Word > Edit > Insert symbol > White Star

Eftir Egil Bjarnason

Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2016

Hvernig varð bókagagnrýni að föndurgerð í ritvinnsluforriti? Skáldsaga, fimmtíu og tvö þúsund orð, [1] dregin saman í þrjú atkvæði. Fimm stjörnur. Tvær stjörnur. Hauskúpa. Þessi skraut – eða skemmdarverk – eru leiðarstjörnur fyrir viðtökur og vegferð höfunda, einkum ungra.

Án þess að nokkur viti hvað mælistikan þýðir.

Hér á eftir verður fjallað um stjörnugjafir íslenskra bókagagnrýnenda í fimm þáttum. Fyrstur er Gunnars þáttur Egilssonar.


„Ert þú að fletta upp þúsund bókagagnrýnum til þess að sýna fram á að Gunnar Smári hafi rangt fyrir sér?“ spurði kunningi á 3. hæð Þjóðarbókhlöðunnar þegar ég reyndi að útskýra uppsafnaðan stafla af gömlum dagblöðum.

Ég hafði rekist á Gunnar Smára á Kaffihúsi Vesturbæjar og borið uppá hann þetta framlag til íslenskrar bókmenntaumfjöllunar; að hafa sem ritstjóri dagblaðsins Pressan innleitt stjörnugjafir í bókagagnrýni árið 1992.

„Það getur vel verið að ég hafi byrjað á þessu.“ Hann snéri sér að gestum á næsta borði. „Getur einhver hérna svarað mér þessu: Hvernig er nýjasta Star Wars myndin?“

„Góð,“ svaraði yngsti kaffihúsagesturinn.

„Þetta þýða þrjár stjörnur,“ sagði hann að bragði. „Hvernig er kaffið? Gott? Við erum alltaf að gefa hlutum einkunn – stjörnur. Bækur eru ekki frábrugðnar öðrum neysluvörum.“

Stjörnugjafir eru þannig þjónusta við lesendur dagblaða sem þurfa í amstri dagsins að velja bækur handa sér og öðrum. Þær eru, einsog Kristján frá Djúpalæk skrifaði um sjálfa Pólstjörnuna, „besti vinur þess, sem gengur myrkvað land“.

Þessi röksemdafærsla hvílir á hæpnum forsendum. Gjaldmiðillinn er ekki tengdur við gullfót. Kerfið býr að innbyggðum hvata til að prenta stjörnur umfram tilefni. Þetta var það sem ég vildi sagt hafa við Gunnar Smára en skorti til þess empiríska vissu. Eftir að hafa flett upp 1161 bókadómi og slegið inn tölustafi í samræmi við stjörnufjölda, frá einum upp í fimm, [2] er tilgátan staðfest; því fyrirferðarmeiri sem stjörnugjafir hafa orðið í umfjöllun um bækur, því ómarktækari eru þær sem vísir að bókagæðum.

Star Wars getur líka þýtt stjörnustríð.

Upphafsmenn þessara fimmhyrndu gæðastimpla eru vertar í hótelrekstri. Í hótelgeiranum eru stjörnur ígildi tékklista. Hver stjarna afmarkar mögulega innviði og þjónustu, án þess að segja til um gæði, svo sem hvort hótelsundlaugin er þrifin eða starfsmenn allsgáðir. En ferðamaður í leit að gistingu gengur að vísindalegri mælingu sem hægt er að afsanna, að minnsta kosti þegar kemur að húsakosti (lyfta ✓ míní-bar ✓ o.s.frv.).

Í bókmenntum er þessi sami einkunnaskali algjör andstæða vísindalegrar mælingar. Þegar gagnrýnendur á Morgunblaðinu fengu fyrirmæli um stjörnugjafir árið 2008 fylgdi engin skilgreining á mælistikunni eða hvað blaðið teldi æskilegt meðaltal. [3] Einsog kennarar þekkja, er yfirleitt auðvelt að bera kennsl á það besta og versta. Mestu vafamálin eru í hlíðum kúrfutoppsins, hvort verk er fyrir neðan meðallag eða í meðallagi. Skólaverkefni fjalla þó um afmarkað efni sem gerir öll viðmið sanngjarnari. Hjá bókagagnrýnendum er allt í einum potti. Dæmi um þriggja stjörnu bókmenntaverk eru Wuthering Heights eftir Emily Brontë, [4] Óreiða á striga eftir Kristínu Marju Baldursdóttur [5] og Suarez – sjálfsævisaga eftir Luis Suarez [6] knattspyrnumann. Og dæmi um fjórar stjörnur: Manndómsár eftir Leo Tolstoy, [7] Skipulag alheimsins eftir Stephen Hawkings [8] og Eitt skot eftir Lee Child. [9] Til þess að skilja dómana skortir lesanda allar forsendur. Verk Brontë og Tolstoy hafa lifað bókmenntasöguna í 150 ár. Er verið að bera þau saman við heimsbókmenntir, fagurbókmenntir samtímans eða hreinlega bækur almennt?

Tölulegar aðferðir eru gagnlegur vísir að mælanlegum hlutum. Sem innihaldslýsing á bókum eru þær með öllu ófullnægjandi. Rithöfundar eru, með orðaforða stofnanamáls, framleiðendur á upplifun (að undanskyldum höfundi símaskrárinnar). Og upplifun viðtakandans – lesandans – ræðst af reynsluheimi. Frásögn getur framkallað nýja sýn á viðfangsefni eða orðað hugmyndir á slíkan hátt að hughrif brjótast fram. Frumleiki er kostur en um leið oft vanþróaðasti hluti verksins. Bók er konfektkassi þessara hughrifatilrauna. Við eigum okkar uppáhalds mola en erum sjaldnast innt eftir einu lýsingarorði eða einum tölustaf til að lýsa öllum konfektkassanum. Slíkur dómur myndi í raun ekki segja neitt. Það bendir enda margt til þess að gagnrýnendur hafi strax fyrsta árið fórnað höndum. Af þeim 65 bókum sem voru til umfjöllunar hjá Pressunni fyrir jólin 1992 fengu 19 fullt hús. [10]

Blaðið birti hinsvegar lykil að stjörnustikunni, þann eina sem birst hefur í íslenskum fjölmiðli eftir því sem næst verður komist:

Hauskúpa: Afleitt verk. Ber að forðast.
Ein stjarna: Verk fyrir neðan meðallag. Líklega ráðlegt að eyða ekki tíma sínum í það.
Tvær stjörnur: Meðallagi gott verk.
Þrjár stjörnur: Prýðilega gott verk og vel þess virði að komast yfir það.
Fjórar stjörnur: Frábærlega gott verk sem enginn ætti að missa af. Kannski meistaraverk en tíminn verður þó að skera úr um það. [11]

Raðbreyturnar eru semsagt í upphafi aðeins 5. Með öðrum orðum var ekki hægt að fá hálfar stjörnur líkt og nú. Helmingaskiptin gera stjörnustikuna að 10 punkta skala; meðaltal verður helmingurinn af 5, táknað með 2,5 stjörnum. Þannig (samkvæmt skilgreiningu) þýða 3 stjörnur „gott“, 3,5 stjörnur „mjög gott“, 4 stjörnur „mjög mjög gott“, 4,5 stjörnur „mjög mjög mjög gott“, 5 stjörnur „mjög mjög mjög mjög gott“. Hver er munurinn? Allur og enginn. Gagnrýnendur eru enda gjarnan ósamstíga þegar kemur að því að meta vægi stjarna. Árni Matthíasson er nískasti stjörnugjafi landsins og gefur að meðtali þrjár stjörnur. Samstarfsmaður hans á Morgunblaðinu, Einar Falur Ingólfsson, er mun stjörnuglaðari og gefur að meðaltali fjórar, samkvæmt samantekt. Án þess að leggjast beinlínis í heimildavinnu eru lesendur grunlausir um þetta ólíka verðmat.

Á meðfylgjandi línuritum má sjá hvernig stjörnugjafir hafa þróast á Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og DV undanfarin tíu ár. Blöðin eru æ meira ósamstíga og gjafmildari.

Eða fara bækur einfaldlega batnandi? Launasjóður rithöfunda er digrari en áður, með 555 mánaðarlaun til úthlutunar, samanborið við 456 mánaðarlaun árið 2005. Átján prósent útgjaldaaukning hefur væntanlega einhver áhrif á listsköpun í landinu en varla á þeim mælikvarða sem hér er til umræðu. Nýliðar í bókaútgáfu ættu að vera líklegastir til að njóta góðs af auknum útgjöldum. En að sama skapi eru yngri höfundar líklegri til að fá hauskúpu eða álíka viðtökur fyrir verk sín.

Sennilegri skýring er annars konar nýliðun. Nýliðun meðal gagnrýnenda. Árið 2009 skáru Mogginn og Fréttablaðið menningardeildir niður í eitt pósthólf og gerðu listgagnrýni að hjáverkum ritstjórnarskútunnar. Á dögum Lesbókar Morgunblaðsins voru hátt í 60 bókagagnrýnendur á launaskrá en það breyttist með einu pennastriki. [12] Skortur á innleggi bókmenntafræðinga eða annarra menntamanna þarf ekki að vera galli í sjálfu sér. Góður gagnrýnandi er polymath, fjölfræðingur með öruggt tak á penna, fær um að setja tiltekið verk í stærra samhengi. Lélegur gagnrýnandi fylgir þeirri formúlu að endursegja söguþráð og tilkynna síðan hvort bókin hélt athygli hans eða ekki (það er altso inntakið þó að niðurstöðurnar séu yfirleitt orðaðar öðruvísi). Ef bækur fá að meðaltali 3.6 stjörnur – ríflega stjörnu ofar hinu raunverulega meðaltali – er ljóst að hjarðhegðun og fúsk einkenna vinnubrögðin. Fyrir Guðberg Bergsson eru þetta engin tíðindi. Árið 1982 skrifaði hann í Tímarit Máls og menningar: „Gætið að hvernig dagblöðin eru uppfull af miðstéttarlegu spjalli, skrifuð fyrir fólk sem virðist í eilífu kaffihléi, þar sem vaðallinn freyðir.“ [13]

Öfugsnúið hrun

Meðalfjöldi stjarna í bókadómum íslenskra dagblaða frá 2005–2014, samkvæmt samantekt greinarhöfundar. Árið 2010 skáru blöðin niður útgjöld til menningarmála og gerðu bókagagnrýni að hjáverki fastráðinna blaðamanna. Línuritið sýnir afleiðingarnar.

Samantekt mín náði ekki til ljósvaka- og netmiðla. Þar er gæðaeftirlitið líklega minna, allavega ef marka má yfirlýsingar á auglýsingum um bækur. Kannski ekki furða. Fimm stjörnur eru ekki síður auglýsing fyrir gagnrýnandann sjálfan þegar þeim er skellt fram í leturstærð tvöhundruð. Í blaðaauglýsingum fyrir síðustu jól voru dæmi um að stjörnur væru fyrirferðarmeiri en titill bókar. [14] Kostulegast var að sjá bækur skreyttar með stjörnum um fyrri verk höfundar, líkt og þær væru andi sem fylgdi rithöfundi milli verka. [15] Bókaauglýsingar í aðdraganda jóla bera þess skýr merki hvernig stjörnugjafir hafa þróast frá aukaatriði í aðalatriði.

Til eru stórstirni sem skyggja á stjörnur.

Þegar starfsmenn Bókamarkaðsins í Perlunni opnuðu dyrnar einn fimmtudag árið 2012 biðu tveir viðskiptavinir á húninum. Án þess að bjóða góðan daginn sögðu þeir: Hvar er hann, þessi Stubbur?! Og Palli?! Stubbur og Palli var einn í heiminum hafa verið fáanlegar á íslensku í 75 ár en aldrei tekið annan eins sölukipp. Yfirleitt seljast um 50–70 eintök á Bókamarkaðnum. Þessa viku fóru hátt í fjögur hundruð eintök af hvorri bók. [16] Skýringin: Sjónvarpsþátturinn Kiljan og Kolbrún Bergþórsdóttir.

Ef stjörnur réðu öllu um bóksölu á Íslandi væru Gyrðir Elíasson og Jón Kalman Stefánsson söluhæstu höfundar landsins. Bækur þeirra fá að meðaltali 4.75 stjörnur, samkvæmt samantekt. Á meðan fá metsöluhöfundarnir Arnaldur Indriðason og Yrsa Sigurðardóttir mjög misjafna dóma. Bækur Arnaldar fá að meðaltali 3.65 stjörnur, örlítið hærra en bækur Yrsu, með 3.25 stjörnur (með fyrirvara um að einungis tuttugu stjörnugjafir liggja til grundvallar þessum meðaltölum). Í raun má segja að ónæmastir fyrir einstakri gagnrýni séu höfundar sem eru frægir á ákveðnu sviði, hvort sem það er fyrir ævisagnaritun, glæpasögur, barnabækur, teiknimyndasögur eða lífstílsrit. Hugleikur Dagsson fær til dæmis að meðaltali litlar 2,8 stjörnur fyrir bækur sínar en getur tæpast kvartað yfir slæmum viðtökum á þeim.

Eðli málsins samkvæmt vegur gagnrýni þyngst hjá yngri höfundum sem þurfa mest á umfjöllun að halda. Eftir að Pressan, Helgarpósturinn og þorir-þegar-aðrir-þegja DV lögðust til hinstu hvílu, hefur ekkert dagblað lagt í vana sinn að gefa minna en tvær og hálfa stjörnu. Annað er frávik. Ýktari spönn fyrrnefndra blaða, þar sem viðtökurnar eru ýmist í ökla eða eyra, skerpa greinileg skil milli eldri og yngri höfunda, sem fá að jafnaði lakari viðtökur. Hvort þau sanna hið fornkveðna að æfingin skapi meistarann skal ósagt látið. Atvinnustéttir rithöfunda og gagnrýnenda eru með varnarþing í prímtölupóstnúmerum Reykjavíkur. [17] Með ákveðnum rökum mætti segja að báðir hópar hefðu hag af skjallbandalagi. Þessu er jafn erfitt að slá föstu og því hversu mikil áhrif stjörnugjafir hafa raunverulega á sölutölur bóka. Árangur í bókaútgáfu er oftar en ekki hending. Hver hefði svo sem getað spáð sigurför litabóka á íslenskum metsölulistum síðasta árs?

Tilfinningaleg áhrif gagnrýni geta þannig verið öllu augljósari en markaðsleg. Sjálfsævisagan Stúlka með höfuð lýsir hvernig starfsánægja rithöfundarins Þórunnar Erlu- Valdimarsdóttur sveiflast með viðtökum gagnrýnenda hverju sinni. Hauskúpan sem Þórunn fékk frá Kolbrúnu Bergþórsdóttur fyrir fyrstu skáldsögu sína, Júlíu, hefur ekki enn yfirgefið hennar eigin höfuð. [18] Í blaðaviðtali árið 1995 sagði Þórunn að gagnrýni dagblaðanna skipti rithöfunda máli „því það eru svo margir sem frétta af henni en fáir sem lesa sjálf verkin“. [19] Og fyrir skemmstu viðurkenndi Jóhanna Kristjónsdóttir að hún hefði hætt að skrifa eftir slæma gagnrýni. [20] Játningar sem þessar eru fáheyrðar. „Ég held að rithöfundar vilji oft ekki gefa gagnrýnendum vald yfir sér með því að viðurkenna áhrif þeirra,“ segir Auður Aðalsteinsdóttir [21] en hún mun síðar í þessum febrúarmánuði verja doktorsritgerð sem ber heitið „Ritgerð um ritdóma“.

Allt til ársins 2006 giltu sömu lögmál um stjörnugjafir hér og annars staðar á Vesturlöndum: Þær voru nær eingöngu samkvæmisleikir síðdegisblaða. Þann 14. nóvember 2006 breyttist það með tilkynningu á blaðsíðu sjötíu í Fréttablaðinu. Þar voru þrjár málsgreinar um þessa nýjung: „Öll stærri dagblöð vestanhafs og austan bjóða uppá þjónustu af þessu tagi [og] hér á landi hefur stjörnugjöf tíðkast á fjölda miðla.“ [22] Fyrri fullyrðingin, um að stjörnugjafir tíðkist á stærri dagblöðum „vestanhafs og austan“, er hálfsannleikur. [23] Sú síðari, um þá hefð fjölda miðla hér á landi, er líka afbökuð. Til þessa dags átti stjörnugjöf sér eingöngu fordæmi á dagblöðum sem voru stofnuð eða stýrt af Gunnari Smára Egilssyni. Og þáverandi ritstjóri Fréttablaðsins var … Gunnar Smári Egilsson.

En það væru léleg félagsvísindi að eigna einum manni samfélagshefð. Hvergi annars staðar en á Íslandi fylgja öll dagblöð og vikurit þessari megindlegu aðferð í bókmenntaumfjöllunum og því eðlilegast að leita í jarðveg bókaþjóðarinnar. Hér á landi er bókaverslun án hliðstæðu. Á hverju ári koma út um eitt þúsund bókatitlar, flestir á síðasta ársfjórðungi. Fæstir Íslendingar hafa tíma til að setja sig inn í framboðið áður en þeir aka inn kaupakerrunni framhjá bókahlaðborði matvöruverslana í leit að jólagjöf. Líftími bóka er þannig ekki ósvipaður bíómynd í kvikmyndahúsi; jólin eru liðin hjá eða myndin komin úr sýningu þegar maður loksins hittir einhvern sem hefur lesið eða séð tiltekið verk. Á öðrum árstímum berast meðmæli okkur til eyrna frá vinum og kunningjum, þeim hópi sem helst mótar smekk hvers og eins.

Meðalfjöldi stjarna í bókadómum á Morgunblaðinu og Fréttablaðinu frá 2006–2014, samkvæmt samantekt greinarhöfundar. Samstíga í fyrstu.

Gagnrýnendur vísa því veginn fyrir jólin vegna annríkis annarra og nota til þess óstaðlaðan mælikvarða á óstaðlað fyrirbæri. Vilji ritstjórar á annað borð halda í þetta kerfi, og um leið trúverðugleika fjölmiðils síns, þurfa þeir að bregðast við einkunnabólgu í stjörnugjöfum með breyttu verklagi. Til þess að samræma vægi einkunna mætti jafnvel hugsa sér að stjörnugjöf væri alfarið í höndum menningarritstjóra sem myndi einfaldlega túlka ritdóma og gefa stjörnufjölda eftir bestu getu. Fyrsta skrefið væri þó að skilgreina stjörnustikuna og negla niður æskilegt meðaltal.

Það segir sína sögu um mælieininguna, að þær leitarvélar sem ég prófaði við heimildavinnuna vísuðu einungis á virta og nördalega stjörnufræðinga. Efnið er lítið rannsakað, innan sem utan háskólaveggja, erlendis jafnt sem hér heima. Samt eru allar þær 3981,5 stjörnur sem liggja til grundvallar þessari athugun öllum aðgengilegar. Og sömuleiðis hauskúpurnar fimmtán, formalínaðar á tímarit.is. Með þessum gögnum til grundvallar fær pósitívisminn að kenna á eigin meðulum, vonandi til gagns og gamans, sem ábót í hinu eilífa kaffihléi.

 

 

 

Tilvísanir

 1. Skv. Bókatíðindum 2015 voru íslensk skáldverk að meðaltali 263 blaðsíður. Varlega áætlað gera það yfir 52 þúsund orð eða 300 þúsund slög.
 2. Bókadómar í dagblöðum (ekki vikublöðum, tímaritum eða netmiðlum) frá árinu 1992–2014. Úrtakið náði til allra (stjörnu)dóma frá 1. nóvember – 23. desember ár hvert.
 3. Steinunn Inga Óttarsdóttir. 2015. Viðtal höfundar við Steinunni Ingu Óttarsdóttur, fyrrverandi gagnrýnanda á Morgunblaðinu, 12. nóvember.
 4. Óperustórar persónur á heiðarbýli.“ 2006. Ómerktur ritdómur um Wuthering Heights eftir Emily Brontë í þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur. Fréttablaðið, 14. nóvember.
 5. Elísabet Brekkan. 2007. Ritdómur um Óreiða á striga eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Fréttablaðið, 5. desember.
 6. Orri Páll Ormarsson. 2014. Ritdómur um Suarez eftir Luis Suarez. Morgunblaðið, 17. nóvember.
 7. Einar Falur Ingólfsson. 2014. Ritdómur um Manndómsár eftir Leo Tolstoy. Morgunblaðið, 14. nóvember.
 8. Baldur Kristinsson. 2011. Ritdómur um Skipulag alheimsins eftir Stephen Hawkins. Morgunblaðið, 20. desember.
 9. Steinþór Guðbjartsson. 2012. Ritdómur um Eitt skot eftir Lee Child. Morgunblaðið, 14. desember.
 10. Mold í Skuggadal eftir Gyrði Elíasson, Raddir í garðinum eftir Thor Vilhjálmsson, Hundshjarta eftir Mikhaíl Búlgakov, Zombíljóðin eftir Sigfús Bjartmarsson, Minn hlátur er sorg eftir Friðriku Benónýsdóttur,
 11. Heimskra manna ráð eftir Einar Kárason, Tröllakirkjan eftir Ólaf Gunnarsson, Sykurmolarnir eftir Árna Matthíasson, Jón Þorláksson eftir Hannes Hólmstein Gissurarson, Stúlkan í skóginum eftir Vigdísi Grímsdóttur, Ódysseifur eftir James Joyce, Á Svörtuhæð eftir Bruce Chatwin, Litli skógarbjörninn eftir Illuga Jökulsson, Milli vita eftir Þorstein Marelsson, Sæfarinn sofandi eftir Þorstein frá Hamri, Galdrar á Íslandi eftir Matthías Viðar Sæmundsson, Klakabörnin eftir Lindu Vilhjálmsdóttur, Dómsmálaráðherrann eftir Guðjón Friðriksson,
 12. „Stjörnugjöf.“ 1992. Pressan, 19. nóvember.
 13. Þröstur Helgason. 2015. Viðtal höfundar við Þröst Helgason, fyrrverandi menningarritstjóra Morgunblaðsins, 27. desember.
 14. Guðbergur Bergsson. 1982. „Gagnrýni á gagnrýnina“ Tímarit Máls og menningar 43, 5: 559.
 15. Blaðaauglýsingar um Stóra skjálfta eftir Auði Jónsdóttur til dæmis. Ein slík birtist á bls. 14 í Fréttatímanum 18. desember 2015.
 16. Sjónvarpsauglýsingar um Geirmundar sögu heljarskinns eftir Bergsvein Birgsson var skreytt stjörnum sem höfundur hafði fengið fyrir allt aðra bók.
 17. Erlendur Daníelsson. 2015. Viðtal höfundar við Erlend Daníelsson hjá Bókaútgáfunni Björk, 2. desember.
 18. „Þiggjendur listamannalauna eftir búsetu.“ 2013. Viðskiptablaðið, 10. mars.
 19. Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir. 2015. Stúlka með höfuð. Reykjavík: JPV.
 20. Þórunn Erlu- Valdimarsdóttir. 1995. „Ástarbréf og ævintýrasigling.“ Vikan 57,1: 11. Viðtal eftir Gerði Kristnýju.
 21. Jóhanna Kristjónsdóttir. 2014. „Einmana skautadrottning með rithöfundadraum.“ Fréttablaðið, 25. október. Viðtal eftir Friðriku Benónýsdóttur.
 22. Auður Aðalsteinsdóttir. 2016. Viðtal höfundar við Auði Aðalsteinsdóttur doktorsnema við Háskóla Íslands, 6. janúar.
 23. „Gagnrýni og stjörnugjöf.“ 2006. Fréttablaðið, 14. nóvember.
 24. Samkvæmt upplagstölum frá 2006 voru stærstu dagblöð „austanhafs“ Bild-Zeitung, Sun, Daily Mail og loks Daily Mirror. Hvergi stjörnugjafir (nema á bíómyndum). Á meðan voru stærstu dagblöð vestanhafs Wall Street Journal, USA Today, New York Times og LA Times. Meðal þeirra var – og er – USA Today eitt um stjörnugjöf á bókum. Á þessum árum voru það fyrst og fremst götublöð á Norðurlöndunum sem gáfu stjörnur í bókaumfjöllun.