Örlög danska barnabókahöfundarins Ole Lund Kirkegaard

eftir Þórarin Leifsson

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2013.

 

Þórarinn Leifsson

Þórarinn Leifsson / Mynd: Gassi

Ole Lund Kirkegaard var einn af merkustu barnabókahöfundum Dana. Gagnrýnendur hlóðu hann lofi frá fyrsta degi og bækur hans seldust í milljónum eintaka. Þær hafa verið þýddar á u.þ.b. þrjátíu tungumál en meðal Íslendinga er Gúmmí-Tarzan langþekktust. Höfundarverkið varð ekki stórt, sjö stuttar skáldsögur og slatti af handritum fyrir barnasjónvarp, en allt varð það til á örfáum árum, eða frá því að Ole var uppgötvaður í smásagnasamkeppni 1966 og þar til hann lést á hörmulegan hátt tólf árum síðar.

Örlög Ole Lund Kirkegaard voru að mörgu leyti tragíkómísk. Barnabókahöfundur sem fór í hundana á örfáum árum, líkt og rokkstjarna, á meðan fjölmiðlar héldu dauðahaldi í ímyndina um grandvara barnakennarann með Sherlock Holmes-pípuna.

Eftirá urðu margir til að spyrja sig hvernig maður sem elskaði lífið jafn innilega og Ole Lund Kirkegaard gat misst tökin á því jafn gjörsamlega og raun bar vitni.

Ég ólst upp í Kaupmannahöfn á þeim árum þegar stjarna Ole Lund Kirkegaard skein hvað skærast. Þetta var tími Kristjaníu, Glistrups og Gasólín. Kynin runnu saman í eitt og engin leið að þekkja stelpur og stráka í sundur í skólanum. Þetta var einnig tími róttækni og pólitískrar rétthugsunar með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgdu. Ég var einlægur aðdáandi Ole Lund í barnaskóla en það er fleira sem tengdi okkur saman. Við áttum til dæmis sama afmælisdag.

Ole fæddist 29. júlí 1940. Hann ólst upp í Skanderborg á Jótlandi á venjulegu borgaralegu heimili. Mamman vann heima og pabbinn rak litla tannlæknastofu sem úreltist smám saman því hann var nokkuð drykkfelldur. Þess utan var mikil áfengismenning í fjölskyldunni, hvert tækifæri notað til að skála og vín ávallt á boðstólum fyrir gesti og gangandi.

Þrátt fyrir skugga áfengisneyslu átti Ole yndislega æsku þar sem hann, bróðir hans og aðrir félagar léku lausum hala í sveitasælunni. Æskuárin voru augljós uppspretta sagna um baldna drengi sem skutu upp kollinum í bókum hans seinna meir.

Í grunnskóla átti Ole nokkuð erfitt uppdráttar, eins og landi hans H.C. Andersen, enda hálfpartinn orðblindur og lélegur í stafsetningu. Þetta virðist þó ekki hafa háð honum að ráði því nokkrum árum síðar var hann búinn að skrá sig í framhaldsskóla í Árósum. Á meðal skólafélaganna þar þótti Ole snjall og uppátækjasamur. Hann myndskreytti skólablaðið Parnas með dúkristum í anda Picassos og skrifaði absúrdleikrit sem hann lék í sjálfur ásamt vini sínum Ulf Pilgaard, sem varð seinna þekktur leikari í Danmörku. Íslendingar hafa séð honum bregða fyrir á skjánum stöku sinnum, núna síðast sem herra Króna í Borgen vorið 2012.

Í vinahópi Ole sveif andi bítnikka yfir vötnum, klíkan setti djass á fóninn og las Hemingway og James Joyce spjaldanna á milli. Orð og myndir áttu að flæða ósjálfrátt úr vitundinni og listamenn að fórna sér algjörlega fyrir listina: lifa hátt, deyja ungir.

Ole teiknaði og málaði eins og hann ætti lífið að leysa. Myndefnið var oft spænskir stríðshanar í kúbískum stíl eða flöskur á borði. Stærsti áhrifavaldurinn var Picasso og því engin tilviljun að leiðin lá suður á bóginn þegar Ole lagðist í flakk með einum vina sinna sumarið 1958.

Félagarnir ætluðu að þefa uppi staði þar sem Van Gogh, Cézanne og Picasso höfðu lifað lífinu lifandi. Þeir ætluðu á puttanum og í París stóð til að gerast götumálarar en ekki er vitað hvort varð úr því. Ole skráði samviskusamlega alla fundi við áhugaverða karaktera í dagbókina sína: „Mætti fínum flakkara fæddum í Englandi, það eina sem hann átti voru fötin sem hann var í og pakki af hollensku tóbaki.“ Ferðalagið breyttist í svaðilför þegar ferðalangarnir voru rændir aleigunni í almenningsgarði í París. Þeir fengu far út úr borginni norður á bóginn og komust aftur í álnir í Hollandi þar sem Ole hélt upp á 18 ára afmælið sitt í faðmi fjölskyldu frá Súmötru.

Á næstu árum átti Ole eftir að fara í einar þrjár menningarreisur suður til Spánar, þráðbeint í fótspor Hemingways. Hann kunni sögu Hemingways „Og sólin rennur upp“ (The Sun Also Rises, 1926) utanbókar, hún var orðin nokkurs kona biblía unga bítnikkans og fylgdi honum alla tíð. Það var því engin tilviljun að Ole skyldi drífa sig í árlegt nautahlaup á San Fermínhátíðinni í Pamplona sem er stórhættulegur viðburður þar sem mannýg naut fá að hlaupa tæpan kílómetra um þröngar götur borgarinnar og fífldjarfur almenningur fylgir þeim hluta af leiðinni. Á hverju ári slasast nokkrir eða eru jafnvel reknir í gegn.

Ole hljóp vænan spotta áður en hann stökk yfir girðingu í skjól og gat þannig sagt frá því seinna að hann hefði dvalið heilar tvær mínútur í veröld Hemingways – og komist lífs af.

 

Sjómaður – kennari – hermaður – kennari

Eftir að Ole útskrifaðist úr framhaldsskóla réð hann sig um borð í fraktara. Nú skyldi siglt um heimsins höf í leit að ævintýrum. Tvítugur stúdentinn komst þó aldrei lengra en að ströndum Suður-Ameríku, sárþjáður af sjóveiki. Í bréfi sem hann skrifaði vini sínum frá Púertó Ríkó undir lok ferðarinnar sagðist Ole örmagna, ekkert kætti hann lengur, hvorki drykkja né félagsskapur gleðikvenna. Sig sárlangaði heim svo þeir gætu farið á fyllerí saman. Þetta var dæmigert bréf frá Ole. Hann sendi vinum sínum oft myndskreytt bréf þar sem hann hvatti þá til drykkju. Stundum stutt skilaboð í símskeytastíl: „Til Andrésar frá Ole. Sendu tafarlaust flösku af wiský. Verður að vera komin laugardag. Útskýri betur síðar.“

Ole var sumsé snemma búinn að þróa með sér rónarómantík eins og það er stundum kallað að dást að örlögum glataðra snillinga. Þessa rómantík hafði hann sumpart fengið með móðurmjólkinni en núna blandaðist hún hugmyndum Hemingways og fleiri samtímamanna um upphafningu vímunnar í nánast trúarlegar hæðir. Víman átti að losa um eitthvað órætt sem leyndist í innsta eðli manneskjunnar. Þess utan átti karlmaður að geta skvett í sig endalausu magni af áfengi. Ole og félagar hans drukku því frá morgni til kvölds hvenær sem tækifæri gafst til. Kvikmyndastjarnan Humphrey Bogart hneppti að sér regnfrakkanum, stakk upp í sig filterslausri sígarettu og hvæsti: „I don’t trust a man, who doesn’t drink.“

Ole Lund Kirkegaard

Ole Lund Kirkegaard

Að loknu misheppnuðu slarki á sjó fór stúdentinn að vinna sem afleysingakennari. Reynslan af sjónum hafði opnað augu hans fyrir fleiri möguleikum í lífinu. Kannski var ekkert erfiðara að eiga við börn í skólastofu en fúla karla úti á rúmsjó. Auk þess virtist kennaranám auðvelt og fljótlegt, hann nennti ómögulega í langt framhaldsnám. Ole var rétt byrjaður í kennaranámi þegar hann var kallaður í herinn sumarið 1963. Hann átti eftir að verja land og þjóð gegn yfirvofandi austur-þýskri innrás í tvö ár.

Á þessum árum var Víetnamstríðið enn ekki farið að breyta hugsunarhætti fólks og innan við hundrað skrópagemlingar reyndu að komast undan herskyldu árlega. Ole var himinlifandi yfir herkvaðningunni. Auðvitað vildi hann gegna herskyldu eins og Hemingway. Herinn fyrir sitt leyti sá strax liðþjálfaefni í hinum ákafa unga kennaranema. Ole gekk svo vel og fékk svo góðar einkunnir að fljótlega var splæst lautinants-titli á drenginn.

Gamlir skólafélagar þekktu bítnikkinn Ole varla lengur á götu, snoðaðan í stífpressuðum einkennisbúningi. Kannski var þetta síðasta tilraun Ole til að stramma sig af, bæla niður listrænt eðli og aðra demóna sem leyndust innra með honum. Örfáum árum síðar hafði hann hrist hermennskuna rækilega af sér og var orðinn hippi með hatt og skegg. Og þá var komið að félögum úr hernum að glenna upp augun á mannamótum.

 

Kennarahjón úti á landi

Ole Lund Kirkegaard og Anne Lise Bang Clausen giftu sig sumarið 1964 eftir að hafa verið sundur og saman í hálfan áratug. Þegar Ole heillaðist af dökkhærðri stelpu í menntaskóla óraði hann ekki fyrir að þau ættu eftir að eignast tvær stelpur og að hún myndi hafa talsverð áhrif á feril hans, ekki síst eftir að hann var allur. Þegar hann bað hennar hafði hann orð á því að sennilega yrði hann ekki langlífur, hann vildi nefnilega deyja ungur, alveg eins og Hemingway. Anne Lise var af íhaldssömu fólki komin, faðir hennar var mótfallinn því að hún giftist listaspíru og faðir Ole fannst tilvonandi tengdadóttir helst til tepruleg. Á endanum var því hvorugum föðurnum boðið að vera viðstaddur brúðkaupið. Brúðkaupið sjálft var í anda bítnikka, gestirnir klæddir svörtu frá toppi til táar, ekki ein einasta hvít skyrta mátti sjást.

Ári eftir brúðkaupið voru ungu hjónin komin með ágætis kennarastöður í smábænum Oue á norðanverðu Jótlandi og bjuggu í lítilli íbúð í sjálfu skólahúsinu. Bæði skörtuðu þau kennaraprófi. Anne Lise með viðbót í leiklist en Ole átti skírteini frá hernum sem gaf honum rétt á að meðhöndla handsprengjur á lokuðu æfingasvæði. Kennarahjónin eignuðust fljótlega tvær dætur, þær Mayu og Nönu, með nokkurra ára millibili. Litla fjölskyldan lifði eins og blómi í eggi.

Á þessum árum voru miklar hræringar í skólamálum í Danmörku. Aðeins örfá ár voru liðin síðan kennurum var meinað að leggja hendur á nemendur og nú snerist allt um endurskipulagningu og sameiningu smærri skóla í stærri einingar. Ole var mikið á móti þessum sameiningum, mottóið hans var „skapandi starf“, frasi sem virðist margtugginn á okkar tímum en var jafn glænýr og ferskur og Bítlarnir árið 1965.

Hann lét börnin búa til risastórar indíánagrímur úr pappamassa og útbúa prentað vikublað sem þau sömdu sjálf. Eitt sinn bauð hann róna í nokkurs konar starfskynningu í skólann, landshornaflakkara sem skömmu síðar varð fyrirmynd að karakter í Virgil litla (1967). Þegar áhyggjufull húsmóðir spurðist fyrir um kennsluaðferðir hins unga Ole Lund Kirkegaard var hann ekki lengi að svara: „Sjáið þér til, frú Pedersen, maður þarf ekkert að kenna börnum. Þau finna örugglega út úr þessu sjálf. Alveg eins og frummenn.“

Það voru fleiri en frú Pedersen sem voru forvitnir um nýja yfirkennarann. Eitt sinn reyndi hópur bæjarbúa að gægjast inn um glugga kennarabústaðarins svo lítið bæri á. Þá tók Ole sig til og hélt hattasýningu: birtist í hverjum glugga eins og tuskudúkka með ólíka hatta á höfðinu.

Ole var sérlega fær í að meðhöndla drengi sem í dag væru eflaust greindir með athyglisbrest og ofvirkni. Þetta voru einstaklingar sem þurfti nánast að bera í skólann, sumir þeirra áttu eftir að ganga aftur sem grallaraspóar í bókinni um Albert (1968). Reynslan úr hernum nýttist Ole þegar hann læddist aftan að skrópagemlingum úti á víðavangi og lét þá lesa upphátt. Eða klifraði á eftir þeim upp í trén. Umsagnir hans voru skrifaðar af húmor og virðingu fyrir barninu: „Jakob er ekki eins góður við bækurnar sínar og hann ætti að vera.“

Eitt sinn ákvað bekkurinn að kanna hvort hægt væri að ganga rækilega fram af þessum ofurfrjálslynda kennara. Krakkarnir hlóðu borðum og stólum fyrir dyrnar að íbúð hans svo hann kæmist ekki inn í skólaálmuna. Ole lét þetta ekki slá sig út af laginu heldur skreið inn um glugga stofunnar og hélt áfram að kenna eins og ekkert hefði í skorist.

 

Rithöfundur

Sumarið 1966 hófst rithöfundarferill Ole Lund Kirkegaard með talsverðum hvelli. Þetta sumar varð þessi skrautlegi yfirkennari í Oue 26 ára gamall, sama dag og sá sem hér skrifar fæddist á Landspítalanum í Reykjavík.

Ferillinn hófst þegar Anne Lise kom með þau boð til eiginmanns síns að tveir ábúðarfullir náungar frá „Politiet“ biðu hans í forstofunni. Fljótlega kom í ljós að mennirnir voru ekki á vegum lögreglunnar heldur stórblaðsins Politiken. Ole hafði unnið keppni um sögu fyrir börn á aldrinum 7–15 ára með frásögn um dreka. Sagan vakti talsverða athygli og ekki leið á löngu þar til forlagið Gyldendal var búið að tryggja sér útgáfusamning við þennan hæfileikaríka kennara.

Virgill litli (1967), fyrsta skáldsaga Ole, kom út ári eftir að hann vann keppni Politiken. En það munaði minnstu að hún kæmi aldrei í búðir. Tveimur af virtustu yfirlesurum Gyldendal þótti hún of óhefðbundin og þeir mæltu ekki með útgáfu. Það sama var uppi á teningnum þegar Albert var skoðuð ári seinna. Yfirlesurum forlagsins þótti textinn ófyndinn, rembingslegur og pirrandi. Og þegar Fúsi froskagleypir (1969) kom í búðir trylltist prestur á Suður- Sjálandi; hann skrifaði langa grein með beinum vísunum í texta bókarinnar sem átti að sanna að danskar barnabókmenntir væru á leið í hundana. Ole svaraði greininni glæsilega í löngu máli. Hann sagðist fullviss um að guð fyrirgæfi Fúsa froskagleypi og þar með höfundinum sjálfum.Þrátt fyrir álit yfirlesaranna sló Virgill litli í gegn svo um munaði. Hæfileikar Ole til að setja sig inn í hugarheim ungra lesenda og hinar stórskemmtilegu teikningar hans gerðu hann fljótt mjög vinsælan. Sögurnar fjölluðu næstum alltaf um börn sem áttu í einhverjum vandræðum með foreldra sína og aðra fullorðna. Þau leystu svo málin með uppátækjasemi og stuðningi frá einhverjum utanaðkomandi.

Vinsældir Ole Lund Kirkegaard urðu til þess að fjölmiðlar tóku að sitja um hann. Hann varð strax virkur í menningarumræðunni og óþreytandi við að útskýra sjónarmið sín í viðtölum og ögrandi yfirlýsingum. Menn áttu að sleppa hugmyndafluginu lausu, veita brjálæði og litum inn í líf sitt. Fullorðnir væru í raun skíthræddir við stjórnlaust ímyndunarafl smáfólksins og helsta áskorun fullvaxta manns fólst í því að verða ekki of fullorðinn. Auk þess þurfti maður helst að vera geðveikur til að geta skrifað almennilega fyrir börn. Furðulegar kenjar barna, eins og að heimta að grænt tré væri dregið inn í stofu um miðjan vetur, voru til vitnis um það hversu klikkuð börn gátu verið. Þau gátu meira að segja líka verið ill.

Ole var á móti siðavöndum barnabókum fyrri kynslóða þar sem einfaldar myndir góðs og ills voru dregnar upp. En hann var varla byrjaður á þessu uppgjöri þegar sósíalrealismi áttunda áratugarins knúði dyra með talsverðum þunga. Í umfjöllun um barnabókmenntir á þessum árum féllu gjarnan gullkorn á borð við: „Góð barnabók spyr pólitískra spurninga og gefur sósíalísk svör.“

Ole var í sjálfu sér ekki á móti pólitískum bókum en stjórnmál voru í hans huga ekki vafstur þingflokka heldur það að taka persónulega afstöðu í hverju máli fyrir sig. Það yrði að sýna veruleikann frá öllum hliðum. Hann upplifði sig strax þarna – og kannski alla tíð – sem utangarðsmann, utan við straum pólitískrar rétthugsunar.

Þegar Ole var spurður um ferlið við að skrifa bók sagðist hann ekki skrifa fyrir börn heldur sjálfan sig, hann gæti ekki annað. Hann hefði engan áhuga á að skrifa fyrir fullorðna. Tilurð bókar lýsti hann þannig að hann teiknaði og skrifaði samhliða. Ósjálfrátt krot og krass varð að karakterum og sögum. Þegar hann sæti við að teikna eða skrifa væri eins og hann sæti við brunn draumanna; væri heppnin með honum gat hann veitt þaðan brot úr sínu upprunalega sjálfi og ef þessi brot voru lögð saman gat hann séð hver hann var í raun og veru. Á þessu má sjá að sögurnar komu ekki auðveldlega til hans.

Picasso hafði kennt Ole að snúa veröldinni á haus til að komast nær kjarnanum og tæma sig, skrifa þangað til engin hugmynd var eftir í kollinum. Til Hemingways sótti hann þá hugmynd að textinn væri eins og ísjaki, undir yfirborðinu leyndist hafsjór upplýsinga. Í fljótu bragði virtist texti hans vera ótrúlega einfaldur en að baki lá margra mánaða yfirlega. Galdurinn fólst í því að einfalda og þétta textann án þess að þynna út söguna. Ef textinn spannaði fimmtíu síður hafði hann skrifað tíu sinnum meira og öll ónauðsynleg orð verið skorin burt. Burt skyldi glæsileiki, skraut og kaldhæðni sem börn skildu ekkert í.

 

Gullkálfur Gyldendal

Áttundi áratugurinn var gullöld danskra barnabókmennta, ekki síst af því að dönsku bókasöfnin voru í miklum vexti og keyptu mikið af nýútkomnum bókum.

Þess vegna varð Ole Lund Kirkegaard fljótlega einn af gullkálfum forlagsins Gyldendal sem vildi skiljanlega hamra járnið meðan það var heitt og lagði hart að honum að dæla út hugmyndum að nýjum bókum. Gyldendal fékk sitt og gott betur. Bók eftir Ole Lund Kirkegaard seldist jafnan í 5–6000 eintökum í fyrsta upplagi, síðan fylgdu stöðugar endurprentanir árin á eftir. Þegar Ole mætti á aðaljárnbrautarstöðina í Kaupmannahöfn, hreinn og strokinn með handrit í fórum sínum, biðu hans tvær gerðarlegar konur úr barnabókaritstjórn Gyldendal. Konurnar tóku hvor undir sinn handlegg skáldsins og báru hann á milli sín, framhjá hlandstinkandi knæpunum og hórunum á Vesturbrú yfir í virðulegar höfuðstöðvar Gyldendal hinum megin við Tívolí. Því handritið mátti umfram allt ekki týnast á vertshúsi. Ole varð háður þessari vernd, stundum hringdi hann á undan sér og bað um að vera sóttur, svo hann myndi ekki falla fyrir freistingum.

Í lok sjöunda áratugarins hafði hann gefið út fjórar bækur á jafn mörgum árum og var með svo mörg járn í eldinum að meira að segja ritstjórnin átti erfitt með að fylgjast með. Hann hafði meðal annars fengið Bókmenntaverðlaun menningarmálaráðuneytisins fyrir Albert (1968), ærslasögu undir áhrifum frá bókum Marks Twain um Tuma og Stikilsberja-Finn. Þá bók mátti með góðum vilja túlka sem óð til frelsis hippaáranna.

Síðan kom ógnvaldurinn mikli, Fúsi froskagleypir (1969), og því næst bókin um Hodja og töfrateppið (1970). Sagan um Hodja hafði orðið til í ferðalagi fjölskyldunnar til Marokkó árið áður og því engin furða að þar gætti talsverðra áhrifa frá Þúsund og einni nótt. Drengurinn Hodja var einn heilsteyptasti karakter sem Ole náði að skapa. Frásögnin var í sígildum stíl meðan fyrri bækur höfundar höfðu byggst meira upp á röð atburða.

Á eftir Hodja kom Ottó nashyrningur (1972) sem fræðingum hefur þótt vera bein vísun í hugmyndir hippanna um byltingu borgaralegs samfélags. Nashyrningur verður til úr teikningu barna og fellur á milli hæða. Skapvonda löggan sem hefur allt á hornum sér í upphafi sögu umturnast og verður að afslöppuðum hippa í lokin. Allir verða vinir í allsherjar kommúnu sem leiðir óneitanlega hugann að fríríkinu Kristjaníu sem varð til um svipað leyti og handrit Ole um nashyrninginn.

Auk bókanna skrifaði Ole röð frásagna fyrir danska ríkisútvarpið sem sumar hverjar áttu eftir að koma út á prenti eftir að hann var allur. Við þetta bættust handrit að jóladagatali sjónvarpsins og stúss við leikhús í Árósum. Loks voru upplestrarferðir farnar að taka sinn toll. Fyrir utan alla þessa vinnu við skriftir og upplestra þurfti að sinna kennslu, mæta á foreldra- og samráðsfundi og bregðast við árásum skólastjóra í næsta bæjarfélagi sem vildi sameina skóla skáldsins sínum eigin og koma þannig frjálslegum kennsluaðferðum Ole Lund fyrir kattarnef. Fyrrum nemandi Ole átti eftir gera þessum átökum nokkur skil í kvikmyndinni Drømmen (2006). Á endanum varð álagið af öllu framantöldu of mikið. Haustið 1973 flutti fjölskyldan í annan smábæ, sunnar á Jótlandi. Nú skyldi hefja nýtt líf.

 

Gúmmí-Tarzan

Um miðjan áttunda áratuginn fór Ole að gremjast sá einsleiti búningur sem Gyldendal bjó bækur hans í, þær virkuðu eins og stöðluð söluvara sem ætti að höfða bæði til hinna fullorðnu kaupenda og neytendanna: barnanna. Fyrstu fimm bækur hans líktust seríu þegar þær stóðu saman í hillunni og aðeins mynd á kápu og litir voru mismunandi. Þessi mikla áhersla á notendavæna hönnun fór í taugarnar á honum.

Gummi-Tarzan (1975)

Gummi-Tarzan (1975)

Af þessum ástæðum lét Ole talsvert að sér kveða þegar kom að hönnun og umbroti Gúmmí-Tarzans (1975). Hann vildi brjótast út úr skapalóninu. Bókin var í minna broti en hinar, með heildarlit sem náði yfir alla kápuna.

Gúmmí-Tarzan var listilega þétt saga þar sem flóknar senur voru dregnar upp með örfáum orðum. Nostur Ole við þéttingu texta náði nýjum hæðum, frásagnaraðferðin nálgaðist myndasöguformið með talblöðrum, örvum og fjölbreyttri týpógrafíu. Ritstjórn Gyldendal rambaði á barmi taugaáfalls þegar höfundurinn heimtaði að öllum löngum orðum yrði skipt upp með svífandi punkti. Slíkt hafði ekki sést áður og þótti fulltilraunakennt. En Ole gaf sig ekki. Ekki heldur þegar þýski útgefandinn vildi breyta endinum sem honum þótti allt of sorglegur. Bókin endar á því að söguhetjan er komin á sama stað og í upphafi bókar, aftur orðin að vesalingi eftir að hafa verið sterkari en Tarzan. Þetta þótti fullþungur boðskapur fyrir unga þýska lesendur eftirstríðsáranna. Þessu svaraði Ole með þeim orðum að þýska útgáfan yrði þá bara að frestast um sinn því það kæmi ekki til greina að skrifa hamingjuríkan endi. Það kæmi engin góð norn og hjálpaði til ef maður kynni ekki að lesa. Það yrði alltaf hörkupúl að læra það en ef fólk hjálpaðist að þá hefðist það kannski – en ekki undireins. Ole leyfði sumsé engar málamiðlanir og bókin kom út á þýsku þrátt fyrir allt.

Gúmmí-Tarzan varð seinna meir langþekktasta verk Ole Lund Kirkegaard. Tvær bíómyndir hafa verið gerðar eftir henni, nú síðast þrívíddarteiknimynd sem varð að heita Gúmmí-T (2011) vegna einkaréttar Disney á vörumerkinu Tarzan.

Um það leyti sem Gúmmí-Tarzan kom út var ég að leita að myndasögum í fornbókabúð við Trianglen. Eða hímdi á bókasafninu beint á móti ameríska sendiráðinu og las Tinna og Ástrík á dönsku og allt sem kom út eftir Ole Lund, auk bannaðra frásagna af hroðalegum glæpum, myndskreyttra með máðum svarthvítum ljósmyndum. Íslensku las ég ekki en pabbi las fyrir mig Grettissögu, Sálminn um blómið og Góða dátann Svejk. Þess utan var ég að leika mér við hina krakkana í húsinu, njósna um allsbera hippakommúnu uppi á lofti, skrúfa niður nafnaskilti og fela þau eða stríða húsverðinum þangað til hann elti okkur öskrandi út á götu. Tilvera okkar barnanna var speglun á bókum Ole Lund um Albert og Virgil litla. Og á hverju horni leyndist Fúsi froskagleypir í gervi stórhættulegra síðhærðra manna í leðurjökkum sem við kölluðum „Rokkara“.

Ole Lund Kierkegaard og dæturnar tvær

Ole Lund Kierkegaard og dæturnar tvær, 1973

Flóðhestur á heimilinu (1978) var síðasta bókin sem kom út eftir Ole meðan hann lifði. Þetta átti upprunalega að vera myndabók því Ole hafði dreymt um að gefa út þannig verk í fjórlit frá því að Gyldendal hafnaði fyrstu tillögu um slíkt í upphafi ferils hans, enda sá útgáfan ofsjónum yfir kostnaðinum. En bókin sem átti upphaflega að vera í fjórlit var á endanum prentuð í svarthvítu með einum rauðum aukalit. Hún var of stutt til að verða eins og fyrri bækur höfundar og of löng til að verða hrein myndabók. Auk þess vantaði einhvern kraft í frásögnina, hún varð eins og útþynnt bergmál af Ottó nashyrningi.

Ole Lund Kirkegaard var í krísu. Það kom hik í höfundarverkið sem varð að stöðnun síðustu árin sem hann lifði. Hann gat ekki sagt nei við nýjum verkefnum og átti jafnframt æ erfiðara með að fá nýjar hugmyndir. Angistin magnaðist. Svo rammt kvað að ritstíflunni að hann var farinn að kvarta undan henni í blaðaviðtölum. Að skrifa og skapa krafðist mikils, sagði hann. Líf rithöfundar væri ekki dans á rósum.

Þegar Ole var að ljúka við Gúmmí-Tarzan hafði hann farið að gefa einum yfirlesara sinna auga. Þetta var Lena Andersen í barnabókadeildinni, ein úr fríðum hópi kvenna sem höfðu sótt hann margoft á aðalbrautarstöðina. Samband þeirra átti eftir að endast í þrjú ár og Lena átti íbúð á Austurbrú sem varð að ástarhreiðri þegar Ole var í bæjarferð. Á þessum árum var í tísku að vera í opnu sambandi. Því var ekkert skrítið að Ole þætti lítið mál að drífa kærustuna með sér í sveitina til Anne Lise og stelpnanna endrum og eins þótt þeim heimsóknum væri afar illa tekið af húsfreyjunni.

Þegar leið á samband Lenu og Ole tóku berin að súrna. Lena fór að rekast æ oftar á skáldið að sofa úr sér eftir fyllerí þegar hún kom heim úr vinnunni. Eina nóttina hringdi Ole og grátbað Lenu um að koma til sín suður á Spán. Hún var þó varla lent þegar hann fór að veita nokkrum sænskum stelpum meiri athygli en henni. Þess utan kneyfaði hann koníak stíft frá því að hann vaknaði og þangað til slokknaði á honum um hádegið. Í eitt skipti hvarf hann í heilan dag en hafði skilið eftir miða sem á stóð: „Það eina sem ég óska mér er dauðinn.“

Seinna sagði Lena Andersen frá því að henni hefði virst Ole verða æ óhamingjusamari á þessum árum. Eitthvað braust um í honum, það var eins og hann vissi ekki lengur hvað hann vildi. Gúmmí-Tarzan, sagan um drenginn sem verður ofurhetja í einn dag, speglaði á vissan hátt líf örvæntingarfulls höfundar sem deyfði sig með áfengi. Ole virtist þrá að brjótast út úr hlutverki fyrirmyndarkennarans í tvídjakkanum með pípuna og eina sjáanlega leiðin var að halla sér að flöskunni. Sálarstríð Ole birtist greinilega í sögu sem hann skrifaði fyrir tímarit en kom síðar út undir nafninu Kalli kúluhattur (Tippe Tophat):

„Það var bara sá galli á gjöf Njarðar að alls enginn vildi vera með í nýjustu sögu skáldsins. Allir sem hann þekkti sögðu nei við þátttöku: Við viljum ekki vera með í þessari asnalegu sögu þinni, sagði fólk. Við nennum ekki að eyða tíma í svona fíflalæti. Og nú sat gamla skáldið þarna og var ósköp dapurt.“

Laust fyrir árslok 1977 birtist allt í einu opnuviðtal í slúðurblaði við drykkjuþrútinn Ole Lund Kirkegaard sem var staddur í kokkteilboði hjá Gyldendal. Barnabókahöfundurinn sagðist vera búinn að gefa skít í allt, hann hefði fengið kennarastöðu í Nuuk. Nú átti aldeilis að upplifa eitthvað nýtt og fá innblástur. Burt frá öllu. Burt frá væntingum annarra. Þegar rann af Ole tókst konu hans tiltölulega auðveldlega að telja hann af svaðilför til Grænlands um miðjan vetur.

Um svipað leyti og Ole hætti við Grænlandsför flutti ég heim til Íslands og upp í sveit. Fantasíuheimi Ole Lunds var skipt út fyrir raunsæi kúasmalans. Íslensk börn áttu ekki að ímynda sér einhverja furðuheima heldur læra nöfnin á hólunum í kringum bæinn, vakna í fjósið, bera júgursmyrsl á beljurnar, smala rollunum og bera hey úr hlöðunni. Á kvöldin voru myndskreyttar ærslasögur víðs fjarri en í stað þess komnar dularfullar gulröndóttar bækur um hin fimm fræknu, ennþá furðulegri bækur um Basil fursta sem var í Lundúnum að tala við einhverja Lafði. Og svo Nonnabækurnar og Alistair MacLean. Þetta var svo sannarlega menningarsjokk fyrir sveimhugann frá Kaupmannahöfn.

 

Leiðin til glötunar liggur gegnum auglýsingastofur

Haustið 1977 hætti Ole alveg að kenna til að geta helgað sig ritstörfum. Hann gat leyft sér það því bækur hans seldust vel auk þess sem hann fékk ritlaun frá ríkinu. Þetta voru hugsanlega verstu mistökin á ferlinum því nú var aðaluppspretta innblástursins farin; börnin í skólastofunni.

Auk þess átti Ole erfitt með að lifa lífinu án stundaskrár. Í stað gefandi skoðanaskipta við ungviðið tóku við upplestrarferðir og enn meira sukk. Og þrátt fyrir lausn frá skólaskyldum fékk hann lítinn frið í sálinni. Það þrengdi nefnilega að honum úr öllum áttum. Ekki var nóg með að Gyldendal legði hart að honum að skrifa meira og hann væri á kafi í handritsgerð fyrir jóladagatalið í sjónvarpinu, nú var hann kominn í slagtog við auglýsingastofur í herferðum fyrir ýmis góð málefni.

Fyrst voru það plaköt í herferð gegn krabbameini, síðan risaherferð gegn tóbaki. Maðurinn sem lét helst aldrei taka af sér mynd nema með pípu í munnvikinu átti nú að semja og teikna áróður á móti reykingum. Uppistaðan voru fimmaurabrandarar og sjálfsparódískar myndir af reykjandi kennurum. Eldri reykingamenn úr ætt Fúsa froskagleypis reyndu að spilla ungviðinu:

„Nú áttu að fá þér að reykja, vinur.“

„Neibs, ég vil heldur fara út að kíkja á dömur.“

Undir lok samstarfsins fór Ole að láta sig hverfa. Það reyndist ómögulegt að ná í hann. Þegar það tókst loks stakk auglýsingastofan upp á að hann bæði einfaldlega um meiri tíma ef hann væri í vandræðum með að skila af sér. Hann svaraði stuttur í spuna: „Nej, det er for meget.“ Það útleggst sem: „Nei það er einum of,“ og hægt að túlka það á ýmsa vegu.

Ole náði aldrei að klára síðasta hluta herferðarinnar, því var reddað í umbroti. Hálfu ári eftir andlát hans var 500.000 litprentuðum bæklingum dreift í skóla við mikinn fögnuð nemenda.

Það er freistandi að velta vöngum yfir því hvort tóbaksherferðin hafi átt sinn þátt í því að rugla enn frekar sjálfsmynd Ole Lund Kirkegaard. Hann sem hafði alla tíð verið á móti pólitískri rétthugsun og því að predika yfir hausamótum lesenda var á góðri leið með að verða æðstiprestur heilsuræktar.

Fullnuma drykkjumaður

Ole fór að gefa sig allan í drykkjuna. Hann ræktaði núið sem aldrei fyrr. Reykti eins og strompur, drakk eins og rotþró, vakti allar nætur. Þegar hann var fullur átti hann til að gera allt vitlaust: ráðast inn í stofu nágrannans og mála yfir myndir með lakki, klifra allsber upp í tré eða splæsa Spánarferð á vini sína.

Ole Lund Kirkegaard

Ole Lund Kirkegaard

Núna var Ole orðinn að fullnuma drykkjumanni. Þegar hann var ekki að leita að felustöðum fyrir vínflöskur sem konan hans fann jafnóðum og fyllti af vatni, þá hjólaði hann um sveitirnar í leit að kaupmönnum sem þekktu hann ekki svo enginn gæti séð hvað hann hamstraði mikið af áfengi. Þegar lá sæmilega á honum fór hann í reiðtúra á hestinum Kika sem hann hafði gefið eldri dóttur sinni. Loks kom að því að Anne Lise lét leggja skáldið inn á geðdeild eftir að hann hafði fengið tremma. Afvötnunin byrjaði ekki vel því Ole reyndi að hoppa út um gluggann fyrsta daginn. Síðan lá hann inni í viku og var kominn í heldur betra skap undir lokin. Dvölin endaði svo með því að hann sjarmeraði sig út úr viðtali við geðlækni.

Eftir þetta reyndi Anne Lise að stýra drykkju Ole með antabusi. Þá upphófst ægilegt tímabil með deilum um hvenær ætti að taka lyfin og hvenær ekki. Loks gafst Anne Lise upp, heimtaði skilnað og flutti í næsta bæ með stelpurnar í lok ársins 1978 en Ole leigði lítið hús fimm eða sex kílómetra frá þeim uppi á lítilli hæð fyrir ofan þorpið Breth.

Nú var hann endanlega farinn í hundana. Hann bjó einn, átti hvorki konu né kærustu, gat ekki klárað neitt, var löngu hættur að reyna að skila af sér á réttum tíma og átti í verulegum vandræðum með að klára bókina um Fróða og grislingana. Þetta átti að vera krimmi fyrir börn en hann var í mesta basli við að binda endahnút á söguna.

Ole hafði engan áhuga á að sýsla með peninga þannig að þrátt fyrir ágætis tekjur af bóksölu var hann orðinn mjög blankur. Fyrir vikið neyddist hann til að halda áfram að fara í upplestrarferðir sem var ekki lítið mál fyrir mann sem var farinn að drekka sig fullan áður en hann las upp.

 

Síðustu sólarhringarnir

Veturinn 1978–79 var óvenju kaldur og snjóþungur í Danmörku. Upphafið að fimm ára kuldaskeiði. Heima hjá Ole var engin almennileg upphitun og ekki svo mikið sem sími.

Úr húsinu uppi á hæðinni hafði hann útsýni yfir kirkju, þjóðveg og lítinn bæjarkjarna. Dætur hans, Maya og Nana, voru orðna ellefu og níu ára gamlar þegar hér var komið sögu. Þær áttu að vera hjá pabba sínum nokkra daga í viku. Þetta voru nöturlegar heimsóknir. Karlinn var ekki búinn að taka upp úr kössunum. Stelpurnar voru látnar sofa á dýnum í risastóru herbergi á fyrstu hæðinni sem var að öðru leyti tómt. Herbergið við hliðina var hins vegar fullt af flöskum. Ole drakk aldrei fyrir framan dæturnar en þær vissu alveg hvað var í gangi. Hann las eitthvað upp úr texta sem hann var að vinna að. Stundum sofnaði hann út frá lestrinum. Í einni heimsókninni ætlaði hann að elda ofan í stelpurnar en sofnaði á gólfinu í miðju kafi. Eitt sinn héldu þær að hann væri dáinn. Það hafði kviknað í teppi úr gerviefni þegar lampi féll í gólfið. Þeim tókst í sameiningu að slökkva eldinn en síðan sofnaði Ole svo fast að þær héldu að hann væri látinn. Eldri stelpan fann hjól bak við húsið og ætlaði að hjóla niður að símaklefanum í þorpinu til að hringja í mömmu þeirra og segja henni að þær þyrftu að komast heim því pabbinn væri dauður. Þegar hún fann svo símaklefann var hún ekki með klink á sér og endaði á því að hjóla þá sex kílómetra sem eftir voru heim til mömmunnar.

Daginn sem Ole dó gekk hann niður í þorpið til að versla. Svo fór hann á krána og settist að áti og drykkju með öðrum gestum. Þegar hann kvaddi stuttu fyrir lokun virtist hann ekkert sérstaklega drukkinn. Seinna sýndu sporin í snjónum að hann gekk beint inn í kirkjugarðinn í stað þess að beygja upp hæðina heim til sín eins og hann var vanur. Hann getur hafa ætlað að stytta sér leið í gegnum garðinn en þó er mun líklegra að honum hafi einfaldlega orðið illt. Heilsu hans hafði hrakað mikið vegna drykkju og það hefur verið mikið sjokk fyrir veikburða líkamann að koma út í frostið eftir setuna inni á heitri kránni.

Morguninn eftir þegar grafarinn kom að læstri kirkjunni sá hann að einhver hafði reynt að brjótast inn í hlýjuna. Kirkjuhurðin var útötuð í frosinni drullu, sparkað hafði verið í hana og klórað. Loks hafði viðkomandi skriðið í burtu. Grafarinn elti slóðina fyrir horn og fann þar gaddfreðinn barnabókahöfund. Við hliðina á líkinu lá poki með Gammel Dansk, öðru áfengi og matvöru. Og örlítið lengra í burtu fannst opin mjólkurferna. Það benti til þess að rithöfundurinn hefði reynt að safna kröftum og skríða í skjól. En loks hafði hann gefist upp og lagst til hvílu undir hvítri sæng.

Þegar sjúkrabíllinn kom sáu menn að maðurinn var tæknilega séð ekki dauður en líkamshitinn var kominn niður í 25–26 gráður. Þeir flýttu sér með hann á spítalann en það var of seint að bjarga honum. Ole Lund Kirkegaard var úrskurðaður látinn fyrir hádegi 24. mars 1979.

Ég vissi aldrei af því þegar Ole dó og sakleysi mitt með honum, því um leið og danski barnabókahöfundurinn drakk sinn síðasta sopa kyngdi ég mínum fyrsta sem leynigestur í partíi menntskælinga norður á Akureyri. Stuttu seinna heimsótti ég fyrrverandi bekkjarsystkini í Köben. Mér fannst þau barnaleg og ABBA-böllin hallærisleg. Fúsi froskagleypir var löngu farinn ofan í kassa, en gekk aftur sem Jón Rotni í Sex Pistols stuttu síðar. Eftir á að hyggja gaf Ole mér æði margt, því hann læddi þeirri hugmynd að mér að listamaður megi ekki festa sig við neinn isma og verði ávallt að fara sínar eigin leiðir, efast um allt sem er. Ekki síst sjálfan sig og síðustu bók.

Ole Lund Kirkegaard kláraði aldrei bókina um Fróða og hina grislingana. Að lokum voru það Anne Lise og Leifur mágur hans sem skrifuðu lokakaflann og bjuggu söguna til útgáfu. Aftarlega í Fróða má samt sem áður finna síðustu orðin sem vitað er með vissu að Ole skrifaði:

„Flestar manneskjur eru orðnar kolruglaðar nútildags.“

 

 

***

 

Bækur eftir Ole Lund Kirkegaard

 • Virgill litli (da. Lille Virgil), 1967. Iðunn 1982 og JPV 2004, þýðandi Þorvaldur Kristinsson.
 • Albert, 1968. Iðunn 1979 og JPV 2012, þýðandi Þorvaldur Kristinsson.
 • Fúsi froskagleypir (da. Orla Frøsnapper), 1969. Iðunn 1973 og JPV 2003, þýðandi Anna Valdimarsdóttir.
 • Hodja og töfrateppið (da. Hodja fra Pjort), 1970. Iðunn 1980, þýðandi Þorvaldur Kristinsson.
 • Ottó nashyrningur (da. Otto er et næsehorn), 1972 . Iðunn 1981, þýðandi Valdís Óskarsdóttir Íslensk leikgerð eftir Hörð Sigurðarson var leikin hjá Leikfélagi Kópvogs 1992.
 • Gúmmí-Tarsan (da. Gummi-Tarzan), 1975. Iðunn 1978 og 1984 og JPV 2002, þýðandi Þuríður Baxter.
 • Kikkebakke Boligby (handrit að jóladagatali), 1977.
 • Flóðhestur á heimilinu (da. En flodhest i huset), 1978. Iðunn 1986, þýðandi Þórgunnur Skúladóttir.
 • Fróði – og allir hinir gríslingarnir (da. Frode og alle de andre rødder), 1979, Iðunn 1983, þýðandi Þorvaldur Kristinsson.
 • Pési grallaraspói og Mangi vinur hans (da. Per og bette Mads), 1981. Iðunn 1984, þýðandi Þorvaldur Kristinsson. Ég, afi og Jóla-Stubbur (da. Mig og Bedstefar – og så Nisse Pok), 1982. Iðunn 1987, þýðandi Þórgunnur Skúladóttir.
 • Kalli kúluhattur (da. Tippe Tophat og andre fortællinger), 1982. Iðunn 1985, þýðandi Þórgunnur Skúladóttir.
 • Anton og Arnaldur flytja í bæinn (da. Anton og Arnold flytter til byen) 1988, þýðandi Þórgunnur Skúladóttir.
 • Anton og Arnaldur í vilta vestrinu (da. Anton og Arnold i det vilde vesten) 1988, þýðandi Þórgunnur Skúladóttir.
 • Frække Friderik, 2008

Heimildir

Jens Andersen: Ole Lund Kirkegaard – En livshistorie.