Þá læt ég fylgja hér aðra sögu frá Arnarvatnsheiði, sem líka getur verið til viðvörunar, og þá ekki síður konum en körlum. Það var haust eitt um miðja 19. öld, sem fólk var að koma úr kaupavinnu að vanda. Hafði það, eins og venjulegt var, náttstaði á Arnarvatnsheiði. Hjón ein voru sér í tjaldi, Sigmundur Snorrason og kona hans sem Ingiríður hét. Þau tjölduðu í Hæðarsporði. Um nóttina ól Ingiríður barn. Næsta dag fór kaupafólk fram hjá tjaldi þeirra hjóna, sem þau voru komin í svefn eftir næturvökuna. Fólkið hélt leiðar sinnar og gætti þess ekkert hvað um var að vera í tjaldi þeirra hjóna, en sumum sem í hópnum voru heyrðist ungbarn gráta í tjaldinu, gáfu því samt engan gaum. Þegar að Kalmanstungu kom barst þetta í tal með barnsgrátinn. Þá bjó í Kalmanstungu Þuríður Þorsteinsdóttir, ekkja Árna Einarssonar sem þar bjó. Hún var eyfirsk að ætt, skörungur mikill. Hún sendi þá sem skyndilegast norður á heiði til þess að vita hið sanna í þessu máli. Fundu sendimenn Þuríðar hjónin þar með barnið í ráðaleysi. Reiddi þeim öllum vel af og komust klakklaust til byggða og við góða heilsu.

Þegar þau hjón sögðu síðar frá þessu merkilega og fágæta æfintýri, miklaði konan þetta vandræðaástand að ala barn um haust uppi á reginfjöllum og hafa ekki neitt til neins. Aftur á móti var bóndinn hinn nægjusamasti og þótti lítil þörf að kvarta. „Allt var nú eins, bágt áttum við með að lauga barnið,“ sagði aumingja konan. „Ja, nokkuð svona bágt,“ sagði bóndinn, „við höfðum þó askinn.“ Þetta sannar hið forna máltæki: „Við lítt má bjargast en eigi við ekkert.“ Barn það sem á heiðinni fæddist var stúlka sem Guðrún hét, systir hennar hét líka Guðrún. Voru þær í æsku aðgreindar með því að kalla þá Heiðar-Gunnu sem á fjöllum var fædd.
(Úr byggðum Borgarfjarðar II, 287)

Þessa gömlu sögu nota ég á þessa leið þegar Ólafur fíólín og Sæunn hrekjast að norðan suður heiðar. Þau hafa verið á ferðinni einn dag í góðu veðri en svo kemur rigning og þoka.

Þeim var öllum kalt um morguninn þegar þau vöknuðu, Málmfríður var hlandblaut og grét hátt. Það var úðarigning og þau áttu ekki önnur svör við henni en að klæða sig í allar flíkur sem þau höfðu og dúða barnið eftir föngum, Sæunn gekk um grundina með hana sér til hita meðan Ólafur felldi tjaldið og bjó upp á hestana. Svo sigu þau aftur af stað móti ókunnum örlögum sínum, ský huldu jökla og fjöll gærdagsins. Það rigndi allan daginn, vætan smaug inn á þau, það var ekki meira en svo að ullin í nærfötum þeirra og vaðmálsburum héldi á þeim hita, af og til fóru þau af baki og teymdu hestana til að ylja sér. Þar sem ekki sá til sólar vissu þau lítið hvað tíma leið, Ólafur reyndi að reikna það út eftir kennileitum og ferðahraða. Það var komið undir miðjan aftan, að honum fannst, og vötn byrjuð að falla til suðurs, þegar Sæunn fór að kvarta undan verkjum. Hún reyndi að harka af sér, en það var þó ekki um neitt að villast, hún mundi ekki ná til byggða áður en hún yrði léttari. Þau reistu tjaldið í skyndi, fundu sléttan blett í stórþýfðum móa, og þar bjó hann um Sæunni sem best hann kunni á reiðingsdýnunni og breiddi yfir hana og undir það sem hann hafði handbært. Reyndi að róa Málmfríði, bar hana á handlegg sér og sussaði og söng, hlustaði angistarfullur á stunur konu sinnar. Hann sótti enn vatn í askinn og gaf henni að drekka, en það hjálpaði ekki hót, hún hljóðaði og stundi, og loks var ekki um annað að ræða en leggja Málmfríði organdi frá sér út í horn á tjaldinu og búa sig undir að taka á móti nýju barni.

Leyndardómar fæðingarinnar voru honum auðvitað framandi, sú verkaskipting var nú einu sinni viðtekin og almenn á þeim tímum, að getnaður var mál karla en fæðing mál kvenna. Og konur voru ekki vanar að veita körlum nokkra inn sýn í þá veröld. Öðru nær. Við fæðingu voru karlmenn skilyrðislaust reknir á dyr, gott ef þeir urðu ekki að hafast við í útihúsum svo lengi sem kona var að fæða í bæjarhúsum.

En allt bjargaðist þetta nú samt þarna í tjaldinu í stórþýfða móanum. „Það skal, það skal,“ tautaði Ólafur við sjálfan sig og beit á jaxlinn meðan Sæunn hljóðaði og blóðið flaut. Þar kom að barnsgráturinn varð tvíradda, hann fór úr skyrtunni og vafði henni um blóðugt barnið og náði síðan í meira vatn í askinn og reyndi að lauga það. Vatnið var ískalt og strákurinn, því strákur var það, saup hveljur og emjaði þar til móðirin, svo máttfarin sem hún var eftir fæðinguna, bað hann í guðanna bænum að láta vera. Hann vermdi vatnið á höndum sér og reyndi að strjúka með þeim það mesta af barninu, fann svo þurra peysu og stakk því niður í hana og hnýtti ermarnar að því. Síðan reyndi hann eftir getu að verka af móður og reiðingsdýnu blóð, vatn og önnur ummerki fæðingarinnar.

Loks þegar höfgi sé á móður og barn, gat hann farið að hugsa um Málmfríði litlu.

Það rigndi alla nóttina og daginn eftir. Drengurinn virtist una vel heiðalífinu og sýndi engin merki þess að ætla að standa stutt við. En þó að Sæunn yrði fljótt heil eftir fæðinguna kom auðvitað ekki til greina að halda áfram um sinn, og nestið sem hjónin góðu á Hömrum höfðu búið þeim til fararinnar hlaut að ganga til þurrðar. Ólafur hlóð því byssuna um kvöldið og hvarf út í rigninguna í von um að komast í færi við fugl. Forsjónin leiddi hann fram á tvær endur sem syntu á grunnum stokki, og hann hafði þær báðar í einu skoti. En það var ekki nóg að skjóta tvær endur, það þurfti einnig að matreiða þær. Hann átti eldfæri í fórum sínum en engan pottinn, og svo hafði hann heldur ekkert tundur að kveikja upp með og auk þess voru öll sprek í mónum gegnumblaut. Hann reif þó upp nokkrar viðarrætur og hlóð saman blautum sprekum í köst, tók þurran torfusnepil úr reiðingsdýnunni og bjástraði lengi við að slá í hana neista. Seint og um síðir tókst honum að koma eldi í torfuna, en hann fékk ekki sprekin og ræturnar til að brenna. Í örvæntingu leysti hann utan af koffortinu og braut lok þess í spón. Það nægði til eldiviðar, við það steikti hann, eða kannski réttara sagt reykti hann endurnar og bar Sæunni á sængina.

Það rigndi líka allan næsta dag, það er með ólíkindum hvað mikið vatn getur fallið til jarðar. Og enginn veit, Pat mín góð, hvort við hefðum nokkurn tímann orðið til hefði ekki tilviljunin látið fjóra Skagfirðinga á suðurleið ríða fram á þetta litla tjald sem blátt áfram hristist af tvöföldum barnsgráti. Þetta voru herðabreiðir hávaðamenn sem höfðu ráðið sig um túnaslátt hjá Borgfirðingum. Þeir ráku hausana inn um tjaldopið og féll allur ketill í eld. Þeir voru vel nestaðir og höfðu mjólk á kút frá deginum áður. Þeir skildu eftir mjólkurkútinn og auk þess vænan hrútsmagál og pottbrauð og riðu síðan skæting niður að Narfastöðum, en eins og fyrr segir liggur sú jörð þar sem áður var þjóðbraut milli Suður- og Norðurlands.

Jakob sá með augun gráu af Suðurnesjum sem hafði lagst í sæng Jórunnar prestsekkju og drepið hundinn Kerberos forðum, og gott ef ekki hana líka, var nú löngu fluttur burt. Þar bjó þá vel stæð ekkja að nafni Þorbjörg ásamt Sigurjóni syni sínum. Hún var rómuð fyrir örlæti sitt og skapfestu og eru af henni margar sögur, sem ekki koma þessari við, nema hvað hún sendi vinnumenn sína tvo samdægurs norður á Þrískóaheiði með hesta, fatnað og matvæli til að sækja fólkið í tjaldinu.
(Híbýli vindanna, 99–101)

 

Við skulum halda svolítið áfram með Jón söng og Sigurbjörgu Steingrímsdóttur. Þau byggðu fyrst lítinn bæ í landi Þorvaldsstaða, sem er nálægt heiðinni, og þar vann Jón allt sem þurfti í sveitinni, gerði við brotin amboð og veiddi upp á hlut og gerði yfirleitt allt sem hann gat en það var lítið sem ekkert borgað. Við megum ekki gleyma að þetta er fyrir þann tíma að almenningur sæi pening. Þau fluttu seinna suður yfir Hvítá í gamalt eyðikot, Suddu, sem áður hét Hallvarðsstaðir og var í eigu Reykholts. Þau fluttu svo til Vesturheims 1899 með 16 ára dóttur, Þóru, og 12 ára son, Jóhannes, sem var undarlegur, eins og sagt var um þá sem áttu við andlega vanheilsu að stríða. Áður var Sigríður dóttir þeirra, sem ekki var kölluð Heiðar-Sigga, flutt vestur um haf. Það má sjá í pappírum hreppsins að það var fangaráð að senda fjölskylduna til Ameríku. Jón var þá hálfsjötugur og stutt í það að hann hætti að bjargast á eigin verkum, stúlkubarnið Þóra gat farið að hlaða niður ómegð þá og þegar og Jóhannes gagnslaus hálfviti.

Jón kom sér upp smiðju í Winnipeg og hélt þar áfram að smíða uns hann lést 82 ára. Þar fékk hann greitt fyrir vinnu sína, þótt honum ofbyði að taka pening fyrir að skerpa skauta. Það var nóg að taka einhvern aur fyrir að skerpa sagir skógarhöggsmanna, en skauta, nei þann smágreiða tekur maður ekki peninga fyrir! Sigurbjörg Steingrímsdóttir varð 97 ára og lifði eftir lát Jóns í skjóli Sigríðar dóttur sinnar. Þetta segir kannski betur en margt annað hver munur var á lífskjörum í Winnipeg og Suddu á þessum árum.

Þarna fáum við líka efni í aðra persónu, Jóhannes langafabróður minn sem álitinn var hálfviti. Við komum að henni síðar en skulum hafa Jens Duffrín hugfastan.

Til eru margar frásagnir af lífinu í Suddu sem ég kalla Seyru í sögunni. Þær eru um ýmsa karla og konur en það er mitt val sem rithöfundar að láta þær snúast um Ólaf fíólín. Ein þessara sagna var mér hugstæðari en margar aðrar, sagan um Elsabetu Sigfúsdóttur, síðari eiginkonu Ólafs fíólíns. Fyrirmynd hennar er kona úr Borgarfirði í gamla daga sem hét Guðrún Jónsdóttir. Hún átti barn með stjúpa sínum og fór auðvitað í tukthúsið fyrir. En alla ævi hélt hún upp á tugtmeistarann meira en aðra menn. Um það segir svo í Lífsins tré:

 

Þá var tugtmeistari, eða yfirfangavörður, Karl Magnús Stephensen, barnabarn Magnúsar konferenzráðs, og hafði í ríkum mæli erft mannvit, manngæsku og tónlistargáfu afa síns. Sá var forðum háttur á Íslandi að sýslumenn geymdu sjálfir sakamenn á heimilum sínum meðan þeir biðu skipa á Brimarhólm eða aftöku. Það var alsiða að láta þá vinna þau verk sem verst þóttu og óþrifalegust. Á dögum Múrsins illræmda voru fangaverðir drykkfelldir svolar, stundum fræg illmenni, og starf þeirra var meðal annars að berja fangana til einhverra þrældómsverka, raspa blankustein og rauðkrít, elta hrosshúðir eða þæfa vaðmál. Þótt landið væri tugthússlaust um skeið mundu menn samt fyrri háttu og þótti því sjálfsagt þegar Steinninn var tekinn í brúk að fangarnir væru látnir vinna sér til framfærslu. En Karl Magnús Stephensen tugtmeistari sagði að það væri ekki sama hvað fangarnir gerðu. Tugthúsið ætti að vera þeim betrunarhús, því skyldu þeir læra eitthvert gott og nytsamlegt handverk. Hann fékk til snikkara að kenna körlum að geirnegla hirslur og drauja pílára, þá lét hann einnig skómakara sem nýkominn var úr læri í Kaupmannahöfn kenna þeim að sníða leist og sóla. Til þeirra fáu kvenna sem gistu Steininn, sem flestar höfðu brotið það af sér að eignast börn með röngum karlmönnum, fékk hann lærða saumakonu að kenna þeim að halda rétt á nál til að bæta og bródera. Þá staðhæfði Karl Magnús Stephensen að fangarnir hefðu sál og þyrftu að hafa eitthvað gott að lesa og syngja. Tónelskur prestaskólapiltur tók að sér að kenna þeim svolítið að syngja svo þeir gætu raulað sálm á sunnudögum. Á jólum og páskum fékk Karl Magnús prest til að halda alvöru guðsþjónustu í sjálfum Steininum þar sem fangarnir meðtóku hold og blóð Herrans og sungu lofsöngva og messusvör. Það ofbauð mörgum og kölluðu argasta guðlast.

Slíkri dýrð til hugar og handa hafði Elsabet Sigfúsdóttir aldrei kynnst. Hún reyndist geta haldið rétt haganlega á nál, hún bað saumakonuna að kenna sér að sauma svolitla treyju á svo sem eins og sex mánaða gamla stúlku. Karl Magnús tugtmeistari útvegaði henni efni, sallafínt léreft úr hveitipoka og sagði að hún mætti eiga það. Þá kom einnig í ljós að hún hafði rödd sem gat sungið. Það hafði engum dottið fyrr í hug og allra síst henni sjálfri. Um jól hafði hún lært að syngja nýja þýðingu prestsins unga í Hrepphólum á sálminum gamla um barnið sem er í Betlehem fætt, því fagni gjörvöll Adamsætt. Hallelúja. Hún fékk kökk í hálsinn við tilhugsunina um þetta barn, því þótt það væri drengur þá hafði það litla fingur og litlar tær alveg eins og litlar stúlkur hafa og móðir þess var fátæk mær.
(Lífsins tré, 19–20)

 

Það er margt sem þarf að taka tillit til ef þið ætlið að segja sögu sem gerist á árunum frá 1870 til 1900. Við vitum svo sáralítið um kjör og örlög fólks á fyrri tímum. Við vitum til dæmis ekki að fátækt fólk á þeim tíma hafði ekki dúnhelt léreft til að gera sæng. Og hvað gerir maður þá?

Maður leitar. Það eru sem betur fer til ótal lýsingar á híbýlum fólks á fyrri tímum og þær gefa upplýsingar. Skinn. Eltiskinn. Það er ekki lengra síðan að allur almenningur svaf við eltiskinnssæng. Og sjómenn höfðu skinnbrækur og skinnstakka og skinnstígvél og mikið skinn-suðvest á höfðinu. En svo skemmtilegt er stolt þessarar þjóðar að hún kallaði sína granna í vestri skrælingja, skinnklæddar mannverur, til aðgreiningar frá sjálfri sér.

Allt slíkt verður rithöfundur að hafa í huga þegar hann vill lýsa mannlífi fyrri tíma og hann má aldrei hneykslast á gerðum fólks. Fólk bjargast. Og eins er um atburði svo skrýtnir sem þeir kunna að vera. Það er til dæmis staðreynd að breskur aðalsmaður fékk umboð bresku stjórnarinnar til að fylgjast með lífi innflytjendanna í þessari óhemju víðlendu nýlendu sem Kanada var, lord Dufferin, sem hafði ungur heimsótt Ísland og hafði mætur á landi og þjóð. Við skulum ekki taka bókstaflega bilun sextantsins og viðgerð Ólafs fíólíns á honum, en það var kjörið tækifæri til að láta Ólafi í té ferðafé til heimferðar eftir að hann hafði misst konu og barn í bólusóttarfaraldrinum sem reið yfir Nýja Ísland á öðru ári.

Vesturfarasögurnar

Mynd: RÚV

Og þar sem við erum komin til Kanada skulum við huga að þeirri persónu sem er fyrirferðarmikil í síðari helmingi sögunnar, Jens Duffrín. Hann er þar gerður að syni Ólafs fíólíns og Elsabetar Sigfúsdóttur sem eignaðist börn með stjúpa sínum. Lítum á hvernig honum er lýst:

Svo gerðist það öllum á óvart, árið sem Ólafur fíólín stóð á fimmtugu, að Elsabet fæddi barn.
„Og við sem vorum einmitt hætt að hafa áhyggjur!“
„Þokkalegur fjári ef karlinn ætlar að byrja á ný að hlaða niður ómegð í ellinni!“
„Kerlingin er í barneign lengi enn.“
„Hvar endar þetta?“
Það var sveinbarn og hún Elsabet, sem hafði að vísu eignast þrjár dætur áður en allar í meinum, réð sér varla af gleði yfir að fá að hafa hann hjá sér. Enginn gæti tekið hann frá henni. Enginn! Elsabet vildi að Ólafur réði nafni hans einn, og Ólafur valdi honum nafn föður síns og að auki nafn þess manns sem hann taldi öðrum mönnum göfugri og hafði hjálpað honum burt af landi dauðans þegar kröm hans og neyð var mest.
Jens Duffrín Ólafsson var ólíkur öllum börnum. Augun lágu djúpt undir framstæðum brúnum og það vantaði ofan á bæði eyrun en eyrnasneplarnir voru þeim mun síðari. Hann hvorki vældi né hrein eins og önnur börn, rómur hans var holur og dimmur og hann var með ólíkindum hávær. Hann var augasteinn móður sinnar, þó svo að hann lærði ekki að ganga fyrr en hann var tveggja ára og byrjaði ekki að mynda orð fyrr en hann var kominn á þriðja ár.
„Hann er svo skýr til augnanna,“ sagði móðir hans.
„Enginn vafi á því að það stórvantar í barnugluna,“ sagði fólk.
„Þetta er eins og umskiptingur.“
„Guð láti þeim ekki verða fleiri afstyrma auðið,“ bað fæðingarhreppurinn, og var bænheyrður.
Það dró mjög úr saumaskap Elsabetar við tilkomu Jens Duffríns. Hann var oft lasinn og óvær, það gróf í eyrum hans og hann var stöðugt kvefaður og auk þess þurfti að fylgjast vel með honum að hann færi sér ekki að voða. Það versnaði um allan helming eftir að hann fór að ganga. Hann var stöðugt að meiða sig og hrufla og var auk þess handóður. Hann datt í heita lækinn og skaðbrenndi sig, hann hljóp á ljá föður síns við heyskap og skar svöðusár á báða fætur, hann náði í eldiviðaröxina og hjó framan af bendifingri og löngutöng vinstri handar. Þar kom að það varð að hengja öll eggjárn og saumnálar í Seyru upp í rjáfur svo að hann stórskaðaði sig ekki.
„Það er augljóst að við fáum þau öll á hreppinn að lokum,“ sögðu menn áhyggjufullir. „Varla verður afglapinn þeim til framfærslu í ellinni. Nær hefði þeim verið að láta kjurt.“
„Ó, ekkí! Og ætli ekki það!“
(Lífsins tré, 28–29)

Við fylgjumst svo með Jens Duffrín í hópi annarra barna íslensku innflytjendanna í Winnipeg og það er erfið ganga. Svo erfið að Jens Duffrín verður loks öðru barni, Bill Christ, nær því að bana. Og þá er honum komið fyrir hjá Menonítunum í Steinbach sem er þorp mitt á milli Winnipeg og Gimli. Menonítar eru sérstakur sértrúarsöfnuður sem ástundar hreint líferni og fylgir boðskap Krists út í æsar. Auðvitað nota þeir eigin útleggingu á Biblíunni, taka Móse gamla bókstaflega þegar hann bannar að drepa mann. Þú skalt ekki mann deyða. Fyrir vikið lentu þeir í hrakningum í Hollandi, Þýskalandi og Rússlandi eða hvar sem þeir reyndu að festa sína byggð, því alls staðar voru þjóðhöfðingjar sem töldu það skyldu þegna sinna að fara í stríð við aðra þjóðhöfðingja og refsuðu þeim með lífláti sem þverskölluðust við svo sanngjarnri kröfu. En í Vesturheimi, Kanada og Bandaríkjunum var þessu breytt og þeim að vísu gert að fara í stríð en sem sjúkraliðum. Það var upplagt, þótti mér að minnsta kosti, að koma Jens Duffrín í dvöl hjá þeim. Og þar lærði Jens að tala ensku og margt annað. Ég veit ekki hvort þið hafið komið til Steinbach en ég hvet ykkur til að skreppa þangað. Þeir reka þar veitingahús þar sem hægt er að kaupa ljúffengar hrossakjötspylsur og fleiri rétti, og ef þið eruð heppin, til dæmis á uppskeruhátíð þeirra, fáið þið að sjá fyrsta traktor í Kanada fara í gang með dunum og dynkjum.

Jóhannes afabróðir minn er nokkuð skyldur Jens Duffrín, eða Jens Duffrín tekur margt eftir honum. Ég sagði að Jóhannes hefði verið álitinn hálfviti. Hann lærði til dæmis aldrei að lesa og skrifa, en í bréfi til föður míns, sem er skrifað með hendi annars manns og dagsett 1943, biður hann frænda sinn að útvega sér fæðingarvottorð sem hann álítur að hafi verið skrifað að Gilsbakka 1886 eða 1887 eða 1888. Í sama bréfi sendir hann stóra mynd af sjálfum sér.

Ég get fátt dregið saman með vissu um hann nema það að hann veit ekki fæðingarár sitt svona upp á hár og að hann hafði vinnu sem götusópari í Winnipeg. Frá annarri heimild hef ég líka að hann gekk marga þrautagöngu um dyr Gúllans. Fyrir þá sem yngri eru má upplýsa að Gúllinn var félagsheimili íslenskra bindindismanna í Winnipeg í byrjun 20. aldar. Þangað leiddu góðhjartaðir menn Jóhannes og þar var hann endurreistur eftir föll sem voru bæði mörg og stór. Manni dettur í hug ljóð Káins um 50 centa glasið sem var of lítið svo hann „tók upp aðra flösku og tappa úr henni dró / og tæmdi hana líka á augabragði“.

Eftir að Jens Duffrín yfirgefur Menóníta fer hann að vinna í sirkus og þar hittir hann íslensku stúlkurnar tvær, Wombu og Trombu. Þær eru báðar dvergvaxnar og ófrýnilegar í útliti en sökum vitsmuna sinna ráða þær miklu í sirkusnum.

Systurnar Womba og Tromba Iceland voru fæddar og uppaldar í borginni Duluth við vesturtotu Superiorvatns. Dulu kölluðu Íslendingar hana forðum á leið sinni vestur til Nýja Íslands. Um Duluborg lá forðum leið margra innflytjenda og sumir þeirra komust aldrei lengra. Þannig var um foreldra systranna, Salvöru Jónsdóttur og Svein Sveinsson frá Vopnafirði. Haustið 1882 voru þau á vesturleið á flótta eftir einhvern snjóþyngsta og versta hafísvetur nítjándu aldar. Í Dulu var þá fyrir hópur nokkurra ráðvilltra Íslendinga sem höfðu sannspurt frá Nýja Íslandi að þar væri lítt betra undir bú en á Gamla Íslandi. Fréttirnar um akurmoldina frjóu í Dakóta voru ekki komnar til Dulu svo Sveinn Sveinsson taldi óráðlegt að halda lengra vestur að sinni. Hann kom konu sinni, sem komin var nær falli, fyrir í höndum góðs fólks og munstraðist sjálfur á stafnhýling, enda vanur sjóvolki. Í vetrarbyrjun fæddi svo Salvör tvíburasystur smáar og nærstaddur meþódistaklerkur jós þær vatni og gaf þeim nöfnin Valgerður og Katrín. Þær voru í öllu velsköpuð börn, komu fljótt fyrir sig fótum og voru fljótar að læra að lesa og draga til stafs. En líkamsvöxtur þeirra gekk hægt. Þær voru ekki dvergvaxnar á þann hátt að hlutföll líkamans væru röng, höfuðið stórt og aflagað og líkaminn lýttur. Þær voru vel limaðar en heldur ófríðar í andliti, dökkar á hár og hörund og móleitar í augum. Þær urðu aldrei hærri en fjögur fet og tveir þumlungar, eða nálægt hundrað þrjátíu og fimm sentímetrum. Sökum smæðar sinnar sættu þær aðkasti annarra barna. Í barnaskóla meþódista í Dulu sköruðu þær fram úr öðrum börnum hvað bóklegar greinar snerti og þær lærðu fljótt að standa saman sem ein kona móti margnum. Þær urðu að lokum gjafvaxta meyjar, en enginn vestan vatnanna miklu varð til að biðja um hönd og hjarta þeirra Valgerðar og Katrínar. Þar vildu bændur eiga stórar konur og sterklegar, sem gætu jafnt alið hrausta syni og stýrt plógi. Um tvítugt voru þær enn heimasætur í húsi slitinna og biturra foreldra sem létu þær óspart heyra að þær yrðu þeim lítil stoð í ellinni.

Tilviljunin hagaði því þannig að þær urðu á vegi Francois Porte á vetrarflakki hans um heiminn í leit að skrýtnum þjóðflokkum að hafa til sýnis á sumarferðum Cirque International. Hann lofaði þeim eins og öðrum ævintýrum og ferðalögum, jafnvel peningum ef þær yrðu gott númer, og systurnar kvöddu foreldrahús við lítinn söknuð.
(Lífsins tré, 203–204)

Hér kynnuð þið að segja sem svo: „Miklu lýgur Böðvar, en þetta er einum of mikið.“ Svo er þó ekki. Um og fyrir aldamótin 1900 var sirkuslíf einmitt svona í Vesturheimi og ein íslensk stúlka, Ólöf Sölvadóttir sem var dvergvaxin, var hötuð af mörgum Vestur-Íslendingi fyrir framkomu sína. Hún tróð upp sem ekta eskimói, sagðist hafa hitt íslenska skipbrotsmenn og komist með þeim til hvítra manna og borist síðan til Kanada þar sem fólk hafði gaman af að hlýða á sögu hennar. Vestur-Íslendingar vissu fátt verra en að vera kallaðir eskimóar og urðu alveg æfir. En hvað skal gera? Því Kanadabúum af öðru sauðahúsi en íslensku, eða skandínavísku, þótti saga hennar spennandi. Upplagt hefði verið að nota sér góða bók Ingu Dóru Björnsdóttur um Ólöfu Sölvadóttir eða Olof Krarer, sem var eskimóanafn hennar, en hún kom því miður ekki út fyrr en 2004, tæpum áratug á eftir Híbýlum vindanna og Lífsins tré. En ég var svo heppinn að Sigurður Nordal hélt útvarpserindi um Ólöfu Sölvadóttur árið 1945 sem seinna var prentað og þá grein las ég sem krakki þótt mér sé ómögulegt að muna hvar.

Það skal tekið hér fram að Sigurður Nordal var fyrstur Íslendinga til að taka svari Ólafar og segja sögu hennar.

Það er naumast hægt að skrifa sögu innflytjenda án þess að minnast á þá stóru hindrun sem mál hins nýja lands er. Það er alkunna að fyrst til að auka orðaforða innflytjendanna eru þau verkfæri og aðrir hlutir sem ekki voru til í landinu sem innflytjendurnir komu frá; síðar fá verkfæri og atburðir sem innflytjendur þekktu einnig nöfn hins nýja lands. Hægt og hægt aðlagast hið upprunalega tungumál máli nýja landsins og hverfur loks. Þó ekki alveg sporlaust, eitt og eitt orð lifir, eins og „amma“ í máli leigubílstjórans sem ég gat um. Ég fer ekki langt út í þá sálma en þó verður það að vera þarna. Ég læt til dæmis Walther Christ, föður Bill Christ sem Jens Duffrín næstum banar, segja að það sé lítið gagn í þeim uppeldisaðferðum sem leyfa hvorki að hitta börn né bíta. To hit them or beat them. Það er einhvern veginn, fannst mér og finnst enn, of mikið til af slíkum sögum. Eiginlega nægir ljóð kanadíska skáldsins Guttorms Guttormssonar, Winnipeg Icelandic. Og það er líka meistarasmíð, ég leyfi mér að tilfæra fyrsta erindi þess eftir minni:

Ég fór oní Main Street með five dollars check
og fyrir það rifle ég kaupti,
og ride útá country með farmara fékk
og fljótt útí brusshin ég hlaupti,
og þar sá ég moose, útí marshi það lá,
oh, minde, eina sticku ég brjótti
svo það fór á gallop, no good anyhow,
was gone þegar loksins ég skjótti.

Og þá erum við komin þangað sem verður að finna endi á sögu. Það vafðist talsvert fyrir mér hvernig skal enda sögu sem aldrei endar? Því saga íslensku innflytjendanna í Kanada og Bandaríkjunum endar auðvitað aldrei. Eftir mikil heilabrot fannst mér að fiðlan væri sá hlutur sem tengdi saman upphaf og endi þessarar sögu. Og fiðluna varð að finna – eða hvað? Ég skrifaði fyrst endi þar sem fiðlan var glötuð að eilífu og það var ómögulegur endir, það sagði konan mín og þar sem hún er sjálf fiðluleikari varð ég að taka mark á því. Endirinn er því eins og hann er og þið megið alveg segja að hann sé ómögulegur, honum verður ekki breytt héðan af. Ég endaði söguna með því að sögumaðurinn Ólafur Tryggvason er að syngja ásamt frænku sinni, Sieglinde Futterknecht-La Bas, og gamla fiðlan sem konungurinn, Jörundur hundadagakonungur, gaf Jens Ólafssyni hljómar með, leikin af frænda hans Andrew Callagan. Og það fær sögufólkið til að rísa úr sínum gröfum og fylla salinn í Centenennial Concert Hall:

Já, ég var ekki alveg með sjálfum mér á þessari frumsýningu og ég gerði það sem atvinnumaður alls ekki má, ég fór að skima fram í salinn eftir fólki. Mér fannst einhvern veginn að þarna hlyti að sitja hópur fólks sem ég þekkti. Allt fólkið í bréfunum gömlu, fólkið sem ég hafði aldrei séð með eigin augum, var risið upp úr skókassanum og sat þarna einhvers staðar í myrkrinu. Þarna sat Ólafur fíólín með eiginkonur sínar, Sæunni og Elsabetu, við hlið hennar sat Jens Duffrín, þarna var Hákon frá Beylubúð, Páll og Gróa frá Skuggadal, Auðunn og Málmfríður með börnin í prúðri röð, Sighvatur Þingmann og frú Lára, Joe Olson og Lobby Miner, Ruth og Jacob Flinck og Womba og Tromba og allt hitt bréfafólkið mitt. Jafnvel Jón gamli Eyjólfsson hafði gert sér dagamun og skroppið í óperuna, hann sat horaður og sköllóttur á áttunda bekk og horfði með dálítilli óbeit á allan drykkjuskapinn á sviðinu. Þegar ljósin voru kveikt í salnum undir framkallinu sá ég þau svo greinilega hvert einasta eitt.
(Lífsins tré, 318)